Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Réttur barna til sérfræðiþjónustu í grunnskóla

Umboðsmanni barna hafa borist nokkur erindi vegna sérfræðiþjónustu við börn í grunnskóla þar sem vafi leikur á hvaða stjórnvöld beri ábyrgð á því að veita slíka þjónustu og hvert inntak slíkrar þjónustu skuli vera.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 eiga nemendur rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.  Nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðra, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir sbr. 2. mgr. 17. gr. grunnskólalaga. 

Þau erindi sem umboðsmanni barna hafa borist, þar sem gerðar eru athugasemdir við fyrirkomulag sérfræðiþjónustu við nemendur í grunnskóla, lúta annars vegar að hjálpartækjum sem nemendur þurfa vegna fötlunar sinnar og hins vegar að sérfræðiþjónustu sem á grundvelli sérstaks mats er talin nauðsynleg nemendum. Í ljósi þeirra fyrirspurna sem umboðsmanni  barna hafa borist hefur menntamálaráðuneytinu verið sent bréf þar sem óskað er álits m.a. á því hvaða stjórnvöld bera ábyrgð á því að tryggja börnum með fötlun  þau hjálpartæki sem þau þurfa til að getað stundað nám og hvort rekstraraðilar grunnskóla hafi ótakmarkaða heimild til að meta að hve miklu leyti þeir veita nemendum með sérþarfir stuðning.

Bréf umboðsmanns barna í heild sinni.  

Svar frá menntamálaráðuneytinu, dags. 13. maí, má lesa hér, síða 1, síða 2.