Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Aðgengi barna að Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni

Embætti umboðsmanns barna barst í febrúar ábending vegna aðgengis barna yngri en 18 ára að Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Á heimasíðu safnsins og á skilti við inngang segir að safnið sé opið öllum 18 ára og eldri en í húsreglum safnsins segir að þeir sem eru yngri en 18 ára hafi aðgang í fylgd foreldris, umsjónarmanns eða kennara.

Gamlar bækurUmboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir, ritaði landsbókaverði bréf hinn 3. mars sl. þar sem þeim tilmælum er beint til safnstjórnar að tryggja að húsreglur endurspegli þann lagaramma sem um safnið gildir, en ekkert í lögum eða reglugerð takmarkar aðgang barna að safninu. Í ljósi hins tvíþætta hlutverks safnsins, þ.e. að vera í senn þjóðbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands er hugsanlegt að takmarka megi aðgang barna að einhverjum hluta safnsins svo sem þeim hluta safnsins sem sérstaklega er ætlaður háskólanemum til afnota, þ.e. aðgangur að lestraraðstöðu sem og annarri vinnuaðstöðu. Hins vegar verður ekki séð að takmörkun aðgangs barna yngri en 18 ára að bókakosti safnsins samrýmist stöðu og hlutverki þjóðbókasafns sem á að sinna þörfum hins almenna borgara og er því farið fram á að reglurnar verði endurskoðaðar.

Í svarbréfi Ingibjargar Steinunnar Sverrisdóttur landsbókavarðar, dags. 26. mars sl. er vitnað í fyrri bréfaskipti stofnananna frá 1996 um sama efni. Í bréfinu segir einnig m.a. að skólasöfn grunn- og framhaldsskóla hafi eflst mjög á síðustu árum og þau bjóði yfirleitt upp á góða aðstöðu og sérhæfða þjónustu fyrir börn og unglinga. Eðlilegt sé að börnum og unglingum sé kennt að nota heimildir og efni á skólasöfnum til þess að þjálfa þau í að nýta sér stærri söfn síðarmeir, s.s. Lbs-Hbs. Þá er bent á að markvisst hafi verið unnið að því undanfarin ár að veita aðgang að safnkosti safnsins í gegnum Netið og safnið þannig fært nær hinum almenna borgara, t.d. með vefkerfunum gegnir.is, hvar.is, tímarit.is, sagnanet.is og Forn Íslandskort. Í framhaldi af bréfi umboðsmanns verði farið yfir texta um aðgengi á vef safnsins, í upplýsingabæklingum og skiltum og hann samræmdur þannig að ljóst sé að þeir sem séu yngri en 18 ára hafi aðgang í fylgd foreldris, umsjónarmanns eða kennara.
 
Umboðsmaður barna fagnar því að áhersla sé lögð á aukið aðgengi að heimildum og upplýsingum um þær á Netinu til að sem flestir geti nýtt sér kost bókasafna landsins en hefði þó kosið að börn og unglingar gætu með einhverjum hætti komið á staðinn og nýtt sér Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn á eigin forsendum, án fylgdar fullorðinna.