Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn - SAFT málþing í dag

Í tilefni af alþjóðlega netöryggisdeginum, í dag, 12. febrúar 2008, stendur SAFT, vakningarverkefni um jákvæða og örugga netnotkun barna og unglinga á Netinu og tengdum miðlum, fyrir opnu málþingi undir yfirskriftinni “Þú ert það sem þú gerir á Netinu”. SAFT hefur á síðustu árum staðið fyrir viðburðum á Alþjóðlega netöryggisdaginn, sem nú er haldinn í fimmta sinn.

Markmið málþingsins er að draga annars vegar fram sýn nemenda og hins vegar foreldra og kennara á helstu kostum og göllum Netsins. Hvar dregur hópana saman og hvar skilur að? Einnig verður áhersla lögð á að fá fram framtíðarsýn hópanna varðandi örugga og ánægjulega notkun og þróun Netsins. Þátttakendur vinna fyrst í tveimur málstofum en málþinginu lýkur með sameiginlegri málstofu nemenda, foreldra og kennara þar sem gerð verður grein fyrir niðurstöðum.

SAFT hefur einnig í tilefni dagsins staðið fyrir samkeppni meðal nemenda um gerð jafningjafræðsluefnis þar sem nemendum hefur gefist kostur á að koma sínum hugmyndum um Netið á framfæri. Á málþinginu mun dómnefnd gera grein fyrir vali sínu og veita verðlaun. Í dómnefnd sitja Björn Sigurðsson, Menntagátt, Þorsteinn J., RUV og Vanda Sigurgeirsdóttir, Kennaraháskóla Íslands.

Dagskrá:
16:00 Málstofur
Foreldrar/kennarar: Málstofustjóri er Páll Ólafsson, félagsráðgjafi hjá Fjölskyldu- og heilbrigðissviði Garðabæjar
Nemendur: Málstofustjóri er Margrét Sigurðardóttir, æskulýðsfulltrúi Seltjarnarness
17:00 Kaffi
17:15 Samgönguráðherra, Kristján L. Möller, flytur ávarp
17:20 Samantekt úr málstofum
17:50 Samkeppnin: niðurstöður dómnefndar og verðlaunaafhending
17:55 Stutt kynning á fyrirlestra- og jafningjafræðsluherferð SAFT um landið – María Kristín Gylfadóttir, formaður Heimilis og skóla, og Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone
18:00 Veitingar

Fundarstjóri: Svavar Halldórsson, fréttamaður hjá RUV
Staðsetning málþings: Kennaraháskóli Íslands, við Stakkahlíð. Málstofur verða í stofum H201 og H202 og málþing í Bratta.

Þátttakendur: Málþingið er öllum opið og það er ekkert þátttökugjald. Nemendur á aldrinum 11-16 ára eru sérstaklega boðnir velkomnir ásamt foreldrum sínum og kennurum. Vinsamlega tilkynnið þátttöku með tölvupósti á saft@saft.is.