Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Ungmenni afhenda ríkisstjórninni bókina Hvernig er að vera barn á Íslandi?

Í dag er 20 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Af því tilefni hefur umboðsmaður barna gefið út bókina „Hvernig er að vera barn á Íslandi“. 

Meðlimir úr ungmennaráði umboðsmanns barna mættu á ríkisstjórnarfund í morgun kl. 9:30 og afhentu ríkisstjórninni fyrstu eintök af bókinni ásamt póstkortum sem henni fylgja.

Í bókinni er að finna teikningar og texta leik- og grunnskólabarna sem tóku þátt í verkefni umboðsmanns barna Hvernig er að vera barn á Íslandi? veturinn 2008 til 2009. Eitt af hlutverkum umboðsmanns barna er að vera talsmaður allra barna á Íslandi og ber honum að sjá til þess að tekið sé tillit til sjónarmiða barna á öllum sviðum samfélagsins. Með þessu riti vill umboðsmaður barna leyfa tjáningu barna að njóta sín og veita um leið almenningi aukna innsýn inn í heim þeirra. 

Bókin endurspeglar sýn barnanna á samfélagið, kosti þess og galla. Í verkunum segja börnin frá reynslu sinni, skoðunum og tjá sig almennt um það hvernig er að vera barn á Íslandi.

 

Ég vil að mamma og pabbi segi fyrirgefðu hvort við annað

Vinir og fjölskylda er fallegasta í heimi, þó að kreppan sé í gangi og við missum peninga. En það er eitt sem við missum aldrei, það er fjölskyldan og vini. Látum guð blessa okkur fyrir þetta tvennt!

Að vera barn, ég er góð og hjálpsöm og mér finnst gaman að leika mér.

Nennið þið að passa að engu barni líður illa?

Ég vil að þú vakir yfir einelti og rugluðu fólki.

Mér finnst gott að vera barn á Íslandi. Mér finnst Ísland mjög heppið af því að það er t.d. ekki stríð, flest börn eiga foreldra, við fáum föt, nóg af mat og umhyggju.

Góðir kennarar eiga að vera glaðir og þolinmóðir.

Af hverju er lífið dálítið leiðinlegt í skóla? HREKKJUSVÍNIN.

 

Það er von umboðsmanns barna að ráðamenn þjóðarinnar kynni sér innihald bókarinnar og að það verði til þess að þeir virði og taki aukið tillit til sjónarmiða barna í framtíðinni.

Afmæliskveðja frá umboðsmanni barna

Bok Hvernig Er Ad Vera Barn Kapa
Opna bókina Hvernig er að vera barn á Íslandi? (PDF)