Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Hávaði í námsumhverfi barna - Bréf

Umboðsmaður barna hefur sent bréf til menntamálaráðherra þar sem hann lýsir áhyggjum sínum af hljóðvist í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum og afleiðingum hávaða fyrir nám, málþroska og heilsu barna. Umboðsmaður barna gerir kröfu um að börnum verði tryggð í lögum a.m.k. sama vernd og fullorðnum og að sambærileg úrræði verði til staðar til að láta kanna og bæta hljóðvist á vinnustöðum þeirra. Þá er mikilvægt að mælingar séu miðaðar við börn og taki sérstakt tillit til heyrnar og hljóðnæmni barna sem og þeirrar starfssemi sem fram á að fara í leik- og grunnskólum. Bréfið er svohljóðandi:

Mennta- og menningarmálaráðuneytið
b.t. Katrínar Jakobsdóttur
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík, 21. desember 2012

Efni: Hávaði í námsumhverfi barna

Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af hljóðvist í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum og afleiðingum hávaða fyrir nám, málþroska og heilsu barna. Víða í lögum og reglugerðum er fjallað um hljóðvist í skólahúsnæði og ljóst er að húsnæði og aðbúnaður í skólum þarf að vera þannig úr garði gerður að hægt sé að ná markmiðum laga um grunnskóla og leikskóla sem og aðalnámskráa. Þó virðist í mörgum tilvikum vanta mikið upp á að börnum sé tryggð sambærileg vernd fyrir hávaða og fullorðnir njóta á sínum vinnustöðum. Málið er flókið og snýr í raun bæði að ráðuneyti menntamála og umhverfismála.

Í október var haldin tveggja daga ráðstefna um skaðsemi hávaða í námsumhverfi barna þar sem ýmislegt áhugavert kom í ljós. Sem dæmi má nefna að hávaði í skólum fer oft yfir 85 dB sem eru viðmiðunarmörk fyrir fullorðna til að nota heyrnarhlífar við vinnu. Velta má fyrir sér hvernig nám á að fara fram í slíkum aðstæðum. Einnig þarf að huga að því að eyru barna eru viðkvæmari en fullorðinna og þarf því minna til þess að skaða heyrn þeirra. Í meðfylgjandi ljósriti úr síðasta tölublaði Skólavörðunnar er fjallað um ráðstefnuna en dagskrá og upptökur af öllum erindum má finna á www.rodd.is. Umboðsmaður barna var einn þeirra sem stóð að þessari ráðstefnu en í erindi hans var farið yfir helstu lög og reglur sem gilda um þetta svið.

Umboðsmaður hefur áður vakið athygli ráðuneytisins á mikilvægi þess að hljóðvist sé í samræmi við þarfir barna í leik- og grunnskólum. Samkvæmt athugun umboðsmanns barna virðast heilbrigðiseftirlitum landsins berast mjög fáar ábendingar eða beiðnir um hávaðamælingar og lítið er um að heilbrigðiseftirlitin hafi frumkvæði að hávaðamælingum í skólum. Þá má velta fyrir sér hvernig mælingarnar eru framkvæmdar, s.s. hversu lengi mælt er og í hvaða hæð mælir er staðsettur. Umboðsmaður barna gerir kröfu um að börnum verði tryggð í lögum a.m.k. sama vernd og fullorðnum og að sambærileg úrræði verði til staðar  til að láta kanna og bæta hljóðvist á vinnustöðum þeirra. Þá er mikilvægt að mælingar séu miðaðar við börn og taki sérstakt tillit til heyrnar og hljóðnæmni barna sem og þeirrar  starfssemi sem fram á að fara í leik- og grunnskólum. Mikilvægt er að í skólum sé miðað við þau skilyrði sem þarf til þess að börn geti tileinkað sér námið. Ekki er nóg að miða við þau mörk hávaða sem beinlínis skemma heyrn.

Hávaði hefur ekki einungis áhrif á heyrn og nám. Þekkt er að hávaði veldur streitu og getur haft aðrar neikvæðar afleiðingar á andlega og líkamlega líðan barna. Til að meta áhrif hávaða á nám og líðan barna í skólum telur umboðsmaður mikilvægt að við reglulegar kannanir á líðan barna í skólum sé spurt sérstaklega út í hljóðvist og vinnuaðstæður barna. Ennfremur telur umboðsmaður mikilvægt að börn séu spurð reglulega um aðbúnað á vinnustað þeirra og að þeim sé gert kleift að kvarta yfir aðbúnaði í skólanum eftir ákveðnum og einföldum leiðum. Börn eru sjálf sérfræðingarnir í eigin lífi og því er mikilvægt að nýta einstaka sýn barnanna og þá þekkingu sem þau búa yfir. Það er í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans og nýja menntastefnu en ein af fimm grunnstoðum hennar er lýðræði og mannréttindi.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að foreldrar og foreldrafélög séu upplýst um stöðu mála í sínum skólum hvað varðar hljóðvist. Það er forsenda fyrir því að foreldrar geti veitt aðhald. Til dæmis væri hægt að birta upplýsingar um úttektir og niðurstöður hávaðamælinga heilbrigðiseftirlits á vefsíðum skólanna, í fréttabréfum eða hengja þær upp á vegg í leikskólum. Mikilvægt er að allir viti að almenningur getur óskað eftir mælingu á hávaða hjá heilbrigðiseftirliti viðkomandi svæðis. Í haust sendi umboðsmaður bréf til foreldrafélaga allra leik- og grunnskóla landsins þar sem fjallað var um aðbúnað í skólum, m.a. mikilvægi hljóðvistar, hvaða reglur gilda um málaflokkinn og hver hefur eftirlit með honum. Skólastjórar fengu einnig bréf til kynningar á málinu. Þetta taldi umboðsmaður mikilvægt þar sem svo virðist sem foreldrar séu almennt lítið meðvitaðir um hávaða í námsumhverfi barna sinna.

Að lokum vill umboðsmaður taka fram að hann telur brýnt að settar verði reglur eða viðmið um hámarksfjölda barna sem einn kennari eða leiðbeinandi má bera ábyrgð á í leik- og grunnskólum. Fjöldi barna í hóp eða bekk hefur mjög mikið að segja þegar kemur að hávaða í námsumhverfi barna. Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna og fagfólk í leik- og grunnskólum hafa bent umboðsmanni á mikilvægi þess að setja mörk við barnafjölda í hóp enda virðist niðurskurður síðustu ára hafa haft þau áhrif að barnahópar og bekkir virðast fara stækkandi.

Ofangreind sjónarmið eiga einnig við um lengda viðveru barna í grunnskóla en eins og ráðherra mun vera kunnugt um telur umboðsmaður brýnt að settar verði reglur eða viðmið um það mikilvæga starf.

Umboðsmaður barna vonar að ráðuneytið taki efni þessa bréfs til skoðunar í samræmi við það sem er börnum þessa lands fyrir bestu.
Virðingarfyllst,

_______________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna 

 

 

Viðbót í september 2013

Mennta- og menningarmálaráðuneytið svaraði bréfi umboðsmanns í september 2013. Í svarbréfinu segir að ráðuneytið telji að í gildandi lögum sé ekkert sem hamli því að hljóðvist í námsumhverfi sé könnuð á sambærilega hátt og fyrir fullorðna.

Opna bréf frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um hávaða í námsumhverfi barna, dags. 16. september 2013.