Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Velferð barna í OECD löndunum - Skýrsla UNICEF

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hefur gefið út áhugaverða skýrslu um velferð barna og ungmenna í þeim löndum sem eru efnahagslega best sett í heiminum.  Í skýrslunni sem ber hetið „An overview of child well-being in rich countries“ kemur í ljós að heilsufar barna og ungmenna á Íslandi er gott og lendir Ísland í öðru sæti á eftir Svíum í þeim þætti skýrslunnar. Ísland er í meðallagi í menntamálum en athygli vekur að um 10% 15 ára ungmenna á Íslandi eru einmana og finnast þeir utangarðs í samfélaginu.

Skýrslan tekur tillit til sex þátta þegar velferð barna og ungmenna er mæld, þ.e. efnahagsleg gæði, heilsufar og öryggi, menntun, vina- og fjölskyldutengsl, áhættuhegðun og tilfinning ungmenna um eigin vellíðan. Þessir sex þættir gefa góða heildarmynd af lífi barna en ekki er hægt að dæma um velferð barna út frá aðeins einum þætti.   Hvað varðar Ísland þá segir í frétt UNICEF á Íslandi:

Staða barna og ungmenna á Íslandi
Þar sem heilsufar barna og ungmenna var mælt er Ísland í öðru sæti á eftir Svíþjóð. Í þessum þætti skýrslunnar var tekið tillit til tíðni ungbarnadauða, hlutfalls barna sem fæðist undir meðalþyngd, bólusetningar barna gegn helstu barnasjúkdómunum og dauðsfalla vegna slysa, sára, morða eða sjálfsvíga. Norðurlöndin eru öll í tíu efstu sætum listans, en Bandaríkin og Nýja-Sjáland eru langt undir meðaltali. Ísland er í efsta sæti yfir heilsu ungabarna og er með lægstu tíðni ungbarnadauða í heimi. Það sem dregur Ísland helst niður virðist vera bólusetningar, en þar er Ísland í 12. sæti. Bólusetningar geta sýnt fram á hversu vel er hugað að heilsugæslu ungra barna. Ísland er í 5. sæti yfir dauða vegna slysa og sára ungmenna undir 19 ára.

Þegar kemur að menntun er Ísland miðlungs, þ.e. hvorki fyrir ofan eða neðan meðallag. Þar var tekið tillit til læsi, stærðfræðigetu, vísindakunnátta, hlutfalls 15 til 19 ára ungmenna sem eru í skóla, hlutfall 15 til 19 ára sem eru ekki í skóla eða í annars konar þjálfun, og hlutfall þeirra 15 ára ungmenna sem búast við að fá starf sem krefst lítillar kunnáttu. Belgía er í efsta sæti, ásamt Kanada og Póllandi, en Portúgal, Ítalía og Austurríki raða sér í neðstu sætin.

Nokkuð vantar upp á tölur frá Íslandi í þeim þætti þar sem mæld voru vina- og fjölskyldutengsl. Þar kemur hins vegar í ljós að yfir 90% 15 ára ungmenna borða oft í viku (e. several times) með foreldrum sínum. Þar er Ísland í öðru sæti á eftir Ítalíu, sem er þekkt fyrir sterk fjölskyldutengsl. Hins vegar segjast aðeins um 44% 15 ára ungmenna að foreldrar þeirra setjist oft niður með þeim til að spjalla. Það gæti kannski útskýrt afhverju um 10% íslenskra ungmenna séu einmana og finnast þau utangarðs í samfélaginu. Í samanburði við mörg önnur lönd er þetta nokkuð hátt hlutfall þar eð önnur lönd eru nær 5% hlutfalli. Í þeim þætti voru ungemnni sjálf látin meta eigin vellíðan og voru þau spurð hvort þau væru sammála þremur fullyrðingum, þ.e. mér finnst ég skilin útundan, mér líður skringilega og utangarðs, og ég er einmana.

Sjá nánar frétt UNICEF á Íslandi, dags. 14. febrúar 2007.
Skýrlsan í pdf-skjali.