Frásagnir barna - ljóð og dagbókafærslur
Nokkur ljóð bárust frá börnum sem endurspegluðu líðan þeirra og upplifun af kórónuveirunni.
Covid-19
Ég veit ekki
hvernig mér líður.
Ég hef blendnar
tilfinningar.
Ég er í ruglinu.
Ég er hrædd og
stressuð.
Þetta er
óþekkt,
það er það sem ég
hræðist.
Hugmyndin með ljóðið kom þegar ég var að tala við pabba minn. Ljóðið snýst um hvernig mér líður gagnvart veirunni og hvað hún hefur valdið miklum breytingum í samfélaginu. Þessi veira er óþekkt, ástandið í samfélaginu er óþekkt. Við vitum ekki hvernig næstu vikur munu vera, kannski verður öllum skólunum á landinu lokaðir. Við vitum ekki hvað margir muna fá veiruna, við vitum ekki hvað margir munu deyja, þetta er allt svo ruglandi og stressandi. Við vitum ekki hvað mun gerast á morgun, viku eða kannski mánuð. Það er það sem ég hræðist.