Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Ársskýrslur

Ársskýrsla umboðsmanns barna 2014

Hér er birt óuppsett ársskýrsla umboðsmanns barna fyrir árið 2014.

Uppsetta ársskýrslu (PDF) með myndum má skoða með því að smella hér á vef umboðsmanns barna.

 

Ársskýrsla umboðsmanns barna 2014

 

Til forsætisráðherra

Í samræmi við 8. gr. laga nr. 83/1994 um umboðsmann barna hef ég látið taka saman skýrslu þessa um starfsemi embættisins.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna varð 25 ára hinn 20. nóvember 2014 og var haldið upp á afmælið með viðeigandi hætti. Boðið var í afmælisveislu í Laugalækjarskóla og mættu nemendur og starfsfólk skólans ásamt þingmönnum, ráðherrum og öðru áhugafólki um Barnasáttmálann. Í veislunni skrifuðu fulltrúar allra þingflokka undir yfirlýsingu um að þeir yrðu talsmenn barna á Alþingi. Starfsárið litaðist að nokkru af afmælinu og var Barnasáttmálinn í sérstökum forgrunni í nokkrum málum, enda er ætlunin að halda merkjum sáttmálans sérstaklega á lofti allt afmælisárið, þ.e. fram í nóvember 2015. Má nefna að farið var af stað með samstarfsverkefni við að útbúa verkfærakistu fyrir sveitarfélögin til að auðvelda sveitarfélögum að innleiða sáttmálann. Einnig gaf embættið út veggspjaldið „Barnasáttmálinn í myndum“ og leiðbeiningar með því, í þeim tilgangi að fræða yngstu börnin um réttindi sín samkvæmt sáttmálanum. Loks var farið að kanna hvaða möguleika börn hefðu til að sækja rétt sinn hjá ólíkum aðilum innan stjórnkerfisins án aðstoðar foreldra sinna, í tengslum við þriðju valfrjálsu bókunina við Barnasáttmálann sem Ísland hefur enn hvorki skrifað undir né fullgilt.

Starfsárið 2014 var að mínu mati óvenjulega viðburðaríkt og mörg stór og flókin álitamál komu til meðferðar embættisins. Um sum þeirra var ítarlega fjallað í fjölmiðlum. Má þar nefna kuðungsígræðslu, skapabarmaaðgerðir á stúlkubörnum, stöðu barnafjölskyldna á leigumarkaði, símanotkun í skólum, börn sem hafa brotið af sér, nafnabreytingu barna, sérfræðihóp barna sem eiga foreldra sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda, ofbeldi á leikskóla og margt fleira.

Að lokum vill umboðsmaður barna þakka nemendum í Reykjahlíðarskóla fyrir þá vinnu sem þeir lögðu í að búa til listaverk sem birtast í eftirfarandi skýrslu.

 

Reykjavík, 22. apríl 2015,

 

Margrét María Sigurðardóttir

 


 

STARFSEMI EMBÆTTISINS

Hlutverk umboðsmanns barna

 

Í lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 er umboðsmanni barna falið það mikilvæga hlutverk að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Umboðsmaður barna skal vinna að því að tekið sé fullt tillit til barna á öllum sviðum samfélagsins, jafnt hjá opinberum aðilum sem og einkaaðilum, og bregðast við ef brotið er á réttindum þeirra. Umboðsmaður barna á að hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu um málefni barna. Þá er embættinu ætlað að koma með ábendingar og tillögur um það sem betur má fara í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem varða málefni barna. Einnig felst í hlutverki umboðsmanns að kynna almenningi þá löggjöf sem varðar börn sérstaklega.

Umboðsmanni barna er ekki ætlað að taka til meðferðar ágreining milli einstaklinga. Honum er þó skylt að leiðbeina þeim sem til hans leita með slík mál og benda á hvaða leiðir eru færar innan stjórnsýslunnar og hjá dómstólum.

Starfsfólk umboðsmanns barna

Margrét María Sigurðardóttir hefur gegnt starfi umboðsmanns barna frá 1. júlí 2007. Auk hennar starfa við embættið þrír starfsmenn, þau Auður Kristín Árnadóttir, Eðvald Einar Stefánsson og Elísabet Gísladóttir. Þá voru þrír háskólanemar í starfsnámi hjá umboðsmanni barna á árinu, þ.e. nemi í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands, nemi í lagadeild frá Háskólanum í Reykjavík og nemi í lögfræði frá Þýskalandi.

Erindi

Dagleg störf á skrifstofu umboðsmanns barna mótast mikið af þeim erindum sem embættinu berast. Erindin eru af margvíslegum toga og eru það ýmist einstaklingar, stofnanir, félagasamtök eða fjölmiðlar sem leita til umboðsmanns barna og óska eftir upplýsingum eða ráðgjöf varðandi málefni barna. Einnig berast þó nokkur erindi frá nemendum í grunn-, framhalds- og háskólum þar sem leitað er svara við ýmsu sem snertir réttindi barna og Barnasáttmálann. Málaflokkarnir eru margir og fjölbreytilegir enda koma hagsmunir barna við sögu á flestum sviðum samfélagsins. Ákveðnir málaflokkar eru þó meira áberandi en aðrir og ber þar helst að nefna forsjár- og umgengnismál, meðlagsmál, skólamál, barnaverndarmál og heilbrigðismál.

Eins og áður hefur verið minnst á er umboðsmanni barna ekki ætlað að taka til meðferðar ágreining milli einstaklinga eða mál einstaklinga sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum eða dómstólum. Fjöldi erinda sem embættinu berast varðar þó slík mál. Umboðsmaður barna kappkostar að veita þeim einstaklingum sem leita til hans greinargóðar upplýsingar, leiðbeiningar og ráð eins og unnt er hverju sinni.

Á árinu 2014 barst alls 1.471 erindi til umboðsmanns barna, þar af 904 munnleg erindi og 567 skrifleg erindi. Þar af voru 129 formleg erindi sem bárust frá börnum; 63 munnleg og 66 skrifleg. Auk þess fékk umboðsmaður barna fjölmargar spurningar frá börnum í tengslum við kynningar og heimsóknir. Með munnlegum erindum er átt við öll símtöl sem berast embættinu og viðtöl við einstaklinga sem eiga sér stað á skrifstofu þess. Með skriflegum erindum er átt við allar fyrirspurnir og erindi sem varða ákveðið barn eða hóp barna. Þar að auki berast umboðsmanni barna reglulega ýmiss konar ábendingar, upplýsingar og boð á viðburði.

Samskipti við börn

Frá því að embætti umboðsmanns barna var stofnað hefur verið lögð rík áhersla á að ná til barna og unglinga til þess að fræða þau og ræða um réttindi þeirra. Einnig leggur umboðsmaður barna áherslu á að heyra skoðanir barna og sjónarmið og fá ábendingar um það sem betur mætti fara. Mikilvægt er fyrir embætti sem vinnur í þágu barna að aðgengi fyrir börn sé tryggt og að þau geti á einfaldan hátt leitað til umboðsmanns barna með erindi og fengið upplýsingar um réttindi sín. Er því ávallt reynt eftir fremsta megni að svara þeim börnum sem leita til embættisins eins fljótt og hægt er. Börn sem leita til embættisins geta rætt við umboðsmann barna eða aðra starfsmenn embættisins í fullum trúnaði. Starfsmenn embættisins eru þó bundnir af reglum barnaverndarlaga nr. 80/2002 um tilkynningaskyldu með sama hætti og aðrir þjóðfélagsþegnar.

Stór hluti erinda frá börnum berst í gegnum vefsíðu umboðsmanns barna, www.barn.is, annaðhvort í fyrirspurnarformi eða undir liðnum spurt og svarað. Þegar erindi berst eftir síðari leiðinni getur viðkomandi barn ráðið því hvort svar við því birtist á vefsíðunni eða hvort það fær sent persónulegt svar á netfang sitt. Ekki er gerð krafa um að börn gefi upp nafn eða aðrar persónulegar upplýsingar. Ýmis svör við spurningum sem borist hafa frá börnum og unglingum er hægt að lesa á barna- og unglingasíðu embættisins. Einnig er algengt að börn sendi tölvupóst á netfangið ub@barn.is. Á síðustu árum hefur það færst í aukana að börn komi á skrifstofu umboðsmanns og óski eftir upplýsingum og aðstoð og er hugsanleg skýring sú að umboðsmaður hefur flutt skrifstofuna sína. Umboðsmaður barna hefur leitast við að vera með húsnæði sem hentar börnum, auk þess sem skrifstofan er nú vel merkt og í umhverfi þar sem börn venja komur sínar.

Umboðsmaður barna leitast einnig við að eiga samskipti við börn með öðrum hætti, t.d. með því að fara í heimsóknir og halda kynningar fyrir skóla, frístundaheimili og ungmennaráð. Á árinu 2014 hitti umboðsmaður og starfsfólk hans hátt í 2.000 börn á öllum aldri og ræddi við þau um réttindi og hagsmunamál þeirra. Umboðsmaður barna er einnig með sérstakan ráðgjafarhóp sem hann hittir einu sinni í mánuði, en þar eiga sæti unglingar á aldrinum 13 til 18 ára. Nánar er fjallað um ráðgjafarhópinn síðar.

Vefur umboðsmanns barna

Vefsíðu embættisins, www.barn.is, er ætlað að vera almennur gagnagrunnur um réttindi og ábyrgð barna og hvaðeina sem varðar hagsmuni þeirra. Heimasíðan skiptist í tvo hluta, þ.e. aðalsíðu og barna- og unglingasíðu.

Á aðalsíðunni má finna upplýsingar um starfsemi embættisins, fréttir og umsagnir. Þar eru einnig margvíslegar upplýsingar um réttindi barna, þau lög og reglur sem gilda um hina ýmsu málaflokka og upplýsingar um stofnanir og samtök sem koma að málefnum barna.

Barna- og unglingasíðunni er ætlað að veita börnum og unglingum upplýsingar og ráðgjöf um réttindi sín á einfaldan og aðgengilegan hátt. Á síðunni er auk þess að finna upplýsingar um mismunandi málaflokka og leiðbeiningar um hvert hægt sé að leita til að fá frekari aðstoð. Síðan er jafnframt vettvangur fyrir börn og unglinga til þess að koma skoðunum sínum á framfæri, en þar geta þau sent inn ábendingar eða fyrirspurnir til umboðsmanns barna eins og áður segir.

Á árinu 2013 hófst vinna við gerð nýrrar vefsíðu. Í apríl 2014 opnaði umboðsmaður barna nýjan vef í nýju vefumsjónarkerfi sem tekur mið af mismunandi skjástærð notenda. Áhersla var lögð á skýra framsetningu og gott aðgengi, auk þess sem allur texti á vefnum var endurskoðaður. Eins og áður er vefurinn tvískiptur, þar sem annar hlutinn er ætlaður fullorðnum en hinn börnum og unglingum. Þórey Mjallhvít Ómarsdóttir teiknaði myndirnar á vefnum. Haldið var áfram að þróa vefinn á árinu 2014. 

Verkefni umboðsmanns barna

Lög um umboðsmann barna nr. 83/1994 kveða á um lögbundin verkefni embættisins. Hins vegar ræðst starfsemin að nokkru leyti af þeim erindum sem berast embættinu, eins og þegar hefur verið tekið fram. Einnig getur umboðsmaður tekið mál til skoðunar að eigin frumkvæði og komið með tillögur til úrbóta á réttarreglum og fyrirmælum stjórnvalda er varða börn sérstaklega. Umboðsmaður barna skal einnig stuðla að því að þjóðréttarsamningar sem Ísland er aðili að, og snerta réttindi og velferð barna, séu virtir. Á það fyrst og fremst við um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem í daglegu tali er nefndur Barnasáttmálinn, en hann er mikilvæg stoð fyrir allt starf embættisins. Á ári hverju sinnir umboðsmaður barna fjölmörgum erindum og verkefnum sem snerta mörg svið þjóðfélagsins. Ekki er hægt að gera grein fyrir öllu því sem umboðsmaður fæst við með tæmandi hætti í skýrslu sem þessari. Verður því aðeins leitast við að gera grein fyrir helstu verkefnum embættisins á árinu.

Kynning á réttindum barna

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 3. gr. laga um umboðsmann barna nr. 83/1994 skal embættið stuðla að því að kynna fyrir almenningi löggjöf og aðrar réttarreglur er varða börn og ungmenni. Kynning á hlutverki og starfsemi embættisins, sem og fræðsla um réttindi barna á öllum sviðum, er því veigamikill þáttur í starfi umboðsmanns ár hvert. Auk þess er reglulega óskað eftir því að umboðsmaður barna haldi erindi á málþingum eða ráðstefnum um sértækari málefni og komi í viðtöl hjá fjölmiðlum. Umboðsmaður reynir ávallt að bregðast við slíkum beiðnum.

Undanfarin fimm ár hefur umboðsmaður barna boðið skólum, félagasamtökum, ungmennaráðum og þeim aðilum sem vinna með börnum eða fyrir börn upp á kynningar á embættinu og réttindum barna. Á árinu 2014 hélt umboðsmaður barna áfram að bjóða skólum upp á kynningar fyrir nemendur og starfsfólk. Kynningunum hefur einkum verið beint að börnum á unglingastigi en hægt er að útbúa kynningu fyrir yngri börn ef óskað er eftir því.

Hér á eftir er þeir taldir upp sem umboðsmaður barna hélt kynningu fyrir á árinu:

Grunnskólar:

 • Garðaskóli
 • Hraunvallaskóli
 • Salaskóli
 • Réttarholtsskóli
 • Vatnsendaskóli
 • Breiðholtsskóli
 • Gerðaskóli
 • Hagaskóli
 • Laugarlækjarskóli
 • Oddeyraskóli
 • Grunnskóli Borgarfjarðar eystri
 • Reykjahlíðarskóli

Háskólar:

 • Nemendur í meistaranámi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands
 • Nemendur í félagsráðgjafarnámi við Háskóla Íslands
 • Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 • Nemendur í diplómanámi í barnavernd við Háskóla Íslands
 • Nemar við lagadeild Háskólans í Reykjavík

Aðrir:

 • Félag daggæsluráðgjafa og –fulltrúa.

BARNASÁTTMÁLINN

 

Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989 og er hann eini alþjóðlegi samningurinn sem fjallar sérstaklega um börn. Hann felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu hópur sem hafi sjálfstæð réttindi, óháð foreldrum eða forsjáraðilum, og að þau þarfnist sérstakrar umönnunar og verndar umfram hina fullorðnu. Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasamningur heims, en við lok ársins 2014 hafði hann verið fullgiltur af öllum ríkjum heims utan þriggja. Sáttmálinn var undirritaður fyrir Íslands hönd árið 1990 og fullgiltur í nóvember árið 1992. Þann 20. febrúar 2013 var Barnasáttmálinn síðan lögfestur á Alþingi.

Þó að Barnasáttmálinn sé nú hluti af landslögum telur umboðsmaður barna mikilvægt að vinna áfram að því að hann verði að fullu innleiddur í íslenskt samfélag. Með því er átt við að sáttmálanum sé í raun beitt í framkvæmd þannig að hann hafi áhrif á daglegt líf barna og sé hafður að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku sem varðar þau. Ein af forsendunum fyrir því að þetta geti orðið að veruleika er fræðsla til þeirra sem vinna með börnum á einn eða annan hátt. Í þessu sambandi má benda á að ein af helstu athugasemdum sem nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins gerði árið 2011 þegar skýrsla íslenska ríkisins var tekin fyrir varðar innleiðingu sáttmálans í íslenskt samfélag. Barnaréttarnefndin hefur gagnrýnt að stjórnvöld hafi ekki gert landsáætlun fyrir innleiðingu Barnasáttmálans, en nefndin benti á að í slíkri áætlun þyrfti að tilgreina ábyrgð ólíkra stofnana og sveitarfélaga í framkvæmd sáttmálans á Íslandi. Slíkri áætlun er ætlað að vera verkfæri fyrir öll stig stjórnsýslunnar þannig að í öllu starfi með börnum og við ákvarðanatöku sem varðar þau sé miðað við þær forsendur sem sáttmálinn gengur út frá og Ísland hefur gengið að með fullgildingu hans. Bæði lögfesting og innleiðing Barnasáttmálans eru mikilvæg skref í að stuðla að því að réttindi barna séu tryggð og staða þeirra í íslensku samfélagi verði betri. Á árinu 2014 hóf umboðsmaður barna samstarf við UNICEF á Íslandi um að útbúa verkfærakistu fyrir sveitarfélög um inntak Barnasáttmálans og verður þeirri vinnu haldið áfram á árinu 2015.

Barnasáttmálinn 25 ára

Eins og áður segir var Barnasáttmálinn samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989 og varð hann því 25 ára árið 2014 og var afmæli hans fagnað víða með ýmsum hætti í skólum, frístundaheimilum og víðar. Ýmsir aðilar skipulögðu viðburði eða verkefni með það fyrir augum að vekja athygli á Barnasáttmálanum og mikilvægi hans fyrir börn. Sem dæmi má nefna að mennta- og menningarmálaráðherra sendi bréf til leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, sveitarfélaga og ýmissa annarra þar sem hann hvatti aðila til að halda upp á tímamótin og vekja athygli barna á Barnasáttmálanum og gildi hans. Umboðsmaður barna, Barnaheill og UNICEF höfðu frumkvæði að því að mynda sérstaka afmælisnefnd, með fulltrúum frá Norðurlandaráði, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, forsætisráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu og velferðarráðuneytinu. Afmælisnefndin skipulagði ýmsa viðburði sem munu dreifast yfir 25 ára afmælisárið, svo sem afmælishátíð, fund ungmenna með ríkisstjórn, stuttmynd um réttindi barna, málþing og fleira.

Afmælishátíð

Á afmælisdegi Barnasáttmálans, 20. nóvember, buðu umboðsmaður barna, Barnaheill og UNICEF á afmælishátíð sem haldin var í Laugalækjarskóla. Dagurinn hófst á því að nemendur Laugalækjarskóla, ráðherrar, þingmenn og aðrir gestir gæddu sér á hafragraut og afmælisköku. Að því loknu bauð umboðsmaður barna alla velkomna, en fundarstjóri var nemandi í Laugalækjarskóla. Þáverandi innanríkisráðherra ávarpaði hátíðina og lýsti afmælisár sáttmálans formlega hafið. Framkvæmdastjórar Barnaheilla og UNICEF á Íslandi, innanríkisráðherra og umboðsmaður barna fóru því næst fyrir fjöldasöng þar sem afmælissöngurinn var sunginn við píanóundirleik mennta- og menningarmálaráðherra. Loks sýndu nemendur úr Laugalækjarskóla myndband sem þeir bjuggu til um réttindi barna.

Talsmenn barna á Alþingi

Á afmælishátíðinni undirritaði sérstakur hópur þingmanna yfirlýsingu um að gerast „talsmenn barna á Alþingi“. Hópinn skipa þingmenn úr öllum flokkum, sem hafa setið námskeið á vegum umboðsmanns barna, UNICEF og Barnaheilla um Barnasáttmálann og notkun hans sem hagnýts verkfæris við ákvarðanatöku og stefnumótun. Við undirritunina settu þingmennirnir upp sérstök „barnagleraugu“ til að muna eftir því að líta á málin frá sjónarhorni barna.

Talsmenn barna á Alþingi eru Birgitta Jónsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Elín Hirst, Karl Garðarsson, Páll Valur Björnsson og Valgerður Bjarnadóttir.

Fundur ungmenna með ríkisstjórn

Þá er rétt að geta þess að í tilefni af afmæli Barnasáttmálans hittu fulltrúar ungmennaráða Barnaheilla, UNICEF og umboðsmanns barna ráðherra á fundi ríkisstjórnarinnar í Stjórnarráðinu. Á ríkisstjórnarfundinum greindu fulltrúar ungmennaráðanna ráðherrunum frá málefnum sem brenna á ungu fólki á Íslandi, s.s. geðheilbrigðismálum og menntamálum, ásamt því að ræða hvernig stuðla mætti með markvissari hætti að því að uppfylla réttindi barna.

Barnasáttmálinn í myndum

Á árinu gaf umboðsmaður barna út veggspjaldið Barnasáttmálinn í myndum, sem er sérstaklega ætlað að höfða til yngstu barnanna og koma til móts við þarfir þeirra með því að gera sem minnst úr texta og mest úr myndum. Veggspjaldið var sent í pósti til allra leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og heilsugæslustöðva. Upplýsingar um það hvernig hægt er að nota veggspjaldið í starfi með börnum er að finna á vefsíðu umboðsmanns barna, www.barn.is.

Sjálfstæð kæruheimild fyrir börn

Ísland hefur fullgilt tvær valfrjálsar bókanir við Barnasáttmálann og voru þær báðar lögfestar samhliða sáttmálanum með lögum nr. 19/2013. Árið 2014 tók gildi þriðja valfrjálsa bókunin við sáttmálann, en íslenska ríkið hefur enn hvorki skrifað undir hana né fullgilt. Bókunin veitir börnum, hópum barna eða fulltrúum þeirra tækifæri til að kæra mál til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Forsenda þess að hægt sé að fara með mál til nefndarinnar er að allar kæruleiðir í heimalandinu hafi verið fullreyndar.

Möguleikar barna til þess að leita réttar síns

Þriðja valfrjálsa bókunin gerir ráð fyrir að börn geti sjálf leitað til Barnaréttarnefndarinnar ef þau telja brotið á réttindum sínum með einhverjum hætti. Hins vegar hefur hér á landi almennt verið gert ráð fyrir að forsjáraðilar kæri eða höfði mál fyrir hönd barna sinna. Taldi umboðsmaður barna því mikilvægt að kanna hvernig úrskurðaraðilar hér á landi brygðust við ef barn kærði mál án samþykkis eða jafnvel á móti vilja foreldra sinna. Sendi hann því bréf til ýmissa kærunefnda og úrskurðaðila, dags. 24. september 2014, og óskaði eftir upplýsingum um það hvort börn hefðu leitað til þeirra án forsjáraðila og ef svo er, hvernig brugðist hefði verið við.

Svör bárust frá um 30 úrskurðaraðilum og nefndum. Áhugavert var að sjá hversu ólík svörin voru. Þar kom í ljós að sjaldgæft er að börn leiti til úrskurðaraðila eða kærunefnda án aðkomu foreldra. Þó voru dæmi um að börn hefðu leitað til úrskurðaraðila og var í þeim tilvikum leyst úr málunum eins og aðili væri fullorðinn, til dæmis hjá umboðsmanni Alþingis og Málskotsnefnd LÍN. Einhverjir aðilar töldu ekki heimilt að taka við erindum frá börnum, þar sem foreldrar færu með lögformlegt fyrirsvar fyrir þau. Aðrir töldu að tekið yrði á málum frá börnum eins og öðrum málum. Þá töldu nokkrir að þetta yrði metið með hliðsjón af lögum og réttindum barna.

Skipun sérstaks lögráðamanns

Þegar forsjáraðilar eiga eigin hagsmuna að gæta eða neita af öðrum ástæðum að sækja mál fyrir hönd barns er heimilt að skipa þeim sérstakan lögráðamann til þess að reka tiltekið erindi, sbr. 53. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Umboðsmaður barna ákvað því að senda fyrirspurn til yfirlögráðenda í bréfi, dags. 30. september 2014, þar sem óskað var svara við því hversu oft á undanförnum fimm árum barni hefði verið skipaður lögráðamaður og hversu oft beiðni um slíka skipun hefði verið hafnað. Þá var sérstaklega óskað eftir svörum við því hvort börn hefðu sjálf óskað eftir því að fá sérstakan lögráðamann og hvernig almennt yrði brugðist við slíkri beiðni.

Svör bárust frá um 10 embættum. Auk þess barst svar frá innanríkisráðuneytinu, en þar kom fram að barni hefði verið skipaður sérstakur lögráðamaður alls 70 sinnum á síðustu fimm árum. Algengt virðist vera að það sé gert vegna skiptingar á dánarbúum, bótakrafna eða meðferð sakamála. Ekki voru nefnd dæmi um að börn hefðu sjálf óskað eftir skipun sérstaks lögráðamanns.

Í fyrrnefndu bréfi til kærunefnda og úrskurðaraðila var einnig spurt hvort upp hefðu komið mál þar sem barni hefði verið skipaður sérstakur lögráðamaður. Þeir aðilar sem svöruðu þeirri spurningu sögðu að ekki hefði reynt á það úrræði við meðferð máls.

Samnorræn yfirlýsing

Hinn 28. október 2014 skrifuðu umboðsmenn barna á Norðurlöndum undir eftirfarandi sameiginlega yfirlýsingu um mikilvægi þess að Norðurlandaríkin fullgiltu þriðju valfrjálsu bókunina við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Sameiginleg yfirlýsing um sjálfstæða kæruheimild fyrir börn

Í ár verður Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna 25 ára. Á þessum mikilvægu tímamótum er mikilvægt að huga að bættum lífskjörum fyrir börn og minna á að þau, eins og aðrir, eiga sjálfstæð mannréttindi.

Margt hefur breyst á þeim aldarfjórðungi sem Barnasáttmálinn hefur verið í gildi og oft eru það Norðurlöndin sem eru leiðandi þegar kemur að réttarbótum fyrir börn. Umboðsmenn barna á Norðurlöndum vilja þó vekja athygli stjórnvalda á því að enn eru stórar og mikilvægar áskoranir til staðar þegar kemur að réttinda- og hagsmunamálum barna.

Dagana 28. til 29. október hélt Norðurlandaráðið þing í Svíþjóð. Norræna ráðherranefndin og Norræna barna- og ungmennanefndin (NORDBUK) skipulögðu málþing í tengslum við þingið, í tilefni af 25 ára afmæli Barnasáttmálans.

Á hverjum degi er brotið gegn réttindum barna á öllum Norðurlöndunum. Börn skortir þekkingu á réttindum sínum. Börn fá ekki tækifæri til að tjá skoðanir sínar áður en teknar eru mikilvægar ákvarðanir sem varða þau. Þá er oft erfitt fyrir börn sem búa við erfiðar aðstæður eða hafa verið vistuð utan heimilis að leita til þeirra stofnana sem eiga að veita þeim aðstoð, svo sem barnaverndar.

Það er erfitt fyrir þau börn sem brotið er gegn að leita réttar síns. Börn á Norðurlöndunum hafa til dæmis ekki möguleika á að fara með mál til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, þar sem löndin hafa enn ekki fullgilt þriðju valfrjálsu bókunina við Barnasáttmálann.

 Norðurlöndin hafa hingað til verið leiðandi þegar kemur að réttindum barna og innleiðingu Barnasáttmálans. Þannig hefur að vissu leyti verið litið á Norðurlöndin sem nokkurs konar fyrirmynd annarra landa í þessum efnum. Skiptir því miklu máli fyrir Norðurlöndin að taka hratt og örugglega á öllum þeim áskorunum sem koma upp varðandi réttindi barna.

Umboðsmenn barna á Norðurlöndum vilja benda á þrjú málefni sem yfirvöld á Norðurlöndum þurfa að vinna að til þess að styrkja réttindi barna.

Börn verða að fá fræðslu um réttindi sín.

Mikilvægt er að börn fái fræðslu um það frá unga aldri að þau eigi sjálfstæð mannréttindi. Fræðslan getur átt sér stað í leik- og grunnskólum. Það þarf einnig að fræða börn um það hvaða þýðingu þessi réttindi hafa í þeirra daglega lífi. Þá þurfa sérstakar upplýsingar að vera til staðar fyrir börn í viðkvæmri stöðu, svo sem börn sem eru vistuð utan heimilis.

Það þarf að styrkja stöðu Barnasáttmálans.

Á Íslandi, í Finnlandi og í Noregi er búið að lögfesta Barnasáttmálann.  Í Danmörku og Svíþjóð hafa verið lagðar fram tillögur þess efnis en þær hafa enn ekki verið samþykktar. Það er mikilvægt að Barnasáttmálinn sé lögfestur á öllum Norðurlöndum, auk þess sem mikilvægt er að breyta öðrum lögum til að styrkja réttindi barna. Við teljum að innleiðing Barnasáttmálans muni auka áhrif hans í framkvæmd og styrkja stöðu barna sem fullgildra einstaklinga með sjálfstæð mannréttindi. Lögfesting Barnasáttmálans eykur líka kröfurnar á að fræða þá sem vinna með börnum eða koma til með að vinna með börnum um Barnasáttmálann, mismunandi stöðu barna og tilkynningarskyldu til barnaverndar. 

Börn verða að geta leitað réttar síns þegar réttindi þeirra eru brotin.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur tekið fram að það sé grunnforsenda þess að réttindi barna séu virk í framkvæmd að það sé til staðar skilvirk kæruleið fyrir börn sem telja brotið gegn réttindum sínum.  Kæruleiðir skipta máli fyrir bæði fullorðna og börn, en börn eiga oft sérstaklega erfitt með að leita réttar síns.

Í almennri athugasemd nefndarinnar nr. 5 leggur nefndin áherslu á að ríkin tryggi að það séu til kvörtunarleiðir fyrir börn og fulltrúa þeirra sem eru bæði barnvænar og  skilvirkar. Barnasáttmálinn var lengi vel eini stóri alþjóðlegi mannréttindasamningurinn sem bauð ekki upp á kæruleið fyrir einstaklinga. Árið 2014 breyttist þetta, eftir að opnað var fyrir kæruleið til Barnaréttarnefndarinnar.  Þessi alþjóðlega kæruleið mun setja aukinn þrýsting á ríkin til þess að styrkja þau kerfi sem eru til staðar til þess að tryggja réttindi barna.

Barnaréttarnefndin mun geta tekið við kærum frá börnum eða fulltrúum þeirra þegar grunur er á að lög eða framkvæmd aðildarríkis hafi brotið gegn réttindum barnsins samkvæmt Barnasáttmálanum, þegar öll úrræði í aðildarríkinu hafa verið fullreynd.

Við teljum mikilvægt að Norðurlöndin styrki réttindi barna með því að undirrita og fullgilda þriðju valfrjálsu bókunina við Barnasáttmálann sem veitir börnum kæruleið til Barnaréttarnefndarinnar.  Börn á Norðurlöndunum hafa mikla hagsmuni af því að geta leitað réttar síns og fá úr því skorið hvort brotið hafi verið á réttindum þeirra.

FJÖLSKYLDUMÁL

Barn í tveimur leikskólum

Umboðsmanni barna hafa borist erindi sem varða möguleika barna til þess að vera í tveimur leikskólum. Árið 2012 fundaði umboðsmaður barna meðal annars með Sambandi íslenskra sveitarfélaga til þess að ræða þessi mál. Í kjölfarið gaf sambandið út leiðbeinandi álit vegna tvöfaldrar leikskólavistar og getur umboðsmaður tekið undir flest sem þar kemur fram. Umboðsmaður barna ákvað þó af því tilefni að gefa einnig út álit sitt á því að börn séu í tveimur leikskólum. Álit umboðsmanns barna er eftirfarandi:

Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á það sem er barni fyrir bestu alltaf að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Umboðsmaður barna telur það almennt ekki í samræmi við bestu hagsmuni barna að vera á tveimur leikskólum. Þó er ekki útilokað að slíkt geti komið til skoðunar í ákveðnum undantekningartilvikum, en þá aðeins ef báðir foreldrar eru sammála. 

Foreldrar sem fara með sameiginlega forsjá eiga að leitast við að koma sér saman um það hvort og þá hvar sótt er um leikskólapláss fyrir barn. Ef foreldrar eru ósammála getur það foreldri sem barn á lögheimili hjá tekið ákvörðun um val á leikskóla (sjá 28. gr. a. barnalaga). Að jafnaði er gengið út frá því að börn sæki leikskóla í því sveitarfélagi þar sem þau eiga lögheimili (sjá hér viðmiðunarreglur Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna leikskóladvalar utan lögheimilissveitarfélags).

Á undanförnum árum hefur jöfn umgengni, þ.e. að barn dvelji hjá foreldrum sínum viku og viku í senn, orðið sífellt algengari. Ljóst er að slíkt fyrirkomulag hentar sumum börnum vel. Hins vegar á það ekki við um öll börn. Þegar ákveðið er hvort barn eigi að dvelja jafnt hjá báðum foreldrum eiga hagsmunir þess að hafa forgang og vega þyngra en sjónarmið um jafnrétti foreldra.

Þegar metið er hvort jöfn umgengni henti barni skiptir samkomulag milli foreldra og búseta þeirra miklu máli. Mikilvægt er að tryggja stöðugleika og samfellu í lífi barns og kemur jöfn umgengni því helst til greina þegar foreldrar geta unnið vel saman og búa nálægt hvor öðrum. Foreldrar verða að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi og ættu ekki að ætlast til þess að barn „skipti lífi sínu í tvennt“ af því það hentar foreldrum betur. Foreldrar verða að setja barnið í fyrsta sæti og sína eigin hagsmuni í annað sæti. Telur umboðsmaður barna því almennt ekki rétt að ætlast til þess að barn sé í tveimur leikskólum, enda getur það raskað námi og félagslegum tengslum barns.

Þó að umboðsmaður barna telji það almennt ekki börnum fyrir bestu að vera í tveimur leikskólum geta verið undantekningar á því, til dæmis vegna tímabundinna erfiðleika í fjölskyldunni. Á það þá einungis við ef foreldrar eru sammála um að slíkt sé til hagsbóta fyrir barnið. 

Framkvæmd breytinga á barnalögum

Með lögum nr. 61/2012 um breytingu á barnalögum nr. 76/2003, með síðari breytingum (forsjá og umgengni), voru gerðar ýmsar breytingar sem geta haft mikil áhrif á líf barna. Einnig voru gerðar veigamiklar breytingar á hlutverki og verkefnum sýslumanna. Í ljósi þess hversu mikilvægt er að umræddar breytingar komi til framkvæmda og eftir atvikum nái tilgangi sínum taldi umboðsmaður mikilvægt að fylgjast með framgangi þeirra og sendi því bréf til allra sýslumannsembætta á landinu þann 3. september 2013 og óskaði svara við nokkrum spurningum. Svör bárust frá 15 embættum.

Samkvæmt þeim svörum sem bárust umboðsmanni virtist það koma einhverjum sýslumannsembættum töluvert á óvart að breytingarlögin skyldu hafa tekið gildi 1. janúar 2013, en til hafði staðið að fresta gildistöku þeirra. Voru embættin því ekki tilbúin að taka við þeim verkefnum sem lögin kveða á um og komu þau því að mörgu leyti ekki til framkvæmda fyrr en nokkrum mánuðum eftir gildistöku laganna. Þau sýslumannsembætti sem svöruðu bréfinu áttu það sameiginlegt að hafa hlotið einhverja fræðslu um þær breytingar sem lögin kveða á um. Þá virðast mörg embætti hafa lagt töluvert mikla vinnu í að innleiða breytingarnar og stóð sú vinna enn yfir við árslok. Af svörunum má þó sjá vísbendingu um að erfiðara sé að koma lögunum að fullu til framkvæmda hjá minni sýslumannsembættum.

Meðal þeirra nýmæla sem komu inn í barnalögin með lögum nr. 61/2012 er að foreldrum er nú skylt að gangast undir sáttameðferð í málum sem varða forsjá, lögheimili, umgengni, dagsektir eða aðför, sbr. 33. gr. a. barnalaga. Starfsmenn þeirra sýslumannsembætta sem svöruðu bréfi umboðsmanns höfðu sótt fræðslu um sáttameðferð. Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur tekið að sér að leiðbeina öðrum embættum um framkvæmdina og sér auk þess um sáttameðferð hjá nokkrum embættum. Önnur embætti hafa auk þess gripið til ýmissa ráðstafana til þess að stuðla að faglegri sáttameðferð. Sem dæmi má nefna að eitt embætti hefur látið útbúa sérstakt herbergi fyrir sáttameðferð þar sem til staðar er fjarfundabúnaður fyrir þá sem eiga erfitt með að koma á staðinn. Þá eru dæmi um að embætti vinni saman, ýmist þannig að þau samnýti sérfræðinga eða fái starfsmenn lánaða frá öðrum embættum til að sinna sáttameðferð, í þeim tilgangi að tryggja hlutleysi. Reynslan af sáttameðferð samkvæmt nýju lögunum virðist almennt jákvæð þó að ef til vill sé of snemmt að segja til um hvort hún hafi borið tilætlaðan árangur.

Eitt helsta markmiðið með umræddum breytingum var að gera vinnu sýslumannsembættanna þverfaglegri. Í þeim tilgangi er gert ráð fyrir því í lögunum að sýslumenn geti leitað liðsinnis sérfræðings í málefnum barna. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til laganna geta sýslumenn annaðhvort ráðið til sín sérfræðinga eða gert samninga við utanaðkomandi sérfræðinga. Af þeim sýslumannsembættum sem svöruðu bréfinu hafði aðeins Sýslumaðurinn í Reykjavík ráðið til sín sérfræðinga, í samtals 2,5 stöðugildi. Önnur sýslumannsembætti hafa annaðhvort gert þjónustusamninga við sérfræðinga eða leitað til einstakra utanaðkomandi aðila. Störf sérfræðinga hafa verið í lágmarki hjá einhverjum embættum en í mörgum hefur enn ekki reynt á þau störf.

Þau sýslumannsembætti sem svöruðu bréfi umboðsmanns voru ekki sammála um það hvaða áhrif umræddar breytingar hefðu haft á málshraða. Sum embætti töldu líklegt að málshraði myndi jafnvel aukast, þar sem áður hefði þurft í einhverjum tilvikum að leita eftir áliti barnaverndarnefndar, sem gat tekið langan tíma. Önnur embætti töldu hins vegar að skyldan til sáttameðferðar leiddi til þess að mál tækju almennt lengri tíma. Einhver töldu það þó alls ekki neikvætt, þar sem mögulegt væri að fleiri málum myndi ljúka með sátt.

Lokaspurningin í bréfi umboðsmanns varðaði það hvernig sýslumannsembættin leituðust við að tryggja að sjónarmið barna heyrðust á öllum stigum máls. Svör embættanna voru misjöfn og bentu mörg þeirra réttilega á að meta þyrfti hvert tilvik fyrir sig út frá aldri og þroska barns. Það vakti hins vegar athygli umboðsmanns að einhver embætti virtust sjaldan ræða við börn og töldu sig ekki geta tryggt að tekið yrði tillit til sjónarmiða barna í málum sem væru til meðferðar. Er þetta ekki í samræmi við skyldur sýslumannsembættanna samkvæmt barnalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Nokkur embætti töldu líklegt að aðkoma sérfræðinga í málefnum barna yrði til þess að oftar yrði rætt við börn. Umboðsmaður barna telur brýnt að öll sýslumannsembætti virði rétt barna til þess að tjá sig í málum sem þau varða og tryggi aðkomu þeirra í öllum málum, hvort sem um er að ræða sáttameðferð eða mál sem leysa þarf með úrskurði. 

Ljóst er að umræddar breytingar á barnalögum munu ekki skila þeim árangri sem að var stefnt nema tryggt verði aukið fjármagn til sýslumannsembætta. Mörg sýslumannsembætti lýstu yfir áhyggjum af því að ekki yrði tryggt það fjármagn sem nauðsynlegt væri til að lögin kæmu að fullu til framkvæmda. Sem dæmi má nefna að sum embætti nefndu að oftar yrði leitað til sérfræðings í málefnum barna ef til staðar væri meira fjármagn.

Umboðsmaður barna sendi innanríkisráðuneytinu bréf, dags. 10. júní 2014, þar sem hann fór yfir það sem áður hefur fram komið en hvatti jafnframt innanríkisráðherra til að fylgjast með því að þær breytingar sem gerðar voru á barnalögum í byrjun ársins 2013 kæmu að fullu til framkvæmda. Til þess að svo geti orðið þarf að tryggja sýslumannsembættunum það fjármagn sem þau þurfa til þess að fullnægja skyldum sínum samkvæmt nýju lögunum. Þá sendi umboðsmaður einnig tölvupóst, dags. 11. júní 2014, til allra sýslumannsembætta þar sem hann kynnti framangreinda samantekt úr svörum sýslumanna vegna breytinga á barnalögum nr. 76/2003.

Börn foreldra á leigumarkaði

Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af aðstæðum barna í fjölskyldum sem búa á leigumarkaði. Skortur er á leiguhúsnæði og öryggi leigjenda yfirleitt ekki mikið. Þessar aðstæður geta haft neikvæð áhrif á börn. Samtök leigjenda óskuðu eftir áliti umboðsmanns á því hvort og hvernig sveitarfélög og ríki væru að brjóta á 27. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna annars vegar og 5. gr. húsnæðislaga hins vegar. Til þess að ræða málið nánar ákvað umboðsmaður að bjóða fulltrúum samtakanna á fund, sem var haldinn í lok apríl 2014. Umboðsmaður barna þakkar Samtökum leigjenda fyrir að vekja athygli á aðstæðum fólks á leigumarkaði og hvaða áhrif þær geti haft á hagsmunum barna. Á fundinum óskuðu samtökin eftir því að fá skriflegt álit frá umboðsmanni barna varðandi málefnið. Álit umboðsmanns barna var eftirfarandi:

Eins og fram kemur í bréfi ykkar tryggir 27. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013, börnum meðal annars rétt til viðunandi lífsskilyrða, þar á meðal húsnæðis. Sá réttur er einnig tryggður í 1. mgr. 11. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, en þar kemur fram að sérhver maður eigi rétt til viðunandi lífsafkomu fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis og sífellt batnandi lífsskilyrða. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi hefur gefið út almennt álit þar sem hún útskýrir nánar hvað felst í réttindum til viðunandi húsnæðis. Þar kemur meðal annars fram að rétturinn felur ekki einungis í sér grundvallarrétt til húsaskjóls heldur eiga allir rétt á því að búa við öryggi, frið og reisn. Sérstaklega er tekið fram að kostnaður vegna húsnæðis megi ekki vera það hár að hann komi í veg fyrir að einstaklingur geti uppfyllt aðrar grundvallarþarfir sínar. Þá verður að tryggja lágmarksgæði húsnæðis, íbúðarhæfi og staðsetningu sem tryggir aðgang að vinnu og nauðsynlegri þjónustu.

Samkvæmt framangreindu áliti eiga allir hópar samfélagsins að hafa aðgang að viðeigandi húsnæði, en þó ber að veita ákveðnum hópum forgang. Á það meðal annars við um börn. Má í því sambandi einnig benda á 3. gr. Barnasáttmálans og 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 þar sem fram kemur að það sem er börnum fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn með einum eða öðrum hætti. Þá er réttur barna til þess að búa við þroskavænleg skilyrði sérstaklega tryggður í 6. gr. Barnasáttmálans og 1. mgr. 1. gr. barnalaga. Sérstaða barna er ennfremur áréttuð í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem fram kemur að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Ákvæðið leggur þá skyldu á ríkið að tryggja velferð barna með öllum tiltækum ráðum.

Eins og fram kemur í 2. mgr. 27. gr. Barnasáttmálans bera foreldrar höfuðábyrgð á því að sjá barni fyrir þeim lífsskilyrðum sem eru því nauðsynlegar til að komast til þroska, í samræmi við getu sína og fjárhagsaðstæður. Hins vegar er ríkinu skylt að veita foreldrum og öðrum sem ábyrgir eru fyrir uppeldi barns aðstoð til að neyta þessa réttar. Eru þar stuðningsúrræði vegna húsnæðis sérstaklega nefnd. Ríkinu er því skylt skv. alþjóðalögum að tryggja foreldrum þá aðstoð sem þeir þurfa til þess að geta tryggt barni sínu öruggt og gott húsnæði.

Lög um húsnæðismál nr. 44/1998 voru sett í þeim tilgangi að stuðla að því að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Með  5. gr. laganna er sveitarstjórnum falið það verkefni að leysa húsnæðisþörf þess fólks sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Um skyldur sveitarfélaga til þess að tryggja framboð á íbúðarhúsnæði er ennfremur fjallað í 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, en þar kemur fram að sveitarstjórnir skuli tryggja framboð af húsnæði handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.

Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því að réttindi barna séu ekki nægilega tryggð þegar kemur að húsnæðismálum hér á landi. Ljóst er að margir hafa ekki tök á því að kaupa húsnæði eða hafa jafnvel misst húsnæði sitt vegna fjárhagsvanda. Vegna skorts á leiguhúsnæði er leiguverð víða það hátt að erfitt er fyrir fjölskyldur að ráða við kostnaðinn. Eru því einhver dæmi um að fólk búi við aðstæður sem geta ekki talist viðunandi og stefna jafnvel heilsu barna í hættu. Þá er leigumarkaðurinn ótryggur, þannig að mörg börn búa ekki við það öryggi og þann stöðugleika sem þau eiga rétt, sbr. meðal annars 27. gr. Barnasáttmálans og 11. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Mörg dæmi eru um að fólk á leigumarkaði þurfi ítrekað að flytja milli hverfa eða sveitarfélaga. Slíkt getur haft verulega neikvæð áhrif á líðan og velferð barna, sem þurfa þá að skipta oft um skóla, missa tengsl við vini o.s.frv.

Umboðsmaður barna telur brýnt að bæta húsnæðismálin hér á landi, meðal annars með því að styrkja stöðu foreldra á leigumarkaði. Yfirvöldum ber að setja hagsmuni barna í forgang og sjá til þess öll börn og fjölskyldur þeirra hafi tök á því að búa við aðstæður þar sem öryggi, stöðugleiki og velferð þeirra eru tryggð. Umboðsmaður hefur þegar rætt þessi mál á fundi með félags- og húsnæðismálaráðherra og mun halda áfram að koma þessum ábendingum á framfæri þegar tækifæri gefast.

 

Fjölskyldustefna

Haustið 2013 var skipuð verkefnisstjórn til þess að móta fjölskyldustefnu til ársins 2020. Hinn 13. janúar 2014 fór umboðsmaður barna á fund verkefnisstjórnarinnar til þess að ræða hvaða þætti hann teldi mikilvægt að fjalla um í fjölskyldustefnu. Í kjölfar fundarins sendi umboðsmaður nefndinni minnisblað um helstu þætti sem ræddir voru á fundinum, auk þess sem hann sendi afrit af nokkrum bréfum sem umboðsmaður barna hafði sent opinberum aðilum um ýmis málefni sem varða börn og fjölskyldur þeirra.

Umboðsmaður barna fagnar því að unnið sé að fjölskyldustefnu. Má í því sambandi benda á að Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur bent á að verulega skorti heildstæða stefnumótun í málefnum barna hér á landi. Á fundi með verkefnisstjórninni lagði umboðsmaður áherslu á að fjölskyldustefnan tæki mið af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og miðaði fyrst og fremst að því að tryggja réttindi barna. Þannig þyrfti að tryggja að hagsmunir barna hefðu forgang við allar ákvarðanir sem vörðuðu börn, sbr. sbr. 3. gr. Barnasáttmálans. Þá taldi hann sérstaklega mikilvægt að leitast við að tryggja börnum rétt til að hafa áhrif á öll mál sem vörðuðu þau og leita eftir eftir sjónarmiðum þeirra við mótun stefnunnar, í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans.

Umboðsmaður barna lagði einnig áherslu á að nákvæm aðgerðaráætlun myndi fylgja fjölskyldustefnunni og að skýrt yrði tekið fram hver bæri ábyrgð á hvaða lið og fyrir hvaða tíma hann ætti að koma til framkvæmda. Þá væri nauðsynlegt að tryggja að nægilegt fjármagn fylgdi með hverjum og einum þætti aðgerðaráætlunarinnar.

Auk framangreindra atriða benti umboðsmaður barna á ýmis málefni sem hann taldi mikilvægt að taka á í fjölskyldustefnu, svo sem stöðugleika þegar kæmi að ákvörðunum stjórnvalda um málefni barna og fjölskyldna, barnavernd, úrræði fyrir börn með alvarlegan vanda, börn með sérþarfir, ofbeldi gegn börnum, þjónustu í nærumhverfi barna, stuðning við efnaminni fjölskyldur, börn af erlendum uppruna, samhæfingu fjölskyldu- og atvinnulífs, margbreytilegar fjölskyldur, framkvæmd barnalaga og fræðslu til barna, foreldra og fagfólks.

HEILBRIGÐISMÁL

Kuðungsígræðsla

Umboðsmanni barna barst erindi þar sem óskað var eftir áliti embættisins á því hvernig best væri að fagfólk á heilbrigðissviði brygðist við þegar foreldrar ákvæðu að börn þeirra sem væru heyrnarlaus eða verulega heyrnarskert fengju ekki kuðungsígræðslu. Í svari umboðsmanns tók hann fram að foreldrar bæru ábyrgð á velferð og heilsu barna sinna. Við allar ákvarðanir sem vörðuðu börn bæri foreldrum að hafa það sem væri barni fyrir bestu að leiðarljósi, sbr. meðal annars 2. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 18. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Foreldrum bæri því að virða réttindi barna sinna og stuðla að því að þau næðu sem bestum þroska, bæði líkamlega og andlega.

Ljóst er að kuðungsígræðsla getur gert sumum börnum kleift að taka þátt í samfélagi heyrandi og læra talmál. Börn eiga rétt á því að ná sem bestum alhliða þroska, sbr. meðal annars 6. gr. Barnasáttmálans. Má því færa rök fyrir því að börn eigi rétt á því að fá tækifæri til að heyra og læra talmál ef það er hægt. Hins vegar verður að hafa í huga að kuðungsígræðsla þýðir ekki endilega að barn nái fullri heyrn. Þarf því að tryggja rétt þeirra barna sem fara í kuðungsígræðslu til að læra táknmál og þróa það í samfélagi með öðrum. Í framkvæmd hefur því miður verulega skort upp á að þessi réttur sé tryggður og eru heyrnarskert börn hér á landi sem hafa ekki náð eðlilegum málþroska miðað við aldur, hvorki á táknmáli né talmáli.

Mikilvægt er að virðing sé borin fyrir þeim börnum sem eru heyrnarskert eða heyrnarlaus. Ekki er rétt að líta á heyrnarlaus eða heyrnarskert börn sem „gölluð“ börn sem þarf að breyta eða bæta. Er það í samræmi við þá þróun sem hefur orðið á hugtakinu fötlun, að ekki sé einungis litið til læknisfræðilegra þátta heldur einnig félagslegra, sbr. meðal annars samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ljóst er að börn geta átt gott líf og náð fullum þroska án þess að hafa heyrn. Því hefur jafnvel verið haldið fram að heyrnarlausir einstaklingar séu ekki fatlaðir heldur tilheyri málminnihlutahópi. Þeir sem aðhyllast þetta sjónarmið benda á að það séu réttindi barna sem eru heyrnarlaus að viðhalda auðkennum sínum og njóta eigin menningar og tungumáls í samfélagi með öðrum, sbr. til dæmis 8. og 30. gr. Barnsáttmálans. Þá hefur einnig verið bent á meginreglu fyrrnefnds samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um virðingu fyrir meðfæddri göfgi, sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir og sjálfstæði þeirra, sbr. a-lið 3. gr. samningsins.

Umboðsmaður barna telur sérstaklega mikilvægt að bera virðingu fyrir heyrnarlausum börnum og menningu þeirra sem tilheyra samfélagi heyrnarlausra. Á sama tíma þurfa foreldrar að hafa hagsmuni barna sinna að leiðarljósi og veita þeim tækifæri til að taka sem mestan þátt í því samfélagi sem við lifum í. Þegar metið er hvaða sjónarmið eigi að vega þyngra þarf að huga að rétti barna til að hafa áhrif á eigið líf, sbr. meðal annars 12. gr. Barnasáttmálans og 3. mgr. 1. gr. barnalaga. Mikilvægt er að börn fái tækifæri til að velja sjálf hvaða menningu og samfélagi þau vilja tilheyra þegar þau hafa aldur og þroska til. Þar sem kuðungsígræðsla þjónar ekki tilgangi sínum nema hún sé framkvæmd fyrstu árin í lífi barns má ætla að það sé almennt í samræmi við bestu hagsmuni barns að fá slíka ígræðslu. Þó er rétt að árétta mikilvægi þess að börnum sem fá kuðungsígræðslu sé engu að síður tryggð kennsla í táknmáli og þau fái tækifæri til að nota það í samfélagi með öðrum börnum. 

Samkvæmt íslenskum lögum þurfa foreldrar að samþykkja læknismeðferðir á börnum sínum, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Ef foreldrar neita að samþykkja kuðungsígræðslu á barni er hlutverk heilbrigðisstarfsfólks fyrst og fremst að veita foreldrum viðeigandi fræðslu. Ef heilbrigðisstarfsfólk telur að foreldrar séu ekki að taka ákvarðanir í samræmi við bestu hagsmuni barnsins er hægt að leita til barnaverndar. Við mat á því hvort slíkt er nauðsynlegt þarf meðal annars að líta til þess á hvaða grundvelli foreldrar eru að taka ákvörðun og stöðu barns og foreldra að öðru leyti. 

Að lokum benti umboðsmaður barna á mikilvægi þess að málefnaleg umræða ætti sér stað um þetta álitaefni og málið yrði skoðað út frá öllum hliðum af fagaðilum, þar á meðal á sviði læknisfræðinnar, siðfræðinnar og þeim sem ynnu að málefnum heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Umboðsmaður barna sendi framangreint bréf til Heyrna- og talmeinastöðvar Íslands en samrit á yfirlækni háls-, -nef- og eyrnadeildar Landspítala, yfirlækni Barnaspítala Hringsins Landspítala. Þá var einnig sent afrit á heilbrigðisráðherra, landlækni og forstjóra Barnaverndarstofu.

Tannlæknaþjónusta fyrir börn sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður

Í mörg ár bárust umboðsmanni barna reglulega athugasemdir vegna aukins kostnaðar sem foreldrar báru vegna meðferðar barna hjá tannlæknum. Um nokkurt skeið var ekki í gildi samningur milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Tannlæknafélags Íslands (TFÍ) um endurgreiðslu á tannlæknaþjónustu. Endurgreiðslan var ekki í samræmi við raunkostnað þjónustunnar og fór tannheilbrigði barna á Íslandi hnignandi m.a. af þeim orsökum. Umboðsmaður barna vakti margítrekað athygli á málinu og má í því sambandi benda á fyrri ársskýrslur embættisins og skýrslu embættisins til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Hinn 11. apríl 2013 varð breyting til batnaðar, en þá var undirritaður nýr samningur milli SÍ og TFÍ, sem á að innleiða í áföngum. Einnig var í samningnum gert ráð fyrir sérúrræði fyrir börn í bráðavanda sem búa við félagslega erfiðar aðstæður og tók það ákvæði þegar gildi. Umboðsmaður barna hefði gjarnan viljað sjá samninginn í heild sinni taka gildi strax en fannst þó mjög mikilvægt að fyrst svo var ekki væri börnum í erfiðum aðstæðum þó tryggður réttur til nauðsynlegrar tannheilbrigðisþjónustu.

Umboðsmaður barna hafði þó áhyggjur af því að samningurinn væri túlkaður þröngt og óttaðist að hann nýttist ekki nægilega vel fyrir börn í félagslega erfiðum aðstæðum. Sem dæmi um slíkt má nefna tilfelli þar sem börn voru með margar skemmdir en einungis ein þeirra féll undir skilgreiningu á bráðavanda samkvæmt vinnureglum varðandi tilvísanir og umsóknir til SÍ vegna tannlæknaþjónustu barna í bráðavanda (útg. júní 2013). Fagfólk benti á að það bryti gegn grundvallarsiðareglum læknisfræðinnar að svæfa þessi börn og gera einungis við þá tönn sem félli undir fyrrnefnda skilgreiningu, enda væri þá fyrirsjáanlegt að frekari bráðavandi skapaðist í náinni framtíð. Þá væri ólíklegt að foreldrar umræddra barna gætu borið kostnað af umfangsmiklum tannviðgerðum sjálfir.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að horft sé heildstætt á aðstæður og þarfir barns þegar tekin er ákvörðun um greiðsluþátttöku í tannviðgerðum, enda eigi barn rétt til besta mögulegs heilsufars og illa sé farið með fjármuni að bíða með viðgerðir þar til þær séu orðnar að bráðavanda. Í þessu sambandi má hafa í huga 3. gr. Barnasáttmálans, en þar segir m.a. að allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varði börn skuli byggðar á því sem sé börnum fyrir bestu. Enn fremur eiga börn rétt á því að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, sbr. 24. gr. sáttmálans.

Umboðsmaður sendi bréf til Sjúkratrygginga Íslands í nóvember 2013 þar sem bent var á ofangreind sjónarmið og beðið um upplýsingar um fjölda umsókna sem vörðuðu börn með bráðavanda og sem byggju við erfiðar félagslegar aðstæður. Spurt var hversu margar umsóknir hefðu verið samþykktar og hversu mörgum verið hafnað eftir gildistöku vinnureglnanna. Þá var spurt um mat SÍ á því hvort skilgreining á réttindum og bráðavanda í vinnureglum varðandi tilvísanir og umsóknir til SÍ vegna tannlæknaþjónustu barna þjónuðu hagsmunum barna í erfiðum félagslegum aðstæðum eins og best yrði á kosið. Í svarbréfi frá Sjúkratryggingum Íslands kom fram að tryggingayfirtannlæknir mæti það svo að vel hefði tekist til við að leysa þann vanda sem ákvæði um börn í bráðavanda (3. mgr. 6. gr.) hefði verið ætlað að leysa.

Annað sem tannlæknar töldu ekki samræmast réttindum barna var að þeir þurftu að staðfesta félagslegan vanda barns án þess að hafa stöðu eða þekkingu til að gera það. Viðræður tannlækna, með stuðningi starfsfólks frá landlækni, Barnaverndarstofu og umboðsmanni barna, stóðu fram á árið 2014 en snemma árs báru þær þann árangur að tilvísunar- og umsóknarformið vegna barna í bráðavanda var einfaldað og því breytt þannig að nú er gert við allar tennur í einu þó að þær falli ekki allar undir skilgreiningu á bráðavanda. Þá þurfa tannlæknar nú einungis að staðfesta bráðavanda barns en tilvísandi aðili staðfestir félagslegar aðstæður barns.

Umboðsmaður barna fagnar því að tannheilbrigðismál barna séu nú í mun betra horfi en undanfarin ár þótt það taki eflaust nokkur ár að vinna upp hið mikla bakslag sem hafi verið á tannheilsu barna um aldamótin síðustu.

Skapabarmaaðgerðir á stúlkum

Umboðsmanni barna hafa borist ábendingar um að hér á landi hafi verið framkvæmdar aðgerðir á skapabörmum stúlkna undir 18 ára aldri. Til að safna upplýsingum fundaði umboðsmaður barna þann 4. mars 2014 með fulltrúum frá velferðarráðuneytinu, Félagi íslenskra lýtalækna, Jafnréttisstofu, Ljósmæðrafélagi Íslands og Ebbu Margréti Magnúsdóttur, kvensjúkdómalækni við Landspítala Háskólasjúkrahús, en einnig voru fulltrúar frá landlækni boðaðir. Markmið fundarins var m.a. að ræða hvort þessar upplýsingar væru réttar, hversu algengar slíkar aðgerðir séu, hvaða ástæður lægju að baki þeim og annað sem kynni að skipta máli í þessu sambandi. Þá var einnig ætlunin að ræða hvort réttindi stúlkna væru tryggð að þessu leyti.

Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar telst það umskurður að fjarlægja að hluta eða breyta kynfærum kvenna, nema slíkt sé nauðsynlegt af læknisfræðilegum ástæðum. Í samræmi við það kemur fram í 218. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að refsivert sé að fjarlægja kynfæri stúlku að hluta eða öllu leyti. Í ljósi þess að það er almennt talið brjóta gegn mannhelgi stúlkna að breyta kynfærum þeirra verður að fara sérstaklega varlega þegar metið er hvort framkvæma eigi skapabarmaaðgerðir á stúlku undir 18 ára aldri.

Að mati umboðsmanns verður að gera greinarmun á annars vegar skapabarmaaðgerðum sem framkvæmdar eru í læknisfræðilegum tilgangi og hins vegar aðgerðum sem eingöngu eru gerðar í fegrunarskyni. Þegar um er að ræða lýtaaðgerðir sem læknar mæla með geta foreldrar stúlku samþykkt slíka aðgerð fram að 16 ára aldri, í samræmi við 26. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Þó verður að sjálfsögðu að taka tillit til vilja stúlkunnar sjálfrar, í samræmi við aldur og þroska. Stúlkur sem náð hafa 16 ára aldri ættu hins vegar að geta samþykkt slíkar aðgerðir sjálfar, sbr. fyrrnefnt ákvæði laga um réttindi sjúklinga. Á fundinum var meðal annars rætt hversu mikilvægt það væri að vanda sérstaklega matið á því hvort skapabarmaaðgerð á stúlku teldist nauðsynleg. Væri því æskilegt að læknir sem stefndi á að framkvæma slíka aðgerð á stúlku undir 18 ára óskaði eftir áliti frá öðrum lækni um nauðsyn hennar. Kæmi þá helst til álita að leita til læknis sem hefði sérþekkingu á kynfærum kvenna, svo sem kvensjúkdómalæknis. Þá gæti einnig verið gott að gefa stúlku kost á að ræða við sálfræðing.

Þegar kemur að börnum ber að mati umboðsmanns barna ekki að framkvæma fegrunaraðgerðir sem eingöngu eru gerðar í þeim tilgangi að fegra eða bæta útlit án þess að fyrir því séu læknisfræðilegar ástæður. Á það við um skapabarmaaðgerðir sem og aðrar fegrunaraðgerðir, svo sem brjóstastækkanir. Ætti samþykki foreldra ekki að skipta neinu máli í þessu sambandi, enda myndi það samræmast illa mannlegri reisn og virðingu fyrir líkama barna ef foreldrar gætu samþykkt ónauðsynlegt inngrip í líkama þeirra í fegrunarskyni. Vissulega getur oft verið óljóst hvort um er að ræða lýtaaðgerð eða fegrunaraðgerð, en verður þá að horfa til þess hvort heilbrigðisstarfsfólk mælir með aðgerðinni. Lýtalæknar sem og aðrir læknar verða ávallt að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi og framkvæma sjálfstætt mat á því hvort aðgerð er nauðsynleg, án tillits til afstöðu foreldra. Á það ekki síst við í ljósi þess að öllum aðgerðum fylgir ákveðin áhætta auk þess sem varanlegt inngrip í líkama barns getur haft ýmsar afleiðingar fyrir það seinna meir. Verða læknar þá að geta sýnt fram á að aðgerðin hafi verið réttlætanleg og í samræmi við bestu hagsmuni barnsins.

Í tilefni af ofangreindu og í kjölfar áðurnefnds fundar sendi umboðsmaður barna bréf, dags. 31. mars 2014, til Embættis landlæknis, Félags íslenskra lýtalækna og Velferðarráðuneytisins. Í bréfi umboðsmanns hvatti hann velferðarráðuneytið og landlækni til þess að beita sér fyrir því að haldið yrði utan um þær lýta- og fegrunaraðgerðir sem væru framkvæmdar á börnum. Nauðsynlegt væri að slíkar aðgerðir væru skráðar svo hægt væri að fylgjast með því að réttindi barna væru virt. Enn fremur tók umboðsmaður barna fram að brýnt væri að setja reglur sem gerðu kröfu um að álit fleiri en eins læknis væri fengið áður en aðgerð væri framkvæmd á skapabörmum stúlku undir 18 ára aldri. Í slíkum reglum þyrfti einnig að koma skýrt fram að ekki væri heimilt að framkvæma slíka aðgerð eingöngu í fegrunarskyni. Loks hvatti umboðsmaður barna Félag íslenskra lýtalækna til þess að koma ofangreindum sjónarmiðum á framfæri við meðlimi sína og brýna fyrir þeim mikilvægi þess að virða réttindi og hagsmuni barna.

Sameiginleg yfirlýsing varðandi ábyrgð heilbrigðisstarfsfólks

Hinn 5. september 2014 gáfu umboðsmenn barna á Norðurlöndunum út eftirfarandi sameiginlega yfirlýsingu varðandi ábyrgð heilbrigðisstarfsfólks á börnum sem eru beitt ofbeldi.

Á Norðurlöndunum deyr um tugur barna á hverju ári vegna heimilisofbeldis og fleiri börn hljóta langvarandi skaða. Þá eru þúsundir barna þolendur grófs og endurtekins ofbeldis. Rannsóknir hafa sýnt að eitt af hverjum sjö börnum hefur verið beitt líkamlegu ofbeldi af foreldrum eða einhverjum öðrum fullorðnum á heimilinu. Umboðsmenn barna á Norðurlöndum vilja vekja athygli heilbrigðisstarfsfólks á því að ofbeldi er eitt af alvarlegustu ógnum við líf, heilsu og þroska barna í löndum okkar.

Dagana 4. og 5. september hittust norrænir hjúkrunarfræðingar á ráðstefnu í Stokkhólmi til að fræðast og ræða um efnið  „hlustið á börnin.“ Ráðstefnan var skipulögð af NoSB –(norrænt samstarf hjúkrunarfræðinga sem vinna með börnum).

Hjúkrunarfræðingar sem vinna með börnum í skólaheilsugæslunni, á heilsugæslustöðvum eða öðrum heilbrigðisstofnunum hitta reglulega börn sem glíma við vandamál sem beint eða óbeint tengjast ofbeldi sem þau hafa orðið fyrir. Fagfólk þarf að hafa þekkingu á birtingarmyndum ofbeldis á börnum og afleiðingum þess til að skilja orsakir erfiðleika barnanna. Til að uppgötva ofbeldi eða vanrækslu gegn börnum þarf heilbrigðisstarfsfólk að geta komið til móts við börn og  hlustað á þau auk þess sem spurningar um ofbeldi og vanrækslu þurfa að vera hluti af verklagi. Ófullnægjandi þekking heilbrigðisstarfsfólks og óljóst verklag og málsmeðferð getur þýtt að það uppgötvist ekki að barn búi við heimilisofbeldi.

Norðurlöndin hafa skuldbundið sig til að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Samkvæmt 19. gr. sáttmálans eru ríkin skyldug til að „gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun ...“

Barnasáttmálinn er skuldbindandi. Börn sem búa við ofbeldi og vanrækslu verða að geta treyst því að skólahjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólks sem annast börn hafi getu til að sjá vandamálið og bregðast við því.

Heilbrigðisstarfsfólki ber að tilkynna barnavernd ef uppi er grunur um að barn búi við ofbeldi eða vanrækslu. Reynsla Norðurlandaþjóða bendir þó til þess að allt of fáar tilkynningar berast frá þeim geira. Stjórnendur heilbrigðisstofnana verða að tryggja að starfsfólk þekki hvaða verklag gildir ef grunur leikur á að barni líði illa. Kennsla á þessu sviði þarf að vera skylda í námi og þjálfun hjúkrunarfræðinga og annars heilbrigðisstarfsfólks. Umboðsmenn barna á Norðurlöndum hvetja til þess að í Danmörku, Finnlandi, Grænlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð verði skerpt á tilkynningarskyldu heilbrigðisstarfsfólks í verklagsreglum um meðferð mála þar sem grunur er um ofbeldi gegn barni. Stjórnvöld eiga að sjá til þess að tilkynningarskylda til barnaverndar sé virt í framkvæmd.

Mikilvægt er að á landsvísu séu til upplýsingar um fjölda tilkynninga vegna ofbeldis gegn börnum og þær aðgerðir sem fylgja. Skólaheilsugæslan og aðrar stofnanir heilbrigðiskerfisins verða að halda utan um tölur um fjölda mála sem varða grun um ofbeldi gegn börnum.

Með þessari sameiginlegu yfirlýsingu vilja umboðsmenn barna á Norðurlöndum hvetja yfirvöld í löndum sínum til að tryggja og skerpa á mikilvægu hlutverki heilbrigðisstarfsfólks sem sinnir börnum þegar kemur að forvörnum gegn ofbeldi og aðgerðum til að bregðast við því.

 

VERND GEGN SKAÐLEGUM ÁHRIFUM ÁFENGIS

Áfengisauglýsingar

Áfengi og önnur vímuefni geta haft verulega skaðleg áhrif á líf og heilsu barna, hvort sem það er vegna neyslu þeirra sjálfra, neyslu einhverra nákominna eða neyslu í samfélaginu almennt. Er því brýnt að vernda börn gegn hvers kyns skaðlegum áhrifum vímuefna.

Auglýsingar eru almennt til þess fallnar að hvetja til neyslu og stuðla að jákvæðu viðhorfi til þeirrar vöru sem er auglýst. Börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir allri markaðssetningu og er því hætta á að auglýsingar hafi meiri áhrif á þau en þá sem eru eldri og reynslumeiri. Er því ljóst að áfengisauglýsingar hafa áhrif á viðhorf barna til áfengis og geta þannig stuðlað að aukinni neyslu meðal barna og ungmenna.

Umboðsmanni barna berast reglulega ábendingar vegna áfengisauglýsinga í fjölmiðlum og á viðburðum sem börn sækja. Til dæmis hefur Ölgerðin ítrekað auglýst áfengistegundina Tuborg á Þjóðhátíð í Eyjum. Í kjölfar hátíðarinnar sumarið 2013 ákvað umboðsmaður að senda formlega kæru til lögreglustjórans í Vestmanneyjum vegna ítrekaðra brota á 1. mgr. 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Meðfylgjandi voru myndir teknar úr fréttaskoti af Þjóðhátíð, þar sem auglýsingin var mjög áberandi á sviði þar sem barnaskemmtun fór fram og ekkert léttölsmerki sjáanlegt. Vorið 2014 tilkynnti lögreglustjórinn umboðsmanni að málið hefði verið fellt niður. Umboðsmaður barna er ósáttur við þessa ákvörðun, enda er það mikilvægt hagsmunamál fyrir börn að banni við áfengisauglýsingum sé framfylgt. Hann mun halda áfram að vekja athygli á brotum á áfengislögunum og vinna að því að bann við áfengisauglýsingum sé virt í framkvæmd.

Sala áfengis í verslunum

Haustið 2014 var lagt fram frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak, en í því var lagt til að einkaleyfi ÁTVR með smásölu yrði aflagt. Umboðsmaður barna skrifaði umsögn um frumvarpið þar sem hann benti á að það væri mikið hagsmunmál fyrir börn að það yrði ekki samþykkt.

Umboðsmaður barna óttast að ef sala áfengis verði leyfð í matvöruverslunum muni það auðvelda verulega möguleika barna og ungmenna til þess að nálgast áfengi. Auk þess er hætta á að aukinn sýnileiki áfengis muni stuðla að jákvæðum viðhorfum til áfengis og hvetja til aukinnar neyslu meðal unglinga. Slíkt getur ekki talist í samræmi við hagsmuni barna og ungmenna, enda hefur áfengi skaðleg áhrif á líkamlegan og andlegan þroska þeirra. Þá hafa fjölmargar rannsóknir sýnt að því yngra sem fólk er þegar það byrjar að neyta áfengis, þeim mun líklegra er að það þrói með sér áfengisvanda síðar á ævinni. Áfengi er algengasti vímugjafinn hér á landi en á undanförnum árum hefur dregið verulega úr áfengisneyslu meðal unglinga, meðal annars vegna öflugs forvarnarstarfs, takmarkaðs aðgengis að áfengi og þeirrar aðhaldsstefnu sem ríkir hér á landi. Fram kemur í Stefnu áfengis- og vímuvarna til ársins 2020, sem lögð var fram af Velferðarráðuneytinu í desember 2013, að ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis sé að takmarka aðgengi að því. Það er meðal annars gert með aðhaldsaðgerðum varðandi sölufyrirkomulag áfengis. Þá segir að mikilvægt sé við alla ákvarðanatöku stjórnvalda er varðar áfengi að lýðheilsusjónarmið séu höfð að leiðarljósi ásamt bestu þekkingu á virkum og árangursríkum aðgerðum. Umrætt frumvarp gengur þvert á þessa stefnu og ef það verður að lögum er hætta á að sá góði árangur sem náðst hefur á undanförnum árum verði að engu og neysla áfengis meðal barna og ungmenna aukist.

Í athugasemdum með frumvarpinu er meðal annars vísað til þess að einkaaðilum sé treyst til þess að selja tóbak og því eigi einnig að treysta þeim fyrir sölu áfengis. Umboðsmaður barna hafnar því að það séu rök fyrir því að selja eina skaðlega vöru í matvöruverslun að önnur skaðleg vara sé þar nú þegar til sölu. Þá má benda á að tóbak má ekki vera sýnilegt í verslunum, sbr. 7. gr. laga um tóbaksvarnir nr. 6/2002, en í ofangreindu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir sambærilegri reglu um áfengi. Þar að auki hefur umboðsmaður fengið ábendingar um að börn og ungmenni sem vinna í matvöruverslunum finni fyrir þrýstingi til þess að selja jafnöldrum sínum tóbak. Ætla má að þrýstingurinn yrði jafnvel enn meiri ef sala áfengis yrði leyfð í matvöruverslunum og því enn erfiðara að framfylgja reglum um áfengiskaupaaldur.

Sala áfengis í matvöruverslunum myndi ekki einungis auka aðgengi barna og ungmenna að áfengi heldur einnig leiða til aukinnar áfengisneyslu í samfélaginu. Eins og fram kemur á heimasíðu Embættis landlæknis hafa rannsóknir sýnt að afnám einkasölu á áfengi leiði til aukinnar heildarneyslu. Öll börn og ungmenni eiga rétt á að alast upp í umhverfi þar sem þau eru vernduð gegn neikvæðum afleiðingum áfengis. Auðsýnt er að aukin áfengisneysla í samfélaginu getur haft margvísleg neikvæð áhrif á líf barna. Sem dæmi má nefna að neysla áfengis eykur líkurnar á vanrækslu barna, ofbeldi, umferðarslysum og öðrum slysum. Þá hefur áfengi neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks og eykur líkurnar á ýmsum sjúkdómum. Er því ljóst að aukið aðgengi að áfengi muni hafa verulega neikvæðar afleiðingar í för með sér, þar á meðal aukið álag á barnaverndarkerfið og heilbrigðiskerfið, með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir ríkið.

Sérstaklega má benda á að áfengisneysla foreldra og annarra nákominna fjölskyldumeðlima hefur verulega neikvæð áhrif á velferð, líðan og þroska margra barna á Íslandi, en almennt er talið að eitt af hverjum fjórum börnum hér á landi sé aðstandandi alkóhólista. Umboðsmaður barna var nýlega með sérfræðihóp barna sem eiga það sameiginlegt að eiga foreldri sem glímir við áfengis- og vímuefnavanda og var í apríl 2014 gefin út skýrsla um þá vinnu. Miðað við þá umræðu sem átti sér stað innan hópsins líður mörgum börnum sem hafa búið við alkóhólisma illa innan um áfengi. Þessi börn geta forðast búðir ÁTVR. Hins vegar væri erfitt fyrir þau að sniðganga almennar matvörubúðir. Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því að það myndi auka töluvert á vanlíðan og kvíða barna í þessari stöðu ef smásala áfengis yrði gerð frjáls.

Önnur umræða sem átti sér stað í sérfræðihópnum var mikilvægi þess að alkóhólistar sem hefðu lokið meðferð fengju þann stuðning sem þeir þyrftu og aðstoð til þess að halda sér edrú. Ætla má að áfengi í matvöruverslunum myndi fela í sér auknar freistingar fyrir óvirka alkóhólista og aðra sem þurfa að forðast áfengi heilsu sinnar vegna.

Íslenska ríkið er skuldbundið að þjóðarétti til þess að virða réttindi barna samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í febrúar á síðasta ári var Barnasáttmálinn auk þess lögfestur einróma á Alþingi, sbr. lög nr. 19/2013. Samkvæmt 3. gr. Barnasáttmálans á það sem er börnum fyrir bestu að hafa forgang við allar ákvarðanir sem varða börn með einum eða öðrum hætti. Hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn skaðlegum áhrifum áfengis eiga því að vega þyngra en hugsanlegir hagsmunir fullorðinna af því að geta keypt áfengi í almennum verslunum. Má í því sambandi einnig benda á að íslenska ríkinu er skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal á sviði löggjafar, til þess að vernda börn gegn skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímuefna, sbr. meðal annars 33. gr. Barnasáttmálans.

Umboðsmaður barna skoraði á þingmenn að virða réttindi barna, setja hagsmuni þeirra í forgang og hafna því að lögfesta frumvarpið. Þá fylgdi hann umsögn sinni eftir á fundi með allsherjar- og menntamálanefnd og velferðarnefnd Alþingis. Málið var enn til umræðu á Alþingi í lok árs og mun umboðsmaður halda áfram að beita sér fyrir því að það verði ekki samþykkt.

BÖRN MEÐ SÉRÞARFIR

Umboðsmaður barna hefur á síðustu árum lagt mikla áherslu á málefni barna með ýmiss konar sérþarfir, s.s. fatlanir eða þroska-, hegðunar- og geðraskanir. Vegna niðurskurðar og aukins álag hefur bið eftir greiningu og þjónustu aukist verulega og þurfa mörg börn að bíða í mánuði og jafnvel ár eftir stuðningi við hæfi. Umboðsmaður barna vann á árnunum 2013 og 2014 óbirta samantekt um stöðu þessara mála og hefur hún nýst mikið í störfum embættisins, til dæmis á fundi með félagsmálaráðherra.

Vorið 2014 frétti umboðsmaður barna af fyrirhugaðri sameiningu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, í eina sérhæfða þjónustumiðstöð fyrir fatlað fólk. Ljóst er að sameiningin myndi hafa töluverð áhrif á þjónustu við börn. Umboðsmaður ákvað því að óska eftir því við Velferðarráðuneytið að fá send öll gögn um sameininguna. Í kjölfarið sendi hann umsögn til ráðuneytisins þar sem hann kom á framfæri áhyggjum sínum af því að ekki hefði verið nægilega hugað að sérstöðu barna í þeirri vinnu sem hefði farið fram við að undirbúa sameininguna.

Samkvæmt 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, á það sem er börnum fyrir bestu að hafa forgang við allar ákvarðanir sem varða börn. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur talið umrætt ákvæði leggja þá skyldu á yfirvöld að meta það sérstaklega hvaða áhrif fyrirhugaðar ákvarðanir muni hafa á börn (e. child-impact assessment). Miðað við þau gögn sem umboðsmaður barna fékk send fór hins vegar ekkert slíkt mat fram. Þá vakti það athygli umboðsmanns að í gögnunum kemur fram að leitast hafi verið við að hafa samráð við alla þá aðila sem eigi hagsmuna að gæta við sameininguna, en ekki var rætt við umboðsmann barna eða aðra aðila sem vinna að hagsmunagæslu fyrir börn.

Ef fyrrnefndar stofnanir verða sameinaðar mun sú þjónusta sem Greiningarstöðin veitir einnig ná til fullorðinna. Hins vegar er ljóst að nú þegar vantar mikið upp á að þjónusta fyrir börn með þroska- og hegðunarraskanir sé fullnægjandi og er bið eftir greiningu mjög löng. Þar sem börn eru enn að þroskast þurfa þau auk þess á annars konar og meiri þjónustu að halda en fullorðnir. Þetta endurspeglast meðal annars í Barnasáttmálanum, þar sem fram kemur að börn eigi rétt á þeim stuðningi og þjónustu sem þau þurfa til þess að ná sem bestum andlegum og líkamlegum þroska, sbr. meðal annars 6. og 23. gr. sáttmálans. Snemmtæk íhlutun skiptir miklu máli, þar sem markviss örvun ungra barna gerir þeim kleift að ná sem bestum þroska og fyrirbyggir aukinn vanda síðar á lífsleiðinni. Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því að biðlistar muni lengjast og þjónusta við börn með þroska- og hegðunarraskanir skerðast enn frekar ef sameiningin verður að veruleika.

Haustið 2014 var lagt fram frumvarp um umrædda sameiningu á Alþingi. Umboðsmaður barna skrifaði umsögn um frumvarpið þar sem hann ítrekaði áhyggjur sínar af því að ekki hefði verið tekið nægilegt tillit til barna og sérþarfa þeirra við undirbúning sameiningarinnar. Í því sambandi benti hann einnig á að þegar hagsmunir barna og fullorðinna veguðust á ættu hagsmunir barna að hafa forgang, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans. Umboðsmaður fylgdi umsögn sinni eftir á fundi með velferðarnefnd Alþingis. Hann mun fylgjast með þróun mála á næsta ári.

BARNAVERND

Úrræði fyrir börn sem hafa brotið af sér

Á árinu 2014 átti sér stað umræða í fjölmiðlum um alvarlegt kynferðisbrot þar sem bæði sakborningar og brotaþoli voru börn. Umboðsmaður barna taldi brýnt að tekið yrði á málinu í samræmi við alvarleika þess og brotaþola veitt aðstoð og stuðningur við hæfi. Umboðsmaður barna taldi sig jafnframt knúinn til þess að ítreka þær miklu áhyggjur sem hann hefur af því úrræðaleysi sem ríkir í málefnum barna sem grunuð eru um eða hafa verið dæmd fyrir afbrot. Hefur hann margoft bent á nauðsyn þess að koma á fót meðferðarheimili þar sem börn sem hlotið hafa fangelsisdóma geta afplánað refsingu sína. Umboðsmaður barna ákvað því að senda bréf, dags. 15. maí 2014, til félagsmálaráðherra og innanríkisráðherra þar sem hann hvatti þá til að beita sér fyrir því að stjórnvöld uppfylltu skyldur sínar samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar kæmi að úrræðum fyrir börn sem brotið hefðu af sér eða væru grunuð um afbrot. Í bréfi umboðsmanns kom eftirfarandi fram:

Nú er staðan sú að fjögur börn hafa verið úrskurðuð í gæsluvarðhald á Litla Hrauni, en umboðsmaður barna telur það ekki í samræmi við réttindi þeirra samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Á það við jafnvel þó að þau séu í einangrun og ekki innan um eldri fanga. Þar sem einangrun er sérstaklega íþyngjandi fyrir börn er enn frekari ástæða til að tryggja að aðstæður séu í samræmi við hagsmuni og þarfir þeirra.

Þó að meginreglan sé sú að almennt beri að forðast að úrskurða börn í gæsluvarðhald er ljóst að slíkt getur verið nauðsynlegt í ákveðnum tilvikum, til dæmis vegna mikilvægra rannsóknarhagsmuna. Umboðsmaður barna telur þó ekki í samræmi við réttindi og hagsmuni barna að vera vistuð í gæsluvarðhaldi í fangelsum, enda eru flestir sammála um að fangelsi eru ekki staður fyrir börn.

Þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn þarf að huga að sérstöðu þeirra og hafa það sem er þeim fyrir bestu að leiðarljósi, sbr. meðal annars 3. gr. Barnasáttmálans. Á það við um öll börn, óháð því hvort þau hafa komist í kast við lögin eða ekki. Samkvæmt Barnasáttmálanum þurfa viðbrögð við afbrotum barna að vera til þess fallin að hafa uppbyggileg áhrif og miða að því að koma í veg fyrir áframhaldandi brotahegðun, sbr. meðal annars 40. gr. sáttmálans.

Af c-lið 37. gr. Barnasáttmálans leiðir að almennt er ekki er heimilt að vista börn með fullorðnum föngum. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur túlkað umrætt ákvæði með þeim hætti að ekki sé heimilt að vista börn í fangelsum sem ætluð eru fyrir fullorðna. Hefur nefndin því talið nauðsynlegt að ríki komi á fót sérstökum úrræðum fyrir börn sem svipt hafa verið frelsi sínu, þar sem aðstæður og verklag taka mið af þörfum barna og til staðar er fagfólk með sérþekkingu á málefnum þeirra.

Samfélagið í heild ber mikla ábyrgð gagnvart þeim börnum sem brjóta af sér. Harkaleg viðbrögð og umfjöllun um afbrot barna stuðlar ekki að bættri hegðun heldur getur þvert á móti aukið líkurnar á áframhaldandi brotum.

Umboðsmaður barna telur afar brýnt að stjórnvöld beiti sér fyrir úrbótum í þessum málaflokki og uppfylli skyldur sínar samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umboðsmaður telur það með öllu óásættanlegt að réttindi barna séu ítrekað brotin að þessu leyti.

Ofbeldi á ungbarnaleikskóla

Í bréfi, dags. 18. mars 2014, frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu kom fram að embættið hefði ákveðið að fella niður mál sem varðaði ofbeldi gegn barni á ungbarnaleikskóla. Ríkissaksóknari staðfesti umrædda ákvörðun 28. apríl 2014. Umboðsmaður barna lítur svo á að hvers kyns líkamleg valdbeiting gegn barni feli í sér brot á 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Kom sú ákvörðun ákæruvaldsins að fella umrætt mál niður því á óvart. Umboðsmaður barna lítur mál sem varða ofbeldi gegn börnum alvarlegum augum og taldi því nauðsynlegt að skoða málið nánar. Með bréfi umboðsmanns barna, dags. 9. maí 2014, óskaði umboðsmaður eftir öllum gögnum frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í því máli sem um ræðir.

Eftir að hafa farið yfir gögn málsins sendi umboðsmaður barna lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara álit sitt vegna meðferðar máls sem varðaði ofbeldi gegn barni á ungbarnaleikskóla. Umboðsmaður var ósammála túlkun ákæruvaldsins á núgildandi lögum og telur hana brjóta gegn réttindum barna. Auk þess hefur umboðsmaður áhyggjur af því að vinnubrögð lögreglunnar í málinu hafi ekki verið nægilega vönduð, enda virðist hún byggja niðurstöðu sína á orðalagi lagaákvæðis sem er ekki lengur í gildi. Umboðsmaður hefur verulegar áhyggjur af þeim skilaboðum sem þessi niðurstaða sendir og telur óviðunandi að börnum sé ekki veitt ríkari vernd gegn ofbeldi hér á landi. Álit umboðsmanns barna vegna niðurstöðu ákæruvaldsins um að fella niður mál sem varðar ofbeldi gegn barni var eftirfarandi:

Rassskellingar á ungbarnaleikskóla

Í lok síðasta árs komst Barnavernd Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að starfsmenn ungbarnaleikskóla hefðu beitt ómálga börn harðræði. Ýmis gögn lágu fyrir í málinu, meðal annars myndskeið þar sem starfsmaður slær barn á rassinn. Þrjú vitni staðfesta að umræddur starfsmaður hafi oft rassskellt börn á leikskólanum. Foreldrar barnsins í umræddu myndbandi kærðu málið til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en málið var fellt niður með vísan til þess að það teldist ekki líklegt til sakfellis. Ákvörðun lögreglunnar um að fella málið niður var í framhaldinu kærð til ríkissaksóknara, sem staðfesti ákvörðunina. Umboðsmaður barna lítur mál sem varða ofbeldi gegn börnum alvarlegum augum og ákvað því að skoða málið nánar. Hann óskaði því eftir öllum gögnum málsins frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Gögnin bárust í lok maí 2014.

Umboðsmaður barna gagnrýnir niðurstöðu ákæruvaldsins

Umboðsmaður barna harmar þá ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að fella niður mál sem varðar ofbeldi gegn barni á ungbarnaleikskóla. Ennfremur lýsir hann yfir vonbrigðum sínum yfir því að ríkissaksóknari hafi staðfest umrædda ákvörðun. Umboðsmaður gagnrýnir harðlega þá niðurstöðu að sú háttsemi að slá barn á rass teljist ekki refsiverð samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Í núgildandi ákvæði 99. gr. barnaverndarlaga kemur skýrt fram að hver sem beitir barn andlegum eða líkamlegum refsingum, hótunum eða ógnunum eða sýnir af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni skuli sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum. Jafnframt kemur fram í 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga að allir sem hafi uppeldi og umönnun barna með höndum skuli sýna þeim virðingu og umhyggju og að óheimilt sé með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Er því skýrt að hvers kyns ofbeldi eða vanvirðandi háttsemi gegn barni, svo sem að slá það á rassinn, er refsiverð.

Lögreglustjórinn virðist byggja ákvörðun sína á gömlum lögum

Í rökstuðningi lögreglustjórans er meðal annars vísað til þess að ekki hafi verið „um að ræða háttsemi sem hafi verið til þess fallin að skaða barnið andlega né líkamlega“. Í 99. gr. barnaverndarlaga er hins vegar ekki gerð nein krafa um að sýnt sé fram á slíkan skaða, enda er gengið út frá því að ofbeldi hafi ávallt slæm áhrif á líðan barna. Hér virðist lögreglustjórinn því vera vísa til orðalags eldra ákvæðis barnaverndarlaga. Má í því sambandi benda á að meðal þeirra gagna sem umboðsmaður fékk um málið var útprentun af 98. og 99. gr. barnaverndarlaga eins og þær hljóðuðu áður en lögunum var breytt með lögum nr. 52/2009.  Áður en 99. gr. barnaverndarlaga var breytt kom fram í ákvæðinu að það væri refsivert að beita barn refsingum, hótunum eða ógnunum ef ætla mætti að slíkt hefði skaðað það andlega eða líkamlega. Í umdeildum dómi Hæstaréttar frá 22. janúar 2009, í máli nr. 506/2008 var meðal annars vísað til þess að þágildandi ákvæði legði ekki fortakslaust bann við því að foreldri, eða annar maður með samþykki þess, beiti barn líkamlegum refsingum til að bregðast við óþægð, heldur væri refsinæmi slíkrar háttsemi háð því að slíkt væri til þess fallið að skaða barnið andlega og líkamlega. Umboðsmaður barna og fleiri aðilar gagnrýndu þennan dóm harðlega og var barnaverndarlögunum í kjölfarið breytt, sbr. lög nr. 52/2009. Í athugasemdum með breytingarlögunum er sérstaklega vísað til þess að niðurstaða fyrrnefnds dóms hafi verið „verulega óeðlileg, sérstaklega í ljósi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og almennrar afstöðu íslensku þjóðarinnar til líkamlegra refsinga gegn börnum“. Þá er sérstaklega tekið fram að „frumvarpinu sé ætlað að taka af allan vafa um að líkamlegar eða andlegar refsingar gegn börnum séu undir engum kringumstæðum heimilar“.

Ríkissaksóknari telur það ekki „líkamlega refsingu“ að slá barn á afturendann

Rökstuðningur ríkissaksóknara fyrir því að það teljist ekki brot á 99. gr. barnaverndarlaga að slá barn á rassinn er nokkuð frábrugðinn rökstuðningi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Virðist ríkissaksóknari líta svo á að umrædd háttsemi falli ekki undir hugtakið „líkamleg refsing“ í skilningi 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.

Umboðsmaður barna er ósammála þessari túlkun, enda hefur almennt verið litið svo á að hvers kyns líkamleg aflbeiting gegn barni til að bregðast við óþægð teljist líkamleg refsing. Þar að auki er rétt að benda á að önnur vanvirðandi háttsemi gagnvart barni telst einnig refsiverð samkvæmt 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Í því sambandi verður að líta til þess aðstöðu- og aflsmunar sem er á ungu barni og fullorðnum einstaklingi, sem á að sýna barninu virðingu og umhyggju. Í umræddu máli er til staðar myndskeið þar sem starfsmaður leikskólans sést slá rass barns og sýna því harkalega og vanvirðandi framkomu. Starfsmaðurinn viðurkennir einnig að hafa „danglað“ í barnið vegna þess að það var óþekkt og neitaði að hætta. Þá hafa þrjú vitni sagt að þau hafi oft séð umræddan starfsmann rassskella börn. Virðist það því hafið yfir skynsamlegan vafa að umræddur starfsmaður notaði ítrekað þá aðferð að slá á rass barna í þeim tilgangi að halda uppi aga – sem telst að mati umboðsmanns barna ótvírætt líkamleg refsing í skilningi barnaverndarlaga.

Rassskellingar og 217. gr. almennra hegningarlaga

Ríkissaksóknari bendir einnig á það máli sínu til stuðnings að túlka beri 99. gr. barnaverndarlaga í samræmi við 217. gr. almennra hegningarlaga. Þó að vísað sé til 217. gr. í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 52/2009 er ljóst að 99. gr. er mun víðtækara ákvæði, enda nær það jafnt til líkamlegra refsinga og andlegra, sem og annars konar vanvirðandi háttsemi. Umboðsmaður barna telur auk þess þá háttsemi að slá barn á rass falla undir 217. gr. almennra hegningarlaga, enda hefur almennt verið litið svo á að ákvæðið geti átt við þó ekki sé sýnt fram á teljandi tjón. Má einnig benda á að umboðsmaður barna gagnrýndi harkalega fyrrnefndan dóm Hæstaréttar, þar sem gengið var út frá því að foreldri, eða annar maður með samþykki foreldris, gæti beitt barn líkamlegum refsingum til að bregðast við óþægð. Þó að samþykki þolanda geti almennt leyst menn undan refsiábyrgð samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga verður ekki fallist á að foreldrar geti veitt slíkt samþykki fyrir hönd barna sinna, enda eru börn fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi. Jafnframt fær það ekki staðist að foreldrar geti samþykkt að börn þeirra verði beitt ofbeldi, enda ber þeim skylda til þess að vernda þau gegn slíku, sbr. meðal annars 3. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sem fyrr segir var 99. gr. barnaverndarlaga breytt til þess að bregðast við umræddum dómi og má því ætla að niðurstaðan yrði önnur ef sambærilegt mál kæmi til kasta dómstóla í dag. Vernd barna gegn ofbeldi hefur auk þess verið áréttuð sérstaklega með breytingu á barnalögum, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 61/2012 og lögfestingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. 19. gr. laga nr. 19/2013.

Hættuleg skilaboð

Í ljósi þess sem að framan greinir telur umboðsmaður barna að sú niðurstaða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara um að fella umrætt mál niður hafi verið röng. Umboðsmaður barna telur það skýrt brot á 99. gr. barnaverndarlaga að slá barn á rassinn, óháð því hvort það hafi verið gert í uppeldislegum tilgangi eða ekki.

Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af þeim skilaboðum sem þessi niðurstaða sendir. Ef refsiákvæði 99. gr. barnaverndarlaga og 217. gr. almennra hegningarlaga eru túlkuð með þessum hætti má ætla að það teljist ekki refsivert að beita barn ofbeldi, svo lengi sem það hefur ekki sýnilegar afleiðingar. Börn á leikskólum eru háð umönnun og vernd starfsfólks og sett undir yfirburðarstöðu þess. Ung börn hafa ekki getu til þess að segja frá ofbeldi eða tjá sig um þau áhrif sem það hefur á líðan þeirra. Hins vegar hefur verið sýnt fram á að hvers kyns ofbeldi gegn börnum hefur slæm áhrif á velferð þeirra, auk þess sem slíkt kennir börnum að eðlilegt sé að grípa til ofbeldis til að bregðast við mótlæti eða ná fram fram vilja sínum.  

Brot á mannréttindum barna

Þessi niðurstaða er óásættanleg að mati umboðsmanns barna og felur í sér brot á alþjóðlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt 19. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Má í því sambandi vekja athygli á að Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur bent á að í 19. gr. felist að aldrei sé heimilt að beita líkamlegu afli til þess að aga börn, óháð því hvort slíkt hafi sýnilegar afleiðingar eða ekki. Það að slá á rass barns er líkamleg valdbeiting, auk þess sem slík háttsemi getur talist vanvirðandi og niðurlægjandi fyrir barnið.

Að lokum má velta fyrir sér hvort það að börnum sé ekki veitt refsivernd gegn líkamlegri valdbeitingu starfsfólks leikskóla sé brot á mannréttindaákvæðum stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Reglan felur í sér að skylt er að tryggja börnum sérstaka vernd, auk þess sem skylt er að sjá til þess að velferð þeirra sé tryggð með öllum tiltækum ráðum. Ofbeldi stofnar velferð barna ótvírætt í hættu og getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Má því leiða af ákvæðinu þá grundvallarskyldu ríkisins að tryggja öllum börnum vernd gegn ofbeldi og annars konar illri meðferð.

Í 68. gr. stjórnarskrárinnar er öllum tryggð vernd gegn ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð. Börnum er auk þess tryggð sérstök vernd gegn slíkri meðferð í a-lið 37. gr. Barnasáttmálans. Þegar metið er hvort um sé að ræða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð þarf að meta aðstæður heildstætt, meðal annars með hliðsjón af aldri þolanda. Almennt er talin meiri hætta á því að slík meðferð eigi sér stað í þeim tilvikum sem einstaklingur er háður annarri manneskju eða settur undir yfirburðarstöðu annars einstaklings. Má í því sambandi benda á að í athugasemdum með þessu ákvæði stjórnarskrárinnar er tekið fram að ómannúðleg og vanvirðandi meðferð geti til dæmis skírskotað til meðferðar foreldra á börnum sínum. Má ætla að sömu sjónarmið eigi við um ofbeldi gegn börnum á leikskólum, enda eru börn við slíkar aðstæður algjörlega háð umönnun starfsfólks.

Brýnt að auka vernd barna gegn ofbeldi

Umboðsmaður barna lítur málið alvarlegum augum. Hann skorar á lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara til að endurskoða túlkun sína á ofangreindum refsiákvæðum. Ef ákvæðin verða hins vegar áfram túlkuð með þessum hætti er brýnt að breyta barnaverndarlögum og árétta enn frekar að hvers kyns líkamleg valdbeiting gegn börnum sé refsiverð.

Aðbúnaður barna á unglingadeildinni á Vogi

Umboðsmanni barna barst erindi frá Rótinni – félagi um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda þar sem óskað var eftir áliti umboðsmanns barna á aðbúnaði barna á Sjúkrahúsinu Vogi og hvort sá aðbúnaður samræmdist 27. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Í fyrrnefndu ákvæði er kveðið á um það hvort umhverfi og aðbúnaður sjúkra barna á heilbrigðisstofnunum skuli hæfa aldri þeirra, þroska og ástandi. Umboðsmaður barna svaraði erindi Rótarinnar með bréfi, dags. 24. október 2014. Í bréfi umboðsmanns lýsir hann áhyggjum sínum af málefnum þeirra barna sem glíma við vímuefnavanda. Hann hefur því reynt að kynna sér þau úrræði sem eru í boði fyrir þessi börn og hefur meðal annars heimsótt unglingadeildina á Vogi. Í þeirri heimsókn kom meðal annars fram að unglingadeildin væri einungis ætluð fyrir börn og ungmenni sem væru 19 ára og yngri og að sjúklingar af öðrum meðferðargöngum mættu ekki fara inn á deildina.

Umboðsmaður barna hefur ekki haft ástæðu til að hafa áhyggjur af aðbúnaði barna á unglingadeildinni á Vogi. Þó er rétt að taka fram að umboðsmaður hefur ekki sérþekkingu til þess að meta það faglega starf sem þar fer fram. Umboðsmaður benti á að ef Rótin hefði ástæðu til að ætla að öryggi og velferð barna væri stefnt í hættu væri brýnt að láta barnaverndina vita. Þá var bent á að Embætti landlæknis hefði eftirlit með að heilbrigðisþjónusta uppfyllti faglegar kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu og ákvæði heilbrigðislöggjafar, sbr. 25. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Einnig var bent á heilbrigðisráðherra, en hann fer með yfirstjórn málaflokksins.

Þegar barn á við vímuefnavanda að stríða þarf að meta það í hverju tilviki fyrir sig hvaða meðferðarúrræði hentar því best, meðal annars út frá aðstæðum, hagsmunum barns og vilja þess sjálfs. Skilyrði þess að barn fari á unglingadeildina á Vogi er að það samþykki sjálft meðferðina. Börn eru því ekki send í meðferð á Vogi gegn vilja sínum. Hins vegar geta foreldrar barna samþykkt meðferðarúrræði á vegum barnaverndaryfirvalda, svo sem MST fjölkerfameðferð, án samþykkis barns. Frá 15 ára aldri þurfa börn þó almennt sjálf að samþykkja vistun á meðferðarheimilum. Barnaverndarnefndir geta þó úrskurðað um að börn á aldrinum 15 til 18 ára skuli fara í meðferð á Stuðla eða önnur meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu gegn vilja sínum, ef brýnir hagsmunir þeirra mæla með því.

Þau úrræði sem nú eru í boði fyrir börn virðast því miður ekki í stakk búin til þess að taka við þeim börnum sem eru með alvarlegan hegðunar- og vímuefnavanda og vilja ekki leita sér aðstoðar. Sömuleiðis skortir úrræði fyrir börn sem eru í neyslu og glíma við geðrænan vanda. Umboðsmaður barna hefur margoft bent á nauðsyn þess að koma á fót nýju meðferðarúrræði, þar sem aðstæður og verklag taka mið af þörfum barna og til staðar er fagfólk með sérþekkingu á málefnum þeirra. Má til dæmis benda á frétt á heimasíðu embættisins frá 9. september 2013 og þau gögn sem vísað er til neðst í henni. Umboðsmaður barna mun halda áfram að krefjast þess að stjórnvöld bregðist við þessu úrræðaleysi og tryggi hverju og einu barni meðferð við hæfi.

Úrræði fyrir börn með alvarlegan vanda

Umboðsmanni barna barst erindi frá barna- og unglingageðdeild Landspítalans þar sem óskað var eftir áliti umboðsmanns á vinnubrögðum Barnaverndar Reykjavíkur í máli barns sem var sent eitt síns liðs, handjárnað í fylgd lögreglu, í læknismat sem það óskaði ekki eftir sjálft. Umboðsmaður átti erfitt með að sjá að réttindi barnsins hefðu verið virt í umræddu máli.

Umboðsmaður taldi ástæðu til að kanna málið nánar og fundaði því með starfsfólki Barnaverndarstofu þann 3. apríl 2014 til þess að ræða málið nánar. Í kjölfar fundarins sendi umboðsmaður barna tölvupóst til Barnaverndarstofu og óskaði eftir því að fá þau gögn málsins sem Barnaverndarstofa hafði undir höndum. Enn fremur óskaði umboðsmaður eftir þeim upplýsingum og gögnum sem Barnaverndarstofa hafði um þörfina fyrir frekari úrræði fyrir börn með hegðunar- og geðraskanir sem glíma jafnframt við vímuefnavanda.

Gögn málsins vörpuðu ljósi á það úrræðaleysi sem ríkir hér á landi fyrir börn með tví- eða fjölþættan vanda sem þurfa þjónustu frá bæði barnaverndarkerfinu og heilbrigðiskerfinu. Sem fyrr segir hefur umboðsmaður barna margoft bent á að viðeigandi úrræði skorti fyrir þessi börn þar sem boðið sé upp á meðferð og heilbrigðisþjónustu við hæfi. Í byrjun næsta árs mun umboðsmaður barna enn og aftur ítreka áhyggjur sínar við Velferðarráðuneytið og óska eftir svörum við því hvernig ráðuneytið hyggist bregðast við þessum vanda.

 

SKÓLAMÁL

Spurningalistar með samræmdum prófum

Í kjölfar ábendinga ákvað umboðsmaður barna að kalla eftir spurningalista sem var lagður fyrir nemendur sem tóku samræmd könnunarpróf í 4., 7. og 10. bekk, ásamt þeim leiðbeiningum sem honum fylgdu. Spurningalistinn og bréf til foreldra bárust umboðsmanni með tölvupósti 1. október 2014. Við skoðun á umræddum spurningalista gat umboðsmaður barna ekki séð að það kæmi fram að nemendur hefðu val um þátttöku eða að þeir gætu sleppt því að svara einstökum spurningum. Einungis virtist gengið út frá því að foreldrar gætu hafnað þátttöku barna sinna.

Af þessu tilefni sendi umboðsmaður barna ábendingu til Námsmatsstofnunar um það sem að hans mati mátti fara betur í könnun sem lögð var fyrir hluta nemenda sem tóku samræmd próf í september 2014. Umboðsmaður gerði athugasemd við að ekki hefði verið tryggt að nemendur vissu að þeir gætu sjálfir ákveðið að svara ekki umræddum spurningalista í heild eða að hluta. Á það ekki síst við í ljósi þess að sumar spurningarnar voru þess eðlis að erfitt gæti verið fyrir börn á þessum aldri að svara þeim. Í spurningalistanum voru nemendur m.a. spurðir um samræmdu prófin, samskipti, líðan og framtíðarsýn varðandi búsetu, starf og barneignir.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að börnum sé sagt frá því að þau megi sleppa því að svara einstaka spurningum eða könnun í heild ef þau vilji. Einnig telur umboðsmaður að almennt sé ekki rétt foreldrar geti ákveðið einhliða að börn þeirra skuli ekki taka þátt í skoðanakönnunum eða rannsóknum í vísindaskyni, að því gefnu að þær hæfi aldri þeirra og þroska. Börn eiga að fá aukið svigrúm til að taka sjálfstæðar ákvarðanir eftir því sem þau eldast og þroskast.

Námsmatsstofnun brást fljótt og vel við og sendi umboðsmanni tölvupóst viku síðar þar sem segir að stofnunin muni bregðast við ábendingu umboðsmanns barna með því að breyta kynningu á sambærilegum könnunum í framtíðinni svo að nemendum megi vera ljós réttur þeirra til að svara eða sleppa spurningum eða könnuninni sem heild. Við þá endurskoðun mun vera stuðst við álit umboðsmanns barna um þátttöku barna í skoðana- og markaðskönnunum sem var gefið út fyrr á árinu 2014.

Verkfall framhaldsskólakennara

Umboðsmaður barna og Heimili og skóli höfðu verulegar áhyggjur af nemendum í framhaldsskólum vegna verkfalls framhaldsskólakennara sem boðað var til 17. mars 2014 og gáfu því út ályktun vegna málsins. Brottfall nemenda úr framhaldsskólum hefur verið mikið áhyggjuefni hér á landi og er hætt við að langvarandi verkfall verði til þess að fleiri nemendur hætti í skóla og ljúki ekki framhaldsnámi.

Umboðsmaður barna og Heimili og skóli komu eftirfarandi skilaboðum á framfæri:

 • Framhaldsskólanemendur eru hvattir til að missa ekki móðinn og stunda nám af fullum krafti þó hætta sé á verkfalli. Óvíst er hvort til verkfalls komi og þá hvaða áhrif það mun hafa á skólastarf.
 • Mikilvægt er að huga sérstaklega að velferð og menntun nemenda í framhaldsskólum. Kennarar og annað starfsfólk framhaldskóla er því hvatt til að undirbúa nemendur eins vel og hægt er fyrir hugsanlegt verkfall og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stuðla að því að nemendur flosni ekki upp úr námi.
 • Foreldrar bera ábyrgð á velferð barna sinna og eiga að stuðla að því að þau fái menntun við hæfi. Foreldrar eru því hvattir til að halda vel utan um börn og ungmenni í framhaldsskólum ef til verkfalls kemur og veita þeim þá aðstoð sem þau þurfa.
 • Börn og ungmenni eiga rétt á framhaldsmenntun í faglegu umhverfi þar sem stuðlað er að alhliða þroska hver og eins. Það skiptir sköpum fyrir starf framhaldsskóla að hægt sé að ráða hæfa kennara og borga þeim viðunandi laun miðað við menntun og reynslu. Hvetjum við því samningsaðila til að semja um kjör sem fyrst, svo verkfall bitni ekki á hagsmunum og menntun nemenda. 

 

Ábyrgð foreldra framhaldsskólanema

Í tilefni af skólabyrjun í ágúst taldi umboðsmaður barna rétt að vekja athygli á og minna foreldra og aðra á réttindi barna í framhaldsskólum. Eftir að skyldunámi lýkur eiga öll börn rétt á menntun eða starfsþjálfun við hæfi og er sá réttur m.a. tryggður í 28. gr. Barnasáttmálans og lögum um framhaldsskóla. 

Þó að börn ráði sjálf hvort og þá hvaða framhaldsskóla þau stunda nám við bera foreldrar mikla ábyrgð á framhaldsskólagöngu barna sinna. Foreldrum er skylt samkvæmt 28. gr. barnalaga að sjá til þess að börn njóti menntunar og starfsþjálfunar í samræmi við hæfileika þeirra og áhugamál og nái þannig að þroska hæfileika sína á þann máta sem best hentar hverju barni. Bera foreldrar því ábyrgð á því að veita börnum sem eru í framhaldsskóla þann stuðning og þá hvatningu sem þau þurfa. Foreldrar bera einnig ábyrgð á framfærslu barna sinna til 18 ára aldurs. Í því felst að foreldrum ber að sjá börnum sínum fyrir því sem þau þurfa til þess að lifa, þroskast og njóta réttinda sinna.

Þá taldi umboðsmaður einnig rétt á að vekja athygli á að foreldrar bera ábyrgð á kostnaði við skólagöngu. Námi í framhaldsskóla getur fylgt mikill kostnaður, bæði vegna innritunargjalda og bókakaupa. Dæmi eru um að foreldrar láti börn sín taka þátt í þessum kostnaði. Telur umboðsmaður barna því mikilvægt að árétta að foreldrar bera ábyrgð á því að tryggja börnum sínum menntun við hæfi og ber þeim því að greiða innritunargjöld í almenna framhaldsskóla, sem og bækur, ritföng og annan nauðsynlegan kostnað fyrir börn sín. Ef foreldrar geta ómögulega staðið undir þessum kostnaði er hægt að leita eftir aðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaga eða hjálparstofnunum.

Þegar nemendur eru orðnir 18 ára eru þeir fullorðnir og bera ábyrgð á sér sjálfir. Foreldrar ungmenna á aldrinum 18 til 20 ára bera þó enn vissa ábyrgð á því að stuðla að menntun barna sinna. Má í því sambandi benda á að samkvæmt 62. gr. barnalaga er hægt að úrskurða foreldri til að greiða barni sínu framlag til menntunar eða starfsþjálfunar þar til það nær 20 ára aldri. 

Upptaka eigna í grunnskólum

Umboðsmanni barna berast reglulega erindi frá börnum þar sem spurt er hvort starfsfólk skóla megi taka síma eða aðra muni af nemendum. Þannig virðist nokkuð algengt að skólar taki eignir af nemendum til þess að halda uppi aga. Nemendur mega svo yfirleitt sækja þessa muni í lok skóladags en stundum er gerð krafa um að foreldrar komi í skólann til þess að sækja þá fyrir hönd barna sinna. Vegna fjölda fyrirspurna ákvað umboðsmaður barna að svara þessu álitaefni með almennum hætti í frétt á vefsíðu sinni.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að hafa í huga að börn eru fullgildir einstaklingar, með sjálfstæð mannréttindi. Börn njóta því eignarréttar og friðhelgi einkalífs eins og aðrir. Ekki er heimilt að skerða slík réttindi nema það sé talið nauðsynlegt og þá á grundvelli lagaheimildar. Hvorki í lögum um grunnskóla né reglugerðum er að finna heimildir grunnskóla til að taka eignir af nemendum. Það þýðir að kennurum eða öðrum er almennt óheimilt að taka eignir nemenda, nema um sé að ræða muni sem geta stefnt þeim sjálfum eða öðrum í hættu.

Nemendur í grunnskólum verða að fylgja skólareglum og fyrirmælum kennara og annars starfsfólks, eins og meðal annars kemur fram í 14. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 og 4. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins. Skólar eða einstaka kennarar geta að sjálfsögðu ákveðið að óheimilt sé að vera með ákveðna muni í kennslustundum, svo sem síma. Ef nemandi virðir ekki skólareglur eða fer ekki eftir fyrirmælum kennara er heimilt að bregðast við í samræmi við skólareglur. Þannig gæti kennari til dæmis byrjað á því að áminna nemanda en ef það dugar ekki til er hægt að vísa honum úr kennslustund eða senda hann til skólastjóra. Þegar um er að ræða hegðun sem getur valdið öðrum skaða eða eignatjóni getur starfsfólk þó brugðist við á grundvelli neyðarréttar, til dæmis með því að taka bolta eða aðrar eignir af nemendum. Þegar brugðist er við broti nemanda þarf alltaf að gæta meðalhófs, en það þýðir meðal annars að velja verður vægasta úrræðið sem kemur til greina.

Í þeim tilvikum sem skólar hafa talið nauðsynlegt að fjarlægja eignir nemanda ber þeim að skila þeim til baka eins fljótt og hægt er. Að mati umboðsmanns barna er ekki rétt að gera kröfu um að foreldrar sæki eignir nemanda, enda eiga börn sjálfstæðan eignarrétt. Ef brot nemanda er alvarlegt eða ítrekað getur skóli hins vegar ákveðið að kalla foreldra á fund til þess að ræða hegðun nemanda og hafa samráð við þá um hvernig best er að stuðla að bættri hegðun. 

Í kjölfarið af birtingu fréttarinnar sköpuðust miklar umræður um málið, sem byggðust í einhverjum tilvikum á misskilningi. Umboðsmaður barna ræddi því málið við ýmsa aðila. Þá ákvað hann að senda tölvupóst á alla grunnskóla landsins til þess að vekja athygli á málefninu og útskýra nánar afstöðu sína.

Framkoma í starfi með börnum

Sem betur fer eru flestir þeir sem vinna með börnum góðar fyrirmyndir, sinna starfi sínu vel og hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Því miður eru þó of mörg dæmi um að fullorðnir einstaklingar komi illa fram við börn og niðurlægi þau jafnvel fyrir framan aðra. Umboðsmanni barna berast reglulega fyrirspurnir og ábendingar frá börnum um slæma framkomu fullorðinna sem vinna með börnum. Umboðsmaður ákvað því á árinu að vekja athygli á mikilvægi þess að þeir sem ynnu með börnum huguðu að réttindum þeirra og sýndu þeim virðingu. Góð samskipti, uppbyggjandi viðbrögð við agabrotum sem og gagnkvæm virðing milli allra aðila einkennir gott skóla- og frístundastarf.

Vernd gegn ofbeldi

Það telst ofbeldi þegar fullorðinn einstaklingur kemur illa fram við barn, t.d. með stríðni, látbragði, hótunum eða niðrandi ummælum. Þegar slíkt ofbeldi er síendurtekið er um einelti að ræða. Börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi og annars konar vanvirðandi háttsemi, sbr. meðal annars 19. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 1. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Ábyrgð hinna fullorðnu

Hvers kyns ofbeldi og önnur vanvirðandi framkoma gagnvart börnum getur haft langvarandi og skaðleg áhrif á sjálfsmynd og líðan barna. Er því mikilvægt að ábendingar um slíka háttsemi gegn börnum séu teknar alvarlega. Á það ekki síst við þegar gerandinn er fullorðinn einstaklingur sem hefur það hlutverk að gæta að hagsmunum barnsins, svo sem kennari eða þjálfari. Við slíkar aðstæður er barn sett undir yfirburðastöðu viðkomandi aðila og ríkir því valdamisvægi í samskiptum þeirra. Fullorðnir einstaklingar þurfa því að gæta sérstakrar nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart börnum, eins og meðal annars er sérstaklega tekið fram í 12. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. Þá ber þeim ávallt að hafa það sem er börnum fyrir bestu að leiðarljósi í störfum sínum. Reglur um ábyrgð, réttindi og skyldur starfsfólks og nemenda í grunnskólum er að finna í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011. Þá er að finna góðar reglur og viðmið í ýmsum siðareglum, t.d. siðareglum kennara og siðareglum Æskulýðsvettvangsins.

Börn eiga að njóta vafans

Í 3. gr. Barnasáttmálans kemur fram að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Í samræmi við það telur umboðsmaður að börn eigi að njóta vafans þegar deilt er um það hvort einelti eða önnur vanvirðandi háttsemi hafi átt sér stað. Umboðsmaður barna telur því brýnt að hlustað sé á börn og þau ávallt tekin alvarlega þegar þau segja frá því að einhver fullorðinn hafi komið illa fram við þau, hvort sem það er í skólum, frístundum eða á öðrum vettvangi. Þá er mikilvægt að brugðist sé við í samræmi við hagsmuni barnsins.

Kennslumat

Börn sem hafa leitað til umboðsmanns barna kvarta yfir því að þau séu ekki tekin alvarlega þegar þau segja frá slæmri framkomu kennara eða annars starfsfólks. Til dæmis kvarta þau yfir því að sömu aðilarnir komi ítrekað illa fram við nemendur án þess að brugðist sé við. Þau börn sem skipa ráðgjafarhóp umboðsmanns barna hafa bent á mikilvægi þess að nemendur fái frekari tækifæri til að tjá sig um framkomu kennara og annars starfsfólk skóla án þess að hætta sé á því að það bitni með neikvæðum hætti á þeim sjálfum. Hafa þau til dæmis komið með þá hugmynd að mat á kennurum og öðru starfsfólki verði reglulega lagt fyrir nemendur í öllum grunnskólum. Þá geti skólinn brugðist við ef ítrekað verði kvartað undan sama starfsfólkinu, t.d. vegna eineltis eða annars konar slæmrar framkomu. Slíkt mat gæti líka verið góð leið til að koma jákvæðum athugasemdum á framfæri því vissulega eru flestir þeir sem vinna með börnum að leggja sig fram við að reynast þeim sem best.

AFHENDING SAKAVOTTORÐS

Hinn 4. júní 2014 sendi umboðsmaður barna bréf til ríkissaksóknara þar sem hann benti á mikilvægi þess að ríkissaksóknari endurskoðaði 8. gr. reglna nr. 680/2009 þannig að skýrt yrði að börn á aldrinum 15 til 18 ára gætu fengið eigi sakavottorð án samþykkis forsjáraðila.

Samkvæmt 2. mgr. 227. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 á hver og einn rétt á að fá afhent sakavottorð eða upplýsingar um eigin sakaferil. Í ákvæðinu eru ekki gerð nein skilyrði um aldur viðkomandi og nær ákvæðið því jafnt til sakhæfra barna og fullorðinna. Er þetta ákvæði í samræmi við þá meginreglu að einstaklingar eigi rétt á að fá aðgang að upplýsingum um sig.

Í 8. gr. reglna nr. 680/2009, um sakakrá ríkisins, var hins vegar vikið frá framangreindri meginreglu og kveðið á um að sakavottorð handa þeim sem er yngri en 18 ára skyldi aðeins látið í té ef fyrir lægi samþykki forsjáraðila. Umboðsmaður barna gat ekki séð að umrætt ákvæði ætti sér fullnægjandi lagastoð, enda gekk það þvert á fyrrnefnt ákvæði laga um meðferð sakamála.

Börn eiga stigvaxandi rétt á að hafa áhrif á eigið líf og taka sjálfstæðar ákvarðanir, eins og meðal annars kemur fram í 12. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013 og 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í samræmi við það telur umboðsmaður barna mikilvægt að tryggja börnum sjálfstæðan rétt til upplýsinga um sig sjálf. Þar sem börn verða sakhæf 15 ára má ætla að löggjafinn telji að börn séu frá þeim aldri fær um að axla ákveðna ábyrgð og taka sjálfstæðar ákvarðanir.

Í kjölfar þessarar ábendingar umboðsmanns barna var reglum um það hverjir mega fá afhent sakavottorð barna breytt. Börn geta nú sjálf fengið sitt eigið sakavottorð útgefið og er ekki þörf á samþykki forsjáraðila í þessu efni þegar um börn á aldrinum 15-18 er að ræða.

NAFNBREYTINGAR BARNA

Umboðsmanni barna bárust nokkrar ábendingar um að ekki hefði verið tekið tillit til vilja barna sem óskuðu eftir að breyta nafni sínu. Taldi umboðsmaður barna því þörf á að senda bréf til Þjóðskrár, dags. 16. september 2014, þar sem hann spurði spurninga um nafnbreytingar barna og rétt barna til að tjá sig og hafa áhrif á eigin málefni. Eftirfarandi er bréf umboðsmanns.

Öll börn eiga rétt til nafns og er sá réttur meðal annars tryggður í 7. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Nafn er mikilvægur hluti af sjálfsmynd barna og er því rétt að fara varlega í að ákveða breytingar á nafni barna, enda eiga þau rétt á að viðhalda auðkennum sínum samkvæmt 8. gr. Barnasáttmálans. Á sama tíma verður þó að virða rétt barna til þess að hafa áhrif á málefni sem varða þau sjálf. Í  lögum um mannanöfn nr. 45/1996 er þessi réttur úrfærður með þeim hætti að börn þurfa frá 12 ára aldri sjálf að samþykkja nafnbreytingar, sbr. 3. mgr. 13. gr. og 8. mgr. 14. gr. laganna. Af öðrum lögum leiðir þó ennfremur að öll börn eiga rétt á að tjá sig um fyrirhugaðar nafnbreytingar og er skylt að taka réttmætt tillit til sjónarmiða þeirra í samræmi við aldur og þroska, sbr. 12. gr. Barnasáttmálans og 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003.  Ber því að veita börnum undir 12 ára aldri tækifæri til þess að tjá sig áður en nafni þeirra er breytt.

Kenninöfn barna skipta ekki síður máli fyrir sjálfsmynd þeirra en eiginnöfn, enda vísa þau oftast til tengsla barns við föður og/eða móður. Slíkt getur haft jákvæð áhrif, sérstaklega þegar barn er eða var í góðum tengslum við það foreldri sem það er kennt við. Umboðsmaður barna þekkir hins vegar einnig dæmi þar sem kenninöfn hafa neikvæð áhrif á sjálfsmynd barna og jafnvel þannig að nafn beinlínis veldur barninu vanlíðan. Getur það til dæmis átt við í þeim tilvikum sem umrætt foreldri hefur haft lítil, engin eða neikvæð samskipti við barnið og það vill mun fremur kenna sig við það foreldri sem hefur verið til staðar fyrir það. Þá geta komið upp aðstæður þar sem foreldri hefur brotið gegn barni með alvarlegum hætti og það er stöðug og íþyngjandi áminning fyrir barnið að bera nafn brotmannsins.

Samkvæmt 6. mgr. 14. gr. laga um mannanöfn getur Þjóðskrá Íslands samþykkt breytingu á kenninafni barns þó sá sem barn er kennt við sé andvígur því ef sérstaklega stendur á og telja verður að nafnbreytingin verði barni til verulegs hagræðis. Þetta ákvæði ber að túlka til samræmis við réttindi barns samkvæmt Barnasáttmálanum og öðrum lögum. Má í því sambandi sérstaklega nefna að samkvæmt 3. gr. Barnasáttmálans og 2. mgr. 1. gr. barnalaga ber það sem er barni fyrir bestu ávallt að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Er því rétt að láta hagsmuni þess barns sem óskar eftir breytingu á kenninafni vega þyngra en hugsanlegir hagsmunir þess foreldris sem barn er kennt við. Þá ber að virða stigvaxandi rétt barna til þess að hafa áhrif á eigið líf og leyfa stálpuðum börnum að ráða mestu um það við hvaða foreldri þau eru kennd. Umboðsmaður barna hefur fengið ábendingar um að fyrrnefnt ákvæði um breytingu á kenninöfnum sé túlkað mjög þröngt í framkvæmd. Sem dæmi um það má nefna tvö mál þar sem nafnbreytingu stálpaðs barns var hafnað, jafnvel þó það hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu þess foreldris sem það var kennt við. Umboðsmaður barna telur þessa túlkun ekki í samræmi við ofangreind réttindi.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 83/1994 um umboðsmann barna er stjórnvöldum skylt þrátt fyrir þagnarskyldu að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til þess að hann geti sinnt hlutverki sínu. Í ljósi þess sem að framan greinir óskar umboðsmaður barna eftir svörum frá Þjóðskrá Íslands við eftirfarandi spurningum:

 1. Hvernig er tryggt að börn undir 12 ára aldri fái að tjá sig um fyrirhugaðar nafnbreytingar og að tekið sé réttmætt tillit til sjónarmiða þeirra, í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013 og 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. 

 2. Hvernig hefur 6. mgr. 14. gr. verið túlkuð í framkvæmd?

 3. Hversu margar óskir um breytingu á kenninafni barna 12 ára og eldri hafa borist frá 1. janúar 2009? Hversu margar af þeim hafa verið samþykktar og hversu mörgum hefur verið hafnað?

 4. Hvað þarf að koma til svo ósk um breytingu á kenninafni sé samþykkt?

 5. Hvernig er tryggt að börn fái að koma sínum sjónarmiðum á framfæri áður en ákvörðun er tekin og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska?

 6. Hvernig er tryggt að hagsmunir barns hafi forgang þegar ákvörðun er tekin, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans og 2. mgr. 1. gr. barnalaga?

                                 

Umboðsmanni barna barst svar frá Þjóðskrá Íslands, dags. 17. nóvember 2014, þar sem ofangreindum spurningum var svarað. Í svari við spurningu eitt tók Þjóðskrá Íslands fram að á eyðublaði vegna beiðni um breytingu á kenninafni barns væri krafist undirritunar barna sem væru eldri en 12 ára. Væri ekki að finna undirritun þar sem ætti við væri beiðni sjálfkrafa hafnað, enda væri gerð krafa um samþykki barns hefði það náð 12 ára aldri, sbr. 8. mgr. 14. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Að öðru leyti byggir Þjóðskrá Íslands ákvörðun sína á þeim gögnum sem foreldri/forsjáraðili barns leggur fram við beiðni um kenninafnsbreytingu. Meðal þess geta verið gögn þar sem fram koma sjónarmið barns til kenninafnabreytingar og tekur Þjóðskrá Íslands tillit til þeirra við mat á því hvort skilyrði 6. mgr. 14. gr. laga um mannanöfn séu uppfyllt.

Í svari við spurningu tvö um það hvernig 6. mgr. 14. gr. hefur verið túlkuð í framkvæmd tók Þjóðskrá Íslands fram að skilyrði fyrir breytingu á kenninafni væru ströng og ekki að finna nánari leiðbeiningar af hálfu löggjafans um hvað gæti fallið undir ákvæðið. Þó er ljóst að löggjafinn hefur tekið af öll tvímæli um að kenninöfn barna eigi almennt ekki að vera vettvangur fyrir deilur foreldra um málefni þeirra. Er því um að ræða undantekningarákvæði sem túlka ber þröngt og hefur sú túlkun verið staðfest af innanríkisráðuneytinu í þeim málum sem kærð hafa verið til ráðuneytisins. Þjóðskrá Íslands gat ekki upplýst hversu margar óskir um breytingu á kenninafni barna 12 ára og eldri hefðu borist frá 1. janúar 2009 eða hversu margar af þeim hefðu verið samþykktar eða hafnað. Hins vegar var Þjóðskrá Íslands reiðubúin, ef umboðsmaður óskaði eftir því, að safna umræddum upplýsingum samhliða vinnslu mannanafnamála í tiltekinn tíma.

Þá spurði umboðsmaður hvað þyrfti að koma til svo að ósk um breytingu á kenninafni væri samþykkt. Í svari Þjóðskrár Íslands var tekið fram að í mörgum tilfellum þyrfti Þjóðskrá ekki að taka sérstaka afstöðu til þess hvort heimila skyldi kenninafnsbreytingu barns þar sem fyrir lægi samþykki þess foreldris sem barnið væri kennt til, til kenninafnsbreytingar. Í þeim tilfellum þar sem foreldri sem barn hefur verið kennt til er andvígt kenninafnsbreytingunni getur Þjóðskrá Íslands heimilað kenninafnsbreytingu ef skilyrði 6. mgr. 14. gr. laga um mannanöfn eru uppfyllt., þ.e. ef sérstaklega stendur á og telja verði að breytingin verði barninu til verulegs hagræðis. Einnig er skilyrði í lögum að sé barn 12 ára eða eldra þurfi samþykki barns að liggja fyrir. Varðandi það hvernig tryggt væri að börn fengju að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvörðun væri tekin og að tekið væri réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska kom fram í umræddu bréfi að stundum hefði Þjóðskrá Íslands fengið skýrslur sálfræðinga og félagsráðgjafa sem fundað hefðu með barninu og lagt mat á líðan þess og þá hvernig hugur barnsins stæði til nafnbreytingar. Hefur slíkum gögnum almennt verið veitt mikið vægi enda um að ræða álit/mat sérfræðings sem hefur þekkingu og aðstæður til að meta hagsmuni og aðstæður barns. Þá tók Þjóðskrá Íslands fram að gögn sem sýndu fram á að kynforeldri hefði verið dæmt fyrir brot gegn barni eða gögn sem sýndu fram á vanrækslu og annað slíkt myndi Þjóðskrá Íslands einnig telja vega þungt við mat á því hvort telja yrði að sérstaklega stæði á og hvort telja yrði að breytingin yrði barninu til verulegs hagræðis.

Seinasta spurning umboðsmanns laut að því hvernig tryggt væri að hagsmunir barns hefðu forgang þegar ákvörðun væri tekin, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans og 2. mgr. 1. gr. barnalaga. Þjóðskrá Ísland tók fram í bréfi sínu að hún tæki ávallt tillit til hagsmuna barns þegar ákvörðun er tekin um hvort fallast skuli á beiðni um kenninafnabreytingu en er hins vegar bundin af skilyrðum laga um mannanöfn. Séu hagsmunir barns þannig að sérstaklega standi á og það er barninu til verulegs hagræðis að kenninafni þess verði breytt, þrátt fyrir andmæli þess foreldris sem barnið er kennt til, teljast skilyrði 6. mgr. 14. gr. laga um mannanöfn uppfyllt og Þjóðskrá Íslands getur heimilað kenninafnsbreytingu. Var það því mat Þjóðskrár að þar sem hvert mál væri skoðað sérstaklega, álit sérfræðinga vægi þungt við mat á hagsmunum barns og tekið væri mið af aldri barns við ákvörðun væru umrædd skilyrði barnalaga og Barnasáttmálans uppfyllt. Að lokum benti Þjóðskrá á að það væri ekki hlutverk stofnunarinnar að leggja mat á eða taka afstöðu til þess hvort barn hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu foreldris eða annars aðila þegar ekki lægi fyrir dómur eða annars konar sönnun um sekt foreldris um kynferðisofbeldi gagnvart barni. Ef slík gögn eða staðfesting lægju til grundvallar myndi Þjóðskrá láta slík gögn vega þungt við mat á því hvort skilyrði 6. mgr. 14. gr. laga um mannanöfn teldust uppfyllt.

Ljóst er að nafn er mikilvægur hluti af sjálfsmynd barna. Er því sérstaklega mikilvægt að börn á öllum aldri fái tækifæri til þess að tjá sig áður en nafni þeirra er breytt og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Þá telur umboðsmaður barna mikilvægt að gera ekki of strangar kröfur til þess að hægt sé að breyta kenninafni í þeim tilvikum sem það er eindreginn vilji barns. Umboðsmaður barna sendi því annað bréf til Þjóðskrár, dags. 10. desember 2014, og var það svohljóðandi:

Umboðsmaður barna þakkar Þjóðskrá Íslands fyrir bréf, dags. 17. nóvember sl., þar sem finna má svör við spurningum umboðsmanns barna um nafnbreytingar barna.

Sjónarmið barna undir 12 ára aldri

Í svari við fyrstu spurningu umboðsmanns barna, sem varðaði það hvernig tryggt er að börn undir 12 ára aldri fái að tjá sig um fyrirhugaðar nafnbreytingar, kemur fram að Þjóðskrá Íslands kanni ekki sjálfstætt afstöðu yngri barna til nafnbreytinga en taki tillit til sjónarmiða barna ef þau birtast í þeim gögnum sem foreldrar eða forsjáraðilar leggja fram. Umboðsmaður fagnar því að skoðanir barna hafi áhrif á mat Þjóðskrár í þeim tilvikum sem þær liggja fyrir. Hann telur hins vegar miður að Þjóðskrá skuli ekki hafa frumkvæði af því að óska eftir upplýsingum um afstöðu barna í þeim tilvikum sem foreldrar leggja ekki fram slík gögn, til dæmis með því að ræða við börnin. Hann hvetur Þjóðskrá til þess að endurskoða vinnulag sitt að þessu leyti og taka tillit til réttinda barna samkvæmt 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013 og 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Breyting á kenninafni barna

Seinni spurning umboðsmanns barna varðaði túlkun á 6. mgr. 14. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996. Þjóðskrá bendir í svari sínu á að ströng skilyrði séu fyrir því að heimila að kenning til foreldris verði felld niður og kenning til hins foreldrisins tekin upp. Umboðsmaður tekur undir það sjónarmið að kenninöfn eigi ekki að vera vettvangur fyrir deilur foreldra. Hins vegar er brýnt að tekið sé tillit til þess hversu mikil áhrif kenninafn getur haft á sjálfsmynd barna og sjálfstæður réttur þeirra til þess að hafa stigvaxandi áhrif á eigið líf virtur.

Í lok bréfsins bendir Þjóðskrá á að það sé ekki hlutverk stofnunarinnar að leggja mat á eða taka afstöðu til þess hvort barn hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu foreldris þegar ekki liggur fyrir dómur eða önnun sönnun um sekt foreldris. Í þessu sambandi vill umboðsmaður barna benda á að það er hlutverk Þjóðskrár að taka afstöðu til þess hvort breyting á kenninafni sé barni til verulegs hagræðis og við það mat getur stofnunin þurft að taka afstöðu til ýmissa atriða, þar á meðal þess hvort foreldri hafi beitt barn ofbeldi eða annars konar illri meðferð. Ekki er rétt að leggja einungis til grundvallar hvort foreldri hafi verið dæmt fyrir ofbeldi gegn barninu eða hvort sekt sé að öðru leyti hafin yfir allan vafa. Ljóst er að í sakamálum er allur vafi metinn sökunaut í hag og þarf því mikið að koma til svo að hægt sé að sakfella í slíkum málum. Í öðrum málum er hins vegar talið nóg að leiddar séu fullnægjandi líkur á því að ofbeldi hafi átt sér stað. Þá þarf að huga sérstaklega að hagsmunum barna við matið, enda á það sem er börnum fyrir bestu að hafa forgang við allar ákvarðanir sem varða börn, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans og 2. mgr. 1. gr. barnalaga. Er því að mati umboðsmanns barna rétt að meta allan vafa börnum í hag þegar tekin er afstaða til þess hvort nafnbreyting geti talist barni til verulegs hagræðis. Ef barn segir sjálft frá ofbeldi með skýrum hætti ætti slíkt almennt að duga til, enda hafa rannsóknir sýnt að rangar ásakanir barna um ofbeldi séu sjaldgæfar. Á það ekki síst við þegar um stálpuð börn er að ræða, enda eiga þau sjálf að ráða mestu um persónuleg málefni sín. Umboðsmaður barna hvetur Þjóðskrá til þess að setja hagsmuni barna í forgang og forðast að gera of ríkar sönnunarkröfur þegar metið er hvort breyting á kenninafni teljist barni til verulegs hagræðis.  

ÖRYGGI BARNA

Öryggisstaðlar fyrir leikvallatæki

Rólur á leikvöllum og skólalóðum eru yfirleitt útbúnar þannig að plasthólkar eru hafðir utan um keðjur eða reipi þannig að ekki er hægt að mynda lykkju. Í verslunum er þó hægt að kaupa leiktæki með kaðlarólum sem geta valdið slysum á börnum og jafnvel dauðsföllum ef reipið nær að vefjast um háls barns. Mismunandi merkingar eru á þessum tækjum eftir því hvort notkun þeirra er heimil á leikvöllum og sameignalóðum eða einungis í einkagörðum. Kaðlarólur eru þrátt fyrir það jafnhættulegar hvar sem þær eru staðsettar.

Neytendastofa, Embætti landlæknis og umboðsmaður barna tóku sig saman í maí 2014 og hvöttu til þess að evrópskum öryggisstöðlum um slíkar rólur yrði breytt þannig að skylt yrði að setja sérstaka hólka úr plasti utan um kaðla og keðjur í rólum þannig að ekki væri mögulegt að gera lykkju á reipið eða keðjuna.

Umboðsmaður barna sendi því bréf í maí 2014 til General Product Safety Directive nefndarinnar í Brussel sem sér um öryggisstaðla á vegum Evrópusambandsins. Þann 19. maí fylgdi forstjóri Neytendastofu, sem á sæti á í nefndinni, málinu eftir í Brussel.

AÐGANGUR BARNA AÐ KVIKMYNDUM OG TÖLVULEIKJUM

Reglulega berast umboðsmanni barna ábendingar sem varða eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum, sbr. lög nr. 62/2006. Í 5. gr. laganna kemur fram að fjölmiðlanefnd hafi eftirlit með lögunum. Um nokkurt skeið hefur umboðsmaður barna verið í sambandi við nefndina (og forvera hennar, þ.e. Barnaverndarstofu í gildistíð eldri laga). Auk þess hefur umboðsmaður fundað nokkrum sinnum með Smáís, Samtökum myndréttarhafa á Íslandi. Smáís var að vinna að innleiðingu samhæfðs eftirlitskerfis sem vonir voru bundnar við að myndi auðvelda eftirlit og auka vernd barna. Árið 2014 varð Smáís gjaldþrota og hafði umboðsmaður barna áhyggjur af því hvernig staðan væri í þessum málaflokki. Af því tilefni ákvað umboðsmaður barna að senda bréf til Fjölmiðlanefndar, dags. 16. desember 2014, þar sem fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með ofangreindum lögunum. Fór umboðsmaður fram á að nefndin svaraði eftirfarandi spurningum:

 1. Hvernig er eftirliti háttað með aðgangi að myndum annars vegar og hins vegar tölvuleikjum?
 2. Telur fjölmiðlanefnd sig geta sinnt eftirlitinu með fullnægjandi hætti? Ef ekki hvað vantar helst upp á?
 3. Hvernig er staðan á framkvæmd 3. gr. laga nr. 62/2006?

Loks óskaði umboðsmaður barna eftir öllum þeim upplýsingum sem fjölmiðlanefnd hafði undir höndum og eru mikilvægar til þess að umboðsmaður geti gert sér grein fyrir stöðu þessara mála. Ekki hafði borist svar í lok ársins en umboðsmaður barna mun fylgja málinu eftir á árinu 2015.

FJÁRMÁL

Börn og innheimta

Umboðsmanni barna hafa í gegnum tíðina reglulega borist ábendingar um að innheimtu hafi verið beint til barna undir 18 ára aldri Slíkum ábendingum hefur þó sem betur fer fækkað á undanförnum árum, sem bendir til þess að innheimtuaðilar séu almennt meðvitaðir um lagaákvæði um fjármál barna. Þó eru enn dæmi um að innheimtu sé beint annars vegar að börnum og hins vegar að fullorðnum einstaklingum vegna viðskipta sem áttu sér stað þegar þeir voru börn. Í tilefni af fyrrnefndum erindum sendi umboðsmaður barna bréf til banka og innheimtufyrirtækja, dags. 12. maí 2014, þar sem hann minnir á að ekki megi beina innheimtu að börnum. Einnig benti hann á að óheimilt væri að beina kröfu að fullorðnum einstaklingum vegna skulda sem stofnað hefði verið til fyrir 18 ára aldur.

Samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 eru börn ófjárráða til 18 ára aldurs og mega ekki stofna til skulda. Fyrirtækjum og stofnunum er því almennt óheimilt að eiga viðskipti við börn sem fela í sér fjárhagslega skuldbindingu fyrir þau.

Í samræmi við þetta er einstaklingum og lögaðilum óheimilt að beina kröfu að barni til innheimtu skuldar. Sömuleiðis er óheimilt að beina innheimtu til fullorðins einstaklings vegna skuldar sem stofnað var til fyrir 18 ára aldur. Kröfu, t.d. vegna frístundastarfs, skólagjalda eða heilbrigðiskostnaðar, má því ekki beina að barninu sjálfu heldur skal beina innheimtu hennar til forsjáraðila, enda hafi þeir veitt samþykki sitt fyrir skuldbindingunni.

Í bréfinu hvatti umboðsmaður innheimtuaðila til þess að vanda til verka og tryggja að innheimtu væri ekki beint að börnum.

Peningagjafir til fermingarbarna

Algengt er að börn leiti til umboðsmanns barna og velti fyrir sér rétti sínum þegar kemur að peningum sem þau fá í fermingargjöf. Umboðsmaður barna ákvað því að birta pistil á heimasíðu sinni á árinu um peningagjafir til fermingarbarna.

Í 72. gr. íslensku stjórnarskrárinnar er kveðið á um friðhelgi eignarréttar. Börn njóta sömu mannréttinda og fullorðnir og er eignarréttur engin undantekning. Börn eru ófjárráða upp að 18 ára aldri og er meginreglan því sú að þau ráða ekki yfir fé sínu. Þó er að finna undantekningar frá þessari reglu í 75. gr. lögræðislaga. Börn ráða nefnilega sjálf yfir peningum sem þau hafa unnið sér fyrir eða fengið að gjöf, fermingargjöf, nema um verulega háar fjárhæðir sé að ræða. Ef peningaeign barns verður meiri en 500.000 kr. ber lögráðamönnum, sem í flestum tilfellum eru foreldrar, að varðveita þær eignir á tryggilegan hátt og ávaxta þær eins og best verður á kosið á hverjum tíma í samráði við sýslumann, sem kallast líka yfirlögráðandi. Þetta verða foreldrar samt að gera í samráði við barnið sjálft. Gefanda er þó heimilt að gefa peningagjafir með skilyrðum, t.d. þannig að peningar skuli lagðir inn á bankabók til 18 ára aldurs, eða binda gjöfina skilyrði um að kaupa skuli ákveðinn hlut eða hluti.

Þó svo að börn ráði ekki sjálf yfir fé sínu ber að leyfa þeim að tjá sig um ráðstöfun þess og taka réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska, sbr. 12. gr. Barnasáttmálans. Foreldrum eða lögráðamönnum er óheimilt að ráðstafa peningum barna sinna í eigin þágu eða í þágu fjölskyldunnar nema í samráði við barnið sjálft. 

ÞÁTTTAKA

Ráðgjafarhópur

Umboðsmaður barna hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á að hlusta á sjónarmið barna og hefur með ýmsum hætti beitt sér fyrir því að börn og ungmenni fái tækifæri til að taka þátt í ákvörðunum sem varða þau sjálf sem og í samfélaginu í heild.

Hjá umboðsmanni barna er starfandi ráðgjafarhópur ungmenna á aldrinum 13-18 ára, en hópurinn er ráðgefandi aðili fyrir embættið um málefni er snerta börn og ungmenni. Þannig geta börn og ungmenni látið skoðanir sínar í ljós og haft áhrif á störf umboðsmanns barna. Öllum sem eru á áðurnefndum aldri og vilja hafa áhrif á samfélagið er velkomið að sækja um inntöku í hópinn. Ráðgjafarhópurinn hittist að jafnaði einu sinni í mánuði og ræðir ýmis málefni og aðstoðar umboðsmann barna við að móta starf embættisins. Ráðgjafarhópurinn hélt níu fundi yfir árið og átti þar að auki nokkra sameiginlega fundi með ungmennaráðum Barnaheilla og UNICEF á Íslandi vegna 25 ára afmælis Barnasáttmálans.

Ýmis málefni sem koma að frumkvæði ungmenna eða að beiðni umboðsmanns hafa verið rædd á fundum, t.d. Barnasáttmálinn, skólamál, málefni barna með sérþarfir, þátttaka barna og margt fleira. Þá leitar umboðsmaður barna reglulega til hópsins þegar hann vantar ráðleggingar í ýmsum málum. Þá tók fulltrúi úr ráðgjafarhópnum þátt í að flytja erindið Hvers vegna að hlusta á börn? ásamt því að sitja í pallborði á norrænni ráðstefnu um börn og barnafjölskyldur. Þar að auki tóku fulltrúar hópsins þátt í að skipuleggja 25 ára afmæli Barnasáttmálans og viðburði vegna þess, í samstarfi við ungmennaráð Barnaheilla og UNICEF á Íslandi. Ráðgjafarhópurinn tók m.a. þátt í að búa til handrit fyrir stuttmynd um réttindi barna og fór á fund með ríkisstjórn Íslands. Á þeim fundi greindu fulltrúar ráðgjafarhópsins ásamt ungmennaráðum Barnaheilla og UNICEF á Íslandi ráðherrunum frá málefnum sem brenna á ungu fólki á Íslandi, s.s. geðheilbrigðismálum og menntamálum, ásamt því að ræða hvernig stuðla mætti með markvissari hætti að því að uppfylla réttindi barna.

Börn alkóhólista

Umboðsmaður barna hefur lengi stefnt að því að ná fram röddum barna sem búa yfir sérstakri reynslu á hinum ýmsu sviðum. Segja má að börn sem hafa orðið fyrir ákveðinni reynslu eða búið við hindranir eða erfiðar aðstæður séu sérfræðingar í því að alast upp í þeim aðstæðum. Upplýsingar frá þeim eru því sérstaklega mikilvægar fyrir umboðsmann barna til að átta sig á því hvernig hægt er að bæta stöðu barna sem eru í svipuðum sporum.

Ein leið til að ná fram sjónarmiðum barna sem búa yfir sérþekkingu á ákveðnu sviði er að kalla saman hóp barna sem búa yfir sameiginlegri reynslu. Á árinu 2013 kom umboðsmaður barna á fót slíkum sérfræðihópi barna sem eiga foreldra sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda. Alls tóku sjö ungmenni á aldrinum 14-18 ára þátt í sérfræðihópnum, sem hittist sjö sinnum frá október 2013 til apríl 2014. Um tilraunaverkefni var að ræða, en markmiðið var að ná fram sjónarmiðum þessara barna og heyra frá þeim sjálfum hvernig það væri að eiga foreldri sem ætti við áfengis- og vímuefnavandamál að stríða, hvers konar aðstoð hefði reynst þeim vel og hvaða þjónustu þyrfti helst að bæta.

Ástæðan fyrir því að þessi hópur varð fyrir valinu sem fyrsti sérfræðihópur umboðsmanns barna er meðal annars sú að ofneysla áfengis- og vímuefna er vandamál sem snertir líf margra barna, bæði beint og óbeint. Áætlað er að yfir 20.000 börn á Íslandi alist upp við alkóhólisma, þ.e. búi með eða eigi að minnsta kosti einn náinn fjölskyldumeðlim sem er alkóhólisti. Þá ríkir oft mikil þöggun um neyslu innan veggja heimilisins og eru börn þeirra sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða oft falinn hópur sem upplifir mikla skömm.

SÁÁ, samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, hafa unnið gott starf fyrir börn og boðið upp á sálfræðiþjónustu fyrir þau börn sem búa við erfiðar aðstæður vegna foreldra sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda. Umboðsmaður barna taldi mikilvægt að ná fram röddum barna og ákvað því að leita til SÁÁ eftir samstarfi um þetta mikilvæga verkefni. Starfsmenn umboðsmanns barna og sálfræðingar SÁÁ unnu saman að því að undirbúa sérfræðihóp barna sem öll eiga það sameiginlegt að eiga foreldri sem glímir við alkóhólisma. Sálfræðingar SÁÁ sáu um að finna ungmenni til að taka þátt í hópnum. Fundirnir voru svo skipulagðir með hliðsjón af handriti frá umboðsmanni barna í Noregi, sem hefur góða reynslu af vinnu með sérfræðihópum barna á ýmsum sviðum. Vinna hópsins stóð yfir í nokkra mánuði og höfðu börnin margt að segja sem þau vildu koma á framfæri. Því var ákveðið gefa út skilaboð barna alkóhólista annars vegar til fjölskyldu og hins vegar til fagfólks.

Börn alkóhólista eru fyrst og fremst venjuleg börn en eiga það sameiginlegt að hafa upplifað óvissu og álag í tengslum við mikla áfengis- eða vímuefnaneyslu foreldra. Slíkt getur haft margvíslegar tilfinningalegar og félagslegar afleiðingar í för með sér og markað líf þessara barna til framtíðar. Er því ljóst að börn verða fyrir miklum áhrifum vegna neyslu foreldra, eða eins og eitt barn í hópnum orðaði það: „Við erum ekki vandamálið en við glímum við það.“

Sérfræðihópurinn taldi mikilvægt að skilaboðum þeirra yrði komið á framfæri við ráðamenn. Því var ákveðið að boða ráðherra velferðarmála á fund þar sem fulltrúar sérfræðihópsins afhentu þeim skilaboðin. Hinn 10. apríl 2014 fundaði sérfræðihópurinn með Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra og kom skilaboðum sínum á framfæri. Skilaboð barnanna voru síðan meðal annars send í alla skóla og á heilsugæslustöðvar. Það er von umboðsmanns barna að þessi skilaboð muni nýtast því fagfólki sem starfar með börnum, fjölskyldum þeirra barna sem búa við alkóhólisma og öðrum í samfélaginu. 

„Ráðherrar virtust skilja vandamálið mjög vel og hlustuðu vel á okkur“ sagði 17 ára stúlka úr hópnum. „Ég vona að þetta verði til þess að opna umræðuna og að krakkar þurfi alls ekki að skammast sín fyrir þetta vandamál.“

„Þetta var bara fjör,“ sagði 17 ára drengur um fundinn með ráðherra. „Ég vonast bara til þess að þetta hafi þau áhrif að það verði eitthvað gert í þessum málum.“

Eitt af skilaboðum barnanna til fjölskyldna er að: „Hátíðir og frí valda oft kvíða.“ Brýnt er að koma þessum skilaboðum á framfæri. Þó að frí séu tilhlökkunarefni hjá flestum börnum hafa þau oft neikvæð áhrif á líðan barna sem búa við alkóhólisma.

Umboðsmaður barna vonast til þess að sú vinna sem hefur átt sér stað með sérfræðihópnum geti varpað ljósi á það hvernig hægt er að bæta líf þeirra barna sem eiga foreldra sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda.

Börn í meðferð vegna vímuefnavanda

Á undanförnum árum hefur umboðsmaður barna haft verulegar áhyggjur af stöðu barna sem stefna eigin velferð í hættu vegna vímuefnaneyslu og hefur hann meðal annars bent á að úrræði fyrir þessi börn skorti sárlega. Umboðsmaður barna taldi því ástæðu til þess að ræða sérstaklega við börn sem eru í þessari stöðu og heyra sjónarmið þeirra um það hvers vegna þau hefðu byrjað í neyslu, hvaða aðstoð og þjónusta hefði reynst þeim vel og hvað þyrfti helst að bæta. Umboðsmaður barna óskaði því eftir samstarfi við SÁÁ til þess að ræða við börn sem voru í meðferð á unglingadeildinni á Vogi.

Í október 2014 voru haldnir tveir fundir með börnum og ungmennum sem voru í meðferð á Vogi. Sálfræðingur á vegum SÁÁ sat fundina ásamt tveimur starfsmönnum umboðsmanns barna. Alls voru sjö ungmenni á aldrinum 16 til 19 ára í meðferð á þessum tíma, 6 drengir og ein stúlka. Tveir úr hópnum voru að koma í meðferð í fyrsta sinn en aðrir höfðu farið í meðferð áður. Flest höfðu þau reynslu af öðrum úrræðum, til dæmis Stuðlum og BUGL.

Á fundunum deildu þátttakendur persónulegri reynslu sinni og sögðu frá mjög viðkvæmum málum sem tengjast þeim og fjölskyldum þeirra. Umboðsmaður barna er þakklátur fyrir það traust sem honum var sýnt. Þessar frásagnir hafa nýst í störfum embættisins og munu tvímælalaust gera það áfram. Til þess að vernda viðkomandi einstaklinga verður í þessari samantekt einungis fjallað stuttlega um nokkur almenn atriði sem rædd voru á fundinum.

Reynsla af barnavernd og meðferðarúrræðum

Þegar starfsmenn umboðsmanns barna hittu hópinn í fyrsta sinn fóru sumir í vörn vegna þess að þeir héldu að starfsmennirnir væru á vegum barnaverndar. Allir þátttakendur höfðu einhverja reynslu af barnavernd. Nokkrir þátttakendur voru með verulega neikvætt viðhorf til barnaverndar og vildu einungis tjá sig eftir að hafa gengið úr skugga um að umboðsmaður barna væri ekki hluti af barnaverndarkerfinu. Einungis einn þátttakandi taldi sig hafa átt góð samskipti við barnavernd, en hann nefndi að ráðgjafi á vegum barnaverndar hefði hjálpað sér mikið og veitt mikilvægan stuðning.

Þátttakendur virtust almennt hafa jákvæða reynslu af meðferðinni. Þeir töldu skipta miklu máli að ungmenni vildu sjálf fara í meðferð, frekar en að vera þvinguð af foreldrum eða barnavernd.

 „Þú lendir bara í neyslu“

Þátttakendur töldu erfitt að svara því hvers vegna börn og ungmenni byrjuðu í neyslu, eða eins og einn þátttakandi sagði: „Þú lendir bara í neyslu, það er einhvern veginn óhjákvæmilegt.“ Margir þátttakendur voru með fjölþættan vanda, svo sem ADHD, þunglyndi, kvíða og reiðivandamál.

Allir þátttakendur töluðu um kannabisneyslu, en hluti hafði einnig notað sterkari efni. Þeir nefndu að grasið deyfði alla löngun og að það væri eiginlega sjálfgefið að fólk stundaði ekki íþróttir eða tómstundir í slíkri neyslu.

Vinir, fyrirmyndir, líðan, einelti og skólaganga eru meðal þeirra atriða sem þátttakendur töldu hafa haft áhrif á neyslu sína. Þar að auki nefndu þátttakendur hópamyndun og hópþrýsting sem sérstakan áhættuþátt neyslu. Þeir töluðu um hversu mikilvægt það væri að vera viðurkenndur af hópnum, þ.e. vera hluti af honum en ekki utan hans.

„Skólinn hefur aldrei gert neitt“

Allir þátttakendur nema einn höfðu slæma reynslu af skólakerfinu og töldu sig ekki hafa fengið stuðning við hæfi. Meirihluti þátttakenda var þolendur eineltis í grunnskóla en þar að auki hafði einn þátttakandi verið gerandi. Tveir þátttakendur tengdu neyslu sína beint við eineltið og neikvæðar afleiðingar þess. Flestir töldu að skólinn hefði ekki gert neitt til að hjálpa þeim og voru þeir mjög sárir vegna þess. Þeir voru vissir um að leið þeirra hefði orðið önnur ef þeir hefðu fengið einhverja aðstoð fyrr, t.d. frá skólanum.

Einn þátttakandi nefndi sérstaklega neikvætt viðhorf starfsfólks skólans í sinn garð. Hann sagði að honum hefði alltaf verið kennt um allt og aldrei verið gefið tækifæri til að bæta sig. Þá sagði hann að ákveðinn hræðsluáróður hefði verið gegn honum, sem hefði gert það að verkum að aðrir nemendur voru hræddir við hann. Honum fannst skólinn hafa brugðist sér.

Þátttakendur ræddu mikið um mikilvægi skólans. Þar vantar að þeirra mati fleiri ráðgjafa. Auk þess þarf að auðvelda aðgengi að fagaðilum og ráðgjöfum fyrir nemendur sem líður illa.

Þátttakendur töldu ákveðna breytingu eiga sér stað í framhaldsskóla, þar sem ekki væri ekki eins mikil áhersla á að allir væri steyptir í sama mótið. Einn þátttakandi sagði: „Enginn þarf að vera einn í menntó, það falla allir inn í einhvern hóp í framhaldsskólanum. Það er allt öðruvísi en í grunnskólanum.“ Meirihluti þátttakenda hafði þó annaðhvort ekki byrjað í framhaldsskóla eða hætt fljótlega vegna mætingar eða af öðrum ástæðum.

„Fjölskyldan veit ekkert hvað hún á að gera í þessum aðstæðum“

Flestir þátttakendur töluðu vel um fjölskylduna sína og töldu hana hafa stutt vel við bakið á sér. Þó var einn þátttakandi sem taldi fjölskylduna hafa brugðist sér, en hann var búinn að vera í fóstri og ýmsum öðrum úrræðum á vegum barnaverndar.

Þátttakendur töluðu um þau áhrif sem neyslan hefur á alla fjölskylduna og mikilvægi þess að veita henni stuðning. Einn þátttakandi var sérstaklega ósáttur við að barnavernd hefði látið eins og það væri foreldrum hans að kenna að hann væri í neyslu, en hann taldi svo ekki vera.

„Eru óbeint að biðja um hjálp“

Þátttakendur töldu þörf á að hlusta betur á börn og ungmenni sem eru í þeirra stöðu. Starfsfólk skóla og annað fagfólk þyrfti að vera vakandi fyrir hegðun og líðan barna, því að erfitt væri að biðja beint um hjálp. Unglingar gripu því frekar til annarra leiða til þess að líða betur. Þau töldu börn og ungmenni í raun vera biðja óbeint um hjálp með því að hegða sér illa eða byrja í neyslu.

Einn þátttakandi sagði frá því að hann hefði sjálfur ákveðið að leita sér aðstoðar, einungis fjórum mánuðum áður en hann varð 18 ára. Þrátt fyrir að hann leitaði sjálfur eftir aðstoð fannst honum ekkert vera að gerast í sínum málum. Stutt var í að hann yrði átján ára og hann vissi að eftir það gæti barnavernd ekki veitt honum aðstoð. Honum fannst þetta erfitt ferli og upplifði það sterkt að ekki hefði verið hlustað á sig.

Mikilvæg skilaboð

Umboðsmaður barna tekur undir þau mikilvægu skilaboð sem komu frá þeim ungmennum sem hann ræddi við. Ljóst er að ræða þarf mun oftar við börn og ungmenni og taka tillit til sjónarmiða þeirra og reynslu af kerfinu.

Ein mikilvægasta forvörnin gegn áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna er að stuðla að því að öllum börnum líði vel, bæði heima hjá sér og í skólanum. Jákvæður skólabragur og umhverfi þar sem allir nemendur upplifa jákvætt viðhorf og virðingu er því ein öflugasta forvörnin. Enn fremur þarf að tryggja að allir nemendur fái þann stuðning sem þeir þurfa. Þó að þróunin í þessum málum hafi að mörgu leyti verið jákvæð á undanförnum árum er ljóst að enn eru of margir nemendur sem líður illa í skólanum og fá ekki stuðning við hæfi, eins og meðal annars kemur fram í frásögnum þátttakenda.

Mikilvægt er að auðvelda aðgengi barna að barnavernd. Af umræðum í hópnum sem og skilaboðum frá öðrum börnum sem hafa leitað til umboðsmanns barna er ljóst að börnum finnst oft erfitt að leita til barnaverndar. Eins og staðan er núna er of mikið álag á barnavernd og hver starfsmaður með of mörg mál. Er því hætta á að barnavernd geti ekki sinnt öllum málum eins vel og best væri á kosið.

Loks telur umboðsmaður barna þörf á nýju úrræði fyrir börn sem eiga við alvarlegan vímuefnavanda að stríða þar sem verklag og aðstæður taka sérstaklega mið af þörfum barna, sjá nánar á vef umboðsmanns barna.

Þátttaka barna í skoðana- og markaðskönnunum

Reglulega berast umboðsmanni barna erindi vegna þátttöku barna í markaðs- og skoðanakönnunum. Ýmist eru það foreldrar, kennarar eða aðilar sem vilja afla upplýsinganna sem hafa samband og eru skiptar skoðanir á því hvort rétt eða rangt sé að leggja sumar tegundir kannana fyrir börn og þá hvernig.

Ekki hafa verið sett sérstök lög eða opinberar reglur um framkvæmd kannana. Í desember árið 2000 gaf umboðsmaður barna út álitsgerð um þátttöku barna í markaðs- og skoðanakönnunum. Í ljósi breyttra viðhorfa til sjálfsákvörðunarréttar barna ákvað umboðsmaður á árinu að skoða fyrrnefnda álitsgerð og gefa hana út aftur. Umboðsmaður taldi þörf á að vekja athygli allra grunnskóla á áliti sínu og sendi það með tölvupósti til allra grunnskóla á landinu.

Álitsgerð umboðsmanns barna um þátttöku barna í skoðana- og markaðskönnunum - útgefin í apríl 2014

Í desember árið 2000 gaf þáverandi umboðsmaður barna út álitsgerð um þátttöku barna í markaðs- og skoðanakönnunum. Á undanförnum árum hefur áhersla á rétt barna til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem þau varða og rétt þeirra til að taka ákvarðanir í eigin málum aukist. Í ljósi breyttra viðhorfa til sjálfsákvörðunarréttar barna hefur umboðsmaður ákveðið að endurskoða fyrrnefnda álitsgerð og gefa hana út aftur.

Réttur barna til að tjá skoðanir sínar

Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, eiga börn sem myndað geta eigin skoðanir rétt á að láta þær í ljós í öllum málum sem þau varða og þeim fullorðnu ber að taka réttmætt tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Sambærilegt ákvæði er einnig að finna í 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í 13. gr. Barnasáttmálans er tjáningarfrelsi barna einnig veitt sérstök vernd en þar segir að börn eigi rétt á að tjá sig nema það brjóti gegn almennu siðgæði, skaði mannorð eða brjóti gegn réttindum annarra. Sömuleiðis hefur Barnasáttmálinn að geyma ákvæði sem eiga að tryggja börnum rétt á að leita sér upplýsinga, taka við upplýsingum og koma þeim á framfæri.

Þar sem börnum skortir oft reynslu og þroska til að gæta að hagsmunum sínum sjálf er gengið út frá því að foreldrar beri meginábyrgð á velferð barna sinna og ráði persónulögum högum þeirra, sbr. 28. gr. barnalaga. Foreldrar þurfa þó, eins og aðrir, að virða réttindi barna sinna. Er foreldrum því ekki heimilt að takmarka tjáningarfrelsi barna nema slíkt sé talið nauðsynlegt til að vernda hagsmuni þeirra sjálfra eða annarra.

Þátttaka barna í markaðs- og skoðanakönnunum

Kannanir og rannsóknir á skoðunum fólks og viðhorfum verða sífellt ríkari þáttur við stefnumótun í vestrænum samfélögum, bæði í viðskiptum og hjá stjórnvöldum. Þegar metið er hvenær heimilt er að leggja slíkar kannanir fyrir börn þarf að gera skýran greinarmun á rannsóknum eftir tilgangi þeirra. Rannsóknum í vísindaskyni er ætlað að leiða í ljós almennan sannleik til aukins skilnings, framþróunar vísinda og bætts þjóðfélags. Markaðsrannsóknir eru hins vegar fyrst og fremst unnar fyrir seljendur vöru eða þjónustu í hagnaðarskyni. Ljóst er að margar slíkar rannsóknir fara fram á netinu og því erfitt að hafa eftirlit með þátttöku barna. Engu að síður er mikilvægt að markaðsaðilar og aðrir í samfélaginu sýni börnum þá virðingu sem þau eiga rétt á og hlífi þeim við óæskilegu áreiti.

Umboðsmaður barna telur að markaðsrannsóknum, til að meta söluhæfi vöru eða þjónustu, eigi almennt ekki að beina að börnum. Á þessu geta verið undantekningar, t.d. þegar skoðunarkönnun meðal barna um gæði þjónustu getur óumdeilanlega bætt hana og þannig verið börnum til hagsbóta. Sem dæmi um slíkt má nefna könnun meðal nemenda um það hvaða mat þeir kjósa helst í mötuneytum skóla. Ef beina á markaðsrannsókn að börnum þarf almennt að fá leyfi frá foreldrum eða öðrum forsjáraðilum fyrst. Foreldrum ber þó ávallt að hafa samráð við börn sín og taka tillit til vilja þeirra í samræmi við aldur og þroska. Með hliðsjón af því að börn öðlast stigvaxandi rétt til að hafa áhrif á eigið líf og því að börn eru almennt talin geta borið mikla ábyrgð frá 15 ára aldur telur umboðsmaður barna þó rétt að miða við að börn sem lokið hafa skyldunámi geti sjálf tekið ákvörðun um þátttöku í markaðsrannsóknum, svo lengi sem þær hæfa aldri þeirra og þroska.

Önnur sjónarmið eiga við þegar um er að ræða skoðanakannanir eða rannsóknir sem ráðist er í af vísindalegum forsendum og geta haft jákvæð áhrif við mótun stefnu í málefnum sem varða börn. Skoðanakannanir og félagsvísindalegar rannsóknir á viðhorfum barna geta verið mikilvæg aðferð til að koma sjónarmiðum barna á framfæri. Má í því sambandi benda á að kannanir meðal nemenda geta verið mikilvægur liður í eftirliti með gæðum skólastarfs, sbr. VII. kafli leikskólalaga, VIII. kafli grunnskólalaga og VII. kafli framhaldsskólalaga.

Í framkvæmd virðist hingað til hafa verið gengið út frá því að foreldrar eða aðrir forsjáraðilar þurfi að samþykkja þátttöku barna í skoðanakönnunum eða rannsóknum í vísindaskyni. Er því til stuðnings meðal annars bent á að í forsjá felist bæði réttur og skylda til að ráða persónulegum högum barns. Sú staðreynd að foreldrar fara með forsjá barna sinna getur vissulega takmarkað sjálfsákvörðunarrétt barna í ýmsum málum. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að börn eru fullgildir einstaklingar, með sjálfstæð réttindum. Foreldrum og þeim sem koma að málefnum barna með einum og öðrum hætti ber því að virða réttindi barna, þar á meðal til að koma skoðunum sínum og öðrum upplýsingum á framfæri. Þó að foreldrar beri ábyrgð á meiriháttar ákvörðunum í lífi barna sinna eiga börn rétt að að taka sjálfstæðar ákvarðanir í ýmsum málum, án aðkomu foreldra. Í barnalögum er ekki beinlínis tekið á því í hvaða tilvikum börn eiga rétt á að taka ákvarðanir sjálf. Í öðrum lögum má þó finna ýmis ákvæði sem veita börnum rétt til með- eða sjálfsákvörðunar. Sem dæmi um það má nefna að börn geta sjálf tekið ákvörðun um nauðsynlega læknismeðferð og skráningu í eða úr trúfélagi frá 16 ára aldri. Þá ráða öll börn sjálfsafla- og gjafafé sínu, nema um háar fjárhæðir sé að ræða. Þegar lög skera ekki úr um það hvort börn geti tekið ákvörðun án aðkomu foreldra þarf að meta það út frá réttindum barna og aðstæðum að öðru leyti. 

Í ljósi þess að börn eiga rétt á að tjá sig og láta skoðanir sínar frjálslega í ljós á öllum málum sem þau varðar telur umboðsmaður barna að börn ættu almennt að geta samþykkt þátttöku í skoðanakönnunum eða rannsóknum í vísindaskyni, að því gefnu að þær hæfi aldri og þroska þeirra barna sem um ræðir. Umboðsmaður telur því ekki rétt að gera kröfu um samþykki foreldra þegar slíkar kannanir eru lagðar fyrir, til dæmis í grunn- og framhaldsskólum, enda gæti slíkt takmarkað tjáningarfrelsi barna. Hins vegar er æskilegt að foreldrar séu upplýstir um fyrirhugaðar kannanir og rannsóknir, sérstaklega þegar um yngri börn er að ræða.

Ábyrgð hinna fullorðnu

Mikilvægt er að þeir aðilar sem gera markaðsrannsóknir eða rannsóknir í vísindaskyni á Íslandi hafi í huga þá ábyrgð sem á þeim hvílir. Kynna þarf fyrir þátttakendum með hæfilegum fyrirvara að rannsókn/könnun sé fyrirhuguð og hún kynnt fyrir þeim þannig að þeir átti sig á efni og tilgangi hennar. Sömuleiðis er mikilvægt að tryggt sé að foreldrar fái nauðsynlegar upplýsingar. Gera verður bæði forsjáraðilum og börnum grein fyrir því að barni er ekki skylt að taka þátt í rannsókn/könnun í heild eða að hluta.

Varðandi þátttakendur rannsóknar/könnunar verður að gera grein fyrir því að nafnleyndar og trúnaðar verði gætt og að frumgögnum verði eytt að rannsókn/könnun lokinni. Eins og áður segir verður að gefa börnum tækifæri til að hafna því að taka þátt, hvort sem það er að hluta eða öllu leyti. Þegar um markaðsrannsóknir er að ræða verður að veita forsjáraðilum tækifæri til að hafna þátttöku barna undir 16 ára aldri, að höfðu samráði við þau sjálf.

Sem fyrr segir telur umboðsmaður barna ekki rétt að foreldrar geti komið í veg fyrir þátttöku barna í vísinda- og félagsrannsóknum ef börn skilja eðli rannsóknar og samþykkja þátttöku. Þó verður að sjálfsögðu að taka mið af aldri og þroska barna sem og eðli rannsóknar. Í leik-, grunn- og framhaldsskólum er til dæmis mikilvægt að skólastjórar og kennarar tryggi að rannsóknir og kannanir raski ekki skólastarfi og íþyngi ekki nemendum. Einnig þarf að ganga úr skugga um að sú rannsókn sem leggja á fyrir hæfi aldri þeirra barna sem taka þátt. Sömuleiðis er eðlilegt að kynna fyrirhugaða rannsókn með hæfilegum fyrirvara fyrir öðrum aðilum skólasamfélagsins, svo sem í gegnum skólaráð eða foreldrafélagið. Þannig er foreldrum gert kleift að fylgjast með þeim rannsóknum sem eru lagðar fyrir börn í skólum.

 

 UMSAGNIR

Einn af mikilvægum þáttum í starfi umboðsmanns barna er að veita Alþingi umsagnir um lagafrumvörp og tillögur til þingsályktunar er varða hagsmuni og réttindi barna. Einnig kemur fyrir að óskað er eftir umsögnum um drög að frumvörpum eða reglugerðum sem eru í vinnslu hjá ráðuneytum. Árið 2014 veitti umboðsmaður barna umsagnir um eftirfarandi mál:

 • Tillaga til þingsályktunar um dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna, 397. mál
 • Tillaga til þingsályktunar um bætta hljóðvist og aðgerðir til að draga úr erilshávaða í kennsluhúsnæði, 209. mál
 • Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra, 52. mál
 • Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015
 • Frumvarp til laga um sérhæfða þjónustumiðstöð á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu (heildarlög), 257. mál
 • Frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak o.fl. (smásala áfengis), 17. mál
 • Tillaga til þingsályktunar um stofnun samþykkisskrár, 22. mál
 • Drög að reglugerð um afplánun ungra fanga á aldrinum 15-18 ára
 • Tillaga til þingsályktunar um eflingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu, 14. mál
 • Drög að viðmiðum fyrir mat á gæðum frístundastarfs
 • Viðmið til að meta skólastarf og námsástæður í skóla án aðgreiningar
 • Drög að frumvarpi til laga um fullnustu refsinga
 • Tillögur starfshóps um málefni frístundaheimila í grunnskólum að lagabreytingum á grunnskólalögum nr. 91/2008
 • Drög að frumvarpi til laga um Straumhvörf – sérhæfða þjónustumiðstöð
 • Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 91/2002 um útlendinga, með síðari breytingum (EES-reglur, innleiðing, kærunefnd, hælismál), 249. mál
 • Reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskólum nr. 584/2010
 • Reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða nr. 657/2009
 • Hvað ætti að vera fjallað um í fjölskyldustefnu? – Minnisblað til verkefnisstjórnar um mótun fjölskyldustefnu
 • Drög að viðmiðum fyrir mat á gæðum frístundastarfs í Reykjavík
 • Viðmið til að meta skólastarf og námsástæður í skóla án aðgreiningar

 

SAMSTARF

Innlendir samstarfsaðilar

Hjá umboðsmanni barna starfa einungis fjórir starfsmenn og er því mikilvægt fyrir embættið að eiga gott samstarf við aðra sem vinna að málefnum barna. Umboðsmaður barna leitar reglulega eftir áliti frá sérfræðingum á ýmsum sviðum, svo sem starfsfólki stofnana, félagasamtaka eða annarra fagaðila. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að eiga í góðu sambandi við samstarfsaðila og bauð þeim ásamt vinum í lok ársins í opið hús hjá embættinu. Á árinu 2014 átti umboðsmaður barna auk þess formlegt samstarf við eftirfarandi aðila:

Barnahópur velferðarvaktarinnar

Umboðsmaður barna átti sæti í sérstökum barnahópi velferðarvaktarinnar á árinu, en hann er starfræktur á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra. Hópnum er ætlað að fylgjast með félagslegum jafnt sem fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins á börn og fjölskyldur þeirra og gera tillögur um aðgerðir í þeim efnum.

Bakland SAFT

SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af framkvæmdastjórn ESB. Fulltrúi frá umboðsmanni barna á sæti í baklandi SAFT.

Háskólinn í Reykjavík

Frá árinu 2009 hefur verið samkomulag í gildi milli umboðsmanns barna og lagadeildar Háskólans í Reykjavík um að taka á móti meistaranemum í starfsnám. Á árinu 2014 kom einn laganemi til umboðsmanns í slíkt starfsnám og vann að ýmsum verkefnum með starfsmönnum embættisins. Einnig hefur umboðsmaður barna átt gott samstarf undanfarin ár við Rannsóknir og greiningu sem hefur meðal annars kannað hagi og líðan barna og ungmenna á Íslandi um árabil.

Námsvefurinn www.barnasattmali.is

Umboðsmaður barna hefur undanfarin ár átt í samstarfi við Barnaheill – Save the Children á Íslandi, UNICEF á Íslandi og Námsgagnastofnun og er helsta markmið þess samstarfs að stuðla að aukinni vitund almennings um Barnasáttmálann. Samstarfið hófst árið 2008 með útgáfu veggspjalda og bæklinga og á árinu 2009 var settur upp fræðsluvefurinn www.barnasattmali.is. Vefurinn er ætlaður til notkunar í leik- og grunnskólum en hentar einnig öðrum aldurshópum.

Náum áttum

Umboðsmaður barna hefur átt fulltrúa í Náum áttum, sem er opinn samstarfshópur þeirra sem láta sig varða heill barna og ungmenna. Náum áttum er fræðslu- og forvarnarhópur sem skipuleggur morgunverðarfundi einu sinni í mánuði yfir vetrartímann um ýmis mál sem varða forvarnir og velferð barna og ungmenna sem talið er vert að vekja athygli samfélagsins á.

Rannsóknarstofa í menntunarfræðum ungra barna

Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) er ætlað að hafa frumkvæði að og sinna rannsóknum, miðla þekkingu og kynna niðurstöður rannsókna sem varða börn á leikskólaaldri. Á árinu 2014 sat umboðsmaður barna í stjórn RannUng.

SAMAN-hópurinn

Umboðsmaður barna hefur setið í SAMAN-hópnum, sem er samstarfsvettvangur frjálsra félagasamtaka, sveitarfélaga og stofnana sem láta sig velferð barna og fjölskyldna þeirra varða. Markmiðið er að vekja athygli á þeirri ógn sem börnum og unglingum stafar af áfengi og vímuefnum, styðja við foreldra í uppeldishlutverkinu og hvetja til jákvæðra samskipta fjölskyldunnar. Þetta hefur verið gert með auglýsingum ásamt fræðslu- og kynningarefni.

Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavanda (SÁÁ)

Umboðsmaður barna átti í góðu samstarfi við SÁÁ á árunum 2013 og 2014 vegna sérfræðihóps barna sem eiga foreldra sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda og sérfræðifunda með börnum sem voru í meðferð á Vogi. Umboðsmaður átti marga góða fundi með starfsmönnum SÁÁ og naut liðsinnis þeirra í vinnu sinni við undirbúning sérfræðihópanna. Lesa má meira um sérfræðihópana í ársskýrslunni.

UNICEF á Íslandi og Barnaheill

Umboðsmaður barna hefur lengi átt gott samstarf við UNICEF á Íslandi og Barnaheill og vann að ýmsum verkefnum með þeim á árinu, m.a. vegna 25 ára afmælis Barnasáttmálans.

Erlendir samstarfsaðilar

Fundur umboðsmanna barna á Norðurlöndunum

Árlegur fundur umboðsmanna barna á Norðurlöndunum var haldinn í Ilulissat á Grænlandi dagana 22.-25. ágúst 2014, en embætti talsmanns barna var stofnað á Grænlandi árið 2012. Umboðsmenn barna á Norðurlöndum vinna náið saman og funda árlega til að ræða þau málefni sem efst eru á baugi og tengjast réttindum barna. Markmið fundarins var að heyra hvað hin norrænu embættin hefðu verið að fást við undanfarið ár og miðla þekkingu og upplýsingum um nýjungar og verkefni sem miða að aukinni vernd, þátttöku og jafnræði barna.

Þrátt fyrir að margt sé líkt með þeim áskorunum sem þarf að takast á við er þó sá munur á Norðurlandaríkjunum að á Íslandi, í Noregi og Finnlandi er búið að lögfesta Barnasáttmálann. Í Svíþjóð og Danmörku hefur það ekki verið gert.

Á heimsvísu eru Norðurlandaríkin í fararbroddi þegar kemur að réttindum barna. Þó er enn töluvert langt í land til að ná markmiðinu um samfélag þar sem öll börn njóta réttinda sinna til verndar, umönnunar og þátttöku til fulls. Það mun krefjast áframhaldandi vinnu við að vekja athygli á hagsmunamálum þeirra.

Á fundinum var rætt um það hvernig hægt væri að ná til og tryggja réttindi allra barna, sérstaklega þeirra sem búa við félagslega erfiðar aðstæður, eru með fötlun eða búa á strjálbýlum svæðum. Þessi börn eiga rétt á þjónustu og aðstoð í samræmi við það sem er þeim fyrir bestu. Þetta er viðfangsefni sem allar Norðurlandaþjóðirnar eru að velta fyrir sér hvernig best er að leysa. Á fundinum var einnig unnin samnorræn yfirlýsing um sjálfstæða kæruheimild fyrir börn, sem nánar er fjallað um á bls. 7 og 8.

Þessir árlegu norrænu fundir hafa reynst ákaflega mikilvægir í starfi embættanna, en starf umboðsmanns barna er þess eðlis að hann verður að vinna að mestu óháð öðrum stofnunum samfélagsins. Því er mikilsvert að geta með þessum hætti haft samráð við aðra sem vinna við sömu eða svipaðar aðstæður.

Fundur Samtaka evrópskra umboðsmanna barna (ENOC)

Dagana 21.-24. október 2014 var haldinn árlegur fundur Samtaka evrópskra umboðsmanna barna (ENOC) í Skotlandi, en ENOC er tengslanet umboðsmanna barna í Evrópu. Umboðsmaður barna sótti fundinn, þar sem skipst var á upplýsingum og skoðunum um ýmis málefni sem snerta börn. Aðalumræðuefni fundarins var fátækt og áhrif efnahagsþrenginga undanfarinna ára á velferð barna.

Á fundinum var samþykkt eftirfarandi yfirlýsing varðandi börn og örbirgð:

Yfirlýsing tengslanets umboðsmanna barna í Evrópu (ENOC)
varðandi börn og örbirgð

Við lýsum yfir djúpum áhyggjum af áhrifum fátæktar og örbirgðar á stöðu barna ungs fólks.

Viðbrögð ríkja við nýlegum efnahagsþrengingum hafa haft neikvæð áhrif á lífsgæði og mannréttindi barna. Að búa við fátækt í barnæsku hefur ekki aðeins áhrif á barnæskuna sjálfa og upplifun barnsins á henni, áhrifin teygja anga sína út fyrir barnæskuna og hafa áhrif á lífsgæði á fullorðinsárum. Áhrif fátæktar geta einnig valdið því að barn nær ekki fullorðinsárum vegna ýmiss skorts sem skapast vegna fátæktar í barnæsku.

Á meðan réttindi barna hafa að öllu jöfnu verið tekin alvarlega í löndum Evrópu, er það skýrt að efnahagsþrengingar síðastliðinna ára hafa gert það að verkum að barnafátækt og félagsleg einangrun hefur aukist víða. Barnafátækt eftir efnahagskreppuna hefur í mörgum löndum Evrópu aukist til muna og oft meira heldur en fátækt á meðal borgara almennt.

Evrópuráðsþingið hefur lýst því yfir að það sé agndofa yfir reglulegum fréttum af vannærðum börnum, börnum sem eru yfirgefin af foreldrum sem í neyð leita sér atvinnu í öðrum ríkjum, mikilli aukningu á atvinnuþátttöku barna ásamt því að þátttaka og frammistaða barna í framhaldsskóla hefur víða beðið hnekki.

Til viðbótar við ofantalin atriði hefur fjármálakreppan einnig haft neikvæð áhrif á réttindi barna á margan annan hátt í sumum ríkjum Evrópu. Má einna helst nefna skerðingu á velferðarþjónustu og skerðingu á ýmiss konar félagslegum úrræðum, niðurfellingu styrkja og hækkun á sköttum og gjöldum á nauðsynjavöru. Þessi atriði hafa ollið því að réttindi barna til fæðis, klæðis og húsaskjóls eru víða ekki uppfyllt.

Neikvæðra áhrifa hefur einnig gætt á menntun, heilbrigðisþjónustu, vernd gegn ofbeldi, fjölskyldulíf, umönnun, réttindi barna með sérþarfir svo og skoðana- og tjáningarfrelsi barna. Þessi atriði hafa komið skýrt fram hjá þeim börnum sem hafa veitt innsýn í líf sitt þegar áhrif efnahagskreppunnar á líf barna hafa verið könnuð.

Í 4. gr. Barnasáttmálans er fjallað um skyldu ríkja til þess að taka tillit til sáttmálans í lögum og framkvæmd ríkisvaldsins. Þegar kemur að efnahagsþrengingum eiga ríki sem hafa undirritað Barnasáttmálann að tryggja að réttindi barna séu ekki skert vegna efnahagsþrenginga. Ríkjum ber að haga forgangsröðun þannig að lífskjör barna sem verst standa skerðist sem minnst.

Það er mjög mikilvægt að ríki sem eru í einhverskonar samstarfi vegna efnahagsþrenginga tryggi að samstarfsaðilar starfi í samræmi við Barnasáttmálann þegar ákvarðanir eru teknar. Á þetta til dæmis við um samstarf ríkja við Evrópusambandið og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Tengslanet umboðsmanna barna í Evrópu harmar að hvorki Evrópuráðið né Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur kannað áhrif lánveitinga og aðgerðaráætlana í kjölfar þeirra á velferð og réttindi barna. Er þetta nokkuð sem hefði getað mildað áhrif efnahagskreppunnar á líf barna að einhverju leyti.

 

HEIMSÓKNIR, FUNDIR, MÁLÞING OG RÁÐSTEFNUR

Heimsóknir og fundir

Umboðsmaður barna fékk á árinu margar heimsóknir frá einstaklingum og fulltrúum stofnana og félagasamtaka. Sömuleiðis heimsóttu umboðsmaður barna og starfsfólk embættisins ýmsar stofnanir og félagasamtök á árinu. Auk þess átti umboðsmaður fundi með ýmsum aðilum í samfélaginu með það fyrir augum að efla samvinnu þeirra sem vinna að hag barna. Meðal þeirra stofnana/samtaka sem umboðsmaður barna heimsótti eða fundaði með eru:

 • Innanríkisráðherra
 • Sýslumaðurinn í Reykjavík
 • Barnaverndarstofa
 • Félags- og húsnæðismálaráðherra
 • Velferðarnefnd
 • Leikskólabörn frá leikskólanum HOF
 • Leikskólinn Álfaheiði
 • Leikskólinn Aðalþing
 • Meðferðarstöðin Stuðlar
 • Verkefnisstjórn um mótun fjölskyldustefnu, velferðarráðuneytinu
 • Samband íslenskra sveitarfélaga
 • Rannsóknir og greining
 • Vinnumálastofnun
 • Forsætisráðherra
 • Samskiptamiðstöðin
 • Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar
 • Samtökin Olnbogabörn
 • Samtök leigjenda
 • Rótin
 • Unglingadeildin á Vogi
 • Miðstöð slysavarna barna
 • Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Auk þess voru fleiri heimsóknir eða fundir sem fjallað er nánar um í köflum skýrslunnar. Að lokum er rétt að geta þess að umboðsmaður barna heimsótti skóla, ungmennaráð og félagasamtök í tengslum við kynningar á embættinu, sbr. upptalningu á bls. 7 og 8.

Forsætisráðherra í heimsókn

Hinn 28. ágúst 2014 kom forsætisráðherra Íslands, ásamt nokkrum samstarfsaðilum úr forsætisráðuneytinu, í heimsókn til umboðsmanns barna. Umboðsmaður barna taldi það ánægjulegt að fá tækifæri til þess að ræða við forsætisráðherra og starfsfólk hans um störf umboðsmanns og réttindi barna. Mikið var rætt um rétt barna til þátttöku og var forsætisráðherra hvattur til þess að beita sér fyrir því að börn fengju frekari tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri áður en teknar væru ákvarðanir sem vörðuðu þau með einum eða öðrum hætti. Forsætisráðherra tók undir mikilvægi þess að tryggja rétt barna til þess að taka þátt í samfélaginu og tók vel í hugmyndir umboðsmanns. Í frétt um heimsóknina á vef forsætisráðuneytisins er vitnað í forsætisráðherra, sem segir að það hafi verið „ánægjulegt að fá að hitta starfsfólk umboðsmanns barna og fræðast um það áhugaverða starf sem þar fer fram og þá áherslu sem lögð er á að raddir barna fái að heyrast. Það var ánægjulegt að sjá hve hlý og notaleg húsakynni umboðsmanns eru og móttökur voru í samræmi við það“.

Tengslafundur fyrir félagasamtök sem starfa að hagsmunamálum barna

Haustið 2013 stóð umboðsmaður barna fyrir fundi með hinum ýmsu félagasamtökum sem vinna að málefnum barna. Á fundinn mættu fulltrúar um 20 félagasamtaka. Niðurstaða fundarins var meðal annars sú að það væri gagnlegt að koma á fót reglulegum samráðsvettvangi ólíkra aðila sem ynnu með einum eða öðrum hætti að því að gæta hagsmuna barna og bæta réttarstöðu þeirra. Var því ákveðið að umboðsmaður barna boðaði annan fund að ári. Var öllum samtökum sem vinna að hagsmunamálum barna boðið að senda fulltrúa á fundinn, sem haldinn var 17. september 2014. Markmið fundarins var eins og árið 2013 að skiptast á upplýsingum og læra hvert af öðru. Jafnframt var réttindafræðsla og skipst á hugmyndum um það hvernig hægt væri að nýta Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í daglegu starfi. Stefnt er að því að halda sambærilega fundi árlega.

 

Málþing og ráðstefnur

Janúar

„Tekur samfélagið mið af margbreytileika fjölskyldugerða?“, málþing á vegum velferðarvaktarinnar í samstarfi við Velferðarráðuneytið, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Heimili og skóla, Kennarasamband Íslands og Félag stjúpfjölskyldna. Bratti, hús Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð.

„Brotthvarf úr framhaldsskólum“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

„Fjölbreytileikinn í leikskólanum: Fögnum við eða sýnum fálæti?“, morgunverðarfundur á vegum RannUng, rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna. Grand hótel.

Febrúar

„Internetið“, ráðstefna á alþjóðlega netöryggisdeginum 2014 á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Innanríkisráðuneytisins, Velferðarráðuneytisins, Póst- og fjarskiptastofnunar, Menntavísindasviðs HÍ og SAFT. Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

„Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Brúðuleikhús sem forvarnarfræðsla í skólum. Árangur og mat kennara.“ Kynning á ritröð. Háskóli Íslands.

Félagsráðgjafaþing 2014 á vegum Félagsráðgjafafélags Íslands. Hilton Nordica Reykjavík.

Mars

„Úti alla nóttina... næturlíf og neysla“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

„Að rýna með jafnréttisgleraugum: Leikskólastarf og staðalmyndir!“, málþing á vegum Rannsóknarseturs í menntunarfræðum ungra barna við Háskóla Íslands (RannUng). Bratti á Menntavísindasviði Háskóla Íslands við Stakkahlíð.

„Tengsl feðra og barna – ábyrgð, þátttaka og vernd“, málstofa á vegum Rannsóknarseturs í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands (RBF). Háskóli Íslands.

„Er hægt að ná fram réttlæti í kynferðisbrotamálum á grundvelli skaðabótaréttar?“, málþing á vegum Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands í samstarfi við Lagastofnun Háskóla Íslands. Háskóli Íslands.

Apríl

 „Fátækt barna á Íslandi og í Evrópu“, málþing á vegum Barnaheill – Save the Children á Íslandi. Austurbæjarskóli.

Afmælisráðstefna Blátt áfram. Icelandair Hotel Reykjavík Natura.

„Á flekamótum“, ráðstefna um skilin í lífinu, allt frá skilum leik- og grunnskóla til skila starfs og eftirlaunaára, ráðstefna á vegum RannUng. Bratti, Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Maí

„Málefni frístundaheimila fyrir nemendur á grunnskólaaldri“, morgunverðarfundur á vegum félags fagfólks í frítímaþjónustu, Heimilis og skóla, Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Skólastjórafélags Íslands, umboðsmanns barna og Æskulýðsvettvangsins. Hlaðan, Frístundamiðstöðin Gufunesbæ við Gufunesveg í Grafarvogi.

„Fátæk börn á Íslandi“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla. Þjóðmenningarhúsið við Hverfisgötu.

„Stuðlar kerfið að ágreiningi foreldra?“, málþing um framfærslu barna sem búa á tveimur heimilum á vegum Félags stjúpfjölskyldna, Félags einstæðra foreldra, Félags um foreldrajafnrétti og Samtaka meðlagsgreiðenda. Háskóli Íslands.

„Börn og nútímasamfélag: Dagvistunarmál og samþætting atvinnu- og fjölskyldulífs“, opinn fundur á vegum Bandalags kvenna í Reykjavík í samstarfi við Velferðarráðuneytið. Hótel Reykjavík Natura.

Júní

Ársfundur UNICEF. Þjóðminjasafn Íslands.

September

„Réttur til verndar, virkni og velferðar“, ráðstefna á vegum Barnaverndarstofu. Hilton Reykjavík Nordica.

„Fjölskyldustefnur á Norðurlöndunum og velferð barna“, ráðstefna á vegum Velferðarráðuneytisins. Nauthóll.

„Mat á vellíðan og námi í leikskóla“, málþing á vegum Rann Ung. Hótel Natura.

„Verður áfengi á nýja nammibarnum?“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

„Allt snýst þetta um samskipti! Um mikilvægi þess að byggja upp félagslega sterka einstaklinga“, málþing á vegum Sjónarhóls. Hótel Hilton Reykjavík Nordica.

„Hvað fékkstu á prófinu?“, málþing um skólamál á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Grand hótel.

Október

„Opinber umfjöllun um börn“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

„Ljóðagerð með leikskólabörnum“, hádegisrabb RannUng. Menntavísindasvið Háskóla Íslands við Stakkahlíð.

„Foreldrar í vanda – börn í vanda – forsenda lífshæfni“, námstefna á vegum Ljósmæðrafélags Íslands. Iðnó.

Kynningarfundur um mótun geðheilbrigðisstefnu. Grand hótel.

„Allir snjallir – snjallir foreldrar, snjallir nemendur, snjallir kennarar, snjallir skólar“, ráðstefna á vegum Heimilis og skóla. Grand hótel.

Nóvember

„Eru jólin hátíð allra barna?“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

Desember

„Kynferðisofbeldi gegn börnum“, námskeið Vitundarvakningar um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum og Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni. Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

„Vestfirðir, hluti af heildinni“, umræðufundur. Grand hótel.


 

Dæmi um erindi sem bárust á árinu 2014

Getur umboðsmaður barna hjálpað mér að finna vinnu?
Getur umboðsmaður barna borið vitni í máli sem varðar réttindi barns gagnvart umgengnisforeldri og skyldum umgengnisforeldra gagnvart börnum?
Er leyfilegt að sveitarfélag geri samning við einkafyrirtæki  um að styrkja íþróttastarf barna og ungmenna í sveitarfélaginu?
Eiga mismunandi útvistarreglur við ef börn eru á sundæfingu eða í sundi á eigin vegum?
Ég fór með syni mínum á barnamynd í kvikmyndahúsi. Áður en myndin byrjaði þá komu tvær auglýsingar frá smálánafyrirtækjum. Má ekki koma í veg fyrir þetta á einhvern hátt?
Gilda einhverjar reglur um það hvernig auglýsendur setja upp auglýsingar á íþróttamótum hjá börnum?
Mega foreldrar mínir segja upp vinnu sem ég er í?
Geta foreldrar mínir bannað mér að gista með kærasta mínum?
Hefur verið pælt í því að koma fyrir smokkasjálfsölum á landsbyggðinni?
Ég er að leita mér að vinnu, hvert get ég leitað og við hvað má ég vinna?
Get ég ákveðið að flytja til ömmu og afa?
Ég þarf að flytja lögheimili mitt til pabba míns til þess að geta sótt um heimavistina í framhaldsskóla. Foreldrar mínir geta hins vegar ekki komist að samkomulagi um að breyta lögheimilinu.
Ég er 14 ára og vill ekki búa hjá mömmu, mer líður betur hjá pabba. Mamma vill ekki leyfa mer að búa hjá honum. Get ég fengið hjálp til að flytja til pabba?
Mig langaði að athuga hvort þið gætuð gefið mér ítarlegri upplýsingar um hver stendur á bak við síðuna barn.is.
Hvenær er leyfilegt fyrir börn að vera ein heima?
Hvað geta foreldrar gert ef 17 ára barn fer til útlanda í tvær vikur án leyfis? Er hægt að sækja barn á þessum aldri með valdi, ef foreldrar fara fram á það?
Hvað þýðir 2. mgr. 16. gr. Barnasáttmálans?
Hvaða reglur gilda um umgengni?
Má ég ráða hvort ég bý hjá mömmu eða pabba?
Má ég ráða hvort ég fari í umgengni til pabba míns eða hversu mikil sú umgengni er?
Hvaða reglur gilda um kostnað vegna umgengni barns milli landa?
Hversu langan tíma tekur að úrskurða í umgengnismálum?
Mig langar að flytja erlendis með mömmu minni en pabbi minn gerir allt til þess að koma í veg fyrir því að ég fari með henni. Hvað get ég gert?
Amma biður um ráð vegna þess að hún hefur ekki fengið að hitta barnabarn sitt í rúmlega 3 ár.
Hver er réttur barns þegar um er að ræða tálmaða umgengni?
Hvað get ég gert í því að barnsfaðir minn sjái til þess að dóttir okkar taki lyfin sín þegar hún er hjá honum?
Barnið mitt er ekki skráð á líffræðilegan föður þess. Eru til lög um það að faðerni barna verði að vera ljóst?
 Hvað á heilbrigðisstarfsfólk að gera ef foreldrar með sameiginlega forsjá eru ósammála um hvort bólusetja eigi barn eða ekki?
Hvað er mikilvægast að vita þegar kona er að fara að stunda kynlíf í fyrsta skipti?
Ég vil ekki segja mömmu frá því að ég sé tilbúin til þess að byrja að stunda kynlíf.
Barnavernd hótar að taka barn af móður, þarf ekki að reyna vægari úrræði áður?
Geta börn kært foreldri fyrir andlegan skaða?
Eiga börn rétt á því að fá réttindagæslumann?
Ef manni líður ekki vel heima hjá sér, er hægt að fara í tímabundið fóstur og gá hvort að manni byrjar að líða betur?
Móðir lýstir yfir áhyggjum af því að barnavernd hafi meira eftirlit með einkareknum leikskólum en leikskólum sem reknir eru af sveitarfélögum.
Hvernig eru einkenni unglinga eftir alvarlegan missi, er eðlilegt að unglingur láti reiðina bitna á öðrum einstakling?
Er það í samræmi við réttindi barna að skólasund hefjist kl. 7:30.
Mér var vísað úr skóla án þess að fá tækifæri til að segja mína hlið á málinu. Má það?
Sonur minn á að fara í fyrsta bekk í skólahúsnæði sem er ekki tilbúið. Þarf húsnæði grunnskóla ekki að uppfylla einhver skilyrði?
Er réttlætanlegt að börn í framhaldsskólum fái fjarvistir vegna tilkynntra veikinda samkvæmt skólareglum?
Mega sveitarfélög nota almenningssamgöngur undir skólaakstur?
Nemandi í 6. bekk spyr: Eru skólareglurnar í mínum skóla brot á réttindum barna eða er um að ræða viðurkenndar aðferðir til að halda uppi aga?
Þegar kennari segir nemanda að fara til skólastjórans vegna til dæmis hvernig nemandi svarar kennara með leiðindum, þarf nemandinn að fara til skólastjórans eða má hann biðja um að fá að hringja í forráðamann sinn?
„Þegar kennari niðurlægir nemanda fyrir framan bekkinn sinn, hvað getur nemandinn gert?“
Móðir hefur samband af því sonur hennar var ásamt öðrum ásakaður um svindl og því verið vikið úr skólanum. Hún telur að skólastjórinn hafi ekki tekið á málinu með nægilega vönduðum hætti.
Er leyfilegt samkvæmt lögum að krefja nemendur í skyldunámi í grunnskóla um efnisgjald og krefjast þess að nemendur kaupi ritföng og pappír á sinn kostnað?
Standast skólareglur í mínum menntaskóla lög?
Er grunnskólum heimilt að útiloka ákveðna fæðuhópa í nesti skólabarna?
Hvaða reglur gilda um tjón þegar sex strákar í 3. bekk ollu tjóni á skólatíma?
Mega foreldrar mínir taka símann minn og tölvuna mína sem ég keypti sjálfur?
Barnsmóðir mín virðir ekki eignarétt barnsins okkar yfir þeim hlutum sem ég hef gefið því og eru á heimili hennar.
Geta foreldrar afsalað eignarétti barns síns, t.d. samþykkt að skólinn taki eignir barnsins af því?
Mega framhaldsskólakennarar taka síma af borði nemenda?
Boltinn minn var gerður upptækur í skólanum og skólinn neitar að afhenda hann nema foreldrar mínir sæki hann.
Ef maður er með orku/gosdrykki í tíma eða á göngunum má kennarinn taka drikkinn og hella úr honum eða geyma hjá skólastjóranum?
Er heimilt að banna nemendum að koma með síma í skólann?
Einn kennarinn í skólanum er mjög dónalegur við alla krakkana , segir t.d. að við séum aumingjar segir okkur að halda kjafti og gefur okkur puttann og kemur með mjög grófa brandara og særir marga... Svo hlægja bara hinir kennararnir :S er þetta einelti ? er þetta ekki rangt??
Ég held að einn kennarinn í skólanum sé eitthvað á móti mér...hún [er] alltaf að skamma mig og niðurlægja mig fyrir framan allan bekkinn. Það er naumast að ég hætti í skólanum útaf henni.
Ég hef orðið fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi af bæði kennurum og nemendum... get ég kært kennarann minn [...] fyrir það að hlusta ekki á mig og að ég var lamin af krökkunum og það var ekkert gert og hún í rauninni tók bara þátt í eineltinu.. hvað get ég gert mig vantar ráð.
Skólastjórinn er dónalegur við nemendur og hótar þeim.
Í ensku þá er gamall kennari sem er alltaf að seigja ég sé heimskur og þroskaheftur og er alltaf að seigja það ef maður talar.
Það er húsvörður í skólanum sem er ofbeldisfullur. Hann tekur á öllu með þvílíku valdi. Hann tekur bara alltaf nokkra einstaklinga í skólanum fyrir og þar af meðal mig.
Þjálfarinn leggur mig í einelti. Ég er hætt að mæta á æfingar.
Þegar barn er beðið um að koma í öryggisgæslu hjá Kringlunni og er sakað um að hafa stolið hlut í búð á þá ekki hafa samband strax við forráðamann? Má öryggisvörður skoða úlpuna hjá barninu, gramsandi í vösum?
Hvað get ég gert í máli dóttur minnar? Það er búið að neita henni um ríkisborgararétt þar sem ég er ekki giftur móður barnsins.
Telst það vera brot á friðhelgi einkalífs barna að birta myndir af þeim á facebook?
Get ég breytt kenninafni mínu og kennt mig við mömmu mína?
Hvaða lög eða reglugerðir gilda um tölvupóst í tengslum við aldur barna og hvenær börn mega eiga sitt eigið tölvupóstfang?
Hvað þarf maður að vera gamall til að mega selja eða afhenda áfengi á skemmtistað? Er einhver munur á því hvort viðkomandi vinnur á veitingastað eða á skemmtistað?
Faðir hefur áhyggjur af syni sínum sem keppir í íþrótt sem sem leyfir höfuðspörk á börnum yngri en 18 ára.
Hvar nálgast ég reglur varðandi lengd bila í grindverki?
Mig langar að benda á rosalega slysahættu í Ævintýragarðinum í Skútuvogi.
Hvað þarf maður að vera gamall til að eiga loftriffil?
Eru til reglugerðir eða lög um lengda viðveru, t.d. varðandi fjölda barna á hvern starfsmann og rými á hvert barn?
Það er leikskóli sem er ennþá með svokallaðar kaðlarólur með engum plasthólkum. Ég hélt að þær væru bannaðar eftir banaslysið 2010?
Amma mín fær meðlag og barnabætur mínar, þó að ég búi ekki hjá henni. Á ég rétt á því að fá þennan pening sjálf til að sjá fyrir mér og barninu mín
Mega foreldrar fá “lán“ hjá börnum sínum ef þau ná ekki endum saman? Ef það má, þurfa foreldrar að fá leyfi frá barninu eða mega þau taka pening án leyfis?
Ég hef fengið innheimtunarkröfu sem er tilkomin vegna skólagjalda þegar ég var undir 18 ára.
Ég er 17 ára menntaskólanemi. Móðir mín hefur í framhaldi af rifrildi ákveðið að taka allt mitt fé sem ég hef unnið mér inn sjálf og ætlar að eiga það fyrir sig. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé löglegt og hvort hún megi gera þetta.
Geta 12 ára krakkar verið með sinn eigin heimabanka?
Ætlaði að spyrja hérna hvernig virkar þetta með skatt ef eg væri til dæmis með 150.000 í laun og er orðin 16 ára? Getur þú utskýrt það fyrir mér? Með persónuaflátt og hvað eg myndi þá fá mikið í heildina?
Hvenær mega börn skrá sig í eða úr trúfélagi?
Faðir spyr hvort það sé eðlilegt að 14 ára syni sínum hafi borist happdrættismiði frá Blindrafélaginu í pósti sem var stílaður á hann.
Er unglingum sem eru yngri en 18 ára heimilt að skrifa undir árekstrarskýrslu án samráðs við lögráðendur og ef þau gera slíkt – er undirskrift lögleg?
Af hverju þarf maður að læra um trúr þegar þú þarft bara að vita um þína eigin? Hvernig getur þetta eiginlega hjálpað manni? Mér finnst það eina sem þetta hjálpar með er að vita um annað fólk þegar maður þarf ekkert endilega að gera það. Þarf endilega að læra um trú annarra?
Hefur lögreglan rétt á að leita á mér og ef hún gerir það án leyfis er þetta brot á friðhelgi og á ég rétt á skaðabótum?
Getur pabbi neytt mig í meðferð?
Er rétt að segja 8 ára dóttur minni að faðir hennar sé fíkill?
Er hægt að hætta að stela?
Hvert á að tilkynna um óviðeigandi myndir af börnum á netinu?
Get ég neytt 15 ára dóttur mína að gefa upp lykilorð og lesið samskipti hennar á netinu eða er þetta hennar einkamál?
Ég velti fyrir mér mismunun barna eftir því hvort þau alast upp í litlum eða stórum systkinahóp og sú mismunun er af hálfu íslenska ríkis, eins og séð verður á skattalöggjöf.
Hvert er álit umboðsmanns barna á því að börn þurfi sjálf að sækja um jöfnunarstyrk og að LÍN greiði hann inn á reikning þeirra en ekki forsjáraðila?
Get ég fengið upplýsingar um réttarstöðu ungmenna á vinnumarkaði og takmarkanir á samningsfrelsi í því tilliti?