Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Dagur barnsins 24. maí

Haldið verður upp á dag barnsins 24. maí næstkomandi í annað sinn á Íslandi en ríkisstjórn Íslands ákvað í fyrra að dagur barnsins skyldi haldinn hátíðlegur ár hvert. Markmiðið er að vekja sérstaka athygli á börnum í samfélaginu, leyfa röddum þeirra að hljóma, koma málefnum barna á framfæri og styrkja samveru barna og fullorðinna.

Í Reykjavík verður boðið upp á fjölskylduratleik við Menningarmiðstöðina í Gerðubergi á milli kl. 13 og 16 og auk þess verður sýningin „Hvernig er að vera barn á Íslandi“ opin öllum en hún er á 2. hæð í Gerðubergi.  Nánari upplýsingar um dagskrána  í Gerðubergi má sjá hér.  

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur sent öllum sveitarfélögum í landinu bréf þar sem hann vekur athygli á þessum viðburði og hvetur þau til að leggja sitt af mörkum til að dagur barnsins verði að sannkölluðum hátíðardegi barna, barnafjölskyldna og annarra sem bera hag þeirra fyrir brjósti. Kjörorð dagsins eru gleði og samvera. Í bréfi sínu bendir ráðherra á að jákvæð samvera barna og foreldra styrki börnin í að takast á við vandasöm verkefni daglegs lífs og gefi þeim tækifæri til að deila hugsunum sínum með fullorðnum í því öryggisleysi sem óhjákvæmilega fylgi breyttum tímum hér á landi.