Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Áhrif áfengisauglýsinga á neyslu ungs fólks

Lýðheilsustöð birtir á vef sínum frétt um niðurstöður rannsóknaverkefnisins ELSA þar sem kemur fram að því meira sem ungt fólk sér af áfengisauglýsingum því meiri líkur eru á að það drekki áfengi. Ennfremur kemur fram að reglur sem gilda um áfengisauglýsingar í Evrópu dugi ekki til að vernda ungt fólk gegn auglýsingunum. Í fréttinni, sem er dagsett 23. október segir:

Nauðsynlegt er að samræma reglur um áfengisauglýsingar í Evrópu til að draga úr magni þeirra og koma í veg fyrir að þeim sé beint að ungu fólki. Margar áfengisauglýsinganna virka mjög aðlaðandi á ungt fólk og áfengisframleiðendur nýta sér allar glufur sem þeir finna á núverandi reglum um áfengisauglýsingar. Þetta kemur fram hjá STAP, áfengisvarnastofnun Hollands (the Dutch National Foundation for Alcohol Prevention), í kjölfar niðurstaðna ELSA rannsóknarinnar.

ELSA
Rannsóknaverkefnið ELSA, nær til 24 Evrópulanda og var styrkt af Evrópusambandinu. Samkvæmt samantekt á rannsóknum, sem er hluti verkefnisins, þá virðist sem að því meira sem ungt fólk sér af áfengisauglýsingum, því meira áfengi muni það drekka. Áhrifin verða enn meiri þegar unga fólkinu hefur fundist áfengisauglýsing aðlaðandi.

Skoðaðar voru 76 mismunandi reglugerðir, um áfengisauglýsingar, í 24 Evrópulöndum. Meirihluti þeirra (49) hefur verið innleiddur með lagasetningum en minnihluti (27) eru reglugerðir sem áfengisiðnaðurinn sjálfur hefur sett. Áfengisiðnaðurinn hefur haldið því fram að reglugerðir þeirra virki vel en engar vísindalegar kannanir styðja það.
Wim van Dalen, forstjóra STAP, finnst nú nóg komið og segir:

,,Búið er að sýna á fullnægjandi hátt að áfengisauglýsingar hafa neikvæð áhrif á drykkjuvenjur ungs fólks. Nú verða ríkisstjórnir að taka til sinna ráða til að hindra áfengisauglýsingar.”

Niðurstöður ELSA hafa verið birtar í skýrslunni "Alcohol Marketing in Europe: Strengthening Regulation to Protect Young People"