Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Hugsanlegt norrænt hollustumerki gæti auðveldað vernd barna

Talsmaður neytenda segir frá því á heimasíðu sinni að á norrænni neytendaráðstefnu í Finnlandi í síðustu viku hafi m.a. verið fjallað um hollustumerki og fleiri merkingar í því skyni að upplýsa neytendur. Talsmaður neytenda var á ráðstefnunni og telur hann að valfrjáls næringarmerki, m.a. stöðluð næringarmerki, geti auðveldað áform umboðsmanns barna og talsmanns neytenda að semja við áhrifaaðila á markaði um að setja mörk við markaðssókn gagnvart börnum og unglingum, sbr. frétt um nýlegt innlegg SVÞ í því skyni að stuðla að neyslu hollra vara.

Unnið er að því nú að kanna möguleika á samnorrænu, valfrjálsu hollustumerki. Slíkt merki myndi væntanlega auðvelda viðleitni umboðsmanns barna og talsmanns neytenda við að setja frekari mörk við markaðssókn sem beinist að börnum eins og lengi hefur verið undirbúið og samráð hófst um í sumarbyrjun. Hugmyndin sem umboðsmaður barna og talsmaður neytenda hafa reifað við hagsmunaaðila felur í sér að þeir skuldbindi sig til að aðeins megi stilla fram í verslunum  gagnvart börnum matvælum sem fá slíkt opinbert merki. Sama gildi um auglýsingar í sjónvarpi ef þær verða ekki takmarkaðar frekar þegar börn eru líkleg til þess að horfa á sjónvarp.