Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Aukin neytendavernd barna í burðarliðnum

Hagsmunaaðilar koma sér saman um leiðbeinandi reglur sem ætlað er að vernda börn fyrir markaðssókn. Reglurnar taka til almennrar markaðssóknar og munu umboðsmaður barna, talsmaður neytenda og aðrir hagsmunaaðilar gæta þess að leiðbeiningunum sé fylgt.

Nú hillir undir að reglur verði settar er varða markaðssókn á vörum og þjónustu sem beinist að börnum og unglingum. Reglurnar eru hugsaðar sem viðbót við gildandi lög og reglur - sem leiðbeinandi reglur, lagðar fram af talsmanni neytenda og umboðsmanni barna, en unnar í nánu samráði við aðila á markaði, almannasamtök, stofnanir og sérfræðinga. Undanfarin misseri hefur verið unnið markvisst að því að skapa umgjörð utan um verkefnið, sem kallast Neytendavernd barna.

„Verkefni þetta er til komið vegna fjölmargra athugasemda um að brýnt sé að tekið verði á sívaxandi markaðsáreiti sem beinist að börnum,“

segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna. Hún bætir við að stefnt sé að því með þessu verkefni að ná samhljómi meðal sem flestra hagsmunaaðila um aukna neytendavernd gagnvart börnum.

Á opnu málþingi sem embættin tvö héldu ásamt samtökunum Heimili og skóli í mars 2006 kom fram að frekari mörk þyrfti að setja við markaðssókn sem beinist að börnum. Í tillögum þeim sem unnar hafa verið hjá embættunum tveimur er leitast við að ná jafnvægi milli ólíkra sjónarmiða sem komið hafa fram hjá tugum hagsmunaðila, stofnana og sérfræðinga sem leitað hefur verið til og eru bundnar vonir við að með tilkomu þeirra verði gætt hófsemi í markaðssókn gagnvart börnum. Þannig er ljóst að sumir hefðu viljað ganga lengra í neytendavernd barna. Nú liggja þó fyrir lokatillögur umboðsmanns barna og talsmanns neytenda um hvernig endanlegar leiðbeiningar koma til með að líta út. 

Ítarlegar reglur á flestum sviðum

„Meðal helstu atriða tillagnanna eru ákvæði um Almenna markaðssókn þar sem teknar eru fyrir reglur er varða almenna markaðssókn sem beint er að börnum, sem og markpóst og söfnunarleiki,“

 segir Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, aðspurður um tillögurnar:

„Þá er liður sem fjallar um jákvæða líkamsímynd og hollustu. Þessu til viðbótar eru lagðar fram reglur er varða markaðssókn sem snýr að fjármálum, meðal annars þeirri þjónustu sem bankar veita börnum og unglingum, happdrætti og fjárhættuspilum og hvers konar söfnunarkortum.“

Í efnisflokknum Kynferðislegt efni eru tekin fyrir þau mörk sem snúa að framboði kynferðislegs efnis. Þá er flokkur sem nefnist Sjónvarpsefni, kvikmyndir og annað stafrænt efni fyrir börn. Loks er yfirgripsmikill flokkur sem nefnist Skólar og æskulýðsstarfsemi. Þetta er talsvert yfirgripsmikill flokkur þar sem tekið er á takmörkun á markaðssókn í skólum og æskulýðsstofnunum.

Í tengslum við þetta viðamikla og aðkallandi verkefni verður haldið opið málþing 27. maí nk., þar sem hagsmunaaðilum gefst frekara tækifæri til þess að koma með ábendingar við reglurnar, áður en þær verða formlega kynntar í sumarbyrjun.

„Við gerum ráð fyrir góðri þátttöku á þessu málþingi, enda verður fjallað ítarlega um það markaðsumhverfi sem mörg fyrirtæki starfa í og þurfa að aðlaga sig að, þegar leiðbeiningarnar verða að veruleika,“

 segir Margrét María.

***

Nánari upplýsingar veita:
Gísli Tryggvason
talsmaður neytenda
S. 510 1121 og 897 33 14

Margrét María Sigurðardóttir
umboðsmaður barna
S. 552 8999 og 862 0414