Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Vel heppnaðar hringborðsumræður hagsmunaaðila um neytendavernd barna - Skjöl

Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda lengja samráðsferli um væntanlegar reglur um frekari mörk við markaðssókn sem beinist sérstaklega að börnum.

Yfir 50 fulltrúar hagsmunaaðila og sérfræðingar í stofnunum ríkis og sveitarfélaga, fræðasamfélagi, almannasamtökum o.fl. funduðu sl. þriðjudag í Þjóðmenningarhúsi þar sem talsmaður neytenda og umboðsmaður barna efndu til hringborðsumræðna um tillögur sínar að aukinni Neytendavernd barna.

Undanfarin tvö og hálft ár hafa embættin leitast við að skilgreina álitamál og leita mögulegra lausna með því að setja á blað hugmyndir að leiðbeiningarreglum sem hugmyndin er að embættin gefi út eftir víðtækt samráð við framangreinda hagsmunaaðila - hverja í sínu lagi og nú með sameiginlegum hringborðsumræðum. Var þetta gert í kjölfar ítarlegs samráðs við yfir 50 hagsmunaaðila undanfarið hálft ár í kjölfar málþings, sem talsmaður neytenda og umboðsmaður barna héldu ásamt samtökunum Heimili og skóli í mars 2006, þar sem fram kom að setja þyrfti frekari mörk við markaðssókn gagnvart börnum en þau sem er að finna í gildandi reglum.

Samráðsferli lengt til haustsins
Í hringborðsumræðunum komu fram óskir um að lengja samráðsferlið og hafa embættin ákveðið að verða við því og endurtaka jafnvel slíkar hringborðsumræður í haust eftir að frekari endurskoðun á tillögunum hefur átt sér stað í kjölfar athugasemda sem komu fram í hringborðsumræðunum á þriðjudag og berast munu í kjölfarið, formlega eða óformlega. Hefur verið ákveðið að gefa frest til athugasemda til loka ágústmánaðar. Er þetta gert til þess að auka líkur á að sem víðtækust sátt náist um leiðir til þess að auka neytendavernd barna sem vonast er til að sem flestir aðilar vilji fara - og geti farið - eftir um leið og tryggja þarf að neytendur, foreldrar, fjölmiðlar og samkeppnisaðilar geti treyst því að farið sé eftir leiðbeiningunum.

Margar góðar ábendingar og ýmsar athugasemdir komu fram í hringborðsumræðunum - bæði atriði sem komið höfðu fram áður og tekið hafði verið tillit eða afstaða til en einnig ýmis nýmæli. Mikil sátt var um ýmis atriði svo sem um leiðbeinandi reglur um markaðssókn í skólum en umdeildara var hvort unnt væri að fallast á fortakslaust bann við auglýsingum í kringum barnaefni eða algert bann við sælgæti og þvíumlíku við kassa í dagvöruverslunum.

Vilja umboðsmaður barna og talsmaður neytenda þakka öllum þátttakendum kærlega fyrir að taka þátt í hringborðsumræðum og málefnalegar umræður. 

 

Nánari upplýsingar veita:

Gísli Tryggvason
talsmaður neytenda
S. 510 1121 og 897 33 14.

Margrét María Sigurðardóttir
umboðsmaður barna
S. 552 8999  og 862 04 14.