Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Norrænt hollustumerki

Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda fylgja nú eftir leiðbeiningum um aukna neytendavernd barna með tillögu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að hann ákveði að tekið verði upp valfrjálst hollustumerki að sænskri fyrirmynd eins og Danir og Norðmenn hafa nýverið gert.

Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, og umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir, hafa í framhaldi af gildistöku leiðbeininga um aukna neytendavernd barna um miðjan mars sent ráðherra matvælamála, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, tillögu um að ráðherra undirbúi í samráði við hagsmunaðila reglur sem kveði á um viðurkenningu hins sænska hollustumerkis, sem Danir og Norðmenn hafa nú einnig tekið upp, sem hollustumerkis sem heimilt sé að nota hérlendis að uppfylltum skilyrðum í hverjum matvælaflokki. Einnig er lagt til að tryggð verði nægileg fjárframlög til þeirra aðila sem eigi að standa að kynningu merkisins og þýðingu þess fyrir neytendur og aðra hagsmunaaðila.

Í ítarlegum röksemdum talsmanns neytenda og umboðsmanns barna fyrir tillögunni segir m.a.: „Kjarni þess að taka upp slíkt jákvætt, valfrjálst hollustumerki felst í því að þannig er hægt að leiðbeina með skjótum hætti í hraða hversdagsins þeim neytendum og foreldrum - leikum sem lærðum - sem vilja velja holl matvæli óháð þekkingu á næringarfræði eða tungumálum, óháð sjón o.s.frv. Þá er merkið þess eðlis að einfalt er að kenna börnum hvað felst í því.“

Er lagt til að undirbúningur hefjist nú þegar og að merkið öðlist viðurkenningu stjórnvalda ekki síðar en 1. janúar 2010.

              
  Sænska hollustumerkið