Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Bólusetningar stúlkna gegn leghálskrabbameinsvaldandi veiru

Umboðsmaður barna hefur sent Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra bréf vegna fyrirhugaðra bólusetninga gegn HPV leghálskrabbameinsvaldandi veiru hjá stúlkum. Í bréfinu leggur umboðsmaður til að fyrstu árin eftir að almenn bólusetning gegn leghálskrabbameins­valdandi HPV veiru hefst verði öllum stúlkum undir 18 ára aldri boðið upp á möguleika á ókeypis bólusetningu ef þær óska eftir því. Þá bendir hann á mikilvægi þess að viðeigandi stofnunum og almenningi séu veittar greinargóðar upplýsingar um aukaverkanir bóluefnisins, framleiðanda þess og annað sem mikilvægt er að vita til að geta tekið upplýsta ákvörðun um bólusetningu.

Bréf umboðsmanns barna eru birt hér í heild:

Velferðarráðherra
Guðbjartur Hannesson
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
150 Reykjavík

Reykjavík, 5. júlí 2011
UB:1103/8.3.0

Efni: Bólusetningar stúlkna gegn leghálskrabbameinsvaldandi veiru

Nú stendur til að taka upp almenna bólusetningu gegn leghálskrabbameinsvaldandi HPV veiru hjá stúlkum við 12 ára aldur.

Umboðsmaður barna telur jákvætt að til standi að auka vernd stúlkna gegn leghálskrabbameini síðar á ævinni. Með þessu bréfi vill umboðsmaður koma á framfæri áhyggjum af því að þegar almennar bólusetningar hefjast verði stúlkum á aldrinum 13 til 17 ára ekki boðið upp á sambærilegar bólusetningar endurgjaldslaust. Samkvæmt upplýsingum frá landlækni er miðað við 12 ára aldurinn vegna þess að nauðsynlegt er að bólusetja stúlkurnar áður en þær byrja að stunda kynlíf. Á hverjum tíma má gera ráð fyrir að stór hluti stúlkna á aldrinum 13 til 17 ára sé ekki farinn að stunda kynlíf og því hafa þessar stúlkur sama gagn af bólusetningu og þær sem yngri eru. Umboðsmaður barna telur því ekki réttlætanlegt að mismuna stúlkum með þessum hætti, þar sem um er að ræða vernd gegn sjúkdómum.

Umboðsmaður barna leggur til að fyrstu árin eftir að almenn bólusetning gegn leghálskrabbameins­valdandi HPV veiru hefst verði öllum stúlkum undir 18 ára aldri boðið upp á möguleika á ókeypis bólusetningu ef þær óska eftir því. Ef þegar hefur verið gert ráð fyrir að bjóða upp á þennan möguleika vill umboðsmaður lýsa ánægju sinni yfir því.

Með þessu bréfi vill umboðsmaður einnig benda á mikilvægi þess að viðeigandi stofnunum og almenningi séu veittar greinargóðar upplýsingar um aukaverkanir bóluefnisins, framleiðanda þess og annað sem mikilvægt er að vita til að geta tekið upplýsta ákvörðun um bólusetningu. Heilbrigðisstarfsfólk, foreldrar og þær stúlkur sem boðið er upp á bólusetningu eiga rétt á að fá að vita allt sem skiptir máli varðandi gagnsemi og hugsanlega skaðsemi bóluefnisins.

Virðingarfyllst,
 
__________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna