Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Góð mæting á opið hús hjá umboðsmanni barna

Í dag var opið hús hjá umboðsmanni barna þar sem gestir þáðu heitt súkkulaði og smákökur. Stór hópur barna frá leikskólanum Laufásborg sungu jólalög og nemendur úr 10. bekk Austurbæjarskóla fluttu frumsamin ljóð. Var þeim vel fagnað af gestum og kann umboðsmaður barna þeim bestu þakkir.

Í tilefni af opnu húsi var sett upp sýning með þeim kortum sem embættinu hafa borist í tengslum við verkefnið „Hvernig er að vera barn á Íslandi?“ Verkefnið sem hófst í haust tekur mið af 12. og 13. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og er tilgangur þess að gefa börnum tækifæri til að láta raddir sínar heyrast. Leitað var eftir samstarfi við leik- og grunnskóla sem væru tilbúnir til samstarfs við embætti umboðsmanns barna um þetta verkefni. Á þriðja tug grunnskóla hefur skráð sig til þátttöku og er von á þátttöku leikskóla eftir áramót. Þeir skólar sem taka þátt í verkefninu hafa fengið send póstkort sem ætluð eru fyrir nemendur til að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif. Rimaskóli er meðal grunnskóla sem taka þátt í verkefninu og hafa nemendur í 2. og 5. bekk skólans sent umboðsmanni barna tæplega 130 myndskreytt kort sem nú eru til sýnis á skrifstofu embættisins. Af myndskreytingu barnanna má ráða að fjölskyldubönd og vinátta skipta þau miklu máli. 

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér