Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Ársskýrslur

Ársskýrsla umboðsmanns barna 2012

Hér er birt óuppsett ársskýrsla umboðsmanns barna fyrir árið 2012.

Uppsetta ársskýrslu (PDF) með myndum má skoða með því að smella hér á vef umboðsmanns barna.

Ársskýrsla umboðsmanns barna 2012

Til forsætisráðherra

Í samræmi við 8. gr. laga nr. 83/1994 um umboðsmann barna hefur umboðsmaður látið taka saman skýrslu þessa um starfsemi embættisins.

Starfsárið 2012 var virkilega viðburðaríkt hjá umboðsmanni barna og starfsfólki hans. Fyrir utan hefðbundin verkefni embættisins og ýmis önnur dagleg verkefni lagði umboðsmaður áherslu á að kynna sér og fræða aðra um innleiðingu Barnasáttmálans. Þar ber að nefna málstofu um innleiðingu Barnasáttmálans á Norðurlöndunum þar sem umboðsmenn barna í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, sem og starfsmenn Barnaráðsins í Danmörku og talsmaður barna á Grænlandi, héldu erindi og sögðu frá því hvernig þeim hefur tekist að innleiða sáttmálann í sínu landi. Málstofan var haldin í tengslum við norrænan umboðsmannafund sem var haldinn hér á landi. Einnig stóð umboðsmaður barna fyrir námskeiði um innleiðingu Barnasáttmálans, sem heppnaðist vel. Nánar er hægt að lesa um viðburðina í eftirfarandi skýrslu. Auk þess lauk vinnu við námsvefinn, www.barnasattmali.is, á árinu en um var að ræða samstarfsverkefni með UNICEF á Íslandi og Barnaheill – Save the Children á Íslandi. Á vefnum má finna fræðslu um Barnasáttmálann auk verkefna fyrir börn og unglinga. Að lokum má nefna að umfangsmiklar breytingar voru samþykktar á barnalögum nr. 76/2003 sem umboðsmaður barna vinnur mikið með í sínu starfi og munu breytingarnar, sem fyrirhugað er að taki gildi árið 2013, hafa mikil áhrif á réttarstöðu barna.

Í lok ársins flutti umboðsmaður barna úr húsnæði sínu við Laugaveg 13, þar sem umboðsmaður hefur verið staðsettur síðan árið 1997, í nýtt húsnæði í Kringlunni 1. Helsta ástæða flutninganna er sú að umboðsmaður barna taldi mikilvægt að aðgengi fyrir fatlaða væri gott þannig að allir hafi jafnan aðgang að skrifstofu umboðsmanns barna. Hlakkar umboðsmaður barna til að taka á móti öllum í nýju húsnæði.

Umboðsmaður barna vill að lokum þakka nemendum í Reykjahlíðarskóla fyrir skemmtilegt samstarf á árinu en einn af hápunktum ársins var þegar umboðsmaður  heimsótti skólann og kynnti fyrir þeim Barnasáttmálann í tengslum við ofangreindan námsvef. Kynningin var tekin upp og birtist seinna í frétta- og þjóðlífsþættinum Landanum. Auk þess þakkar umboðsmaður fyrir þá vinnu sem nemendur lögðu í að búa til teiknaðar myndir sem birtast í eftirfarandi skýrslu.

Reykjavík, 15. febrúar 2013

Margrét María Sigurðardóttir


STARFSEMI EMBÆTTISINS

Hlutverk umboðsmanns barna

Í lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 er umboðsmanni barna falið það mikilvæga hlutverk að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Umboðsmaður barna skal vinna að því að tekið sé fullnægjandi tillit til barna á öllum sviðum samfélagsins, jafnt hjá opinberum aðilum sem og einkaaðilum, og bregðast við ef brotið er á réttindum þeirra. Umboðsmaður barna á að hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu um málefni barna. Þá er embættinu ætlað að koma með ábendingar og tillögur um það sem betur má fara í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem varða málefni barna. Það er einnig hlutverk umboðsmanns að kynna almenningi þá löggjöf sem varðar börn sérstaklega.

Umboðsmanni barna er hins vegar ekki ætlað að taka til meðferðar ágreining milli einstaklinga. Honum er þó skylt að leiðbeina þeim sem til hans leita með slík mál og benda á hvaða leiðir eru færar innan stjórnsýslunnar og hjá dómstólum.

Starfsfólk umboðsmanns barna

Margrét María Sigurðardóttir hefur gegnt starfi umboðsmanns barna frá 1. júlí 2007 og hóf sitt annað tímabil nú í sumar. Auk hennar starfa við embættið þrír starfsmenn, þau Auður Kristín Árnadóttir, Eðvald Einar Stefánsson og Elísabet Gísladóttir. Frá 1. ágúst 2011 starfaði Bára Sigurjónsdóttir í stað Elísabetar Gísladóttur sem tók sér námsleyfi í eitt ár. Á vorönn óskaði nemi úr starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun, María Þorleif Hreiðarsdóttir, eftir starfsnámi í réttindabaráttu barna og starfaði hún í 8 vikur hjá umboðsmanni barna. Auk hennar starfaði einnig nemi frá Háskólanum í Reykjavík hjá umboðsmanni á haustmánuðum 2012.

Embætti umboðsmanns reynir að sinna endurmenntun eftir þörfum og sóttu starfsmenn embættisins  ýmis námskeið, t.d. námskeið um fundarækni, fundarsköp, Dale Carnegie, námskeið í gerð umsókna um Leonardo mannaskiptaverkefni, námskeið hjá endurmenntun og námskeið um vefmál. Auk þess var starfsmannafélag umboðsmanns barna stofnað á árinu.

Erindi

Dagleg störf á skrifstofu umboðsmanns barna mótast mikið af þeim erindum sem embættinu berast. Erindin eru af margvíslegum toga og eru það ýmist einstaklingar, stofnanir, félagasamtök eða fjölmiðlar sem leita til umboðsmanns barna og óska eftir upplýsingum eða ráðgjöf varðandi málefni barna. Einnig berast þó nokkur erindi frá nemendum í grunn-, framhalds- og háskólum þar sem leitað er svara við ýmsu sem snertir réttindi barna og Barnasáttmálann. Málaflokkarnir eru margir og fjölbreytilegir enda koma hagsmunir barna við sögu á flestum sviðum samfélagsins. Ákveðnir málaflokkar eru þó meira áberandi en aðrir og ber þar helst að nefna forsjár- og umgengnismál, meðlagsmál, skólamál, barnaverndarmál og heilbrigðismál.

Eins og áður hefur verið minnst á er umboðsmanni barna ekki ætlað að taka til meðferðar ágreining milli einstaklinga eða mál einstaklinga sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum eða dómstólum. Fjöldi erinda sem embættinu berast varða þó slík mál og einnig berst alltaf þó nokkur fjöldi erinda þar sem fólk telur að umboðsmaður barna sé barnavernd. Virðist því sem svo að almenningur viti oft ekki hvert hlutverk umboðsmanns barna er. Umboðsmaður barna kappkostar að veita þeim einstaklingum sem leita til hans greinargóðar upplýsingar, leiðbeiningar og ráð eins og unnt er hverju sinni. Stundum er óskað eftir að umboðsmaður setji reglur eða gefi út leiðbeiningar og álit um ákveðin málefni. Dæmi um slíkt eru reglur um það hvenær megi skilja börn eftir ein heima og við hvaða aldur eigi að miða þegar leitað er eftir áliti barna í fjölskyldumálum.

Móðir: „Hversu gömul eru börn þegar þau mega vera ein heima? Er það þegar þau eru 8 ára? Eru einhverjar reglugerðir til um þetta málefni?“

„Telst það eðlilegt eða er það heimilt að láta 15 stúlku að gæta 4 ára systur sinnar á meðan foreldrar þeirra ferðast til útlanda? Jafnvel þó einungis sé um að ræða pössun í 2 til 3 daga.“

Á árinu 2012 bárust alls 1461 erindi til umboðsmanns barna, þar af 777 munnleg erindi og 684 skrifleg. Með munnlegum erindum er átt við öll símtöl sem berast embættinu og viðtöl við einstaklinga sem eiga sér stað á skrifstofu þess. Með skriflegum erindum er átt við allar fyrirspurnir og erindi sem varða ákveðið barn eða hóp barna. Þar að auki berast umboðsmanni barna reglulega ýmis konar ábendingar, upplýsingar og boð á viðburði.

Samskipti við börn

Frá því að embætti umboðsmanns barna var stofnað hefur verið lögð rík áhersla á að ná til barna og unglinga til þess að fræða þau og ræða um réttindi þeirra. Einnig vill umboðsmaður barna heyra skoðanir barna og sjónarmið og fá ábendingar um það sem betur mætti fara. Mikilvægt er fyrir embætti, sem vinnur í þágu barna, að aðgengi fyrir börn sé tryggt og að þau geti á einfaldan hátt leitað til umboðsmanns barna með erindi og fengið upplýsingar um réttindi sín. Er því ávallt reynt eftir fremsta megni að svara þeim börnum sem leita til embættisins eins fljótt og hægt er. Börn sem leita til embættisins geta rætt við umboðsmann barna eða aðra starfsmenn embættisins í fullum trúnaði. Starfsmenn embættisins eru þó bundnir af reglum barnaverndarlaga nr. 80/2002 um tilkynningaskyldu með sama hætti og aðrir þjóðfélagsþegnar.

Flest erindi frá börnum berast í gegnum netið, ýmist með tölvupósti á netfang embættisins, ub@barn.is, eða í gegnum heimasíðuna, undir liðnum spurt og svarað. Þegar erindi berst eftir síðari leiðinni getur viðkomandi barn ráðið því hvort svar við því birtist á heimasíðunni www.barn.is eða hvort það fái sent persónulegt svar á netfang sitt. Ekki er gerð krafa um að börn gefi upp nafn eða aðrar persónulegar upplýsingar. Ýmis svör við spurningum sem borist hafa frá börnum og unglingum er hægt að lesa á barna- og unglingasíðu embættisins. Þó svo að fyrrgreindar leiðir séu algengastar þegar börn leita til umboðsmanns barna hefur það færst í aukana að börn komi á skrifstofu umboðsmanns og óski eftir upplýsingum og aðstoð.

Umboðsmaður barna leitast einnig við að eiga samskipti við börn með öðrum hætti, t.d. með því að fara í heimsóknir og halda kynningar fyrir skóla, frístundaheimili og ungmennaráð. Á árinu 2012 hitti umboðsmaður og starfsfólk hans yfir 2000 börn á öllum aldri og ræddi við þau um réttindi og hagsmunamál þeirra. Umboðsmaður barna er einnig með sérstakan ráðgjafahóp sem hann hittir einu sinni í mánuði en þar eiga sæti unglingar á aldrinum 13 til 17 ára. Nánar er fjallað um ráðgjafarhópinn síðar.

Heimasíða umboðsmanns barna

Heimasíðu embættisins, www.barn.is, er ætlað að vera almennur gagnagrunnur um réttindi og skyldur barna og hvaðeina sem varðar hagsmuni þeirra. Heimasíðan skiptist í tvo hluta, þ.e. aðalsíðu og barna- og unglingasíðu.

Á aðalsíðunni má finna upplýsingar um starfsemi embættisins. Þar eru einnig margvíslegar upplýsingar um réttindi barna, þau lög og reglur sem gilda um hina ýmsu málaflokka og upplýsingar um stofnanir og samtök sem koma að málefnum barna.

Barna- og unglingasíðunni er ætlað að tryggja að börn og unglingar geti fengið upplýsingar og ráðgjöf um réttindi sín á einfaldan og aðgengilegan hátt. Á síðunni er auk þess að finna upplýsingar um mismunandi málaflokka og leiðbeiningar um hvert sé hægt að leita til að fá frekari aðstoð. Heimasíðan er jafnframt vettvangur fyrir börn og unglinga til þess að koma skoðunum sínum á framfæri en þar geta þau sent inn ábendingar eða fyrirspurnir til umboðsmanns barna eins og áður segir.

Verkefni umboðsmanns barna

Lög um umboðsmann barna nr. 83/1994 kveða á um lögbundin verkefni embættisins. Hins vegar ræðst starfsemin að nokkru leyti af þeim erindum sem berast embættinu eins og þegar hefur verið tekið fram. Einnig getur umboðsmaður tekið mál til skoðunar að eigin frumkvæði og komið með tillögur til úrbóta á réttarreglum og fyrirmælum stjórnvalda er varða börn sérstaklega. Umboðsmaður barna skal einnig stuðla að því að þjóðréttarsamningar sem Ísland er aðili að, og snerta réttindi og velferð barna, séu virtir. Á það fyrst og fremst við um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem í daglegu tali er nefndur Barnasáttmálinn, en hann er mikilvæg stoð fyrir allt starf embættisins. Á ári hverju sinnir umboðsmaður barna fjölmörgum erindum og verkefnum sem snerta mörg svið þjóðfélagsins. Ekki er hægt að gera grein fyrir öllu því sem umboðsmaður fæst við með tæmandi hætti í skýrslu sem þessari. Verður því aðeins leitast við að gera grein fyrir helstu verkefnum embættisins á árinu.

Kynning á embætti umboðsmanns barna

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 3. gr. laga um umboðsmann barna nr. 83/1994 skal embættið stuðla að því að kynna fyrir almenningi löggjöf og aðrar réttarreglur er varða börn og ungmenni. Kynning á hlutverki og starfsemi embættisins, sem og fræðsla um réttindi barna á öllum sviðum, er því veigamikill þáttur í starfi umboðsmanns ár hvert. Auk þess er reglulega óskað eftir því að umboðsmaður barna haldi erindi á málþingum eða ráðstefnum um sértækari málefni. Umboðsmaður reynir alltaf að bregðast við slíkum beiðnum. Haustið 2012 sendi umboðsmaður barna tölvupóst til allra grunnskóla landsins þar sem boðið var upp á kynningu á embætti umboðsmanns barna og réttindum barna og hélt umboðsmaður kynningar víða. Aðallega var um að ræða kynningar á höfuðborgarsvæðinu en einnig fór umboðsmaður barna í heimsókn norður á land og hélt kynningar. Hér að neðan má sjá lista yfir þá skóla og þau félagasamtök sem umboðsmaður barna hélt kynningu fyrir:

Grunnskólar:
 • Austurbæjarskóli.
 • Árbæjarskóli.
 • Árskóli (kennarar).
 • Brekkuskóli.
 • Fossakot.
 • Giljaskóli.
 • Glerárskóli
 • Grundarskóli.
 • Grunnskóli Hornafjarðar.
 • Grunnskólinn í Hveragerði.
 • Grunnskóli Seltjarnarness.
 • Hamraskóli.
 • Hlíðaskóli.
 • Hríseyjarskóli.
 • Hörðuvallaskóli.
 • Langholtsskóli.
 • Laugarnesskóli.
 • Lágafellsskóli.
 • Lundaskóli.
 • Naustaskóli.
 • Oddeyrarskóli.
 • Reykjahlíðarskóli.
 • Síðuskóli.
 • Stóru-Vogaskóli.
 • Valhúsaskóli.
 • Varmárskóli (kennarar).
Framhaldsskólar:
 • Fjölbrautarskólinn í Breiðholti.
 • Flensborgarskólinn í Hafnarfirði (Vakningardagar).
Háskólar:
 • Nemar í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands.
 • Nemar í diplómanámi í barnavernd við Háskóla Íslands.
 • Nemar í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.
Félagsmiðstöðvar, ungmennaráð og aðrir aðilar:
 • Lífsýn.
 • Ungmennaráð Mosfellsbæjar.

Barnasáttmáttmáli Sameinuðu þjóðanna

Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 20. nóvember 1989. Barnasáttmálinn er eini alþjóðlegi samningurinn sem fjallar sérstaklega um börn. Hann felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu hópur sem hafi sjálfstæð réttindi, óháð foreldrum eða forsjáraðilum, og að þau þarfnist sérstakrar umönnunar og verndar umfram hina fullorðnu. Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasamningur heims en hann hefur verið fullgiltur af öllum ríkjum heims fyrir utan þrjú. Sáttmálinn var undirritaður fyrir Íslands hönd árið 1990 og fullgiltur í nóvember árið 1992. Þó að fullgilding feli í sér að íslenska ríkið sé skuldbundið til þess að virða og uppfylla ákvæði sáttmálans er sjaldan vitnað í ákvæði hans við úrlausn mála hjá stjórnvöldum og dómstólum. Sem dæmi um það má nefna að rannsókn á dómaframkvæmd hefur leitt í ljós að það sé tilviljanakennt hvort dómstólar vísi í Barnasáttmálann eða ekki. Má ætla að ástæða þess sé m.a. sú að Barnasáttmálinn hefur ekki verið lögfestur hér á landi.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að lögfesta Barnasáttmálann til þess að honum verði í auknum mæli beitt í framkvæmd og að börn og fullorðnir verði meðvitaðri um réttindi barna. Á það ekki síst við í ljósi þess að niðurstöður dóma hafa verið í andstöðu við ákvæði Barnasáttmálans.

Auk þess leggur umboðsmaður barna áherslu á að Barnasáttmálinn verði innleiddur í íslenskt samfélag, enda vel hægt að hefjast handa við innleiðingu sáttmálans þrátt fyrir að hann hafi ekki enn verið lögfestur. Ein af helstu athugasemdum sem nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins gerði árið 2011 við íslensk stjórnvöld er innleiðing sáttmálans í íslenskt samfélag. Barnaréttarnefndin hefur gagnrýnt að stjórnvöld hafi ekki gert landsáætlun fyrir innleiðingu Barnasáttmálans en nefndin benti á að slík áætlun þurfi að tilgreina ábyrgð ólíkra stofnana og sveitarfélaga í framkvæmd sáttmálans á Íslandi. Markmiðið með slíkri áætlun er að vera verkfæri fyrir öll stig stjórnsýslunnar þannig að í öllu starfi með börnum og við ákvarðanatöku sem varðar börn sé miðað við þær forsendur, sem sáttmálinn gengur út frá, og Ísland hefur gengið að með fullgildingu hans. Bæði lögfesting og innleiðing Barnasáttmálans eru mikilvæg skref í að tryggja réttindi og betri stöðu barna í íslensku samfélagi.

Þýðing á skýrslu íslenska ríkisins og lokaathugasemdum Barnaréttarnefndarinnar

Árið 2011 var skýrsla íslenska ríkisins tekin fyrir á fundi Barnaréttarnefndarinnar í Genf. Í kjölfarið gaf nefndin út lokaathugasemdir þar sem kemur fram hvaða ráðstafanir ríkisins nefndin er ánægð með, hver helstu áhyggjuefni nefndarinnar eru, tilmæli hennar um hluti sem þarf að bæta og leiðbeiningar um það hvernig réttast er að haga málum í sem bestu samræmi við Barnasáttmálann. Umboðsmaður barna sendi bréf til innanríkisráðherra 23. mars 2012 þar sem hann vakti athygli á mikilvægi þess að þýða athugasemdir Barnaréttarnefndarinnar og skýrslu íslenska ríkisins til nefndarinnar. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að lokaathugasemdir Barnaréttarnefndarinnar verði aðgengilegar á íslensku í lokaútgáfu en ekki einungis sem drög að þýðingu. Auk þess er erfitt að finna þýðinguna á heimasíðu innanríkisráðuneytisins. Einnig vakti umboðsmaður barna athygli á því að skýrsla íslenska ríkisins var einungis birt á ensku en samkvæmt 6. mgr. 44. gr. Barnasáttmálans eiga aðildarríki að tryggja það að skýrslur aðildarríkja séu auðveldlega tiltækar almenningi í landi sínu en Barnaréttarnefndin mæltist einnig til þess í lokaathugasemdum sínum að slíkt yrði gert. Mikilvægt er að íslenska ríkið geri sér grein fyrir þeirri skyldu sem hvílir á því samkvæmt Barnasáttmálanum. Þannig geta skýrslur aðildarríkja skapað aðhald frá borgurum og haft áhrif á réttindi barna. Því er nauðsynlegt að bæði fullorðnir og börn fái vitneskju um skýrslurnar, geti nálgast þær auðveldlega og kynnt sér þær á móðurmáli sínu. Í árslok 2012 hafði umboðsmaður barna ekki fengið nein svör frá innanríkisráðuneytinu um að búið væri að taka ábendingar hans til skoðunar.

Málstofa um innleiðingu Barnasáttmálans á Norðurlöndunum

Í tengslum við fund umboðsmanna barna á Norðurlöndunum stóð umboðsmaður barna fyrir málstofu um innleiðingu Barnasáttmálans á Norðurlöndum, sem var haldin í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Á málstofunni, sem umboðsmaður barna á Íslandi stjórnaði, sögðu umboðsmenn barna í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi, ásamt starfsmanni Barnaráðsins í Danmörku og Talsmanns barna á Grænlandi, frá því hvernig unnið hefur verið að innleiðingu Barnasáttmálans á vettvangi ríkis og sveitarfélaga í þeirra löndum. Markmiðið með málstofunni var að læra af reynslu nágrannalandanna og gera sér betur grein fyrir því hvað innleiðing Barnasáttmálans felur í sér. Málstofan nýttist sérstaklega þeim sem koma að ákvarðanatöku varðandi börn, s.s. starfsfólki ríkis og sveitarfélaga og stofnana sem vinna með börnum. Málstofan heppnaðist vel og var tekin upp og gerð aðgengileg á You Tube síðu umboðsmanns barna fyrir þá sem ekki höfðu tök á að koma.

Barnasáttmálinn – frá réttindum til raunveruleika

Umboðsmaður barna stóð fyrir námskeiði um innleiðingu Barnasáttmálans hinn 18. október 2012. Var námskeiðið haldið í Norræna húsinu og var fyrirlesari Hjördís Eva Þórðardóttir, meistaranemi í mannréttindum barna við Háskólann í Stokkhólmi. Hjördís var í starfsnámi hjá umboðsmanni barna haustið 2011 og vinnur að meistararitgerð sinni ásamt því að sinna verkefnastjórnun við innleiðingu Barnasáttmálans í Garðabæ. Á námskeiðinu var fjallað um hagnýta nálgun við Barnasáttmálann, innleiðingu hans og erindi við íslenskt samfélag. Skoðaðar voru hinar siðferðislegu, uppeldisfræðilegu og pólitísku hliðar, sem sáttmálinn hefur, og mikilvægi þeirra ef innleiða á réttindi Barnasáttmálans í íslenskt samfélag. Jafnframt var skoðað með hvaða hætti hægt er að nýta Barnasáttmálann sem verkfæri til að auka þátttöku barna í samfélaginu.

Til að sáttmálinn geti orðið að veruleika á Íslandi er nauðsynlegt að fræða börn og fullorðna um réttindi barna á markvissan hátt. Auk þess er mikilvægt að tryggja að allir þeir sem bera ábyrgð á börnum á einn eða annan hátt þekki til og skilji hina einstöku sýn á stöðu barna í samfélaginu sem sáttmálinn boðar. Á námskeiðinu var leitast við að svara því hvernig við náum því markmiði, hvers vegna það er mikilvægt og hvernig við getum tryggt að þau réttindi, sem Barnasáttmálinn kveður á um, verði að veruleika fyrir börn á Íslandi.

Fjölmargir aðilar mættu á námskeiðið sem heppnaðist vel. Eftir að Hjördís hafði lokið við fyrirlestur sinn var þátttakendum á námskeiðinu skipt í fimm hópa. Hver hópur fékk bunka af póstkortum sem hafði að geyma ákvæði úr Barnasáttmálanum. Í fyrsta verkefninu átti hópurinn að ímynda sér að hann væri að setja einu lögin sem fjölluðu um réttindi barna en ekki var nægt fjármagn til að tryggja börnum öll réttindi og þurfti því að fjarlægja tíu ákvæði úr sáttmálanum til að byrja með og svo önnur tíu. Var niðurstaðan sú að það væri mjög erfitt að takmarka réttindi barna á þennan hátt en markmiðið með leiknum var að vekja þátttakendur til umhugsunar um að Barnasáttmálinn er heildstætt skjal þar sem ekkert ákvæði er mikilvægara en annað. Í seinna verkefninu voru ákvæðin tekin til skoðunar og þátttakendur áttu að meta hvernig Ísland væri að standa sig í að uppfylla ákvæðin. Almenn ánægja var meðal þátttakenda á námskeiðinu og vonast umboðsmaður barna til að námskeiðið veki aðila til umhugsunar og verði til þess að hver og einn vinni að því að innleiða Barnasáttmálann í sitt starf.

FJÖLSKYLDUMÁL

Breytingar á barnalögum nr. 76/2003

Hinn 12. júní 2012 samþykkti Alþingi lög nr. 61/2012 um breytingu á barnalögum en sú vinna á sér forsögu sem rekja má til ársins 2009 þegar þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði nefnd til að fara yfir reglur barnalaga um forsjá barna, búsetu og umgengni. Nefndin skilaði drögum að frumvarpi í ársbyrjun 2010 en frumvarp til breytinga á barnalögum var fyrst lagt fram í maí 2011 en náði ekki fram að ganga á því þingi. Í nóvember sama ár lagði innanríkisráðherra aftur fram sams konar frumvarp og í maí og var það frumvarp samþykkt með breytingum sumarið 2012 eins og áður segir.

Mikil umræða skapaðist um frumvarp til breytinga á barnalögum enda um mikilvæg og afar persónuleg málefni að ræða. Óskað var eftir umsögn umboðsmanns barna og var umboðsmaður þakklátur fyrir að fá að koma með athugasemdir við frumvarpið. Málaflokkurinn skiptir miklu máli fyrir velferð barna og berast embættinu  árlega fjöldi erinda sem varða barnalögin. Í drögum nefndarinnar að frumvarpi til breytinga á barnalögum var lagt til að lögfest yrði heimild fyrir dómara til að dæma sameiginlega forsjá að kröfu annars foreldris. Einnig að dómara væri heimilt að dæma aðeins lögheimili hjá öðru foreldrinu án þess að breyta forsjá barns. Í því frumvarpi sem þáverandi innanríkisráðherra lagði fram haustið 2012 voru umrædd ákvæði felld brott ásamt heimild til að krefjast aðfarar vegna tálmunar á umgengni. Verður nú farið yfir helstu atriðin að mati umboðsmanns barna en telur hann að margar jákvæðar breytingar sé að finna í nýjum lögum.

Í 1. gr. laga nr. 61/2012 er að finna almennt ákvæði um réttindi barna. Ákvæðið byggir á fjórum grundvallarreglum Barnasáttmálans, þ.e. 2., 3., 6. og 12. gr. Í 1. mgr. kemur fram að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Þá er tekið fram að óheimilt sé að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Í 2. mgr. er sérstaklega tekið fram að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Í 3. mgr. er síðan að finna rétt barna til þátttöku, en þar segir að barn eigi rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum, sem það varða, og að taka skuli réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Umrætt ákvæði fjallar um réttarstöðu barna á öllum sviðum samfélagsins. Umboðsmaður barna fagnar sérstaklega þessu ákvæði og telur það verulega til hagsbóta fyrir börn.

Í fyrrnefndum lögum er að finna það nýmæli að gert er ráð fyrir að sýslumannsembættin ráði til starfa eða leiti með öðrum hætti til sérfræðinga í málefnum barna til að sinna ráðgjöf, sáttameðferð og gerð sérfræðilegra athugana vegna umgengnisdeilna og eftiliti með umgengni. Umboðsmaður barna hefur lýst yfir áhyggjum sínum á því hversu langan tíma það tekur að fá skorið úr ágreiningsmálum hjá sýslumannsembættum, m.a. í skýrslu sinni til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá árinu 2010. Ennfremur hefur umboðsmaður bent á nauðsyn þess að bæta sérfræðiþekkingu innan sýslumannsembætta, svo að tryggt sé að ákvarðanir séu ávallt í samræmi við það sem er barninu fyrir bestu. Aukin fagþekking er ekki síst mikilvæg í ljósi þess hversu takmörkuð áhrif heimilisofbeldi hefur haft á ákvarðanir í umgengnismálum. Eins og umboðsmaður hefur margoft bent á eru mörg dæmi um að kveðið sé á um að barn eigi að fara í reglubundna umgengni til foreldris, jafnvel þó það eigi á hættu að verða fyrir ofbeldi. Umboðsmaður barna telur að sú nýjung laganna, að sýslumenn geti ráðið sérfræðinga til að aðstoða við lausn mála, geti skapað mikla möguleika fyrir hraðari og faglegri meðferð þar sem tekið er tillit til afstöðu og vilja hvers einasta barns. Hins vegar er ljóst að tryggja þarf aukið fjármagn til þess að sýslumenn geti nýtt sér þann kost í framkvæmd.

Í 5. gr. laga nr. 61/2012 er að finna ítarlegri skilgreiningu á inntaki sameiginlegrar forsjár en áður hefur verið í lögum. Umboðsmanni barna berast reglulega erindi sem varða ákvarðanatöku foreldra sem fara með sameiginlega forsjá og hvernig rétt sé að bregðast við þegar þeir eru ósammála. Fagnar umboðsmaður barna því sérstaklega að umrætt ákvæði veiti skýrari leiðsögn í þessum málum. Slíkt er til þess fallið að draga úr óvissu og tryggja stöðugleika í lífi barns.

Í 12. gr. laga nr. 61/2012 er að finna það nýmæli að foreldrum er skylt að undirgangast sáttameðferð í málum sem varða forsjá, umgengni eða dagsektir. Umboðsmaður barna telur að það sé almennt barni fyrir bestu ef foreldrar geta samið um þá lausn sem hentar best hagsmunum barnsins. Hins vegar er ljóst að í framkvæmd hefur skort töluvert upp á fjármagn til sýslumannsembætta vegna sáttameðferða og oft þurfa foreldrar að ferðast langar vegalengdir til þess að sækja slíka þjónustu. Umboðsmaður barna hefur því bent á nauðsyn þess að auka fjármagn til sáttameðferða hjá sýslumönnum, sbr. til dæmis fyrrnefnda skýrslu umboðsmanns barna til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Ætla má að enn meiri þörf verði á auknu fjármagni eftir að fyrrnefndar breytingar taka gildi og foreldrum gert skylt að undirgangast sáttameðferð í ákveðnum málum. Aukið fjármagn er sömuleiðis nauðsynlegt til að tryggja að sýslumannsembættin geti boðið foreldrum sáttameðferð án verulegs dráttar og að foreldrar geti leyst úr ágreiningsmálum eins fljótt og hægt er.

Umboðsmaður barna fagnar því að í 13. og 24. gr. laganna er að finna ítarlegri upptalningu á þeim sjónarmiðum sem ber að leggja til grundvallar þegar teknar eru ákvarðanir um forsjá eða lögheimili annars vegar og umgengni hins vegar. Umboðsmaður telur sérstaklega ánægjulegt að tekið sé fram að meta skuli hættu á að barn, foreldri eða aðrir á heimili hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi við ákvörðun um forsjá og umgengni og bindur vonir við að sú breyting verði til þess að í framkvæmd verði hugað betur að öryggi og velferð barna.

Í upphaflegu frumvarpi innanríkisráðherra sem hann lagði fyrir Alþingi var ekki að finna ákvæði þar sem dómurum yrði veitt heimild til að dæma sameiginlega forsjá og lögheimili. Hefur umboðsmaður ekki talið það brýnt hagsmunamál fyrir börn að lögfesta heimild til að dæma sameiginlega forsjá enda hefur hann talið að gott samkomulag foreldra sé grundvallarforsenda þess að sameiginleg forsjá gangi vel. Hins vegar verður að líta til þess að forsjármál eru eins misjöfn og þau eru mörg og því ekki hægt að útiloka að það geti í einhverjum tilvikum verið barni fyrir bestu að dæma sameiginlega forsjá. Umboðsmaður tók það þó skýrt fram í umsögn sinni að það getur aldrei þjónað hagsmunum barns að þvinga foreldra til samvinnu þegar forsendur hennar eru augljóslega ekki fyrir hendi. Umboðsmaður lagði því áherslu á að sameiginleg forsjá eigi einungis að koma til greina þegar ljóst þykir að foreldrar geti átt góð samskipti og tryggt að ágreiningur þeirra bitni ekki með neinum hætti á barni. Þá taldi umboðsmaður sérstaklega mikilvægt að tryggja að sameiginleg forsjá verði ekki dæmd þegar hætta er á að ofbeldi hafi átt sér stað innan veggja heimilisins. Jafnframt taldi umboðsmaður mikilvægt að veita dómurum heimild til þess að taka afstöðu til ágreinings foreldra um lögheimili barns, hvort sem dómara yrði veitt heimild til að dæma um sameiginlega forsjá eða ekki. Í fjölmörgum forsjármálum sem komið hafa fyrir dóm hér á landi virðist ágreiningsefnið fyrst og fremst varða lögheimili barns. Er því ljóst að heimild til þess að skera úr um hvar barn skuli eiga lögheimil gæti gert foreldrum kleift að leysa úr ágreiningsmálum sínum án þess að breyta tilhögun forsjár. Frumvarpinu var breytt í meðferð þingsins og var heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá og taka ákvörðun um lögheimili lögfest, sbr. 13. gr. laga nr. 61/2012.

Í 23. gr. laganna er kveðið á um umgengni við nána vandamenn ef foreldri er ókleift að rækja umgengni við barn eða ef foreldri nýtur verulega takmarkaðrar umgengni. Umboðsmaður barna telur jákvætt að réttur barns til að umgangast aðra en kynforeldra hafi verið rýmkaður. Umboðsmaður telur þó jafnvel ástæðu til að ganga enn lengra og kveða á um heimild til þess að úrskurða um umgengni barns við nána vandamenn eða aðra sem eru nákomnir barni, óháð því hvort foreldri umgangist barn reglulega eða ekki. Í því sambandi má benda á að börn geta bundist öðrum einstaklingum nánum tilfinningaböndum, svo sem stjúpforeldrum, ömmum og öfum eða fósturforeldrum. Það getur því verið í samræmi við hagsmuni barns að úrskurða um umgengni við aðra en foreldra í ákveðnum tilvikum. Við slíka ákvörðun ætti vilji og tilfinningatengsl barns að ráða mestu.

Innanríkisráðherra lagði til í frumvarpi sínu að ákvæði 50. gr. núgildandi barnalaga, sem kveður á um heimild til að koma umgengni á með aðfarargerð, yrði felld brott. Athugun umboðsmanns barna frá árinu 2009 leiddi í ljós að aðfarargerðir á börnum eru afar fátíðar en þær fara þó fram og í þeim tilvikum er um að ræða umtalsvert inngrip í líf barna sem hefur mikil áhrif á þau. Verulega skortir á að slíkar gerðir hafi verið nægilega vandaðar og að þeir aðilar sem komu að framkvæmd þeirra væru meðvitaðir um hlutverk sitt. Umboðsmaður telur beitingu slíks þvingunarúrræðis mjög vandasama með hliðsjón af hagsmunum barnsins og reynslu af slíkum úrræðum og telur það barninu ekki fyrir bestu að þurfa að upplifa slíka aðgerð. Því fagnaði umboðsmaður barna þeirri tillögu innanríkisráðherra að fella brott umrædda heimild. Hins vegar velti umboðsmaður barna því fyrir sér hvort ekki væri nauðsynlegt að eitthvað annað úrræði væri til staðar þegar forsjárforeldri tálmar umgengni barns við hitt foreldrið enda ættu mál af þessu tagi að vera leyst á vettvangi foreldra með aðkomu yfirvalda og/eða fagfólks. Í því sambandi áréttaði umboðsmaður mikilvægi þess að börnum sé leyft að tjá sig og að tekið sé tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Ef um er að ræða ótvíræðan vilja barns til að umgangast foreldri eða ekki telur umboðsmaður að yfirvöldum beri að gera það sem í þeirra valdi stendur til að virða hann. Sem fyrr segir var frumvarpinu breytt í meðferð þingsins og var ákveðið að fella ekki brott heimild til þess að koma á umgengni með aðför. Nánar er fjallað um aðfarargerðir á bls. 18.

Eins og áður segir fagnar umboðsmaður barna þeim breytingum sem voru samþykktar með lögum nr. 61/2012 um breytingu á barnalögum nr. 76/2003 en ljóst er að umræddar breytingar munu ekki skila þeim árangri sem stefnt var að nema tryggt verði að þeim fylgi aukið fjármagn. Af þessu tilefni sendi umboðsmaður barna bréf til innanríkisráðherra þar sem hann lýsti áhyggjum sínum. Umboðsmaður hvatti ráðherra til að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi og tryggja það fjármagn, sem nauðsynlegt er, til að uppfylla skyldu ríkisins samkvæmt hinum nýju lögum.

Í fyrrnefndu bréfi benti umboðsmaður barna ennfremur á nauðsyn þess að tryggja aukna fræðslu vegna þeirrar nýjungar að dómari geti ákveðið að forsjá barns verði sameiginleg ef hann telur það geta þjónað hagsmunum barnsins, sbr. 13. gr. laga nr. 61/2012. Í ljósi þeirrar þróunar, sem átti sér stað í dómsmálum eftir sambærilegar breytingar á sænskum og dönskum lögum, telur umboðsmaður barna mikilvægt að sameiginleg forsjá verði einungis dæmd þegar ljóst þykir að foreldrar geti átt góð samskipti og tryggt að ágreiningur þeirra bitni ekki með neinum hætti á barni. Þá er mikilvægt að árétta sérstaklega að sameiginleg forsjá komi aldrei til greina þegar hætta er á að barnið, foreldri eða annar á heimili barns hafi orðið fyrir eða verði fyrir ofbeldi á heimilinu. Loks benti umboðsmaður á mikilvægi þess að innanríkisráðherra fylgist með því hvernig umræddri heimild verður beitt í framkvæmd og hlutist til um að rannsókn verði gerð á dómaframkvæmd innan tveggja ára. Afrit var sent til fjárlaganefndar og formanns Sýslumannafélags Íslands.

Samþykki lögheimilisforeldris á breytingu á lögheimili barna

Umboðsmanni barna berast á ári hverju margar fyrirspurnir varðandi lögheimili barna og hvernig því skuli háttað eftir skilnað eða sambúðarslit. Einnig lúta erindin að því hvernig hægt er að breyta lögheimili barns þegar foreldrar búa ekki saman. Í barnalögum nr. 76/2003 eða lögum um lögheimili nr. 21/1990 er ekki að finna reglur sem segja til um hvernig staðið skuli að lögheimilisflutningi barns þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá eftir skilnað eða sambúðarslit.

Umboðsmanni barst erindi þar sem það foreldri, sem barn hafði ekki lögheimili hjá, krafðist þess að lögheimili barnsins yrði fært til sín en lögheimilisforeldri mótmælti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fengust féllst Þjóðskrá á að færa lögheimili barnsins til hins foreldrisins þvert á mótmæli lögheimilisforeldris. Umboðsmaður barna taldi að framkvæmdin væri sú að lögheimilisforeldri þyrfti ávallt að samþykkja slíkan flutning. Þegar umboðsmaður leitaði svara hjá Þjóðskrá um það hvort samþykki lögheimilisforeldris sé nauðsynlegt þegar lögheimili barns er fært fékk hann mismunandi svör. Annars vegar fengust þau svör að lögheimilisforeldri þyrfti alltaf að samþykkja lögheimilisflutning barns og hins vegar að Þjóðskrá gæti tekið ákvörðun um flutning lögheimilis ef barnið hefði fasta búsetu hjá því foreldri sem það ætti ekki lögheimili hjá og skiptu mótmæli lögheimilisforeldris engu máli í því sambandi.

Af þessu tilefni sendi umboðsmaður barna bréf til Þjóðskrár og óskaði umboðsmaður svara við því hvort mögulegt væri að færa lögheimili barns án samþykkis lögheimilisforeldris og ef svo er, hvaða kröfur væru gerðar í þeim efnum. Í svari sem barst frá Þjóðskrá var það staðfest að mögulegt er að flytja lögheimili barns án samþykkis þess foreldris sem barnið á lögheimili hjá. Flutningur lögheimilis barns án samþykkis fer þó aldrei fram án undanfarandi könnunar Þjóðskrár Íslands á því hvar barn hafi fasta búsetu.

Aðfarargerðir

Frá því að núgildandi barnalög nr. 76/2003 tóku gildi hefur verið hægt að koma á umgengni barns við foreldri sem fer ekki með forsjá þess, með beinni aðfarargerð, tálmi forsjármaður umgengni þrátt fyrir úrskurð um dagsektir og fjárnám. Umboðsmaður barna telur beitingu slíks þvingunarúrræðis mjög vandasama með hliðsjón af hagsmunum barnsins og einungis réttlætanlegt að grípa til hennar í sérstökum undantekningartilvikum. Umboðsmaður barna leggur ávallt ríka áherslu á að tekið sé tillit til vilja barnsins, með hliðsjón af aldri þess og þroska.

Í lok sumars árið 2009 bárust umboðsmanni barna athugasemdir vegna aðfarargerðar á börnum þar sem bent var á að ekki væri nægilega vel hugað að hagsmunum barna við framkvæmd slíkra gerða. Umboðsmaður barna ákvað í framhaldinu að gera heildarúttekt á beitingu úrræðisins frá gildistöku barnalaga nr. 76/2003. Athugun umboðsmanns leiddi í ljós að aðfarargerðir á börnum eru afar fátíðar. Í þeim tilvikum sem þær fara fram er hins vegar um að ræða umtalsvert inngrip í líf barna. Verulega skortir á að slíkar gerðir hafi verið nægilega vandaðar og að þeir aðilar sem koma að framkvæmd þeirra séu meðvitaðir um hlutverk sitt. Til að ræða þessi mál frekar boðaði umboðsmaður barna fund með dómsmálaráðuneytinu, Barnaverndarstofu, Barnavernd Reykjavíkur, sýslumanninum í Reykjavík, Sýslumannafélagi Íslands, Lögreglustjórafélagi Íslands og Hrefnu Friðriksdóttur. Aðilar fundarins voru sammála um að þörf væri á verklagsreglum um framkvæmd aðfarargerða, þar sem hlutverk hvers aðila sem er viðstaddur gerðina er skilgreint. Í kjölfar fundarins sendi umboðsmaður barna bréf til þáverandi dóms- og mannréttindaráðherra þar sem hann hvatti ráðherra til að hlutast til um að gerðar yrðu verklagsreglur um framkvæmd aðfarargerðar. Umboðsmanni er ekki kunnugt um að slíkar reglur hafi verið settar.

Umboðsmanni barna barst mikill fjöldi erinda vegna aðfarargerðar á börnum sem framkvæmd var í Kópavogi 29. júní 2012, sbr. dómur Hæstaréttar nr. 109/2011. Af því tilefni ákvað umboðsmaður að gera sambærilega athugun á framkvæmd aðfarargerða og gerð var árið 2009. Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum og gögnum um aðfarargerðir á börnum sem framkvæmdar voru á tímabilinu 1. október 2009 til 31. júlí 2012 frá öllum sýslumannsembættum, barnaverndarnefndum, sem og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt þeim svörum sem bárust voru tvær aðfarargerðir á börnum framkvæmdar á framangreindu tímabili. Annars vegar var framkvæmd aðfarargerð af  sýslumannsembætti Kópavogs sem sneri að forsjá, sbr. 45. gr. barnalaga nr. 76/2003 og hins vegar var framkvæmd aðfarargerð af sýslumannsembætti Reykjavíkur sem sneri að umgengni, sbr. 50. gr. fyrrnefndra laga.

Við skoðun á svörum frá fyrrnefndum aðilum þótti umboðsmanni barna tvennt sérstaklega athugavert. Í fyrsta lagi var sérsveit ríkislögreglustjóra viðstödd gerðina sem fram fór í Kópavogi. Umboðsmaður barna veltir því fyrir sér hvort slíkt hafi verið í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Þó að sérsveitin hafi einungis verið á staðnum til að sinna almennri löggæslu telur umboðsmaður athugavert að útkallsbifreið sveitarinnar hafi verið á vettvangi. Slíkt er að mati umboðsmaður barna ekki í samræmi við ákvæði 3. mgr. 45. gr. barnalaga, þar sem kveðið er á um að lögreglumenn skuli vera óeinkennisklæddir við framkvæmd aðfarargerða.

Í öðru lagi telur umboðsmaður barna gagnrýnivert hversu margir aðilar voru viðstaddir gerðirnar. Við aðfarargerðina sem fram fór í Reykjavík voru 14 aðilar viðstaddir gerðina. Við aðfarargerðina sem framkvæmd var í Kópavogi voru 32 aðilar viðstaddir gerðina en auk þess hafði fjöldi fólks safnast saman á vettvangi. Í því sambandi má benda á að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að barnalögum er tekið fram að það sé almennt barni fyrir bestu að sem fæstir séu viðstaddir aðfarargerð.

Umboðsmaður barna telur að ofangreindar aðfarargerðir samræmist illa ákvæðum barnalaga og dregur í efa að þær hafi verið framkvæmdar þannig að sem minnst álag hafi skapast fyrir börnin. Umboðsmaður barna telur því ríka þörf á að vinna verklagsreglur um framkvæmd aðfarargerða, í samstarfi við þá aðila sem koma að slíkum gerðum. Sendi umboðsmaður barna því bréf til innanríkisráðherra þann 22. nóvember 2012 þar sem hann vakti athygli á ofangreindu og hvatti ráðherra til að hlutast til um að verklagsreglur um framkvæmd aðfarargerða yrðu settar sem fyrst.

SKÓLAMÁL

Eftirlit vegna hljóðvistar í leik- og grunnskóla

Embætti umboðsmanns bárust ábendingar frá börnum, foreldrum og fagfólki vegna mikils hávaða í leik- og grunnskólum landsins, frístundaheimilum auk annarra staða þar sem börn dvelja. Af því tilefni sendi umboðsmaður bréf þann 15. febrúar 2012 til heilbrigðiseftirlita sveitarfélaga til þess að vekja athygli á hávaða í umhverfi barna og kanna hvernig framkvæmd og eftirliti væri háttað. Börn eru mun viðkvæmari fyrir hávaða en fullorðnir og minna þarf til að heyrn þeirra skaðist. Þau hafa styttri hlust þannig að hljóð dempast ekki eins mikið á leið inn til hljóðhimnunnar og hjá fullorðnum. Hávaði í umhverfi barna er stórt en e.t.v. frekar falið vandamál og hefur m.a. áhrif á heilsu þeirra, líðan, einbeitingu, tal- og lesskilning auk þess sem hann getur valdið streitu og heyrnarskaða. Í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða segir m.a. að heilbrigðisnefndir skuli hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar og skulu eftir þörfum framkvæma eða láta framkvæma eftirlitsmælingar á hávaða. Umboðsmaður barna óskaði því eftir upplýsingum um það hvort óskað hafi verið eftir því að heilbrigðiseftirlitin framkvæmdu eftirlit eða mælingar á hljóðvist í umhverfi barna á árunum 2010 og 2011 og ef svo er, í hvaða sveitarfélögum. Einnig óskaði umboðsmaður barna upplýsinga um það hvort heilbrigðiseftirlitin hefðu framkvæmt að eigin frumkvæði eftirlit eða mælingar á hljóðvist í umhverfi barna á árunum 2010 og 2011 og ef svo er, í hvaða sveitarfélögum. Svipað bréf sendi umboðsmaður einnig til Vinnueftirlitsins í ágúst 2012. Svör bárust frá öllum heilbrigðiseftirlitum og Vinnueftirlitinu. Í svörum frá heilbrigðiseftirlitum kom fram að mjög fáar hávaðamælingar voru framkvæmdar og að fáar beiðnir um slíkar mælingar bárust á umræddu tímabili. Svipað virðist hafa verið uppi á teningnum hjá Vinnueftirlitinu. Þá kom einnig fram að lítið er um að heilbrigðiseftirlitin hafi frumkvæði að hávaðamælingum í skólum en Vinnueftirlitið framkvæmir þær í tengslum við vinnustaðaeftirlit. Líklega eru ýmsar ástæður fyrir þessu, t.d. skortur á leiðbeiningum. Hávaði virðist vera falið vandamál og foreldrar virðast treysta því að allt sé í góðu lagi í leik- og grunnskólum hvað varðar hljóðvist eða eru hugsanlega ekki meðvitaðir um að þetta sé vandamál.

Fulltrúi umboðsmanns barna sat í undirbúningshóp fyrir ráðstefnuna Skaðleg áhrif hávaða á rödd, heyrn og líðan í námsumhverfi barna. Í undirbúningshópnum sátu einnig félagar í Nordic Voice Ergonomic Group auk þess sem fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Félagi leikskólakennara og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands komu að undirbúningi ráðstefnunnar. Ráðstefnan var haldin 12.-13. október í Hringsal Háskólasjúkrahúss Landspítalans (Barnaspítala Hringsins) en var send út á netinu til erlendra háskóla. Auk þess var ráðstefnan send út til Háskólans á Akureyri, Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða á Ísafirði, Þekkingarnets Austurlands á Egilsstöðum og Visku í Vestmannaeyjum. Ráðstefnan var haldin til að heiðra minningu Önnu Bjarkar Magnúsdóttur raddmeinafræðings af félögum hennar í Nordic Voice Ergonomic Group. Á ráðstefnunni var rætt um að hávaði hefur mælst svo hár í leikskólum og íþróttasölum að samkvæmt vinnuverndarlögum ættu einstaklingar að ganga með heyrnarhlífar. Þar með er hávaðinn kominn langt yfir þau mörk sem fullorðnir telja vera forsendu þess að geta einbeitt sér eða heyrt talað mál. Ekki ætti að gera minni kröfur til starfsumhverfis barna en fullorðinna. Sérstaklega þarf að huga að hávaða í leikskólum þar sem börn dvelja langtímum saman á viðkvæmu máltökuskeiði. Þá eru vaxandi áhyggjur af ófullnægjandi árangri nemenda í grunnskólum sem gætu m.a. átt rætur að rekja til truflandi áhrifa hávaða. Raddvandamál kennara eru alkunn en rödd kennarans er burðarstoð í námi barna. Það er vitað að hávaði hefur skaðleg áhrif á líkamlega og andlega líðan þeirra sem í honum dvelja. Ráðstefnunni var ætlað að vera lausnamiðuð og voru erindin því upplýsandi um hvað rannsóknir hafa sýnt að gæti dregið úr neikvæðum áhrifum hávaða. Erlendir sem og innlendir fyrirlesarar fjölluðu um málefnið. Hægt er að nálgast erindi af ráðstefnunni á www.rodd.is.

Umboðsmaður barna ákvað að senda bréf til mennta- og menningarmálaráðherra í lok ársins 2012 til að vekja athygli ráðherra á málinu og lýsa áhyggjum sínum af hljóðvist í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum og afleiðingum hávaða fyrir börn. Það virðist í mörgum tilvikum vanta mikið upp á að börnum sé tryggð sambærileg vernd fyrir hávaða og fullorðnir njóta á sínum vinnustöðum. Málið er flókið og snýr bæði að ráðuneyti menntamála og umhverfismála. Vonast umboðsmaður að ráðherra taki efni bréfsins til skoðunar í samræmi við það sem börnum þessa lands er fyrir bestu.

Aðbúnaður og öryggi í skólum

Vegna ábendinga frá börnum, foreldrum og fagfólki vegna ýmissa vandamála sem varða öryggi og aðbúnað í skólum landsins ákvað umboðsmaður að senda bréf um aðbúnað og öryggi til foreldrafélaga í leik- og grunnskóla (foreldraráðum skv. 11. gr. leikskólalaga nr. 90/2008). Í bréfinu fjallaði umboðsmaður m.a. um hávaða í skólum, öryggi og slysavarnir, brunavarnir og aðrar forvarnir. Skólastjórar fengu einnig bréf til kynningar á málinu með afriti af bréfinu til foreldrafélaganna.

Við skoðun á aðbúnaði og öryggi í skólum komst embætti umboðsmanns barna að því að flókið getur reynst að finna réttan farveg innan stjórnsýslunnar. Mál þessi eru oft flókin og erfitt fyrir einstaklinga sem ekki hafa menntun á viðkomandi sviði að setja sig inn í þau. Foreldrar bera mikla ábyrgð þegar kemur að velferð og heilbrigði barna sinna. Til að foreldrar geti sinnt hlutverki sínu ákvað umboðsmaður að senda bréfið til foreldrafélaga í leik- og grunnskólum út um allt land. Tilgangur bréfsins var að stuðla að því að foreldrar yrðu betur meðvitaðir um aðbúnað og öryggi í leik- og grunnskólum og hvert væri hægt að leita til að fá úrbætur og upplýsingar um ástand þessara mála. Auðvitað er eðlilegast að byrja á að bera upp erindi eða lýsa áhyggjum af aðbúnaði barnanna við skólastjórnendur eða á vettvangi skólaráðs. Skólastjóri ber ábyrgð á því að skólinn hagi störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðli að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins. Skólastjóri ber einnig ábyrgð á góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda, sbr. markmiðsgreinar laga um leikskóla og laga um grunnskóla. Umboðsmaður barna telur þó mikilvægt að foreldrar þekki þær leiðir sem eru opnar fyrir þá innan stjórnsýslunnar.

Það er ósk umboðsmanns barna að bréf hans og ábendingar stuðli að meiri árvekni þegar kemur að öryggi og aðbúnaði barna í leik- og grunnskólum og að samvinna aðila skólasamfélagsins verði meiri að þessu leyti, með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

Bréfinu til foreldrafélaganna var einnig ætlað að styðja við skólastjórnendur í þeirra mikilvæga starfi. Þekkt er að skólastjórnendum er oft þröngur stakkur skorinn þegar kemur að viðhaldi og framkvæmdum á húsnæði og lóð. Þá getur verið á brattann að sækja fyrir skólastjóra, sem starfsmenn sveitarfélaga, að krefjast aðgerða til úrbóta sem oft eru kostnaðarsamar. Því taldi umboðsmaður að þrýstingur og umræða fleiri aðila skólasamfélagsins gæti stuðlað að því að þessi mál kæmust í betra horf.

Sameining skóla

Umboðsmanni barna bárust þó nokkrar athugasemdir vegna sameiningarmála leik- og grunnskóla. Var ýmist óskað eftir aðstoð eða áliti umboðsmanns barna um ákvörðun stjórnvalda að sameina skóla og hvort ákvarðanir hafi verið teknar með nægjanlegu tilliti til hagsmuna og velferðar barna. Við ákvarðanatöku sem þessa er mikilvægt að börnum sé gefinn kostur á að tjá sig og að tekið sé tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska, sbr. 12. gr. Barnasáttmálans auk þess að ákvæðum grunnskólalaga um samráð við nemendur og foreldra sé fylgt eftir.

Í 1. mgr. 8. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 er fjallað um skólaráð en samkvæmt því ákvæði skal við hvern grunnskóla starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið. Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin. Skólaráð fylgist almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda. Skólanefnd, sbr. 6. gr., getur með samþykki sveitarstjórnar falið skólaráðum einstakra skóla ákveðin verkefni þessu til viðbótar. Umboðsmaður barna telur að veigamiklar breytingar í skólastarfi sé réttast að ræða á vettvangi skólaráðs.

Einnig má nefna að í 1. mgr. 10. gr. laga um grunnskóla er fjallað um nemendafélög en þar segir að við grunnskóla skuli starfa nemendafélag og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda og skal skólastjóri sjá til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Í athugasemd um þetta ákvæði segir að eðlilegt sé að hver skóli þrói skipan mála eftir því sem hentar í skólanum með nemendalýðræði og þátttökulýðræði að leiðarljósi. Þó að nemendur eigi tvo fulltrúa í skólaráði telur umboðsmaður eðlilegt að skólayfirvöld kynni fyrirhugaðar meiriháttar breytingar á skólastarfi fyrir nemendafélagi til að stjórn félagsins geti tekið ákvörðun um það hvort ræða beri breytingarnar innan félagsins.

Auk þess má benda á aðalnámskrá grunnskóla en þar er fjallað um einn af grunnþáttum menntunar, þ.e. lýðræði og mannréttindi í kafla 2.1.3. Þar segir að í lýðræðisríki þurfi borgarar að búa við mannréttindi og ráða öllum meiriháttar málum sínum sameiginlega.

Lýðræði er mikilvægt á vettvangi skólans. Í fyrsta lagi þurfa skólar að taka mið af því að barna og ungmenna bíður að taka þátt í lýðræðissamfélagi og því er mikilvægt að börn læri um þess háttar samfélög. Í öðru lagi þurfa skólar að taka mið af því í öllum starfsháttum að borin sé virðing fyrir manngildi hvers og eins. Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði. ... Lýðræðis- og mannréttindamenntun byggist á gagnrýninni hugsun og ígrundun um grunngildi samfélagsins. Slíkt nám gerir ráð fyrir samstarfi út fyrir veggi skóla engu síður en samstarfi í skólanum. Þannig þarf að gera ráð fyrir virku samstarfi við heimili barna og ungmenna og við æskulýðs- og íþróttastarf. Gera þarf ráð fyrir virku samstarfi við grenndarsamfélag innan sveitarfélags eða hverfis en slíkt samstarf er einnig einn af lykilþáttum sjálfbærni. Áhersla er lögð á að lýðræðislegir skólar geti þannig tekið þátt í að skapa samábyrgt og sjálfbært samfélag.

Einnig bárust erindi varðandi sameiningu leik- og grunnskóla. Ekki verður séð að til séu lög sem banna slíkt en hins vegar er meginreglan sú að það sem barni er fyrir bestu verði haft að leiðarljósi. Ef slíkar breytingar eru gerðar ber að skipuleggja starfsemi skólans út frá lögum um leikskóla, aðalnámskrá leikskóla og á meginhugmyndafræði leikskólans en ekki út frá skóladagatali og stundaskrá grunnskólans.

Tvöfalt leikskólapláss

Umboðsmanni barna hafa borist erindi vegna leikskólabarna sem hafa jafna umgengni við foreldra sem búa langt frá hvort öðru. Í þeim tilfellum fær barnið einungis leikskólapláss í því sveitarfélagi sem lögheimilisforeldrið býr en ekki hjá hinu foreldrinu. Getur því komið upp sú staða að barn sé aðeins í leikskóla helming mánaðarins. Af þessu tilefni átti umboðsmaður barna fund með skólamálanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á fundinum var rætt um hvernig staðið væri að þessum málum á Norðurlöndunum og virðist þetta ekki tíðkast þar en þó eru einstök dæmi um að börn séu á tveimur leikskólum. Almennt verður að telja að það sé ekki heppilegt að barn sé í tveimur leikskólum en hugsanlegt getur verið að aðstæður barns séu þannig að það sé því fyrir bestu að hafa kost á dvöl á tveimur leikskólum. Verður því að vera ákveðinn sveigjanleiki til að koma til móts barn ef aðstæður eru þannig. Skólamálanefndin hefur hug á að skoða þessi mál nánar.

Hámarksfjöldi í bekk og hádegishlé barna

Umboðsmaður barna bárust erindi sem lutu að skólavist barna, annars vegar um hámarksfjölda í hverjum bekk og hins vegar um hádegishlé barna. Þar sem ekki er kveðið á um þessi atriði í lögum ákvað umboðsmaður að spyrja mennta- og menningarmálaráðuneytið álits hvað þetta varðar.

Ljóst er að í lögum eða reglugerðum er hvergi að finna viðmið eða ákvæði um fjölda barna í bekk eða hóp í grunnskólum enda veita lögin sveitarfélögum og skólum verulegt svigrúm til að haga skólahaldi og skipuleggja nám eins og best hentar á hverjum stað. Þess vegna spurði umboðsmaður barna mennta- og menningarmálaráðuneytið hvað ráðuneytið teldi eðlilegt að ætla einum kennara að sinna mörgum börnum þannig að hægt sé að ná markmiðum grunnskólalaga. Í svari ráðuneytisins segir að það telji ekki rétt að taka afstöðu til fjölda nemenda í bekk, ekki síst þar sem aðstæður og viðfangsefni geta verið með mismunandi hætti. Umboðsmaður barna telur þó brýnt að settar verðir reglur eða viðmið um hámarksfjölda barna sem einn kennari eða leiðbeinandi má bera ábyrgð á í leik- og grunnskólum. Fjöldi barna í hóp eða bekk hefur mjög mikið að segja þegar kemur að gæðum og vinnuaðstæðum í námsumhverfi barna og erfitt er að ætla einum kennara að mæta hverjum einasta nemenda í einstaklingsmiðuðu námi í t.d. 25 til 30 barna bekk. Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna og fagfólk í leik- og grunnskólum hafa bent umboðsmanni á mikilvægi þess að setja mörk við barnafjölda í hóp enda virðist niðurskurður síðustu ára hafa haft þau áhrif að barnahópar og bekkir virðast fara stækkandi.

Umboðsmaður barna spurði ráðuneytið einnig hvað það teldi eðlilegan lágmarkstíma fyrir nemendur til að borða hádegismat á skólatíma. Ástæða þessarar spurningar var erindi sem umboðsmanni barst þar sem börn fengu einungis 10 mínútur til þess að borða nesti í hádeginu en voru svo send út í frímínútur. Þeir sem voru í mataráskrift fengu hins vegar lengri tíma til að borða. Ráðuneytið taldi ekki rétt að taka afstöðu til þess hvað væri eðlileg lengd á matarhléum í grunnskólum. Aðstæður í skólum geta verið afar mismunandi og er skólastjóra falin nánari útfærsla vikulegs kennslutíma í samráði við skólaráð og við þá ákvörun skal þess gætt að starfstími nemenda sé samfelldur með eðlilegum hléum og fari ekki fram yfir hæfilegt vinnuálag miðað við aldur nemenda og þroska. Umboðsmaður barna telur rétt að börn fái í það minnsta ekki minni tíma í hádegishlé en almennt þekkist, t.d. á vinnumarkaði. Ekki er réttlætanlegt að bjóða börnum upp á lakari aðstæður en fullorðnum.

Lengd viðvera barna

Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af gæðum starfs, öryggi og aðbúnaði barna í lengdri viðveru utan daglegs kennslutíma, sbr. 33. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla. Í ákvæðinu segir einungis að sveitarstjórn geti boðið grunnskólanemendum upp á lengda viðveru utan daglegs kennslutíma og að heimilt sé að taka gjald fyrir þá þjónustu. Engar lýsingar eru á markmiðum starfsins eða hvernig tryggja eigi gæði þess. Þá telur umboðsmaður barna það umhugsunarefni að í nær öllum sveitarfélögum eru börn með fötlun eða sérþarfir í almennri lengdri viðveru en engar reglur eru til um það hvaða hæfniskröfur eru gerðar til starfsfólks til að mæta þörfum þessara barna.

Dvöl í lengdri viðveru er nú hluti af daglegu lífi fjölda barna og er algengt að yngstu börnin dvelji á frístundaheimilum í þrjár til fjórar klukkustundir á dag eftir að skóladegi lýkur. Það getur því skipt sköpum fyrir börnin að þessi tími sé nýttur á uppbyggilegan hátt. Umboðsmanni barna er kunnugt um að starfsemi frístundaheimila er víða til fyrirmyndar og metnaður starfsfólks mikill til að haga starfinu eftir þroska og áhuga barnanna. Þar sem vel er að verki staðið getur dvöl í lengdri viðveru því stuðlað að sterkari félagslegri stöðu barna og jafnað þannig út það félagslega misrétti sem börn búa óneitanlega við. Umboðsmanni er því miður einnig kunnugt um dæmi þess að öryggi barna í lengdri viðveru sé ekki tryggt, að þau hafi ítrekað farið af frístundaheimilinu með eða án leyfis starfsfólks en án vitundar foreldra áður en vistunartíma lýkur, að börnum leiðist í frístundaheimilinu og að hávaði og agaleysi þreyti þau.

Á meðan starfsemi grunnskóla er tryggilega bundin í lög, reglugerðir og aðalnámskrá er starfsemi frístundaheimila ólögbundin. Sveitarfélög hafa því frjálsar hendur um hvernig starfið er útfært, svo framarlega sem farið er að æskulýðslögum nr. 70/2007. Ólík viðmið eru því milli sveitarfélaga um fjölda barna á starfsmann, menntun og hæfniskröfur til starfsfólks og þjónustustig lengdrar viðveru barna. Dæmi eru um að sveitarfélög geri engar kröfur um menntun stjórnenda lengdrar viðveru eða fjölda barna á hvern starfsmann. Þá má gera ráð fyrir að ýmis konar viðbragðsáætlanir, s.s., hvernig skuli tekið á einelti eða agabrotum, hvernig skuli farið með trúnaðarupplýsingar o.fl. séu víða ekki til staðar. Skortur á opinberum reglum eða viðmiðum um starfið sjálft gerir það að verkum að erfitt er að hafa eftirlit með gæðum starfsins. Umboðsmaður barna vill vekja athygli á grein eftir Kolbrúnu Þ. Pálsdóttur og Valgerði Freyju Ágústsdóttur, sem var birt 10. júní 2011, í Netlu – veftímariti um uppeldi og menntun undir heitinu „Gæði eða geymsla? Um frístundaheimili og skóladagvistun fyrir 6-9 ára börn á Íslandi“. Þar segir í lokaorðum:

Á Íslandi skortir skýra opinbera stefnu um tómstundaheimili, frístundaheimili, skóladagvistir, dægradvöl, frístund eða hvaðeina nafni sem dagvistun skólabarna er nefnd. Staða þessarar þjónustu í samfélaginu er því óljós og á reiki hvort þessi þjónusta sé innan eða utan skólakerfisins. Sú spurning vaknar hvort hið almenna viðhorf sé að hér sé fyrst og fremst um að ræða gæslu, þjónustu sem er hagkvæm fyrir foreldra og fyrir samfélagið en hafi lítið að gera með eiginlegt uppeldislegt hlutverk.

Umboðsmaður barna telur að starfsemi frístundaheimila myndi styrkjast ef settar yrðu sérstakar opinberar reglur um rekstur og fagmennsku í lengdri viðveru þar sem svo mikill fjöldi barna dvelur daglega. Umboðsmanni þykir eðlilegt að gerð sé krafa um að starf frístundaheimila taki mið af þörfum, þroska og áhuga allra barna og að börnum með fötlun eða sérþarfir sé veittur nauðsynlegur stuðningur.

Af þessu tilefni sendi umboðsmaður barna bréf til mennta- og menningarmálaráðherra í byrjun desember 2012 þar sem hann vakti athygli ráðherra á ofangreindum atriðum og mikilvægi þess að ráðherra taki þessi málefni til skoðunar og hugi að því að tryggja börnum á frístundaheimilum öruggt og þroskavænlegt umhverfi í umsjá starfsfólks sem hafa þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til starfsins.

Í svari frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, dags. 19. desember, var umboðsmaður barna upplýstur um þá ákvörðun ráðherra að stofna til starfshóps sem verður falið að skoða hvort þörf sé á sérstakri löggjöf um frístundaheimili fyrir nemendur á grunnskólaaldri. Mun starfshópurinn fá erindi umboðsmanns til skoðunar og er einnig gert ráð fyrir því að umboðsmanni verði boðið á fund starfshópsins til að setja fram sjónarmið embættisins og miðla af þeirri reynslu sem embættið hefur af því að starfa að bættum hag, öryggi og velferð barna og ungmenna. Umboðsmaður barna fagnar framtaki mennta- og menningarmálaráðherra.

LÝÐRÆÐI

Umboðsmaður barna hefur ávallt lagt mikla áherslu á 12. gr. Barnasáttmálans í störfum sínum. Í því ákvæði er kveðið á um að barn eigi rétt á að tjá sig og að tekið sé tillit til skoðana þess eftir því sem aldur og þroski gefa tilefni til. Á árinu 2011 hóf umboðsmaður barna að kanna hvernig staðið er að lýðræði í leik- og grunnskólum. Hélt sú vinna áfram á árinu 2012.

Lýðræði í leikskólastarfi

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að börn kynnist lýðræði og grunnforsendum þess frá unga aldri. Umboðsmaður barna hefur því sérstakan áhuga á hugmyndafræði og skólastefnum sem byggja á hugmyndum um að börn séu getumikil og hafi hæfileika til að hafa sjálf jákvæð áhrif á eigið líf og starf leikskólans sem þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. Margir leikskólar vinna markvisst að því að efla börn í lýðræðislegum vinnubrögðum, þjálfa þau í að tjá sig, eiga góð samskipti, kynna sér mál og taka afstöðu til þeirra.

Á árinu 2011 sendi umboðsmaður barna bréf til allra leikskóla þar sem óskað var eftir upplýsingum frá þeim um verkefni þar sem sérstaklega er unnið út frá hugmyndum um grunngildi lýðræðis og lýðræðislegs samfélags en nánari umfjöllun um bréfið er hægt að nálgast í ársskýrslu embættisins frá árinu 2011. Upplýsingar um lýðræðisstarf í leikskólum og verkefni sem styðja við hugmyndina um börn sem borgara í mótun og þátttakendur í lýðræði er nú að finna á vefsíðu embættisins. Það er von umboðsmanns að þeir sem starfa með börnum og hafa áhuga á að efla lýðræðisstarf og kynna sér nýjar hugmyndir eða vinnubrögð geti skoðað hugmyndabankann á vef umboðsmanns og e.t.v. fundið verkefni eða hugmyndir sem henta þeirra starfsemi. Þessar niðurstöður voru kynntar á ýmsum viðburðum sem umboðsmaður barna tók þátt í.

Lýðræði í grunnskólum

Umboðsmaður barna sendi tölvupóst til allra grunnskóla í október 2011 og óskaði eftir upplýsingum um nemendalýðræði. Nemendur og skólastjórnendur hafa gjarnan ólíka sýn á skólastarfið og leitaði því umboðsmaður barna bæði til skólastjóra og formanna nemendafélaga grunnskólanna og óskaði eftir að þeir svöruðu í sameiningu, ef kostur væri, nokkrum spurningum um nemendafélög og aðkomu nemenda að skólaráði skv. 8. og 10. gr. laga um grunnskóla 91/2008 og reglugerða um skólaráð við grunnskóla nr. 1157/2008. Einnig var tekið fram að allar upplýsingar um það hvernig væri unnið með þátttöku nemenda í skólasamfélaginu og lýðræði í skólanum væru vel þegnar. Tilgangur þessa tölvupósts var að safna upplýsingum og dæmum um góð vinnubrögð til að miðla áfram á heimasíðu embættisins, www.barn.is. Upplýsingar voru að berast langt fram á árið 2012 og fór því vinnslan ekki fram fyrr en þá.

Við úrvinnslu á svörum grunnskólanna kom í ljós að jákvæðar breytingar hafa átt sér stað þegar kemur að nemendalýðræði innan grunnskólanna og mörg góð dæmi voru um mikilvæg hagsmunamál sem nemendafélög hafa unnið að. Í flestum skólum var starfsemi nemendafélaganna vel kynnt nemendum og voru langflestir skólar með leynilega skriflega kosningu í bekk til að velja fulltrúa í nemendafélögin. Eitt af því sem vakti athygli umboðsmanns barna var að aðeins í sex skólum fundar skólaráð með stjórn nemendafélagsins en samkvæmt 8. gr. laga um grunnskóla skal skólastjóri boða til sameiginlegs fundar skólaráðs og stjórnar nemendafélags að lágmarki einu sinni á ári. Samkvæmt svörunum sem bárust virðast skólastjórar oft ekki átta sig á þessari skyldu sinni samkvæmt lögunum. Samantekt umboðsmanns barna á svörum grunnskólanna má finna á heimasíðu embættisins.

Haustið 2012 sendi umboðsmaður barna tölvupóst á alla grunnskóla þar sem hann kynnti fyrrnefnda samantekt og hvatti skólastjórnendur til að kynna sér ákvæði grunnskólalaga nr. 91/2008. Jafnframt bauð umboðsmaður þeim sem ekki höfðu svarað eða vildu uppfæra svar sitt að senda svar fyrir árslok 2012. Nokkur svör bárust sem þó breyttu ekki miklu varðandi upphaflegar niðurstöður. Ljóst er að jákvæður skólabragur og virðing fyrir skoðunum nemenda í daglegu starfi skóla hefur mikið að segja þegar kemur að því að þjálfa nemendur í lýðræði. Umboðsmaður barna vonast til þess að ofangreind bréf hafi orðið til þess að ýta við skólastjórnendum og nemendum í nemendafélögum til þess að vera betur meðvitaðir um mikilvægi lýðræðis og þátttöku nemenda í skólastarfi.

Ráðstefna um lýðræði á 21. öld

Innanríkisráðuneytið í samvinnu við Lýðræðisfélagið Öldu, Reykjavíkurborg og umboðsmann barna stóð fyrir ráðstefnu um eflingu lýðræðis á Íslandi undir yfirskriftinni Lýðræði á 21. öld. Ráðstefnan var haldin í Ráðhúsi Reykjavíkur laugardaginn 10. nóvember.

Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra setti ráðstefnuna með ávarpi sem hann nefndi: Lýðræði á nýrri öld – valdið til fólksins. Svo voru flutt erindi um hinar ýmsu hliðar á íbúalýðræði, kosningaaldri, þátttöku barna og fleira. Þrír erlendir sérfræðingar fluttu fyrirlestra; þær Melissa Mark-Viverito, borgarfulltrúi í  New York, og Donata Secondo, verkefnisstjóri The Participatory Budgeting Project og ræddu þær um fjárhagsáætlunargerð með þátttöku íbúa í New York og Martin Østerdal, framkvæmdarstjóri LNU, Landsrådet for norske barne- og ungdomsorganisasjoner, en hann fjallaði um þátttöku barna og kosningar – kosningaaldur og leiðir ungmenna til þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Jón Gnarr borgarstjóri og Ellý Katrín Guðmundsdóttir borgarritari fjölluðu um íbúalýðræði og beint lýðræði. 

Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna flutti erindið „Börn mega gagnrýna skólann“ sem fjallaði um tækifæri barna til að hafa áhrif á skólastarf. Einnig fluttu tvö ungmenni frá ráðgjafarhópi umboðsmanns barna, Unnur Helgadóttir og Ásta Margrét Helgadóttir, erindi sem þær nefndu: Maður þarf ekki að vera orðinn 18 til að hafa skoðun!

RÉTTUR TIL HEILBRIGÐIS

Sálfræðiþjónusta fyrir börn á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu

Árið 2010 barst umboðsmanni barna athugasemd um að boðið væri upp á sálfræðiþjónustu fyrir börn á sumum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu en ekki öðrum. Þar með var ekki tryggt að öllum börnum stæði slík þjónusta til boða. Af því tilefni sendi umboðsmaður barna bréf til lækningaforstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) í maí 2010 auk þess sem umboðsmaður vakti athygli á stöðunni við þáverandi heilbrigðisráðherra í júlí sama ár. Umboðsmanni barna bárust þau svör að ráðherra væri kunnugt um stöðuna og unnið væri að því innan ráðuneytisins að bæta þar úr.

Seint á árinu 2011 barst umboðsmanni barna ábending um að ákveðið fjármagn hefði borist HH sem nýta ætti í sálfræðiþjónustu fyrir börn en vegna niðurskurðar stóð þó ekki til að nýta fjármagnið með þeim hætti. Að því tilefni sendi umboðsmaður bréf til HH 27. janúar 2012 og kannaði hvort að fjármagn hefði borist, hversu mikið og hvort eitthvað af því hefði verið notað í þágu barna og ef ekki, hvers vegna. Einnig hafði umboðsmaður barna fengið fregnir af skýrslu sem unnin var á vegum HH um heildarstefnu í sálfélagslegri þjónustu á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðisins og óskaði hann eftir afriti af skýrslunni til upplýsinga.

Í bréfi frá HH sem barst 8. febrúar kom fram að ekki hefði fengist nægt fé til að veita sálfræðiþjónustu fyrir börn og ungmenni á öllum þeim 15 heilsugæslustöðvum sem heyra undir HH. Núverandi staða sálfélagslegar þjónustu á HH er sú að börn og ungmenni hafa aðgang að sálfélagslegri þjónustu á 9 af 15 stöðvum. Auk sálfræðinga starfa félagsráðgjafar á tveimur stöðvum og iðjuþjálfi á einni. Fjárlagarammi stofnunarinnar var hækkaður um 30 m.kr. á árinu 2011 til að efla sálfélagslega þjónustu með áherslu á börn og ungmenni. Var skipaður starfshópur til að taka út þjónustu stofnunarinnar á þessu sviði og móta heildstæða stefnu um sálfélagslega þjónustu á grundvelli fenginnar reynslu og bestu fáanlegrar þekkingar og klínískrar leiðbeininga. Þegar skýrsla starfshópsins lá fyrir og til stóð að auglýsa nýjar stöður sálfræðinga var stjórnendum HH tilkynnt að framlög hennar yrðu skert enn frekar á árinu 2012. Var það mat stjórnenda HH, sem framkvæmdastjórn HH lagði til við velferðarráðuneytið, að hægja yrði á frekari uppbyggingu sálfræðiþjónustu og einungis ráðið í eina stöðu sálfræðings á árinu 2012 og staðfesti velferðarráðuneytið þá áætlun. Var talið mikilvægara að tryggja áfram þá frumþjónustu sem  þegar er til staðar fyrir börn og ungmenni. Framkvæmdastjórn HH vænti þó þess að geta fljótlega stigið frekari skref til áframhaldandi uppbyggingar sálfræðiþjónustu fyrir börn og ungmenni eins og vonir stóðu til í ársbyrjun 2011.

Í kjölfarið sendi umboðsmaður barna bréf til velferðarráðherra í mars 2012 til þess að vekja athygli ráðherra á því að börn hafa ekki jöfn tækifæri til að sækja sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og að það fjármagn sem átti að tryggja börnum þessa þjónustu virðist ekki hafa verið notað til að jafna stöðu barna að þessu leyti.

Þjónusta talmeinafræðinga

Móðir fékk ekki niðurgreidda talmeinaþjónustutíma. Sveitarfélagið neitaði að greiða þrátt fyrir samning við Sjúkratryggingar.

Móðir hafði samband vegna barns sem þarf á talþjálfun að halda og hefur fengið greiðslur frá Sjúkratryggingum Íslands en var hafnað núna þar sem sveitarfélögin eiga að greiða fyrstu 18 tímana en sveitarfélagið neitar að greiða.

Barn þarf á talþjálfun að halda og aðilar ekki sáttir hver eigi að borga. Sjúkratryggingar Íslands og velferðarráðuneytið segja að sveitarfélagið eigi að borga en sveitarfélagið neitar að borga.

Umboðsmaður barna hefur lengi fylgst með og fengið ábendingar varðandi talmeinaþjónustu fyrir börn. Fjöldi barna þarf á ári hverju á þjónustu talmeinafræðinga að halda og getur slík þjónusta skipt miklu máli fyrir velferð og möguleika í framtíðinni. Þróunin undanfarin ár hefur verið sú að kostnaður hefur aukist mikið og sumir foreldrar treysta sér ekki til að kaupa þjónustuna eða hafa einfaldlega ekki bolmagn til þess. Umboðsmaður barna hefur átt fjölda funda og gagnrýnt þetta m.a. í skýrslu sinn til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Umboðsmaður batt því miklar vonir við það þegar nýr rammasamningur tók gildi þann 1. september 2011 þar sem meirihluti þeirra talmeinafræðinga sem starfa sjálfstætt sömdu við Sjúkratryggingar Íslands. Á árinu 2012 var gerður samningur þar sem kveðið var á um að sveitarfélög skyldu greiða fyrir fyrstu 18 tímana hjá talmeinafræðingi og Sjúkratryggingar Íslands taka svo við. Sveitarfélögin virtust ekki hafa verið aðilar að þessum samningi og neituðu að greiða. Virtist því sem svo að niðurgreiðslur fyrir þjónustu talmeinafræðinga væru aftur komnar í uppnám. Umboðsmaður barna fékk þó þær upplýsingar á haustmánuðum 2012 að Sjúkratryggingar Íslands hyggðust greiða fyrir talmeinaþjónustu fyrir börn og beina síðan innheimtu að viðkomandi sveitarfélagi. Þannig væri tryggt að foreldrar fengju greiðslur fyrir talmeinaþjónustu og væri ekkert því til fyrirstöðu að börn fengju þá þjónustu sem þau þurfa á að halda.

Hormónatengdar getnaðarvarnir

Umboðsmanni barna bárust nokkrar ábendingar varðandi hormónatengdar getnaðarvarnir auk þess sem töluverð umræða skapaðist um þær í kjölfar þess að velferðarráðherra kynnti frumvarp til breytinga á lyfjalögum nr. 93/1994 og lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Í frumvarpinu lagði velferðarráðherra til að hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum verði heimilt að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum að því skilyrði uppfylltu að viðkomandi starfi á heilbrigðisstofnun þar sem fyrir hendi er heilsugæsla, kvenlækningar eða fæðingarþjónusta. Frumvarpið varð hins vegar ekki að lögum.

Með frumvarpinu var verið að bregaðast við tilmælum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna en nefndin lýsti yfir áhyggjum vegna fjölda þungana og fóstureyðinga meðal stúlkna undir 18 ára aldri hér landi. Í skýrslu nefndarinnar var bent á að ástæða fyrir þessu  gæti verið skortur á þekkingu um kynheilbrigði, aðgengi að getnaðarvörnum og ráðgjafarþjónustu um kynheilbrigði og jafnframt lagt til að úr þessu yrði bætt.

Í umræðunni, sem skapaðist í kjölfar þess að ráðherra kynnti frumvarpið, var mikið rætt um hversu gamlar stúlkur þurfi að vera til þess að geta fengið ávísaða hormónatengda getnaðarvörn án samþykkis og vitundar foreldra. Í lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingu og ófrjósemisaðgerðir nr. 25/1975 er kveðið á um rétt einstaklinga til ráðgjafar og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og til aðstoðar við útvegun getnaðarvarna. Í lögunum er hins vegar ekki kveðið á um lágmarksaldur þess sem getur óskað eftir ávísun fyrir getnaðarvarnarpillunni. Þó má geta þess að samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 þurfa forsjáraðilar að samþykkja nauðsynlega meðferð barna sem eru yngri en 16 ára, sbr. sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna. Hins vegar er ekki ljóst hvort að ávísun hormónatengdra getnaðarvarna falli undir umrætt ákvæði.

Í íslenskum lögum er ekki ekki að finna almennt ákvæði um það við hvaða aldur börn mega byrja að stunda kynlíf. Í 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er þó að finna ákvæði sem leggur refsingu við samræði eða öðrum kynferðismökum við barn yngra en 15 ára.

Því hefur verið haldið fram að í ljósi umrædds ákvæðis almennra hegningarlaga sé eðlilegt að stúlkur hafi aðgang að hormónatengdum getnaðarvörnum við 15 ára aldur. Hins vegar eru ekki allir sammála þeirri túlkun og telja margir að stúlkur ættu að vera orðnar 16 ára til þess að geta fengið lyfseðil fyrir hormónatengdum getnaðarvörnum án samráðs við foreldra, í samræmi við lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1994. Svo eru aðrir sem telja að enn yngri stúlkur eigi að hafa aðgang að hormónatengdum getnaðarvörnum, þar sem slíkt er ekki beinlínis bannað í lögum. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að eyða réttaróvissu um þetta málefni og setja skýrt lagaákvæði um það við hvaða aldur stúlkur geta fengið ávísað hormónatengdum getnaðarvörnum, án samþykkis foreldra.

Að lokum er rétt að geta þess að umboðsmaður barna telur mikilvægt að börn njóti friðhelgi einkalífs og að réttur þeirra til að ráða yfir eigin líkama sé virtur. Unglingar sem eru byrjaðir að stunda kynlíf ættu því að geta nálgast aðrar getnaðarvarnir, svo sem smokka. Slíkt er bæði mikilvægt til að vernda gegn ótímabærum þungunum og til að verja þá gegn kynsjúkdómum. Umboðsmaður barna leggur ennfremur ríka áherslu á að foreldrar séu meðvitaðir um skyldu sína til að skapa traust og hafa frumkvæði að umræðu um kynlíf og getnaðarvarnir. Einnig telur umboðsmaður mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk ræði um getnaðarvarnir og ábyrgð í kynlífi við börn og hvetji þau jafnframt til að ræða við foreldra sína.

Lög nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna

Mikilvægt er að börnum með langvarandi veikindi og fötlun sé tryggð sérstök aðstoð og stuðningur, sbr. meðal annars samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í 23. gr. Barnasáttmálans kemur fram að tryggja skuli rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar. Ennfremur ber að stuðla að því að barninu, sem og þeim sem hafa á hendi umönnun þess svo sem foreldrum, verði veitt viðeigandi aðstoð. Þó að ákvæðið vísi eingöngu til barna með fötlun er ljóst af skýringargögnum með Barnasáttmálanum að það nær einnig til barna sem glíma við langvarandi veikindi.

Lögum nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna er meðal annars ætlað að tryggja að langveik og alvarlega fötluð börn geti notið umönnunar foreldra sinna, sbr. 2. gr. laganna. Af 20. gr. laganna leiðir hins vegar að einungis foreldrar barna sem greindust með veikindi eða fötlun eftir 1. október 2007 eiga rétt á fullum greiðslum, þ.e. foreldragreiðslum sem nema 80% af meðaltali heildarlauna. Foreldrar barna sem greindust fyrir þann tíma eiga einungis rétt á grunngreiðslum, sem nema 130.000 kr. á mánuði. Þá geta foreldrar sem eiga rétt á fullum greiðslum starfað í skertu starfshlutfalli og fengið hlutfallslegar greiðslur á móti, á meðan foreldrar sem eiga rétt á grunngreiðslum mega ekki hafa aðrar tekjur. Ljóst er að þessi mikli munur sem er á greiðslum getur leitt til þess að foreldrar barna sem greindust fyrir 1. október 2007 hafa ekki tök á því að sinna umönnun barna sinna með sama hætti og foreldrar sem eiga börn sem greindust eftir þann tíma. Börnum með langvarandi veikindi eða fötlun er því mismunað á grundvelli þess á hvaða tíma greining átti sér stað. Umboðsmaður barna getur ekki séð að málefnalegar ástæður liggi til grundvallar þessari mismunun.

Umboðsmaður barna dregur í efa að ákvæði 20. gr. laga nr. 22/2006 standist almenna jafnræðisreglur, sbr. 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og 2. gr. Barnasáttmálans. Í því sambandi má benda á að þáverandi umboðsmaður barna gagnrýndi þetta ákvæði í umsögn sinni við frumvarp til laganna árið 2006 og benti á mikilvægi þess að „allir foreldrar – og þar með börn þeirra – sem uppfylla skilyrði laganna hverju sinni njóti jafnræðis og þar með sama réttar til greiðslna án tillits til þess hvenær börnin fæðast eða greinast.“ Umsögnina í heild sinni má nálgast á heimasíðu embættisins, www.barn.is.

Vegna ábendingar um ofangreind málefni, sem bárust umboðsmanni barna, taldi hann ástæðu til að vekja athygli velferðarráðherra á mismunandi greiðslum til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna. Af því tilefni sendi hann bréf til ráðherra þann 26. nóvember þar sem hann vakti athygli á málefninu og hvatti velferðarráðherra til að beita sér fyrir því að lögum nr. 22/2006 verði breytt að þessu leyti og öllum börnum, sem uppfylla skilyrði laganna, tryggður sami réttur til þess að njóta umönnunar foreldra sinna.

BARNAVERND

Úrræði fyrir börn í vanda

Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af stöðu barna sem eiga við geðræn vandamál að stríða eða stefna eigin velferð í hættu, t.d. vegna vanlíðunar, hegðunarvandamála eða vímuefnaneyslu. Nauðsynlegt er að tryggja að fleiri úrræði séu til staðar og ávallt sé metið í hverju tilviki fyrir sig hvað henti viðkomandi barni. Einnig er mikilvægt að börn þurfi ekki að bíða lengi eftir viðeigandi meðferð og fái aðstoð eins fljótt og mögulegt er. Af því tilefni hefur umboðsmaður margoft bent á brýna nauðsyn þess að tryggja að nægileg úrræði séu til staðar, m.a. á nefndarfundi velferðarnefndar Alþingis. Umboðsmaður barna taldi þörf á víðtæku samráði vegna þessa og átti fund með fulltrúum Barnaverndar Reykjavíkur, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Barnaverndarstofu, Stuðla, velferðarráðherra og landlækni til þess að ræða skort á meðferðarúrræðum fyrir börn sem eiga við vímuefnavanda að stríða og fjölskyldur þeirra. Í kjölfar fundarins sendi umboðsmaður fyrirspurn til Barnaverndarstofu um málefni barna með ofangreindan vanda og fékk sent afrit af tillögum og greinargerð um aðgerðir til að styrkja meðferðarmál barna og unglinga, sem Barnaverndarstofa sendi velferðarráðuneytinu í bréfi, dags. 1. júlí 2011. Umboðsmaður taldi ástæðu til að vekja athygli velferðarráðherra á þeim vanda, sem börn sem eiga við vímuefnavanda að stríða og fjölskyldur þeirra, eiga við að etja. Í bréfi umboðsmanns, dags. 20. september 2012, tók hann fram að í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns til Barnaverndarstofu um málefni barna með ofangreindan vanda fékk hann sent afrit af tillögum og greinargerð um aðgerðir til að styrkja meðferðarmál barna og unglinga, sem Barnaverndarstofa sendi ráðuneytinu í bréfi, dags. 1. júlí 2011. Umboðsmaður barna óskaði eftir upplýsingum frá velferðarráðherrar hvort og þá hvaða vinna hafi átt sér stað innan ráðuneytisins til þess að bregðast við umræddum tillögum. Ef ráðuneytið hefði ekki í huga að bregðast við tillögum Barnaverndarstofu óskaði umboðsmaður upplýsinga um það hvernig fyrirhugað væri að leysa vanda þessara barna. Í lok árs hafði ekkert svar borist frá velferðarráðherra. Umboðsmaður barna mun halda áfram að fylgja þessu máli eftir.

Börn sem hælisleitendur

Umboðsmanni barna hafa borist ábendingar sem snúa að börnum sem hælisleitendur og koma hingað til lands án fylgdar. Vorið 2012 bárust fréttir um 15 og 16 ára drengi sem komu til landsins án fylgdar. Við komu til landsins framvísuðu þeir fölsuðum skilríkjum og voru í kjölfarið ákærðir og hlutu 30 daga fangelsisdóm. Seinna kom í ljós að drengirnir voru eldri en 18 ára. Umboðsmaður barna telur þó mikilvægt að taka það fram að ef það liggur vafi á aldri vegalausra barna sem koma til landsins á ávallt að túlka ungan aldur þeirra þeim í hag, þar til annað hefur verið leitt í ljós. Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um hin ýmsu réttindi barna og unglinga. Þar er að finna almennar reglur eins og t.d. í 3. gr. sáttmálans þar sem segir að það sem börnum er fyrir bestu, skuli alltaf hafa forgang þegar gerðar eru ráðstafanir sem þau varða. Þessi meginregla á að sjálfsögðu við um öll börn og við allar aðstæður. Það hvílir því skylda á öllum þeim sem fara með málefni barna, sem grunuð eru um sakhæfa háttsemi eða hafa verið sakfelld, að taka alltaf tillit til ungs aldurs þeirra. Þá er einnig að finna ákvæði í Barnasáttmálanum sem taka sérstaklega til barna sem gerst hafa brotleg við refsilög. Þau ákvæði eiga það öll sammerkt að þeim er ætlað að tryggja velferð þessara barna. Taka verður sérstakt tillit til aðstæðna ungra hælisleitenda og hvað þeir hafa gengið í gegnum áður en þeir ákveða að leita hér hælis. Fangaklefi er örugglega ekki það sem er best fyrir börn í þessum aðstæðum. Uppruni barns á að sjálfsögðu ekki að hafa nein áhrif á meðferð máls enda er það mjög alvarlegt mál þegar börnum er mismunað á einhvern hátt og í engu samræmi við Barnasáttmálann. Börn sem leita hér hælis ættu að fá þá vernd og umönnum, sem best þjónar hagsmunum þeirra, rétt eins og íslensk börn.

Umboðsmaður átti fund með aðilum frá Rauða krossinum og heimsótti einnig lögreglustjórann á Suðurnesjum til að fræðast meira um aðstæður flóttamanna og hælisleitenda. Auk þess vinnur innanríkisráðuneytið nú að nýjum lögum um útlendinga og gafst umboðsmanni barna færi á að koma með athugasemdir við drög að nýjum lögum.

ÖRYGGI BARNA

Öryggi barna í sundlaugum

Umboðsmanni barna hafa borist ábendingar bæði frá börnum og fullorðnum síðan reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum var sett vegna þess aldurstakmarks sem er að finna í 14. gr. reglugerðarinnar. Í reglugerðinni var miðað við fæðingardag barns, þ.e. á 10 ára afmælisdaginn má hleypa barni án fylgdar í sundlaug. Þær ábendingar sem bárust umboðsmanni hafa lotið að því að reglan sé ekki sanngjörn þar sem börn í sama árgangi geta á ákveðnu tímabili ekki farið saman í sund. Umboðsmaður tók undir þessi sjónarmið og kom þeim á framfæri við umhverfisráðherra. Þá átti umboðsmaður barna fund með fulltrúum umhverfisráðherra í umhverfisráðuneytinu þar sem hann ítrekaði þessi sjónarmið. Til að rökstyðja mál sitt hefur umboðsmaður bent á að útivistarreglurnar sem er að finna í 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 miða við fæðingarár en ekki fæðingardag. Umboðsmaður gladdist því þegar reglugerð nr. 773/2012 um breytingu á reglugerð nr. 814/2010 leit dagsins ljós en samkvæmt 14. gr. reglugerðarinnar var þessu breytt á þann veg að 10 ára aldursmarkið samkvæmt ákvæðinu gildir til 1. júní það ár sem barnið verður 10 ára.

Umboðsmanni barna barst einnig erindi vegna öryggis barna við sundkennslu í tengslum við aðalnámskrá grunnskóla 2012 – Skólaíþróttir þar sem fjallað er um sundkennslu. Umboðsmaður barna velti því fyrir sér hvort verið væri að slaka á öryggiskröfum í aðalnámskránni þar sem sagði að skipulag sundkennslunnar miðist við að 15 nemendur séu að jafnaði í hverjum 40 mínútna sundtíma og aldrei fleiri en 20 á hvern kennara. Í aðalnámskránni segir að til þess að tryggja öryggi nemenda í kennslustundum enn frekar, stuðla að bættri kennslufræðilegri nálgun og tryggja að markmiðum kennslunnar verði náð er mikilvægt að nemendur séu færri en 15 þegar þeir eru ósyndir. Hins vegar segir í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um hollustuhætti á sund- og baðstöðum nr. 814/2010 að þar sem hópar barna undir 10 ára aldri eru saman komnir skulu ekki fleiri en 15 börn vera í umsjá hvers leiðbeinanda, sem er ábyrgur fyrir hópnum, og gæslumanna lauga. Líkur eru á því að skólastjórnendur miði við hámarkið, þ.e. 20 börn á hvern kennara samkvæmt aðalnámskránni í stað 15 barna eins og segir í fyrrnefndri reglugerð. Umboðsmaður sendi ofangreindar athugasemdir sínar til menntamálaráðuneytisins til þess að vekja athygli á þessu ósamræmi.

Öryggi barna í strætisvögnum og langferðabílum

Á árinu 2012 jók Strætó bs. við þjónustu sína við landsbyggðina og byrjaði að aka Strætó til bæjarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins. Nokkrar ábendingar bárust umboðsmanni barna um öryggi barna og annarra í þessum ferðum þar sem skiptar skoðanir voru á því hvort leyfilegt væri fyrir farþega að standa í vögnunum. Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af öryggi farþega og sérstaklega öryggi barna sem ferðast á þessum leiðum en mikilvægt er að öryggi þeirra sé tryggt. Umboðsmaður barna hafði samband við Umferðarstofu og lagði áherslu á að hann vildi gjarnan styðja við málstaðinn.

Slysavarnir barna

Móðir er ósátt við það hversu sjaldgæft það er að verslanir bjóði upp á innkaupakerrur með belti í barnasætinu. Ef það eru belti eru þau oft biluð.

Faðir hafði samband vegna öryggismála í leikskóla. Börn hafa farið út af lóðinni og út á götu vegna þess að ekki er hægt að loka hliðinu inn á leikskólann.

„Ég er með fyrirspurn varðandi tjarnir í görðum.  Er leyfilegt að vera með óvarðar tjarnir í görðum?  Ef ekki hvernig snýr maður sér í slíkum málum þegar það er tjörn rétt hjá okkur?“

Á hverju ári berast umboðsmanni barna ábendingar og fyrirspurnir varðandi slys á börnum og slysavarnir. Þessi málaflokkur snertir í raun öll svið samfélagsins, s.s. heimili, skóla, leiksvæði, umferð og íþrótta- og tómstundastarf. Til að leiðbeina almenningi varðandi slysavarnir barna þarf umtalsverða sérþekkingu, t.d. á þroska barna og líkamlegri getu þeirra sem og á sviði heilbrigðisvísinda. Einnig er nauðsynlegt að þekkja vel til stjórnsýslunnar og regluverksins. Umboðsmaður barna telur nauðsynlegt að almenningur eigi kost á ókeypis ráðgjöf og leiðbeiningum fagfólks á sviði slysavarna. Einnig er mikilvægt að allt fagfólk sem vinnur með börnum sé frætt um helstu slysahættur fyrir börn í því umhverfi sem það vinnur í. Umboðsmanni barna barst athugasemd þess efnis að óljóst væri hvar slysavörnum barna verði fundinn varanlegur staður á vegum hins opinbera. Umboðsmaður barna sendi því bréf 27. september 2012 til velferðarráðherra  og benti á mikilvægi þess að leyst yrði úr þessu máli sem fyrst og tók fram að samvinna ólikra fagaðila gæti einnig verið málaflokknum til framdráttar. Umboðsmaður barna telur brýnt að tekið verði á þessum málum sem fyrst þannig að slysum á börnum fækki og þeim verði tryggð sú vernd sem velferð þeirra krefst. Ennfremur óskaði umbosðmaður eftir upplýsingum um það hvort fyrrnefnd athugasemd sem umboðsmanni barst eigi við rök að styðjast og ef svo er, hvort og þá hvernig hann hyggist leysa úr því. Umboðsmaður barna bárust fregnir af því að málið hefði verið leyst út árið 2012.

Rannsóknir á slysum

Líkt og áður segir berast umboðsmanni reglulega erindi vegna slysa á börnum. Þegar slys á barni á sér stað er mikilvægt að ákveðið ferli fari í gang til þess að hægt sé að koma í veg fyrir frekari slys, læra af mistökum og eftir atvikum gera breytingar á aðbúnaði og verklagi. Svo virðist sem skráning slysa, þ.m.t. orsök slyss og afleiðingar, séu ekki í nægilega góðum farvegi. Umboðsmanni barna hafa borist ábendingar um að meiðsli í íþróttum séu oft skráð sem slys þegar útlit er fyrir að ofbeldi eða of mikið álag hafi í raun valdið meiðslunum. Það sama á við þegar börn t.d. klemma sig alvarlega, falla úr hæð niður á gólf/jörð eða hljóta brunasár. Slíkt gerist oft vegna vanþekkingar þeirra sem gæta barnanna og ætti því í einhverjum tilfellum að vera hægt að koma í veg fyrir slíkt með fræðslu og aðgát. Haustið 2012 lagði innanríkisráðherra fram frumvarp til laga um rannsókn samgönguslysa. Af því tilefni sendi umboðsmaður barna bréf til ráðherra og vakti athygli hans á ofangreindum atriðum sem snerta slys á börnum. Umboðsmaður barna tók fram í bréfi sínu að hann teldi það vel við hæfi að innanríkisráðherra myndi bregðast við ábendingum hans og tryggja að slys sem börn verða fyrir verði rannsökuð með viðeigandi hætti. Þannig mætti fækka slysum á börnum, skapa þeim öruggari uppvaxtarskilyrði og tryggja þeim þá vernd sem velferð þeirra krefst.

FJÖLMIÐLAR

Umboðsmanni barna bárust þó nokkrar ábendingar vegna netsíðu sem innihélt hatursfullan áróður og myndir gegn nafngreindum íslenskum börnum og fjölskyldum þeirra. Umboðsmaður barna taldi ummælin vera skýrt brot á almennum hegningarlögum og stefna velferð umræddra barna í hættu. Um leið og fyrsta ábendingin um fyrrnefnda netsíðu barst umboðsmanni barna í lok árs 2011 hafði hann samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í lok árs 2011 og byrjun árs 2012 auk þess sem hann sendi tilkynningu á ábendingarhnapp Barnaheilla en allar ábendingar fara til embættis ríkislögreglustjóra þar sem þær eru rannsakaðar og gripið til viðeigandi aðgerða. Í lok ársins 2011 var umboðsmanni tjáð að málið væri í vinnslu hjá lögregluyfirvöldum. Netsíðan er hins vegar vistuð erlendis og höfundur hennar skrifar undir dulnefni. Því miður hefur umboðsmaður barna engar formlegar heimildir til þess að aðhafast í málinu nema með því að vekja athygli þeirra stjórnvalda sem bera ábyrgð samkvæmt lögum. Umboðsmaður barna hafði ítrekað samband við lögreglu og vakti athygli á málinu og spurðist fyrir um framvindu málsins.

Siðareglur blaðamanna

Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í nútímasamfélagi og skoðanir fólks mótast að miklu leyti af þeim. Margt vandað er að finna í umfjöllun fjölmiðla en umboðsmaður barna telur þó að í einhverjum tilfellum hugi fjölmiðlar ekki nægilega vel að vernd barna þegar fjallað er um þau í fjölmiðlum og berast umboðsmanni reglulega erindi þess efnis. Dæmi um erindi sem hafa borist umboðsmanni er þegar foreldrar tjá sig um börn sín í fjölmiðlum en opinská umfjöllun um viðkvæm málefni barna getur valdið þeim vanlíðan og haft slæm áhrif á sjálfsmynd þeirra. Er því mikilvægt að börn njóti sérstakrar verndar þar sem þau fá oft ekkert um það að segja hvort fjallað sé um persónuleg málefni þeirra á opinberum vettvangi eða ekki.

Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarf á sérstakri vernd að halda. Endurspeglast það m.a. í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fram kemur að börnum skuli tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Í athugasemdum í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að ákvæðið geti réttlætt undantekningar frá öðrum reglum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar ef það þykir nauðsynlegt til verndar börnum. Á það m.a. við um tjáningarfrelsi. Þegar umfjöllun um börn er birt þarf ávallt að huga að þeirri sérstöðu sem börn njóta, bæði samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum. Mikilvægt er að fjölmiðlar geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir bera gagnvart börnum og hagi störfum sínum samkvæmt því.

Í 17. gr. Barnasáttmálans er sérstaklega fjallað um mikilvægi fjölmiðla og ábyrgð þeirra gagnvart börnum. Samkvæmt c-lið 17. gr. sáttmálans skulu aðildarríkin stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi reglur um vernd barna fyrir upplýsingum og efni sem skaðað getur velferð þeirra. Að hluta til er e-liður 17. gr. Barnasáttmálans uppfylltur með nýjum fjölmiðlalögum nr. 38/2011. Má í því sambandi m.a. nefna 28. gr., 38. gr. og 41. gr. laganna sem fjalla með einum eða öðrum hætti um vernd barna gegn efni í fjölmiðlum.

Þrátt fyrir ákvæði fjölmiðlalaga telur umboðsmaður barna að þörf sé á frekari reglum sem leggja þá skyldu á fjölmiðla að gæta sérstakrar varkárni þegar verið er að fjalla um börn og tryggja að umfjöllun sé ekki til þess fallin að hafa meiðandi eða niðurbrjótandi áhrif á þau. Að því tilefni sendi umboðsmaður barna bréf 20. september 2012 til Blaðamannafélags Íslands. Umboðsmanni var kunnugt um að skipuð hefði verið nefnd á síðasta aðalfundi Blaðamannafélags Íslands sem falið var að endurskoða siðareglur félagsins. Í tilefni af þeirri endurskoðun vakti umboðsmaður athygli á ofangreindum sjónarmiðum og hvatti til þess að sérstaklega verði hugað að hagsmunum og vernd barna þegar kemur að fjölmiðlaumfjöllun. Umboðsmaður barna óskaði eftir því að verða upplýstur um stöðu nýrra siðareglna og að honum yrði gefinn kostur á að kynna sér efni þeirra. Að lokum kom umboðsmaður því á framfæri að ef vilji væri fyrir hendi væri hann reiðubúinn að hitta nefndina sem sér um endurskoðun siðareglnanna og ræða þessi mál. Í lok ársins hafði ekkert svar borist.

Greiðsla tryggingabóta til barna

Í september 2012 sendi umboðsmaður barna bréf til sex tryggingafélaga á Íslandi til að kanna hvernig staðið er að greiðslu tryggingabóta sem börn eiga rétt á. Ástæða bréfsins var erindi sem umboðsmanni barst þar sem foreldri fékk greiddar tryggingabætur f.h. barns og fór illa með þá fjármuni þannig að bæturnar skiluðu sér ekki til barnsins. Leitaði umboðsmaður því svara við eftirfarandi spurningum.

 1. 1.       Hvernig er staðið að greiðslum til barna sem verða fyrir tjóni og eiga rétt á tryggingabótum?
 2. 2.       Eru í gildi verklagsreglur þegar greiddar eru tryggingabætur til barna?
 3. 3.       Hvernig er tryggt að tryggingabætur skili sér til þess barns sem á rétt á þeim?
 4. 4.       Hvert eru bætur greiddar, þ.e. inn á hvaða reikning er greitt?
 5. 5.       Samþykki hverra er leitað áður en til greiðslu kemur og hvert greiða skuli? Skiptir máli í þessu sambandi hjúskaparstaða foreldra?
 6. 6.       Ef foreldrar hafa slitið hjúskap eða sambúð, er þá kannað hver fari með forsjá barns áður en greiðsla bóta er innt af hendi?
 7. 7.       Er yfirlögráðanda eða öðrum, t.d. viðkomandi barni, tilkynnt að búið sé að greiða tryggingabætur?
 8. 8.       Er munur á verklagi eftir fjárhæð eða tegund bóta?

Svör bárust frá öllum tryggingafélögum sem fengu bréf umboðsmanns barna og þakkar hann fyrir svörin. Í kjölfar athugunar umboðsmanns barna á svörum tryggingafélaganna sendi hann bréf aftur til þeirra þar sem hann vakti athygli á nokkrum atriðum. Umboðsmaður leggur áherslu á að tryggingafélög hafi í huga að þegar barn verður fyrir tjóni og fær greiddar tryggingabætur tilheyra bæturnar barninu sjálfu. Í svörum tryggingafélaganna kom fram að barn fær einungis í örfáum tilfellum vitneskju um að það hafi fengið greiddar bætur og ræðst það m.a. af aldri barns og eðli bóta. Vissulega hvílir ábyrgð á foreldrum og lögmanni við að upplýsa börn um bætur sem tilheyra þeim þegar þau hafa náð ákveðnum aldri og þroska. Hins vegar telur umboðsmaður barna eðlilegt að tryggingafélög upplýsi einnig börn sem fá greiddar tryggingabætur. Auk þess er mikilvægt að foreldrum sé gerð grein fyrir því að það er á ábyrgð þeirra að varðveita tryggingabæturnar og nota þær í þágu barnsins sem í hlut á.

Í svörum tryggingafélaganna kom einnig fram að mismunandi er hvort greitt er inn á reikning í nafni foreldra, barna eða á fjárvörslureikning lögmanns sem greiðir síðan bætur til barns eða foreldris. Í flestum tilfellum var hjúskaparstaða foreldra ekki könnuð eða skipti ekki máli þegar kom að greiðslu tryggingabóta. Í sumum tilfellum kom fram að það fari eftir því hjá hvoru foreldri barn á lögheimili. Umboðsmaður barna telur að varðveita beri fjármuni á reikning í nafni barns. Þannig er mögulegt að tryggja að foreldrar geti ekki ráðstafað tryggingabótunum nema í þágu barnsins og með samþykki þess eða yfirlögráðanda.

Umboðsmaður barna fagnaði því að tryggingafélögin virði almennt kröfur 73. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 um tilkynningu til yfirlögráðanda þegar fjárhæð bóta nær 500.000 kr. í þeim tilfellum þegar við á.

Að lokum er rétt að geta þess að umboðsmaður barna sendi bréf til innanríkisráðherra sem fer með málefni yfirlögráðanda þar sem hann vakti athygli ráðherra á könnun umboðsmanns.

ENDURSKOÐUN STJÓRNARSKRÁRINNAR

Árið 2011 hóf stjórnlagaráð vinnu við gerð nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland. Í 12. gr. þeirra draga sem stjórnlagaráð lagði fram er að finna ákvæði sem hefur að geyma mikilvæg grundvallarréttindi barna, sem hafa áður ekki notið stjórnarskrárverndar, hér á landi. Óskað var eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarpið og fór hann einnig á fund velferðarnefndar til að ræða sérstaklega um inntak 12. gr. frumvarpsins um rétt barna. Í samræmi við beiðni nefndarinnar vann umboðsmaður að auki skriflega umsögn um skýringar við ákvæðið, í samvinnu við UNICEF á Íslandi.

Umboðsmaður barna er sérstaklega ánægður með 12. gr. frumvarpsins. Á undanförnum áratugum hefur það færst í vöxt að réttindum barna sé veitt sérstök vernd í stjórnarskrám einstakra ríkja. Ef umrætt ákvæði verður samþykkt mun Ísland vera leiðandi í þeirri þróun og verða í hópi fárra ríkja sem tryggja réttindi barna hvað best í stjórnarskrá. Ákvæðið er ennfremur merkilegt fyrir þær sakir að efni þess má að hluta til rekja til tillagna barna og ungmenna, sem tóku þátt í þingi ungmennaráða, Stjórnlög unga fólksins, sem umboðsmaður barna, UNICEF á Íslandi og Reykjavíkurborg stóðu fyrir vorið 2011.

Umboðsmaður barna fagnaði einnig 24. gr. frumvarpsins um menntun en í því ákvæði er kveðið skýrt á um að menntun þeirra sem skólaskylda nær til skuli tryggð án endurgjalds. Umboðsmaður gerði þó athugasemd við orðalag 4. mgr. 24. gr. um að virða skuli ákvarðanir foreldra um að uppeldi og menntun barna þeirra sé í samræmi við trúar- eða lífsskoðanir þeirra. Umrætt orðalag á meðal annars rætur að rekja til 2. mgr. 2. gr. samningsviðauka 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu frá árinu 1952 og 3. mgr. 13. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá árinu 1966. Ljóst er að viðhorf til stöðu barna og hlutverks foreldra hafa þróast mikið á undanförnum áratugum. Barnasáttmálinn var samþykktur árið 1989 og er hann nú útbreiddasti mannréttindasamningur heims. Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn eru sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi, óháð réttindum foreldra sinna. Börn njóta skoðana- og trúfrelsis og eftir því sem þau eldast og þroskast eiga skoðanir þeirra sjálfra að fá aukið vægi. Ákvæði 4. mgr. 24. gr. frumvarpsins samræmist ekki þessum réttindum barna, enda miðar orðalagið einungis við rétt foreldra. Mikilvægt er að hafa í huga að í ákveðnum tilvikum geta trúar- og lífsskoðanir barna verið aðrar en foreldra. Telur umboðsmaður barna því brýnt að endurskoða orðalag 4. mgr. 24. gr. frumvarpsins. Má í því sambandi hafa hliðsjón af 2. mgr. 14. gr. Barnasáttmálans, en þar kemur fram að aðildarríki skuli virða rétt og skyldur foreldra til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar á þann hátt sem samræmist vaxandi þroska þess. Orðalag Barnasáttmálans samræmist einnig mun betur ákvæði 3. mgr. 12. gr. frumvarpsins um þátttöku barna, en þar kemur m.a. fram að taka skuli tillit til skoðana barns í samræmi við aldur þess og þroska.

Aldursmörk á gjaldtöku fyrir börn og unglinga

Nokkuð hefur borið á því að embætti umboðsmanns barna berist erindi sem varða aldursmörk barna þegar kemur að gjaldtöku og hvort ekki megi samræma aldursmörk á gjaldtöku fyrir börn og unglinga. Í mörgum tilvikum eru börn, undir 18 ára aldri, að greiða sama gjald og fullorðnir en í öðrum tilvikum teljast þau ennþá börn og greiða gjald eftir því. Auk þess virðist lítið samræmi vera í því við hvaða aldur börn greiða barna- og unglingagjald. Börn greiða því ýmist svokallað barna-, unglinga- eða fullorðinsgjald hjá stofnunum og þjónustuaðilum sveitarfélaga, t.d. í sundlaugum, samgöngum og á söfnum.

Barn er almennt skilgreint í íslenskum lögum sem einstaklingur undir 18 ára aldri en sambærilega skilgreiningu er einnig að finna í 1. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umboðsmaður barna veltir því fyrir sér hvort ekki sé eðlilegra að börn greiði ávallt barnagjald þegar það á við fyrir þjónustu hjá stofnunum og þjónustuaðilum sveitarfélaga hvar sem er á landinu.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að ríki og sveitarfélög gangi á undan með góðu fordæmi í þessum efnum og geti með þeim hætti haft áhrif á aðra í samfélaginu. Taldi hann því ástæðu til að vekja athygli Sambands íslenskra sveitarfélaga á áðurnefndu málefni með bréfi dags. 30. nóvember 2012. Hvatti umboðsmaður Sambandið til að stuðla að því að aldursmörk barna verði samræmd og fullorðinsgjald verði miðað við 18 ára aldur á vettvangi sveitarfélaga.

RÁÐGJAFARHÓPUR UMBOÐSMANNS BARNA

Umboðsmaður barna hefur alltaf lagt mikla áherslu á 12. gr. Barnasáttmálans sem fjallar um rétt barna til að tjá sig og að tekið sé tillit til skoðana þeirra. Við embættið starfar ráðgjafarhópur ungmenna á aldrinum 13-17 ára en hópurinn er ráðgefandi aðili fyrir embættið um málefni er snerta börn og ungmenni. Þannig geta börn og ungmenni látið skoðanir sínar í ljós og haft áhrif á störf umboðsmanns barna. Öllum sem eru á áðurnefndum aldri og vilja hafa áhrif á samfélagið sitt er velkomið að sækja um inntöku í þann hóp. Rúmlega 10 ungmenni voru virk í ráðgjafarhóp umboðsmanns barna á árinu 2012.

Fundir með ráðgjöfum embættisins voru haldnir mánaðarlega og var ýmislegt til umfjöllunar. Þá hittu meðlimir hópsins umboðsmenn barna á öllum Norðurlöndum á sameiginlegum fundi þeirra í Reykjavík. Tvær stúlkur úr hópnum, þær Ásta Margrét Helgadóttir og Unnur Helgadóttir voru með erindi á ráðstefnu um lýðræði, sem haldin var í nóvembermánuði, og bar erindi þeirra heitið „Maður þarf ekki að vera orðinn 18 til að hafa skoðun“. Annar meðlimur hópsins, Kristinn Jóhannsson, var með erindi hjá Rotary klúbb Kópavogs og fjallaði þar um Stjórnlög unga fólksins.

Ráðgjafarhópurinn ræddi mikið um málefni sem snúa að menntamálum á árinu og hafði því áhuga á að koma skoðunum sínum á framfæri við menntamálaráðherra og mun funda með honum í byrjun árs 2013. Var mikil eftirvænting eftir fundi með ráðherra og vonast ráðgjafarnir til að geta komið sínum skoðunum á framfæri við hann og hafa áhrif.

Einn ráðgjafi umboðsmanns, Unnur Helgadóttir, skrifaði grein sem birtist í Fréttablaðinu. Greinin fjallar um viðhorf fullorðinna til unglinga sem hefur lengi verið umræðuefni hjá ráðgjöfum umboðsmanns barna sem vilja koma þeim skilaboðum áleiðis að unglingar eiga, eins og allir aðrir, rétt á komið sé fram við þau af virðingu og án fordóma. Greinin hennar Unnar vakti verðskuldaða athygli og var umboðsmaður barna og starfsfólk hans virkilega stolt af henni. Greinin er svohljóðandi:

Er ég pirrandi?

Ekki er nýtt að fullorðnir séu pirraðir á unglingum. Til eru ritaðar heimildir frá forn-Rómverjum þar sem ljóðskáld hneykslast á þessum „kærulausu unglingum” og virðist það viðhorf ekki hafa breyst mjög mikið í áranna rás. Oft er dregin upp sú staðalmynd af okkur unglingum að við séum löt, alltof háð tækninni og í fýlu út í foreldrana. Einnig að margir unglingar séu óheiðarlegir. En er þetta rétt?

Ég tel að svarið við þessu sé nei. Flestir þeirra unglinga sem ég þekki, stunda skólann af fullum krafti, auk þess æfa margir þeirra á hljóðfæri, stunda tónlistarnám, eða jafnvel hvorttveggja og fá samt góðar einkunnir og hafa einnig tíma til að hitta vini sína. Auðvitað er það erfitt og getur tekið mikið á en það sannar að ekki eru allir unglingar latir. Þegar hugsað er um tæknina þá verð ég að viðurkenna að það er eiginlega rétt. Margir unglingar eru háðir græjunum sínum, en ég held að við séum aðallega hrædd um að missa af einhverju, t.d. ef slökkt væri á símanum okkar.

En hvað með hegðun þjónustuaðila gagnvart börnum og unglingum? „Heyrðu! Farðu héðan! Þú ert örugglega að stela!” Er augnaráðið sem margir unglingar hafa fengið er þeir ganga í gegnum verslanir. Einnig fá þeir oft verri þjónustu en fullorðnir t.d. í verslunum og fyrirtækjum. Þessu hafa margir eldri en þrettán ára lent í. Þetta fer náttúrulega líka eftir útlitinu, þeir sem klæða sig t.d. í götótt föt, eru „goth” eða „emo” svo dæmi sé tekið, lenda frekar í því að vera vaktaðir stíft, en þótt margir klæði sig ekki þannig hafa þeir lent í því sama. Það er mjög óþægilegt og alveg ástæðulaust, því þó að einhverjir unglingar steli, þá eru þeir miklu fleiri sem eru strangheiðarlegir. Við getum spurt okkur að því af hverju þessir fordómar eru og það er líklega af því að við heyrum mest um þá unglinga sem stela eða vinna einhver skemmdarverk. Fréttastofur gera nefnilega oft meira úr fréttum sem hneyksla fólk, eða láta því bregða t.d. um þjófótta unglinga og skemmdarverk. Það eru margir unglingar sem ná mjög góðum árangri í skólanum, íþróttum eða tónlistarnámi o.s.frv. en fá samt ekki mikla umfjöllun. Augljóst er að það er ósanngjarnt og ég get fullyrt að mér og mörgum unglingum er ofboðið. Þetta ætti að vera akkúrat öfugt. Ég er þá að tala um að ,,góðu” krakkarnir fengju meiri athygli sem væri þá gott fordæmi fyrir aðra.

Fullorðnir virðast oft vera pirraðir á unglingum, en muna þeir kannski ekki hvernig það var þegar þeir voru unglingar? Þá væri sniðugt fyrir þá að prófa að setja sig í spor barna og unglinga í ákveðnum atvikum og hugsa hvað þeir myndu vilja gera, eða að einhver gerði fyrir þá, ef þeir lentu sjálfir í þeim aðstæðum. Á unglingsárunum erum við á milli þess að vera barn og fullorðinn og vitum oft ekkert hvernig við eigum að haga okkur „Má ég vera barn núna?” eða „Þarf ég að axla ábyrgð og vera fullorðin? Hvenær á ég að fara að sinna skyldum fullorðinna?” er dæmi um spurningar sem við veltum fyrir okkur en vitum oft ekki svörin við. Auðvitað er mikill munur á hegðun, útliti og skynsemi sjö og sautján ára barna og búist er við því að aldurshóparnir hegði sér öðruvísi. Sjö ára barnið er enn að læra hvað má og hvað má ekki. Sautján ára unglingurinn er hinsvegar að læra hvernig hann á að haga sér sem fullorðinn og ábyrgur einstaklingur í samfélaginu. Hann þarf semsagt hjálp og skilning fullorðinna eins og sjö ára barnið, en á allt öðrum sviðum lífsins. Þá skiptir miklu máli að fullorðnir sýni skilning og hjálpi ef unglingurinn þarf á að halda. Ekki með því að segja: „Þú mátt vera barn núna” eða eitthvað því um líkt, heldur með því að setja gott fordæmi fyrir okkur yngri. Við gætum t.d. þurft leiðbeiningar við að setja upp ferilskrá, læra á bíl, fara sjálf að sækja um vinnu og margvísleg önnur félagsleg samskipti. Einnig væri sniðugt að íhuga það hvort fullorðnir einstaklingar hlusti virkilega á börn og unglinga, það að heyra er nefnilega ekki það sama og að hlusta.

UMSAGNIR

Einn af mikilvægum þáttum í starfi umboðsmanns barna er að veita Alþingi umsagnir um lagafrumvörp og tillögur til þingsályktunar er varða hagsmuni og réttindi barna. Einnig kemur fyrir að óskað er eftir umsögnum um drög að frumvörpum eða reglugerðum sem eru í vinnslu hjá ráðuneytum. Árið 2012 veitti umboðsmaður barna umsagnir um eftirfarandi mál:

 • Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008, með síðari breytingum.
 • Frumvarp til barnalaga (réttindi barns, forsjá, umgengni o.fl.), 290. mál.
 • Frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof, 109. mál.
 • Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu Evrópuráðssamnings um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun, 341. mál og frumvarp til almennra hegningarlaga (varnir gegn kynferðislegri misnotkun barna), 344. mál.
 • Frumvarp til laga um skráð trúfélög (lífsskoðunarfélög, aðild barna o.fl.), 509. mál.
 • Drög að reglugerð um skólagöngu fósturbarna í grunnskólum.
 • Frumvarp til laga um fjölmiðla (eignarhald, ábyrgðarmenn o.fl., EES-reglur), 599. mál.
 • Frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, 748. mál.
 • Frumvarp um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, með síðari breytingum (réttur og ábyrgð nemenda og efnisgjöld), 715. mál.
 • Frumvarp til laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk (ráðstafanir til að draga úr nauðung í þjónustu), 692. mál.
 • Frumvarp til laga um vinnustaðanámssjóð (heildarlög), 765. mál.
 • Drög að stefnu skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur um skóla án aðgreiningar og sérstakan stuðning við nemendur í grunnskólum Reykjavíkur.
 • Tillaga til þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.
 • Drög að heilbrigðisáætlun til ársins 2020.
 • Frumvarp til laga um barnaverndarlög (frestun tilfærslu heimila og stofnana fyrir börn), 65. mál.
 • Drög að frumvarpi til laga um útlendinga.
 • Tillögur fyrir drög að nýrri aðgerðaráætlun í málefnum barna.
 • Frumvarp til umferðarlaga, 179. mál.
 • Frumvarp til laga um skráð trúfélög, 132. mál.
 • Frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, 155. mál.
 • Tillaga til þingsályktunar um málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun, 80. mál.
 • Tillaga til þingsályktunar um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum (tvöfalt lögheimili), 152. mál.
 • Frumvarp til stjórnskipunarlaga, 415. mál.

SAMSTARF

Innlendir samstarfsaðilar

Hjá umboðsmanni barna starfa einungis fjórir starfsmenn og er því mikilvægt fyrir starf embættisins að eiga gott samstarf við aðra aðila sem vinna að málefnum barna. Umboðsmaður barna leitar reglulega eftir áliti hjá sérfræðingum á ýmsum sviðum, svo sem starfsfólki stofnana, félagasamtaka eða annarra fagaðila. Á árinu 2012 átti umboðsmaður barna auk þess formlegt samstarf, meðal annars við eftirfarandi aðila.

Barnahópur velferðarvaktarinnar

Umboðsmaður barna átti sæti í sérstökum barnahópi velferðarvaktarinnar á árinu en hann er starfræktur á vegum velferðarráðherra. Hópnum er ætlað að fylgjast með félagslegum jafnt sem fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins á börn og fjölskyldur þeirra og gera tillögur um aðgerðir í þeim efnum. Verkefni hópsins er einnig að leggja mat á afleiðingar kreppunnar á börn og barnafjölskyldur og tilgreina hvaða upplýsingar vantar til að skýr mynd fáist. Auk þess að taka saman yfirlit um það sem þegar hefur verið gert til að koma í veg fyrir alvarlegar/varanlegar afleiðingar efnahagsástandsins á börn, á hópurinn einnig að leggja fram tillögur til úrbóta. Í hópnum eiga jafnframt sæti fulltrúar Bandalags háskólamanna, Barnaverndarstofu, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar, Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, Heimilis og skóla, UNICEF á Íslandi, Hafnarfjarðarbæjar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Námsvefurinn www.barnasattmali.is

Umboðsmaður barna hélt áfram samstarfi við Barnaheill – Save the Children á Íslandi, UNICEF á Íslandi og Námsgagnastofnun og er helsta markmið þess samstarfs að stuðla að aukinni vitund almennings um Barnasáttmálann. Samstarfið hófst árið 2008 með útgáfu veggspjalda og bæklinga og á árinu 2009 var settur upp fræðsluvefurinn www.barnasattmali.is. Vefurinn er ætlaður til notkunar í leik- og grunnskóla en hentar einnig öðrum aldurshópum. Á síðunni má líka finna leiki og verkefni fyrir börn. Árið 2012 varð mikil útlitsbreyting á heimasíðunni auk þess sem hún var yfirfarin og uppfærð. Efnt var til sérstaks kynningarátaks á vefnum fyrir leik- og grunnskólakennara og heimsóttu starfsmenn embættisins sem og starfsmenn Barnaheilla og UNICEF á Íslandi kennaraþing víða um land, þ.e. á Höfn í Hornafirði, Sauðárkróki, Flúðum, Akureyri og í Reykjavík. Auk þess var fjallað um verkefnið í frétta- og þjóðlífsþættinum Landanum í Ríkissjónvarpinu. Umboðsmaður barna er ákaflega stoltur af þessu verkefni og vonast til að vefurinn muni nýtast börnum sem og kennurum og öðrum til að fræða börn og unglinga um réttindi þeirra.

Háskólinn í Reykjavík

Frá árinu 2009 hefur verið samkomulag í gildi milli umboðsmanns barna og lagadeildar Háskólans í Reykjavík um að taka á móti meistaranemum í starfsnám. Á árinu 2012 kom einn laganemi til umboðsmanns í slíkt starfsnám og vann að ýmsum verkefnum með starfsmönnum embættisins.

Háskóli Íslands

María Þorleif Hreiðarsdóttir var í starfsnámi á skrifstofu umboðsmanns barna í upphafi árs. Leitað var til umboðsmanns barna frá Háskóla Íslands um að taka að sér nema í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun hjá Háskóla Íslands. Verkefni Maríu voru af ýmsum toga og fræddi hún meðal annars starfsfólk embættisins um stöðu seinfærra foreldra og reynslu sína af beingreiðslu vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA).

Hoff – heilsuefling og forvarnir í framhaldsskólum

Umboðsmaður barna hefur tekið þátt í starfi Hoff-hópsins, sem vinnur að heilsueflingu og forvörnum í framhaldsskólum. Markmið verkefnisins er meðal annars að stuðla að bættri almennri líðan og heilsu nemenda, efla forvarnir gegn vímuefnum í framhaldsskólum og bæta og efla ráðgjöf við nemendur á sem flestum sviðum sem snerta velferð þeirra. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið og embætti landlæknis leggja til fjármagn og starfsmenn í verkefnið.

Menningarmiðstöðin Gerðuberg

Umboðsmaður barna hefur verið í samstarfi við Menningarmiðstöðina Gerðuberg í nokkur ár. Á fyrri hluta ársins var myndum fækkað á skrifstofu umboðsmanns en framlengdur var samningur um önnur listaverk sem börn hafa unnið í listasmiðjunni Gagn og gaman í Gerðubergi. Verkin sem um ræðir eru úr ýmsum myndaseríum sem unnar hafa verið á árunum 1988-2004 og prýddu þau veggi skrifstofu umboðsmanns barna. Við flutning embættisins af Laugaveginum í Kringluna var þó öllum myndum nema einni skilað til Menningarmiðstöðvarinnar Gerðubergs.

Náum áttum

Embætti umboðsmanns barna hefur átt fulltrúa í Náum áttum sem er opinn samstarfshópur þeirra sem láta sig varða heill barna og ungmenna. Náum áttum er fræðslu- og forvarnarhópur sem skipuleggur morgunverðarfundi einu sinni í mánuði yfir vetrartímann um ýmis mál sem varða forvarnir og velferð barna og ungmenna, sem talið er vert að vekja athygli samfélagsins á. Á árinu tók samstarfshópurinn nýja heimasíðu í notkun, naumattum.is, en þar er hægt að nálgast upplýsingar um alla fundi, ítarefni o.fl.

Rannsóknarstofa í menntunarfræðum ungra barna

Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) er ætlað að hafa frumkvæði að og sinna rannsóknum, miðla þekkingu og kynna niðurstöður rannsókna sem varða börn á leikskólaaldri. Á árinu 2012 sat umboðsmaður barna í stjórn RannUng.

SAMAN-hópurinn

Umboðsmaður barna hefur setið í SAMAN-hópnum sem er samstarfsvettvangur frjálsra félagasamtaka, sveitarfélaga og stofnana sem láta sig velferð barna og fjölskyldna þeirra varða. Markmiðið er að vekja athygli á þeirri ógn sem börnum og unglingum stafar af áfengi og vímuefnum, styðja við foreldra í uppeldishlutverkinu og hvetja til jákvæðra samskipta fjölskyldunnar. Þetta hefur verið gert með útgáfu auglýsinga ásamt fræðslu- og kynningarefni.

Talsmaður neytenda

Samstarf umboðsmanns barna og talsmanns neytenda um auglýsingar og markaðssókn, sem beinist að börnum, hélt áfram á árinu en embættin hafa verið að endurskoða leiðbeinandi reglur um neytendavernd barna, sem gefnar voru út af embættunum árið 2009. Sú vinna hélt áfram á árinu 2012.

Annað

Undanfarin ár hefur umboðsmaður barna átt gott samstarf við Ungmennafélag Ísland vegna ráðstefnu þeirra um ungt fólk og lýðræði. Umboðsmaður barna flutti erindi á ráðstefnunni auk þess sem starfsfólk embættisins stóð fyrir vinnustofu um mannréttindi og sat fyrir svörum í pallborði. Fyrir liggur að umboðsmaður mun taka þátt í ráðstefnu UMFÍ árið 2013.

Umboðsmaður barna hefur átt gott samstarf við Herdísi Storgaard, forstöðumann Slysavarnarhúss. Herdís hefur setið fundi með umboðsmanni og veitt mikilvægar upplýsingar þegar kemur að slysavörnum barna.

Erlendir samstarfsaðilar

Fundur umboðsmanna barna á Norðurlöndunum

Árlegur fundur umboðsmanna barna á Norðurlöndunum fór að þessu sinni fram á Íslandi dagana 4.-6. júní en þessir árlegu fundir eru mjög mikilvægir fyrir umboðsmann barna. Á fundunum er fjallað um þau hagsmuna- og réttindamál barna sem eru efst á baugi í hverju landi og nýjustu verkefnin kynnt. Gott er að geta borið saman bækur sínar og lært af reynslu annarra.

Þátttakendur á fundinum voru umboðsmenn barna á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð og í Finnlandi sem og starfsmenn Barnaráðsins í Danmörku og talsmaður barna á Grænlandi auk nokkurra starfsmanna embættanna. Á fundinum bar hæst málstofa um innleiðingu Barnasáttmálans sem var haldin í Þjóðminjasafninu og heppnaðist í alla staði mjög vel. Vinnufundir hópsins voru haldnir í húsnæði umboðsmanns barna. Norrænu gestirnir fóru í heimsókn í Barnahús og Hitt húsið þar sem starfsemi húsanna var kynnt auk þess sem verkefnið Stjórnlög unga fólksins var kynnt.

Í lok fundarins var samþykkt ályktun um vernd barna gegn ofbeldi. Í ályktuninni segir að á hverjum degi verði drengir og stúlkur fyrir ofbeldi og misnotkun. Þeir sem beita börn ofbeldi séu oft þeir einstaklingar sem eiga að vernda börnin – foreldrar eða aðrir sem standa börnunum nærri. Reynsla hinna norrænu embætta er að börn skorti þekkingu um að það sé verið að brjóta á rétti þeirra. Norrænir umboðsmenn barna hvetja stjórnvöld til að tryggja að börn frá unga aldri fái fræðslu um að þau ráði líkama sínum sjálf og að þau fái að vita hvert þau geta leitað sér hjálpar.  Allt of mörg börn vita ekki hvert þau geta leitað eftir hjálp og oft getur verið erfitt fyrir börn að nálgast eða fá samband við barnavernd eða félagsþjónustu sveitarfélaga. Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er bent á að börn eigi rétt á að þekkja réttindi sín og að þau stjórnvöld sem eiga að vernda börn eigi að vera börnum aðgengileg.

Fundur samtaka evrópskra umboðsmanna barna (ENOC)

Dagana 10.-12. október 2012 var haldinn hinn árlegi fundur samtaka evrópskra umboðsmanna barna. Umboðsmaður barna hafði ekki tök á því að taka þátt í þeim fundi þetta árið vegna anna en fundurinn var haldinn á Kýpur.

Viðburðir og uppákomur á vegum umboðsmanns barna

Málstofa um innleiðingu Barnasáttmálans á Norðurlöndunum

Í tengslum við fund umboðsmanna barna á Norðurlöndunum stóð umboðsmaður barna fyrir málstofu um innleiðingu Barnasáttmálans á Norðurlöndum, sem var haldin í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Nánar má lesa um málstofuna á bls. XX.

Námskeið: Barnasáttmálinn – frá réttindum til raunveruleika

Umboðsmaður barna stóð fyrir námskeiði um innleiðingu Barnasáttmálans hinn 18. október í Norræna húsinu og var fyrirlesari Hjördís Eva Þórðardóttir, meistaranemi í mannréttindum barna við Háskólann í Stokkhólmi. Nánar má lesa um námskeiðið á bls. XX.

Ráðstefna um lýðræði

Innanríkisráðuneytið í samvinnu við Lýðræðisfélagið Öldu, Reykjavíkurborg og umboðsmann barna stóðu fyrir ráðstefnu um eflingu lýðræðis á Íslandi undir yfirskriftinni Lýðræði á 21. öld. Umboðsmaður barna var með erindi en einnig tóku til máls tvö ungmenni úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna. Nánar er fjallað um ráðstefnuna á bls. XX.

Barnamenningarhátíð

Barnamenningarhátíð var haldin í Reykjavík dagana 17.-22. apríl. Umboðsmaður barna tók þátt í hátíðinni í samstarfi við Miðstöð munnlegrar sögu þar sem teknar voru upp raddir barna og frásagnir þeirra af leikjum, söngvum, bröndurum og öðru sem vekur áhuga barna. 

Umboðsmaður barna leikur sér

Á árinu 2011 ákvað umboðsmaður barna að taka reglulega frá smá stund í hverjum mánuði og leika sér með öðrum starfsmönnum embættisins. Umboðsmaður barna hélt áfram að leika sér fram á mitt árið 2012. Afrakstur hvers mánaðar var sett saman í stutt myndbrot sem umboðsmaður birtir á You Tube síðu sinni. Þar má sjá myndband fyrir hvern mánuð.

HEIMSÓKNIR, FUNDIR, MÁLÞING OG RÁÐSTEFNUR

Heimsóknir og fundir

Umboðsmaður barna fékk á árinu margar heimsóknir frá einstaklingum og fulltrúum stofnana og félagasamtaka. Sömuleiðis heimsóttu umboðsmaður barna og starfsmenn embættisins ýmsar stofnanir og félagasamtök á árinu. Auk þess átti umboðsmaður fundi með ýmsum aðilum í samfélaginu með það fyrir augum að efla samvinnu þeirra sem vinna að hag barna. Má nefna eftirfarandi fundi og heimsóknir:

 • Aðilar frá grænlenskri skammtímavistun fyrir einhverf börn.
 • Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
 • Félag íslenskra barnalækna.
 • Formaður og sálfræðingur SÁÁ.
 • Framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar.
 • Framkvæmdastýra mannréttindasafns Kanada.
 • Fulltrúi frá Rauða krossinum
 • Fundaröð á vegum UNICEF á Íslandi um málefni í barnavernd, þ.e. heimilisofbeldi og vanræksla, kynferðisleg misnotkun og kynferðisleg misneyting og einelti.
 • Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
 • Hagsmunaaðilar í velferðarráðuneytinu vegna tillagna að frumvarpi til laga um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda.
 • Forstöðumaður Slysavarnarhúss og umhverfisráðuneytisins.
 • Hraunberg 15, skammtímaheimili fyrir börn.
 • Lögreglustjórinn á Suðurnesjum
 • Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins (Human Rights Commissioner of the Council of Europe).
 • Skólamálanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga.
 • Slysavarnarhúsið.
 • Velferðarnefnd Alþingis.
 • Viðburðarstjóri hjá Höfuðborgarstofu vegna Barnamenningarhátíðar.
 • Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.

Auk þess voru fleiri heimsóknir eða fundir sem fjallað er nánar um í köflum skýrslunnar. Að lokum er rétt að geta þess að umboðsmaður barna heimsótti skóla, ungmennaráð og félagasamtök í tengslum við kynningar á embættinu, sbr. upptalningu á bls. XX.

Málþing og ráðstefnur

Umboðsmaður barna og starfsmenn embættisins sóttu fjölmarga fundi, málþing og ráðstefnur um málefni barna og ungmenna. Má meðal annars nefna:

Janúar

 „Er barnalýðræði á Íslandi? “, málþing á vegum Þroskaþjálfafélags Íslands. Grand Hótel.

„Velferð á óvissutímum“, ráðstefna á vegum Félagsráðgjafardeildar og Þroskaþjálfabrautar Háskóla Íslands, Ís-Forsa, Þroskaþjálfafélag Íslands og Félagsráðgjafafélag Íslands. Grand Hótel.

Ráðstefna um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu á vegum innanríkisráðuneytisins, Lagadeild Háskóla Íslands og Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni. Háskóli Íslands.

Morgunverðarfundur um réttindi og lýðræði í leikskólum á vegum Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (Rannung). Grand hótel.

„Frost er úti fuglinn minn... Börn og áföll“, ráðstefna á vegum barna- og unglingageðdeildar Landspítalans. Laugardalshöll.

„Tjáningarfrelsi og lýðræði“, morgunverðarfundur á vegum innanríkisráðuneytisins. Iðnó í Reykjavík.

Febrúar

„Réttindi og lýðræði í leikskóla“, morgunverðarfundur á vegum Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna. Grand hótel.

„Þjónusta Barnahúss: Reynsla barna og ungmenna á skýrslutöku og meðferð árin 2007-2009“, kynning á rannsókn á vegum Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF). Háskóli Íslands.

„Ábendingar barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

„Framtíð barna: Forvarnir 1, 2 og 3!“, málþing á vegum Lionshreyfingar á Íslandi í samvinnu við Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd og félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Háskóli Íslands.

Málstofa um félagslega stöðu og viðhorf ungs fólks sem fengu þjónustu Barnaverndar Kópavogs, haldin á vegum Barnaverndarstofu, Barnaverndar Reykjavíkur, félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og faghóps félagsráðgjafa í barnavernd. Barnaverndarstofa.

„Af hverju bara á Íslandi? Ný barnalög án dómaraheimildar – Norrænn samanburður“, ráðstefna á vegum Félags um foreldrajafnrétti. Háskólinn í Reykjavík.

Kynning á helstu niðurstöðum rannsóknar Innocenti, rannsóknarmiðstöðvar UNICEF, á viðbrögðum Norðurlandaþjóða við mansali á börnum á vegum UNICEF á Íslandi. Sjóminjasafn Reykjavíkur.

Mars

„Heilbrigðar tennur: Mannréttindi eða forréttindi?“, málþing um tannheilsu íslenskra barna á vegum Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. Grand hótel.

„Skóli sem siðvætt samfélag: Menntarannsóknir og framkvæmd menntastefnu“, ráðstefna á vegum Félags um menntarannsóknir. Háskóli Íslands.

„Velferð barna þremur árum síðar! Hvað segja lykiltölur um stöðuna í dag?“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

„Hinn launhelgi glæpur – kynferðisbrot gegn börnum“, málþing á vegum lagadeildar Háskólans í Reykjavík í samstarfi við Réttindi barna. Háskólinn í Reykjavík.

„Kynning á tveimur MA rannsóknum um beitingu úrræðanna tilsjón og stuðningsfjölskyldu í barnaverndarstarfi“, málstofa á vegum Barnaverndarstofu, Barnaverndar Reykjavíkur, félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og faghóps félagsráðgjafa í barnavernd. Háskóli Íslands.

„Ungt fólk og lýðræði“, ungmennaráðstefna á vegum Ungmennafélags Íslands. Hvolsvöllur.

„Þjónusta við jaðarhópa. Þroskaskerðing og reiðivandi hjá börnum og unglingum“, málþing á vegum Félags íslenskra uppeldis- og meðferðarúrræða fyrir börn og unglinga. Rúgbrauðsgerðin.

„Hvað ræður för?“, málþing um kvíðaraskanir barna og ungmenna á vegum Sjónarhóls. Hótel Hilton Reykjavík Nordica.

Apríl

Málstofa um einelti á vegum Rannsóknarstofu í bernsku- og æskulýðsfræðum og Verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti. Háskóli Íslands.

„Velferð barna þremur árum eftir hrun“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

„Tilraunaverkefni vegna heimilisofbeldis – staðan eftir sex mánaða reynslutíma“, málstofa á vegum Barnaverndarstofu, Barnaverndar Reykjavíkur, félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og faghóps félagsráðgjafa í barnavernd. Barnaverndarstofa.

„Ungt fólk 2012 í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla“, kynningarfundur á niðurstöðum úr fyrrnefndri æskulýðsrannsókn. Háskólinn í Reykjavík.

Barnamenningarhátíð í Reykjavík.

Maí

„Nordiska erfarenheter om barnkonventionen spreds“, samráðsfundur á vegum félagsmálaráðuneytisins þar sem Norðurlöndin deildu reynslu og upplýsingum um réttarfarslega stöðu Barnasáttmálans í sínu landi. Svíþjóð.

„Samvinna skóla og barnaverndar“, ráðstefna á vegum Barnaverndarstofu í samstarfi við Skólastjórafélag Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtaka félagsmálastjóra, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur og Barnaverndar Reykjavíkur. Grand hótel.

„Vistheimili barna Laugarásvegi – tækifæri og áskoranir til framtíðar“, málstofa á vegum Barnaverndarstofu, Barnaverndar Reykjavíkur, félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og faghóps félagsráðgjafa í barnavernd. Barnaverndarstofa.

„Sumarhátíð – gaman saman, sýnum ábyrgð“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.
Ársfundur UNICEF á Íslandi. Þjóðminjasafn Íslands.
„Íhlutun í æsku – ábati til framtíðar“, vorráðstefna á vegum Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Grand hótel.

„Aðgangur útlendinga frá ríkjum utan EES að Íslandi“, morgunverðarfundur á vegum innanríkisráðuneytisins um mannréttindamál. Iðnó.

Fundarstjórn á aðalfundi félags forstöðumanna ríkisstofnana. Grand hótel.

Júní

„Innleiðing Barnasáttmálans á Norðurlöndunum“, málstofa á vegum umboðsmanns barna. Þjóðminjasafn Íslands.

Ágúst

„Lærum hvert af öðru – virkjum grunnþættina“, málþing á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í samstarfi við Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga. Flensborgarskólinn í Hafnarfirði.

„Understanding why some mothers find it hard to love their babies“, námsdagur á vegum Miðstöðvar foreldra og barna í samstarfi við Þerapeiu, Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd, Embætti landlæknis og Barnaverndarstofu. Þjóðminjasafnið.

Hringþing um menntamál innflytjenda á vegum innflytjendaráðs, velferðarráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Þjónustumiðsvöðvar Miðborgar og Hlíða, Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Fjölmenningarseturs, Tungumálatorgs, Háskóla Íslands, Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Rúgbrauðsgerðin.

September

„Unnið gegn einelti – ábyrgð og skyldur“, málþing á vegum Skólastjórafélags Íslands. Grand hótel.

„Fastur á netinu?“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

„Samráð í sátt“, afmælisþing Heimilis og skóla. Gerðuberg.

„Gleym mér ei – Börn sem aðstandendur“, örráðsstefna á vegum Krabbameinsfélagsins. Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins.

„Hvað tekur við? Ungt fólk með ADHD og fræðsluskyldan“, málþing á vegum ADHD samtakanna. Háskóli Íslands.

Október

„Barnasáttmálinn – frá réttindum til raunveruleika“, námskeið á vegum umboðsmanns barna. Norræna húsið.

„Afdrif barna sem dvöldu á meðferðarheimilum BVS 2000-2007“, kynning á niðurstöðum rannsókna á vegum Barnaverndarstofu, Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd og Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Háskóli Íslands.

„Nýjar ógnir við friðhelgi einkalífs og meðferð persónuupplýsinga“, ráðstefna á vegum innanríkisráðuneytisins og Persónuverndar í samvinnu við Mannréttindastofnun og Lagadeild Háskóla Íslands. Háskóli Íslands.

„Ungt fólk 1992-2012. Æskulýðsrannsóknir í 20 ár – Hvað vitum við nú sem við vissum ekki þá?“, ráðstefna á vegum Rannsóknar og greiningar. Háskólinn í Reykjavík.

Fundur um stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar á Íslandi á vegum innanríkisráðuneytisins. Iðnó í Reykjavík.

„Raddir barna“, ráðstefna á vegum Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna. Háskóli Íslands.

„Skaðleg áhrif hávaða í námsumhverfi barna á rödd, heyrn og líðan“, ráðstefna til að heiðra minningu Önnu Bjarkar Magnúsdóttur raddmeinafræðings af félögum hennar í „Nordic Voice Ergonomic Group“. Hringsalurinn, Landspítali Háskólasjúkrahús.

„Óbein áfengisneysla – áhrif á börn og samfélag“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

„Áhrif ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins á löggjöf, reglur og málsmeðferð við könnun máls“, málstofa um barnavernd á vegum Barnaverndarstofu, Barnaverndar Reykjavíkur, félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og faghóps félagsráðgjafa í barnavernd. Barnaverndarstofa.

Nóvember

„Hvað er nýtt – hvað er framundan?“, ráðstefna um breytingar á barnalögum, undirbúning að gildistöku og framkvæmd laganna á vegum innanríkisráðuneytisins, Rannsóknarstofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni og Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd. Hótel Saga.

„Lýðræði á 21. öld“, ráðstefna um eflingu lýðræðis á Íslandi á vegum innanríkisráðuneytisins í samvinnu við Lýðræðisfélagið Öldu, Reykjavíkurborg og umboðsmann barna. Ráðhús Reykjavíkur.

„Börnum rétt hjálparhönd – Rannsókn á aðgerðum barnaverndar vegna neysluvanda foreldra“, kynning á rannsókn á vegum velferðarráðuneytisins. Barnaverndarstofa.

„Hvernig nýtist PMT aðferðafræði í barnaverndarstarfi?“, málstofa á vegum Barnaverndarstofu í samstarfi við Barnavernd Reykjavíkur, félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og faghóps félagsráðgjafa í barnavernd.

„Hvernig getur samfélagið stutt við börn í erfiðum aðstæðum?“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

„Foreldradagurinn. Samskipti í samhengi“, málþing á vegum Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra. Öldutúnsskóli.

Dagur gegn einelti. Hátíðardagskrá á vegum verkefnastjórnar um aðgerðir gegn einelti. Þjóðmenningarhúsið.

Ráðstefna um íslenskar æskulýðsrannsóknir, á vegum Tómstunda- og félagsmálafræðibrautar MVS Háskóla Íslands, Æskulýðsráðs, Félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri, Rannsóknar og greiningu ehf. og Ráðgjafanefnd um æskulýðsrannsóknir. Aðrir samstarfsaðilar eru Félag fagfólks í frítímaþjónustu (FFF) og Rannsóknarstofa í Bernsku- og æskulýðsfræðum (BÆR).

Desember

„Forsjá barna af erlendum uppruna“, hádegisverðarfundur á vegum Fjölmenningarseturs og Mannréttindaskrifstofu Íslands í samvinnu við Innflytjendaráð og velferðarráðuneytið. Iðnó.

 

Dæmi um erindi sem bárust á árinu 2012

Stúlka: „hvar nær maður í umboðsmenn???“
Móðir veltir því fyrir sér hvort það sé möguleiki að geta fengið ráðgjafa eða fulltrúa sem gæti séð alfarið um mál sitt, eða hvort slíkt sé ekki í boði?
Vinkona spyr hvort að umboðsmaður geti hjálpað vinkonu  hennar með að borga leigu fyrsta mánuðinn þangað til hún fær vinnu. Getur umboðsmaður bent á einhvern sem getur hjálpað?
Móðir hafði samband til að fá upplýsingar um tölulegar upplýsingar um tíðni skilnaða eða sambúðarslita á meðal foreldra langveikra og fatlaðra barna.
15 ára stúlka: „Mig vantar að vita hvaða þjóðir eru ekki búnar að skrifa undir sáttmálann, getur þú svarað því ?“
14 ára drengur: „Er leyfilegt að börn eigi ekki eigið herbergi?“
16 ára stúlka leitaði aðstoðar vegna erfiðleika varðandi heilsufar, líðan, fjölskylduaðstæður og skólagöngu.
15 ára stúlka spyr hvort foreldrar hennar hafi rétt á að banna henni að hitta kærastann sinn og segja henni að slíta sambandi við hann.
14 ára drengur spyr hvort það sé leyfilegt að halda börnum í einhverju landi ef þau vilja ekki vera þar og hvort það séu einhver lög sem fjalla um þetta.
15 ára stúlka: „hvert á ég að leita með fjölskylduvandamál? ég er komin með nóg get ekki látið bróðir minn alast upp við þetta líka“
Unglingsstúlka hafði samband og spurði hvort  foreldrar hafi rétt til að skoða sms í símanum hennar án hennar leyfis og taka símann af henni? Mega þau kalla hana illum nöfnum? Mega þau banna henni að hitta kærastann sinn? Hvað getur hún gert?
14 ára stúlka segir frá rifrildi við móður og að faðir hafði hótað því að slá hana utan undir.
13 ára stúlka : „Ég veit ekki hvort ég sé hrifin af stelpum eða strákum og líður mjög illa yfir þessu.“
Drengur: „Í dag hringdi í mig strákur, á svipuðum aldri og ég & hótaði mér. Hvað skal gera?“
Stúlka: „Mig langar að koma því á framfæri að mér finnst vanta þekkingu hjá unglingum og fullorðnum um sjálfsmeiðsl, sjálfsmorðsíhuganir og þunglyndi.“
16 ára stúlka hafði samband og vantaði upplýsingar um forsjá. Má hún ráða hvar hún býr og hver fer með forsjá yfirhenni? Getur lögreglan sótt hana með valdi ef foreldrar kjósa það?
Móðir hafði samband vegna föðurs sem fer einn með forsjá yfir börnum þeirra og ætlar að flytja til útlanda. Eldra barnið vill ekki flytja en faðirinn tekur ekki í mál að hún verði eftir á Íslandi.
16 ára drengur vill breyta umgengni við föður og minnka hana. Hver er réttur hans til þess?
Drengur með lögheimili hjá föður vill ekki fara aftur til hans úr umgengni frá móður. Hvað er hægt að gera?
13 ára stúlka spyr hvort  börn geti sagt sína skoðun í forsjármálum. Getur hún t.d. átt fund með sýslumanni án þess að hafa móður eða föður með og sagt sína skoðun?
15 ára drengur vill sveigjanlegri umgengi við föður en faðirinn er fastur fyrir og segir að hann sem faðir eigi þennan rétt.
Hvenær hafa börn rétt á að tjá sig og hafa skoðun á umgengni við foreldra?
Móðir hafði samband og vantaði upplýsingar um umgengni föður sem fer ekki með forsjá og er í neyslu og reykir daglega hass.
Móðir spyr um jafna búsetu barna hjá báðum foreldrum eftir skilnað. Hvernig snúa mál þegar foreldrar búa í sitthvorum landshlutanum og barnið býr mánuð í einu hjá hvoru foreldri?
Amma hafði samband til að fá að vita hver væri réttur barna til umgengni við ömmu og afa og hvort hægt væri að fara fram á formlegan umgengnisrétt.
12 ára stelpa vill búa hjá pabba sínum en móðir fer með forsjá og neitar að samþykkja þá tilhögun.
14 ára stúlka spyr hvernig hún geti sagt mömmu sinni að hún vilji flytja til pabba síns án þess að særa hana og spyr hvort hún hafi rétt til að ráða hvar hún býr?
Getur móðir ákveðið að takmarka umgengni ef hún fer ein með forsjá?
Er hægt að neyða barn til að eyða jólunum með því foreldri sem barnið býr ekki hjá?
Hvaða upplýsingar má veita forsjárlausu foreldri?
Móðir spyr hvort barn megi ráða hvar það eyðir jólunum.
Stjúpmóðir hafði samband vegna stjúpbarns síns en Þjóðskrá flutti lögheimili drengsins óvart erlendis með móður en faðir hafði neitað því. Hvaða þýðingu hefur það fyrir foreldra og drenginn að lögheimili barnsins var flutt?
Þjóskrá breytti lögheimili án þess að lögheimilisforeldri þyrfti að samþykkja það. Má það?
Móðir fer ein með forsjá drengs en faðir breytti lögheimil hans og skráði hann í annan skóla. Hvað er til ráða?
Hvernig er hægt að breyta lögheimili barns?
Má 14 ára drengur ráða hvar hann býr?
Faðir hafði samband vegna sonar síns sem býr hjá móður erlendis en líður illa þar og vill flytja heim en móðir neitar að flytja lögheimilið.
Móðir hafði samband vegna barns með ADHD og tourette. Skólinn hefur fengið greiðslur vegna hans sem nýta á í sérkennslu en hann fékk hana fyrst nýlega. Núna á að taka sérkennsluna af honum.
Hvenær er námsráðgjafa skylt að gefa upplýsingar?
Barn hefur ekki farið í skólann í nokkra daga vegna kvíðaröskunar sem magnast upp þegar það sér eða hittir kennara sem hefur komið illa fram við það. Hvað er hægt að gera?
Kennari hafði samband vegna heyrnaskerts barns sem hann telur ekki fá þjónustu við hæfi og hefur verið án skóla í nokkrar vikur vegna þess.
Nemandi í menntaskóla svindlaði á prófi með síma. Þegar upp komst um svindlið var síminn tekinn af honum og stjórnendur skólans neituðu að láta hann fá símann aftur fyrr en að loknu helgarfríi.
Stuðningsfulltrúi er dónalegur og valdmannslegur og börn eru hrædd við hann. Hvað þarf til þess að hann fái áminningu?
Drengur lenti í átökum í skólanum en enginn hringdi í foreldra og lét vita.
Nemendur sögðu frá starfsmanni sem hefði slengt tusku framan í einn þeirra og ekkert var gert af hálfu skólans.
Foreldrar eiga að skrifa undir yfirlýsingu um að þau hafi lesið og kynnt sér skólareglur og þau viðurlög sem fylgja þeim. Er hægt að nota þetta gegn foreldrum?
Nemandi í framhaldsskóla hafði samband og spurði hvort leyfilegt sé að skóli meini nemanda að fara á skólaball vegna atviks sem kom upp utan skóla?
Má starfsfólk skóla leita í dóti barns í skólaferðalagi?
Drengur spyr hvort hann geti kært yfirferð kennara á prófi og látið óháðan aðila fara aftur yfir það?
„Hvert ber að snúa sér sé uppi grunur um að bekkjarkennari barns sé því hættulegur og fyrir liggur að ekki er hægt að treysta skólayfirvöldum til að taka á málinu?“
Móðir hafði samband vegna sonar síns sem er með væga þroskahömlun. Honum var meinuð skólaganga í sérskóla. Er hægt að kæra þetta til mennta- og menningarmálaráðuneytisins?
Má banna nemendum að koma með óholla fæðu til að neyta í nestistíma í skóla og stangast það á við almenn mannréttindi?
Móðir spyr hvort það sé rétt að börnum sé mismunað eftir sveitarfélögum hvenær þau byrja á leikskóla?
Stúlka segir frá mikilli vanlíðan í skóla og að hún eigi enga vini. Hún situr oftast ein í tímum og hugsar hvort lífið sé þess virði að lifa því. Hvað á hún að gera?
„Grunnskólar þurfa sjálfir að standa straum af kostnaði við að setja upp eftirlitsmyndavélar við skóla ef þeir kjósa svo. Þarf ekki að gera átak í þessu til að vernda börnin?“
„Geta foreldrar krafist þess að framhaldsskóli sýni sveigjanleika til að mæta þörfum nemenda sem glíma við langvarandi veikindi?“
Má starfsfólk skóla yfirbuga nemendur?
Hverjir geta farið fram á hávaðamælingar í skóla?
Móðir spyr hvert sé hægt að leita vegna hávaða frá loftpressu sem var verið að nota rétt við girðingu leikskólalóðarinnar.
Sameina á efsta stig leikskóla við grunnskóla, hvert er álit umboðsmanns barna á því?
Foreldri hafði samband vegna þess að ekki var haft lögbundið samráð við foreldra áður en ákveðið var að sameina grunnskóla tímabundið.
Móðir hafði samband og spurði hverjir eru aðilar máls þegar leikskólar eru sameinaðir. Talið að við málsmeðferð og sameiningu hafi ekki verið litið til áhrifa á fagstarf eða börnin almennt. Er hægt að kæra ákvörðunina?
Faðir hafði samband vegna skipulagsbreytinga á leikskóla þar sem foreldrar höfðu ekki fengið að hafa aðkomu að málinu.
Móðir og faðir fara sameiginlega með forsjá barns og hafa jafna umgengni. Þau búa í sitthvorum landshlutanum og barnið fær aðeins pláss á leikskóla í lögheimilissveitarfélagi sínu.
Hver er lágmarkstími sem má bjóða börnum til að borða hádegismat? Eru 10 mínútur nægur tími?
 „Eru unglingamóttökur enn starfræktar?“
Móðir hafði samband og benti á mismunun stúlkna sem fá HPV bólusetningar en miðað er við að 12 ára stúlkur fái bólusetninguna án endurgjalds en eldri stúlkur þurfa að borga háar upphæðir.
Foreldrar fara sameiginlega með forsjá, þurfa þau bæði að samþykkja bólusetningu fyrir barn sitt?
Er heimilt að veita barni sálfræðiþjónustu ef foreldrar eru ekki saman en fara sameiginlega með forsjá og annað foreldri neitar?
Má sálfræðingur taka börn í meðferð ef annað foreldrið samþykkir það ekki?
Móðir: „Mega sálfræðingar taka barn í tíma án þess að ráðfæra sig við foreldra og forsjáraðila?“
Má sálfræðingur veita 11 og 13 ára börnum sálfræðimeðferð þó svo að annað foreldrið, sem fer jafnframt með forsjá þeirra, samþykki það ekki?
Hjúkrunarfræðing vantar upplýsingar um hvað eigi að gera þegar stúlkur vilja fá bólusetningu vegna leghálskrabbameins en foreldrar neita að gefa leyfi sitt.
Faðir hafði samband vegna frumvarps um breytingu á lyfjalögum og lögum um landlækni og lýðheilsu þar sem hjúkrunarfræðingum yrði veitt heimild til að ávísa hormónalyfjum.
Móðir hafði samband og finnst í ólagi að skólahjúkrunarfræðingar eigi að fá að útvega barnungum stúlkum pilluna.
„Hvað þurfa börn að vera gömul til að fá getnaðarvörn?“
17 ára stúlka spyr hvort hún eigi rétt á einhvers konar fjárhagsaðstoð einhvers staðar frá.
Amma: „Hvað þarf barn sem er í umsjá barnaverndar langan umgengnistíma við foreldra á viku til þess að halda tengslum við foreldrana? Hver er réttur barna til að viðhalda tengslum við foreldra sína á meðan þau eru í umsjá barnaverndar?“
16 ára drengur hafði samband og líður illa á fósturheimili og spyr hvort hann geti rift samningnum?
Hver á að borga úrræði fyrir barn sem er með fötlun, þroskahömlun og í neyslu?
Er hægt að óska eftir nafnleynd hjá barnavernd?
Ábending vegna barna með geðræn vandamál sem fá ekki þá þjónustu sem þau þurfa á að halda.
17 ára stúlka spyr hvort hún eigi rétt á einhvers konar fjárhagsaðstoð einhvers staðar frá.
Amma: „Hvað þarf barn sem er í umsjá barnaverndar langan umgengnistíma við foreldra á viku til þess að halda tengslum við foreldrana? Hver er réttur barna til að viðhalda tengslum við foreldra sína á meðan þau eru í umsjá barnaverndar?“
Faðir hafði samband vegna ófullnægjandi öryggismála í íbúðarhverfi þar sem húsgrunnar standa opnir öllum og steypustyrktarjárn eru óvarin.
Kvartað vegna aðbúnaðar sem börnum er boðið uppá á leiksvæðum sínum. Á fótboltavöllum er notað kurlað gúmmí sem inniheldur eiturefni sem ógnar heilsu barna.
Faðir spyr hvort miðað sé við 10 ára afmælisdag eða barn á tíunda ári í reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.
Foreldrar vöktu athygli á að öryggi barna væri oft ábótavant í skólasundi.
Níu ára stúlka hafði samband og spyr af hverju krakkar á tíunda ári mega ekki fara aleinir í sund. Telur það óréttlátt að börn þurfi að vera búin að eiga afmæli til að fara í sund því að allir eru búnir að læra jafn mikið.
Dæmi um að börn í rútum og strætó séu látin fara úr öryggisbeltum fyrir fullorðna og látin sitja á gólfinu.
Móðir: „Eru skólabílar virkilega undanskildir lögum um barnabílstólanotkun?“
Erindi þar sem barn var ekki í þar til gerðum öryggisbúnaði í strætó á milli Hveragerðis og Selfoss.
Er leyfilegt að þrjú börn deili tveimur sætum í langferðabílum á vegum frístundaheimila?
Maður notaði mynd af barni á Facebook síðu sinni sem hann fann einhvers staðar á netinu. Móðir tók eftir því og bað hann um að taka hana út en hann neitar að gera það.
Faðir benti á að eftir barnaefni Stöðvar 2 var sýnd óviðeigandi dagskrárauglýsing.
Móðir hafði samband vegna ljósmynda sem RÚV sýndi sem hún taldi ekki við hæfi barna.
Kvörtun vegna áfengisauglýsinga á útvarpsstöðvum sem sérstaklega höfða til barna og ungmenna.
Netsíða sem brýtur á réttindum barna
Maður hafði samband vegna mismununar gagnvart börnum þegar kemur að gjaldtöku og taldi ástæðu til að aðhafast í þessu máli til að öll börn hefðu sama rétt.
„Hvenær verða börn fullorðin, í gjaldtöku!“
Móðir hafði samband vegna þess að börn borga fullorðinsgjald frá 12 ára aldri hjá Icelandair en fá ekki ávinning af fargjaldinu í formi punkta sem veita afslátt fyrr en þau verða 18 ára. Stenst þetta lög?
Er verið að mismuna börnum á grundvelli búsetu þegar niðurgreiðslur á íþróttum og tómstundastarfi barna eru mismunandi eftir sveitarfélögum? Sé svo, er það löglegt?