Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Ársskýrslur

Ársskýrsla umboðsmanns barna 2011

Hér er birt óuppsett ársskýrsla umboðsmanns barna fyrir árið 2011.

Uppsetta ársskýrslu með myndum má skoða með því að smella hér á vef umboðsmanns barna.

Ársskýrsla umboðsmanns barna 2011

Til forsætisráðherra

Í samræmi við 8. gr. laga nr. 83/1994 um umboðsmann barna hefur umboðsmaður látið taka saman skýrslu þessa um starfsemi embættisins.

Starfsárið 2011 var erilsamt og viðburðarríkt. Fyrir utan hefðbundin verkefni embættisins fór töluverður tími í að efla og styðja við þátttöku barna í samfélaginu og þar bar hæst samstarfsverkefni umboðsmanns barna, UNICEF á Íslandi og Reykjavíkurborgar um „Stjórnlög unga fólksins“. Þá kannaði embættið hvernig leik- og grunnskólar standa að starfi með börnum í anda lýðræðis og þátttöku. Einnig hafði pólitísk og efnahagsleg umræða í samfélaginu bein og óbein áhrif á störf umboðsmanns enda var skorið niður í þjónustu við börn á ýmsum sviðum og skólar og deildir sameinaðar í andstöðu við vilja foreldra. Þegar þessar erfiðu ákvarðanir voru teknar virtist lítið hlustað á raddir barna og bein áhrif þessara ákvarðana á daglegt líf barna virtust stundum lítt könnuð. Einnig má nefna að nokkur ný mál varðandi heilsuvernd barna voru tekin fyrir hjá embættinu á árinu. Þessu eru gerð ítarlegri skil í skýrslunni, auk þess sem hægt að skoða heimasíðu umboðsmanns barna www.barn.is en þar eru ýmsar upplýsingar sem fróðlegt getur verið að lesa.

Eitt af stærri verkefnum umboðsmanns barna ársins 2010 var ritun skýrslu til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Árið 2011 var skýrsla íslenska ríkisins tekin fyrir hjá nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins en í fyrirtökunni byggði Barnaréttarnefndin töluvert á skýrslu umboðsmanns barna. Í kjölfarið fékk íslenska ríkið ábendingar um hvað mætti betur fara hér á landi. Embættið mun vinna með niðurstöður nefndarinnar næstu árin með beinum og óbeinum hætti.

Ársskýrslan er með hefðbundnu sniði. Fyrsti hlutinn er um starfsemi embættisins. Síðan er fjallað um ólík málefni sem embættið vann að á árinu 2011.

Reykjavík, 20. júní 2012

Margrét María Sigurðardóttir


STARFSEMI EMBÆTTISINS

Hlutverk umboðsmanns barna

Í lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 er umboðsmanni barna falið það mikilvæga hlutverk að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Umboðsmaður barna skal vinna að því að tekið sé fullnægjandi tillit til barna á öllum sviðum samfélagsins, jafnt hjá opinberum aðilum sem og einkaaðilum, og bregðast við ef brotið er á réttindum þeirra. Umboðsmaður barna á að hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu um málefni þeirra. Þá er embættinu ætlað að koma með ábendingar og tillögur um það sem betur má fara í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem varða málefni barna. Það er einnig hlutverk umboðsmanns að kynna almenningi þá löggjöf sem varðar börn sérstaklega.

Umboðsmanni barna er hins vegar ekki ætlað að taka til meðferðar ágreining milli einstaklinga. Honum er þó skylt að leiðbeina þeim sem til hans leita með slík mál og benda á hvaða leiðir eru færar innan stjórnsýslunnar og hjá dómstólum.

Starfsfólk umboðsmanns barna

Margrét María Sigurðardóttir hefur gegnt starfi umboðsmanns barna frá 1. júlí 2007. Auk hennar starfa við embættið þrír starfsmenn, þau Auður Kristín Árnadóttir, Eðvald Einar Stefánsson og Elísabet Gísladóttir. Frá 1. ágúst hefur Bára Sigurjónsdóttir, starfað í stað Elísabetar Gísladóttur sem tók sér námsleyfi í eitt ár. Á árinu fékk umboðsmaður barna einnig starfsnemann Hjördísi Þórðardóttur í þrjá mánuði haustið 2011 en Hjördís leggur stund á meistaranám í mannréttindum barna (s. Masterprogram í mänskliga rättigheter och barnets bästa) við Háskólann í Stokkhólmi. Auk þess störfuðu nemar, sem stunda lögfræðinám við Háskólann í Reykjavík, hjá umboðsmanni í styttri tíma. Embættið reynir að sinna endurmenntun eftir þörfum og sóttu allir starfsmenn skyndihjálparnámskeið á árinu. Umboðsmaður barna telur eðlilegt að þeir sem starfa með börnum hafi kunnáttu á þessu sviði og því taldi umboðsmaður mikilvægt að allt starfsfólk embættisins haldi þekkingu sinni við.

Erindi

Dagleg störf á skrifstofu umboðsmanns barna mótast mikið af þeim erindum sem embættinu berast. Erindin eru af margvíslegum toga og eru það ýmist einstaklingar, stofnanir, félagasamtök eða fjölmiðlar sem leita til umboðsmanns barna og óska eftir upplýsingum eða ráðgjöf varðandi málefni barna. Málaflokkarnir eru margir og fjölbreytilegir enda koma hagsmunir barna við sögu á flestum sviðum samfélagsins. Ákveðnir málaflokkar eru þó meira áberandi en aðrir og ber þar helst að nefna forsjár- og umgengnismál, meðlagsmál, skólamál, barnaverndarmál og heilbrigðismál.

Eins og áður hefur verið minnst á er umboðsmanni barna ekki ætlað að taka til meðferðar ágreining milli einstaklinga eða mál einstaklinga sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum eða dómstólum. Fjöldi erinda sem embættinu berast varða þó slík mál. Umboðsmaður barna kappkostar að veita þeim einstaklingum sem leita til hans greinargóðar upplýsingar, leiðbeiningar og ráð eins og unnt er hverju sinni. Stundum er óskað eftir að umboðsmaður setji reglur eða gefi út leiðbeiningar og álit um ákveðin málefni, dæmi um slíkt eru reglur um það hvenær megi skilja börn eftir ein heima og við hvaða aldur eigi að miða þegar leitað er eftir áliti barna í fjölskyldumálum.

Á árinu 2011 bárust alls 1408 erindi til umboðsmanns barna, þar af 835 munnleg erindi og 573 skrifleg. Með munnlegum erindum er átt við öll símtöl sem berast embættinu og viðtöl við einstaklinga sem eiga sér stað á skrifstofu þess. Með skriflegum erindum er átt við allar fyrirspurnir og erindi sem varða ákveðið barn eða hóp barna. Þar að auki berast umboðsmanni barna reglulega ýmiss konar ábendingar, upplýsingar og boð á viðburði.

Samskipti við börn

Frá því að embætti umboðsmanns barna var stofnað hefur verið lögð rík áhersla á að ná til barna og unglinga til þess að fræða þau og ræða um réttindi þeirra. Einnig vill umboðsmaður barna heyra skoðanir barna og sjónarmið og fá ábendingar um það sem betur mætti fara. Mikilvægt er fyrir embætti sem vinnur í þágu barna að aðgengi fyrir börn sé tryggt og að þau geti á einfaldan hátt leitað til umboðsmanns barna með erindi og fengið upplýsingar um réttindi sín. Er því ávallt reynt eftir fremsta megni að svara þeim börnum sem leita til embættisins eins fljótt og hægt er. Börn sem leita til embættisins geta rætt við umboðsmann barna eða aðra starfsmenn embættisins í fullum trúnaði. Starfsmenn embættisins eru þó bundnir af reglum barnaverndarlaga nr. 80/2002 um tilkynningaskyldu með sama hætti og aðrir þjóðfélagsþegnar.

Flest erindi frá börnum berast í gegnum netið, ýmist með tölvupósti á netfang embættisins, ub@barn.is, eða í gegnum heimasíðuna, undir liðnum spurt og svarað. Þegar erindi berst eftir síðari leiðinni getur viðkomandi barn ráðið því hvort svar við því birtist á heimasíðunni www.barn.is eða hvort það fái sent persónulegt svar á netfang sitt. Ekki er gerð krafa um að börn gefi upp nafn eða aðrar persónulegar upplýsingar. Ýmis svör við spurningum sem borist hafa frá börnum og unglingum er hægt að lesa á barna- og unglingasíðum embættisins. Þó svo að fyrrgreindar leiðir séu algengastar þegar börn leita til umboðsmanns barna hefur það færst í aukana að börn komi á skrifstofu umboðsmanns og óski eftir upplýsingum og aðstoð.

Umboðsmaður barna leitast einnig við að eiga samskipti við börn með öðrum hætti, t.d. með því að fara í heimsóknir og halda kynningar fyrir skóla, frístundaheimili og ungmennaráð. Á árinu 2011 hitti umboðsmaður og starfsfólk hans allt að 2500 börn á öllum aldri og ræddi við þau um réttindi og hagsmunamál þeirra. Umboðsmaður barna er einnig með sérstakan ráðgjafahóp sem hann hittir einu sinni í mánuði en þar eiga sæti unglingar á aldrinum 13 til 17 ára.

Heimasíða umboðsmanns barna

Heimasíðu embættisins, www.barn.is, er ætlað að vera almennur gagnagrunnur um réttindi og skyldur barna og hvaðeina sem varðar hagsmuni þeirra. Heimasíðan skiptist í tvo hluta, þ.e. aðalsíðu og barna- og unglingasíðu.

Á aðalsíðunni má finna upplýsingar um starfsemi embættisins. Þar eru einnig margvíslegar upplýsingar um réttindi barna, þau lög og reglur sem gilda um hina ýmsu málaflokka og upplýsingar um stofnanir og samtök sem koma að málefnum barna.

Barna- og unglingasíðunni er ætlað að tryggja að börn og unglingar geti fengið upplýsingar og ráðgjöf um réttindi sín á einfaldan og aðgengilegan hátt. Á síðunni er auk þess að finna upplýsingar um mismunandi málaflokka og leiðbeiningar um hvert sé hægt að leita til að fá frekari aðstoð. Heimasíðan er jafnframt vettvangur fyrir börn og unglinga til þess að koma skoðunum sínum á framfæri en þar geta þau sent inn ábendingar eða fyrirspurnir til umboðsmanns barna eins og áður segir.

Verkefni umboðsmanns barna

Lög um umboðsmann barna nr. 83/1994 kveða á um lögbundin verkefni embættisins. Hins vegar ræðst starfsemin að nokkru leyti af þeim erindum sem berast embættinu eins og þegar hefur verið tekið fram. Einnig getur umboðsmaður tekið mál til skoðunar að eigin frumkvæði og komið með tillögur til úrbóta á réttarreglum og fyrirmælum stjórnvalda er varða börn sérstaklega. Umboðsmaður barna skal einnig stuðla að því að þjóðréttarsamningar sem Ísland er aðili að, og snerta réttindi og velferð barna, séu virtir. Á það fyrst og fremst við um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem í daglegu tali er nefndur Barnasáttmálinn, en hann er mikilvæg stoð fyrir allt starf embættisins. Á ári hverju sinnir umboðsmaður barna fjölmörgum erindum og verkefnum sem snerta mörg svið þjóðfélagsins. Ekki er hægt að gera grein fyrir öllu því sem umboðsmaður fæst við með tæmandi hætti í skýrslu sem þessari. Verður því aðeins leitast við að gera grein fyrir helstu verkefnum embættisins á árinu.

Kynning á embætti umboðsmanns barna

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 3. gr. laga um umboðsmann barna nr. 83/1994 skal embættið stuðla að því að kynna fyrir almenningi löggjöf og aðrar réttarreglur er varða börn og ungmenni. Kynning á hlutverki og starfsemi embættisins, sem og fræðsla um réttindi barna á öllum sviðum, er því veigamikill þáttur í starfi umboðsmanns ár hvert. Umboðsmaður barna sendi bréf til allra leik-, grunn- og framhaldsskóla landsins haustið 2011. Í bréfinu var boðið upp á kynningu á embætti umboðsmanns barna og samræður um réttindamál barna og unglinga auk þess sem meðfylgjandi voru bæklingar og hurðarspjöldin „Verum vinir“ sem umboðsmaður barna gaf út árið 2010. Einnig sendi umboðsmaður barna tölvupóst til ýmissa samtaka sem vinna með börnum og bauð þeim upp á kynningu á embættinu og réttindum barna.

Í ljós kom að margir höfðu áhuga á að fá kynningu frá umboðsmanni barna og fór talsverður tími starfsmanna embættisins í kynningar vítt og breitt um landið. Aðallega var um að ræða kynningar á höfuðborgarsvæðinu en einnig fóru umboðsmaður barna og starfsmenn hans um Suðurland, til Suðurnesja og á Vestfirði og heimsóttu grunnskóla. Hér að neðan má sjá lista yfir þá skóla og þau félagasamtök sem umboðsmaður barna heimsótti:

Grunnskólar:
 • Akurskóli
 • Árbæjarskóli
 • Áslandsskóli
 • Flóaskóli í Villingaholti
 • Grunnskólinn á Bolungarvík
 • Grunnskólinn á Hellu
 • Grunnskólinn á Kirkjubæjarklaustri
 • Grunnskólinn í Bláskógarbyggð, í Reykholti og á Laugarvatni
 • Grunnskólinn í Hveragerði
 • Grunnskólinn á Suðureyri
 • Háaleitisskóli
 • Heiðarskóli
 • Hofsstaðaskóli
 • Hólabrekkuskóli
 • Húsaskóli
 • Hvaleyrarskóli
 • Myllubakkaskóli
 • Njarðvíkurskóli
 • Norðlingaskóli
 • Sandgerðisskóli
 • Sjálandsskóli
 • Smáraskóli
 • Suðurhlíðaskóli
 • Sunnulækjarskóli
 • Súðavíkurskóli
 • Tjarnarskóli
 • Víkurskóli

Framhaldsskólar:

 • Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
 • Nemendur í uppeldis- og menntunarfræði í Kvennaskólanum í Reykjavík.

Félagsmiðstöðvar, ungmennaráð og aðrir aðilar:

 • Nemendur í barnavernd við Háskóla Íslands.
 • Nemendur í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands.
 • Nemendur í mannréttindum barna við lagadeild Háskóla Íslands.
 • Nemendur í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.
 • SAMAN-hópurinn.
 • Skólahjúkrunarfræðingar í Kópavogi.
 • Starfsfólk Miðbergs og Gerðubergs.
 • Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga – barnahjúkrun.

Í kynningum umboðsmanns barna afhendir hann venjulega ýmsa bæklinga sem embættið hefur gefið út. Árið 2010 gaf umboðsmaður út bækling um embættið á ensku til þess að fleiri geti kynnt sér starfsemi þess og réttindi barna en einungis þeir sem tala íslensku. Umboðsmaður barna sendi bréf til sveitarstjóra og ýmissa aðila sem vinna með fólki af erlendum uppruna og kynnti bæklinginn.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 20. nóvember 1989. Barnasáttmálinn er eini alþjóðlegi samningurinn sem fjallar sérstaklega um börn. Hann felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu hópur sem hafi sjálfstæð réttindi, óháð foreldrum eða forsjáraðilum, og að þau þarfnist sérstakrar umönnunar og verndar umfram hina fullorðnu. Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasamningur heims en hann hefur verið fullgiltur af öllum ríkjum heims fyrir utan tvö. Sáttmálinn var undirritaður fyrir Íslands hönd árið 1990 og fullgiltur í nóvember árið 1992. Þó að fullgilding feli í sér að íslenska ríkið sé skuldbundið til þess að virða og uppfylla ákvæði sáttmálans er sjaldan vitnað í ákvæði hans við úrlausn mála hjá stjórnvöldum og dómstólum. Sem dæmi um það má nefna að rannsókn á dómaframkvæmd hefur leitt í ljós að það sé tilviljanakennt hvort dómstólar vísi í Barnasáttmálann eða ekki.[1] Má ætla að ástæða þess sé m.a. sú að Barnasáttmálinn hefur ekki verið lögfestur hér á landi.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að lögfesta Barnasáttmálann til þess að honum verði í auknum mæli beitt í framkvæmd og að börn og fullorðnir verði meðvitaðri um réttindi barna. Á það ekki síst við í ljósi þess að niðurstöður dóma hafa verið í andstöðu við ákvæði Barnasáttmálans.

Í nóvember 2009 birti dómsmála- og mannréttindaráðuneytið frumvarp um lögfestingu á Barnasáttmálanum. Frumvarpið hefur þó enn ekki verið lagt fyrir Alþingi en það sem stendur aðallega í vegi fyrir því er sá fyrirvari sem Ísland gerði í upphafi við c-lið 37. gr. um aðskilnað ungra fanga frá þeim eldri. Þegar frumvarpið að lögfestingu sáttamálans var lagt fram var settur á fót vinnuhópur sem átti að taka til skoðunar hvernig hægt væri að haga afplánun sakhæfra barna til þess að uppfylla fyrrnefnt ákvæði. Sá vinnuhópur skilaði skýrslu um störf sín í maí 2010 og ljóst er að gera þarf breytingar í þessum efnum til þess að hægt verði að lögfesta Barnasáttmálann. Á fundi umboðsmanns barna með dómsmála- og mannréttindaráðherra staðfesti hann að verið væri að vinna í því að uppfylla skilyrði sáttmálans til þess að hægt yrði að lögfesta hann hér á landi. Umboðsmaður barna mun fylgja þessu máli eftir og halda áfram að hvetja til lögfestingar Barnasáttmálans.

Eftirlit nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins

Í lok árs 2010 sendi umboðsmaður barna skýrslu til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem í daglegu tali nefnist Barnaréttarnefndin, um það sem að hans mati mætti betur fara við framkvæmd Barnasáttmálans hér á landi. Stofnunum og frjálsum félagasamtökum, sem hafa hag barna að leiðarljósi, er heimilt að senda inn sínar athugasemdir samhliða skýrslum aðildarríkja líkt og umboðsmaður gerði. Skýrsla umboðsmanns var engan veginn tæmandi heldur gaf hún einungis yfirlit í þeim málum sem umboðsmaður barna taldi mikilvægast að úr yrðibætt. Þegar umboðsmaður barna hafði skilað sinni skýrslu sendi hann öllum ráðherrum og nefndarmönnum á Alþingi bréf þar sem hann hvatti þá til að kynna sér efni skýrslunnar og taka tillit til þeirra athugasemda sem þar komu fram.

Árið 2008 skilaði íslenska ríkið til Barnaréttarnefndarinnar þriðju og fjórðu skýrslu sinni í einu um framkvæmd Barnasáttmálans hér á landi, sbr. 1. mgr. 44. gr. sáttmálans, en skýrslan var uppfærð seinni hluta ársins 2010 þar sem fyrirtöku hennar var frestað. Skýrslan var tekin fyrir á fundi Barnaréttarnefndarinnar í Genf í lok september 2011. Nefndin fór yfir skýrslu stjórnvalda um það hvernig íslenska ríkið uppfyllir Barnasáttmálans og spurði íslensku sendinefndina um stöðu mála, m.a. með hliðsjón af skýrslum umboðsmanns barna og frjálsra félagasamtaka. Umboðsmaður barna var viðstaddur fyrirtökuna og fékk tækifæri til að ræða við nokkra nefndarmenn um þau mál sem helst voru til umræðu.

Lokaathugasemdir Barnaréttarnefndarinnar bárust svo snemma í október en þar kemur fram hvaða ráðstafanir ríkisins nefndin er ánægð með, hver helstu áhyggjuefni nefndarinnar eru, tilmæli hennar um hluti sem þarf að bæta og leiðbeiningar um það hvernig réttast er að haga málum í sem bestu samræmi við Barnasáttmálann. Í athugasemdum nefndarinnar lýsir hún m.a. yfir ánægju með ýmsar lagabreytingar sem eru börnum til góðs ásamt öðru sem nefndin telur gott á Íslandi. Nefndin gagnrýnir íslenska ríkið fyrir að hafa ekki uppfyllt fyrri athugasemdir nefndarinnar og þá sérstaklega að fyrirvari við 37. gr. sáttmálans hafi ekki enn verið dreginn til baka og sáttmálinn lögfestur. Barnaréttarnefndin byggir athugasemdir sínar að mestu leyti á munnlegum og skriflegum upplýsingum frá íslenska ríkinu og skýrslum stofnana og frjálsra félagasamtaka. Umboðsmaður barna var að meginstefnu sáttur við athugasemdir nefndarinnar en þó ekki að þeim hluta sem snéri að niðurskurði þegar kemur að börnum. Í athugasemdum nefndarinnar segir orðrétt:

The Committee takes note of the deep financial crisis undergone by the State party since the crash of its banking system in 2008, which had a severe impact on its ability to maintain the level of public investment and employment, which in turn impacted on children and their families, especially on lower income families. However, the Committee notes with appreciation the State party´s fiscal efforts to protect the rights of children, especially regarding special protection measures, and that it intends to redress the budget cuts to social investment, including education and health, as its financial and economic situation steadily continues to improve.

Líklegt er að þetta byggi nefndin m.a. á fyrirheitum sem gefin eru í skriflegum svörum íslenskra stjórnvalda við spurningum Barnaréttarnefndarinnar sem tekin voru saman fyrir fundinn en í þeim segir m.a: Thus, the Icelandic authorities aim at maintaining, and preferably, increasing the scope of protection and well-being of children in Iceland by not reducing the level of services both for children and families with dependent children under the age of 18. 

Umboðsmaður barna harmar að stuttu eftir heimkomu fulltrúa íslenska ríkisins hafi frumvarp til fjárlaga verið lagt fram þar sem boðaður er niðurskurður sem bitnar beint á börnum. Má í því sambandi nefna niðurskurð í framhaldsskólum og niðurskurð hjá Barnaverndarstofu sem kemur í veg fyrir að Barnaverndarstofa geti aukið og viðhaldið þjónustu við börn sem eiga í alvarlegum vanda. Að því tilefni sendi umboðsmaður bréf til fjárlaganefndar þar sem hann benti á líklegar afleiðingar niðurskurðar og hvatti fjárlaganefnd til þess að leita annarra leiða við niðurskurð áður en þjónusta við börn er skert. Niðurskurður undanfarinna ára hefur nú þegar bitnað umtalsvert á börnum og lagði umboðsmaður barna áherslu á að mikilvægt væri að halda sérstaklega vel utan um börn á þessum tímum og sjá til þess að þau njóti þeirrar þjónustu sem velferð þeirra krefst og nauðsynleg er til að þau nái líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska.

Að lokum tók nefndin fram í athugasemdum sínum að Ísland skuli skila fimmtu og sjöttu skýrslu sinni 26. maí 2018.

Fjölskyldan

Erindi sem tengjast fjölskyldunni á einhvern hátt eru í miklum meirihluta erinda sem berast umboðsmanni barna ár hvert. Erindi berast bæði frá fullorðnum og börnum sem leita réttar síns varðandi forsjá, umgengni, lögheimili og framfærslu. Það sem vakti sérstaklega athygli umboðsmanns barna við skoðun á erindum árið 2011 var fjöldi þeirra erinda sem snérust um deilur milli foreldra sem bjuggu í sitthvoru landinu og ýmis konar erfiðleikar sem fylgja flutningi milli landa. Kom þá Noregur oft fyrir enda leita Íslendingar þangað í auknum mæli. Einnig fjalla erindi frá börnum oft um vanlíðan á heimili og erfið samskipti við foreldra.

Áhrif ofbeldis á ákvarðanir um forsjá og umgengni

Reglulega berast embætti umboðsmanns barna erindi sem varða ákvarðanir um forsjá og umgengni þar sem börn verða með beinum eða óbeinum hætti fyrir ofbeldi af hendi einhvers nákomins. Umboðsmaður barna vakti athygli á ofbeldi í forsjár- og umgengnismálum í umsögn sinni við breytingu á barnalögum á árinu 2011 en einnig lagði hann áherslu á það við Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna að brýnt væri að auka vernd barna gegn ofbeldi þegar teknar eru ákvarðanir um forsjá og umgengni. Á það við um allt ofbeldi, hvort sem það er líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt, óháð því hvort því er beint að barninu sjálfu eða einhverjum nákomnum því. Umboðsmaður barna telur óumdeilt að ofbeldi ætti að hafa mun meira vægi þegar teknar eru svo afdrifaríkar ákvarðanir um aðstæður barna. Einnig ætti vilji barna að ráða meiru um niðurstöður mála sem varða þau beint.

Heimilisofbeldi hefur langvarandi og alvarleg áhrif á þroska og líðan barna, hvort sem það beinist að þeim sjálfum eða einhverjum nákomnum. Þegar ofbeldi hefur átt sér stað innan veggja heimilisins heldur það oftar en ekki áfram þrátt fyrir skilnað eða sambúðarslit foreldra, auk þess sem líkurnar á því að sá sem beitir ofbeldi beini því að barninu aukast töluvert við slíkar aðstæður. Er því mikilvægt að huga sérstaklega að vernd barna gegn heimilisofbeldi þegar metið er hvaða tilhögun forsjár sé barni fyrir bestu hverju sinni. Í barnalögum nr. 76/2003 er ekki kveðið á um hvaða vægi heimilisofbeldi skuli hafa þegar tekin er ákvörðun um forsjá barns. Við rannsókn sem var gerð á dómum í forsjármálum kom í ljós að heimilisofbeldi hefur takmarkað vægi við mat á forsjárhæfni foreldris. Slíkar niðurstöður endurspegla ákveðna vanþekkingu á afleiðingum heimilisofbeldis og þeirri hættu sem skapast þegar sá sem beitir ofbeldi er fengin forsjá barns. Með sama hætti hefur heimilisofbeldi almennt takmörkuð áhrif við mat á umgengni barns við foreldri. Eins og að framan greinir eru mörg dæmi um að kveðið sé á um að barn eigi að fara í reglubundna umgengni til foreldris, jafnvel þó það eigi á hættu að verða fyrir ofbeldi. Af réttarframkvæmdinni má því draga þá ályktun að litið sé á það sem nánast afdráttarlausa meginreglu að umgengni sé barni fyrir bestu, óháð hegðun eða aðstæðum umgengnisforeldris.

Með hliðsjón af því hversu lítil áhrif heimilisofbeldi hefur þegar tekin er ákvörðun um forsjá og umgengnisrétt barns má draga í efa að börnum sé tryggð fullnægjandi vernd gegn ofbeldi í íslenskri réttarframkvæmd að þessu leyti.

Skólamál

Mikið af erindum sem snerta skólagöngu barna berast embætti umboðsmanns barna reglulega. Eru erindin bæði frá foreldrum og börnum. Leik-, grunn- og framhaldsskólar hafa ekki verið undanskildir þeim niðurskurði sem hefur varað síðastliðin ár og berast reglulega erindi frá foreldrum sem eiga börn sem þurfa á aukinni þjónustu að halda af hálfu skólans en fá hana ekki. Einnig berast reglulega erindi varðandi skólareglur og agaviðurlög sem og erindi frá nemendum við gerð skólaverkefna um réttindi barna. Að lokum vakti það athygli umboðsmanns að allnokkur erindi snéru að framkomu starfsfólks skólans við börn. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að kennarar og annað starfsfólk skóla sýni börnum ávallt þá virðingu sem þau eiga skilið.

Reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum

Umboðsmanni barna berast reglulega ábendingar sem varða agaviðurlög í skólum og snúast mörg erindi um punktakerfi og viðurlög sem nemendur þurfa að sæta þegar þeir brjóta skólareglur. Þó nokkur umfjöllun var um agaviðurlög í ársskýrslu umboðsmanns frá árinu 2010 en það ár hafði umboðsmaður barna samband við mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna fjölda erinda sem snéru að agaviðurlögum. Þá var verið að vinna að nýrri reglugerð um ábyrgð nemenda sem fjallaði um agaviðurlög í skólum. Umboðsmanni barna gafst tækifæri til að skila inn nokkrum umsögnum um reglugerðina sem var síðan samþykkt árið 2011. Umboðsmaður barna leitaði til ráðgjafahópsins sem var ánægður með reglugerðina en vildi koma því á framfæri að mikilvægt væri að kynna reglugerðina fyrir nemendum í skólum, kennurum og öðru starfsfólki innan skólans. Umboðsmaður hefur orðið var við að þó nokkur kynning hafi farið fram á reglugerðinni og að skólar séu almennt meðvitaðir um hana. Umboðsmaður barna bindur miklar vonir við að reglugerðin komi að góðum notum innan grunnskólanna.

Líðan barna

Árið 2010 lagði umboðsmaður barna fyrir könnun um líðan barna í 5.-7. bekk. Í þessari könnun var m.a. spurt um öryggi á skólalóð og í skólastofu. Niðurstöðurnar gáfu til kynna að um 14-15 % nemenda upplifðu sig oft eða sjaldan örugga á báðum stöðum. Það olli umboðsmanni áhyggjum og þá sérstaklega að svona mörg börn teldu sig ekki örugg í skólastofunni.

Í því skyni að fá samanburð við könnun umboðsmanns frá 2010 var á árinu 2011 gert samkomulag við Rannsóknir og greiningu um að koma spurningum um það hvort börnin upplifðu öryggi í skólastofunni og á skólalóðinni, ásamt spurningu um framkomu kennara gagnvart nemendum, inn í rannsókn þeirra „Ungt fólk 2011. Menntun, menning, íþróttir, tómstundir, hagir og líðan nemenda í 5., 6. og 7. bekk grunnskóla“. Settar voru fram staðhæfingar og nemendur beðnir um að merkja við einn af fjórum svarmöguleikum eftir því sem átti við um þau.

Mér finnst ég örugg/ur á skólalóðinni

Árið 2010 upplifðu 14,7% nemenda í 5.-7. bekk sig aldrei eða sjaldan örugga á skólalóðinni sem verður að teljast nokkuð hátt hlutfall. Árið 2011 var þetta hlutfall orðið 15,4%. Í báðum tilvikum finna drengir fyrir minna öryggi á skólalóðinni en stúlkur.

Mér finnst ég örugg/ur í skólastofunni

Þegar kemur að öryggi í skólastofunni fundu 14,4% nemenda aldrei eða sjaldan fyrir öryggi í skólastofunni í könnuninni sem framkvæmd var 2010. Árið 2011 var þetta hlutfall nokkuð lægra en þá upplifðu 9,8% nemenda sig sjaldan eða aldrei örugga í skólastofunni. Hvað varðar öryggi á skólalóðum þá upplifa drengir sig síður örugga en stúlkur.

Kennarinn gerir lítið úr einhverjum krakkanna

Í könnuninni árið 2010 töldu um 11% nemenda að kennarinn gerði stundum eða oft lítið úr einhverjum krakkanna og um 77% töldu að kennarinn gerði aldrei lítið úr einhverjum krakkanna. Árið 2011 töldu hins vegar um 15% nemenda að kennarinn gerði oft eða stundum lítið úr einhverjum krakkanna og um 68% töldu að kennarinn gerði aldrei lítið úr einhverjum krakkanna. Þetta er töluverð breyting og hugsanlegt að álag á kennurum sé orðið meira sem hafi svo áhrif á framkomu þeirra við nemendur.

Það er nauðsynlegt fyrir alla þá sem vinna með börnum eða í þágu barna að fá innsýn í það hvernig börnum líður almennt á hverjum tíma. Niðurstöður þessara tveggja rannsókna gefa þá vísbendingu að flestum börnum líði almennt vel í skólanum. Hins vegar sýna niðurstöðurnar einnig að mikilvægt er að huga betur að öryggi og vellíðan nemenda á skólalóðum og í skólastofum, t.d. með því að auka gæslu í frímínútum. Kennarinn er fyrirmynd nemenda sinna og hegðun hans getur átt ríkan þátt í að móta hegðun annarra í garð einstakra nemenda. Niðurskurður undanfarinna ára í menntamálum og þjónustu við börn, sameiningar skóla og óvissa um framtíðina hafa vissulega valdið því að meira mæðir á því starfsfólki skólanna sem eru í daglegu samneyti við börnin. Allt verður að ganga eins og smurð vél og minnsta hnjask á skólastarfi eða í kennslu getur haft slæm áhrif á líðan nemenda. Þess vegar er nauðsynlegt að fjárhagslegar þrengingar komi ekki frekar niður á starfsemi skólanna sem börnum er skylt að sækja í 180 daga á ári. Rannsóknina má nálgast á heimasíðu Rannsóknar og greiningar, www.rannsoknir.is.

Mentor

Umboðsmanni barna berast reglulega athugasemdir varðandi Mentor sem er heildstætt upplýsinga- og námskerfi fyrir alla sem starfa með börnum í skólum og tómstundastarfi. Nokkur álitamál hafa komið upp varðandi það hvernig Mentor er notað af grunnskólum og hvaða upplýsingar eru skráðar þar og hverjir hafa aðgang að þeim upplýsingum.

Ekki er kveðið skýrt á um það hvort forsjárlaust foreldri eigi að hafa aðgang að Mentor. Oft á tíðum dvelur barn mikið hjá því foreldri sem fer ekki með forsjá barnsins og getur verið erfitt að fylgjast með heimalærdómi barns og öðru tengdu skólanum ef það foreldri hefur ekki aðgang að Mentor. Í 52. gr. barnalaga nr. 76/2003 er fjallað um rétt til upplýsinga um barn. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að forsjárlaust foreldri á rétt á að fá upplýsingar um barnið frá ýmsum aðilum. Í athugasemdum með lögunum kemur fram að aðeins er átt við munnlegar upplýsingar en ekki bréfleg gögn eða ljósrit af þeim. Þegar þær athugasemdir voru skrifaðar var Mentor ekki komið til sögunnar og samskipti heimila og skóla með öðrum hætti en í dag. Afar misjafnt er hvernig skólar nota Mentor og hvers konar upplýsingar eru skráðar þar. Þó verður að telja að Mentor hafi komið í staðinn fyrir bæði munnlegar og skriflegar upplýsingar. Þar sem ekki eru til neinar skýrar reglur um upplýsingamiðlun úr Mentor verða skólastjórnendur að ákveða sjálfir hvernig þeir vilja miðla upplýsingum úr Mentor. Þá er sjálfsagt að kalla eftir leiðbeiningum frá skólaskrifstofu eða skólanefnd sveitarfélagsins. Einhverjir skólastjórnendur hafa gefið út þá reglu að ekki eigi að veita forsjárlausum foreldrum aðgang að Mentor. Umboðsmaður hefur þó viljað miða við að þegar það er börnum fyrir bestu sé eðlilegt að veita forsjárlausum foreldrum aðgang að Mentor. Það á sérstaklega við þegar forsjárlausa foreldrið hefur barnið hjá sér reglulega í umgengni þar sem það þarf að sinna heimanámi eða fá aðrar upplýsingar frá skólanum. Umboðsmanni hefur fundist vanta skýrar reglur um notkun Mentor. Réttarstaðan er því ekki skýr og ákvarðanir á þessu sviði alltaf háðar mati.

Á árinu 2011 tók Persónuvernd til skoðunar tvenns konar mál sem varða Mentor og umboðsmaður barna kom að. Annars vegar gaf Persónuvernd út úrskurð um skráningu grunnskóla á viðkvæmum persónuupplýsingum um nemendur í Mentor og hins vegar gaf Persónuvernd út leiðbeinandi álit um nafngreiningar í dagbókarfærslum grunnskólabarna.

Móðir kvartaði til Persónuverndar og krafðist þess að tiltekinni færslu um son hennar yrði eytt af Mentor. Ágreiningur var um það hvort tilteknar upplýsingar teldust til viðkvæmra persónuupplýsinga en samkvæmt bréfi frá Mentor ehf. á ekki að skrá viðkvæmar persónuupplýsingar í kerfið og samkvæmt lögum nr. 77/2000 verður skráning viðkvæmra persónuupplýsinga að uppfylla ákveðin skilyrði. Móðirin vildi meina að um væri að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar auk þess sem umrædd færsla myndi færast með barninu í nýjan skóla og óttaðist hún að barnið fengi ákveðinn stimpil á sig sem myndi hafa neikvæðar afleiðingar á skólagöngu í nýja skólanum. Skólinn taldi upplýsingarnar hins vegar ekki viðkvæmar og að nauðsynlegt væri að varðveita umræddar upplýsingar. Persónuvernd taldi að ábyrgðaraðilinn, þ.e. grunnskólinn, hefði ekki sýnt fram á að nauðsynlegt væri að varðveita umræddar upplýsingar né að miðla þeim áfram til þriðja aðila, þ.e. þess skóla sem barnið færi í. Persónuvernd mat það svo að áframhaldandi varðveisla umræddrar færslu færi í bága við ákvæði 7. gr. laga nr. 77/2000 um sanngirni, málefnalegan tilgang og meðalhóf. Taldi Persónuvernd að rétt væri að eyða færslunni. Var litið til þess að þó svo að færslan yrði afmáð úr dagbók skólans yrði ekki séð að nýi skólinn gæti ekki veitt drengnum þá þjónustu sem hann þyrfti. Bar grunnskólanum því að eyða persónuupplýsingum um son kvartanda.

Í fyrirspurn sem barst til Persónuverndar var spurt hvort sú vinnsla persónuupplýsinga, sem felst í því að veita foreldrum aðgang að dagbókarfærslum þar sem önnur börn en þeirra eigin eru nafngreind, sé heimil og standist ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Ljóst er að réttur forsjárforeldris til aðgangs að dagbókarfærslum barns síns eða vitneskju um efni þeirra er víðtækur. Þessi réttur sætir þó takmörkunum ef gögn hafa að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Einnig er rétt að geta þess að í sumum tilfellum er kennurum og skólastjórnendum skylt að gæta þagmælsku. Það er undir starfsmönnum og stjórnendum vinnsluaðila að meta hverju sinni hvort einkamálefni annars einstaklings en þess sem dagbókin tilheyrir vegi svo þungt að takmarka skuli rétt forsjárforeldris til aðgangs að gögnum, t.d. þannig að nafn viðkomandi sjáist ekki. Persónuvernd tók fram í ráðgefandi áliti sínu að mikilvægt sé að ígrunda það vel og vandlega hverju sinni hvort nauðsynlegt sé að nafngreina önnur börn en það sem dagbókarfærslan snýr að. Slík mat er í höndum vinnsluaðila og á ábyrgð hans. Hvert tilvik verður að meta út frá eðli upplýsinganna og því samhengi sem þær eru settar í. Ef skólinn telur nauðsynlegt að foreldri fái upplýsingar um önnur börn en þeirra eigin mætti beita vægari úrræðum en að skrá það í dagbók, t.d. hafa samband við foreldrið símleiðis, en þó að gættum þagnarskylduákvæðum laga.

Réttindi framhaldsskólanema

Í september árið 2010 sendi umboðsmaður barna menntamálaráðuneytinu bréf til að spyrja hvernig ráðuneytið hygðist tryggja framhaldsskólanemendum sama eða betri rétt til aðstoðar umsjónarkennara, sálfræðinga og félagsráðunautar og reglugerð nr. 105/1990 tryggir. Framangreinda reglugerð er að finna í reglugerðasafni Stjórnarráðsins og hefur hún að geyma ýmis ákvæði um réttindi og ábyrgð nemenda og skólastjórnenda í framhaldsskólum. Að miklu leyti hafa nýrri lög og reglugerðir komið í stað ákvæða hennar á meðan önnur ákvæði ættu að halda gildi sínu, svo fremi sem þau stangast ekki á við nýrri lög og reglugerðir. Þar sem þessi reglugerð hafði ekki verið felld brott ætti hún því að gilda um þau atriði sem nýrri lagaheimildir fjalla ekki um. Umboðsmaður barna leitaðist svara við nokkrum spurningum, m.a. hvort fella ætti reglugerðina úr gildi og á hvaða hátt ætti að tryggja nemendum sambærilegan eða betri rétt. Fjallað var um þetta í ársskýrslu umboðsmanns barna árið 2010.

Eftir nokkrar ítrekanir barst svar frá menntamálaráðuneytinu rúmlega ári síðar eða í október 2011. Þar segir að farist hafi fyrir að fella reglugerðina formlega úr gildi. Þá segir m.a. að í nýju regluverki eigi ekki að skilgreina skyldur umsjónarkennara gagnvart framhaldsskólanemum enda eigi skólameistarar að semja við kennara um störf, önnur en kennslu, er tengjast þjónustu skólans og samskiptum hans við nemendur. Í bréfinu segir einnig að ekki sé gerlegt að tryggja þjónustu sálfræðinga, eins og reglugerðin sem átti að fella brott, kvað á um í 31. gr. Leiða má líkur að því að þetta bitni mest á þeim nemendum sem þurfa meiri aðstoð og utanumhald en aðrir, án þess þó að vera með sérþarfir samkvæmt greiningu. Ljóst er að ef vilji er fyrir hendi er hægt að draga úr brottfalli og bæta hag nemenda í framhaldsskólum með því að tryggja þeim góða þjónustu.

Að lokum sendi umboðsmaður barna annað bréf til mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem hann lýsir yfir vonbrigðum sínum með nýtt regluverk og að nemendum framhaldsskóla verði ekki tryggður sami eða betri réttur og fyrra fyrirkomulag átti að tryggja þeim. Umboðsmaður barna mun halda áfram að fylgjast með þróun réttinda nemenda í framhaldsskóla og benda á það sem betur má fara enda hefur umboðsmaður barna áhyggjur af þeim hópi unglinga sem eiga erfitt með að fóta sig í framhaldsskólum landsins.

Einelti

Skólinn er vinnustaður nemenda og er börnum ætlað að sækja skólann 180 daga á ári. Það er því mikilvægt að allir skólar sinni þeirri skyldu að hafa eineltisáætlun sem er bæði virk og vel kynnt starfsfólki, nemendum og foreldrum og stuðli þannig að velferð og vellíðan allra nemenda. Umboðsmanni barna berast reglulega ábendingar varðandi einelti, bæði af hálfu nemenda og kennara.

Hinn 8. nóvember 2011 ákvað verkefnisstjórn í aðgerðum gegn einelti að standa fyrir degi gegn einelti en verkefnastjórnin var skipuð í kjölfarið á útgáfu „Greinargerðar um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum“ sem kom út í júní 2010. Í tilefni dagsins hittist fjöldi fólks í Höfða þar sem fulltrúar ýmissa stofnana og samtaka undirrituðu Þjóðarsáttmála gegn einelti. Umboðsmaður barna var einn þeirra sem undirrituðu Þjóðarsáttmálann en 8. nóvember á að vera helgaður baráttu gegn einelti. Sáttmálann má nálgast á nýrri heimasíðu sem opnuð var í tilefni átaksins. Slóðin er www.gegneinelti.is. Við undirritun voru einnig afhent armbönd sem gerð voru í tilefni dagsins og bera yfirskriftina: Jákvæð samskipti. Verkefnastjórnin hvatti alla þá fjölmörgu aðila og samtök, sem starfa á þeim vettvangi sem átakið nær til, til þess að taka höndum saman og helga 8. nóvember baráttunni gegn einelti. Sérstaklega var þessu beint til leikskóla, grunn- og framhaldsskóla, félags- og frístundamiðstöðva, auk vinnustaða og stofnana á vegum ríkisins. Til þess að vekja athygli á deginum sem helgaður var baráttu gegn einelti gengu umboðsmaður barna og starfsfólk embættisins um Laugaveginn þegar verslanir opnuðu og dreifðu hurðaspjöldunum Verum vinir til þess að leggja áherslu á vináttuna. Mikilvægt er að umræða um einelti sé sýnileg, málefnið er brýnt og til mikils að vinna ef í sameiningu tekst að koma á þjóðarsáttmála um jákvæð og uppbyggileg samskipti.

Í 7. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum er kveðið á um sérstakt fagráð í eineltismálum en með því starfar verkefnastjóri verkefnastjórnar um aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum. Foreldrar eða skólar geta óskað eftir aðstoð fagráðs sem starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytisins ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu. Umboðsmaður barna bindur miklar vonir við hið nýja ráð og telur mikla þörf á slíku.

LÝÐRÆÐI

Umboðsmaður barna hefur ávallt lagt mikla áherslu á 12. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um að börnum sé gefinn kostur á að tjá sig og að tekið sé tillit til skoðana þeirra eftir því sem aldur og þroski gefa tilefni til. Nokkur verkefni á árinu 2011 höfðu það að markmiðið að efla áhrif barna á umhverfi sitt og samfélag.

Stjórnlög unga fólksins

Haustið 2010 leitaði Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF á Íslandi) til umboðsmanns barna og óskaði eftir samstarfi við að tryggja það að skoðanir barna og ungmenna fengju að heyrast við endurskoðun á stjórnarskrá Íslands. Í kjölfarið var einnig leitað eftir samstarfi við Reykjavíkurborg. Verkefnið fékk heitið Stjórnlög unga fólksins. Endurskoðun á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er grundvallarmál sem getur haft víðtæk áhrif á skipulag samfélagsins í heild sinni. Því er mikilvægt að leitað sé eftir skoðunum barna og ungmenna sem eiga eftir að lifa lengst með nýrri stjórnarskrá.

Í apríl 2011 var opnuð vefsíðan www.stjornlogungafolksins.is en þar er að finna skemmtileg og nýstárleg myndbönd um grunnþætti stjórnarskrárinnar sem unnin voru fyrir börn og ungmenni en þar voru flókin umfjöllunarefni einfölduð og sett fram í máli og myndum. Á vefsíðunni geta börn og ungmenni horft á myndböndin og sett fram eigin skoðanir í tengslum við stjórnarskrá lýðveldisins og framtíðarsýn sína. Þar geta skólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og ungmennaráð einnig nálgast verkefni um stjórnarskrána. Útbúið var kennsluefni og kennsluleiðbeiningar fyrir öll stig grunnskólans sem og leikskóla.

Laugardaginn 16. apríl 2011 var þing ungmennaráða haldið í Iðnó, Reykjavík undir yfirskriftinni Stjórnlög unga fólksins. Þangað var fulltrúum ungmennaráða sveitarfélaga boðið til að vinna álit út frá spurningum tengdum umfjöllunarefnum stjórnarskrárinnar. Þátttakendur á þinginu voru rúmlega fjörutíu og komu þeir frá ungmennaráðum sveitarfélaga víðs vegar af landinu. Á þinginu voru ræddar ýmsar spurningar varðandi hlutverk þjóðhöfðingja, mörk framkvæmdar- og löggjafarvalds, dómsvald, mannréttindaákvæði auk þess sem unglingarnir höfðu sjálfir frumkvæði að ýmsum umræðuefnum. Umræðurnar voru mjög líflegar og unglingarnir höfðu sterkar skoðanir á ýmsum grundvallaratriðum.

Að þinginu loknu var unnið úr niðurstöðum þess ásamt því efni sem var á vefsíðu verkefnisins og gefin út skýrsla. Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að stjórnarskráin skiptir verulegu máli og mannréttindakafli hennar er sá mikilvægasti. Forsetinn er mikilvægt sameiningartákn þjóðarinnar en hann má aldrei vera sjálfkjörinn – sitjandi forseti verður því að hljóta ákveðið hlutfall greiddra atkvæða til að ná endurkjöri. Ráðherrar verða að hafa menntun og reynslu á því sviði sem ráðuneyti þeirra annast og auðlindir skulu vera í eigu þjóðarinnar. Ekki má gleymast að hlusta á raddir unga fólksins en ungmennin töluðu mikið um að þau vildu taka virkan þátt í lýðræðislegri mótun samfélagsins og koma að ákvarðanatöku, sérstaklega í málum sem snerta þau beint. Einnig kom ítrekað fram í máli ungmennanna að þau teldu sig heppin að búa hérlendis; hér væru skilyrði barna og ungmenna betri en í flestum öðrum löndum og mannréttindi þeirra væru virt. Lýðræðislegt stjórnarfar væri mikils virði og að því yrði að hlúa. Að lokum þótti flestum þingfulltrúum stjórnarskráin að grunninum til nokkuð vel úr garði gerð og margir töluðu fyrir endurskoðun, lagfæringum og smávægilegum umbótum fremur en róttækum breytingum. Hins vegar væri endurskoðun tímabær og þörf á að uppfæra stjórnarskrána og gera nútímalegri, sér í lagi hvað orðalag og framsetningu varðaði. Nánar er hægt að lesa um verkefnið á heimasíðu verkefnisins, www.stjornlogungafolksins.is.

Skýrslan var afhent Salvöru Nordal, formanni stjórnlagaráðs, við táknræna athöfn við styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli. Það var Hildur Hjörvar, formaður ungmennaráðs UNICEF á Íslandi, sem flutti erindi og viðstöddum var veittur innblástur með útblæstri þegar skilaboðum ungmenna var dreift yfir hópinn. Auk þess var Alþingi og fjölmiðlum afhent skýrslan.

Stjórnlög unga fólksins vakti athygli út fyrir landsteinana en verkefnið var í forgrunni á ráðstefnu Evrópuráðsins í nóvember í Mónakó. Þar voru samankomnir ráðherrar Evrópuráðsins og ræddu þeir um hvernig byggja megi upp barnvænni Evrópu. Evrópuráðið bauð fulltrúum frá Stjórnlögum unga fólksins að kynna verkefnið og þótti það mikill heiður. Þess utan var framlag Íslands í pallborði strax á eftir setningu ráðstefnunnar. Það var prinsessa af Hannover sem bauð til ráðstefnunnar en hún á að hafa stefnumótandi áhrif á sviði barnaréttar. Kristinn Jóhannsson, fulltrúi ungmennaráðs Miðborgar og Hlíða, sat fyrir svörum fyrir hönd Íslands en hann var einn af þeim sem sóttu þingið í Iðnó. Honum til halds og traust voru fulltrúi frá UNICEF og fulltrúi frá Reykjavíkurborg.

Lýðræði í leikskólum

Umboðsmaður barna hafði áhuga á því að kynna sér enn frekar hvernig unnið er með lýðræði og mannréttindi á fyrsta skólastiginu en þessir þættir eru ein af meginstoðum nýrrar menntastefnu. Af því tilefni sendi umboðsmaður barna bréf til allra leikskólastjóra um lýðræði í leikskólum vorið 2011. Tilgangur þessa bréfs var að fá og safna saman upplýsingum frá leikskólum um verkefni þar sem sérstaklega er unnið út frá hugmyndum um grunngildi lýðræðis og lýðræðislegs samfélags. Í framhaldinu var stefnt að því að hafa upplýsingarnar aðgengilegar á heimasíðu embættisins, www.barn.is, þangað sem starfsfólk leikskóla og aðrir sem hafa áhuga geta leitað til að fá hugmyndir um verkefni og vinnulag. Í bréfi umboðsmanns tók hann fram að honum sé kunnugt um að í leikskólum sé víða unnið gott og faglegt starf á þessu sviði. Því leitaði umboðsmaður til leikskólastjóra og óskaði eftir því að þeir sendu embættinu stutta lýsingu á því hvernig unnið væri með þátttöku og lýðræði í þeirra skólum. Var átt við merkingu orðsins í víðum skilningi, þ.e. allt sem undirbýr börn undir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi, s.s. tjáning, mannréttindafræðsla, virðing fyrir öðrum, málamiðlanir og fleiri þættir sem teljast forsendur lýðræðislegs samfélags. Umboðsmanni barna bárust þó nokkur svarbréf frá leikskólum. Mikil vinna fór í að vinna úr svörum leikskólastjóranna og var sú vinna langt á veg komin undir lok ársins 2011. Mun umboðsmaður ljúka úrvinnslu verkefnisins fljótlega árið 2012 og birta á heimasíðu embættisins.

Lýðræði í grunnskólum

Í ágúst sendi umboðsmaður barna öllum grunnskólum á landinu tölvupóst þar sem hann vakti athygli á einblöðung um skólaráð sem embættið gaf út árið 2009. Einblöðungurinn er sérstaklega ætlaður nemendum grunnskóla og hefur að geyma upplýsingar úr grunnskólalögum og reglugerð um skólaráð ásamt nokkrum hagnýtum atriðum fyrir þá sem hafa áhuga á að starfa í skólaráði. Í könnun um skólaráð sem umboðsmaður barna lét gera árið 2009 kom fram að meirihluti skólastjórnenda töldu þörf á fræðslu til nemenda vegna setu þeirra í skólaráðum. Töluðu þá flestir um að fræða þyrfti nemendur um hlutverk þeirra og skyldur í skólaráðum en einnig um fundarsköp og aðkomu barnanna að fundum. Þar sem ákvæði um skólaráð kom fyrst inn í grunnskólalög sumarið 2008 eru margir óvissir um hvernig fara á að vegna aðkomu nemenda að skólaráðum. Umboðsmaður barna vonar að nú hafi skólar öðlast nokkra reynslu og þekkingu á skólaráði en mun þó halda áfram að senda skólum einblöðunginn um skólaráð fyrir nýja árganga af nemendum.

Umboðsmaður hefur áhuga á að kynna sér hvernig unnið er með lýðræði og þjálfun nemenda í lýðræðislegum vinnubrögðum í grunnskólum landsins. Af því tilefni sendi umboðsmaður barna tölvupóst til allra grunnskóla í október 2011 og óskaði eftir upplýsingum um nemendafélög og aðkomu nemenda að skólaráðum. Víða í grunnskólum er unnið gott og faglegt starf á sviði lýðræðis. Nemendur og skólastjórnendur hafa gjarnan ólíka sýn á skólastarfið. Því leitaði umboðsmaður barna bæði til skólastjóra og formanna nemendafélaga grunnskólanna og óskaði eftir að þeir svari í sameiningu, ef kostur væri, nokkrum spurningum um nemendafélög og aðkomu nemenda að skólaráði skv. 8. og 10. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 og reglugerðar um skólaráð við grunnskóla nr. 1157/2008. Einnig voru allar upplýsingar um það hvernig er unnið með þátttöku nemenda í skólasamfélaginu og lýðræði í skólanum vel þegnar. Tilgangur þessa tölvupósts var að safna upplýsingum og dæmum um góð vinnubrögð til að miðla áfram á heimasíðu embættisins, www.barn.is, þannig að nemendur og skólar geti lært af því sem vel er gert í öðrum skólum. Óskaði umboðsmaður barna eftir því við skólastjórnendur ef að þeir gætu nefnt dæmi um vel heppnaða tillögu eða málsmeðferð fulltrúa nemenda í skólaráði eða sagt frá því hvernig þeir teldu heppilegast að tryggja lýðræðisleg vinnubrögð væru allar ábendingar vel þegnar. Í lok ársins 2011 voru ennþá upplýsingar að berast frá grunnskólum. Á árinu 2012 mun umboðsmaður barna vinna samantekt úr svörum þeirra sem bárust og birta á heimasíðu sinni.

RÉTTUR TIL HEILBRIGÐIS

Á hverju ári berast reglulega ýmsar ábendingar sem varða heilbrigði barna. Erindin koma úr öllum áttum og snerta ýmsa þætti lífs. Reglulega berast umboðsmanni barna erindi sem varða tannheilbrigði barna en ljóst er að Ísland er töluvert á eftir nágrönnum sínum þegar kemur að þessum málum. Umboðsmaður barna hefur virkilegar áhyggjur af hrakandi tannheilbrigði barna og hefur vakið athygli á málinu í fjölmiðlum, ársskýrslum, fundum, bréfum og skýrslu til barnaréttarnefndarinnar.

Bólusetningar stúlkna gegn leghálskrabbameinsvaldandi veiru

Umboðsmaður barna sendi velferðarráðherra bréf vegna fyrirhugaðra bólusetninga gegn HPV leghálskrabbameinsvaldandi veiru hjá stúlkum við 12 ára aldur. Umboðsmaður barna telur jákvætt að vernd stúlkna gegn leghálskrabbameini síðar á ævinni sé aukin. Umboðsmaður barna lýsti þó yfir áhyggjum sínum af því að stúlkum á aldrinum 13-17 ára væri ekki boðið upp á sambærilegar bólusetningar endurgjaldslaust. Samkvæmt upplýsingum frá landlækni var miðað við 12 ára aldur vegna þess að nauðsynlegt er að bólusetja stúlkur áður en þær byrja að stunda kynlíf. Á hverjum tíma má þó gera ráð fyrir að stór hluti stúlkna á aldrinum 13 til 17 ára sé ekki farinn að stunda kynlíf og því hafa þessar stúlkur sama gagn af bólusetningu og þær sem yngri eru. Umboðsmaður barna telur því ekki réttlætanlegt að mismuna stúlkum með þessum hætti, þar sem um er að ræða vernd gegn sjúkdómum. Umboðsmaður barna lagði til í bréfi sínu að fyrstu árin eftir að almenn bólusetning gegn leghálskrabbameinsvaldandi HPV veiru hefðist yrðu öllum stúlkum undir 18 ára aldri boðið upp á möguleika á ókeypis bólusetningu ef þær óskuðu eftir því. Að lokum benti umboðsmaður barna á mikilvægi þess að viðeigandi stofnunum og almenningi séu veittar greinargóðar upplýsingar um aukaverkanir bóluefnisins, framleiðanda þess og annað sem mikilvægt er að vita til að geta tekið upplýsta ákvörðun um bólusetningu. Heilbrigðisstarfsfólk, foreldrar og þær stúlkur sem boðið er upp á bólusetningar eiga rétt á að fá að vita allt sem skiptir máli varðandi gagnsemi og hugsanlega skaðsemi bóluefnisins. Að lokum er rétt að nefna að sú staða getur komið upp að afstaða foreldra og stúlkna fari ekki saman þegar kemur að bólusetningu. Er þá mikilvægt að foreldrar hlusti á börnin sín og taki tillit til skoðana þeirra eftir aldri og þroska.

Samþykki barna til brottnáms líffæra eða lífrænna efna úr eigin líkama

Umboðsmaður barna hefur í nokkurn tíma haft áhyggjur af réttarstöðu barna sem mögulega þurfa og/eða vilja gefa úr sér líffæri eða lífræn efni, svo sem beinmerg. Af því tilefni sendi umboðsmaður barna bréf til velferðarráðherra í október 2011 í því skyni að vekja athygli ráðuneytisins á ofangreindu málefni enda er brýnt að framkvæmd fari ekki í bága við lög. Samkvæmt 1. gr. laga um brottnám líffæra nr. 16/1991 getur hver sem er orðinn 18 ára gefið samþykki til brottnáms líffæris eða lífrænna efna úr eigin líkama til að nota við læknismeðferð annars einstaklings. Samkvæmt fyrrnefndum lögum er börnum óheimilt að gefa samþykki til brottnáms líffæris eða lífrænna efni, undir hvaða kringumstæðum sem er. Þó er ljóst að það tíðkast að einhverju leyti í framkvæmd að börn gefi líffæri eða lífræn efni.

Álitaefnið sem um ræðir er í senn siðferðislegt og læknisfræðilegt auk þess sem það snertir ýmis réttindi barna. Þar sem um er að ræða víðtækt og flókið álitamál er nauðsynlegt að aðilar úr ýmsum fagstéttum komi saman og ræði umrætt málefni með það fyrir augum að finna lausn í samræmi við hagsmuni og sjónarmið barna. Umboðsmaður treystir sér ekki til þess að taka afstöðu til fyrrnefnds álitaefnis án aðkomu sérfræðinga og telur rétt að velferðarráðherra hafi frumkvæði að slíku starfi. Annars vegar þarf að taka til skoðunar hagsmuni þeirra barna sem þurfa á líffærum og lífrænum efnum að halda og hagsmuni þeirra barna sem vilja gefa líffæri eða lífræn efni. Hins vegar þarf einnig að taka til skoðunar þau tilfelli þegar börn eru of ung til að gefa samþykki sitt og skilja afleiðingar gjörða sinna.

Umboðsmaður barna leggur áherslu á að fara þurfi með gát þegar inngrip í líkama barna er heimilað sem ekki er nauðsynlegt af læknisfræðilegum ástæðum. Eftir því sem inngrip í líkama barna er meira og afleiðingarnar varanlegri því meiri ástæða er til að tryggja börnum ríkari vernd. Þegar tekin er afstaða til þess verður þó að sjálfsögðu að hafa í huga hagsmuni þeirra sem þurfa á líffærum eða lífrænum efnum að halda, sérstaklega ef viðkomandi er líka barn eða tengist barninu náið. Ef um er að ræða einfalda og hættulitla aðgerð gæti verið réttlætanlegt að leyfa brottnám líffæris eða lífrænna efna í slíkum tilvikum.

Í kjölfar þess að umboðsmaður barna sendi velferðarráðherra bréf átti hann fund með fulltrúum velferðarráðuneytisins um líffæragjafir barna. Á fundinum kom í ljós að börn gefa aðeins lífræn efni, og þá fyrst og fremst beinmerg, en fulltrúar ráðuneytisins vissu ekki til þess að börn gefi líffæri. Að gefa beinmerg er tiltölulega lítið inngrip í líkama barna og oft reynist nóg að taka blóð úr börnum. Ráðuneytið tók ábendingarnar til athugunar og ætlar að kanna hvort tilefni sé til að breyta lögum um brottnám líffæra.

Börn með skertan málþroska vegna heyrnaleysis eða heyrnaskerðingar

Umboðsmanni barna bárust ábendingar um að ráðgjöf og þjónusta við börn sem eru heyrnlaus eða alvarlega heyrnaskert sé mismunandi eftir sveitarfélögum og að gæði og magn þjónustunnar velti að miklu leyti á getu og vilja foreldra til að berjast fyrir réttindum barna sinna. Umboðsmaður sendi því bréf til mennta- og menningarmálaráðherra og vakti athygli á málefnum þessara barna.

Að sögn sérfræðinga er afleiðing þess að börn fá ekki þá ráðgjöf og þjónustu sem þau þurfa á að halda að til eru börn sem eru málvana, þ.e. þau eiga sér ekkert móðurmál sem er nothæft til eðlilegra tjáskipta. Það þarf ekki að fjölyrða um að börn sem eiga sér ekki móðurmál hafa ekki sömu möguleika og önnur börn á því að móta sterka sjálfsmynd, tileinka sér félagsfærni, samkennd og öðlast menntun. Framtíðarmöguleikar þeirra er því verulega takmarkaðir. Þetta á að einhverju leyti einnig við um börn foreldra sem eru heyrnarlausir eða alvarlega heyrnarskertir enda hafa þau börn oft skertan málþroska.

Máltaka fer fram á heimilum og því telur umboðsmaður brýnt að allir foreldrar umræddra barna fái handleiðslu og þjálfun fagfólks frá upphafi. Þá er mikilvægt að leik- og grunnskólar hafi greiðan aðgang að ráðgjöf og þjónustu táknmálsfræðinga og annarra sérfræðinga á þessu sviði þannig að öll börn sitji við sama borð. Þessi þjónusta við skóla og foreldra þarf að vera þverfagleg og miðast að þörfum, þroska og aðstæðum hvers einasta barns. Umboðsmaður barna telur einnig brýnt að skólarnir átti sig á því að þeir bera ábyrgð á að öllu námsefni sé miðlað til umræddra barna eins og annarra á máli sem er þeim aðgengilegt og að kennsla í íslensku og íslensku táknmáli eigi að hafa sama vægi ef börnin eiga að ná virku tvítyngi. Auk þess þarf skólinn að sjá börnunum fyrir félagslegu málumhverfi sem er þeim aðgengilegt. Umboðsmaður barna vonar að hægt sé að tryggja þessum litla hópi barna þá þjónustu sem velferð þeirra krefst óháð búsetu eða félagslegum aðstæðum fjölskyldna þeirra. Mun umboðsmaður vinna áfram að þessum málum á komandi ári.

Börn sem ósjúkratryggðar konur ganga með

Umboðsmanni barna bárust ábendingar um bága stöðu erlendra kvenna sem fá dvalarleyfi hér á landi. Þegar einstaklingar frá ríkjum utan EES flytja til landsins og fá dvalarleyfi eru þeir ósjúkratryggðir fyrstu sex mánuðina eftir að dvalarleyfið er gefið út. Því þurfa þeir að kaupa sér sjúkrakostnaðartryggingu fyrir þann tíma sem líður þar til dvalarleyfi er gefið út og fyrstu sex mánuðina eftir útgáfu þess. Að þeim tíma liðnum eru þeir sjúkratryggðir eins og aðrir sem búa hér á landi. Sjúkrakostnaðartrygging sem fólk er skyldað til að kaupa hefur þann alvarlega annmarka að hún tekur ekki til kostnaðar vegna meðgöngu, fæðingarhjálpar eða sjúkdóma sem rekja má til meðgöngu eða fósturláts. Mál þetta er að mati umboðsmanns barna alvarlegt enda er stór hluti kvenna sem fá dvalarleyfi hér á landi á aldrinum 20-39, en á þeim aldri ala konur næstum öll börn sem fæðast á Íslandi. Ein helsta ástæða þess að konur leita til heilsugæslunnar á umræddum aldri er vegna meðgöngu eða fæðingar barna þannig að um umtalsverða hagsmuni af hálfu þeirra er að ræða. Umboðsmaður barna setur spurningamerki við að slíkt standist jafnréttislög og kom ábendingunni á framfæri við Jafnréttisstofu en sendi einnig bréf til velferðarráðherra í mars 2011 til þess að vekja athygli ráðherra á þessu hagsmunamáli og skoraði á stjórnvöld að tryggja öryggi og velferð allra barna á meðgöngu, án tillits til stöðu foreldra.

Það sem veldur umboðsmanni barna þó mestum áhyggjum í þessu sambandi er heilsa og velferð barnanna í móðurkviði. Samkvæmt þeim upplýsingum sem embættið hefur fengið eru dæmi um að konur sem eru ótryggðar láti hjá líða að leita til heilsugæslunnar vegna mæðraverndar, heilsufars og álitamála á meðgöngu út af þeim kostnaði sem fylgir slíkum heimsóknum. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi meðgöngueftirlits fyrir heilsu og þroska hins ófædda barns enda getur ráðgjöf og inngrip heilbrigðisstarfsfólks reynst börnunum lífsnauðsynlegt. Streita og fjárhagsáhyggjur sem rekja má til kostnaðar vegna fæðingar og hugsanlegra inngripa í fæðinguna hljóta einnig að hafa neikvæð áhrif á barnið á meðgöngunni. Ísland er með einna lægstu tíðni í ungbarnadauða og mæðradauða í heiminum og er því óviðunandi að ófædd börn hluta kvenna njóti ekki sömu réttinda og verndar og önnur börn. Ekki er um mörg börn að ræða en engu að síður er brýnt að tryggja að þeim sé ekki mismunað að þessu leyti.

Talmeinaþjónusta barna

Fjöldi barna þarf á ári hverju á þjónustu talmeinafræðinga að halda og getur slík þjónusta skipt miklu máli fyrir velferð og möguleika í framtíðinni. Umboðsmaður barna hefur undanfarin ár fengið margar ábendingar um að greiðslubyrði foreldra vegna talþjálfunar barna hafi aukist mikið og sumir foreldrar treysti sér ekki til að kaupa þjónustuna eða hafi einfaldlega ekki bolmagn til þess. Umboðsmaður barna hefur vegna þessa átt fundi með mörgum aðilum auk þess sem hann vakti athygli á þessu í skýrslu sinni til Barnaréttarnefndarinnar. Umboðsmaður barna fagnaði þess vegna þegar nýr rammasamningur tók gildi þann 1. september 2011. Af þeim 20 talmeinafræðingum sem starfa sjálfstætt á stofu á Íslandi hafa 17 þeirra nú samið við Sjúkratryggingar Íslands. Áður höfðu níu talmeinafræðingar verið á samningi við SÍ og því bætast 8 við á nýjan samning. Það er von umboðsmanns barna að þetta auðveldi foreldrum að sækja talmeinaþjónustu fyrir börn sín.

Umskurður

Umboðsmaður barna hefur fengið erindi og orðið var við umræðu um umskurð á drengjum en í íslenskum lögum er ekki að finna neitt ákvæði sem beinlínis bannar umskurð á drengjum. Í 218. gr. a. í almennum hegningarlögum er hins vegar lögð refsing við því að fjarlægja kynfæri stúlku að hluta eða öllu leyti. Raunin er sú að umskurður drengja er óalgengur hér á landi nema þegar slíkt er talið nauðsynlegt af heilsufarslegum ástæðum. Þegar umskurður er nauðsynlegur af læknisfræðilegum ástæðum er eðlilegt að foreldrar samþykki slíka aðgerð eins og kemur fram í VI. kafla laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Meira álitamál er hvort foreldrar geti ákveðið að umskera börn af öðrum ástæðum, t.d. trúarlegum. Eins og fyrr segir er þó ekkert í íslenskum lögum sem bannar slíka aðgerð en þar sem slík aðgerð felur í sér töluvert inngrip í líkama barns má færa rök fyrir því að slík aðgerð gæti fallið undir 217. gr. almennra hegningarlaga. Börn njóta mannhelgi eins og aðrir einstaklingar og verður því að telja varhugavert að heimila foreldrum að breyta líkama ungabarna, án þess að fyrir því séu læknisfræðileg rök. Þar að auki getur umskurður haft í för með sér mikinn sársauki fyrir barnið og við slíkar aðgerðir getur verið hætta á sýkingu og öðrum vandamálum. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að endurskoða lög að þessu leyti og kveða skýrt á um að ekki sé heimilt að umskera drengi nema læknar mæli með slíkri aðgerð. Eðlilegt er að bíða þar til drengir hafa náð ákveðnum aldri og þroska, þannig að þeir geti sjálfir metið hvort þeir vilji umskurð eða ekki. Þegar metið er við hvaða aldur er rétt að miða má hafa hliðsjón af því að við 16 ára aldur hafa börn sjálfsákvörðunarrétt um læknismeðferðir og aðild að trúfélögum. Má því færa rök fyrir því að drengir gætu samþykkt umskurð eftir að þeir hafa náð 16 ára aldri. Þeir sem hafa vitneskju um að umskera eigi dreng eiga að tilkynna það til barnaverndarnefndar. Í slíkum tilvikum ber barnaverndarnefnd að kanna málið og hafa eftirlit með því að aðgerðin fari fram á sómasamlegan hátt varðandi hreinlæti, deyfingu o.fl. og valdi barninu ekki skaða.

Í mars 2011 sat fulltrúi umboðsmanns barna fund á vegum umboðsmanns barna í Noregi, ásamt ýmsum sérfræðingum frá öðrum Norðurlöndum. Á fundinum var rætt um umskurð, sem og annað inngrip í líkama barna svo sem götun og húðflúr. Deilt var um það hvort umskurður sem framkvæmdur er af öðrum ástæðum en læknisfræðilegum, svo sem trúarlegum eða menningarlegum, felir í sér brot á réttindum barna. Niðurstaða fundarins var sú að foreldrar ættu ekki að geta tekið ákvörðun um að umskera drengi, nema mælt sé með því af læknisfræðilegum ástæðum.

BARNAVERND

Niðurskurður sem bitnar á börnum

Síðan efnahagshrunið varð á Íslandi á árinu 2008 berast umboðsmanni reglulega ábendingar sem varða niðurskurð sem bitnar á börnum, t.d. í leik-, grunn- og framhaldsskólum og í heilbrigðiskerfinu. Á árunum 2010 og 2011 sendi umboðsmaður m.a. bréf til allra sveitarstjóra og sveitarstjórnarmanna, allra þingmanna, til fjárlaganefndar, allra sveitarfélaga og til fleiri aðila til þess að vekja athygli á þessu. Einnig hefur umboðsmaður átt fulltrúa í barnahópi Velferðarvaktarinnar og Náum áttum sem hafa vakið athygli á áhrifum niðurskurðar á velferð barna. Auk þess hélt umboðsmaður fund með borgarstjóranum í Reykjavík þar sem komið var á framfæri ábendingum um niðurskurð og með umboðsmanni skuldara í byrjun árs þar sem ræddar voru leiðir til að aðstoða barnafjölskyldur í fjárhagsvanda. Að lokum hefur umboðsmaður vakið athygli á málinu á fundum með ráðherrum, bréfum og öðrum skrifum.

Ljóst er að niðurskurður undanfarinna ára hefur nú þegar bitnað umtalsvert á börnum. Hætta er á að frekari niðurskurður hafi í för með sér alvarlegri afleiðingar fyrir velferð barna og aukinn kostnað fyrir samfélagið þegar til lengri tíma er litið, eins og reynsla nágrannaþjóða okkar hefur meðal annars sýnt. Mikilvægt er að reynt verði að koma í veg fyrir það að þær þrengingar sem eiga sér stað í efnahagslífinu hafi áhrif á daglegt líf barna.

Dæmi um niðurskurð sem hefur átt sér stað í skólakerfinu er fækkun í starfsliði, sameining bekkja og niðurfelling námskeiða. Einnig hefur komið til skoðunar að fækka kennsludögum í grunnskólum og á árinu 2011 fóru fram nokkrar sameiningar á leik- og grunnskólum. Í framkvæmd er erfitt að skoða þessi mál því sveitarfélögin hafa skorið niður á mismunandi hátt. Umboðsmaður telur mikilvægt að mennta- og menningarmálaráðuneytið fylgist náið með að öll lögbundin þjónusta sé tryggð í leik- og grunnskólum en dæmi eru um að slík þjónusta hafi verið skert, t.d. réttur nemenda til að njóta náms- og starfsráðgjafar.

Í mars 2011 sendi umboðsmaður bréf til allra sveitarfélaga sem var stílað á sveitarstjóra og sveitarstjórnarmenn. Í bréfinu lýsir umboðsmaður barna yfir áhyggjum sínum af þeim niðurskurði sem hefur átt sér stað og er fyrirhugaður hjá sveitarfélögum landsins, ekki síst í leik- og grunnskólum og tómstundastarfi. Í ljósi þess efnahagsástands sem ríkt hefur hér á landi á undanförnum árum er ljóst að sveitarfélög þurfa að endurskipuleggja starfsemi sína og hagræða eins og hægt er. Við alla forgangsröðun er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem eiga rétt á sérstakri vernd og þjónustu, eins og meðal annars kemur fram í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Er því rétt að hlífa börnum við hvers konar niðurskurði. Sveitarfélög voru því hvött til að leita annarra leiða við niðurskurð áður en þjónusta við börn er skert með einum eða öðrum hætti. Í því sambandi má benda á 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem felur í sér að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn.

Umboðsmaður barna beindi einnig sérstaklega sjónum sínum að hagræðingaraðgerðum í leik- og grunnskóla. Slíkar breytingar skipta miklu máli fyrir daglegt líf barna á Íslandi. Þessar stofnanir eru mikilvæg kjölfesta í lífi barna og eru í einstakri stöðu til að jafna það félagslega misrétti sem börn búa óneitanlega við. Er því sérstaklega mikilvægt að ákvarðanir um slíkar breytingar séu vel grundaðar með hliðsjón af hagsmunum barna. Einnig er mikilvægt að meta sérstaklega hvaða áhrif ákvarðanir um hagræðingu munu hafa þegar til lengri tíma er litið en reynsla nágrannaþjóða okkar hefur sýnt að niðurskurður í menntakerfinu getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, ekki síst fyrir þá sem standa að einhverju leyti höllum fæti. Skoraði umboðsmaður á sveitarfélög að endurskoða tillögur um niðurskurð og hagræðingu í skólakerfinu og hafa hagsmuni barnanna í huga og að þeir hagsmunir gangi framar fjárhagslegum hagsmunum sveitarfélaga. Lagði umboðsmaður áherslu á að faglega yrði staðið að hagræðingu og samráð yrði haft við nemendur, fagfólk og foreldra.

Nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi hefur bent á að efnahagsstaða ríkis ein og sér dugar ekki til að réttlæta skerðingu á slíkum réttindum. Þannig þarf að leita annarra leiða við niðurskurð áður en þessi réttindi eru skert. Þar að auki er nauðsynlegt að þeir sem ákvörðun bitnar á séu hafðir með í undirbúningi hennar. Allar ákvarðanir sem hafa áhrif á daglegt líf barna ætti því að bera undir þau sjálf eða fulltrúa þeirra. Í því sambandi má benda á 12. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um rétt barna til að segja skoðun sína og hafa áhrif á ákvarðanir sem varða þau með einum eða öðrum hætti. Þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að jafnræðis sé gætt í hvívetna.

Umboðsmaður vonar að sveitarstjórnir hlutist til um að tryggja mannréttindi barna og hafi ávallt samráð við þau þegar taka á ákvarðanir sem varða velferð þeirra. Auk þess fagnar umboðsmaður öflugum viðbrögðum foreldra, foreldrafélaga og annarra við niðurskurðaráformum og telur þau skipta miklu máli við að þrýsta á að dregið verði úr niðurskurði í skólakerfinu og í tómstundastarfi.

Umboðsmaður mun halda áfram að fylgjast með og vekja athygli stjórnvalda á skyldu þeirra að setja hagsmuni barna ofar hagsmunum annarra í samfélaginu.

Úrræði fyrir börn í vanda

Á árinu bárust umboðsmanni barna nokkur erindi vegna barna sem eiga við vímuefnavanda að stríða og virtust dæmin sýna að fullorðnir fá í sumum tilfellum betri þjónustu en börn þó svo að um svipuð vandamál sé að ræða. Umboðsmaður barna hefur miklar áhyggjur af skorti á úrræðum fyrir börn sem neyta vímuefna og fjölskyldur þeirra. Hann telur brýnt að brugðist sé við vímuefnaneyslu barna með festu og fullnægjandi hætti og treystir því að aðstoð við þessi börn og fjölskyldur þeirra verði aukin. Umboðsmaður barna ræddi við foreldra og ýmsa fagaðila sem þekkja þennan málaflokk vel. Ljóst er að brýnt er að fjölga úrræðum fyrri börn sem stefna eigin velferð í hættu og tryggja gott aðgengi að úrræðunum. Umboðsmaður barna taldi þörf á víðtæku samráði margra aðila og boðaði fulltrúa Barnaverndar Reykjavíkur, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Barnaverndarstofu, Stuðla, velferðarráðherra og landlækni á fund á skrifstofu embættisins í byrjun júní. Tilefni fundarins var að ræða áhyggjur umboðsmanns um skort á meðferðarúrræðum fyrir börn sem eiga við vímuefnavanda að stríða og fjölskyldur þeirra.

Ljóst er að þau börn sem um ræðir hafa velflest sótt meðferðir á vegum Barnaverndarstofu, sum jafnvel ítrekað. Börnin virðast því þurfa lengri meðferðir og/eða aukna eftirfylgni. Á fundinum var meðal annars rætt um hvernig úrræði myndi betur henta þessum börnum og hvort stofna þyrfti nýtt meðferðarheimili sem henta þörfum þeirra. Þá kom í ljós að reglulega kæmi upp sú staða að neyðarvistun Stuðla gæti ekki tekið við fleiri börnum og dæmi eru um að börn í vanda áttu í engin hús að venda. Aðilar fundarins voru því sammála um að nauðsynlegt væri að fjölga neyðarúrræðum fyrir börn. Samkvæmt því sem fram kom stefnir Barnaverndarstofa að því að fjölga neyðarúrræðum þannig að ávallt verði hægt að koma barni í öruggt skjól þegar þörf er á. Óásættanlegt er að vísa þurfi barni út á götu og telur umboðsmaður barna því brýnt að brugðist verði við þessu sem fyrst.

Á fundinum kom einnig fram að Barnaverndarstofa væri að vinna að tillögum til velferðarráðherra um úrbætur í þessum málum. Í ljósi þessa sendi umboðsmaður barna bréf til Barnaverndarstofu í júní 2011 og óskaði ýmsum upplýsingum um tillögur að nýjum meðferðarúrræðum fyrir börn í alvarlegum vímuefnavanda. Í bréfi frá Barnaverndarstofu í júlí 2011 kom fram að aðilar frá Barnaverndarstofu hefðu fundað með velferðarráðherra þar sem tillögur Barnaverndarstofu um meðferðarmál barna og ungmenna, ásamt greinargerð, var lögð fram. Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því að þær aðgerðir, sem Barnaverndarstofa lagði til, verði ekki hrint í framkvæmd sökum niðurskurðar.

FJÖLMIÐLAR

Viðhorf til barna og umfjöllun um þau í fjölmiðlum

Umboðsmanni barna bárust margar ábendingar á árinu um umfjöllun fjölmiðla og birtingu mynda og persónuupplýsinga um börn og hagi þeirra. Greinilegt er að margir eru vakandi fyrir umfjöllun um börn í fjölmiðlum. Einnig kom það fyrir að fólk sendi umboðsmanni barna afrit af erindi sínu sem það sendi til fjölmiðla og að brugðist hafi verið við um leið. Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því hvernig fjallað er um börn og unglinga í fjölmiðlum og hefur gagnrýnt það. Á árinu 2011 stóðu umboðsmaður barna og lagadeild Háskólans í Reykjavík fyrir málþingi sem bar yfirskriftina Opinber umfjöllun um afbrot barna. Á málþinginu var fjallað um viðhorf til barna, stimplun sem börn verða fyrir ef þau fremja afbrot, birtingu dóma á netinu sem varða börn, vernd barna og hvernig tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs vegast á.

Umboðsmaður barna telur að fjölmiðlar, og stundum foreldrar, gangi of langt með umfjöllun um einkamálefni barna sem ættu í raun að njóta friðhelgi. Umboðsmaður barna telur að samþykki foreldra eigi ekki einungis að nægja til þess að fjölmiðlar fjalli um viðkvæm málefni barna heldur hvílir ákveðin ábyrgð á fjölmiðlum. Ef umfjöllun um börn er meiðandi ber að gæta sérstakrar varúðar. Þá ber að hafa í huga að umfjöllun um börn birtist ekki einungis í hefðbundnum fjölmiðlum heldur líka á samskiptasíðum og öðrum netmiðlum sem hafa sívaxandi vægi á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Umboðsmanni hafa borist fjölmargar ábendingar vegna umfjöllunar á blogg- og samskiptasíðum sem reynst hefur börnum þungbær. Mýmörg dæmi eru um fréttir ólíkra vefmiðla sem síðan færist í bloggheimana og umræðan verður þannig að börn hafa jafnvel ekki treyst sér út fyrir dyr og hafa orðið fyrir hótunum, m.a. um ofbeldi.

Einnig er athyglisvert hve fullorðnir geta verið dómharðir og hvað þeir gera stundum lítið úr börnum sem tjá sig t.d. í fjölmiðlum um samtímamál og þá er umræðan stundum á þann veg að þetta geti nú ekki verið þeirra skoðanir heldur hljóti þetta að koma frá foreldrum eða einhverjum öðrum fullorðnum. Í þessu sambandi má einnig nefna aðgerðir foreldra á netinu en mikilvægt er að foreldrar geri sér grein fyrir ábyrgð sinni þegar þau setja t.d. stöðuuppfærslur um börn sín á facebook eða myndir af þeim á netið og það sem foreldrar líta á sem góðlátlegt grín getur reynst börnum þeirra afar þungbært. Foreldrar þurfa, eins og börnin, að átta sig á því að það sem er eitt sinn komið á netið getur öðlast sjálfstætt líf.

Í 17. gr. Barnasáttmálans segir m.a. að aðildarríki viðurkenni mikilvægi fjölmiðla og skuli sjá um að börn hafi aðgang að upplýsingum og efni af ýmsum uppruna frá eigin landi og erlendis frá, einkum því sem ætlað er að stuðla að félagslegri, andlegri og siðferðislegri velferð þess, og líkamlegu og geðrænu heilbrigði. Í e-lið ákvæðisins er tekið fram að aðildarríkin skuli stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi reglur um vernd barna fyrir upplýsingum og efni sem skaðað getur velferð þeirra. Í samræmi við þetta ákvæði kemur m.a. fram í 28. gr. nýrra laga um fjölmiðla nr. 38/2011 að fjölmiðlaveitu sem miðlar hljóð- og myndefni sé óheimilt að miðla efni, þar á meðal hljóð- og myndsendingum í viðskiptaskyni, sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi efni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi. Heimilt er þó að víkja frá þessu með nokkrum undantekningum, t.d. á ákveðnum tíma eða ef komið er í veg fyrir að börn hafi aðgang að efninu.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að settar verði leiðbeiningarreglur um það hvernig fjölmiðlar fjalla um börn og hefur hann leitað til umboðsmanna barna á Norðurlöndum vegna þessa máls. Áhugavert er að skoða það sem Norðmenn hafa gert á þessu sviði, en norska blaðamannafélagið er meðal annars með reglur um að þegar fjallað er um barn eru það góðir starfshættir blaðamanna að taka tillit til þess hvaða afleiðingar fjölmiðlaumfjöllunin muni hafa á barnið. Þetta á einnig við þó að barn og foreldrar hafa samþykkt umfjöllun. Fjölmiðillinn þarf því að skoða málið með gagnrýnum hætti og spá í hvaða afleiðingar umfjöllun hafi fyrir barnið, enda hefur barn sjálfstæð mannréttindi eins og aðrir þjóðfélagsþegnar, sem aðrir geta ekki ráðstafað að vild. Það er mikilvægt að fullorðnir hafi ávallt í huga að bjóða aldrei börnum og unglingum upp á aðstæður sem þeir sjálfir myndu ekki sætta sig við. Þeir sem eldri eru bera ábyrgð á því að vernda börn og unglinga með öllum tiltækum ráðum og allar ákvarðanir sem varða börn skulu teknar með það fyrir augum hvað sé þeim fyrir bestu.

Sjónvarpsefni sem er ekki við hæfi barna

Ábending vegna barnaefnis þar sem þekktir leikarar voru í gervi, fóru niður í bæ og stálust inn að aftan í strætó. Einnig var í sama þætti sýnt frá börnum að veiða í Elliðaárdalnum en börn hafa drukknað þar. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.

Umboðsmanni barna barst fjöldi erinda á árinu 2011 um auglýsingar og dagskrárefni í sjónvarpi sem ekki var talið við hæfi barna. Erindi sem þessi voru margvísleg. Umboðsmaður barna hafði ekki tök á að taka öll erindin til skoðunar en benti þeim sem til hans leituðu að koma athugasemdum sínum til fjölmiðlanna sjálfra vegna dagskrár- og kynningarefnis. Einnig benti umboðsmaður barna á fjölmiðlanefnd en fjölmiðlanefnd var komið á fót með nýjum lögum um fjölmiðla nr. 38/2011. Nefndin er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem heyrir undir ráðherra og annast eftirlit með lögum um fjölmiðla og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Mikilvægt er að fjölmiðlar geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir bera gagnvart börnum og hafi í huga að óheimilt er að senda út dagskrárefni sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna.

Embætti umboðsmanns barna og talsmanns neytenda unnu sameiginlega umsögn við frumvarp til laga um fjölmiðla. Í umsögn sinni tóku embættin undir tillögu mennta- og menningarmálaráðherra um bann við auglýsingum í dagskrá sem er ætluð börnum yngri en 12 ára sem og 5 mínútum fyrir og eftir slíka útsendingu. Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda fögnuðu því ákvæði sem snéri að því að óheimilt væri að hvetja börn til neyslu á óhollum matvælum enda var það ákvæði í samræmi við leiðbeiningarreglur embættanna. Einnig mómæltu umboðsmaður og talsmaður því að frumvarpið fæli í sér brot gegn tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar eins og kom fram í umsögn SÍA (Samband íslenskra auglýsingastofa). Skylt er að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Í athugasemdum í greinargerð með ákvæðinu kemur m.a. fram að ákvæðið geti réttlætt undantekningar frá öðrum reglum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar – ef slíkar undantekningar eru nauðsynlegar til verndar börnum. Á það m.a. við um tjáningarfrelsi. Er því ljóst að mati umboðsmanns barna að takmarkanir á auglýsingum til verndar börnum teljast ekki brot á tjáningarfrelsi auglýsenda.

Eitt erindi sem barst umboðsmanni barna var þáttur var bannaður börnum innan 12 ára kl. 20:45 að kvöldi sunnudags, þó að í 28. gr. fjölmiðlalaga sé kveðið á um að einungis sé heimilt að sýna slíkt efni eftir kl. 22:00 um helgar. Óvíst er hvað átt er við með hugtakinu „helgi“ en það var ekki útskýrt í athugasemdum við frumvarpið. Umboðsmaður barna ákvað í þessu tilfelli að koma ábendingunni um brot á 28. gr. fjölmiðlalaga á framfæri við fjölmiðlanefnd. Með bréfinu óskaði umboðsmaður einnig eftir upplýsingum um hvað nákvæmlega sé átt við með hugtakinu „helgi“ í a. lið 28. gr. fjölmiðlalaga þannig að ljóst verði við hvaða tímamörk eigi að miða þegar kemur að útsendingu efnis sem ekki er við hæfi barna. Þetta er ekki skýrt í athugasemdum með frumvarpinu eða í nefndarálitum að öðru leyti en að í áliti meiri hluta segir „[m]eiri hlutinn fagnar aukinni vernd hagsmuna barna og leggur á það áherslu að allar takmarkanir er lúta börnum verði skýrðar þröngt og að hagsmunir barna verði ávallt settir í forgang.“ Börn fá oft að vaka lengur á föstudagskvöldum og kvöldin á undan frídögum og því telur umboðsmaður eðlilegt að miða við að efni sem sýnt er fyrir kl. 22:00 þau kvöld sé við hæfi þeirra. Umboðsmaður óskar því eftir afstöðu fjölmiðlanefndar til þessa álitamáls. Umboðsmaður barna vill að börn njóti í raun þeirrar verndar sem lögin eiga að veita þeim og því getur þessi túlkun skipt miklu máli. Fjölmiðlanefnd vildi ekki skýra þetta heldur skoðar nefndin þær ábendingar eða kvartanir sem til hennar berast.

Áfengisauglýsingar

Umboðsmanni barna berast reglulega ábendingar vegna áfengisauglýsinga á viðburðum sem börn sækja. Í þeim tilvikum þegar áfengi er auglýst er um að ræða auglýsingar á „léttöli“ og má því deila um hvort brotið sé gegn 1. mgr. 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Að því tilefni sendi umboðsmaður barna innanríkisráðherra bréf í ágúst 2011 þar sem hann skoraði á stjórnvöld að gera ákvæði 1. mgr. 20. gr. áfengislaga skýrara þannig að hvers kyns áfengisauglýsingar verði bannaðar, hvort sem um er að ræða „léttöl“ eða ekki.

Umboðsmaður barna hefur áður vakið athygli á nauðsyn þess að takmarka dulbúnar áfengisauglýsingar með virkum hætti. Auglýsingum er almennt ætlað að hafa þann tilgang að hvetja til neyslu og stuðla að jákvæðu viðhorfi til þeirrar vöru sem auglýst er. Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem á rétt á sérstakri vernd, sbr. m.a. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Börn eru auk þess sérstaklega viðkvæm fyrir allri markaðssetningu og hafa auglýsingar því almennt meiri áhrif á þau en aðra. Áfengisauglýsingar hafa þannig áhrif á viðhorf barna til áfengis og stuðla að aukinni neyslu unglinga. Ljóst er að áfengi hefur ýmis skaðleg áhrif á líffæri, þroska og almenna velferð barna. Áfengis- og léttölsauglýsingar eiga aldrei rétt á sér á viðburðum sem börn sækja. Hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn áfengisauglýsingum eiga alltaf að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem hafa hag af aukinni sölu áfengis.

Umboðsmaður barna sendi einnig tölvupóst til allra sveitarstjóra og sýslumanna og vakti athygli á hagsmunum barna sem myndu sækja útihátíðir um sumarið og aðrar skemmtanir sem bjóða upp á dagskrá fyrir börn og hvatti forsvarsmenn sveitarfélaga að huga að ábyrgð sinni gagnvart börnum. fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem standa að viðburðum sem ætlaðir eru fjölskyldufólki verða að víkja fyrir hagsmunum barna, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um að það sem er börnum fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn.

Markaðssetning

Umboðsmanni barna bárust þó nokkuð margar ábendingar sem lutu að markaðssetningu sem beint var að börnum. Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af mikilli markaðssetningu sem beinist að börnum og hvernig áhrif hún hefur á sjálfsmynd þeirra. Markaðssetning sem ýtir undir útlitsdýrkun hjá unglingum er ekki æskileg. Mikilvægt er að fólk sé vakandi fyrir slíkum auglýsingum. Umboðsmaður barna tekur við ábendingum um markaðssetningu sem beinist að börnum þó hann hafi ekki tök á að bregðast við í hvert sinn. Hann reynir þá að leiðbeina fólki að hafa samband við þá sem eru að auglýsa til að koma kvörtunum á framfæri.

Ábendingar lutu líka að ýmsum söfnunar- og happaleikjum sem eru notaðir til að beina markaðssetningu að börnum. Í leiðbeinandi reglum um neytendavernd barna sem umboðsmaður barna og talsmaður neytenda gáfu út árið 2009 er sérstaklega tekið fram að slíkum aðferðum ætti ekki að beita þegar um er að ræða óhollar matar- og drykkjarvörur í miklu magni.

Að lokum má líka nefna erindi vegna DVD mynddiska með barnaefni þar sem er að finna auglýsingar áður en barnaefnið hefst en ekki er hægt að komast hjá þessum auglýsingum auk þess sem óbeinar auglýsingar er að finna í sjálfu efninu. Engin lagaákvæði eru til sem banna auglýsingar á mynddiskum, að öðru leyti en að allt efni þarf að vera talið við hæfi barna á þeim aldri sem myndin er ætluð, sbr. lög um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006. Umboðsmaður barna velti því líka fyrir sér hvort um væri að ræða brot á 6. og 7. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 og benti viðkomandi einstaklingi á að leita til Neytendastofu sem fer með eftirlit með þeim lögum. Í leiðbeinandi reglum umboðsmanns barna og talsmanns neytenda er tekið fram að gæta skuli hófs í auglýsingum á seldu barnaefni á DVD mynddiskum. Ennfremur kemur fram að forðast skuli alla markaðssókn á matvælum með hátt innihald sykurs, salts og transfitu. Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda hefðu viljað ganga lengra og banna alla markaðssetningu í myndefni sem ætlað er börnum en til þess að ná sáttum við aðila markaðarins og auka líkurnar á því að reglunum yrði fylgt var þessi leið valin. Þar sem umræddar leiðbeinandi reglur eru ekki beinlínis bindandi fyrir aðila hefur gengið misvel að fylgja þeim eftir.

Skráargatið

Eitt af því sem að umboðsmaður barna og talsmaður neytenda lögðu áherslu á í sambandi við neytendavernd barna er opinbert hollustumerki að skandínavískri fyrirmynd, skráargatsmerkið. Gáfu embættin m.a. sameiginlega umsögn um þingsályktunartillögu um Skráargatið. Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda lögðu áherslu á að neytendavernd barna myndi aukast með því að taka upp slíkt hollustumerki þar sem þá tækju gildi leiðbeiningarákvæði frá embættunum um að halda ekki öðrum matvælum að börnum. Segir í reglunum að ef opinbert hollustumerki verði tekið upp skuli leitast við að aðeins matvæli, sem uppfylla kröfur þess, séu nærri búðarkössum, auglýst eða markaðssett fyrir börn eða í íþróttamannvirkjum og sundlaugum. Í reglum umboðsmanns og talsmanns neytenda er hollusta matvæla lykilatriði því að stór þáttur í þeim er að sporna við markaðssókn gagnvart börnum á matvælum með hátt innihald sykurs, salts, fitu og transfitu. Í sameiginlegri umsögn embættanna segir að helstu rökin fyrir jákvæðu, valfrjálsu hollustumerki felist í því að þannig er hægt að leiðbeina með skjótum hætti í hraða hversdagsins þeim neytendum og foreldrum – leikum sem lærðum – sem vilja velja holl matvæli óháð þekkingu á næringarfræði eða tungumálum o.s.frv. Þá er merkið þess eðlis að einfalt er að kenna börnum hvað felst í því. Rannsóknir sýna að neysluvenjur mótast snemma og því heppilegt að hafa einfaldar leiðbeiningar á því sviði sem auðvelda börnum og fullorðnum að velja holla matvöru. Neytendur eiga rétt á vali og upplýsingum. Fleira en verð skiptir neytendur máli, svo sem gæði, öryggi og hollusta matvöru. Með hollustumerki er það upplýsta valfrelsi neytenda gert virkara. Enginn sjálfkrafa kostnaður felst í því að taka upp slíkt merki. Vitneskja liggur yfirleitt fyrir um innihald matvæla hvað varðar sykur, salt, fitu, transfitusýru og trefjar. Embætti umboðsmanns barna og talsmanns neytenda binda vonir við að hollustumerkið (skráargatið) verði brátt eitthvað sem allir neytendur þekkja – bæði börn og fullorðnir.

FRÍTÍMI, TÓMSTUNDIR OG MENNING

Íþrótta- og tómstundastarf

Reglulega berast umboðsmanni barna erindi sem varða íþrótta- og tómstundastarf barna og ákvarðanir sem eru teknar í slíku starfi. Umboðsmaður bara telur mikilvægt að sjónarmið Barnasáttmálans séu ávallt í hávegum höfð þegar teknar eru ákvarðanir hvort sem þær eru teknar heima, í skóla eða í tómstundarstarfi með börnum.

Öryggi á leiksvæðum barna

Umboðsmaður barna fær reglulega ábendingar og erindi frá ýmsum aðilum sem varða öryggi barna á leiksvæðum. Að því tilefni fundaði umboðsmaður barna ásamt Herdísi Storgaard forstöðumanni Slysavarnarhússins með umhverfisráðherra og lýsti m.a. áhyggjum sínum yfir ástandi öryggismála almennt og beindi svo sjónum sínum að öryggi á leiksvæðum barna, sérstaklega leikskólalóðum. Í kjölfarið sendi umboðsmaður bréf til ráðherra í september 2011. Í bréfinu var tekið fram að ljóst væri að flest sveitarfélög fara ekki eftir reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim þegar kemur að eftirliti með öryggi leiksvæðanna. Samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar og viðauka III við hana eiga rekstraraðilar, sem oftast eru sveitarfélög, að fá fagaðila til að framkvæma aðalskoðun árlega auk þess sem framkvæma á rekstrarskoðun á 1-3 mánaða fresti. Þessu er í flestum tilfellum ekki sinnt þrátt fyrir ábendingar heilbrigðiseftirlitsins. Umboðsmaður barna lýsti yfir verulegum áhyggjum af stöðu þessara mála enda er brýnt að vernda yngstu börnin sérstaklega þegar kemur að leikumhverfi þeirra. Þá er mikilvægt að foreldrum og starfsfólki leikskólanna séu kynntar gildandi reglur og hvernig hægt sé að fá upplýsingar um ástand öryggismála á leikskólum landsins. Umboðsmaður barna vonast til að tekið verði á þessum málum sem fyrst þannig að börnum verði tryggð sú vernd sem velferð þeirra krefst. Umboðsmaður mun halda áfram að fylgjast með gangi mála árið 2012. Umboðsmaður barna fundaði einnig með aðilum frá BSI á Íslandi sem er eini löggilti aðilinn á Íslandi til að framkvæma aðalskoðun á leikvöllum. Þar kom skýrt fram reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim er ekki fylgt í framkvæmd.

Lög um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum

13 ára drengur segir það fáránlegt að það séu lög sem banna aðgang að leikjum og bíómyndum þar sem það er búið að loka kvikmynda- og tölvuleikjaeftirliti Íslands. Það er ekki samræmi núna á milli hvaða tölvuleiki börn megi spila og hvaða kvikmyndir þau megi horfa á. Annað hvort ætti að fella lögin úr gildi eða opna eftirlitið aftur.

Fyrirspurn frá móður varðandi aldursmerkingar á DVD kvikmynd sem var leyfð hér á landinu (merkingin L) en bönnuð innan 18 ára (merking R) í öðrum löndum.

Á undanförnum árum hafa umboðsmanni barna borist ábendingar varðandi aðgang barna að kvikmyndum og tölvuleikjum og eftirliti með þeim. Af því tilefni sendi hann bréf til mennta- og menningarmálaráðherra í apríl 2011 þar sem bent var á að lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006 var ekki nægilega fylgt í framkvæmd, þó að nær fimm ár væru liðin frá gildistöku þeirra. Mikilvægt er að börnum sé tryggð sú vernd sem lögin kveða á um. Börn eru berskjölduð fyrir neikvæðum áhrifum myndefnis, s.s. tölvuleikja, kvikmynda og auglýsinga. Slíkt efni getur haft mikil og varanleg áhrif á siðferðisþroska þeirra, sérstaklega þegar það inniheldur ofbeldi, klám, neikvæðar staðalímyndir eða jákvæð viðhorf til hluta eða athafna sem teljast skaðleg. Umboðsmaður barna taldi að ekki væri farið eftir fyrrnefndum lögum, þrátt fyrir að Barnaverndarstofa, sem átti m.a. að hafa eftirlit með lögunum, hafi verið að vinna að málinu um nokkurt skeið. Í bréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir að eftirlitshlutverk Barnaverndarstofu hafi fallið illa að kjarnastarfsemi Barnaverndarstofu og var því ákveðið að fela nýrri stjórnsýslunefnd, fjölmiðlanefnd, eftirlit með lögum. Ráðuneytið batt vonir við að fjölmiðlanefnd muni hafa virkara eftirlit með lögunum þar sem þau falla að öðrum verkefnum fjölmiðlanefndar hvað varðar vernd barna gegn skaðlegu hljóð- og myndmiðlunarefni. Var því eftirlit með kvikmyndum og tölvuleikjum, sem áður var í höndum Barnaverndarstofu, fært til fjölmiðlanefndar með lögum um fjölmiðla nr. 38/2011. Hefur fjölmiðlanefnd því víðtækt hlutverk hvað varðar vernd barna gegn óæskilegu hljóð- og myndmiðlunarefni. Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því að með þessu verkefni fjölmiðlanefndar hafi ekki fylgt nægilegt fjármagn til að hægt sé að sinna því. Eftirlit með lögum nr. 62/2006 er því ennþá ekki í nægilega góðum farvegi. Mikilvægt er að lögum, sem sett eru í þeim tilgangi að vernda börn, sé fylgt í framkvæmd og leggur umboðsmaður barna því áherslu á að þetta verði tryggt.

Áfengisauglýsingar íþróttafélaga

Áfengisauglýsingar eiga aldrei rétt á sér á viðburðum sem börn sækja. Hagsmunir barna og unglinga af því að njóta verndar gegn áfengisauglýsingum eiga alltaf að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir annarra. Vegna ábendinga sem bárust umboðsmanni barna vegna áfengisauglýsinga á viðburðum sem haldnir eru á vegum aðildarfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), sem og í tímaritum sem gefin eru út af þeim, ákvað umboðsmaður barna að bregðast við með því að senda ÍSÍ bréf í janúar 2011 til að vekja athygli á málinu og kanna við viðbrögð sambandsins. Í bréfinu tók umboðsmaður fram að í þeim tilvikum sem um áfengisauglýsingar var að ræða var verið að auglýsa „léttöl“ en ljóst var að auglýsingarnar fóru í bága við stefnuyfirlýsingu ÍSÍ frá 2. nóvember 1997 um forvarnir og fíkniefni. Í stefnuyfirlýsingunni eru aðildarfélög hvött til þess að festa í lög sín ákvæði þar sem tekin er einörð afstaða gegn neyslu á áfengi, tóbaki og fíkniefnum. Auk þess voru auglýsingarnar ekki í samræmi við 2. gr. reglugerðar ÍSÍ um auglýsingar. Umboðsmaður barna hefur vakið athygli á því undanfarin ár að takmarka ætti dulbúnar áfengisauglýsingar með virkum hætti. Bann við áfengisauglýsingum hefur forvarnargildi og er ætlað að draga úr áfengisneyslu. Áfengisauglýsingar hafa áhrif á viðhorf barna til áfengis og stuðla að aukinni neyslu unglinga. Ljóst er að áfengi hefur skaðleg áhrif á líffæri og þroska barna, auk þess sem heili ungs fólks er ennþá að vaxa og þroskast fram yfir 20 ára aldur. Áfengisneysla á mótunartíma heilans getur því skaðað ákveðnar stöðvar hans fyrir lífstíð. Í bréfi umboðsmanns lagði hann áherslu á það góða starf sem ÍSÍ hefur unnið varðandi íþróttaiðkun barna og unglinga og ýmis konar forvarnir og því mikilvægt að ÍSÍ haldi því starfi áfram og leitist við að tryggja að aðildarfélög þess séu meðvituð um hlutverk sitt í lífi barna. Hvatti umboðsmaður barna ÍSÍ til að sjá til þess að aðildarfélög þess framfylgi stefnuyfirlýsingu ÍSÍ frá 1997 og taki afstöðu gegn neyslu áfengis, tóbaks, og fíkniefna og tryggi að slík efni séu ekki auglýst á vegum þeirra, hvort sem auglýsingar eru dulbúnar með léttölsmerkingu eða ekki. Að lokum óskaði umboðsmaður barna eftir upplýsingum hvernig ÍSÍ framfylgi stefnuyfirlýsingu sinni um forvarnir og fíkniefni og hvernig ÍSÍ tekur á því þegar aðildarfélög þeirra auglýsa áfengi eða léttöl. Svar barst frá ÍSÍ í febrúar þar sem ábendingum umboðsmanns barna er fagnað og tekur ÍSÍ undir áhyggjur embættisins varðandi auglýsingar á léttöli. ÍSÍ hefur lagt áherslu á það við sambandsaðila sína að þau fylgi lögum og reglum um þessi mál og taki einarða afstöðu gegn neyslu áfengis, tóbaks og fíkniefna. Ekki er um nein viðurlög að ræða af hálfu ÍSÍ ef brotið er gegn fyrrnefndri reglugerð heldur vísar hún til landslaga varðandi auglýsingar á áfengi. Umboðsmaður barna mun fylgjast áfram með áfengisauglýsingum íþróttafélaga.

Ferðir ólögráða einstaklinga með Iceland Express

Umboðsmanni barna barst ábending vegna máls þar sem 14 ára stúlka ferðaðist með Iceland Express en var neitað um flugfar þar sem vélin var yfirbókuð. Var stúlkunni vísað frá án þess að tryggt væri að hún væri í öruggum höndum forsjáraðila eða annarra. Mikið var fjallað um málið í fjölmiðlum. Ljóst var að ákvæði reglugerðar nr. 574/2005 um gildistöku reglugerðar EB nr. 261/2004 voru brotin. Umboðsmanni barna var verulega brugðið vegna þessa, enda um alvarlegt mál að ræða þegar barn er skilið eftir í útlöndum við framandi aðstæður sem það hefur ekki tök á að ráða við sjálft. Umboðsmaður barna veltir fyrir sér hvernig hægt er að tryggja að slíkt gerist ekki aftur. Í bréfi sem umboðsmaður barna sendi Iceland Express var farið fram á upplýsingar um þær reglur og verklag sem félagið viðhefur þegar börn ferðast, hvort sem þau ferðast með foreldrum, ein með fylgd félagsins, ein án fylgdar eða á annan hátt. Þá óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um það hvernig þessar reglur væru kynntar starfsfólki og almenningi og hvernig félagið bregst við þegar þær eru ekki virtar. Eftir að umboðsmaður barna hafði ítrekað bréf sitt til Iceland Express barst svar frá fyrirtækinu. Í bréfinu voru reglur fyrirtækisins um fylgd einstaklinga upp að 15 ára aldri útskýrðar en í þessu tilfelli hafði ekki verið óskað eftir fylgd. Jafnframt var viðurkennt að starfsmaður félagsins hefði gert mistök með því að láta stúlkuna sem um ræðir af fluginu. Að lokum var tekið fram að reglum flugfélagsins hefði verið breytt og það muni ekki fljúga með einstaklinga yngri en 16 ára án fylgdar. Umboðsmaður barna bindur vonir um að ofangreint tilvik endurtaki sig ekki.

MISMUNANDI KJÖR FYRIR BÖRN

Vildarklúbbur – mismunandi aldur

Umboðsmanni barna bárust nokkur erindi um það þegar börn borga fullorðinsgjöld. Dæmi um slíkt erindi er þegar börn njóta ekki sömu fríðinda og fullorðnir hvað varðar Vildarklúbb Icelandair. Börn greiða sama verð og fullorðnir frá 12 ára aldri en er ekki kleift að safna svokölluðum punktum sem getur nýst þeim síðar þegar flug er pantað.

Umboðsmaður barna getur ekki séð að ástæða sé til að takmarka félagsaðild í Vildarklúbbi Icelandair við lögræðisaldur, ef klúbburinn felur ekki í sér fjárhagslega skuldbindingu af hálfu barna, enda hefur Icelandair ákveðið að miða fullorðinsgjald við 12 ára aldur. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að óheimilt er að mismuna einstaklingum eftir aldri nema málefnalegar ástæður réttlæti slíkt, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Auk þess er mikilvægt að tryggja að börn, sem greiða fullorðinsgjald, njóti aldrei lakari þjónustu eða fríðinda en fullorðnir. Þar sem töluverð markaðssetning felst í Vildarklúbbnum getur hins vegar verið ástæða til að láta aðrar reglur gilda um félaga sem eru undir 18 ára aldri, t.d. með því að senda auglýsingar fremur til forsjáraðila en barnanna sjálfra. Umboðsmaður barna kom athugasemdum sínum á framfæri við Icelandair með almennum hætti þar sem ekki öll atriði varðandi markaðssetningu og skuldbindingar meðlima í Vildarklúbbnum eru ljós. Verið er að endurskoða aldurstakmark í Vildarklúbbinn.

Strætófargjöld fyrir börn

Umboðsmanni barna bárust athugasemdir vegna mismunandi fargjalda Strætó bs. þegar kom að börnum. Mismunurinn fólst í því að framhaldsskólanemum gafst tækifæri á að kaupa svokölluð nemakort með sérstökum afslætti sem gilti fyrir skólaárið. Grunnskólanemendur nutu ekki sömu kjara hvað þetta varðaði og var ekki heimilt að kaupa fyrrnefnt nemakort. Þeir síðarnefndu þurftu að kaupa Bláa kortið sem gilti í 9 mánuði og kostaði töluvert meira en áðurnefnd nemakort. Ungmenni á aldrinum 12-18 ára borguðu því sama verð og fullorðnir fyrir tímabilskort en nutu þó sérkjara þegar kom að kaupum á farmiðaspjöldum. Umboðsmaður barna sendi Strætó bs. bréf í október 2011 til að koma því á framfæri að umboðsmanni þætti eðlilegast að yngri börn myndu njóta sömu kjara og eldri börn þegar kemur að kaupum á tímabilskortum og hafa sömu tækifæri til kaupa á nemakortum. Svar við bréfi umboðsmanns barst rétt fyrir jól. Þar segir að stjórn Strætó bs. hafi ákveðið að frá og með 1. janúar 2012 verði nemakort einnig í boði fyrir börn á grunnskólaaldri. Með þeirri aðgerð bjóðast sömu kjör handa öllum börnum að því undanskildu að börn á aldrinum 0-6 ára ferðast endurgjaldslaust með strætó. Telur Strætó bs. því að jafnræðis sé nú gætt í verðlagningu. Umboðsmaður barna fagnar góðum viðtökum Strætó bs. við ábendingu embættisins enda ljóst að umræddar breytingar eru til mikilla hagsbóta fyrir börn á grunnskólaaldri sem nota strætó.

KYNJUÐ HAGSTJÓRN

Á árinu 2010 tók umboðsmaður barna þátt í tilraunaverkefni í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð fyrir hönd forsætisráðuneytisins. Markmið verkefnisins var að kanna hvort munur sé á efni og afgreiðslu erinda sem bárust umboðsmanni barna eftir kyni þeirra sem bera upp erindið. Umboðsmaður barna kannaði því með hvaða hætti kynin njóta þeirrar leiðbeiningarþjónustu sem embættið veitir með því að athuga efni og afgreiðslu erinda sem bárust það árið. Niðurstöðurnar voru greindar og teknar saman í skýrslu árið 2011.

Fyrir liggur að stærsti útgjaldaliðurinn í rekstri embættis umboðsmanns barna er launakostnaður. Til að kanna nýtingu hins opinbera fés sem rennur til umboðsmanns barna lá því beint við að kanna hvernig starfsfólk ver tíma sínum í starfi og þá sérstaklega við svörun erinda sem er veigamikill þáttur í starfseminni. Ákveðið var að takmarka erindin sem talin voru við samskipti sem ekki er stjórnað þannig að regluleg samskipti við samstarfsfólk, s.s. starfsfólk stofnana, ráðuneyta, Alþingis og félagasamtaka, voru ekki talin með. Fyrir hvert erindi af þeim 914, sem talin voru, var skráður sá tími sem það tók starfsmann að sinna erindinu, kyn þess sem hafði samband, kyn og aldur barnsins eða barnanna sem erindið varðaði auk þess sem skráð var hvaða málaflokki erindið tilheyrði o.fl.

Niðurstöður könnunarinnar sýna að u.þ.b. 2/3 hlutar erinda sem berast embættinu eru frá konum og stúlkum en 1/3 frá körlum og drengjum. Það á jafnt við um börn og fullorðna þó að munurinn sé nokkuð meiri hjá börnum en fullorðnum þannig að stúlkur hafa frekar samband en drengir. Ástæðurnar fyrir þessari skiptingu hjá hinum fullorðnu eru líklega að mestu leyti menningarbundnar og staðfesta þá hugmynd að konur beri almennt meiri ábyrgð á börnum þegar kemur að uppeldi og velferð þeirra. Þá er íslenskur vinnumarkaður mjög kynjaskiptur og starfsfólk í þeim geirum, sem helst sinna börnum, þ.e. menntun, heilbrigðisþjónustu, barnavernd, eru í miklum meirihluta konur. Hvað varðar börnin er erfitt að segja til um af hverju stúlkur leita frekar eftir aðstoð en drengir og er það eitt af því sem embættið stefnir á að vinna meira með í framtíðinni.

Þegar bornar eru saman tölur um innkomin erindi eftir kynjum og skiptingu tíma starfsfólks milli kynja þeirra sem hafa samband, er ljóst að starfsfólk ver hlutfallslega jafnmiklum tíma í að sinna erindum frá konum og körlum. Það sama á við um stúlkur og drengi þó að börn hafi að jafnaði fengið meiri tíma en hinir fullorðnu. Þannig má sjá að hver kona fékk að meðaltali 42 mínútna þjónustu á meðan hver karl fékk að meðaltali 40 mínútur af tíma stafsfólks. Hvert erindi frá stúlkum tók að meðaltali 48 mínútur að afgreiða á meðan erindi frá drengjum tók einni mínútu lengur að afgreiða.

Þó að verklag og útdeiling þjónustu hjá umboðsmanni barna feli ekki í sér mismunun af hálfu starfsfólks er ljóst að kerfisbundinn og menningarlegur munur á stöðu kynjanna hefur töluverð áhrif á það hverjir nýta sér þjónustu umboðsmanns. Í framhaldinu mun umboðsmaður barna huga að því hvað embættið getur gert til að jafna út þennan mun, sérstaklega hvað varðar börn.

TRYGGINGAR FYRIR BÖRN

Umboðsmanni barna barst ábending um að umsókn um tryggingu fyrir barn hefði verið hafnað af tryggingafélaginu Sjóvá vegna raskana sem barnið hafði verið greint með. Ákvað umboðsmaður barna því að kanna hvaða reglur gilda og hvernig verklagi er háttað þegar kemur að tryggingum fyrir börn. Umboðsmaður barna óskaði eftir upplýsingum frá sex tryggingafélögum sem starfa á íslenskum tryggingamarkaði. Svör bárust frá þeim öllum. Spurningar umboðsmanns lutu að því hvort tryggingafélög hafi hafnað umsóknum fyrir börn og ef svo er á hvaða grundvelli slík höfnun væri byggð. Einnig var spurt hvort skilmálar trygginga væru mismunandi eftir stöðu og heilsufari barna. Óskaði umboðsmaður eftir því að skilmálarnir yrðu sendir til upplýsinga. Þriðja spurningin laut að því hvort verð trygginga væri mismunandi eftir stöðu og heilsufari barna. Óskaðist verðskrá send til upplýsinga. Að lokum óskaði umboðsmaður eftir frekari upplýsingum sem mikilvægt væri að embættið hefði vitneskju um til að fá heildstæða mynd af þeim tryggingum sem bjóðast börnum.

Við úttekt á svörunum kom í ljós að í einu tilfelli var munur á iðgjöldum drengja og stúlkna vegna trygginga. Umboðsmaður barna velti því fyrir sér hvort slíkt stæðist jafnréttislög. Hann kom því ábendingu um þetta á framfæri við Jafnréttisstofu í þeirri von um að Jafnréttisstofa myndi kanna málið eða taka það til meðferðar.

Þegar sótt er um barnatryggingar er foreldrum skylt að gefa upp viðamiklar upplýsingar um barnið sem um ræðir, s.s. sjúkdómasögu, greiningar sem barnið hefur og fleira. Umboðsmaður barna setti einnig spurningamerki við að upplýsingum um börn sé safnað saman með þessum hætti og vakti því athygli Persónuverndar á málinu. Börn hafa í flestum tilfellum lítið með það að gera að sótt er um tryggingu fyrir þau og að safnað sé nákvæmum upplýsingum um þau og sjúkrasögu þeirra. Einnig má velta fyrir sér hvernig síðan er farið með þær upplýsingar sem safnað er og hvort tryggingafélög hafi þær enn undir höndum þegar börnin eru orðin fullorðin og ætla að sækja um tryggingu hjá hlutaðeigandi tryggingafélagi. Mörg flókin álitamál sækja að varðandi þetta mál eins og t.d. hvort eðlilegt sé að börn séu flokkuð með þessum hætti, hvort jafnræði sé tryggt í málsmeðferð tryggingafélaga og hvaða þýðingu þetta hefur til framtíðar fyrir börn.

RÁÐGJAFARHÓPUR UMBOÐSMANNS BARNA

Umboðsmaður barna hefur alltaf lagt mikla áherslu á 12. gr. Barnasáttmálans sem fjallar um rétt barna til að tjá sig og að tekið sé tillit til skoðana þeirra. Umboðsmaður kom því á fót ráðgjafahópi ungmenna á aldrinum 13-17 ára í ársbyrjun 2009 með það fyrir augum að hann geti verið ráðgefandi aðili fyrir embættið um málefni er snerta börn og ungmenni. Þannig geta börn og ungmenni látið skoðanir sínar í ljós og haft áhrif á störf umboðsmanns barna.

Á árinu 2011 voru ungmenni í ráðgjafahóp umboðsmanns barna tæplega tíu. Heldur hefur hallað á þátttöku drengja í hópnum en í desember bættust þrír nýjir strákar við hópinn og bætti þar með kynjahlutfall hópsins töluvert. Ráðgjafahópurinn fundaði sjö sinnum yfir tímabilið og voru verkefni hópsins fjölbreytt, meðal þess sem hópurinn tók fyrir var gerð myndbanda í samstarfi við Reykjarvíkurakademíuna, innritunarreglur framhaldsskólanna þar sem hópurinn á tvo fulltrúa í nefnd hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Stjórnlög unga fólksins þar sem einn ráðgjafi stýrði umræðum á borði. Nánar er fjallað um það á bls. 25. Auk þessa fjallaði ráðgjafahópurinn um ýmis almenn mál og aðstoðaði umboðsmann við ýmislegt, t.d. skoðuðu ungmennin leiðbeinandi reglur um neytendavernd barna og gáfu umsögn um þær.

Að lokum er rétt að nefna að aðili frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu leitaði til umboðsmanns barna og bauð honum að senda fulltrúa á evrópska ráðstefnu fyrir ungmenni þar sem fjallað var um skóla án aðgreiningar. Umboðsmaður sendi fulltrúa sem hafði verið mjög virkur í ráðgjafahóp embættisins á ráðstefnuna en hafði náð 18 ára aldri. Það er því ljóst að ráðgjafahópurinn getur opnað ýmsar leiðir fyrir ungmennin.

Hingað til hafa öll ungmenni, sem óska eftir því, fengið að taka þátt í ráðgjafahópnum sem óska eftir því. Hægt er að fá nánari upplýsingar á heimasíðu embættisins, www.barn.is.

UMSAGNIR

Einn af mikilvægum þáttum í starfi umboðsmanns barna er að veita Alþingi umsagnir um lagafrumvörp og tillögur til þingsályktunar er varða hagsmuni og réttindi barna. Einnig kemur fyrir að óskað er eftir umsögnum um drög að frumvörpum eða reglugerðum sem eru í vinnslu hjá ráðuneytum. Árið 2010 veitti umboðsmaður barna umsagnir um eftirfarandi mál:

 • Frumvarp til laga um fjölmiðla, 198. mál (sameiginleg umsögn með talsmanni neytenda).
 • Frumvarp til laga um félagslega aðstoð (hámark umönnunargreiðslna), 114. mál.
 • Tillaga til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára, 334. mál.
 • Tillaga til þingsályktunar um staðgöngumæðrun (heimild til staðgöngumæðrunar), 310. mál.
 • Tillaga til þingsályktunar um skipun starfshóps um ofbeldi maka gegn konum frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, 211. mál.
 • Frumvarp til umferðarlaga (heildarlög), 495. mál.
 • Tillaga til þingsályktunar um norræna hollustumerkið, Skráargatið, 508. mál. Unnið í samvinnu við talsmann neytenda.
 • Frumvarp til laga um námsstyrki (aukið jafnræði til náms), 734. mál.
 • Frumvarp til laga um grunnskóla (bættur réttur nemenda o.fl.), 747. mál.
 • Frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands (heildarlög), 674. mál.
 • Frumvarp til laga um fullnustu refsinga (rafrænt eftirlit og samfélagsþjónusta), 727. mál.
 • Frumvarp til laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili, 706. mál.
 • Frumvarp til laga um barnalög (réttindi barns, forsjá, sáttameðferð o.fl.), 778. mál.
 • Frumvarp til laga um íslenskan ríkisborgararétt (biðtími vegna refsinga o.fl.), 135. mál.
 • Tillaga til þingsályktunar um Íslandssögukennslu í framhaldsskólum (aukið vægi í námskrám), 89. mál.
 • Tillaga til þingsályktunar um hitaeiningamerkingar á skyndibita, 24. mál. Unnið í samvinnu við talsmann neytenda.
 • Tillaga til þingsályktunar um norræna hollustumerkið Skráargatið, 22. mál. Unnið í samvinnu við talsmann neytenda.
 • Frumvarp til laga um skattaívilnanir í þágu tilgreindra félagasamtaka (skattafrádráttur vegna gjafa), 107. mál.
 • Frumvarp um breytingu á lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, 88. mál.
 • Frumvarp til laga um grunnskóla (tímabundin skerðing kennslutíma), 156. mál.
 • Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012. Niðurskurður hjá Barnaverndarstofu.
 • Drög að viðmiðum um gæði í skólastarfi fyrir ytra mat á grunnskólum.
 • Drög að almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla.

SAMSTARF

Innlendir samstarfsaðilar

Hjá umboðsmanni barna eru einungis fjórir starfsmenn og er því mikilvægt fyrir starf embættisins að eiga gott samstarf við aðra aðila sem vinna að málefnum barna. Umboðsmaður barna leitar reglulega eftir áliti hjá sérfræðingum á ýmsum sviðum, svo sem starfsfólki stofnana eða annarra fagaðila. Á árinu 2011 átti umboðsmaður barna auk þess formlegt samstarf, meðal annars við eftirfarandi aðila.

Barnahópur velferðarvaktarinnar

Umboðsmaður barna átti sæti í sérstökum barnahópi velferðarvaktarinnar á árinu, sem er starfræktur á vegum velferðarráðherra. Hópnum er ætlað að fylgjast með félagslegum jafnt sem fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins á börn og fjölskyldur þeirra og gera tillögur um aðgerðir í þeim efnum. Í hópnum eiga jafnframt sæti fulltrúar Bandalags háskólamanna, Barnaverndarstofu, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar, Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, Heimilis og skóla, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF á Íslandi), Hafnarfjarðarbæjar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Barnasáttmálinn – samstarfsverkefni með Barnaheill – Save the Children á Íslandi, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF á Íslandi) og Námsgagnastofnun

Umboðsmaður barna hélt áfram samstarfi við Barnaheill og UNICEF á Íslandi og er helsta markmið þess samstarfs að stuðla að aukinni vitund almennings um Barnasáttmálann. Á árinu 2009 var settur upp sérstakur fræðsluvefur um Barnasáttmálann, www.barnasattmali.is. Vefurinn er ætlaður til notkunar í leik- og grunnskóla en hentar einnig öðrum aldurshópum, bæði börnum og fullorðnum. Á síðunni má líka finna leiki og verkefni fyrir börn. Á árunum 2010 og 2011 hafa fleiri verkefni verið sett inn á heimasíðuna og hún efld enn frekar. Í lok ársins 2011 ákvað umboðsmaður barna að veita verkefninu frekara fjármagn með það fyrir augum að klára frágang á síðunni.

Háskólinn í Reykjavík

Frá árinu 2009 hefur verið samkomulag í gildi milli umboðsmanns barna og lagadeildar Háskólans í Reykjavík um að taka á móti meistaranemum í starfsnám. Á árinu 2011 komu tveir laganemar til umboðsmanns í slíkt starfsnám og unnu að ýmsum verkefnum með starfsmönnum embættisins.

Hoff – heilsuefling og forvarnir í framhaldsskólum

Umboðsmaður barna hefur tekið þátt í starfi Hoff-hópsins, sem vinnur að heilsueflingu og forvörnum í framhaldsskólum. Markmið verkefnisins er meðal annars að stuðla að bættri almennri líðan og heilsu nemenda, efla forvarnir gegn vímuefnum í framhaldsskólum og bæta og efla ráðgjöf við nemendur á sem flestum sviðum sem snerta velferð þeirra. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið og embætti landlæknis leggja til fjármagn og starfsmenn í verkefnið.

Kynjuð hagstjórn

Á árinu 2010 tók umboðsmaður barna þátt í tilraunaverkefni í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð fyrir hönd forsætisráðuneytisins. Markmið verkefnisins var að kanna hvort munur sé á efni og afgreiðslu erinda sem bárust umboðsmanni barna eftir kyni þeirra sem bera upp erindið. Á árinu 2011 var unnið áfram að þessu verkefni og gerð skýrsla með niðurstöðum þess. Lesa má nánar um skýrslu embættisins á bls. 37.

Menningarmiðstöðin Gerðuberg

Umboðsmaður barna hefur verið í samstarfi við Menningarmiðstöðina Gerðuberg í nokkur ár. Á árinu 2011 var framlengdur samningur um leigu á listaverkum sem börn hafa unnið í listasmiðjunni Gagn og gaman í Gerðubergi. Verkin sem um ræðir eru úr ýmsum myndaseríum sem unnar hafa verið á árunum 1988-2004 og prýða þau veggi skrifstofu umboðsmann barna og munu gera það áfram að óbreyttu.

Náum áttum

Embætti umboðsmanns barna hefur átt fulltrúa í samstarfshópnum Náum áttum sem er opinn samstarfshópur þeirra sem láta sig varða heill barna og ungmenna. Hópurinn stendur fyrir fræðslufundum einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina um hvaðeina sem snertir börn og sem talið er vert að vekja athygli samfélagsins á.

Rannsóknarstofa í menntunarfræðum ungra barna

Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) er ætlað að hafa frumkvæði að og sinna rannsóknum, miðla þekkingu og kynna niðurstöður rannsókna sem varða börn á leikskólaaldri. Á árinu 2011 sat umboðsmaður barna í stjórn RannUng.

Rannsóknir og greining

Á árinu 2011 átti umboðsmaður barna samstarf við rannsóknarmiðstöðina Rannsóknir og greining, sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á högum og líðan ungs fólks á undanförnum árum. Umboðsmaður barna gerði samkomulag við Rannsóknir og greiningu um að koma spurningum inn í rannsókn þeirra „Ungt fólk 2011. Menntun, menning, íþróttir, tómstundir, hagir og líðan nemenda í 5., 6. og 7. bekk grunnskóla. Fjallað er um könnunina á bls. 16.

SAMAN-hópurinn

Umboðsmaður barna hefur setið í SAMAN-hópnum sem er samstarfsvettvangur frjálsra félagasamtaka, sveitarfélaga og stofnana sem láta sig velferð barna og fjölskyldna þeirra varða. Markmiðið er að vekja athygli á þeirri ógn sem börnum og unglingum stafar af áfengi og vímuefnum, styðja við foreldra í uppeldishlutverkinu og hvetja til jákvæðra samskipta fjölskyldunnar. Þetta hefur verið gert með útgáfu auglýsinga ásamt fræðslu- og kynningarefni.

Stjórnlög unga fólksins – samstarfsverkefni með Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF á Íslandi) og Reykjavíkurborg

Haustið 2010 leitaði UNICEF á Íslandi til umboðsmanns barna og óskaði eftir samstarfi í tengslum við að tryggja það að skoðanir barna og ungmenna fengju að heyrast við endurskoðun á stjórnarskrá Íslands. Í kjölfarið var einnig leitað eftir samstarfi við Reykjavíkurborg. Á árinu 2011 fór undirbúningur á fullt og var Stjórnlög unga fólksins haldið í apríl. Nánari umfjöllun um verkefnið er að finna á bls. 20.

Talsmaður neytenda

Samstarf umboðsmanns barna og talsmanns neytenda um auglýsingar og markaðssókn, sem beinist að börnum, hélt áfram á árinu. Í lok 2011 hófst endurskoðun á leiðbeinandi reglum um neytendavernd barna, sem gefnar voru út af embættunum árið 2009. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu árið 2012.

Annað

Umboðsmaður barna hefur í gegnum tíðina átt gott samstarf við Herdísi Storgaard, forstöðumann Slysavarnahúss. Herdís hefur setið fundi með umboðsmanni og veitt mikilvægar upplýsingar þegar kemur að slysavörnum barna.

Til þess að fá fræðslu og kynningu á því hvað felst í lýðræði meðal barna naut umboðsmaður barna og starfsfólk hans sérfræðiþjónustu Helgu Margrétar Guðmundsdóttur, sem auk þess kom að verkefni um lýðræði leikskólabarna.

Á árinu 2011 leitaði forsvarsmaður Fjármálaskólans eftir aðstoð umboðsmanns barna en skólinn er sérstaklega ætlaður ungu fólki á gagnfræða- og framhaldsskólaaldri sem vill læra um verðmæti, peninga og fjármál. Umboðsmaður aðstoðaði aðstandendur Fjármálaskólann með því að veita þeim viðtal um embættið til þess að birta á vefnum, fjármálaskólinn.is.

Umboðsmaður barna átti einnig í samstarfi við Vogaskóla í Reykjavík og fékk að fylgjast með kosningum til nemendaráðs í skólanum í septembermánuði. Kosningarnar fóru fram með hefðbundnu sniði, framboðsræður voru fluttar og auglýsingar hvers frambjóðanda voru á veggjum og loks fóru fram lokaðar kosningar. Starfsmaður umboðsmanns barna fékk að fylgjast með ferlinu og um leið að læra af reynslu þeirra með að vinna að nemendalýðræði í Vogaskóla.

Erlendir samstarfsaðilar

Fundur umboðsmanna barna á Norðurlöndunum

Árlegur fundur umboðsmanns barna á Norðurlöndum fór fram í Stokkhólmi í Svíþjóð í lok maí. Á fundinum var fjallað um þau málefni sem efst eru á baugi hjá embættunum en sérstök áhersla var lögð á málefni barna sem eru handtekin, í gæsluvarðhaldi og í fangelsum. Í sameiginlegri yfirlýsingu frá umboðsmönnum barna á Norðurlöndum, sem gefin var út eftir fundinn, segir að umboðsmenn barna á Norðurlöndum telja að aðstæður barna sem svipt hafa verið frelsi sínu vegna handtöku, gæsluvarðhalds eða fangelsisvistar séu ófullnægjandi. Aðstæður og meðferð þessara barna eru mismunandi eftir löndum, en ljóst er að réttindi þeirra samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eru ekki nægilega tryggð á ýmsum sviðum. Ákvæði 37. gr. Barnasáttmálans leggur þá skyldu á aðildarríkin að „farið sé mannúðlega með hvert það barn sem svipt er frjálsræði sínu og af virðingu fyrir meðfæddri göfgi manna og með þeim hætti að tekið sé tillit til þarfa einstaklings á þeim aldri sem um ræðir“. Barnaréttarnefndin hefur auk þess slegið því föstu að frelsissvipting skuli vera lokaúrræðið sem eigi aðeins að grípa til þegar öll önnur úrræði hafa verið reynd eða ljóst er að þau duga ekki til. Frelsisskerðing sem á sér stað áður en búið er að dæma í máli eða á grundvelli verndarsjónarmiða á aðeins rétt á sér í sérstökum undantekningartilvikum. Önnur úrræði þurfa að vera til staðar þannig að börn séu aldrei svipt frelsi sínu nema nauðsyn beri til. Barnaréttarnefndin segir ennfremur að barn, sem hefur verið svipt frelsi sínu, eigi ávallt að njóta réttinda sinna samkvæmt Barnasáttmálanum. Á það sérstaklega við um rétt barns til öryggis, heilsu, menntunar og til að halda tengslum við fjölskyldu sína.
Frelsissvipt börn eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu, líkamlega, andlega og félagslega, auk þess sem aukin hætta er á því að réttindi þeirra séu ekki virt. Umboðsmenn barna á Norðurlöndum leggja því áherslu á mikilvægi 3. gr. Barnasáttmálans, en þar kemur fram að „[þ]að sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn“.

Í ljósi framangreindra sjónarmiða vilja umboðsmenn barna á Norðurlöndum árétta að: 

 • Það sem er frelsissviptu barni fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem það varðar. 
 • Samvinna verður að eiga sér stað milli allra yfirvalda sem fara með málefni barnsins, allt frá upphafi frelsisskerðingar og þar til barn kemur út í samfélagið á ný. 
 • Frelsissvipt barn skal eiga möguleika á að ganga í skóla. 
 • Þegar barn er frelsissvipt, hvort sem það á sér stað með handtöku, gæsluvarðhaldi eða fangelsisvist, skal ávallt vera til staðar reglubundið eftirlit með því að réttindi þess séu tryggð. 
 • Barnavernd á að taka virkan þátt í málefni barns eftir að það hefur verið frelsissvipt, hvort sem það á sér stað á stofnun á vegum hennar eða í almennu fangelsi. 

Með þessari sameiginlegu yfirlýsingu vildu umboðsmenn barna á Norðurlöndum hvetja yfirvöld til að tryggja réttindi frelsissviptra barna og gæta þess eins og kostur er að frelsissvipting hafi ekki skaðleg áhrif á heilsu þeirra og þroska. 

Fundur samtaka evrópskra umboðsmanna barna (ENOC)

Dagana 14.-16. september 2011 var haldinn hinn árlegi fundur samtaka evrópskra umboðsmanna barna. Líkt og undanfarin ár tók umboðsmaður barna þátt í þeim fundi, sem var haldinn Varsjá í Póllandi. Á fundinum var m.a. rætt um aðstæður barna og ungmenna, sem eru undir verndarvæng barnaverndaryfirvalda.

VIÐBURÐIR OG UPPÁKOMUR Á VEGUM UMBOÐSMANNS BARNA

Opið hús hjá umboðsmanni barna

Í desember 2011 bauð umboðsmaður barna helstu samstarfsaðilum sínum í heitt súkkulaði, smákökur, konfekt og spjall og átti með þeim góða stund. Sungin voru jólalög og Herdís Egilsdóttir, rithöfundur og kennari, sagði sögur úr nýútkominni bók sinni Sólarmegin, líf og störf Herdísar Egilsdóttur.

Stjórnlög unga fólksins

Umboðsmaður barna, í samstarfi við UNICEF á Íslandi og Reykjavíkurborg, stóðu fyrir þingi fyrir börn til að tryggja að skoðanir barna og ungmenna fengju að heyrast við endurskoðun á stjórnarskrá Íslands. Nánari umfjöllun um verkefnið er að finna á bls. 20.

Opinber umfjöllun um afbrot barna

Á árinu 2011 stóðu umboðsmaður barna og lagadeild Háskólans í Reykjavík fyrir málþingi sem bar yfirskriftina Opinber umfjöllun um afbrot barna. Á málþinginu var fjallað um viðhorf til barna, stimplun sem börn verða fyrir ef þau fremja afbrot, birtingu dóma á netinu sem varða börn, vernd barna og hvernig tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs vegast á.

Umboðsmaður barna leikur sér í hverjum mánuði

Í nóvember ákvað umboðsmaður barna að taka frá smá stund í hverjum mánuði og leika sér með öðrum starfsmönnum embættisins. Afrakstur hvers mánaðar hefur verið sett saman í stutt myndbrot sem umboðsmaður birtir á You Tube síðu sinni. Þar má sjá myndband fyrir hvern mánuð og hyggst umboðsmaður barna halda áfram að leika sér einu sinni í mánuði.

HEIMSÓKNIR, FUNDIR, MÁLÞING OG RÁÐSTEFNUR

Heimsóknir

Umboðsmaður barna fékk á árinu margar heimsóknir frá einstaklingum og fulltrúum stofnana og félagasamtaka og einnig komu leikskólakrakkar frá leikskólanum Hofi í heimsókn. Sömuleiðis heimsótti umboðsmaður barna og starfsmenn embættisins ýmsar stofnanir og félagasamtök á árinu. Má þar nefna:

 • Vistheimili barna að Laugarásvegi 39 í Reykjavík.
 • Ungmennaráð Miðborgar og Hlíða.
 • Þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness.

Auk þess heimsótti umboðsmaður barna skóla, ungmennaráð og félagasamtök í tengslum við kynningar á embættinu, sbr. upptalningu á bls. 7-8.

Fundir

Umboðsmaður barna fór á ýmsa fundi og fékk til sín ýmsa aðila í samfélaginu með það fyrir augum að efla samvinnu þeirra sem vinna að hag barna. Má þar nefna fundi með:

 • Samgöngunefnd Alþingis.
 • Framkvæmdastjóra Vistheimilisnefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007.
 • Umhverfisráðherra og Herdísi Storgaard (slysavarnarhús).
 • Sjúkratryggingum Íslands.
 • Þroskaþjálfafélagi Íslands.
 • Ýmsum aðilum um breytingar á lyfjalögum varðandi hormónatengdar getnaðarvarnir.
 • Fulltrúum velferðarráðuneytisins um líffæragjafir barna.
 • Menntamálanefnd.
 • Umboðsmanni skuldara.
 • Framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur.
 • Borgarstjóra Reykjavíkurborgar.
 • Fulltrúum Barnaverndar Reykjavíkur, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Barnaverndarstofu, Stuðlum, fulltrúa úr velferðarráðuneytinu og landlækni.
 • Aðilum frá 365 miðlum.
 • Verkefnastjóra verkefnastjórnar um aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum ásamt ýmsum öðrum aðilum.
 • Fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Málþing og ráðstefnur

Umboðsmaður barna og starfsmenn embættisins sóttu fjölmörg málþing og ráðstefnur um málefni barna og ungmenna. Má meðal annars nefna:

Janúar

„Framkvæmd vistunar barna utan heimilis á árunum 1992-2010 – málsmeðferðarreglur“, málstofa um barnavernd á vegum Barnaverndarstofu, Barnaverndar Reykjavíkur, félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands (HÍ) og faghóps félagsráðgjafa í barnavernd. Barnaverndarstofa.

„The children left behind“ eða „Börn skilin útundan“, málþing á vegum Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (UNICEF) í samstarfi við Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd og Félagsráðgjafardeild Háskóla íslands. Háskóli Íslands.

„Hugmyndin um bindindi – öfgar eða samfélagsleg ábyrgð“, málþing á vegum IOGT. Norræna húsið.

Febrúar

„Átta ára drengur óskar eftir íbúð“, málþing á vegum Barnaheilla – Save the Children á Íslandi um börn sem búa við heimilisofbeldi. Hilton Reykjavík Nordica.

 „Hver er þeirra gæfu smiður?“ – áhrif hagræðingar á velferð barna, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

Jafnréttisþing 2011, á vegum velferðarráðherra og Jafnréttisráðs. Hilton Reykjavík Nordica.

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn 2011“, ráðstefna um Internetið á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins og SAFT. Hilton Reykjavík Nordica.

„Children‘s rights in early childhood, a cultural sensitive approach“, fyrirlestur um réttindi barna í menningarlegu samhengi á vegum Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna.

„Samtöl við börn og unglinga í barnaverndarstarfi“, morgunverðarfundur í tilefni af útgáfu fræðslurits og myndbandsins TALAÐU VIÐ MIG, á vegum Barnaverndarstofu. Grand hótel.

 „Flóttabörn á Íslandi: Niðurstöður rannsóknar á viðhorfum og reynslu flóttabarna“, málstofa á vegum félagsráðgjafardeildar Háskóla íslands og rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd. Háskóli Íslands.

„Nýir tímar – breytt hagstjórn“, ráðstefna á vegum Jafnréttisstofu um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Hilton Reykjvík Nordica.

Mars

„Opinber umfjöllun um afbrot barna“, málþing á vegum lagadeildar Háskólans í Reykjavík og umboðsmanns barna. Háskólinn í Reykjavík.

„Sýnileiki barnsins í barnaverndarmálum fyrir dómstólum á Íslandi“, málstofa um barnavernd á vegum Barnaverndarstofu, Barnaverndar Reykjavíkur, félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og faghóps félagsráðgjafa í barnavernd. Barnaverndarstofa.

„Félagslegar aðstæður pólskra barnafjölskyldna í Reykjavík“, málstofa á vegum Rannsóknarseturs í barna- og fjölskylduvernd (RBF). Háskóli Íslands.

„Vanlíðan og hegðan barna – margvíslegar orsakir“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

„Hlustið á okkur – Hvað eflir og hvað hindrar þátttöku allra barna og unglinga í lýðræðislegu námssamfélagi skólanna?“, ráðstefna á vegum Rannsóknarstofu um skóla án aðgreiningar (RSÁA), í samvinnu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið og Kvikmyndaskóla Íslands. Háskóli Íslands.

„Börn utanveltu í skólasamfélaginu“, málstofa Rannsóknarseturs í barna- og fjölskylduvernd (RBF) og félagsráðgjafardeildar HÍ. Háskóli Íslands.

„Foreldrafræðsla fyrir seinfæra foreldra“, málstofa um barnavernd á vegum Barnaverndarstofu, Barnaverndar Reykjavíkur, félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands (HÍ) og faghóps félagsráðgjafa í barnavernd. Barnaverndarstofa.

„Samfélagstúlkun fyrir innflytjendur“, málþing á vegum velferðarráðuneytisins og innflytjendaráðs. Grand hótel.

„Hvað ræður för“, málþing um kvíðaraskanir barna og ungmenna á vegum Sjónarhóls. Hilton Reykjavík Nordica.

„Vinna með seinfærum foreldrum“, málstofa um barnavernd á vegum Barnaverndarstofu, Barnaverndar Reykjavíkur, félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og faghóps félagsráðgjafa í barnavernd. Barnaverndarstofa.

„Börn utanveltu í skólasamfélaginu“, málstofa á vegum rannsóknarseturs í barna og fjölskylduvernd og félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands. Háskóli Íslands.

Apríl

„Bara gras? Fræðsla til foreldra um skaðsemi kannabis“, málþing um marijuananeyslu ungs fólks á vegum 22 hreyfinga og samtaka á Íslandi. Rimaskóli.

„Skóli fyrir alla“ – fá allir að njóta sín?, málstofa á vegum Rannsóknarstofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni. Háskóli Íslands.

„Börnin í barnaverndinni“, málstofa á vegum rannsóknarseturs í barna- og fjölskylduvernd og félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands. Háskóli Íslands.

„Framburður barna í Barnahúsi og lyktir mála: Hvað hefur áhrif á birtingu ákæra og sakfellingar í málum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegu ofbeldi“, kynning á meistararitgerð. Stígamót.

Maí

 „Eru hagsmunir barna hafðir að leiðarljósi við ákvarðanatöku í forsjár- og umgengnismálum?“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

„Rannsókn á viðtölum við börn sem komu til rannsóknar í Barnahús á tímabilinu frá 1. nóvember 1998 til 31. desember 2004“, málstofa um barnavernd á vegum Barnaverndar Reykjavíkur, félagsráðgjafardeildar HÍ og Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa.

„Staðgöngumæðrun á Vesturlöndum“, hádegisfundur á vegum lagadeildar Háskólans í Reykjavík. Háskólinn í Reykjavík.

„Samstarf Eystrasaltsríkjanna á sviði barnaverndar“, fundur á vegum velferðarráðuneytisins. Barnaverndarstofa.

„Er það réttur allra að eignast barn?“, rökstólar á vegum Lögfræðingafélags Íslands, Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands. Grand hótel.

Afhending Foreldraverðlauna Heimilis og skóla 2011. Þjóðmenningarhúsið.

Júní

„Drög að skýrslu um stöðu mannréttindamála á Íslandi kynnt“, morgunverðarfundur á vegum innanríkisráðuneytisins. Iðnó.

„Gender Sensitive Budgeting: How do Economic Policies influence Gender Roles?“, fyrirlestur um áhrif efnahagsstefnu á hlutverk kynjanna á vegum Rannsóknarstofnunar í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands. Háskóli Íslands.

„Ungt fólk 2010 framhaldsskólanemar“, kynningarfundur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þjóðminjasafn Íslands.

September

„Frístundir, áhætta, forvarnir“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

„Breytingar á barnaverndarlögum og áhrif þeirra á barnaverndarstarfið“, málstofa á vegum Barnaverndarstofu, Barnaverndar Reykjavíkur, félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og faghóps félagsráðgjafa í barnavernd. Barnaverndarstofa.

„Niðurstöður úr rannsókninni Ungt fólk 2011 5., 6. og 7. bekk grunnskóla“, kynningarfundur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Hús KFUM og KFUK við Holtaveg 28.

Október

„Til að forvarnir virki!“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

„Sameiginleg forsjá – heimild dómara“, málþing á vegum Rannsóknarstofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS) og Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF). Háskóli Íslands.

„Stuðningsúrræðið tilsjón í barnaverndarmálum“, málstofa um barnavernd á vegum Barnaverndarstofu, Barnaverndar Reykjavíkur, félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands (HÍ) og faghóps félagsráðgjafa í barnavernd. Barnaverndarstofa.

Undirritun yfirlýsingar Viku 43 um að virða beri rétt barna til lífs án neikvæðra afleiðinga áfengis- og vímuefnaneyslu, á vegum 20 félagasamtaka. Hús KFUM og KFUK við Holtaveg 28.

Nóvember

„Streita og kvíði barna“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.

„Hegðunarvandi – þroskavandi?“, málstofa um barnavernd á vegum Barnaverndarstofu, Barnaverndar Reykjavíkur, félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands (HÍ) og faghóps félagsráðgjafa í barnavernd. Barnaverndarstofa.

„Skilnaðarferli foreldra – börn og sátt í fjölskyldum“, málstofa á vegum Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF). Háskóli Íslands.

„ÁBYRGÐ og AÐGERÐIR“, málþing um rannsókn á einelti á vegum Rannsóknarstofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni í samstarfi við félagsráðgjafardeild, lagadeild og menntavísindasvið Háskóla Íslands. Háskóli Íslands.

Málþing um nýja aðalnámskrá leikskóla á vegum félags leikskólakennara, félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Gullhamrar.

Kynning á niðurstöðum nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins á stöðu Íslands, morgunverðarfundur. Lækjarbrekka.

„Skilnaðarferli foreldra – börn og sátt í fjölskyldum“, málþing á vegum Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF) og Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni. Háskóli Íslands.

Undirritun Þjóðarsáttmála um baráttu gegn einelti, á vegum fjármálaráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, velferðarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Höfði.

Viðurkenning Barnaheilla – Save the Children á Íslandi fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember. Þjóðmenningarhúsið.

Desember

„Stefnumótun í mannréttindamálum undirbúin“, hádegisverðarfundur á vegum innanríkisráðuneytisins. Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa.                                                                                                                                                                                                                                                                                                       

Dæmi um erindi sem bárust á árinu 2011

Foreldri hafði samband vegna skráningarkerfisins Þjóðskrá en þar er aðeins skráð hvar barn á lögheimili en ekki hvernig forsjá er háttað og getur það skapað vandkvæði.
17 ára stúlku líður illa heima hjá sér og er hrædd við stjúpföður vegna þess að hann öskrar á hana og er oft reiður. Þau rífast mikið og einu sinni var hann nálægt því að lemja hana. Hvað á hún að gera?
16 ára stúlka: „ég verð 17 ára í september. Foreldrar mínir eru að skilja. Hef ég ekki fullan rétt á að ákveða hjá hvoru foreldri ég vil hafa búsetu, og hvað get ég gert til að það foreldri sem ég vil ekki hafa búsetu hjá virði mínar óskir. Vonandi fæ ég lausn.“
Stúlka hafði samband vegna vinkonu sem er þunglynd og með lystarstol og verður fyrir alvarlegu heimilisofbeldi. Hvað getur hún gert til að koma henni af heimilinu?
Stúlka spyr hvort það sé hægt að fá nýja fjölskyldu með því að láta ættleiða sig. Henni líður mjög illa heima hjá sér og finnst hún ekki eiga heima þar.
15 ára stúlku líður illa heima hjá sér. Það er ekki hlustað á hana og fjölskyldan gerir grín að henni. Stjúpfaðir hótar að beita hana ofbeldi. Spyr hvort móðir hennar og stjúpfaðir geti tekið af henni tölvu og dót ef hún borgaði fyrir það sjálf?
Stúlka spyr hvort að hún geti farið út og passað fyrir frænda sinn en annað foreldri hennar leyfir það ekki. Hvaða rétt á hún til að geta farið út?
14 ára drengur býr hjá föður sem fer með forsjá en vill flytja til móður. Honum líður illa hjá föður og vill vera meira hjá móður. Hvað á hann að gera og hvaða rétt hefur hann til að fara til móður?
Drengur spyr hvað hann þurfi að gera þannig að faðir hans sé ekki lengur með forræði yfir sér.
Amma hafði samband vegna þess að barnabörnin hennar fluttu til Noregs með barnsmóður en annað barnið grætur og vill koma heim. Hvað er hægt að gera?
Faðir hafði samband vegna þess að móðir vildi flytja tímabundið með dóttur til Noregs. Faðirinn neitar að samþykkja þessa ráðstöfun.
Móðir hafði samband vegna föður sem flutti með börnin þeirra til Noregs en þau vilja ekki búa þar. Hvað getur hún gert?
13 ára stúlka: „Hvað á maður að gera ef allur bekkurinn finnst að það sé of mikill lærdómur í skólanum og eftir skóla þarf maður að læra meira og maður vill minna heimanám?“
Stúlka: „Ég er nemandi í 8. bekk ég var að spá í hvort kennarar mættu blóta við okkur í tímum“.
17 ára drengur: „Getur maður fallið í grunnskóla?“
Móðir hafði samband vegna barns hennar sem fær ekki þá þjónustu í skólanum sem það þarf á að halda þrátt fyrir að fjármagn hafi borist.
Börn með væga þroskahömlun er neitað um skólavist í sérskólum.
Erindi frá móður varðandi gæslu í frímínútum hjá barni hennar. Barnið hennar finnur ekki fyrir öryggi og nokkur slys og eineltismál hafa komið upp. Hvað getur hún gert?
Móðir hafði samband vegna barns síns sem er með námsörðugleika og fær nánast enga sérkennslu. Veit um dæmi þar sem annar nemandi fær meiri aðstoð.
15 ára drengur spyr um rétt sinn til að velja framhaldsskóla.
15 ára drengur spyr um rétt sinn til að fara ekki í skólasund. Finnst óþægilegt að afklæðast og fara í sturtu með öðrum.
Stúlka spyr hvað hún eigi að gera því að hún mætir illa í skólann og rífst mikið við foreldra sína.
Drengur hafði samband við umboðsmann barna með athugasemdir varðandi punktakerfi í grunnskólum, fjarvistir og hvaða afleiðingar þetta getur haft á unglinga.
Móðir spyr hvað megi reka barn lengi úr skóla fyrir að vera undir áhrifum vímuefna.
Móðir segir að barn hennar hafi brotið af sér í skóla og starfsfólk skólans tók harkalega á því og fjölmiðlaumfjöllun fylgdi í kjölfarið sem hafði slæm áhrif á barnið.
14 ára stúlka: „Hvað gerist ef maður er með of mörg stig í grunnskóla t.d. 93, er maður sendur í fóstur? Hvað á maður að gera ef maður er beittur ofbeldi í skólanum?“
Hvað er hægt að gera þegar nemenda er úthýst úr skóla. Hvernig er hægt að fá skólavist aftur og er ástæða til að kæra og þá hvern?
Móðir spyr um rétt forsjárlauss foreldris til að fá aðgang að Mentor gegn neitun forsjárforeldris.
Faðir spyr hvaða reglur gilda um aðgang hans að Mentor. Taldi mikilvægt að geta fylgst með en barnsmóðir hans, sem fer með forsjá, leyfir ekki aðgang.
Móðir leitar aðstoðar þar sem viðkvæmar persónuupplýsingar um barn hennar voru færðar inn í Mentor.
16 ára stúlka vildi koma á framfæri hjálparlista fyrir börn sem eru lögð í einelti. Atriði sem hjálpuðu henni á meðan tekið var á eineltinu voru t.d. að klæða sig í glaðlega liti, fara í göngutúr og jafnvel róla sér, fá sér áhugamál sem enginn úr skólanum er í, kynna sér félagsmiðstöðina í skólanum o.fl.
15 ára stúlkur kvarta vegna kennara sem segir krökkunum oft að halda kjafta í tímum og leggur einn nemenda í einelti.
Áskorun á umboðsmann barna að taka forystuhlutverk í því að eyða einelti í grunnskólum landsins.
Móðir hafði samband vegna eineltis sem börn hennar verða fyrir í skóla en enginn virðist gera neitt.
Faðir hafði samband vegna eineltis sem barn hans verður fyrir í skólanum og á samskiptasíðunni Facebook.
Móðir hafði samband vegna kennara sem leggur barn hennar í einelti. Einkunnir hafa lækkað og barnið vill ekki mæta í skólann.
Móðir hafði samband vegna kennara sem gerir upp á milli nemenda og leggur barn hennar í einelti.
 12 ára stelpa: „Mér finst að það eigi að spyrja fyrst börnin í landinu hvort það megi gera þetta og hitt eins og t.d. að byggja hús þarna eða ekki, eða kjósa um eitthvað sem krakkar hafa kannski líka áhuga á !!!!!! og mér finst að fatlaðir unglingar/krakkar eiga að fá jafn mikla mentun eins og aðrir krakkar/unglingar!!!!!!“
Móðir hafði samband vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um dómsmál sem barn hennar átti hlut að. Lítið bæjarfélag þar sem allir vita núna hvað gerðist.
Er fjölmiðlum heimilt að fara inn á skólalóð og taka viðtöl við börn án þess að fá leyfi?
Barn braut af sér og lögreglan fór í vasa hjá því og náði í farsíma sem barnið átti og hringdi í móður. Má það?
Erindi frá móður þar sem hún var að keyra með börnin sín og í útvarpsfréttunum komu grófar og nákvæmar lýsingar úr kynferðisbrotamáli og börnin voru að hlusta.
Nokkrar ábendingar um vefsíðu með alvarlegum rasisma, hatursfull ummæli og ærumeiðingar gagnvart nafngreindum börnum og fjölskyldu þeirra.
Um leið og barnatímanum lýkur eru sýndir myndbútar úr sjónvarpsefni kvöldsins sem oft er ekki við hæfi barna.
Stikla úr kvikmyndinni Klovn sýnd í sjónvarpi þegar börn voru að horfa.
Ábending vegna Facebook síðu þar sem auglýstir eru mjög stuttir kjólar fyrir fermingarstúlkur.
Ábending vegna brúnkusprautuleiks sem átti að höfða til fermingarstúlkna.
Ábending vegna auglýsingar um fyrirsætunámskeið sem jólagjöf fyrir stúlkur á aldrinum 12-14 ára.
Tvö erindi vegna auglýsinga á DVD disk sem er ætlaður börnum. Í miðjum þætti kemur einnig lukkudýr Íslandsbanka og syngur lag Íslandsbanka. Er slíkt heimilt eða er verið að brjóta á börnum?
Faðir hafði samband vegna óánægju með söluaðferðir starfsmanns sem bauð viðbótarlífeyrissparnað.
Ábending vegna leiks sem beint er að börnum en þar voru peningaverðlaun í vinning. Er það í lagi?
Er Gallup heimilt að hringja í 16 ára barn án samráðs við foreldra?
Er löglegt að leikskólabörn séu klædd í öryggisvesti sem eru merkt fyrirtækjum eða með öðrum auglýsingum?
Eru kirkjuheimsóknir markaðssetning?
Móðir fær sent unglingatímaritið Júlíu í lokuðu umslagi en hún á 9 ára barn. Er til opinber skilgreining á unglingi?
Faðir hafði samband vegna þess að 16 ára sonur hans fékk símtal frá símafyrirtæki sem bauð honum frían síma í þrjá mánuði ef hann flytti viðskipti sín yfir.
Fyrirtækjum er heimilt að kaupa lista með símanúmerum barna frá 16 ára aldri frá ja.is en börn geta skráð sig í símaskrána á netinu, óháð aldri. Er það í lagi?
Móðir óskar eftir upplýsingum um útivistartíma að morgni.
Móðir fékk bréf frá íþróttafélagi þar sem óskað er eftir því að forráðamenn iðkenda upplýsi hvort börn glími við vandamál eða hafa fengið greiningar, t.d. ofvirkni og athyglisbrest.
Móðir spyr hvort það sé löglegt að bjóða 10 ára börnum upp á æfingar kl. 19:30-21:00.
Faðir spyr hvort það sé í lagi að 9 ára sonur hans sé einn heima í 2,5 klst. á dag eftir skóla og ef ekki, hvað hann geti gert þar sem drengurinn býr hjá móður.
Hvað mega vera margir í einum tíma hjá þjálfara? Eru til almennar reglur eða setur hvert félag sínar reglur og er eitthvað eftirlit?
Faðir hefur samband en þjálfari ungs sonar hans greip í hann og hristi eftir að æfingu lauk. Faðirinn var ekki sáttur og spurði hvað væri hægt að gera.
Erindi vegna vinnureglna íþróttasambands fatlaðra sem mismunar börnum eftir fötlun. Í æfinga- og keppnisferðum er foreldrum ekki heimilt að fara með sem aðstoðarmenn en það getur verið óþægilegt fyrir börnin að fá aðra aðstoðarmenn til að sinna persónulegum þörfum. Sum börn fá þó undanþágu en ekki börn með andlega fötlun.
Á sumum leiksvæðum er mikil hætta á að börn slasist, hvað er hægt að gera?
Fréttamaður hafði samband vegna leiksvæða barna og skorts á eftirliti með þeim.
Erindi frá móður þar sem girðing utan um skóla er mjög hættuleg og tvö börn slösuðust þar með því að klifra. Bæjaryfirvöld hyggjast ekki gera neitt í þessu.
Móðir hafði samband vegna dagvistunar barna, t.d. á frístundarheimilum eða í gæslu í verslunarmiðstöðum. Eru fjöldatakmörk?