Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málefni barna sem hafa skertan málþroska vegna heyrnarleysis eða heyrnarskerðingar - Bréf

Ráðgjöf og þjónusta við foreldra barna og börn sem hafa skertan málþroska vegna heyrnarleysis eða heyrnarskerðingar er mismunandi eftir sveitarfélögum og gæði og magn þjónustu veltur að miklu leyti á getu og vilja foreldra til að berjast fyrir réttindum barna sinna. Umboðsmaður barna hefur sent menntamálaráðherra bréf þar sem hann vekur athygli á mikilvægi þess að þessi börn og foreldrar þeirra hafi greiðan aðgang að ráðgjöf og þjónustu táknmálsfræðinga og annarra sérfræðinga á þessu sviði.

Bréfið er svohljóðandi:

Menntamálaráðherra
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík, 1. nóvember 2011
UB: 1111/6.0

Efni: Málefni barna sem hafa skertan málþroska vegna heyrnarleysis eða heyrnarskerðingar.

Með þessu bréfi vill umboðsmaður barna vekja athygli ráðherra á málefnum barna sem eru heyrnarlaus eða alvarlega heyrnarskert. Umboðsmanni hafa borist ábendingar um að ráðgjöf og þjónusta við þessi börn sé mismunandi eftir sveitarfélögum og að gæði og magn þjónustu velti að miklu leyti á getu og vilja foreldra til að berjast fyrir réttindum barna sinna.

Að sögn sérfræðinga er afleiðing þessa að til eru börn sem eru málvana, þ.e. þau eiga sér ekkert móðurmál sem er nothæft til eðlilegra tjáskipta. Það þarf ekki að fjölyrða um að börn sem eiga sér ekki móðurmál hafa ekki sömu möguleika og önnur börn á því að móta sterka sjálfsmynd, tileinka sér félagsfærni, samkennd og öðlast menntun. Framtíðarmöguleikar þeirra er því verulega takmarkaðir. Þetta á að einhverju leyti einnig við um börn foreldra sem eru heyrnarlausir eða alvarlega heyrnarskertir enda hafa þau börn oft skertan málþroska.

Máltaka fer fram á heimilum og því telur umboðsmaður brýnt að allir foreldrar umræddra barna fái handleiðslu og þjálfun fagfólks frá upphafi. Þá er mikilvægt að leik- og grunnskólar hafi greiðan aðgang að ráðgjöf og þjónustu táknmálsfræðinga og annarra sérfræðinga á þessu sviði þannig að öll börn sitji við sama borð. Þessi þjónusta við skóla og foreldra þarf að vera þverfagleg og miðast að þörfum, þroska og aðstæðum hvers einasta barns. Umboðsmaður barna telur einnig brýnt að skólarnir átti sig á því að þeir bera ábyrgð á að öllu námsefni sé miðlað til umræddra barna eins og annarra á máli sem er þeim aðgengilegt og að kennsla í íslensku og íslensku táknmáli eigi að hafa sama vægi ef börnin eiga að ná virku tvítyngi. Auk þess þarf skólinn að sjá börnunum fyrir félagslegu málumhverfi sem er þeim aðgengilegt.

Umboðsmaður barna vonar að hægt sé að tryggja þessum litla hópi barna þá þjónustu sem velferð þeirra krefst óháð búsetu eða félagslegum aðstæðum fjölskyldna þeirra.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna