Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Athugasemdir vegna sjónvarpsefnis

Í kjölfar ábendinga sem borist hafa embættinu vegna þátta Sveppa og Audda á Stöð 2 sendi umboðsmaður barna dagskrárstjóra Stöðvar 2 bréf þar sem umboðsmaður bendir á ábyrgð og skyldur þeirra sem sýna sjónvarpsefni sem ætlað er börnum og unglingum. Í bréfinu eru Sveppi og Auddi boðnir á fund til að ræða málin en í lok árs höfðu engin viðbrögð borist við bréfinu:

Bréf umboðsmanns barna

Stöð 2
Dagskrárstjóri
Skaftahlíð 24
105 Reykjavík

Reykjavík 18. nóvember 2010

Efni: Auddi og Sveppi

Umboðsmanni barna hafa borist athugasemdir vegna þáttarins Auddi og Sveppi sem sýndur var 5. nóvember sl. en í þættinum heimsótti Auddi leikskóla þar sem hann m.a. kúgaðist yfir bleyjuskiptum og sýndi kynfæri og hægðir barns. Þó að bleyjuskipti séu eðlilegur hluti af leikskólastarfi verður að teljast að barninu hafi ekki verið sýnd sú virðing sem það á rétt á. Börn eru fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi og því er mikilvægt að sýna þeim að minnsta kosti jafnmikla virðingu og öðrum og bjóða þeim ekki upp á háttsemi sem við teljum ekki samboðna fullorðnum.

Umboðsmaður barna hefur margoft fengið athugasemdir vegna umræddra þáttastjórnenda á síðustu árum, bæði vegna ofangreinds þáttar og annarra þátta sem þeir hafa stjórnað, s.s. Strákanna og Ameríska draumsins. Þá hafa ábendingar einnig borist vegna barnatíma Sveppa. Þeir sem hafa samband eru helst að benda á atriði þar sem þeir telja þáttastjórnendur fara langt út fyrir mörk siðferðis auk þess sem bent hefur verið á vanvirðandi eða hættulega hegðun þáttastjórnenda sem börn apa eftir, oft með alvarlegum afleiðingum fyrir þau sjálf eða önnur börn. Umboðsmaður hefur nokkrum sinnum haft samband við dagskrárstjóra og komið athugasemdum sínum á framfæri en þar sem það virðist hafa dugað skammt vill umboðsmaður koma eftirfarandi ábendingum á framfæri skriflega.

Umboðsmaður fagnar því að sjónvarpsstöðvar sýni innlent dagsskrárefni sem sérstaklega er ætlað börnum og unglingum en minnir í því sambandi á 17. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem segir m.a:

Aðildarríki viðurkenna mikilvægi fjölmiðla, og skulu þau sjá um að barn eigi aðgang að upplýsingum og efni af ýmsum uppruna frá eigin landi og erlendis frá, einkum því sem ætlað er að stuðla að félagslegri, andlegri og siðferðislegri velferð þess, og líkamlegu og geðrænu heilbrigði.

Í samræmi við þetta ákvæði kemur m.a. fram í 14. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 að sjónvarpsstöðvum er óheimilt að senda út dagskrárefni, þar á meðal auglýsingar, sem gæti haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna.

Ríkar skyldur hvíla því á þeim sem sýna sjónvarpsefni sem ætlað er börnum og unglingum. Sérstaklega er ábyrgðin mikil þegar einn og sami maðurinn er með skemmtiþátt ætlaðan unglingum snemma á föstudagskvöldum, sem ung börn horfa í miklum mæli á, og mætir svo morguninn eftir í barnatímann. Það er mikilvægt að Stöð 2 átti sig á mismunandi hlutverki sínu varðandi þessa tvo þætti og þeim kröfum sem sjónvarpsstöðin verður að gera til vandaðra efnistaka í hvorum þætti fyrir sig.

Það er að sjálfsögðu gott fyrir alla að hlæja og gera að gamni sínu en það er óásættanlegt þegar skemmtiefni særir siðferðiskennd barna eða bitnar beint á þeim. Vegna þroska- og reynsluleysis barna hefur sjónvarpsefni almennt mikil og mótandi áhrif á þau. Hafa ber í huga að aðstæður barna eru mjög mismunandi og ekki eru allir foreldrar í stakk búnir til að veita börnum sínum viðeigandi leiðsögn. Það er ekki í lagi að skemmtiefni gangi út á það að gera grín að fólki eða niðurlægja það vegna útlits þess, uppruna, stöðu eða annarra einkenna. Slíkt efni getur haft skaðleg áhrif á siðferðisþroska og viðhorf barna til minnihlutahópa og getur jafnvel talist brot á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 en þar segir í 233. gr. a:

Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Mikilvægt er að vinna gegn fordómum og er sjónvarpið tilvalinn miðill til að stuðla að jákvæðum viðhorfum og virðingu fyrir fjölbreytileika samfélagsins. Umboðsmaður barna telur að Auddi og Sveppi geti vel tekið þá áskorun að vera fyndnir og skemmtilegir á þann máta sem sæmir mönnum í þeirra stöðu sem fyrirmyndir barna og unglinga.

Til þess að skýra þetta mál nánar og fá að heyra hlið ykkar hjá Stöð 2 vill umboðsmaður gjarnan fá fund með Audda, Sveppa og dagskrárstjóra stöðvarinnar eins fljótt og auðið er. Vinsamlegast hafið samband í síma 552 8999 til að bóka fundinn.

Kær kveðja,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna.