Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Jöfnunarstyrkur - Bréf til menntamálaráðherra

Umboðsmaður barna sendi hinn 8. desember bréf til menntamálaráherra til að benda á mismunun á grundvelli ríkisfangs við úthlutun jöfnunarstyrks. Bréfið er svohljóðandi:

Katrín Jakobsdóttir

Mennta- og menningarmálaráðherra

Sölvhólsgötu 4

150 Reykjavík

 

 

Reykjavík, 8. desember 2010

 

 

Efni: Fræðsluskylda og jafnrétti til náms

Í 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að öllum skuli tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Með almennri menntun er átt við aðra menntun en sérnám og fellur því bæði nám í grunnskóla og framhaldsskóla þar undir. Nánar er fjallað um inntak þeirrar menntunar sem ríkinu ber að veita í  28. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en þar kemur m.a. fram að aðildarríki skuli gera skal ráðstafanir til að veita ókeypis framhaldsmenntun og bjóða fjárhagslega aðstoð þeim sem hana þurfa. Meginreglan er því sú að framhaldsskóla­menntun eigi að vera ókeypis og standa öllum til boða, án mismununar af nokkru tagi.

 

Í 32. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 kemur fram að allir eigi rétt á að stunda nám við framhaldsskóla fram að 18 ára aldri. Í samræmi við 28. gr. Barnasáttmálans er mikilvægt að tryggja að börn geti nýtt þennan rétt sinn án þess að því fylgi verulegur kostnaður. Til að koma til móts við þá nemendur sem eiga lögheimili fjarri framhaldsskóla veitir ríkið jöfnunarstyrk. Hins vegar eiga aðeins börn sem eru íslenskir ríkisborgarar, ríkisborgarar ríkja innan Evrópska efnahagssvæðinu og ríkisborgarar þeirra ríkja sem íslenska ríkið hefur gert þjóðarréttarsamning við kost á slíkum styrk. Er því ljóst að lítill hópur nemenda sem koma ekki frá ofangreindum ríkjum geta ekki sótt um jöfnunarstyrk, jafnvel þó að þeir hafi búið á Íslandi í mörg ár og sótt hér grunnskólanám. Reglur um úthlutun jöfnunarstyrks fela því í sér mismunun á grundvelli ríkisfangs sem brýtur í bága við 2. gr. Barnasáttmálans. Slíkt gengur einnig í berhögg við markmið ríkisins að draga úr brottfalli innflytjenda frá námi, eins og meðal annars var lögð áhersla á í síðustu lokaathugasemdum nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins um framkvæmd Barnasáttmálans á Íslandi. Umboðsmaður barna hvetur menntamálaráðherra til að bregðast við þessari mismunun og stuðla að því að öllum nemendum sem útskrifast úr grunnskóla hér á landi og eiga lögheimili fjarri framhaldsskóla jöfnunarstyrk, óháð ríkisfangi.

 

 

Virðingarfyllst,

 

_________________________________________

Margrét María Sigurðardóttir,

umboðsmaður barna.