Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

112 dagurinn - öryggi barna og ungmenna

Dagur neyðarnúmersins, 112-dagurinn, er haldinn um allt land í dag. Dagurinn er að þessu sinni tileinkaður börnum og ungmennum og verður lögð áhersla á að vekja athygli grunnskólabarna á því víðtæka öryggis- og velferðarneti sem þau hafa aðgang að í gegnum neyðarnúmerið ef eitthvað bjátar á. Þá er börnum jafnframt bent á að þau geta sjálf gert ýmislegt til að stuðla að eigin öryggi og annarra, meðal annars með þátttöku í starfi sjálfboðaliðasamtaka.

Fram kemur í fréttatilkynningu að mikilvægt sé að börn geri sér grein fyrir því víðtæka öryggis- og velferðarkerfi sem tengist neyðarnúmerinu. Jafnframt er ástæða til að hvetja börnin til að hika ekki við að hringja í 112 telji þau sig þurfa á aðstoð að halda. Markmið 112-dagsins er að kynna neyðarnúmerið og starfsemi aðilanna sem tengjast því, efla vitund almennings um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi. Samstarfsaðilar dagsins eru Neyðarlínan, Ríkislögreglustjórinn og lögreglan, Brunamálastofnun, slökkviliðin, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn, Landhelgisgæslan, Barnaverndarstofa, Landlæknisembættið, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Flugstoðir.