Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Skref í rétta átt í eineltismálum

Einelti er samfélagsmein sem margir hafa áhyggjur af. Umræðan um eineltismál í samfélaginu verður sífellt opnari og fleiri einstaklingar, stofnanir og samtök eru farin að huga að eineltismálum og aðferðum til að vinna bug á þessu meini sem erfitt er að meðhöndla.

Í bókinni Hvernig er að vera barn á Íslandi? sem umboðsmaður barna gaf út í nóvember 2009 segja leik- og grunnskólabörn frá reynslu sinni, skoðunum og tjá sig í máli og myndum um það hvernig er að vera barn á Íslandi. Einelti og vinaleysi er eitt af því sem börnin hafa hvað mestar áhyggjur af og benda mörg hver á mikilvægi þess að tekið sé á þessum málum af festu. Í könnun umboðsmanns barna um líðan barna í skólanum og heima sem framkvæmd var fyrr á þessu ári voru lagðar nokkrar spurningar varðandi framkomu samnemenda, baktal, ofbeldi og særandi ummæli. Einnig voru nemendur spurðir hvort þeir upplifðu sig örugga í skólastofunni annars vegar og á skólalóðinni hins vegar. Niðurstöður könnunarinnar staðfesta það að einelti og annars konar ofbeldi fær að þrífast í skólanum, þ.e. á þeim vinnustað sem börnum er ætlað að sækja í 170 daga á ári. Því er mikilvægt að allir skólar sinni þeirri skyldu sinni að hafa eineltisáætlun sem er bæði virk og vel kynnt starfsfólki, nemendum og foreldrum. Í vetur ætlar umboðsmaður barna að leggja áherslu á mikilvægi vináttu og góðra samskipta í samfélagi barna.

Umboðsmaður barna fagnar allri vandaðri umræðu um eineltismál og þeim aðgerðum sem ýmsir aðilar hafa staðið að til að skilja einelti betur, draga úr því og aðstoða þá sem þurfa. Sem dæmi um góða hluti sem eru að gerast núna má nefna eftirfarandi:
  • Nýlega auglýsti Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni ásamt Styrktarsjóði Margaret og Bent Scheving Thorsteinssonar styrki til MA-nema í lögfræði, félagsráðgjöf og á Menntavísindasviði til að vinna að rannsóknarverkefni um einelti gegn börnum. Rannsókninni er ætlað að samræma og efla sérfræðiþekkingu á einelti og gefa heildstæðari mynd af raunverulegri stöðu eineltismála í samfélaginu. 
  •  Starfshópur um aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum hefur nú starfað í u.þ.b. eitt ár á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, félags- og tryggingamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins. Í nýlegri skýrslu starfshópsins er greint frá 30 tillögum að samhæfðum aðgerðum gegn einelti. Meðal þess sem starfshópurinn leggur til er að sérstakur dagur verði árlega helgaður baráttunni gegn einelti og kynferðislegri áreitni. Þá er einnig lagt til að komið verði á fót fagráði sem almennir vinnustaðir, skólar eða foreldrar geti leitað til þegar koma upp erfið og illleysanleg eineltismál. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að styðja sérstaklega við þessi tvö verkefni með því að veita 9 m.kr. af ráðstöfunarfé sínu. 
  • Olweusarverkefnið Gegn einelti og Menntasvið Reykjavíkurkurborgar gengu nú í sumar frá tímamótasamningi um rekstur verkefnisins árið 2010. Í því felst almenn umsjón og eftirlit með verkefninu í hverjum skóla og með eineltiskönnuninni í nóvember. Verkefnisstjórar í Olweusarverkefninu eru faglegir leiðbeinendur í hverjum skóla.
  •  Heimili og skóli – landssamtök foreldra hafa lengi unnið að eineltismálum og gefið foreldrum góð ráð varðandi einelti og samskipti við skóla. Síðasta haust stóðu samtökin að átaki til að vekja athygli á alvarleika eineltis með auglýsingum í ýmsum miðlum, útgáfu fræðsluheftis fyrir foreldra og veggspjalds fyrir börn og unglinga. 
  • Liðsmenn Jerico – landssamtök foreldra eineltisbarna og uppkominna þolenda voru stofnuð haustið 2008. Markmið samtakanna er að vekja athygli á afleiðingum eineltis ásamt því að vera athvarf fyrir þolendur og aðstandendur þeirra.  Samtökin eru vettvangur ráðgjafar, vinnum að fræðslu og miðlum þekkingu um málefni tengdum einelti. 
  • Náum áttum hópurinn ætlar að einbeita sér að eineltismálum fram að áramótum og hvetja foreldra til að beita sér fyrir bættum skólabrag, m.a. með því að bjóða sig fram í foreldrastarf skólans.
  • Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur hefur unnið talsvert í eineltismálum, m.a. með því að senda hvatningu til skólayfirvalda allra grunnskóla um að ræða eineltismál við nemendur. 
Í haust ætla Heimili og skóli, Liðsmenn Jerico, Olweusarverkefnið Gegn einelti, mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga að standa fyrir fræðslufundum um einelti víða um land.
 
Ábendingar um fleiri verkefni sem ætlað er að vinna gegn einelti í umhverfi barna eru vel þegnar.