Skráning fullorðinna á barnaþing
Hér eru hlekkir á skráningu fyrir fullorðna. Athugið að vegna sóttvarna þá er eindregið mælst til þess að allir fullorðnir fari í hraðpróf fyrir viðburðinn. Hægt er að fara í hraðpróf í Hörpu.
Hlekkir á skráningu:
Fullorðnir verða að fara í hraðpróf fyrir viðburð. Grímuskylda á staðnum fyrir fullorðna
Nánari upplýsingar
Dagana 18. og 19. nóvember næstkomandi verður haldið þing um málefni barna, barnaþing, og óskar embætti umboðsmanns barna eftir þátttöku þinni eða fulltrúa stofnunarinnar/félagsins. Barnaþingið er nú haldið í annað sinn en samkvæmt lögum um umboðsmann barna er honum falið að halda þing um málefni barna á tveggja ára fresti. Barnaþing er öflugur vettvangur fyrir samtal og samráð um málefni barna til framtíðar. Verndari barnaþings er frú Vigdís Finnbogadóttir.
Börnin sem taka þátt á þinginu voru valin með slembivali úr þjóðskrá en um 160 börn er að ræða af öllu landinu með fjölbreytta reynslu og bakgrunn. Gert er ráð fyrir þátttöku alþingismanna, fulltrúa stofnana ríkis og sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem vinna að málefnum barna. Niðurstöður og ályktanir þingsins verða kynntar ríkisstjórn og er ætlað að verða hluti af samræmdri og markvissri stefnu í málefnum barna. Boðið verður upp á lifandi dagskrá með virkri þátttöku barna og fullorðinna.
Dagskráin hefst klukkan 15:00 þann 18. nóvember með setningarathöfn í Norðurljósasal Hörpu og verður boðið upp á lifandi dagskrá með virkri þátttöku barna og fullorðinna. Áætlað er að setningarathöfninni ljúki um kl. 16:00 með kaffiveitingum.
Þann 19. nóvember fara fram umræður með þjóðfundarfyrirkomulagi í Silfurbergi í Hörpu. Börnin hefja umræðuna um morguninn á vinnuborðum en strax eftir hádegi mæta fullorðnir boðsgestir til að taka þátt í áframhaldandi umræðu um þau umfjöllunarefni sem börnin hafa valið. Gert er ráð fyrir að fullorðnir gestir mæti klukkan 13:00 þann 19. nóvember og taka skráðir gestir fullan þátt í umræðu á vinnuborðum með börnum frá kl. 13:20 þann dag. Dagskránni lýkur um klukkan 16:00 með léttum veitingum.
Ljóst er að færri munu komast að en vilja, enda um einstakt tækifæri að ræða, en fjöldi sæta er takmarkaður. Skráning fyrir þjóðfundinn er nauðsynleg. Skráningarfrestur fyrir báða viðburði er til og með 15. nóvember nk.