Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Túlkun menntamálaráðuneytisins á orðalaginu "að vera undir áhrifum vímuefna á skólatíma"

Mennta- og menningarmálaráðuneyti barst fyrirspurn um túlkun á ákvæði 4. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1040/2011, um ábyrgð og skyldur skólasamfélagsins í grunnskólum.  Ákvæðið er svo hljóðandi: „Skólastjóri getur synjað nemanda um að sækja skóla tímabundið þegar rökstuddur grunur leikur á að hann sé undir áhrifum vímuefna á skólatíma og/eða stuðlar að dreifingu slíkra efna meðal nemenda.  Heimilt er við slíkar aðstæður að höfðu samráði við foreldra að láta þar til bæra aðila meta reglulega ástand viðkomandi nemanda og meina honum að sækja skóla þar til fyrir liggur að hann sé ekki lengur undir áhrifum vímuefna.“

Spurt var hvernig túlka eigi orðin að vera  „undir áhrifum vímuefna á skólatíma“. Hvort það sé ef viðkomandi nemandi mælist með kannabisefni í þvagi eða hvort þurfi að vera augljóst af útliti hans og framkomu að hann sé undir áhrifum einhverra.

Ráðuneytið túlkar ákvæðið þannig að miða skuli við að ljóst sé af útliti eða framkomu að nemandinn sé undir áhrifum vímuefna. Ef miða ætti við mælingu efnis í þvagi þá tekur niðurbrot kannabisefna allt að heilum mánuði og þykir það ekki vera í þágu nemenda að víkja honum úr skóla í svo langan tíma eftir að sjáanleg áhrif eru með öllu horfin.

Sjá nánar í frétt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 12.12.2011: Túlkun á ákvæðum reglugerðar um ábyrgð og skyldur skólasamfélagsins í grunnskólum.