Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

21% leikskóla framfylgir ekki aðalnámskrá

Í nýjasta veftímariti menntamálaráðuneytisins er sagt frá nýrri könnun sem menntamálaráðuneytið hefur látið gera um það hvort leikskólar framfylgi aðalnámskrá. Í könnuninni kemur fram að 21% leikskóla hefur ekki opinbera uppeldisstefnu, 21% hefur ekki mótað eigin skólanámskrá og um 7% leikskóla hafa hvorki opinbera uppeldisstefnu né eigin skólanámskrá.
 
Í aðalnámskrá leikskóla frá 1999 var ákvæði um að sérhver leikskóli eigi að gera skólanámskrá á grundvelli aðalnámskrár leikskóla og að skólanámskráin skuli vera í samræmi við opinbera uppeldisstefnu leikskólans. Á síðasta ári  gerði menntamálaráðuneyti könnun á afstöðu leikskólastjóra til aðalnámskrár leikskóla, skólanámskrár, mats á leikskólastigi, starfsmannahalds í leikskólum og samspils þessara þátta. Rafrænn spurningalisti var sendur til allra leikskóla í maí 2006 og var svarhlutfall 76%. Í ljósi þess að könnunin gefur vísbendingar um að ofangreindum ákvæðum aðalnámskrár sé víða ábótavant hefur menntamálaráðuneyti ákveðið að kalla eftir frekari upplýsingum.