Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Mega börn taka lán?

Vegna umræðu um lánveitingar Glitnis til barna frá eins árs aldri vill umboðsmaður barna árétta að lánveitingar til barna eru ekki heimilar nema að fengnu leyfi yfirlögráðanda (sýslumanns) og þá aðeins að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Mega börn skulda?
Það kemur skýrt fram í lögræðislögum nr. 71/1997 að ófjárráða börnum er óheimilt að stofna til skulda, sbr. 7. mgr. 75. gr.  Eins kemur fram í 76. gr. laganna að löggerningar ófjárráða barna, sem þau hafa ekki heimild til að gera, binda þau ekki.

Einstaklingum og lögaðilum er því óheimilt að beina kröfu að ófjárráða barni til innheimtu skulda og fyrirtæki og stofnanir mega ekki eiga viðskipti við ófjárráða einstakling, sem felur í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir hann, án samþykkis lögráðamanns. Það að fá samþykki lögráðamanns er ákveðin trygging fyrirtækisins fyrir greiðslu. Geri fyrirtækið hins vegar samning við ófjárráða barn, án samþykkis lögráðamanns, tekur það ákveðna áhættu af því að fá ekki greiðslu samkvæmt samningnum.

Hafa verður í huga að þótt meginreglur lögræðislaganna kveði á um að löggerningar ófjárráða bindi þá ekki eru viðurkenndar ákveðnar undantekningar frá þeim. Þá er jafnframt kveðið á um skilaskyldu, þ.e. hvor aðili um sig skal skila aftur þeim verðmætum sem hann hefur veitt viðtöku. Skal hinn ófjárráða greiða fégjald að því leyti sem verðmætin hafa orðið honum að notum. Þetta þarf alltaf að meta í hverju tilviki fyrir sig.

Samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 er því t.d. óheimilt að barn undir 18 ára fái yfirdráttarheimild í banka, taki annars konar lán eða fái kreditkort. Eins er óheimilt að beina hvers kyns innheimtu að börnum undir 18 ára aldri, s.s. vegna innheimtu gjalda fyrir tómstundaiðkun, skólavist í framhaldsskóla o.s.frv.  Slíkir reikningar skulu alltaf vera stílaðir á forráðmann, sem hefur með undirskrift sinni samþykkt að greiða fyrir viðkomandi þjónustu, enda er greiðsla slíkra gjalda liður í framfærslu barnsins.

Kaup og sala barna á eignum
Eins og fram kemur í lögræðislögum nr. 71/1997 er meginreglan sú að ófjárráða einstaklingur má ekki stofna til skulda og því er almennt óheimilt að beina innheimtu að ófjárráða barni.  Í 69. gr. laganna er þó að finna undanþágu frá þessari meginreglu:

69.gr. Kaup og sala á eignum o.fl.
1. Samþykki yfirlögráðanda þarf til þess að binda ófjárráða mann við kaup eða sölu fasteignar, loftfars, skráningarskylds skips eða skráningarskylds ökutækis, svo og atvinnufyrirtækis hans. Sama gildir ef ófjárráða manni eru afhentar slíkar eignir án þess að endurgjald komi fyrir. Eignir samkvæmt þessari málsgrein skulu eigi látnar af hendi, nema hinum ófjárráða sé auðsjáanlega hagur að því.
2. Samþykki yfirlögráðanda þarf til þess að leigusamningur um fasteign ófjárráða manns sé gildur ef leigusamningur er til lengri tíma en þriggja ára, nema kveðið sé á um rétt til uppsagnar með hæfilegum fyrirvara.
3. Samþykki yfirlögráðanda þarf einnig til allra ráðstafana varðandi fjárhald ófjárráða manns sem eru mikils háttar eða óvenjulegar, miðað við efni hins ófjárráða, svo sem kaup eða sölu á lausafé, ef um tiltölulega mikið verðmæti er að tefla, og til ráðningar forstjóra fyrir atvinnufyrirtæki ófjárráða manns.
4. Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um form og efni beiðna lögráðamanna um samþykki yfirlögráðenda samkvæmt þessari grein og um þau gögn sem beiðni skulu fylgja. 

Þar sem þetta er veigamikil undanþága á þeirri meginreglu laganna að ófjárráða börnum sé óheimilt að stofna til skulda óskaði embætti umboðsmanns barna eftir skýringum dómsmálaráðuneytisins (sem fer með túlkun lögræðislaganna) á ákveðnum álitaefnum er þetta varðar.  Óskað var skýringa á því hvaða réttaráhrif það hafi í för með sér þegar ófjárráða barn, einstaklingur yngri en 18 ára, fær heimild yfirlögráðanda (sýslumanns) til þess að kaupa/selja ökutæki eða fasteign.  Í svarbréfi frá dómsmálaráðuneytinu sem barst í apríl 2002 segir m.a.:

Skv. 1. mgr. 69. gr. lögræðislaga þarf samþykki yfirlögráðanda til þess að binda ófjárráða mann við kaup á skráningarskyldu ökutæki eða fasteign. Sama gildir ef ófjárráða er afhent slík eign án þess að endurgjald komi fyrir. Í greinargerð með 1. mgr. 69. gr. lögræðislaga segir: „þar sem margskonar skyldur hvíla á eigendum þeirra eigna sem tilgreindar eru í málsgreininni þykir rétt að yfirlögráðandi meti hvort hinn ófjárráða hafi hag af eignatilfærslunni og er því lagt til að samþykki hans þurfi til að koma þegar þannig hagar til."
Það er því ljóst að ekki er eingöngu verið að horfa til þess að hinn ófjárráða aðili geti staðið skil á því endurgjaldi sem fyrir ökutækið kemur heldur jafnframt til þess að þegar hinn ófjárráða aðili verður eigandi t.d. skráningarskylds ökutækis tekst hann á hendur ábyrgð á greiðslu þeirra lögboðnu gjalda sem krafist er af eiganda skráningarskylds ökutækis. Innheimtu lögboðinna gjalda verður því beint að hinum ófjárráða aðila, einnig þegar um er að ræða vanskil á lögboðnum gjöldum, nema hinn ófjárráða hafi sérstaklega verið undanþeginn greiðslu þeirra t.d. með yfirlýsingu lögráðamanns um að hann taki að sér greiðslu þessara gjalda fyrir hinn ófjárráða.

Eins og sést á ofangreindu verður innheimtu lögboðinna gjalda er hvíla á fasteign eða bifreið beint að ófjárráða barni, enda hafi sýslumaður samþykkt slíka eignatilfærslu. Ef eign er skráð á ófjárráða barn í veðmálabókum eða bifreiðaskrá má ætla að slíkt samþykki sýslumanns liggi fyrir.

Nánar um fjármál barna hér á síðu umboðsmanns barna.