Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Líðan barna - Skýrsla

Kápumynd af skýrslunni Liðan barna

 

Umboðsmaður barna hefur tekið saman skýrslu með niðurstöðum könnunar um líðan barna sem embættið lagði fyrir um 1350 nemendur 5. - 7. bekkja grunnskóla.

Opna skýrslu um líðan barna  (PDF)

 

Niðurstöður þessarar könnunar eru að mörgu leyti jákvæðar og af þeim má sjá að meirihluta barna líður vel. Í könnuninni sést að börn telja sig minna pirruð, finna minna fyrir þreytu á daginn, segjast sjaldnar vera með vöðvabólgu, bakverk og magaverk, segjast fá betri svefn, færri martraðir o.fl. en árið 2003. Allt eru þetta kvillar sem tengja má við streitu og má því draga af þessu þá ályktun að börnum líði almennt betur í dag en fyrir sjö árum.

Hugsanlega má tengja þessa góðu þróun því að umræða um uppeldismál, ábyrgð foreldra og velferðarmál barna er algengari nú en á árunum fyrir 2003. Einnig má velta því fyrir sér hvort aðgengi barna að heilbrigðisþjónustu sé betra nú en þá og aðgerðir til að jafna tækifæri barna til þátttöku í skipulögðu frístundastarfi séu farnar að skila sér. Hver sem ástæðan kann að vera er umboðsmaður barna ánægður með þessar niðurstöður þó að enn megi gera betur í framtíðinni. Það er ýmislegt í svörunum sem vekur áhuga umboðsmanns barna. Það er til dæmis sláandi hve margir upplifa sig óörugga í skólanum, bæði á skólalóðunum og í kennslustofunum. Um 15% nemenda upplifa sig aldrei eða sjaldan örugg í skólanum, sem þeim ber skylda að sækja í um 170 daga á ári, í 10 ár að meðaltali. Það veldur umboðsmanni barna verulegum áhyggjum. Öryggi á skólalóðum virðist vera ábótavant og það kemur hér berlega í ljós að börn vilja fá betra eftirlit í frímínútum. Að sjá kennara eða annað starfsfólk úti á skólalóðinni veitir þeim öryggi. Meirihluti nemenda upplifir öryggi í skólastofunni en það eru rúm 14% sem upplifa það ekki og um 11% segja að kennarinn geri stundum eða oft lítið úr einhverjum krakkanna. Þetta er áhyggjuefni þar sem skólastofan er aðalvinnustaður nemenda og þar þurfa þeir að eiga skjól þar sem vel er tekið á móti þeim og gagnkvæm virðing ríkir á milli kennara og nemenda.

Þegar spurt er um ofbeldi í skólum þá eru strákar líklegri til að segja að einhver hafi verið beittur ofbeldi í skólanum á meðan stelpur telja að fleiri séu skildir útundan. Stúlkum líður einnig verr vegna framkomu annarra krakka í þeirra garð. Þetta gefur vísbendingu um að stelpur upplifi meira andlegt ofbeldi meðan strákar upplifi líkamlegt ofbeldi. Útilokun úr jafningjahópnum er eitt birtingarform eineltis og hefur oft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þann sem er útilokaður. Að fá tækifæri til að mynda tengsl við jafnaldra sína er mikilvægt fyrir sjálfsmynd barna og unglinga. Þau læra þar samskipti og fá tækifæri til að samsama sig öðrum. Það að um 23% nemenda segi að einhver sé skilin(n) útundan í bekknum er mikið áhyggjuefni. Það vekur athygli umboðsmanns barna að um 17% stelpna á landsbyggðinni segja að einhver hafi verið skilin útundan í bekknum.

Í könnuninni kvörtuðu margir nemendur undan hávaða í kennslustofum, í matsal og á göngum. Maturinn var einnig mikið gagnrýndur og voru margir þeirra skoðunar að hann mætti taka til endurskoðunar, bjóða upp á fjölbreyttari fæðu og gæta betur að hreinlæti. Það er okkar fullorðna fólksins að taka tillit til þessara skoðana og taka þessum ábendingum fagnandi í leit okkar við að bæta nærumhverfi barnanna.

Börnum virðist almennt líða vel heima hjá sér. Þeim finnst langflestum notalegt að vera nálægt foreldrum sínum, eru glöð og hafa sterk tengsl við fjölskylduna sína. Mikill meirihluti nemenda, eða um 98%, telur foreldra sína passa vel upp á heimilið. Ennfremur segjast um 86% barna aldrei eða sjaldan hafa áhyggjur af vinnu foreldra sinna. Af þessu má álykta að langflestir foreldrar hugi vel að hag barna sinna og séu ekki að beina hugsanlegum áhyggjum sínum til þeirra. Nokkur hluti barna hugsar mikið um peningamál en það kann frekar að stafa af almennri umræðu í samfélaginu um fjármál en umræðu foreldra um fjárhag þeirra.

Þrátt fyrir að meirihluta nemenda líði almennt vel þá eru um 10 – 15% nemenda sem líður ekki vel, hvort sem spurt er um málefni skólans eða fjölskyldunnar. Þetta hlutfall er nokkuð gegnumgangandi í svörunum. Þetta þýðir að um 130-200 af börnunum sem tóku þátt í könnuninni líður ekki nægilega vel. Það eru alltof mörg börn að mati umboðsmanns barna. Hér að neðan eru nokkur dæmi um það sem veldur umboðsmanni áhyggjum:

·         12% nemenda segjast stundum eða oft sleppa einhverju skemmtilegu vegna þess að sér líði illa
·         15% nemenda segjast stundum eða oft finnast enginn vilja vera vinur sinn
·         17% nemenda segjast stundum eða oft vera einmana
·         8% nemenda segjast aldrei eða sjaldan finnast skemmtilegt að hitta hina krakkana
·         15% nemenda segjast stundum eða oft langa að rífast við einhvern
·         15% nemenda segjast aldrei eða sjaldan gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni
·         9% nemenda segja að foreldrar sínir rífist stundum eða oft
·         13% nemenda segjast aldrei eða sjaldan hlakka til einhvers

Mikilvægt er að ná til þessa hóps barna sem líður illa. Til þess að það takist þurfa foreldrar og fagfólk sem vinnur með börnum að hafa augun opin fyrir líðan barna og hafa góða samvinnu sín á milli til að tryggja að hvert einasta barn fái þjónustu og aðstoð í samræmi við það sem er því fyrir bestu.

Þessar niðurstöður eru mjög mikilvægar og nauðsynlegar fyrir umboðsmann barna til að fá betri innsýn inn í hag og líðan barna. Það er von hans að niðurstöðurnar geti einnig nýst öðrum sem vinna að því að bæta hag barna. Stefnt er að því að þessi könnun verði gerð með reglubundnum hætti hér eftir.

Skýrslan verður aðeins gefin út á netinu.