Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Hringborð um neytendavernd barna

Í dag, þriðjudaginn 27. maí, stóðu umboðsmaður barna og talsmaður neytenda fyrir hringborðsumræðum um neytendavernd barna.  Á fundinn mættu um 50 manns frá hagsmunaaðilum, félagasamtökum, sveitarfélögum  og ýmsum stofnunum.  Markmiðið með þessu frumkvæði embættanna er að hagsmunaaðilar komi sér saman um leiðbeinandi reglur sem ætlað er að vernda börn fyrir markaðsáreiti og vilja embættin þakka öllum þeim sem hafa tekið þátt í þessu samráðsferli góðar undirtektir.

Þó að skiptar skoðanir séu á því hvernig og á hvaða vettvangi sé heppilegast að setja skorður við markaðssókn sem beinist að börnum gengur verkefnið vel. Ýmsar góðar ábendingar komu fram á fundinum og verða umræðudrögin að þessum leiðbeinandi reglum birt á vefsíðum umboðsmanns og talsmanns neytenda á næstunni ásamt athugasemdum sem komið hafa fram um ákveðin ákvæði. Í framhaldinu mun samráðsferlið halda áfram en stefnt er að verkefninu ljúki seint á þessu ári eða í byrjun næsta árs.