Frásagnir barna af heimsfaraldri
Efnisyfirlit
Umboðsmaður barna sendi öllum grunnskólum bréf í byrjun mars 2020 þar sem óskað var eftir frásögnum barna og ungmenna af því, hvernig það væri að vera barn á tímum kórónuveirunnar og hvaða áhrif faraldurinn hefði haft á daglegt líf þeirra. Einnig var auglýst eftir frásögnum frá börnum á samfélagsmiðlum. Ekki voru gerðar sérstakar kröfur um form frásagna og voru börn m. a. hvött til þess að senda myndir, skriflegar færslur eða myndskeið. Skilafrestur til að senda inn efni var til loka skólaársins vorið 2020.
Alls bárust 116 svör frá börnum og skólum víðs vegar að af landinu. Skriflegar frásagnir voru í meiri hluta en einnig voru sendar inn myndir, dagbókarfærslur og ljóð. Þá barst nokkuð af myndskeiðum með frásögnum, viðtölum og leiknu efni. Í október 2020 var gerð samantekt og birtar tilvitnanir í frásagnir barnanna á vefsíðu umboðsmanns barna, barn.is. Einnig var fjallað um frásagnirnar í fréttum á KrakkaRÚV auk þess sem þar var birt myndband með nokkrum frásögnum.
Þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins hafði stórtæk áhrif og grípa þurfti til umfangsmikilla takmarkana til þess að hefta útbreiðslu veirunnar. Þær takmarkanir höfðu töluverð áhrif á skólahald í grunn- og framhaldsskólum sem og tómstundastarf barna auk þess sem börnum var gert að bera grímur en slík krafa var ekki gerð þegar fyrri bylgjur faraldursins gengu yfir. Umboðsmaður barna ákvað að óska aftur eftir frásögnum barna í nóvember 2020 og var tekið við frásögnum til 8. janúar 2021. Bréf var sem fyrr sent til allra grunnskóla en ekki var auglýst eftir frásögnum á samfélagsmiðlum.
Upplýsingaöflun fór að mestu leyti fram í gegnum smáforritið Survey Monkey en þar gátu börn og ungmenni skilað inn sínum frásögnum nafnlaust. Efnistök voru frjáls en fjórar spurningar voru hafðar með til hliðsjónar við ritun frásagna.
Spurningarnar voru eftirfarandi:
- Hvernig líður þér í skólanum?
- Hvernig eru samskipti þín við vini?
- Hvernig líður þér á þessum tímum?
- Viltu segja eitthvað frá fjölskyldunni?
Alls bárust svör frá 287 börnum og ungmennum víðsvegar að á landinu. Þar af voru 180 frásagnir sem bárust á Survey Monkey og 107 í gegnum tölvupóst, bæði skriflegar frásagnir sem og myndir eða myndbrot. Tilgangurinn var sem fyrr að safna frásögnum sem endurspegluðu daglegt líf og líðan barna á tímum kórónuveirunnar.
Hér verður gerð grein fyrir svörum barnanna og er efninu skipt upp í fimm flokka. Fyrst er fjallað almennt um líf barna á þessum tíma en hinir fjórir flokkarnir endurspegla þau málefni sem helst brunnu á börnunum. Þeir flokkar eru líðan, skólinn og tómstundir, fjölskylda og vinir og sóttvarnaraðgerðir. Eru þetta sömu málefni og voru í brennidepli þegar frásögnum var safnað frá börnum vorið 2020, að því undanskildu að við hefur bæst einn flokkur þar sem fjallað er um líðan barna. Það kemur til vegna þess að fleiri börn greindu nú frá vanlíðan en í þeim frásögnum sem safnað var í fyrstu bylgju faraldursins.
1. Almennt um lífið á tímum kórónuveirunnar
Fram kom að mikil streita hafi myndast í samfélaginu þegar kórónuveiran greindist fyrst á Íslandi og margir hafi haft áhyggjur af því hvernig skólunum og íþróttaæfingum yði háttað. Nokkur börn tóku fram að þau hafi ekki tekið þessu alvarlega í fyrstu þar sem þau hafi staðið í þeirri trú að faraldurinn myndi ekki hafa mikil áhrif á líf þeirra en raunin hafi orðið önnur. Þá voru börn sem greindu frá því að þau hafi fundið fyrir hræðslu þegar veiran greindist hér á landi fyrst og óttast að allt færi á versta veg. Önnur tóku fram að þau hafi verið bjartsýn í upphafi en að dregið hafi úr þeirri bjartsýni með tímanum. Ástandið á Íslandi sé búið að vera verra en þau gerðu ráð fyrir í upphafi. Einnig kom fram að börnum hafi fundist það spennandi í fyrstu að þurfa ekki að mæta í skólann en þau hafi ekki áttað sig á því hvað faraldurinn ætti eftir að hafa mikil áhrif á samfélagið. Yfir árið hafi stemningin alltaf verið þannig að þetta væri alveg að verða búið, kannski hafi það verið mikilvægt fyrir andlega heilsu, þar sem það hefði verið þungbært að vita í upphafi að þetta ástand myndi vara út árið. Sum börn óttuðust að þetta ástand tæki aldrei enda. Þá hafi þetta verið erfiður tími fyrir alla, nokkur börn töldu takmarkanir hafa bitnað mest á eldra fólki sem hafi þurft að gæta sín og ekki getað fengið heimsóknir. Tekið var fram að við getum verið þakklát fyrir að hér hafi ekki verið sett á útgöngubann eins og gert hefur verið í mörgum öðrum löndum.
Það var mismunandi hvort börnin töldu að kórónuveiran kæmi til með að hafa varanleg áhrif á samfélagið. Sum börn töldu svo ekki vera. Þessi tími eigi eftir að gleymast og þá verði kannski minnisstæðast að hafa þurft að vera mikið heima og að hafa ekki mátt koma nálægt öðru fólki. Önnur börn upplifa að faraldurinn hafi breytt öllu. Þau hafi lært mikið eins og að vera þakklát, jákvæð og nægjusöm, einnig hafi þetta tímabil aukið þroska þeirra og sjálfsvitund. Þá voru börn sem sögðust lítið hafa lært annað en mikilvægi þess að spritta hendur. Sumum fannst miklar breytingar hafa orðið á lífi þeirra öðrum ekki neinar og allt þar á milli. Það er greinilegt að þær takmarkanir sem gripið var til höfðu mismikil áhrif á líf barna. Á meðan önnur börn upplifðu að allt lífið hefði umturnast til hins verra og gátu ekki beðið eftir því að lífið yrði aftur eins og það var áður voru önnur sátt við þessar breytingar m. a. þar sem það henti þeim betur að vera meira heima og hitta færra fólk.
Svör frá börnum
- En mig langar mjög mikið að geta haldið venjuleg og nokkuð eðlileg jól. Ég held að mörg börn þurfi á því að halda. Mig langar rosalega mikið til þess að geta hitt allt frændfólk mitt á gamlársdag og á fleiri hátíðardögum. Covid tekur stóran toll í lífi hvers barns og einstaklings. Svo skemmdi covid fyrir mér afar góða jólagjöf. Frænkur mínar gáfu mér og systkinum útlandaferð sem að við gátum ekki farið í sem að er ömurlegt.
- Covid hefur ekki haft jafn mikil áhrif á mig og ég hélt það mundi vera, svo er það kannski bara lífið í sveitinni sem hefur hjálpað til, það er alltaf eitthvað að gera þar.
- Í Covid líður mér bara vel sérstaklega eftir að það kom snjór. Ég hef meiri tíma að gera hluti sem mér finnst skemmtilegir og þarf ekki að eyða jafn miklum tíma með öðru fólki.
Þau börn sem töldu faraldinn ekki hafa haft mikil áhrif á líf sitt tóku m. a, fram að þau hafi ekki smitast og enginn nákominn þeim og að foreldrar þeirra hafi ekki misst vinnuna. Algengt var að tekið væri fram að margir hafi dáið úr veirunni og margir veikst og þau finni til með þeim sem hafi misst ástvini sína.
Mörg börn tóku fram að þau hafi verið mikið í tölvunni og það sé góð leið til þess að drepa tímann. Þá hafi verið hægt að fara í göngutúra, þau hafi bakað meira og haft aukinn tíma til þess að sinna öðru en skólanum eins og að spila á hljóðfæri og vera með vinum.
Sóttvarnaraðgerðir höfðu mikil áhrif á veislur og hátíðahöld. Algengt var að fresta þyrfti fermingum til langs tíma og þegar þær voru haldnar voru þær oftar en ekki smærri í sniðum en vanalega. Fram kom að ekki hafi verið eins gaman að eiga afmæli og áður. Þá hafi ekki verið hægt að fara í utanlandsferðir og mörg börn komust ekki í ferðir með fjölskyldum sínum né skipulagðar æfinga- og keppnisferðir og voru mörg börn verulega vonsvikin yfir því. Börn sem misstu ættingja vegna veirunnar eða af öðrum ástæðum fannst leiðinlegt að takmarka hafi þurft fjölda þeirra sem máttu vera viðstödd jarðarfarir.
Mikið var talað um hversu leiðinlegt það væri að ekki hafi verið hægt að halda böll. Þau söknuðu þess að fara á jólaball og fannst leiðinlegt að það hafi ekki verið hægt að gera neitt skemmtilegt í aðdraganda jólanna. Fram kom ósk um að geta haldið eðlileg jól og að mörg börn hafi þurft á því að halda. Þá hafi ekki verið hægt að fara í skólaferðir. Börn tóku fram að þau hafi misst af því að spila á tónleikum í Hörpu og að taka þátt í danssýningum. Leiðinlegt hafi verið að geta ekki farið í búðir án þess að vera með grímu, halda fjarlægð og standa í röð í langan tíma. Margir voru þakklátir fyrir að hafa átt nokkuð eðlilegt sumar og þá var það ósk margra að lífið verði aftur venjulegt.
Börn sem eru búsett utan Reykjavíkur söknuðu þess að koma í bæinn og fara í búðir, bíó og út að borða. Áhugaverðar hugleiðingar komu frá börnum sem búa í sveit en nokkur þeirra tóku fram að áhrif kórónuveirunnar hafi verið minni fyrir þau þar sem það sé alltaf hægt að finna sér eitthvað að gera í sveitinni og þá hafi þau hvort sem er almennt færri tækifæri til þess að hitta vini sína. Það hafi hins vegar haft mikil félagsleg áhrif þegar loka þurfti skólum því í sumum tilfellum hitti þau aðeins vini sína í skólanum þar sem langt sé á milli bæja og fá tækifæri séu til þess að hitta vini utan skóla.
Svör frá börnum
- Mér líður bara frekar vel það er minna stress í mér sjálfum en allt of mikið stress í samfélaginu allir eru alltaf svo hræddir við þessa veiru en mér finnst þetta ekkert slæmt auðvitað fellur fólk frá í svona ástandi eins og með allar aðrar veirur það missa alltaf einhverjir vinnur það deyja alltaf einhverjir en svona er lífið og það er lítið sem er hægt að gera í því þessu nema bara bíða.
-
Ég fermdist líka á þessu ári sem var versta við árið því ferming á að vera skemmtilegur hlutur en ég gat ekkert hitt alla fjölskylduna vegna veirunnar og fermingin var haldin í messu með 3 öðrum krökkum oftast eru svona 10-15 krakkar að fermast í einu.
-
Covid hefur ekki haft mikil áhrif á mig því ég bý í sveit og er því ekki inn í bæ og hef ekki alltaf verið með vinunum inn í bæ eins og krakkar sem búa í borgum og bæjum.
-
Covid hefur ekki haft jafn mikil áhrif á mig og ég hélt það mundi vera, svo er það kannski bara lífið í sveitinni sem hefur hjálpað til, það er alltaf eitthvað að gera þar.
2. Líðan
Mörg barnanna greindu frá því að hafa fundið fyrir vanlíðan, streitu, kvíða, þunglyndi og einmanaleika. Það var einnig algengt að börn tækju fram að andleg líðan þeirra hafi verið sveiflukennd og að þau hafi fundið fyrir auknum pirringi og leiða, þá sé erfitt að hafa lítið að gera á daginn og vera mikið heima. Fleiri þættir en faraldurinn höfðu áhrif á líðan barna svo sem erfiðleikar í samskiptum við vini og fjölskyldu. Þá voru börn sem óttuðust að faraldurinn tæki aldrei enda og að heimurinn væri að farast. Þau börn sem áttu fyrir í erfiðleikum með kvíða töluðu um að hann hefði aukist vegna faraldursins. Einnig var greint frá auknu álagi hjá fjölskyldum þar sem meðlimir eru í áhættuhópi. Þá voru börn sem upplifðu að þau ættu ekki rétt á því að líða illa þar sem það væri mikið erfiðara hjá öðrum en þeim.
Mér líður bara mjög vel þetta hentar mér mjög vel því mér líður betur í kringum lítið af fólki
Þetta er töluverður munur frá því sem fram kom í frásögnum barna sem safnað var vorið 2020 en þá var algengt að börn greindu frá því að þeim hafi liðið vel og þau fundið fyrir minni streitu. Þrátt fyrir þessa auknu vanlíðan var hópur barna sem tók fram að þeim sé búið að líða vel og jafnframt voru börn sem tóku fram að þeim sé búið að líða betur nú en fyrir faraldurinn. Það sé gott að vera styttra í skólanum og ná að sofa lengur og slappa meira af. Margir voru á því máli að þetta séu krefjandi og skrítnir tímar. Þá var áberandi að börn finndu fyrir þreytu gagnvart faraldrinum og sóttvarnaraðgerðum. Það hafði mikil áhrif á börn þegar íþróttaæfingar lágu niðri og líkamsræktarstöðvar voru lokaðar og margir tóku fram að þeim hafi liðið betur andlega og líkamlega þegar æfingar hófust aftur og líkamsræktarstöðvar opnuðu.
Svör frá börnum
-
Covid hefur haft áhrif á andlegu heilsuna mína, ég er meira stressuð og leið og ég fæ ekki að fara á æfingar sem lætur líkamlegu heilsu mína vera verri.
-
Ég hef lítið fundið fyrir því að Covid hafi haft áhrif á mitt líf en það sem það hefur haft breytingu á er að ég er meira kvíðin og er stressuð og hef ekki farið í bæinn lengi vegna þess.
-
Ég er með meiri kvíða í skólanum og stressuð, ég er búin að missa margar vinkonur og vini og er mjög mikið ein. Mér líður illa á þessu covid ves og langar að þetta verður búið fljótlega og allt verður eðlilegt aftur.
-
Mér leið betur þegar allt var venjulegt maður vaknar bara á hverjum degi og það er alltaf allir dagar alveg eins og þú ert ekkert að bíða eftir neinu skemmtilegu eins og útlandaferð á næstunni og svoleiðis.
-
Mér líður samt ekkert sérlega vel á þessum tíma, ég græt mikið stundum útaf ástæðu og stundum veit ég ekki afhverju. Mér finnst erfitt að hafa svona lítið að gera á daginn og verð frekar pirruð og tilfinningarnar er miklar.
-
Mér líður vel í skólanum og hef mjög góð samskipti við vini mína og vínkonur, mér líður vel á þessum tíma en þetta er að verða pínu þreytandi þetta tímabil með Covid 19.
-
Í covid fékk ég mjög lærdósmríkt sumar og fékk kynnast fólki betur en með covid fann ég fyrir einmannleika og leiddi til að ég varð stundum leiður.
-
Mér líður bara mjög vel þetta hentar mér mjög vel því mér líður betur í kringum lítið af fólki.
3. Skólinn og tómstundir
Töluvert var fjallað um takmarkanir á skólahaldi og fjarnám. Skiptar skoðanir voru um ágæti fjarnáms og hvort vel hefði tekist til við útfærslu þess. Það sama má segja um viðhorf þeirra til þess að skóladagurinn væri styttri en vanalega. Af frásögnum barnanna að dæma er greinilegt að það hentaði sumum þeirra betur að hafa skóladaginn styttri á meðan önnur vildu að skólinn yrði aftur eins og hann var fyrir faraldurinn.
Þau sem voru ósátt við fjarnámið fannst það illa skipulagt og erfitt að taka ábyrgð á náminu þar sem minna aðhald sé frá kennaranum í fjarnámi en við hefðbundið skólastarf. Þá hafi foreldrar ekki alltaf þá þekkingu sem þurfi til þess að aðstoða börn við námið og börn hafi þurft að aðstoða systkin sín. Einnig kom fram að það sé ekki alltaf næði á heimilum til þess að sinna námi sérstaklega þegar foreldrar eru líka að vinna heima og fleiri börn eru á heimilinu.
Það voru mörg börn sem tóku fram að þeim liði vel í skólanum og jafnvel betur en áður. Tóku þau fram að það væri þægilegt að hafa skóladaginn styttri en vanalega og að það væri auðveldara að læra og meiri friður þar sem færri nemendur væru í skólanum á sama tíma. Það var hins vegar einnig algengt að börn tækju fram að það væri leiðinlegra í skólanum núna þar sem skóladagurinn væri styttri og þau gætu ekki hitt alla bekkjarfélaga sína. Þá kom fram að skólinn væri erfiðari en áður á meðan öðrum fannst námið auðveldara.
Mörg börn voru óánægð með það að geta ekki farið í frímínútur og á bókasafnið. Þá hafi ekki mátt gera neitt skemmtilegt fyrir jólin, það hafi ekki verið hægt að skreyta eða halda litlu jólin með bekknum. Nokkuð algengt var að börn greindu frá því að maturinn í skólanum væri öðruvísi og ekki eins góður.
Það var algengt að börn í 10. bekk tækju fram að þau væru óánægð með að síðasta árið þeirra í grunnskóla væri ekki með hefðbundnum hætti. Snéri óánægja þeirra einkum að tveimur þáttum, annars vegar því að þau hafi farið á mis við allt það skemmtilega sem krakkar í 10. bekk fái almennt að gera og hins vegar höfðu þau áhyggjur af því að þau væru ekki nógu vel undirbúin undir nám í framhaldsskóla þar sem þau hafi misst töluvert úr náminu.
Mörg börn nefndu hversu mikilvægt það væri fyrir þau að geta stundað tómstundir. Sumum fannst það skemmtileg tilbreyting að gera æfingar heima á meðan aðrir fundu fyrir depurð yfir því að komast ekki á æfingar, þá sé allt annað að æfa með liðsfélögum sínum en einn heima. Það hafi líka haft áhrif þegar sundlaugum var lokað og erfitt hafi verið að geta ekki farið út úr húsi nema með grímu. Börn voru ósátt við að hafa misst af mótum og keppnis- og æfingaferðum enda séu slíkar ferðir mikilvægt tækifæri fyrir þau að bæta sig.
Svör frá börnum
Ég er glöð að geta Stundað íþróttina mína sem er Fótbolti, þegar við máttum ekki vera á æfingum var ég orðin frekar döpur alla daga vegna þess að það er allt annað að æfa með liðsfélögum en einn.Mér líður vel félagslega og námið er alveg fínt en þetta er seinast árið okkar í grunnskóla og við megum ekki gera neitt skemmtilegt eins og allir hinir 10 bekkirnir mega gera og núna eru jól og flestir skólar eru að t.d skreyta stofurnar en við erum að læra og gera ekki neitt annað og það er ekkert jólastuð og það er mjög dapurt.
- Þar sem að þetta er síðasta árið manns í grunnskóla hef ég áhyggjur af því að þegar að ég fer í framhaldskóla muni mér ganga illa og jafnvel ekki skilja neitt, þar sem að við erum búin að missa af svo mikilli kennslu, þetta gerir mig stressaða og ég er búin að vera svoldið kvíðin yfir þessu.
- Mér líður vel í skólanum en vildi að það væri bara venjulegur skóli en ekki takmarkaður. Þetta plan að vera í tvo tíma á dag í skólanum er samt miklu betra en fjarnámið í fyrstu bylgjunni því maður sá engan nema fjölluna. Það hjálpar mikið að geta séð krakkana bæði í skólanum og á æfingum.
- Mér líður vel og ég er frekar ánægð að kerfið sem er núna vegna Covid 19 er að ganga vel. Ég sakna samt þess að vera með öllum í bekknum mínum og hafa venjulegan skóladag.
- Mér líður bara nokkuð vel. Mér finnst þægilegt að vera svona fá, ég læri betur og líður betur.
- Mér finnst fínt að vera í litlum bekk, það er meiri vinnufriður og ég fæ að sitja ein.
- Mér líður vel í skólanum, það er eiginlega ekki mikið búið að breytast nema að við þurfum að vera með grímu og við megum ekki fara úr stofunni okkar og maturinn er líka öðruvísi, stundum fáum við pizzu eða hamborgara og stundum skyr líka. Við erum líka búin fyrr í skólanum en vanalega. samskipti mín við vini mína eru góð en ég má ekki hitta marga þeirra því að þau eru í hinum bekkjunum en ég tala við þau inná snapchat. Mér liður vel á þessum tímum því að ég fæ að fara fyrr heim og slaka meira á, ég eyði mestum tíma mínum í að leika við hundinn minn og horfa á sjónvarpið.
-
Svo lengi sem ég get stundað íþróttir og talað við vini mína þá er þetta ekki svo slæmt fyrir mig.
4. Fjölskylda og vinir
Það var áberandi hversu mörg börn höfðu orð á því að þau söknuðu þess að geta umgengist ömmu og afa. Þá væri það erfið tilhugsun að geta ekki hitt þau um jólin. Það er ljóst að sóttvarnaraðgerðir hafa haft mikil áhrif á börn að þessu leyti en þetta var einnig algengt umfjöllunarefni hjá börnum í frásögnum þeirra af kórónuveirunni sem umboðsmaður barna safnaði vorið 2020. Þá var einnig algengt að börnin tækju fram að þau hefðu áhyggjur af ættingjum sínum, sérstaklega þeim sem væru í skilgreindum áhættuhópum og að það fylgi því mikill kvíði að eiga nána ættingja í áhættuhóp. Kórónuveiran jók einnig áhyggjur barna af fjölskyldumeðlimum sem voru að glíma við alvarleg veikindi svo sem krabbamein. Fram kom að börn sem hafi orðið fyrir alvarlegum áföllum eins og til dæmis að missa foreldri hafi saknað þess að geta hitt ættingja og fengið stuðning frá þeim.
Fjölskyldur áttu fleiri stundir saman og voru meira heima en vanalega. Fram kom að fjölskyldur hafi verið duglegar að gera skemmtilega hluti og þær hafi lært margt nýtt á þessu tímabili. Sum börn tóku fram að þau hafi fundið fyrir auknum stuðningi frá fjölskyldum sínum. Börnin fundu fyrir aukinni þreytu hjá foreldrum sínum gagnvart ástandinu í samfélaginu. Þá sé það erfitt að geta ekki hitt foreldra og aðra ættingja sem búi erlendis.
Algengt var að börn tækju fram hvort foreldrar þeirra hafi haldið vinnunni og augljóst að fyrir mörg börn var þetta mikilvægur hlutur og ekki sjálfsagður. Einnig var algengt að tekið væri fram að börnin væru þakklát fyrir það að foreldrar þeirra hafi haldið vinnunni. Mörg börn voru augljóslega meðvituð um þau áhrif sem kórónuveiran hefur haft á atvinnumarkaðinn og að margir hafi misst vinnuna.
Kórónuveiran og sóttvarnarráðstafanir hafa haft mikil áhrif á samskipti barna við vini sína. Innan skólans hefur nemendum verið skipt upp í hópa og þeim ráðið frá því að hitta þá nemendur sem voru ekki með þeim í hóp utan skóla. Þetta hefur börnum fundist erfitt, sérstaklega ef góðir vinir þeirra voru ekki með þeim í hóp. Þá hefur þessi skipting einnig orðið til þess að flækja samskipti milli vina og algengt var að börnin tækju fram að breytingar hafi orðið í vinahópi þeirra, þá voru jafnframt börn sem sögðust hafa misst marga vini og væru einmana. Þá hafi verið erfitt að vera í góðu sambandi við vini vegna samkomutakmarkana. Þetta var þó ekki algilt því mörg börn sögðu að þeim hafi tekist að halda góðum samskiptum við vini sína og þá hafi komið sér vel að geta nýtt samskiptaforrit á netinu.
Börnum fannst leiðinlegt að geta ekki hitt vini sína utan skóla og upplifðu sum þeirra að þau væru að missa af öllu félagslífi. Mun fleiri börn tóku hins vegar fram að þau hefðu ekki farið eftir reglum um hópaskiptingu og hitt alla vini sína eftir skóla en kom fram í frásögnum barna frá vorinu 2020. Fram kom að það væri tilgangslaust að skipta bekkjum upp í hópa þar sem þau hittist hvort sem er eftir að skóladegi líkur. Þau börn sem fóru eftir settum reglum nefndu að það hafi haft mikil áhrif á félagslíf þeirra þegar íþróttaæfingar voru felldar niður því þau eigi vini sem þau hitti aðeins á æfingum. Það hafði einnig mikil áhrif á krakka sem búa í dreifbýli þegar skólinn var lokaður þar sem þau hitta vini sína nánast aðeins í skólanum í sumum tilfellum.
Svör frá börnum
-
Þetta hefur haft mikil áhrif á mig þar sem ég hef ekki getað hitt langafa minn lengi. Hann er 91 ára og í áhættuhóp. Það er ekki langt síðan hann kom af sjúkrahúsi. Ég get ekki beðið þangað til að þetta lagast svo ég geti farið að hitta hann. Þess vegna verðum að passa okkur svo við getum klárað þetta. Halda tveggja metra reglu. Ef við gerum það öll klárum við þetta fyrr.
-
En eitt af því mestu sem skiptir máli hjá mér er fjölskyldan, mig langar að geta hitt ömmu mína og afa án þess að hafa samviskubit að ég sé að gera eitthvað af mér.
-
Þessir tímar eru skrítnir og maður má ekki vera mjög mikið með vinum nema ef þeir eru með þér í hóp annars má ekki vera saman ég var heppin að lenda með bff minni í hóp ekki allir eru svona heppnir.
-
Mér líður bara vel í skólanum ég hef góð samskiti við vini mína og líður vel heima og nýt bara þess að vera með fjölskyldunni minn þó mig langi stundum að fara að hitta vini mína.
-
Á þessum tímum hef ég verið mjög hrædd um að einhver í fjölskyldunni minni eða einhver fjölskylduvinur mun fá veiruna. Það hefur einnig verið mjög erfitt af því að næstum því öll fjölskyldan mín býr í Eistlandi og ég hef ekki hitt þau í næstum því 2 ár út af veirunni.
-
Þessir covid tímar eru búnir að vera hræðilegir hata þessa veiru meira en allt búin að skemma 2020 og svo olli hún svo miklum kvíða því pabbi minn er í miklum áhættuhóp og svo er ekki opið í ræktinni og liður best þar.
-
Það sem stressaði mig mest á árinu samt var þegar afi minn var greindur með krabbamein og svo þurfti hann að fara til Svíþjóðar sem var mjög stressandi af því að þá voru ennþá smit að koma upp og það vað líka mikið að gerast í Svíþjóð. Mamma og pabbi héldu samt vinnunni sinni þannig að veiran hafði ekki rosalega mikil áhrif á okkar fjölskyldu sem ég er svo óendalega þakklát fyrir.
-
Samskiptin eru fín en ég fæ samt ekki að hitta vini mína eins oft og áður því að nokkrir eru í hinum hópnum samt hitti ég þau alveg fyrir utan skólann alveg eins og áður.
5. Sóttvarnaraðgerðir
Töluvert var rætt um sóttvarnaraðgerðir og mikilvægi þess að fylgja reglum og að gera sitt besta því þannig ljúki þessu fyrr. Nokkur tilhlökkun var gagnvart því að bólusetningar myndu hefjast en börn voru einnig efins um það að bólusetningar næðu að vinna bug á veirunni og þau voru hrædd um að veiran kæmi til með að blossa upp aftur eftir nokkur ár eða þá að það komi annar sambærilegur faraldur. Fram kom að sprittið geri hendurnar þurrar og þá sé leiðinlegt að vera með grímur og að halda tveggja metra reglunni en gott að allir séu duglegir að þvo sér um hendur. Börn tóku fram að það væri leiðinlegt að fara í sýnatöku og óþægilegt að fá prik upp í nefið. Þá væri erfitt að vera í sóttkví en einnig kom fram að börn hafi átt góðan tíma í sóttkví, þau hafi spilað, bakað og horft á sjónvarp.
Mikið var fjallað um andlitsgrímur og fannst börnunum almennt óþægilegt að vera með þær. Fram kom að það væri erfiðara að anda með grímu þó væri þægilegra að vera með fjölnota grímur. Verst hafi verið að hafa grímur í íþróttum og það hafi munað miklu þegar þess þurfti ekki lengur. Þá væri mis erfitt fyrir börn að þurfa að vera með grímur, m.a. var tekið fram að það sé sérstaklega erfitt fyrir börn sem eru einhverf. Mörgum fannst skrítið að vera með grímu í skólanum og tóku fram að það væri truflandi að vera með grímur í prófum.
Svör frá börnum
-
Það skal ég segja þér að það var ROOOOOOOOSA leiðinlegt að vera inni í hálfan mánuð bara að leika mér með hundinum eða spila tölvuleiki.
-
Notum grímur, hlýðið þessum sóttvarnarlögum, þetta er ekki flókið meiri hlutinn á Íslandi ólst upp með lambhúshettu.
-
Þegar ég frétti að ég þyrfti að vera með grímu í skólanum þá varð ég spenntur að hafa grímu að því ég hafði aldrei notað grímur. En þegar ég var búinn að vera með venjulega grímu í einn dag þá var ég að gefast upp í alvörunni. Ég var að drepast en þá keypti ég mér margnota grímur, þær voru miklu þægilegri og betra að vera með þær.
-
Mér fannst náttúrulega verst af öllu í þessu covid að hafa grímurnar allstaðar nema á æfingum.
-
Það var verst í íþróttum finnst mér því að ég elska að hreyfa mig en við þurftum að vera úti og bara labba í skítakulda með grímurnar eins og gufubað fast við andlitið á okkur. Núna erum við ennþá með grímur en við megum taka þær af okkur í íþróttum.
-
Mér líður bara ágætlega í Covid en samt illa af því maður þarf að hafa grímur og spritta sig og halda reglu og eitthvað sem er pínu erfitt fyrir mig, en það er samt nauðsynlegt svo að þetta mun vonandi verða allt í lagi.