Barnasáttmálinn og réttindi barna

Barnvæn skýrsla umboðsmanns barna fyrir barnaþing 2023 

Inngangur

  • Umboðsmaður barna heldur barnaþing annað hvert ár. 
  • Niðurstöður barnaþings eru kynntar fyrir ríkisstjórn Íslands. 
  • Fyrir þingið á umboðsmaður barna að búa til skýrslu um stöðu og þróun í málefnum barna.

barnaþing 2022

Árið 2019 var fyrsta barnaþingið haldið. Þá bjó umboðsmaður barna til skýrslu um rétt barna til þátttöku. Í þeirri skýrslu er fjallað um hvað felist í þátttöku barna og hvaða tækifæri börn hafi til þátttöku bæði á vegum stjórnvalda og skóla.

Á öðru barnaþingi, sem haldið var 2022, eftir að hafa verið frestað vegna kórónuveirufaraldursins, bjó umboðsmaður til skýrslu um réttindi barna á tímum heimsfaraldurs mikilvægi Barnasáttmálans við þær aðstæður. Heimsfaraldurinn og sóttvarnaraðgerðir höfðu mikil áhrif á börn og þá kom í ljós hvað það er mikilvægt að það sé lagt mat á áhrif á börn þegar það á að taka ákvarðanir sem varða börn. Hluti af því mati er að börn fái tækifæri til þess að segja sína skoðun og hafi áhrif í samræmi við aldur og þroska.

Í þessari skýrslu verður fjallað um stöðu barna út frá þeim verkefnum sem umboðsmaður barna hefur unnið að á síðustu mánuðum og hvað þurfi að gera betur til þess að börn njóti þeirra réttinda sem þau eiga samkvæmt Barnasáttmálanum.

Simon-maage-tXiMrX3Gc-g-unsplash

Hlutverk umboðsmanns barna

Hlutverk umboðsmanns barna er að vinna að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Umboðsmaður barna setur til dæmis fram ábendingar og tillögur um hvað þurfi að gera betur í tengslum við réttindi barna á öllum sviðum samfélagsins.

Verkefni embættis umboðsmanns barna eru til dæmis að:

  • Hafa frumkvæði að umræðu um málefni barna
  • Veita börnum og fullorðnum fræðslu um Barnasáttmálann og passa að hann og aðrir samningar um réttindi og velferð barna séu virtir
  • Safna og deila upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna
  • Hjálpa börnum að taka þátt í umræðu og ákvarðanatöku í málefnum barna hjá ríkinu og sveitarfélögum

Réttindi barna

Barnasáttmálinn

Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á degi mannréttinda barna, þann 20. nóvember árið 1989. Barnasáttmálinn var fyrsti alþjóðasamninginn sem fjallar bara um réttindi barna og Barnasáttmálinn er sá mannréttindasamningur sem flest ríki heims hafa samþykkt.

Barnasáttmálinn varð að lögum á Íslandi árið 2013.

Í Barnasáttmálanum er lögð áhersla á að börn eigi sjálfstæð réttindi sem þurfi að tryggja og vernda, til dæmis réttinn til að lifa og þroskast, fá menntun og að leika sér. Öll ákvæði Barnasáttmálans eru jafn mikilvæg, en það þarf alltaf að muna eftir 2., 3., 6. og 12. grein þegar það er verið að skoða réttindi barna. Þær greinar Barnasáttmálans er oft kallaðar grundvallarreglurnar fjórar.

Geneva

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna

Barnaréttarnefndin hefur eftirlit með því að farið sé eftir Barnasáttmálanum og gefur líka leiðbeiningar um hvernig eigi að skilja Barnasáttmálann.

Mynd með skýrslu

Mat á því sem er barni fyrir bestu

3. grein: Þegar fullorðnir taka ákvarðanir eiga þeir að hugsa um hvaða áhrif þær hafa á börn og eiga að gera það sem er best fyrir börnin.

Barnaréttarnefndin hefur sagt að það þurfi að fara betur eftir 3. grein Barnasáttmálans á Íslandi.

Þegar það á að taka ákvörðun sem varðar börn þarf að meta hvaða áhrif þessi ákvörðun hefur á börnin áður en hún er tekin.

Til þess að auka þekkingu innan stjórnsýslunnar á 3. grein Barnasáttmálans og auðvelda starfsfólki að leggja mat á það sem er barni fyrir bestu hefur umboðsmaður barna gefið út leiðbeiningar um hvernig eigi að framkvæma mat þegar taka á ákvörðun sem tengist börnum. Leiðbeiningarnar eiga líka að tryggja að börn fái tækifæri til að tjá skoðanir sínar og hafa áhrif.

Könnun um Barnasáttmálann hjá stofnunum

Á tveggja ára fresti gerir umboðsmaður barna könnun sem á að sýna hvort og hvernig stjórnvöld séu að innleiða Barnasáttmálann. Könnunin var send á 152 stofnanir og 89 svöruðu. Það er til dæmis spurt hvort börn geti fengið upplýsingar sem þau skilja hjá stofnuninni en það voru bara 11% sem sögðust vera með texta sem börn skilja á vefsíðum sínum. Könnunin sýndi líka að ekki nógu margir starfsmenn hafa fengið fræðslu um réttindi barna og Barnasáttmálann en líka að stofnanir vilja að starfsfólkið fái þannig fræðslu.

barn að klifra í tré

Bið barna eftir þjónustu

Umboðsmanni barna finnst að börn eigi ekki að þurfa að bíða eftir að fá hjálp þegar þau þurfa á henni að halda. Til þess að allir viti hversu lengi börn þurfa að bíða birtir umboðsmaður barna upplýsingar um biðtíma á sex mánaða fresti.

Í Barnasáttmálanum segir að öll börn eigi rétt á að njóta bestu heilsu sem hægt er að tryggja og stjórnvöld eiga að leggja sig fram við að tryggja að ekkert barn fari á mis við þennan rétt sinn. Það á líka að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þess að ná eðlilegum þroska.

Barnaréttarnefndin hefur sagt að börn þurfi að bíða of lengi eftir að fá hjálp þegar þeim líður illa andlega og hefur sagt stjórnvöldum á Íslandi að þau þurfi að laga það.

Á barnaþingi árið 2019 og 2022 lögðu barnaþingmenn áherslu á að börn eigi að hafa greiðan aðgang að sálfræðingum og að börn þurfi ekki að bíða eftir þjónustu þeirra.

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna

Árið 2021 setti Alþingi lög sem eiga að skapa aðstæður til þess að hægt sé að hjálpa börnum þegar þau þurfa á hjálp að halda. Til þess að þetta sé hægt þarf að passa að það sé ekki bið eftir slíkri hjálp.

Jordan-whitt-FKBg2JNYFFc-unsplash_1699619065904

Samanburður á bið eftir þjónustu milli ára

Heilsuskólinn

Heilsuskólinn hjálpar börnum sem eru of þung og þeim sem hafa þyngst mikið á stuttum tíma. Í ágúst 2020 voru 110 börn að bíða eftir að fá hjálp frá Heilsuskólanum og þau þurftu að bíða í um 17 mánuði. Í ágúst 2023 biðu 125 börn og þau þurfa að bíða í um 21 mánuð.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins biðu 386 börn eftir að fá að fara til sálfræðings í ágúst 2023. Meðalbiðtími var 210 dagar og 305 börn höfðu beðið lengur en 90 daga.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu

Hér er um að ræða mál foreldrar eru ekki sammála um t.d. umgengni, skipta búsetu, forsjá, lögheimili eða utanlandsferðir. Foreldrar geta þurft að fara í sáttameðferð og ráðgjöf. Börn geta líka óskað eftir því að sýslumaður bjóði foreldrum á fund til þess að ræða um málefni barnsins. Í ágúst 2023 biðu 102 mál eftir sáttameðferð. Barnaréttarnefndin hefur sagt að fólk á Íslandi þurfi að bíða of lengi eftir meðferð fjölskyldumála.

Geðheilsumiðstöð barna

Sérfræðingar hjá Geðheilsumiðstöðinni greina hvort börn séu með geð- og þroskavanda t.d. einhverfu eða ofvirkni. Þar geta börn líka fengið aðstoð og ráðgjöf. Mjög mörg börn eru að bíða eftir greiningu hjá Geðheilsumiðstöðinni. Í ágúst 2023 biðu 1662 börn eftir þjónustu Geðheilsumiðstöðvar, þar af höfðu 1623 börn beðið lengur en þrjá mánuði.

Ráðgjafar- og greiningarstöð

Hlutverk Ráðgjafar- og greiningarstöðvar er að tryggja að börn með alvarlegar þroskaskerðingar sem leitt geta til fötlunar síðar á ævinni fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem bæta líf þeirra. Í ágúst 2023 biðu 322 börn á sviði yngri barna (0-6 ára) og meðalbiðtími var 17,6 mánuður, 284 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Það biðu 200 börn á sviði eldri barna (6-18 ára), meðalbiðtími í þeim aldurshópi var 16 mánuðir en 150 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði.

Barna og unglingageðdeild LSH (BUGL)

BUGL veitir börnum og unglingum hjálp vegna andlegra veikinda t.d. geð- og þroskaraskana. Í ágúst 2023 var meðalbiðtími 5,6 mánuðir og höfðu 42 börn beðið lengur en þrjá mánuði.

Kelly-sikkema-Npj_sWuRw68-unsplash_1699619065950

Barna- og fjölskyldustofa

MST er meðferðarúrræði á vegum Barna- og fjölskyldustofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda. Í september 2023 biðu 46 börn eftir þjónustu MST teymis og meðalbiðtími var 69 dagar. Þá höfðu 8 börn beðið lengur en þrjá mánuði.

Stuðlar eru meðferðarstöð fyrir börn og unglinga frá 12 til 18 ára, Stuðlar skiptast í þrjár deildir, neyðarvistun Stuðla, meðferðardeild Stuðla og stuðningsheimilið Fannafold. Í september 2023 biðu 5 börn eftir aðstoð meðferðardeildar Stuðla.

Bjargey er langtímameðferðarheimili á vegum Barna- og fjölskyldustofu sem er ætlað stúlkum og kynsegin börnum sem glíma við alvarlegra hegðunarerfiðleika og vímuefnaneyslu og þurfa meðferð vegna þess. Í september 2023 biðu tvö börn eftir plássi á Bjargey og meðalbiðtími var 69 dagar.

Styrkt fóstur er þegar þörf er fyrir sérstaka umönnun og þjálfun barns á fósturheimili í takmarkaðan tíma, að hámarki tvö ár. Gjarnan er um að ræða börn sem glíma við mikinn tilfinninga- og hegðunarvanda og geta ekki búið heima hjá sér eða á venjulegu fósturheimili. Í september 2023 biðu þrjú börn eftir því að komast í styrkt fóstur og meðalbiðtími var 13 dagar.

Í Barnahúsi fá börn sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi aðstoð. Í ágúst 2023 biðu 10 börn eftir aðstoð í Barnahúsi, þessi börn þurfa líklega að bíða í 113 til 174 daga.

Talmeinafræðingar

Í mörg ár hefur verið löng bið eftir því að börn geti komist að hjá talmeinafræðingum. Umboðsmaður barna hefur lagt áherslu á að börn eigi ekki að þurfa að bíða eftir þessari aðstoð og að það sé mikilvægt að stjórnvöld viti hvað mörg börn eru að bíða.

Ungmenni mynda stjörnu

Tækifæri barna til þess að leita réttar síns

Barnaréttarnefndin hefur sagt að börn eigi að geta kvartað þegar brotið er gegn réttindum þeirra. Til þess að það sé hægt þurfa börn að eiga raunverulegt aðgengi að þeim úrræðum. Nefndinni finnst mikilvægt að á Ísland sé hægt að taka á móti, rannsaka og taka á kvörtunum frá börnum á barnvænan hátt.

Barnaréttarnefndin hefur líka sagt að börn á Íslandi eigi að geta kvartað til nefndarinnar ef það er brotið gegn réttindum Barnasáttmálans á Íslandi. Það er hægt í þeim löndum þar sem þriðja valfrjálsa bókunin við Barnasáttmálann hefur tekið gildi en það er ekki hægt á Íslandi.

Stjórnvöld á Íslandi hafa sagt að þriðja valfrjálsa bókunin eigi að taka gildi á Íslandi fyrir árslok 2023 og að það eigi að passa að börn geti kvartað til barnaréttarnefndarinnar.

Réttindagæsla barna

Réttindagæsla barna er tilraunaverkefni til tveggja ára sem kom á fót barnvænu kvörtunarúrræði hjá umboðsmanni barna. Markmið verkefnisins er að börn geti leitað stuðnings og ráðgjafar hjá aðila sem aðstoðar þau við að leita réttar barns hjá stjórnvöldum telji þau brotið gegn réttindum þess.

Barnvæn réttarvarsla

Með barnvænni réttarvörslu er átt við að það þurfi sérstaklega að passa upp á réttindi barna þegar t.d. lögreglan eða dómstólar eru að tala við börn eða þurfa að hafa afskipti af börnum. Börn eiga að geta leitað réttar síns og tekið þátt í sínum málum.

Það er mikilvægt að réttarkerfið henti þörfum barna og að málsmeðferð sé þannig að tekið sé fullt tillit til aldurs barna og þroska, sem og getu þeirra til að skilja og taka þátt í réttarhöldum.

Réttarkerfið getur verið ógnvænlegt í augum barna og ekki síður flókið. Það eru til reglur sem segja stjórnvöldum hvað þau þurfi að gera til þess að gæta réttinda barna í tengslum við réttarkerfið. Reglurnar eiga við um allt mögulegt til dæmis hvernig dómarar og lögmenn eiga að vera klæddir og hvernig eigi að tala við börn.

Netið samfélagsmiðlar og börn

Barnaréttarnefndin hefur sagt að það sé mikilvægt að foreldrar og fagfólk sem vinnur með börnum fái fræðslu um réttindi barna á netinu. Það þurfi líka að fræða börn til þess að þau skilji betur hvernig þau geti passað upp á sig og réttindi sín á netinu t.d. hvort upplýsingar séu réttar, hvort það sé öruggt að deila upplýsingum um sig og margt fleira.

Leiðbeiningar um netið samfélagsmiðla og börn

Umboðsmaður barna, Persónuvernd og Fjölmiðlanefnd gáfu út leiðbeiningar um netið, samfélagsmiðla og börn vorið 2022. Leiðbeiningarnar er að finna á heimasíðu embættisins. Leiðbeiningarnar skiptast í þrennt. Þær eru fyrir foreldra, ábyrgðaraðila og starfsfólk í skóla- og frístundastarfi.

Mynd með skýrslu

Netið, samfélagsmiðlar og börn – leiðbeiningar til foreldra

Í leiðbeiningunum er til dæmis fjallað um hvað þurfi að passa þegar foreldrar deila myndum af börnum á samfélagsmiðum. Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs og persónuvernd á sama hátt og fullorðnir og eiga því sjálf að fá að hafa áhrif á hvað aðrir fá að vita um þau.

Vernd barna í stafrænu umhverfi – leiðbeiningar til ábyrgðaraðila

Í leiðbeiningum til ábyrgðaraðila er til dæmis fjallað um þær reglur sem gilda um samþykki fyrir vinnslu persónuupplýsinga og hvort börn og unglingar geti veitt slíkt samþykki. Það er líka fjallað um réttinn til að gleymast. Allir eiga í vissum tilvikum rétt á því að persónuupplýsingum um þá sé eytt, t.d. ef upplýsingarnar eru ekki lengur nauðsynlegar. Börn eiga þennan rétt á sama hátt á fullorðnir.

Leiðbeiningar fyrir starfsfólk skóla-,frístunda-,íþrótta- og tómstundastarfs barna

Starfsfólk skóla, frístundaheimila, íþróttafélaga, tónlistarskóla og aðrir sem vinna með börnum þurfa að þekkja réttindi barna. Í leiðbeiningunum er til dæmis farið yfir hvernig grunnskólar megi skrá upplýsingar um nemendur og hvenær megi birta myndir af þeim.

Strákur situr á tröppu

Símar í skólum

Umboðsmaður barna hefur lagt áherslu á að nemendur taki þátt í að búa til reglur um síma í skólum.

Í skólareglum ætti að koma fram hvaða reglur gildi um síma og önnur snjalltæki á skólatíma. Skólar geta ákveðið að banna alfarið slík tæki, ef þeir telja það nemendum fyrir bestu. Ef nemendur fara ekki eftir reglunum á að fara eftir skólareglunum og það má venjulega ekki taka síma af nemendum án þeirra samþykkis.

Í október 2023 gerði umboðsmaður barna könnun meðal allra grunnskóla á landinu þar sem spurt var um reglur varðandi síma í skólum. Af þeim 89 skólum sem svöruðu könnuninni voru reglur um símanotkun í 86 skólum og nemendur höfðu tekið þátt í að semja reglurnar í 49 skólum. Spurt var að því hvort símar væru leyfðir í skólanum og svöruðu 48 að svo væri. Það er algengara að 8. – 10. bekkur hafi leyfi til þess að nota síma á skólatíma og var það heimilt í 45 skólum. Í aðeins 14 skólum eru símar leyfðir fyrir nemendur í 1. – 7. bekk.

Árið 2022 gerði Menntavísindastofnun könnun um börn og netmiðla fyrir Fjölmiðlanefnd í 23 grunnskólum og 23 framhaldsskólum. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eiga næstum öll börn á aldrinum 9 – 18 ára farsíma. Í 4. – 7. bekk svöruðu 95% nemenda að þau ættu farsíma, í 8. – 10. bekk voru það 98% og 100% nemenda í framhaldsskólum. Aðeins 3% af 9‐12 ára börnum (4.‐7. bekk) sögðust ekki eiga eigin farsíma.

Í niðurstöðum rannsóknar sem framkvæmd var af Rannsókn og greiningu árið 2022 meðal nemenda í 8.,9. og 10. bekk kom fram að 58% stelpna og 55% stráka í 10. bekk verji þremur klukkustundum eða meira á samfélagsmiðlum á dag.

Þátttaka barna

12. gr. Börn eiga rétt á því að tjá sig um öll málefni sem hafa áhrif á líf þeirra. Fullorðnir eiga að hlusta og taka mark á þeim.

Umboðsmaður barna leggur mikla áherslu á rétt barna til þess að tjá sig og hafa áhrif. Um það er fjallað í 12. grein Barnasáttmálans. Börn vita mest um það hvað skiptir þau máli og hvernig þau vilja hafa hlutina. Umboðsmaður á að leita til barna og hafa hóp barna sem veitir honum ráðgjöf. Það er ráðgjafarhópur umboðsmanns barna sem gerir það. Hópurinn var stofnaður árið 2009 og mörg börn á aldrinum 12 – 17 ára hafa tekið þátt í hópnum. Umboðsmaður barna heldur líka barnaþing annað hvert ár. Barnaþing var fyrst haldið 2019, 500 börn á aldrinum 11 – 15 ára fengu boð á barnaþing og af þeim mættu 153 börn. Á þinginu voru börn beðin um að segja hvað þeim fyndist mikilvægast. Annað barnaþingið var haldið 2022 og þá mættu um 113 börn. Fyrir þingið voru börnin beðin um að kjósa um þrjá málaflokka sem yrðu talað um á barnaþingi. Þau kusu mannréttindi, mennta- og skólamál og umhverfismál. Niðurstöður barnaþings eru kynntar fyrir ríkisstjórninni.

Mynd með frétt

Réttur barna til þess að fá upplýsingar, tjá sig og hafa áhrif

Börn eiga að fá upplýsingar sem þau skilja, tækifæri til þess að tjá sína skoðun og hafa áhrif þegar taka á ákvarðanir sem hafa áhrif á þau. Umboðsmaður barna hefur oft bent á að það hafi ekki verið passað upp á þetta þegar ákvarðanir hafa verið teknar sem hafa mikil áhrif á börn til dæmis þegar ákvörðun var tekin um að stytta framhaldsskóla og breyta einkunnakerfi grunnskóla. Það þarf að passa að börn hafi margar og mismunandi leiðir til þess að tjá sínar skoðanir og hafa áhrif.

Ungmennaráð

Flest sveitarfélög eru með ungmennaráð og mörg þeirra fá að hafa raunveruleg áhrif á ákvarðanir sem sveitarfélagið tekur. Umboðsmaður barna hefur lagt áherslu á það að í ungmennaráðum eigi að vera börn undir 18 ára aldri, ástæðan fyrir því er sú að þau eru ekki með rétt til þess að kjósa og hafa þess vegna færri tækifæri til þess að hafa áhrif á sveitarfélagið sitt.

Enoc-2022-svandis-radgjafarhopur

Ungmennaráð heimsmarkmiðanna

Forsætisráðherra stofnaði ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna árið 2018, umboðsmaður barna sér um starf hópsins. Ungmennaráðið vekur athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, bæði meðal barna og fullorðinna. Í ungmennaráðinu eru tólf börn frá mismunandi stöðum á landinu.

Ráðið á að vera lifandi vettvangur þar sem heimsmarkmiðin og Barnasáttmálinn eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti. Börnum og ungmennum er með þessum hætti gefinn vettvangur til að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica