Álitaefni barnaréttarnefndarinnar um framkvæmd Barnasáttmálans

Listi barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna yfir álitaefni í tengslum við fimmtu og sjöttu skýrslu íslenska ríkisins um framkvæmd Barnasáttmálans. Í listanum eru tilgreind atriði sem barnaréttarnefndin vill fá upplýsingar um. Einnig eru atriði sem óskað er eftir nánari skýringum eða gögnum. 

Barnaréttarnefndin veitti íslenska ríkinu frest til 15. júní 2021 til þess að skila svörum. Listi nefnarinnar er hér birtur í lauslegri þýðingu.

Fyrsti hluti

Óskað er eftir upplýsingum um;

a) Aðgerðaáætlun til fjögurra ára þar sem sett er fram stefna ríkisins, framtíðarsýn og markmið í málefnum barna, þar sem fram kemur hvaða mannafla er gert ráð fyrir auk fjármagns og annarra innviða, hvernig innleiða á þá stefnu og samstarf við sveitarfélögin og borgarasamfélagið.

b) Stjórnsýslulegt samband félagsmálaráðuneytis og Barnaverndarstofu auk upplýsinga um hlutverk og umboð stofunnar

c) Aðgerðir sem gripið hefur verið til í því skyni að tryggja réttindi barna á tímum kórónuveirunnar til þess að draga úr neikvæðum áhrifum heimsfaraldursins.

1. Óskað er eftir upplýsingum um:

Grundvöll þeirrar ákvörðunar að setja ekki á fót skilvirkt og varanlegt kerfi fyrir söfnun, vinnslu og mat á gögnum um innleiðingu Barnasáttmálans á öllum sviððum sem han tekur til.

Upplýsinga er óskað um hvernig íslenska ríkið ætlar að tryggja samhæfingu og samstarf um öflun upplýsinga um réttindi barna milli Hagstofunnar, umboðsmanns barna og embættis landlæknis.

2. Óskað er eftir upplýsingum um:

a) Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í því skyni að vinna á þeim erfiðleikum sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga stendur frammi fyrir í því verkefni að jafna útgjaldaþörf sveitarfélaga.

b) Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til og sem miða að því að tryggja gæði þjónustu sem veitt er börnum á vettvangi sveitarfélaga til þess að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli búsetu.

c) Hvort vísa megi barni af erlendum uppruna á brott sem fætt er á íslandi.

4) Óskað er upplýsinga um:

a) Barnaþing, þ.m.t. þátttöku barna og hvernig tekið var tillit til sjónarmiða þeirra.

b) Hlutfall barna úr mismunandi aldurshópum í ungmennaráðum sveitarfélaga, ráðgjafahópi umboðsmanns barna, ráðgjafahópi Menntamálastofnunar og ungmennaráði heimsmarkmiðanna.

c) Setningu reglugerðar um starf, hlutverk og umboð ungmennaráða

5. Óskað er eftir upplýsingum um:

a) Helstu áherslur á barnavernd í aðgerðaáætlun gegn ofbeldi fyrir árið 2019-2022

b) Innleiðingu samstarfsyfirlýsingar ráðherra mennta- dóms og félagsmála frá 2017 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, sérstaklega hvað varðar aðgerðir um ofbeldi gegn börnum.

c) Aðgerðir sem miða að aukningu tilkynning um kynferðislegt ofbeldi og misneytingu barna og til að tryggja öfluga og hraða rannsókn og meðferð slíkra mála.

d) Hvort fyrir liggi upplýsingar um að aukinn fjölda mála þar sem börn verða fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu jafnaldra, og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til vegna þess.

e) Aðgerðir sem gripið hefur verið til í því skyni að auka þekkingu og meðvitund um umskurð drengja

(f) Hvernig er verið að framfylgja ákvæðum um skyldubundna sáttameðferð í ágreiningsmálum foreldra hjá sýslumannsembættum, í málum þar sem heimilisofbeldi hefur átt sér stað, og hvernig farið er eftir meginreglunni um bestu hagsmuni barns í slíkum málum.

g) Aðgerðir sem gripið hefur verið til í því skyni að létta vinnuálagi hjá barnaverndarnefndum sveitarfélaga.

6. Upplýsinga er óskað um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í því skyni að stytta biðlista eftir meðferð fjölskyldumála hjá sýslumannsembættum og til að tryggja stuðning við foreldra í þessari stöðu í nærumhverfi þeirra.

Einnig er óskað eftir upplýsingum um kannanir á afdrifum og líðan barna eftir vistun utan heimilis sem barnaréttarnefndin gaf íslenska ríkinu tilmæli um árið 2011.

7. Hvernig lög um ófrjósemisaðgerðir, nr. 23/2019, sem heimila framkvæmd ófrjósemisaðgerða á börnum, tryggja að réttur barna til þátttöku sé virtur sem og meginreglan um að taka eigi ákvarðanir sem varða börn byggðar á því sem er þeim fyrir bestu.

Til hvaða aðgerða hefur verið gripið vegna hrakandi andlegrar heilsu barna, til að tryggja tímanlegt aðgengi að fagaðilum og þjónustu í nærumhverfi, þ.m.t. í grunn- og framhaldsskólum.

Upplýsinga er óskað um aukningu í ávísunum lyfja til barna, þ.m.t. svefnlyfja og lyfja sem ávísað er vegna þunglyndis, kvíða og ADHD. Einnig er óskað eftir skýringum á aldurstakmörkunum sem takmarka aðgang barna að kynheilbrigðisþjónustu.

8. Upplýsinga er óskað um helstu niðurstöður skýrslu um lífskjör og fátækt barna á árunum 2014-2016 og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á því sviði. Þess er óskað að íslenska ríkið veiti nánari upplýsingar um það sem fram kemur í skýrslu þess um að það sé „mikil áskorun að gera barnabótakerfið markvissara gagnvart fjölskyldum með lágar tekjur, jafnframt því að bæta kjör þeirra barnafjölskyldna sem lægstar tekjur hafa.“

9. Upplýsinga er óskað um eftirfarandi atriði:

a) Aðgerðir sem gripið hefur verið til í því skyni að minnka fjölda barna sem er að kljást við skólaforðun og brotthvarf þeirra á framhaldsskólastigi, þ.m.t. börn af erlendum uppruna.

b) Aðgerðir sem miða að því að tryggja viðeigandi menntun starfsfólks í skóla um framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar.

c). Aðgerðir sem miða að því að bæta námsárangur í læsi, stærðfræði og vísindalæsi nemenda.

d) Hvernig aðalnámsskrá grunnskóla, og þá sérstaklega hvað varðar upplýsingatækni, fjallar um vernd barna gegn stafrænu ofbeldi, þ.m.t. einelti og kynferðislegu ofbeldi og misneytingu

10. Upplýsinga er óskað um aðgerðir sem gripið hefur verið til og sem miða að því að samræma lágmarksaldur barna á vinnumarkaði við útskriftaraldur barna úr grunnskóla og aðgerðir sem gripið hefur verið til og sem miða að því að tryggja vern barna gegn skaðlegu vinnuumhverfi og óviðeigandi vinnuaðstæðum.

11. Upplýsinga er óskað um innleiðingu réttinda barna í aðgerðaáætlun gegn mansali og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til og sem miða að því að tryggja öfluga rannsókn og saksókn slíkra mála.

12. Upplýsinga er óskað um aðgerðir sem lúta að eftirfarandi:

a) Að tryggja að börn sem eru þolendur kynferðislegrar misneytingar s.s. vændi séu ekki sótt til saka.

b) Að tryggja að börn á aldrinum 15 til 18 ára séu vernduð gegn kynferðislegri misneytingu.

c) Hvernig lögaðilar eru látnir axla ábyrgð á brotum gegn 3(1) grein bókunar við Barnasáttmálann um sölu á börnum, barnavændi og barnaklám.

13. Með vísan til upplýsinga sem íslenska ríkið hefur veitt nefndinni um umsóknir barna um alþjóðlega vernd, er skýringa óskað um stöðu umsókna, sem hafa hvorki verið samþykktar né verið hafnað. Upplýsinga er jafnframt óskað um úttekt dómsmálaráðuneytisins á málsmeðferð og ferli umsókna barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi.

14. Upplýsinga er óskað um aðgerðir sem gripið hefur verið til og varða:

a) Greiningu á því í hvaða tilvikum börn af erlendum uppruna hafa upplifað vopnuð átök og hvernig þeim börnum er tryggður stuðningur.

b) Hvort löggjöfin leggi afdráttarlaust bann við því að börn séu fengin til liðs við vopnaða hópa sem og beinni þátttöku þeirra í slíkum átökum.

c) Hvernig löggjöfin leggi afdráttarlaust bann við brotum á bókuninni við Barnasáttmálann um þátttöku barna í vopnuðum átökum.

d) Hvort tryggt hafi verið að bókun við Barnasáttmálann um þátttöku barna í vopnuðum átökum sé beitt vegna brota gegn ákvæðum bókunarinnar sem framin eru af eða gegn einstaklingi sem er ríkisborgari eða hefur önnur tengsl við íslenska ríkið.

Annar hluti

15. Nefndin býður íslenska ríkinu að veita nýjustu upplýsingar um atriði sem fram komu í skýrslu ríkisins um framkvæmd barnasáttmálans um:

a) Nýja löggjöf, frumvörp eða reglugerðir.

b) Nýjar stofnanir (og hlutverk þeirra) eða breytingar á stofnanaumhverfi ef við á.

c) Nýjar stefnur, aðgerðaaáætlanir og gildissvið þeirra og fjárveitingar til slíkra verkefna.

d) Nýlega fullgiltir alþjóðasamningar á sviði mannréttinda

III hluti tölfræði, gögn og aðrar upplýsingar

16. Upplýsinga er óskað um hlutdeild félagslegrar þjónustu við börn í fjárlögum ríkisins síðustu þrjú ár og hlutfall slíkra fjárveitinga af fjárlögum ríkisins og vergri landsframleiðslu. Einnig er óskað upplýsinga um landfræðilega dreifingu við úthlutun fjármagns.

17. Óskað er eftir nýjustu tölfræðiupplýsingum sem völ er á og sem taka til síðustu þriggja ára, flokkaðar eftir aldri, kyni, uppruna, búsetu og félagshagfræðilegri stöðu, um eftirfarandi:

a) Fjölda mála vegna kynferðislegs ofbeldis gegn börnum, annars ofbeldis og vanrækslu, og fjölda rannsókna og saksókna í slíkum málum og fjölda dóma.

b) Fjöldi framkvæmdra umskurða, á heilbrigðisstofnunum, sem og annars staðar

c) Fjöldi barna sem eru þolendur mansals, vændis, kynferðislegrar misneytingar við framleiðslu kynferðislegs efnis og fjöldi rannsókna, saksókna og dóma í slíkum málum.

18. Upplýsinga er óskað, sundurliðaðar eftir aldri, kyni, uppruna, búsetu og félagshagfræðilegri stöðua, um þann fjölda barna sem eru:

a) Aðskilin frá foreldrum.

b) Búa hjá ættingjum.

c) Eru vistuð á stofnunum.

d) Eru í námi í framhaldsskólum.

e) Eru við nám í sérskólum.

f) Eru utan skóla.

g) Hafa verið yfirgefin af fjölskyldum sínum.

19. Upplýsinga er óskað fyrir þrjú síðustu ár, sundurliðaðar eftir aldri, kyni, tegund fötlunar, uppruna, búsetu og félagshagfræðilegri stöðu, um fjölda fatlaðra barna sem:

a) Búa með fjölskyldu sinni.

b) Búa á stofnun.

c) Ganga í hefðbundna grunnskóla.

d) Ganga í hefðbundna framhaldsskóla.

e) Ganga í sérskóla.

f) Eru utan skóla.

g) Hafa verið yfirgefin af fjölskyldum sínum.

20. Upplýsinga er óskað fyrir sex síðustu ár, sundurliðaðar eftir aldri, kyni og uppruna, um þann fjölda barna sem tengjast ákvörðunum um brottvísun og þann fjölda barna sem hefur verið vísað úr landi.

21. Upplýsinga er óskað fyrir þrjú síðustu árin, ef þær eru aðgengilegar, sundurliðaðar eftir aldri, kyni, tegund brota, uppruna, búsetu og félagshagfræðilegri stöðu, um börn sem:

a) Hafa verið handtekin

b) Afplána dóma á meðferðarheimili

c) Hafa verið hneppt í gæsluvarðhald

d) Afplána fangelsisdóma í fangelsi (upplýsinga er óskað um lengd dóma í slíkum tilvikum)

22. Upplýsinga er óskað um undirbúning, innleiðingu og eftirlit með framkvæmd aðgerða sem miða að því að uppfylla Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, með barnréttindamiðaðri nálgun og söfnun gagna, og hvernig þær aðgerðir miða að því að tryggja réttindi barna samkvæmt Barnasáttmálanum og bókunum við hann.

23. Upplýsinga er óskað um breytingar á þeim upplýsingum og gögnum sem sett voru fram í skýrslu ríkisins um framkvæmd Barnasáttmálans og nýja þróun á þessu sviði sem og um ný gögn og nýjar upplýsingar.

24. Auk þess er íslenska ríkið beðið um að greina frá þeim málefnum barna sem ríkið telur vera í forgangi við framkvæmd Barnasáttmálans.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica