Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Dagur leikskólans 6. febrúar 2009

Dagur leikskólans – 6. febrúar er nú haldinn í annað sinn. Dagurinn er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, menntamálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Markmiðið með verkefninu er að beina sjónum að leikskólanum og því gróskumikla og mikilvæga starfi sem þar fer fram, hvetja til aukinnar umræðu um leikskólastarf og gera það sýnilegra.

Í fréttatilkynningu frá menntamálaráðuneytinu eru leikskólar, sveitarfélög og landsmenn allir hvattir til að huga að mikilvægi leikskólans. Þá beinir menntamálaráðherra því til  leikskóla, starfsfólks þeirra, leikskólabarna og foreldra þeirra að gera sér dagamun, séu tök á, í tilefni dagsins, svo hann megi festa sig í sessi og verða að skemmtilegri hefð í starfi leikskóla.

Í tilefni dags leikskólans á síðasta ári gaf menntamálaráðuneytið út ritið „Dagur leikskólans“ í samvinnu við samstarfsaðila og má nálgast það á rafrænu formi á heimasíðu ráðuneytisins. Leikskólar um allt land tóku virkan þátt í verkefninu og héldu upp á daginn á fjölbreyttan hátt.  Sem dæmi má nefna var gefið út veggspjald um hvernig börn læra í leikskólum, foreldrum var víða boðið í heimsókn í leikskóla til að fylgjast með leik og námi barna sinna og haldnar voru listasýningar á verkum leikskólabarna.

Dagur leikskólans er kærkomið tækifæri til að breiða út boðskap leikskólans og hvetja til jákvæðrar umræðu um leikskólastarf og mikilvægi þess fyrir hvern einstakling og skólakerfið í heild sinni.

Umboðsmaður barna óskar öllum börnum og starfsfólki leikskóla til hamingju með daginn.