Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Börn og mótmæli

Í ljósi þeirra mótmæla sem nú eiga sér stað í samfélaginu vill umboðsmaður barna minna á að börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarf á sérstakri vernd að halda. Foreldrar bera meginábyrgð á velferð barna sinna og hafa ákveðið svigrúm til þess að ráða högum þeirra. Foreldrum ber þó ávallt að tryggja að hagsmunum barna sé ekki stefnt í voða og vernda þau fyrir hættulegum aðstæðum.

Þegar metið er hvort rétt sé að börn séu höfð með í mótmælum þarf að huga að aðstæðum hverju sinni sem og aldri, þroska og vilja barnsins. Ávallt þarf að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi og gæta þess að velferð þeirra sé tryggð.

Umboðsmaður barna telur því almennt ekki rétt að börn séu höfð með í mótmælum eins og þau fóru fram í gær, 4. október. Þó að það sé brýnt að þjálfa börn í lýðræðislegri þátttöku voru aðstæður þetta kvöld ekki við hæfi barna.

Fyrir foreldra og aðra sem hyggjast taka börn með til að mótmæla vill umboðsmaður koma eftirfarandi ábendingum á framfæri:

  • Réttur barna til verndar á að ganga framar rétti foreldra þeirra til að taka þátt í mótmælum.
  • Aldrei ber að nota börn til þess að koma skoðunum annarra á framfæri. Þau eiga rétt á sínum eigin skoðunum og að tjá þær frjálslega.
  • Mikilvægt er að valda börnum ekki óþarfa áhyggjum og streitu. Reynum að hlífa börnum fyrir ringulreið, reiði og vonleysi.
  • Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Skemmdarverk og ofbeldi eru ekki réttlætanleg og ekki vænleg leið til að kenna börnum góð samskipti.
  • Eyru barna eru viðkvæmari fyrir heyrnarskemmdum af völdum hávaða en hinna fullorðnu.
  • Ómögulegt er að vita hvenær friðsamleg mótmæli breytast í hættulegar aðstæður, sérstaklega þar sem eldar loga og verið er að henda hlutum.
  • Þó að útlitið sé svart bætir það lítið fyrir börn að horfa upp á reiði og skemmdarverk í návígi. Það er á ábyrgð hinna fullorðnu að skapa börnum öryggi og trú á framtíðina.
  • Æskilegt er að foreldrar ræði við börn um það sem er að gerast á yfirvegaðan hátt. Börn eiga rétt á upplýsingum um ástand mála, t.d. frá fjölmiðlum ef það hentar aldri þeirra og þroska.

Sú staða getur að sjálfsögðu komið upp að eldri börn vilji sjálf mótmæla. Í því sambandi vill umboðsmaður barna minna á mikilvægi þess að veita börnum tækifæri til að láta skoðanir sínar frjálslega í ljós og að tekið sé réttmætt tillit til þeirra í samræmi við aldur og þroska sbr. 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Auk þess njóta börn sama tjáningarfrelsis og fullorðnir. Meginreglan er því sú að börn eiga að fá tækifæri til þess að tjá sig um öll málefni sem þau varða og eiga rétt á því að hafa áhrif á ákvarðanir í samfélaginu. Eftir því sem börn verða eldri og þroskaðri ber að veita þeim aukinn sjálfsákvörðunarrétt, m.a. varðandi þátttöku í mótmælum og pólitísku starfi. Foreldrum ber þó ávallt að tryggja börnum sínum nauðsynlega vernd.

Þann 10. október 2008 sendu ýmsir opinberir aðilar tilkynningu í tengslum við bankahrunið sem gott er að hafa í huga í þessu sambandi.