Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Ársskýrslur

Ársskýrsla umboðsmanns barna 2009

 Hér er birt óuppsett ársskýrsla umboðsmanns barna fyrir árið 2009.

Uppsetta ársskýrslu (PDF) með myndum má skoða með því að smella hér á vef umboðsmanns barna.

 

Ársskýrsla umboðsmanns barna 2009

 

Til forsætisráðherra

Í samræmi við 8. gr. laga nr. 83/1994 um umboðsmann barna hef ég látið taka saman skýrslu þessa um starfsemi embættisins.

Starfsárið 2009 litaðist af því að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna varð 20 ára þann 20. nóvember 2009. Af því tilefni var ákveðið að breyta uppbyggingu ársskýrslunnar í samræmi við réttindaflokka Barnasáttmálans, sem eru vernd, umönnun og þátttaka.

Á starfsárinu var lögð mikil áhersla á þriðja réttindaflokkinn — þátttöku barna. Sem dæmi um það má nefna að ráðgjafarhópur umboðsmanns barna var stofnaður og gefin var út bók með efni frá börnum um það hvernig er að vera barn á Íslandi. Á árinu stóð embættið fyrir mikilli kynningu á embættinu fyrir börn og fullorðna, auk þess sem vefsíðan barnasattmali.is var opnuð. Umboðsmaður barna hefur fundið fyrir því að kynningarátakið hefur skilað sér með fjölgun erinda og er sérstaklega áberandi að fleiri og fleiri aðilar leita til embættisins til að fá upplýsingar og ráðgjöf.

Umboðsmaður barna hefur orðið var við að efnahagsástandið sem ríkir í samfélaginu hefur mikil áhrif á börn. Þannig hafa bæði ýmis erindi sem embættinu berast varðað ástandið og mál sem umboðsmaður hefur kannað að eigin frumkvæði borið þess glögg merki. Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af áhrifum niðurskurðar á börn og þá sérstaklega þau sem voru illa stödd félagslega fyrir efnahagshrunið, en margt bendir til þess að aðstæður þeirra hafi versnað.

 Viðauki með skýrslunni eru leiðbeiningareglur sem talsmaður neytenda og umboðsmaður barna gáfu út í mars 2009.

 

Reykjavík, 17. ágúst 2010

Margrét María Sigurðardóttir

 


 

STARFSEMI EMBÆTTISINS

 

HLUTVERK UMBOÐSMANNS BARNA

Embætti umboðsmanns barna er samkvæmt lögum ætlað það mikilvæga hlutverk að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Umboðsmanni barna er ætlað að vinna að því að tekið sé fullnægjandi tillit til barna á öllum sviðum samfélagsins, jafnt hjá opinberum aðilum sem og einkaaðilum, og bregðast við ef brotið er gegn þeim. Umboðsmaður barna er málsvari allra barna á Íslandi og á að hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu um málefni þeirra. Þá er embættinu ætlað að koma með ábendingar og tillögur um það sem betur má fara í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum og varðar málefni barna og kynna almenningi löggjöf sem varðar börn sérstaklega.

Umboðsmanni barna er ekki ætlað að taka til meðferðar ágreining milli einstaklinga eða hafa afskipti af málefnum einstakra barna. Honum ber hins vegar að leiðbeina þeim sem til hans leita með slík mál um rétt þeirra og benda á hvaða leiðir eru færar innan stjórnsýslunnar og hjá dómstólum.

STARFSFÓLK UMBOÐSMANNS BARNA

Margrét María Sigurðardóttir hefur gegnt starfi umboðsmanns barna frá 1. júlí 2007. Auk hennar starfa við embættið þrír starfsmenn, Auður Kristín Árnadóttir, Eðvald Einar Stefánsson og Elísabet Gísladóttir.

ERINDI

Dagleg störf á skrifstofu umboðsmanns barna mótast mikið af þeim erindum sem embættinu berast. Erindin eru af margvíslegum toga og eru það ýmist einstaklingar, stofnanir, félagasamtök eða fjölmiðlar sem leita til umboðsmanns barna og óska eftir upplýsingum eða ráðgjöf varðandi málefni barna. Málaflokkarnir eru einnig margir og fjölbreytilegir enda koma hagsmunir barna við sögu á flestum sviðum samfélagsins. Ákveðnir málaflokkar eru þó meira áberandi en aðrir og ber þar helst að nefna forsjár- og umgengnismál, barnaverndarmál, skólamál og heilbrigðismál.

Eins og að framan greinir er umboðsmanni barna ekki ætlað taka til meðferðar ágreining milli einstaklinga eða mál einstaklinga sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum eða dómsstólum. Fjöldi þeirra erinda sem embættinu berast varðar þó slík mál. Kappkostað er að veita þeim einstaklingum sem leita til embættisins með sín mál eins greinargóðar upplýsingar, leiðbeiningar og ráð og unnt er hverju sinni.

 

ERINDI FRÁ BÖRNUM                   

Frá því að embætti umboðsmanns barna var stofnað hefur verið lögð rík áhersla á að ná til barna og unglinga, hlusta á skoðanir þeirra og fá ábendingar um það sem betur mætti fara. Mikilvægt er fyrir embætti sem vinnur í þágu barna að aðgengi þeirra sé tryggt og að þau geti á einfaldan hátt leitað til umboðsmanns barna með erindi og fengið upplýsingar um réttindi sín. Er því ávallt reynt eftir fremsta megni að svara þeim börnum sem leita til embættisins fljótt og aðstoða þau og leiðbeina um mál þeirra. Börn sem leita til embættisins geta rætt við umboðsmann og aðra starfsmenn í fullum trúnaði. Starfsmenn embættisins eru þó bundnir af reglum barnaverndarlaga um tilkynningarskyldu með sama hætti og aðrir þjóðfélagsþegnar.

Flest erindi frá börnum berast með tölvupósti, ýmist á netfang embættisins, ub@barn.is, eða í gegnum heimasíðuna, undir liðnum Spurt og svarað. Þegar erindi berst með síðari hættinum getur barn ráðið því hvort svar þess birtist á heimasíðunni www.barn.is eða hvort viðkomandi fái sent persónulegt svar á netfang sitt. Ekki er gerð krafa um það að börn gefi upp nafn eða aðrar persónulegar upplýsingar um sig. Ýmis svör við spurningum sem borist hafa frá börnum og unglingum er hægt að lesa á barna- og unglingasíðum embættisins.

HEIMASÍÐA UMBOÐSMANNS BARNA

Heimasíðu embættisins, www.barn.is, er ætlað að vera almennur gagnagrunnur um réttindi og skyldur barna og hvaðeina annað sem varðar hagsmuni þeirra. Heimasíðan skiptist í þrjá hluta, aðalsíðu, unglingasíðu og barnasíðu.

 Á aðalsíðunni má finna upplýsingar um starfsemi embættisins. Þar eru einnig margvíslegar upplýsingar um réttindi barna, þau lög og reglur sem gilda um hina ýmsu málaflokka og upplýsingar um stofnanir og samtök sem koma að málefnum barna.

Barna- og unglingasíðunum er ætlað að tryggja að börn og unglingar geti fengið upplýsingar og ráðgjöf um réttindi sín á einfaldan og aðgengilegan hátt. Á síðunum er auk þess að finna upplýsingar um mismunandi málaflokka og leiðbeiningar um hvert sé hægt að leita til að fá frekari aðstoð. Heimasíðan er jafnframt mikilvægur vettvangur fyrir börn og unglinga til þess að koma skoðunum sínum á framfæri en þar geta þau sent inn ábendingar eða fyrirspurnir til umboðsmanns barna.

Á árinu 2009 var unnið að því að bæta aðgengi að heimasíðunni, í samstarfi við Sjá ehf., til að stuðla að því að sem flestir gætu nýtt sér efni hennar. Þeirri vinnu verður haldið áfram á næsta ári.

VERKEFNI UMBOÐSMANNS BARNA

Lög um umboðsmann barna nr. 83/1994 kveða á um lögbundin verkefni embættisins. Starfsemin ræðst að nokkru leyti af þeim erindum sem berast embættinu en umboðsmaður barna getur þó að eigin frumkvæði tekið tiltekin mál til skoðunar. Umboðsmaður barna skal eiga frumkvæði að stefnumarkandi umræðu um málefni barna og koma með tillögur til úrbóta á réttarreglum og fyrirmælum stjórnvalda er varða börn sérstaklega. Umboðsmaður barna skal stuðla að því að þjóðréttarsamningar sem Ísland er aðili að, sem snerta réttindi og velferð barna, séu virtir. Hér er fyrst og fremst um að ræða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem í daglegu tali er nefndur Barnasáttmálinn. Barnasáttmálinn er eini alþjóðlegi samningurinn sem sérstaklega á við um börn. Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu hópur sem hafi sjálfstæð réttindi, óháð foreldrum eða forsjáraðilum, og að þau þarfnist sérstakrar umönnunar og verndar umfram hina fullorðnu.

Í Barnasáttmálanum er kveðið á um ýmis réttindi barna. Almennt má þó skipta réttindum sáttmálans í þrjá flokka — vernd, umönnun og þátttöku. Á hverju ári sinnir umboðsmaður barna fjölmörgum erindum og verkefnum sem ekki er hægt að gera grein fyrir með tæmandi hætti í þessari skýrslu. Hér verður því leitast við að gera grein fyrir helstu málaflokkum sem komið hafa á borð embættisins og gefa þannig nokkra mynd af starfsemi þess. Þar sem Barnasáttmálinn er leiðandi í öllu starfi umboðsmanns barna og í tilefni af 20 afmæli sáttmálans árið 2009, verður skýrslunni skipt upp í kafla í samræmi við réttindaflokka Barnasáttmálans. Verður því fyrst farið yfir þá málaflokka sem varða vernd, svo umönnun og loks þátttöku.

 

 

VERND

 

Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarfnast sérstakrar verndar umfram aðra þjóðfélagshópa. Aðildarríkjum að Barnasáttmálanum er skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda börn gegn hvers konar misnotkun og illri meðferð. Barnasáttmálinn kveður á um vernd tiltekinna grundvallarmannréttinda barna, svo sem réttarins til lífs, friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs, félaga-, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsis.

Embætti umboðsmanns barna bárust á árinu 2009 fjölmörg erindi sem lúta að vernd barna. Má þar nefna erindi sem varða vernd barna gegn ofbeldi, vernd barna í íþróttum eða öðru tómstundastarfi og friðhelgi einkalífs barna.

OFBELDI GEGN BÖRNUM

19. gr.

1. aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun, meðan það er í umsjá annars eða beggja foreldra, lögráðamanns eða lögráðamanna, eða nokkurs annars sem hefur það í umsjá sinni.

2. Eftir því sem við á skulu meðal slíkra verndarráðstafana vera virkar ráðstafanir til að koma á félagslegri þjónustu til að veita barni og þeim sem hafa það í sinni umsjá nauðsynlegan stuðning, og til að koma á öðrum forvörnum, svo og til að greina, tilkynna, vísa áfram, rannsaka, taka til meðferðar og fylgjast með tilfellum er barn hefur sætt illri meðferð svo sem lýst hefur verið, svo og ef við á til að tryggja afskipti dómara.

 

Ákvæði Barnasáttmálans tryggja börnum víðtæka vernd gegn hvers kyns ofbeldi, jafnt innan veggja heimilisins sem utan. Ofbeldi gegn börnum getur falist í líkamlegu ofbeldi, andlegu ofbeldi, kynferðislegu ofbeldi og vanrækslu. Hvers kyns ofbeldi hefur alvarleg áhrif á líðan barna og stefnir velferð og hagsmunum þeirra í hættu. Í 19. gr. Barnasáttmálans er gerð krafa um vernd barna gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, hvort sem barnið er í umsjá foreldra eða annarra.

Líkamlegar og aðrar vanvirðandi refsingar

Ein algengasta birtingarmynd ofbeldis gegn börnum eru líkamlegar refsingar. Í samræmi við vernd barna gegn ofbeldi er hvorki foreldrum né öðrum heimilt að beita líkamlegum refsingum til þess að aga börn. Sama á við um aðrar vanvirðandi og niðurlægjandi refsingar, svo sem þær sem felast í því að hóta barni, gera lítið úr því eða hræða það.

Í dómi Hæstaréttar þann 22. janúar 2009, í máli nr. 506/2008, var fjallað um líkamlegar refsingar á tveimur börnum. Í því máli hafði maður verið ákærður fyrir að rassskella börn á beran rassinn. Í niðurstöðu héraðsdóms var sérstaklega tekið fram að háttsemi mannsins ætti hlutlægt séð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar er tekið fram að „til þess sé hins vegar að líta að hugsanlega tíðkast eitthvað, eða [hafi] tíðkast, að flengja börn“. Dómurinn var staðfestur í Hæstarétti, þar sem sérstaklega var vísað til þess að 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 legði ekki fortakslaust bann við að foreldri eða annar maður með samþykki þess beitti barn líkamlegum aðgerðum til að bregðast við óþægð, heldur væri refsinæmi slíkrar háttsemi háð því að gerðir hans væru til þess fallnar að skaða barnið andlega eða líkamlega.

Í kjölfar þessarar niðurstöðu Hæstaréttar sendi umboðsmaður barna bréf til dóms- og kirkjumálaráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis þar sem gagnrýnd var sú lagatúlkun Hæstaréttar að 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ætti ekki við um flengingar barna ef foreldrar samþykktu þær. Samþykki þolenda getur leyst menn undan refsiábyrgð samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga. Ekki verður fallist á það að foreldrar geti veitt slíkt samþykki fyrir hönd barna sinna enda eru börn fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi. Það fær hvorki staðist lög né alþjóðlegar skuldbindingar að foreldar geti samþykkt að börn þeirra verði beitt ofbeldi, enda ber þeim skylda til þess að vernda þau gegn slíku, sbr. meðal annars 2. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 19. gr. Barnasáttmálans.

Umboðsmaður barna benti einnig á að til þess að uppfylla þjóðréttarlegar skuldbindingar samkvæmt 19. gr. Barnasáttmálans þyrfti að gera breytingar á 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga sem og ákvæðum barnalaga nr. 76/2003. Nauðsynlegt er að það komi fram berum orðum í lögum að barn eigi rétt á vernd gegn hvers konar ofbeldi frá foreldrum sínum. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands kemur fram að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnum sem velferð þeirra krefst. Í því felst meðal annars að nauðsynlegt er að tryggja börnum fullnægjandi vernd gegn hvers kyns ofbeldi með lögum.

Barnaverndarlögum nr. 80/2002 var breytt í kjölfar gagnrýni umboðsmanns barna sem og annarra aðila. Er nú kveðið skýrt á um það í 1. mgr. 99. gr. laganna að hver sá sem beiti barn andlegum eða líkamlegum refsingum, hótunum eða ógnunum eða sýnir af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni skuli sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum. Í 2. mgr. segir að allir sem hafi uppeldi og umönnun barna með höndum skulu sýna þeim virðingu og umhyggju og óheimilt er með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Þeim ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Í greinargerð með frumvarpi laganna segir að breytingarnar séu meðal annars ætlaðar til að bregðast við fyrrgreindum dómi Hæstaréttar og til að taka af öll tvímæli um það að foreldrum er bannað að beita barn ofbeldi og vanvirðandi háttsemi, þ.m.t. andlegum og líkamlegum refsingum, auk þess að kveða skýrt á um að foreldrum beri að vernda barn sitt gegn ofbeldi.

Umboðsmaður barna fagnar framangreindum breytingum á barnaverndarlögum, enda taka þær af öll tvímæli um að ofbeldi gegn börnum sé með öllu bannað samkvæmt íslenskum lögum.

Áhrif heimilisofbeldis á ákvarðanir um umgengni og forsjá

Ofbeldi innan veggja heimilisins hefur alvarleg áhrif á þroska og líðan barna, hvort sem það beinist að þeim sjálfum eða einhverjum nákomnum, svo sem foreldri. Er því mikilvægt að huga að vernd barna gegn heimilisofbeldi þegar teknar eru ákvarðanir um forsjá og umgengni. Athuganir á framkvæmd hafa hins vegar leitt í ljós að heimilisofbeldi hefur takmörkuð áhrif við slíkar ákvarðanir. Þannig hafa umboðsmanni barna borist nokkur mál þar sem úrskurðað er um umgengni barns við foreldri sem beitt hefur það ofbeldi, gegn afdráttarlausum vilja barnsins. Samræmist það illa 19. gr. Barnasáttmálans, sem leggur þá skyldu á aðildarríki að tryggja öllum börnum vernd gegn hvers kyns illri meðferð.

Umboðsmaður barna fundaði á árinu með nefnd sem skipuð var af dóms- og kirkjumálaráðherra til þess að endurskoða reglur barnalaga um forsjá barna, búsetu og umgengni. Á fundinum kom umboðsmaður barna á framfæri ýmsum ábendingum varðandi núgildandi barnalög nr. 76/2003. Umboðsmaður barna benti meðal annars á nauðsyn þess að auka vægi ofbeldis við ákvarðanir sem varða börn. Ennfremur telur umboðsmaður barna nauðsynlegt að kveða skýrar á um að meta skuli heildstætt út frá aðstæðum hverju sinni hvaða ákvörðun er barni fyrir bestu, meðal annars út frá þeirri vernd sem tryggja þarf börnum gegn ofbeldi.

Ráðstefna í Noregi um ofbeldi gagnvart börnum

Umboðsmaður barna fór vorið 2009 á ráðstefnuna „Hvorfor spør vi ikke?“, sem fjallaði um ofbeldi gegn börnum. Á ráðstefnunni var meðal annars fjallað um kosti þess að nýta tannlækna í að bera kennsl á áverka vegna ofbeldis á börnum. Umboðsmaður barna hélt erindi á þessari ráðstefnu ásamt umboðsmönnum barna á öðrum Norðurlöndum.

Umboðsmaður barna telur að það geti verið mikilvægt þáttur í að tryggja vernd barna gegn illri meðferð að auka þekkingu tannlækna í að greina einkenni ofbeldis og annars konar misnotkunar. Í kjölfar ráðstefnunnar kom umboðsmaður barna ábendingum um þessi mál á framfæri við heilbrigðisráðherra, Landlækni og Tannlæknafélag Íslands. Umboðsmaður barna mun halda áfram að vekja athygli á þessum málum.

Einelti

Einelti er alvarleg birtingarmynd ofbeldis sem stefnir velferð og hagsmunum margra barna í voða. Umboðsmaður barna hefur lengi lagt áherslu á að vinna gegn einelti í skólum sem og annars staðar. Embættinu bárust nokkur erindi þar sem fólk leitaði eftir áliti umboðsmanns barna á því hver réttarstaða fórnarlamba eineltis væri og hvort grundvöllur væri fyrir dómsmálum vegna eineltis sem börn hafa orðið fyrir í skólum.

Í aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að hver skóli skuli vera með eineltisáætlun þar sem fram kemur hvernig bregðast eigi við einelti. Mjög margir grunnskólar landsins starfa eftir Olweusarverkefninu við meðferð eineltismála meðan aðrir hafa myndað sér sína eigin stefnu varðandi einelti. Það er lögbundin skylda allra sem hafa börn í umsjá sinni að huga að velferð þeirra og vernda þau gegn hvers kyns ofbeldi. Jafnframt er það eitt af meginhlutverkum grunnskólans að tryggja almenna velferð og öryggi nemenda sbr. 2. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008. Ef starfsfólk skólans sinnir ekki skyldu sinni, svo sem með því að framfylgja ekki eineltisáætlun skólans, er því um brot á starfskyldum að ræða.

Mikilvægt er að hafa í huga að einelti er ekki einungis vandamál gerenda og þolenda heldur allra nemenda. Þannig bera þeir sem eru hlutlausir áhorfendur eineltis vissa ábyrgð, enda fær einelti að viðgangast í skjóli fjöldans. Því er mikilvægt að allir taki höndum saman, það er starfsfólk skólans sem og allir foreldrar, og vinni gegn eineltinu.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að breyta lögum og framkvæmd, þannig að enn ríkari skylda hvíli á skólum til að koma í veg fyrir og taka á einelti. Umboðsmaður barna ætlar að leggja sérstaka áherslu á einelti á árinu 2010.

AÐFARARGERÐIR

Frá því að núgildandi barnalög nr. 76/2003 tóku gildi hefur verið hægt að koma á umgengni barns við foreldri sem fer ekki með forsjá þess, með beinni aðfarargerð, tálmi forsjármaður umgengni þrátt fyrir úrskurð um dagsektir og fjárnám. Umboðsmaður barna telur beitingu slíks þvingunarúrræðis mjög vandasama með hliðsjón af hagsmunum barnsins og einungis réttlætanlegt að grípa til hennar í sérstökum undantekningartilvikum. Umboðsmaður barna leggur ávallt ríka áherslu á það að tekið sé tillit til vilja barnsins, með hliðsjón af aldri þess og þroska.

Í lok sumars 2009 bárust umboðsmanni barna athugasemdir um framkvæmd aðfarargerða á börnum. Ábendingarnar snéru að því að ekki væri nægilega vel hugað að hagsmunum barna við slíkar gerðir. Umboðsmaður barna ákvað í framhaldi af þessum athugasemdum að gera heildarúttekt á beitingu úrræðisins frá gildistöku barnalaga nr. 76/2003 og kanna hvernig framkvæmd slíkra gerða er háttað.

Þann 2. september 2009 óskaði umboðsmaður barna eftir upplýsingum og gögnum um aðfarargerðir á börnum frá sýslumannsembættum landsins, barnaverndarnefndum sem og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, á grundvelli 5. gr. laga nr. 83/1994 um umboðsmann barna. Upplýsingar og gögn frá öllum aðilum höfðu borist fyrir lok ársins 2009. Umboðsmaður barna mun skoða þessar upplýsingar á fyrri hluta ársins 2010 og ákveða í framhaldi af því hvert er næsta skrefið í því að auka vernd barna við þessar aðstæður og koma á samræmdu verklagi við framkvæmd slíkra gerða.

HÚSLEIT

Þvingunaraðgerðir fela ávallt í sér töluvert inngrip inn í friðhelgi einkalífs. Um er að ræða alvarlegar aðgerðir sem aðeins má beita ef skilyrði laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru fyrir hendi. Huga verður sérstaklega vel að hagsmunum barna sem viðstödd eru slíkar gerðir. Umboðsmanni barna bárust ábendingar varðandi húsleit sem átti sér stað í tengslum við refsimál sbr. X. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Bent var á að börn hefðu verið viðstödd húsleitina og að lögreglumenn hefðu ekki tekið tillit til þess. Mikilvægt er að lögreglan kalli til starfsmenn barnaverndar í slíkum tilvikum til verndar hagsmunum barna og tryggi öryggi þeirra meðan á aðgerð stendur. Umboðsmaður barna kom þessum ábendingum á framfæri við lögreglu.

TÓMSTUNDASTARF

31. gr. Barnasáttmálans.

1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til hvíldar og tómstunda, til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess, og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum.

2. Aðildarríki skulu virða og efla rétt barns til að taka fullan þátt í menningar og listalífi, og skulu stuðla að því að viðeigandi og jöfn tækifæri séu veitt til að stunda menningarlíf, listir og tómstundaiðju.

 

Á árinu 2009 bárust umboðsmanni barna nokkur erindi vegna barna sem stunda íþróttir og aðrar tómstundir. Í 31. gr. Barnasáttmálans er kveðið á um rétt barnsins til hvíldar, tómstunda og leikja. Með hvíld er átt við grundvallarþörf fyrir líkamlega og andlega hvíld og svefn. Tómstundir ná yfir það að hafa tíma og frelsi til þess að gera það sem mann langar til. Tómstundir og leikir skipta miklu máli í lífi barna og gegna stóru hlutverki í andlegum og líkamlegum þroska barns og heilsu þess. Meðal þeirra erinda sem umboðsmanni barna bárust voru erindi vegna ofbeldis í íþróttum og meiðsla barna og unglinga. Einnig má nefna erindi sem vörðuðu agamál innan íþróttafélaga, erindi vegna þess hversu snemma á morgnana börn þyrftu að æfa íþróttir og erindi varðandi gjaldtöku vegna félagaskipta.

Tíðni slysa og ofbeldis við íþróttaiðkun

Í kjölfar erinda sem umboðsmanni barna bárust um slys á börnum og unglingum við íþróttaiðkun leitaði umboðsmaður barna eftir upplýsingum um tíðni slíkra slysa á börnum og unglingum. Umboðsmaður barna óskaði eftir upplýsingum um hversu algeng slík slys væru, hvort fleiri börn og unglingar slösuðust að jafnaði við íþróttaiðkun hér á landi en í nágrannalöndunum og hvort meiðsl barna og unglinga við íþróttaiðkun væru í einhverjum tilfellum orsök ofbeldis annarra iðkenda. Þá vildi umboðsmaður barna fá upplýsingar um það hvernig haldið væri utan um skráningar á slysum á börnum og unglingum við iðkun íþrótta.

Niðurstaða þessarar athugunar umboðsmanns barna leiddi í ljós að alls ekki er nægilega vel staðið að skráningu slysa á börnum og unglingum í íþróttum. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að slys á börnum og unglingum í íþróttum, orsakir þeirra og afleiðingar, séu skráð með einhverjum hætti. Umboðsmaður barna mun fylgja þessu máli eftir á næsta ári og skoða hvernig hægt er að standa að skráningu slysa í íþróttum. Slík skráning er nauðsynleg til þess að átta sig á umfangi slysa og vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum.

Agaviðurlög innan félaga

Umboðsmanni barna barst ábending vegna agaviðurlaga sem barn var beitt innan ákveðins íþróttafélags. Í framhaldi af því sendi umboðsmaður bréf til félagsins og benti á mikilvægi þess að rökrétt samband ríkti á milli agabrots barns og þeirra viðurlaga sem beitt sé í kjölfarið. Þá þurfa skýrar og aðgengilegar reglur að vera til staðar sem börn sem og aðrir geti kynnt sér. Umboðsmaður barna áréttaði einnig við félagið mikilvægi þess að gæta meðalhófs og beita vægari viðurlögum þegar börn ættu í hlut, svo sem áminningu.

Umboðsmaður barna beindi jafnframt þeim tilmælum til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) að það beitti sér fyrir því að settar yrðu einhvers konar leiðbeiningareglur sem kvæðu á um það með hvaða hætti, hvenær og hvernig ætti að beita agaviðurlögum þegar börn eiga í hlut. Slíkar reglur verða að vera skýrar og aðgengilegar og mega ekki ganga lengra en nauðsyn ber til. Í samræmi við sjónarmið Barnasáttmálans er auk þess mikilvægt að slíkar reglur miði að því að hafa jákvæð og uppbyggileg áhrif á börn.

Íþróttaæfingar

Umboðsmanni barna barst ábending þess efnis að íþróttaæfingar barna væru stundum mjög snemma á morgnana og börn fengju því í mörgum tilvikum ekki nægilega hvíld. Að mati umboðsmanns barna geta íþróttir og tómstundir verið skemmtilegar og heilsueflandi fyrir börn. Það er þó mikilvægt að gæta þess að börn verði ekki fyrir of miklu álagi. Vafasamt er að halda námskeið mjög snemma á morgnana fyrir ung börn.

Umboðsmaður barna sendi bréf til ÍSÍ og vakti athygli á því að nauðsynlegt væri að börn fengju nægilega hvíld og því væri ekki æskilegt að hafa íþróttaæfingar mjög snemma á morgnana. Umboðsmaður barna vildi einnig í bréfi sínu vekja athygli á því hversu miklar kröfur væru gerðar til barna sem stunda íþróttir. Oft virðist ekki hægt að velja neinn milliveg heldur þurfa börn ýmist að æfa oft í viku, marga klukkutíma á dag, eða ekki neitt. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að börn geti fetað einhvern milliveg hvað varðar íþróttaiðkun þannig að sum börn geti haft val um það að æfa sjaldnar í viku ef það hentar þeim betur, meðan önnur æfa oftar.

Gjaldtaka vegna félagaskipta

Umboðsmanni barna barst ábending um að börnum í ákveðnum keppnisgreinum væri gert að greiða ákveðið gjald til þess að mega skipta um íþróttafélag. Greiði þau ekki tilskilið gjald fá þau ekki að taka þátt í keppni hjá nýju félagi. Á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 83/1994 um umboðsmann barna óskaði umboðsmaður barna eftir upplýsingum frá ÍSÍ. Meðal annars var spurt um það hvort gjaldtaka vegna félagaskipta hjá börnum og ungmennum færi fram og ef svo er á hvaða grundvelli slík gjaldtaka væri ákveðin, hvaða heimildir lægju henni að baki og að hverjum kröfunum væri beint.

Samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 verða börn lögráða við 18 ára aldur. Fram að þeim aldri eru börn ófjárráða og geta því ekki skuldbundið sig fjárhagslega. Löggerningar ófjárráða barna, sem þau hafa ekki heimild til að gera, binda þau því ekki.

Einstaklingum og lögaðilum er óheimilt að beina kröfu að ófjárráða barni til innheimtu skulda og fyrirtæki og stofnanir mega ekki eiga viðskipti við ófjárráða einstakling, sem felur í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir hann. Í þessu felst að íþróttafélög mega ekki gera samninga við ólögráða einstaklinga sem skuldbinda þau til greiðslu félagsgjalda eða annarra greiðslna. Þá er óheimilt að beina hvers kyns innheimtu að börnum undir 18 ára aldri. Foreldrar þurfa því að samþykkja greiðslu hvers kyns gjalda vegna barna sinna og innheimtu skal ávallt beint til þeirra.

Umboðsmaður barna telur að ef íþróttafélag ætlar að krefjast gjalds vegna félagaskipta barns þá verði að liggja fyrir samningur milli foreldris og félagsins þar sem sú skuldbinding kemur fram. Ef enginn slíkur samningur er til staðar er félaginu ekki heimilt að gera slíka kröfu. Þá hafa samtök íþróttafélaga eða einstök félög innan slíkra samtaka ekki heimild til að ákveða einhliða reglur sem eru íþyngjandi fyrir félagsmenn nema að fyrir liggi sérstakur samningur eða samkomulag.

Umboðsmaður barna hélt fund með ÍSÍ þar sem þessi mál voru rædd. Í kjölfarið lýsti sambandið því yfir að það myndi endurskoða framkvæmdina með hliðsjón af ábendingum umboðsmanns.

 

 

FRIÐHELGI EINKALÍFS BARNA

16. gr.

1. Eigi má láta barn sæta gerræðislögum eða ólögmætum afskiptum af einkalífi þess, fjölskyldu, heimili eða bréfum, né ólögmætri árás á sæmd þess eða mannorð.

2. Barn á rétt á vernd laganna fyrir slíkum afskiptum og árásum.

 

Í 71. gr. stjórnarskrárinnar segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í friðhelgi einkalífs felst fyrst og fremst réttur manna til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Í 16. gr. Barnasáttmálans er börnum jafnframt tryggður sjálfstæður réttur til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi utan heimilis sem innan. Nauðsynleg forsenda þess að barn geti notið friðhelgi einkalífs er að tryggja því aukinn samráðs- og sjálfsákvörðunarrétt með hækkandi aldri og auknum þroska.

Umboðsmaður barna vann að ýmsum málum á árinu 2009 sem vörðuðu vernd á friðhelgi einkalífs barna.

Birting dóma er varða börn

Umboðsmanni barna berast reglulega athugasemdir um hvernig dómar er varða börn eru birtir á netinu, sérstaklega í kynferðisbrotamálum og þegar um er að ræða smærri samfélög. Í umsögn sinni um frumvarp til laga um meðferð sakamála árið 2008 gerði umboðsmaður barna athugasemdir við birtingu dóma á netinu þegar um er að ræða kynferðisbrot gegn börnum. Í þeim erindum sem umboðsmanni barna hafa borist vegna þessara mála kemur iðulega fram að birting dóma og vitnisburður barnanna hafi valdið börnunum vanlíðan.

Samkvæmt 3. mgr. 16. gr. laga um meðferð sakamála er meðal annars heimilt, ef sérstök ástæða er til, að afmá úr dómum eða öðrum úrskurðum atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til einkahagsmuna, þegar þeir eru birtir opinberlega, svo sem á vefsíðum. Umboðsmaður barna telur að beita eigi þessu ákvæði þegar börn eiga í hlut. Birting dóma og vitnisburður barnanna getur valdið börnum þjáningu sem aðildarríkjum að Barnasáttmálanum er skylt að vernda börn fyrir. Mikilvægt er að hafa þessi sjónarmið í huga við opinbera birtingu dóma eða annarra úrskurða. Umboðsmaður barna sendi bréf til dómstólaráðs þar sem hvatt var til að settar yrðu leiðbeinandi reglur um á hvern hátt vitnisburður barna, svo og dómar í heild sinni er varða börn, eru birtir á netinu eða gefnir út með öðrum hætti.

Reglur um neytendavernd

Auglýsingum og annarri markaðssetningu á vörum og þjónustu er í sívaxandi mæli beint að börnum. Markaðssetningin er auk þess orðin mun ágengari og áhrifaríkari en áður var, meðal annars vegna möguleika á því að nota nýja miðla, svo sem farsíma, internet og tölvuleiki. Börn hafa ekki þroska til að bregðast við slíku áreiti og meta hvað þau hafa þörf fyrir og hvað er gott fyrir þau.

Til þess að bregðast við markaðssókn gagnvart börnum hafa umboðsmaður barna og talsmaður neytenda unnið saman að því að auka neytendavernd fyrir börn. Eftir meira en þriggja ára samstarf talsmanns neytenda og umboðsmanns barna og samráð embættanna við um 100 aðila gáfu embættin út leiðbeinandi reglur til fyrirtækja og annarra hagsmunaaðila um markaðssókn sem beinist að börnum. Um er að ræða ítarlegar leiðbeiningarreglur um aukna neytendavernd barna þar sem leitast er við að finna gott jafnvægi varðandi mörk og markaðssókn fyrirtækja gagnvart börnum og unglingum. Leiðbeiningarreglurnar eru hugsaðar til viðbótar gildandi laga- og leiðbeiningarreglum eða til stuðnings og útfærslu á gildandi reglum.

Í leiðbeiningarreglunum er leitast við að taka mið af þeim ólíku sjónarmiðum sem komið hafa frá þeim hagsmunaaðilum og sérfræðingum sem leitað var til, frá ráðherrum, þingmönnum, hagsmunasamtökum, fræðasamfélagi og almannasamtökum, auk einstaklinga. Almenningi gafst í desember 2008 þriggja vikna frestur til þess að gera athugasemdir við drög umboðsmanns barna og talsmanns neytenda að leiðbeiningum um aukna neytendavernd barna.

Í samráði við Neytendasamtökin var ákveðið að leiðbeiningarnar tækju gildi á alþjóðadegi neytendaréttar, þann 15. mars 2009. Þannig gafst fyrirtækjum, fjölmiðlum og öðrum rúmur tími til þess að undirbúa sig áður en farið var að fylgja leiðbeiningunum eftir af hálfu talsmanns neytenda, umboðsmanns barna og annarra.

Umboðsmaður barna bindur vonir við að reglunum verði fylgt eftir í framkvæmd. Almenningur er hvattur til að vera vakandi fyrir brotum og koma ábendingum um slíkt á framfæri við embættið.

Norrænt hollustumerki

Eftir útgáfu leiðbeiningarreglnanna um aukna neytendavernd settu umboðsmaður barna og talsmaður neytenda fram tillögu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að hann stuðlaði að því að tekið yrði upp valfrjálst hollustumerki að sænskri fyrirmynd. Hollustumerkið væri þá heimilt að nota hérlendis að uppfylltum ákveðnum skilyrðum í hverjum matvælaflokki. Þá væri til dæmis hægt að kveða á um að aðeins matvæli sem uppfylltu kröfur hollustumerkisins hefðu rétt til að vera nærri afgreiðslukassa, auglýst í kringum bíósýningar, barnatíma og á DVD-diskum fyrir ung börn o.s.frv.

Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda vildu að tryggt yrði að nægileg fjárframlög bærust til þeirra aðila sem ættu að standa að kynningu merkisins og þýðingu þess fyrir neytendur og aðra hagsmunaaðila. Í ítarlegum röksemdum talsmanns neytenda og umboðsmanns barna fyrir tillögunni segir meðal annars:

Kjarni þess að taka upp slíkt jákvætt, valfrjálst hollustumerki felst í því að þannig er hægt að leiðbeina með skjótum hætti í hraða hversdagsins þeim neytendum og foreldrum - leikum sem lærðum - sem vilja velja holl matvæli óháð þekkingu á næringarfræði eða tungumálum, óháð sjón o.s.frv. Þá er merkið þess eðlis að einfalt er að kenna börnum hvað felst í því.

Markaðssetning sem beinist að börnum

Á árinu 2009 bárust umboðsmanni barna nokkrar ábendingar um markaðssetningu sem beinist gegn börnum, þar sem framangreindum leiðbeiningarreglum virðist ekki hafa verið fylgt. Sem dæmi um það má nefna mál vegna markaðssetningar símafyrirtækja, banka og tímarita. Í kjölfar slíkra erinda hefur umboðsmaður barna haft samband við viðkomandi aðila og hvatt þá til að kynna sér reglur um neytendavernd barna og hafa þær að leiðarljósi við markaðssetningu sem beinist að börnum.

Myndbirtingar af börnum

Reglulega berast umboðsmanni barna ábendingar varðandi birtingu mynda af börnum. Almennt gilda sömu reglur um myndbirtingar af börnum og öðrum. Þegar um börn er að ræða þarf þó að gæta sérstakrar varkárni og huga að þeim lögum sem tryggja vernd barna. Ef myndir eru teknar á almannafæri, svo sem í verslunarmiðstöð eða á opinni skemmtun, er almennt heimilt að birta þær í fjölmiðlum. Hins vegar geta ákveðin rök leitt til þess að slík birting sé óheimil, til dæmis ef myndin getur talist ósæmileg eða er tengd frétt með óviðeigandi hætti. Ef mynd af barni er ekki tekin á almannafæri ber hins vegar að óska eftir leyfi forsjáraðila áður en hún er birt. Sama á við ef myndin er birt sem hluti af auglýsingu.

Vorið 2009 bárust umboðsmanni barna fjölmargar ábendingar um birtingu á klámfengnum myndum af íslenskum unglingum á vefsíðunni ringulreid.org. Á síðunni var auk þess að finna gróft rafrænt einelti og ærumeiðandi ummæli. Þar sem síðan var vistuð erlendis var ekki hægt að hafa uppi á ábyrgðarmönnum hennar. Til þess að bregðast við þessu skoruðu Umboðsmaður barna, Ríkislögreglustjóri, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Barnaverndarstofa, Barnaheill, Heimili og skóli, SAFT og Lýðheilsustöð á öll netþjónustufyrirtæki að loka fyrir aðgang á síðunni. Nokkur fjarskiptafyrirtæki brugðust við og lokuðu fyrir aðgang og þakkar umboðsmaður barna þeim fyrir góð viðbrögð. Umboðsmaður er ánægður með samstarf framangreindra aðila, sem sýnir vel hversu mikil áhrif það getur haft þegar aðilar taka höndum saman til að tryggja réttinda barna.

Leit á börnum

Umboðsmanni barna barst erindi vegna leitar lögreglu á nemendum með fíkniefnahundi í framhaldsskóla. Að mati umboðsmanns barna er mikilvægt að stuðla að forvörnum innan framhaldsskóla og koma í veg fyrir neyslu fíkniefna. Við slíkar aðgerðir verður þó alltaf að gæta meðalhófs og gæta að friðhelgi einkalífs nemenda, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Fara þarf varlega við að nota fíkniefnahund við leit innan skóla og gæta þess að fullnægjandi lagaskilyrði séu fyrir slíkri leit. Hagsmunir nemenda skulu ávallt ráða för við ákvarðanir sem varða skólann með einum eða öðrum hætti. Miklu skiptir að stuðlað sé að vellíðan nemenda í skólanum og reynt að efla gagnkvæmt traust þeirra og starfsfólks skólans. Umboðsmaður barna beindi framangreindum tilmælum til skólans.

Fjölmiðlaumfjöllun um börn

Umboðsmaður barna hefur fengið ýmsar ábendingar um að fjölmiðlar hugi ekki nægilega að vernd barna þegar fjallað er um börn. Við slíka umfjöllun þarf ávallt að huga að þeirri sérstöðu sem börn njóta samkvæmt lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum. Í 17. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er sérstaklega fjallað um mikilvægi fjölmiðla og ábyrgð þeirra gagnvart börnum. Í e-lið þess ákvæðis er tekið fram að aðildarríki skuli stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi reglur um vernd barna fyrir upplýsingum og efni sem skaðað geti velferð þeirra. Þegar fjallað er um börn eða unglinga á mjög meiðandi hátt getur það augljóslega haft mjög slæm áhrif á sjálfsmynd og velferð þeirra. Dæmi um umfjöllun sem er til þess fallin að skaða velferð barna eru viðkvæmar upplýsingar sem hægt er að rekja til einstakra barna, svo sem í þeim tilvikum sem börn eru brotaþolar. Auk þess hvílir sérstaklega mikil ábyrgð á fjölmiðlum þegar þeir fjalla um börn sem hafa brotið af sér, enda er talið að neikvæð umfjöllun geti haft alvarlegar afleiðingar á sjálfsmynd þeirra. Umboðsmaður barna telur þörf á að mótaðar verði reglur sem leggi þá skyldu á fjölmiðla að gæta sérstakrar varkárni þegar verið er að fjalla um börn og tryggja að umfjöllun sé ekki til þess fallin að hafa meiðandi eða niðurbrjótandi áhrif. Í þeim tilgangi reyndi umboðsmaður ítrekað að fá fund með Blaðamannafélagi Íslands á árinu en án árangurs. Umboðsmaður mun halda áfram að koma þessum sjónarmiðum á framfæri.

 

LÁNVEITINGAR TIL BARNA

Í nóvember 2009 voru fluttar fregnir af því að tíu börn hefðu fengið lán hjá Glitni fyrir stofnfjárkaupum vegna stofnfjáraukningar í Byr. Um var að ræða börn á aldrinum eins til sautján ára. Á aðalfundi Byrs í apríl 2008 var samþykkt að greiða arð til eigenda stofnfjárbréfa. Arðgreiðslur til barnanna námu 86 milljónum króna og fóru þær beint til greiðslu lána vegna stofnfjárkaupanna.

Lánveitingar til barna eru ekki heimilar nema að fengnu leyfi yfirlögráðanda (sýslumanns) og þá aðeins að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sem ekki voru uppfyllt í þessu máli. Íslandsbanki, sem er arftaki Glitnis sem sá um stofnfjáraukninguna fyrir hönd Byrs á sínum tíma, ákvað að allir gerningar varðandi börnin og stofnféð yrðu látnir ganga til baka.

Í forsjárskyldum foreldra felst að fara með lögráð barna sinna. Lögráðamaður ber ábyrgð á þeim fjármunum barns sem hann hefur umráðarétt yfir samkvæmt lögræðislögum. Meginskylda lögráðamanna ófjárráða barna er að varðveita eignir þeirra tryggilega og gæta þess að þær séu ávaxtaðar eins og best verður á kosið á hverjum tíma. Foreldri á að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi og haga ákvörðunum sínum í þágu þess. Lögráðamanni ber einnig að hafa samráð við barnið eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Foreldrar skulu ávallt halda fjármunum barna sinna aðskildum frá sínum eigin fjármunum. Ef lögráðamaður veldur ófjárráða barni tjóni, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi, ber honum að bæta það.

Umboðsmaður barna telur eðlilegt að gerðar séu ríkar kröfur til þeirra sérfræðinga í fjármálastofnunum sem taka ákvarðanir um lánveitingar. Þeir eigi að þekkja ákvæði lögræðislaga og haga störfum sínum samkvæmt því. Umboðsmaður kom þessum upplýsingum á framfæri í pistli á heimasíðu og í viðtölum við fjölmiðla.

MISMUNUN VEGNA ALDURS

Umboðsmanni barna bárust nokkur erindi frá börnum þess efnis að þeim væri neitað um ákveðna þjónustu sem öðru fólki væri veitt. Sem dæmi um það má nefna bakarí sem neitaði unglingum um að sitja inni og borða, verslun sem neitaði unglingum um að koma inn að versla nema í litlum hópum og sundlaug þar sem börnum á ákveðnum aldri var meinaður aðgangur á ákveðnum tímum.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að börn og unglingar fái að njóta sömu þjónustu og almennt er í boði fyrir fólk. Þannig þarf hver sá aðili sem býður fram þjónustu fyrir almenning í atvinnuskyni að veita þá þjónustu hverjum þeim sem til hans leitar, nema brýnar og málefnalegar ástæður mæli gegn því. Aldur viðskiptavina telst almennt ekki málefnaleg ástæða, eins og meðal annars kemur fram í 65. gr. stjórnarskrárinnar. Undantekningar á því eiga fyrst og fremst við þar sem nauðsynlegt er að tryggja öryggi og vernd barna. Umboðsmaður barna hafði samband við alla þá staði sem kvartað var undan og áréttaði þessi sjónarmið.

 

 

 

UMÖNNUN

 

3. gr.
1. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.
2. Með hliðsjón af réttindum og skyldum foreldra eða lögráðamanna, eða annarra sem bera ábyrgð að lögum á börnum, skuldbinda aðildarríki sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu.
3. Aðildarríki skulu sjá til þess að stofnanir þar sem börnum skal veitt umönnun og vernd starfi í samræmi við reglur sem þar til bær stjórnvöld hafa sett, einkum um öryggi, heilsuvernd og fjölda og hæfni starfsmanna, svo og um tilhlýðilega yfirumsjón. 

Barnasáttmálinn leggur þær skyldur á aðildarríkin að grípa til aðgerða til að tryggja velferð barna, meðal annars á sviði mennta-, heilbrigðis- og félagsmála. Ein af grundvallarreglum Barnasáttmálans er 3. gr. sem kveður á um að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang við gerð ráðstafana sem varði börn á einn eða annan hátt.

Hlutverk umboðsmanns barna er að standa vörð um hagsmuni barna, þarfir og réttindi á öllum sviðum samfélagsins. Börn eru ekki þrýstihópur í stjórnmálalegu tilliti og sú staðreynd liggur fyrir að sjónarmið þeirra gleymast oft á tíðum í heimi hinna fullorðnu. Umboðsmanni barna ber því að huga að því að sjónarmið 3. gr. Barnasáttmálans séu höfð að leiðarljósi þegar unnið er að málefnum barna.

Mikilvægt er að halda sérstaklega vel utan um börn á efnahagslega erfiðum tímum. Börn verða að njóta þeirrar þjónustu sem velferð þeirra krefst. Aldrei er heimilt að skerða lögbundna þjónustu við börn. Jafnvel í þeim tilvikum sem þjónusta við börn er ekki lögbundin þarf að gæta sérstakrar varkárni áður en hún er skert með einhverjum hætti. Af 3. gr. Barnasáttmálans leiðir meðal annars að skylt er að leita annarra leiða við niðurskurð áður en þjónusta við börn er skert með einum eða öðrum hætti.

UMÖNNUN BARNA Á NIÐURSKURÐARTÍMUM

Umboðsmaður barna taldi mikilvægt að hafa góða yfirsýn yfir hvar niðurskurður vegna efnahagsástandsins kæmi niður á þjónustu við fjölskyldurnar í landinu. Fjölskyldur sem eru að upplifa fjárhagslegar þrengingar finna nú vafalaust fyrir streitu og kvíða og það hefur óneitanlega áhrif á líðan barna. Umboðsmaður barna ákvað því í september 2009 að óska eftir ábendingum um niðurskurð sem bitnaði með einum eða öðrum hætti á börnum, hvort sem varðaði skólamál, heilbrigðismál, félagslega aðstoð, barnavernd, fjölskyldumál, tómstundamál eða annað sem er hluti af daglegu lífi barna og unglinga.

Umboðsmanni barna bárust þó nokkrar ábendingar um niðurskurð á þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra.

Umönnunargreiðslur til foreldra fatlaðra barna

Umboðsmanni barna bárust athugasemdir varðandi fyrirhugaðan niðurskurð á umönnunargreiðslum til foreldra fatlaðra barna eða barna með alvarleg veikindi. Í fjárlögum 2010 er gert ráð fyrir að umönnunarbætur verði 1.035 milljónir króna en þær voru 1.373 milljónir króna árið 2009.

Mikilvægt er að tryggja fötluðum og langveikum börnum sérstaka aðstoð og stuðning, eins og meðal annars kemur fram í 23. gr. Barnasáttmálans. Telur umboðsmaður barna því nauðsynlegt að gæta ítrustu varkárni þegar tekin er ákvörðun um að skerða fjárframlög til þeirra. Umboðsmaður barna sendi bréf í félags- og tryggingamálaráðuneytið og fór fram á að fá upplýsingar, á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga um umboðsmann barna, um það hvort fyrirhugaður væri niðurskurður á umönnunargreiðslum til foreldra fatlaðra og langveikra barna, og ef svo væri, hvaða rök væru fyrir þeim niðurskurði. Umboðsmaður barna benti á að skylt væri að leita annarra leiða áður þessi þjónusta við börn væri skert.

Umboðsmaður barna hefur átt samskipti við hlutaðeigandi aðila en í lok árs 2009 var ekki komin endanleg niðurstaða í málið. Embættið mun fylgjast náið með málinu.

Fækkun kennsludaga í grunnskólum

Umboðsmanni barna bárust upplýsingar þess efnis að til stæði að fækka kennsludögum í grunnskólum landsins. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að koma eftir fremsta megni í veg fyrir að þrengingar í efnahagslífinu hafi áhrif á skólagöngu og daglegt líf barna og unglinga. Skýr tengsl eru milli félagslegrar og efnahagslegrar stöðu foreldra við heilsu og líðan barna. Skólinn gegnir því mikilvægu hlutverki fyrir börn á þeim umbrotatímum sem við lifum núna. Þá hefur reynsla nágrannaþjóða okkur sýnt að niðurskurður í skólakerfinu hefur neikvæðar afleiðingar í för með sér þegar til lengri tíma er litið. Umboðsmaður barna hvatti menntamálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga til að íhuga vel allar hliðar málsins áður en ákveðið væri að fækka kennsludögum í grunnskólum. Að mati umboðsmanns barna er mikilvægt að hagsmunir barna séu ávallt hafðir í fyrirrúmi og börnum eftir fremsta megni hlíft við hvers kyns niðurskurði sem sveitarfélögin standa frammi fyrir vegna efnahagsástandsins.

Réttur barna til sérfræðiþjónustu í grunnskóla

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 eiga nemendur rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðra, nemendur með leshömlum, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir sbr. 2. mgr. 17. gr. grunnskólalaga. Rekstur almennra grunnskóla er á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Sveitarfélög bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í grunnskólum sveitarfélagsins, þróun einstakra skóla, húsnæði og búnaði grunnskóla, sérúrræðum grunnskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og framkvæmdar grunnskólastarfsins í sveitarfélaginu sbr. 1. mgr. 5. gr. grunnskólalaga.

Umboðsmaður barna fékk ábendingu þess efnis að ekki væri skýrt hvaða stjórnvöld bæru ábyrgð á því að veita sérfræðiþjónustu í grunnskóla og hvert inntak slíkrar þjónustu skyldi vera. Þau erindi sem umboðsmanni barna bárust snéru annars vegar að hjálpartækjum sem nemendur þurfa vegna fötlunar sinnar og hins vegar að sérfræðiþjónustu sem á grundvelli sérstaks mats er talin nauðsynleg nemendum. Í þeim tilvikum þar sem um er að ræða hjálpartæki fyrir nemendur virðist vera fyrir hendi sú starfsregla hjá þeim stofnunum sem veita hjálpartæki að úthluta einu tæki til barnsins. Í tilvikum þar sem um er að ræða búnað sem vegna umfangs er ekki hægt að flytja auðveldlega á milli heimilis og skóla virðist sem tilviljun ein ráði því hvort nemandinn hafi nauðsynleg hjálpartæki í skólanum. Er þá jafnan um það deilt hver beri ábyrgð á að útvega nemandanum hjálpartækið, þ.e. opinbera stofnunin sem lögum samkvæmt sér um úthlutun hjálpartækja eða viðkomandi sveitarfélag sem ber ábyrgð á rekstri grunnskólans.

Hvað varðar sérfræðiþjónustu við nemendur liggja ekki fyrir reglur um hvort grunnskólar á vegum sveitarfélaga hafi heimild til að ákveða hvort þeir veiti þá sérfræðiþjónustu sem fram kemur í mati eða ekki. Þá liggur ekki fyrir hvort grunnskólar hafi heimild til að ákveða að veita eina tegund sérfræðiþjónustu, til dæmis talkennslu, en ekki aðra, svo sem iðjuþjálfun.

Umboðsmaður barna sendi bréf til skrifstofustjóra menntamálaráðuneytisins og spurðist fyrir um hvernig staðið væri að þessum málum. Einnig vildi umboðsmaður barna vita hvort reglugerð samkvæmt 6. mgr. 17. gr. grunnskólalaga væri til, og ef ekki, hvernig vinnu við setningu slíkrar reglugerðar miðaði.

Í svarbréfi menntamálaráðuneytisins til umboðsmanns barna vísaði ráðuneytið á heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands varðandi hvaða reglur giltu um úthlutun hjálpartækja. Þá kom fram að grunnskólanemendur ættu rétt á að komið væri til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Menntamálaráðuneytið sagði að vinna við reglugerð um nemendur með sérþarfir væri hafin og stefnt væri að útgáfu hennar fljótlega að loknu samráðsferli við hagsmunaaðila. Stefnt væri að útgáfu einnar reglugerðar um sérfræðiþjónustu sem næði bæði til leikskóla og grunnskóla til að leggja áherslu á samfellu í námi og tengsl skólastiga. Umboðsmaður barna bindur vonir við þessa reglugerð og mun fylgjast með þessum málum áfram.

Sáttaumleitan

Samkvæmt 33. gr. barnalaga nr. 76/2003 skal sýslumaður bjóða aðilum forsjár-, umgengnis- og dagsektarmála sérfræðiráðgjöf til að aðstoða þá við að finna lausn máls með tilliti til þess sem er barni fyrir bestu. Í lok sumars 2009 bárust umboðsmanni barna athugasemdir um að sáttaumleitan samkvæmt lögunum væri ekki í boði hjá öllum sýslumannsembættum landsins.

Vegna þessara athugasemda sendi umboðsmaður barna bréf til allra sýslumannsembættanna á Íslandi í september 2009 og spurðist fyrir um hvernig þessari þjónustu væri háttað og hvort hún hefði verið skorin niður. Fyrirkomulag þessarar þjónustu er þannig að sýslumaðurinn í Reykjavík annast greiðslu á þessari þjónustu sem fram fer í öllum sýslumannsembættum á landinu. Könnunin leiddi í ljós að í lok ágúst 2009 hefði verið ljóst að fé það sem áætlað hefði verið í ráðgjöfina fyrir yfirstandandi ár væri uppurið. Öllum sýslumönnum og dómsmálaráðuneytinu var tilkynnt um þetta og sérfræðiráðgjöfin stöðvuð. Í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns barna um sérfræðiráðgjöfina tilkynnti dómsmálaráðuneytið að frekari fjárveitinga væri að vænta til þessa verkefnis og að sérfræðiráðgjöfin yrði aftur í boði eins og lög gerðu ráð fyrir.

Umboðsmaður barna fagnar því að aukið fjármagn hafi fengist í sérfræðiráðgjöfina og að hún skuli nú aftur vera í boði fyrir fólk. Þetta er mikilvæg og oft áhrifarík leið fyrir aðila til að reyna að leysa úr málum sín á milli í góðu, án þess að fara þurfi með mál fyrir dómstóla. Þetta er sérstaklega mikilvægt vegna þess að búið er að þrengja skilyrði þess að fá gjafsókn í forsjár- eða umgengnismálum. Þessi niðurskurður í gjafsóknarmálum var meðal annars rökstuddur með því að sáttameðferð hjá sýslumanni ætti að koma í staðinn fyrir málaferli að einhverju leyti. Því skýtur það skökku við að skera einnig niður fjármagn til sáttaumleitunar.

Umboðsmaður barna mun leggja áherslu á að þessi þjónusta verði áfram í boði hjá öllum sýslumannsembættum á landinu eins og lög gera ráð fyrir.

Umræður um skerðingu á fæðingarorlofi

Árið 2009 voru gerðar breytingar á fæðingarorlofi þannig að hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði voru skertar og heimilt varð að fresta töku hluta orlofsins um þrjú ár. Foreldrar skipta mestu máli í lífi barna og umönnun og atlæti fyrstu mánuðina í lífi ungbarna hafa varanleg áhrif á allt líf þeirra. Þess vegna þarf að tryggja að ungbörn geti verið heima og notið umönnunar foreldra sinna sem lengst. Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af þeim breytingum sem gerðar voru á fæðingarorlofi og telur þær vera afturför í þessum efnum. Breytingarnar koma að auki mun verr niður í þeim tilfellum þar sem aðeins eitt foreldri er til staðar við umönnun barns.

Umboðsmaður barna telur nauðsynlegt að gæta ítrustu varkárni þegar teknar eru ákvarðanir um að breyta fyrirkomulagi fæðingarorlofs. Í því sambandi má minna á meginreglu 3. gr. Barnasáttmálans, sem kveður á um að það sem sé barninu fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn með einum eða öðrum hætti. Ber því ávallt að leita annarra leiða við niðurskurð áður en fjárframlög og þjónusta við börn eru skert.

Skuldajöfnun barnabóta

Árið 2008 bárust umboðsmanni barna ítrekað athugasemdir varðandi greiðslu barnabóta. Sérstaklega hefur borið á athugasemdum á því fyrirkomulagi að barnabótum er skuldajafnað upp í opinber gjöld. Barnabótakerfið á Íslandi er hluti af skattkerfinu en ekki félagslega kerfinu eins og greiðsla meðlags og barnalífeyris. Markmið barnabóta er að styðja við barnafjölskyldur í landinu og jafna stöðu þeirra. Þegar barnabætur eru teknar upp í vangoldin opinber gjöld má vera ljóst að slíkt hefur neikvæð áhrif á lífsgæði barna, þvert á tilgang og markmið barnabótakerfisins.

Umboðsmaður barna ritaði fjármálaráðuneytinu bréf þar sem hann benti á að eðlilegt væri að barnabætur væru hluti af félagslega kerfinu og tryggðu þannig fjölskyldum þann stuðning sem þeim væri ætlaður frekar en að þær væru hluti af skattkerfinu. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að þessi mál verði endurskoðuð og þá sérstaklega með hliðsjón af því að í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við er þessu víða öðruvísi háttað og ekki hægt að skuldajafna barnabótum með þeim hætti sem hér tíðkast.

Árið 2009 var ákveðið að hætta að skuldajafna barnabótum með jafn víðtækum hætti og áður var heimilt. Umboðsmaður barna fagnar þeirri niðurstöðu, enda mikilvægt að styðja við bakið á barnafjölskyldum á þeim erfiðu efnahagstímum sem nú ríkja.

 

 

RÉTTUR BARNA TIL HEILBRIGÐIS

24. gr.
1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar. Aðildarríki skulu kappkosta að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu.
2. Aðildarríki skulu stefna að því að réttur þessi komist að fullu til framkvæmda, og einkum gera viðeigandi ráðstafanir:
a) Til að draga úr ungbarna- og barnadauða.
b) Til að tryggja öllum börnum nauðsynlega læknisaðstoð og heilbrigðisþjónustu, með áherslu á uppbyggingu heilsugæslu.
c) Til að berjast gegn sjúkdómum og vannæringu, þ. á m. innan heilsugæslunnar, meðal annars með því að beita þeirri tækniþekkingu sem er auðveldlega tiltæk og með því að útvega nægilega holla fæðu og hreint drykkjarvatn um leið og tekið sé tillit til hættu á umhverfismengun og áhrifa af völdum hennar.
d) Til að tryggja mæðrum viðeigandi heilbrigðisþjónustu fyrir og eftir fæðingu.
e) Til að sjá um að allir þjóðfélagshópar, en einkum foreldrar og börn, fái upplýsingar um og eigi aðgang að fræðslu og fái aðstoð við að beita grundvallarþekkingu á heilbrigði barna og næringu, kostum brjóstagjafar, hreinlæti, umhverfishreinlæti og slysavörnum.
f) Til að þróa heilsuvernd, leiðbeiningar til foreldra og fræðslu og aðstoð við fjölskylduáætlanir.
3. Aðildarríki skulu gera allar þær ráðstafanir sem vænlegar eru til árangurs og við eiga í því skyni að ryðja úr vegi hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði barna.
4. Aðildarríki skuldbinda sig til að stuðla að og hvetja til alþjóðasamvinnu er beinist að því að smám saman komi réttur sá sem viðurkenndur er í grein þessari til fullra framkvæmda. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa þróunarríkja.

 

Öll börn eiga að hafa aðgang að heilsugæslu og njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar eins og fram kemur í 24. gr. Barnasáttmálans.

Tannvernd

Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af tannheilbrigði barna. Nú standa heimilin í landinu almennt mun verr að vígi fjárhagslega og hafa úr minna að spila til að sinna grunnþörfum barna sinna. Tannheilsu barna á Íslandi heldur áfram að hraka og heimsóknum barna til tannlækna hefur fækkað þrátt fyrir fríar forvarnaskoðanir fyrir þriggja, sex og tólf ára börn. Ef til vill er raunveruleikinn sá hjá sumum foreldrum að þeir sjá ekki tilgang í því að fara í fría skoðun til tannlæknis til að láta segja sér það sem þeir vita: að barnið þurfi á tannviðgerðum að halda sem þeir hafa ekki efni á að greiða fyrir. Raunin er því sú að afgangur hefur verið af fjárlögum til tannlækninga síðustu misseri — á sama tíma og meiri þörf er á að jafna aðstöðu barna og tryggja þeim öllum aðgang að tannheilbrigðisþjónustu.

Umboðsmanni barna berast reglulega athugasemdir vegna aukins kostnaðar sem foreldrar bera vegna meðferðar barna hjá tannlæknum. Um nokkurt skeið hefur ekki verið í gildi samningur milli Tryggingastofnunar ríkisins og Tannlæknafélags Íslands um endurgreiðslu á tannlæknaþjónustu. Í dag fá foreldrar endurgreitt samkvæmt gjaldskrá ráðherra, sem því miður er ekki í neinu samræmi við raunkostnað þjónustunnar, og lækkar endurgreiðsluhlutfallið stöðugt. Umboðsmaður barna hefur miklar áhyggjur af þessari þróun. Þá eru meiri líkur á því að börn í efnaminni fjölskyldum verði enn frekar fyrir þessu og tannheilbrigði þeirra barna versni til muna og er það óviðunandi.

Öll börn ættu að hafa jafn greiðan aðgang að tannheilsugæslu eins og annars konar heilsugæslu. Í 24. gr. Barnasáttmálans segir að aðildarríki skuli viðurkenna rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt sé að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar. Aðildarríki skuli kappkosta að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu. Einnig er kveðið á um bann við mismun af nokkru tagi í 2. gr. Barnasáttmálans. Þá er kveðið á um skyldu til að tryggja með lögum þá vernd og umönnun barna sem velferð þeirra krefst sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Á grundvelli ofangreindra ákvæða hlýtur að vera eðlilegt að velta fyrir sér til hvaða aðgerða stjórnvöld ætli að grípa til að tryggja það að öll börn njóti þeirrar tannheilsuverndar sem þau eiga sannarlega rétt á. Fjárhagsleg staða foreldra má ekki hindra aðgang barna að tannlæknum og þannig stefna tannheilsu þeirra í voða.

Í september 2009 tóku gildi lög um sykurskatt sem lagður er á ýmsar matvörur í formi vörugjalds. Upphaflega var talað um að markmið þessarar skattlagningar væri að vernda tannheilsu barna með neyslustýringu þannig að óhollar vörur yrðu ekki eins ódýrar og þær hefðu verið undanfarin ár. Umboðsmaður barna telur að eðlilegt væri, á grundvelli þeirra lýðheilsusjónarmiða sem vísað er til í stjórnarfrumvarpi, að einhver hluti þeirra tekna sem ríkissjóður fær inn með sykurskattinum rynni til verndar tannheilsu barna. Það kemur þó hvergi fram í þeim gögnum sem fylgja lagafrumvarpinu að svo muni vera. Einungis er talað um almenna tekjuöflun ríkissjóðs en hvergi minnst á að þörf sé á auknu fjármagni til verndar tannheilsu barna.

Umboðsmaður barna hefur miklar áhyggjur af tannheilbrigði barna á Íslandi og af velferð barna í þessu tilliti. Umboðsmaður barna hefur sent bréf þar sem hann skorar á yfirvöld að taka þetta mál til skoðunar og bæta fyrir vanrækslu síðustu ára með því að bjóða öllum börnum gjaldfrjálsa tannheilbrigðisþjónustu. Umboðsmaður barna mun halda áfram að vekja athygli á þessum málaflokki.

Talþjálfun fyrir börn

Reglulega berast umboðsmanni barna athugasemdir vegna barna sem þurfa á talþjálfun að halda. Foreldrar umræddra barna hafa vakið athygli á aukinni greiðslubyrði vegna talþjálfunar barna sinna og margir treysta sér ekki til að kaupa þessa þjónustu áfram vegna aukins kostnaðar. Mjög fáir talkennarar og talmeinafræðingar eru með samning við Tryggingastofnun ríkisins og hafa foreldrar þurft að standa straum af kostnaði vegna þessarar þjónustu. Umboðsmaður barna ritaði bréf til heilbrigðisráðherra í júní 2008 þar sem hann lýsti yfir áhyggjum sínum af þessari þróun. Benti umboðsmaður barna á 24. gr. Barnasáttmálans um rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar. Jafnframt vísaði umboðsmaður barna í bréfi sínu til 2. gr. Barnasáttmálans, þar sem meðal annars er fjallað um rétt barna óháð stöðu eða aðstæðum foreldra eða forráðamanna.

Í lok ársins 2009 hafði ekki verið samið við talmeinafræðinga. Verður málinu áfram fylgt eftir af hálfu embættisins.

ÁSKORUN TIL SVEITARFÉLAGA

Um síðastliðin áramót sendi umboðsmaður barna áskorun til allra sveitarfélaga landsins þar sem sveitarfélög voru hvött til að leita annarra leiða við niðurskurð áður en þjónusta við börn væri skert með einum eða öðrum hætti og benti í því sambandi á 3. gr. Barnasáttmálans. Umboðsmaður barna áréttaði að börn væru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarfnaðist sérstakar verndar og umönnunar umfram aðra þjóðfélagsþegna og því væri mikilvægt að gæta hagsmuna þeirra í hvívetna.

Í kjölfar bréfsins komu fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga á fund með umboðsmanni barna þar sem þessi mál voru rædd.

DVALARLEYFI FORELDRA

Umboðsmanni barna bárust árið 2009 nokkur erindi vegna stöðu barna sem eiga foreldra sem vísað hefur verið úr landi. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun er ekki hægt að segja til um það með fullnægjandi hætti hvaða vægi það hefur við ákvörðun um dvalarleyfi að viðkomandi eigi börn sem eru íslenskir ríkisborgar. Ljóst er að sterk tengsl við landið vega almennt mjög þungt við slíkar ákvarðanir. Umboðsmaður barna telur að við mat á því hvort dvalarleyfi sé veitt eigi að veita því töluvert vægi að viðkomandi eigi börn hér á landi, enda eiga börn rétt á að þekkja báða foreldra sína samkvæmt barnalögum. Þá má benda á 1. mgr. 9. gr. Barnasáttmálans, þar sem segir að aðildarríki skuli tryggja að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema þegar lögbær stjórnvöld ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins, enda sé sú ákvörðun háð endurskoðun dómstóls. Ísland er skuldbundið að þjóðarétti til að virða og uppfylla ákvæði sáttmálans. Ber Útlendingastofnun því að hafa þetta ákvæði í huga við ákvörðun sína um veitingu dvalarleyfis.

 

 

ÞÁTTTAKA


12. gr.
1. Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.
2. Vegna þessa skal barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar, á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð.

 

Barnasáttmálinn tryggir börnum rétt til þess að láta í ljós skoðanir sínar á öllum málum sem varða þau með einum eða öðrum hætti. Taka ber tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Kveðið er á um þennan rétt barna í 12. gr. Barnasáttmálans. Þar segir að aðildarríki skuli tryggja barni sem myndað geti eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varði, og skuli tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.

Eitt af hlutverkum umboðsmanns barna er að vera talsmaður allra barna á Íslandi og ber honum að sjá til þess að tekið sé tillit til sjónarmiða barna á öllum sviðum samfélagsins. Tækifærum barna og ungmenna til þátttöku í samfélaginu hefur fjölgað þó nokkuð á síðastliðnum árum. Starfsemi ungmennaráða hefur rutt sér til rúms hér á landi í mörgum sveitarfélögum. Grunnskólum er skylt að lögum að stofna nemendafélög og fulltrúar nemenda eiga sömuleiðis lagalegan rétt á setu í skólaráðum. Haustið 2008 hóf umboðsmaður barna verkefni sem bar heitið Hvernig er að vera barn á Íslandi en með því vildi umboðsmaður barna leyfa tjáningu barna að njóta sín og veita um leið almenningi aukna innsýn í heim þeirra.

HVERNIG ER AÐ VERA BARN Á ÍSLANDI?

Verkefnið Hvernig er að vera barn á Íslandi? hófst haustið 2008 og stóð fram til ársins 2009. Markmið verkefnisins var að gefa börnum tækifæri til að láta raddir sínar heyrast og tók það mið af 12. og 13. gr. Barnasáttmálans.

Öllum leik- og grunnskólum á landinu var boðið að taka þátt í þessu verkefni og alls bárust svör frá 1.000 leik- og grunnskólanemendum á öllum aldri. Verkefnið fór þannig fram að börnin fengu póstkort í A4-stærð og stór veggspjöld úr pappa til að tjá sig á, í myndrænu og rituðu máli, um hvernig það væri að vera barn á Íslandi. Í samræmi við 13. gr. Barnasáttmálans um tjáningarfrelsi var formið haft nokkuð frjálst eftir þörfum hvers og eins. Afraksturinn var mjög svo fjölbreytt safn listaverka og skilaboða frá börnum til hinna fullorðnu. Börnin tjáðu sig meðal annars um fjölskylduna, hvernig góðir foreldrar ættu að vera og hvernig þeir ættu ekki að vera, um vináttu og einelti, skólann og muninn á því að vera barn á Íslandi og barn í öðrum löndum.

Verk barnanna gefa ákveðna innsýn í heim barna sem eru að upplifa mikla umbrotatíma í sögu landsins. Fyrir sum börn, sérstaklega þau yngri, skiptir ástandið engu máli í daglegu lífi en þau sem eldri eru tjá sig í mörgum tilfellum um efnahagsástandið á einn eða annan hátt. Ljóst er að þau verða fyrir áhrifum frá fréttaflutningi og umræðu í þjóðfélaginu.

Sýning á afrakstri af vinnu barnanna var haldin í Gerðubergi 22. maí til 28. júní 2009 í tengslum við Dag barnsins. Formleg dagskrá hófst klukkan 14.00 með ávarpi grunnskólanemendanna Viktoríu Sigurðardóttur og Hjalta Vigfússonar. Börn frá leikskólanum Fálkaborg sungu og að því loknu lék Eyrún Björk Jakobsdóttir, 9 ára, á píanó. Samtímis var haldin sýning á Egilsstöðum. Að sýningunum loknum voru verkin til sýnis á skrifstofu umboðsmanns barna.

Í tilefni af 20 ára afmæli Barnasáttmálans þann 20. nóvember 2009 gaf umboðsmaður barna út bókina Hvernig er að vera barn á Íslandi. Í bókinni er að finna sýnishorn af verkum barnanna og skilaboð frá þeim.

RÁÐGJAFARHÓPUR UMBOÐSMANNS BARNA

Í byrjun ársins 2009 kom umboðsmaður barna á fót ráðgjafarhóp ungmenna á aldrinum 13 til 17 ára sem hefur það hlutverk að vera ráðgefandi aðili fyrir embættið um þau málefni sem brenna á börnum og ungmennum í íslensku samfélagi. Þannig geta börn og ungmenni látið skoðanir sínar í ljós og haft bein áhrif á störf umboðsmanns barna og þar með orðið þátttakendur í starfsemi embættisins.

Umboðsmaður barna óskaði eftir umsóknum frá börnum á aldrinum 13-17 ára til að starfa í ráðgjafarhópnum. Fyrsti fundur ráðgjafarhópsins var haldinn 20. janúar 2009 og mættu 9 ungmenni á fundinn. Fundir voru svo haldnir mánaðarlega. Margar góðar tillögur hafa komið fram á fundum ráðgjafarhópsins varðandi ýmis málefni er snerta börn og ungmenni.

Umboðsmaður barna horfir með tilhlökkun til næstu starfsára þar sem börn og ungmenni verða beinir þátttakendur í starfsemi embættisins.

KÖNNUN UM UNGMENNARÁÐ OG UNGMENNAÞING

Árið 2007 tóku gildi ný æskulýðslög nr. 70/2007. Í 2. mgr. 11. gr. laganna er að finna nýtt ákvæði þar sem fram kemur að sveitarstjórnum beri að hlutast til um að stofnuð séu sérstök ungmennaráð. Hlutverk ungmennaráðs er meðal annars að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórnirnar sjálfar eiga síðan að setja sér nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð. Árið 2008 sendi umboðsmaður barna öllum sveitarfélögum spurningalista þar sem kannað var hvort sveitarfélögin hefðu komið á fót sérstöku ungmennaráði eða hvort það stæði til. Niðurstöður könnunar umboðsmanns barna voru kynntar á ungmennaþingi árið 2009.

Helstu niðurstöður voru þær að ungmennaráð voru starfandi í 14 sveitarfélögum, þar sem um 60,2% landsmanna búa. Til stóð að stofna ungmennaráð í 30 sveitarfélögum, þar sem búa um 29,3% íbúa. Ekki stóð til að stofna ungmennaráð í 14 sveitarfélögum með 10,3% íbúa. 4 sveitarfélög svöruðu ekki en þar búa einungis 0,2% landsmanna.

Af niðurstöðunum má ráða að fjölmennustu sveitarfélögin séu með ungmennaráð. Nokkur sveitarfélög fóru af stað eftir að þau fengu bréf frá umboðsmanni barna og þau sem þegar voru byrjuð að koma á ungmennaráði héldu þeirri vinnu áfram. Umboðsmaður barna mun halda áfram að stuðla að því að öll sveitarfélög í landinu stofni ungmennaráð.

KÖNNUN UM SKÓLARÁÐ

Til að kanna hvernig grunnskólum landsins miðar í þeirri vinnu að koma á formlegu nemendalýðræði sendi umboðsmaður barna öllum grunnskólum landsins spurningalista sumarið 2009 þar sem skólastjórnendur voru beðnir um að svara spurningum er lutu að stofnun skólaráðs. Könnunina vann Snorri Rafn Hallsson, 18 ára nemi og fyrrverandi meðlimur í ungmennaráði Reykjavíkur, í samstarfi við Ungmennaráð Árbæjar og Grafarholts.

Umboðsmanni barna bárust 69 svör frá skólum með samtals 19.081 nemanda. Af þessum 69 skólum voru 56 með skólaráð eða um 81%. Í 4 skólum af þeim 56 sem starfræktu skólaráð sátu nemendur ekki í ráðinu. Í þeim tilvikum var þó fyrirhugað að nemendur kæmu inn í ráðin á nýju skólaári. 29 skólar (42%) höfðu þegar sett reglur um inntöku nemenda í ráðin en það stóð til hjá 29 skólum í viðbót. Í langflestum tilvikum voru reglurnar á þá leið að í ráðinu sætu tveir fulltrúar úr nemendaráði, sjálfkjörnir eða valdir af nemendaráði, eða þá að nemendaráðið kaus nemendur úr skólanum til setu í skólaráði. Sumir skólar voru með þær reglur að nemendurnir kæmu úr elstu bekkjum skólans. 43 skólar (62,3%) töldu þörf á fræðslu til nemenda vegna setu þeirra í skólaráðum. Töluðu þá flestir um að fræða þyrfti nemendur um hlutverk þeirra og skyldur í skólaráðum en einnig um fundarsköp og aðkomu barnanna að fundum. Þar sem þetta hefur ekki verið gert áður voru margir óvissir um hvernig fara skyldi að.

Umboðsmaður barna vonar að könnunin hafi ýtt við þeim skólum sem ekki höfðu þegar stofnað skólaráð þegar könnunin var gerð og fengið skólastjórnendur til að huga almennt betur að nemendalýðræði.

Eftir könnunina var gefinn út einblöðungur um skólaráð sem sendur var í alla skóla með tölvupósti. Tilgangurinn með útgáfunni var að kynna hlutverk skólaráðs og koma á framfæri helstu upplýsingum um skólaráð. Umboðsmaður þakkar Snorra og ungmennaráðinu fyrir vel unnin störf hjá embættinu í sumar og það mikilvæga innlegg með þau komu með í starfið.

BÖRN SEM ÞÁTTTAKENDUR Í PÓLITÍSKU STARFI

Umboðsmanni barna bárust ábendingar vegna þeirra mótmæla sem áttu sér stað í byrjun ársins 2009 og spurningar um það hvenær eðlilegt væri að börn tækju þátt í slíku. Í kjölfarið gaf umboðsmaður barna út álit þar sem fram kom að það væri vandasamt að svara því með algildum hætti hvenær börn mættu taka þátt í pólitísku starfi og mótmælum. Nauðsynlegt er að meta það út frá aðstæðum hverju sinni, sem og aldri og þroska barnsins. Ávallt þarf að hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi og gæta þess að velferð þeirra sé tryggð.

Umboðsmaður barna hefur lagt mikla áherslu á rétt barna til þess að láta skoðanir sínar frjálslega í ljós og að tekið sé réttmætt tillit til þeirra í samræmi við aldur barnsins og þroska sbr. 12. gr. Barnasáttmálans. Auk þess njóta börn sama tjáningarfrelsis og fullorðnir sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 13. gr. Barnasáttmálans. Meginreglan er því sú að börn eiga að fá tækifæri til þess að tjá sig um öll málefni sem þau varða og eiga rétt á því að hafa áhrif á ákvarðanir í samfélaginu.

Mikilvægt er að virða skoðana- og sannfæringarfrelsi barna og því ber að leggja áherslu á rétt barna til þess að tjá sínar eigin skoðanir. Aldrei ber að nota börn til þess að koma skoðunum annarra á framfæri.

Í ljósi framangreindra meginreglna eiga börn almennt rétt á því að taka þátt í pólitískum umræðum og mótmælum. Hins vegar er nauðsynlegt að hafa í huga að börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarf á sérstakri vernd að halda. Foreldrar bera meginábyrgð á velferð barna sinna og hafa ákveðið svigrúm til þess að ráða högum þeirra. Foreldrum ber ávallt að tryggja að hagsmunum barna sé ekki stefnt í voða og vernda þau fyrir hættulegum aðstæðum, svo sem óeirðum. Þörf barna fyrir vernd eykst eftir því sem aðstæður eru hættulegri og börnin yngri. Eftir því sem börnin verða eldri og þroskaðri ber þó að veita þeim aukinn sjálfsákvörðunarrétt, meðal annars varðandi þátttöku í pólitísku starfi.

ALLIR ERU KRAKKAR HJÁ UMBOÐSMANNI BARNA

Umboðsmaður barna var með opið hús á Menningarnótt undir yfirskriftinni „Allir eru krakkar hjá umboðsmanni barna“. Sýning var á verkum barna sem tóku þátt í verkefninu Hvernig er að vera barn á Íslandi? og RANNÍS var með sýninguna „Vísindi með augum barna“. Í anddyrinu voru svo tónlistaratriði frá börnum, en þar komu fram þrjár ungar söngkonur: Ásta Margrét, Eva Sóley og Hrafnhildur Júlía, feðgarnir Gulli og Haukur og loks vinkonurnar Guðný Gígja og Bjartey. Fjölmargir gestir komu og heppnaðist dagurinn vel í alla staði. Umboðsmaður barna stefnir að því að taka aftur þátt í Menningarnótt að ári.

AFMÆLI BARNASÁTTMÁLA SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, fyrir utan Bandaríkin og Sómalíu, hafa fullgilt sáttmálann og er hann því útbreiddasti mannréttindasamningur heims. Fullgilding felur í sér að ríki skuldbinda sig til þess að tryggja og virða þau réttindi barna sem fram koma í sáttmálanum. Sáttmálinn var undirritaður fyrir Íslands hönd árið 1990 og fullgiltur í nóvember 1992. Á árinu kom fram frumvarp um lögfestingu Barnasáttmálans og vonar umboðsmaður barna að það verði að lögum sem allra fyrst.

Barnasáttmálinn er réttindasáttmáli sem eðli málsins samkvæmt fjallar aðeins um réttindi barna en ekki um skyldur þeirra. Í inngangi Barnasáttmálans eru farið yfir þau grunngildi sem liggja að baki sáttmálanum og meðal annars vísað til Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 1948 og annarra mannréttindasamninga. Skipta má þeim réttindum sem Barnasáttmálinn kveður á um í þrjá flokka: vernd, umönnun og þátttöku.

Barnasáttmálinn kveður á um vernd tiltekinna grundvallarmannréttinda barna, svo sem réttinn til lífs, friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs, félaga-, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsis. Jafnframt leggur hann skyldur á aðildarríkin til að grípa til aðgerða til að tryggja velferð barna, meðal annars á sviði mennta-, heilbrigðis- og félagsmála.

Þó að öll réttindi Barnasáttmálans séu mikilvæg er almennt gengið út frá því að fjögur ákvæði feli í sér svokallaðar grundvallarreglur, sem tengja saman ólík ákvæði hans. Grundvallarreglurnar fjórar ganga sem rauður þráður í gegnum allan sáttmálann og er því sérstaklega mikilvægt að hafa þær í huga þegar önnur ákvæði hans eru túlkuð, ekki síst ef ákvæði sáttmálans vegast á. Grundvallarreglurnar er að finna í: 2. gr. þar sem kveðið er á um bann við mismunum, 3. gr. sem kveður á um að það sem barninu sé fyrir bestu skuli vera haft að leiðarljósi við ákvarðanir og ráðstafanir yfirvalda, 6. gr. sem kveður á um réttinn til lífs og þroska og 12. gr. sem kveður á um réttinn til þess að láta í ljós skoðanir sínar og til þess að hafa áhrif.

Þann 20. nóvember 2009 voru 20 ár síðan Barnasáttmálinn var samþykktur. Í tilefni af afmæli Barnasáttmálans sameinuðu ungmennaráð umboðsmanns barna, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Barnaheilla krafta sína og héldu mikilvægi sáttmálans á lofti með fjölbreyttum hætti afmælisvikuna 15. til 20. nóvember.

Ungmenni vekja athygli á Barnasáttmálanum

Meðlimir ungmennaráðanna hófu afmælisvikuna á sunnudegi með því að dreifa upplýsingabæklingum um Barnasáttmálann til gesta og gangandi í verslunarmiðstöðunni Kringlunni og ræða um sáttmálann við fróðleiksfúsa, en í Barnasáttmálanum er einmitt kveðið á um að hann skuli kynna með virkum hætti.

Mánudaginn 16. nóvember vöktu ungmennaráðin athygli þingmanna á mikilvægi Barnasáttmálans með því að gefa hverjum og einum þeirra eintak af sáttmálanum. Þegar þingmenn mættu til vinnu beið upplýsingabæklingur um Barnasáttmálann í hólfi þeirra, með gjafaborða og sérmerktu korti. Ungmennaráðin vildu með þessu hvetja þingmenn til að kynna sér efni sáttmálans.

 Í afmælisvikunni vöktu ungmenni einnig athygli á hinum ýmsum réttindum barna með því að skrifa greinar í Fréttablaðið. Einnig var nemendafélögum og skólastjórum í öllum grunnskólum landsins sendur tölvupóstur þar sem minnt var á mikilvægi Barnasáttmálans og allir hvattir til þess að halda upp á 20 ára afmæli hans með einhverjum hætti. Á afmælisdegi Barnasáttmálans komu loks nokkrir fulltrúar ungmennaráðanna fram í þættinum Kastljósi á RÚV, þar sem þeir kynntu efni Barnasáttmálans og tóku viðtal við Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Ungmenni funda með allsherjarnefnd Alþingis

Þann 17. nóvember funduðu ungmennaráðin með allsherjarnefnd Alþingis til að ræða hvernig bæta mætti þátttöku barna og auka áhrif þeirra í samfélaginu. Í 12. grein Barnasáttmálans segir að aðildarríki skuli tryggja barni sem myndað geti eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varði, og skuli tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Með fundinum vildu ungmennaráðin og allsherjarnefnd heiðra þetta ákvæði sáttmálans ásamt því að opna fyrir samskipti þingnefnda við börn og ungt fólk sem sérstakan hagsmunahóp. Umboðsmaður barna fagnar ákvörðun allsherjarnefndar um að funda með ungmennaráðunum og vonar að þetta sé upphafið að frekara samráði valdhafa við ungt fólk.

 Ungmennaráð afhenda forsætisráðherra ályktun

Í tilefni af afmæli Barnasáttmálans sömdu ungmennaráðin ályktun sem snýr að velferð barna á Íslandi. Til að fá stuðning almennings við innihald ályktunarinnar söfnuðu þau stuðningsaðilum við hana í verslunarmiðstöðinni Smáralind þann 17. nóvember. Öllum sem sýndu stuðning sinn við ályktunina var boðið að klæðast ofurhetjuflíkum og fá tekna mynd af sér. Ályktun ungmennaráðanna og ljósmyndir af stuðningsaðilunum voru síðan afhent forsætisráðherra þann 19. nóvember.

Ályktunin fjallar um réttindi barna og velferð á Íslandi. Með henni er skorað á íslensk stjórnvöld að standa alltaf vörð um réttindi barna. Þar segir meðal annars: „Samkvæmt 3. grein Barnasáttmálans skulu stjórnvöld ávallt hafa það sem börnum er fyrir bestu að leiðarljósi í ákvörðunum sínum og hugsa um það hvaða áhrif athafnir þeirra hafa á börn.“Einnig kom fram að ungmennin hefðu áhyggjur af niðurskurðinum sem nú ætti sér stað í samfélaginu og nauðsynlegt væri að tryggja öllum börnum þá þjónustu sem þau ættu rétt á og hugsa sérstaklega um þau börn sem stæðu höllum fæti í samfélaginu. Það væri skylda stjórnvalda samkvæmt Barnasáttmálanum að leita annarra leiða í niðurskurði áður en þjónusta við börn væri skert. Einnig voru stjórnvöld hvött til þess að virða 12. gr. Barnasáttmálans og hafa samráð við börn og unglinga áður en teknar væru ákvarðanir sem þau vörðuðu.

Ungmenni afhenda ríkisstjórninni bókina Hvernig er að vera barn á Íslandi?

Meðlimir úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna mættu á ríkisstjórnarfund og afhentu ríkisstjórninni fyrstu eintökin af bókinni Hvernig er að vera barn á Ísland? Ráðgjafarhópurinn vildi með þessu vekja athygli ráðherra á reynslu og skoðunum barna og hvetja þá til þess að nýta sér einstaka sýn þeirra til þess að bæta samfélagið.

Afmælisveisla og opnun kennsluvefjar um Barnasáttmálann

Afmælisvikunni lauk með afmælisveislu sem umboðsmaður barna, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Barnaheill stóðu fyrir í Snælandsskóla í Kópavogi. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra flutti ávarp og opnaði nýjan námsvef um Barnasáttmálann. Nemendur í 7. bekk fluttu verk sem þeir unnu í tilefni afmælisins og nemandi úr 10. bekk í Snælandsskóla sagði nokkur orð fyrir hönd ungmennaráða Barnaheilla, umboðsmanns barna og UNICEF.

Norrænt rit um þátttöku barna

Í tilefni af 20 ára afmæli Barnasáttmálans var unnið að samnorrænni útgáfu bókar þar sem unnið var markvisst með raddir barna. Í október funduðu tólf fulltrúar frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Íslandi, Færeyjum, Álandseyjum og Grænlandi á skrifstofu umboðsmanns barna til að fara yfir innsend verkefni. Farið var yfir verkefnin og skoðað á hvern hátt þau veittu börnum tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og að hversu miklu leyti tekið væri tillit til þeirra í ákvörðunartöku í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans. Síðan voru valin verkefni sem fjallað var um í bókinni. Fjögur verkefni frá Íslandi voru valin og koma þau frá leikskólanum Sæborg, Mosfellsbæ, Garðabæ og samstarfsverkefni ÍTR og UNICEF.

Verkefnið var styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. NORDBUK (Norræna barna- og unglinganefndin) sem er ráðgefandi samræmingaraðili um öll málefni barna og unglinga hjá Norrænu ráðherranefndinni tók ákvörðun um verkefnið en NOVA (Norsk institutt for forskning om oppvekst, velferd og aldring) hélt utan um útgáfuna. Bókin ber nafnið Modeller for barns medvirkning — en eksempelsamling. Nordisk markering av 20års dagen for FNs barnekonvensjon.

Heimsóknir á frístundaheimili ÍTR

Umboðsmaður barna, UNICEF og frístundaheimili ÍTR tóku höndum saman til að halda upp á afmæli Barnasáttmálans. Starfsmenn umboðsmanns barna og UNICEF heimsóttu frístundaheimilin í Reykjavík og fræddu börnin um Barnasáttmálann og réttindi barna almennt. Í kjölfarið unnu börnin að ýmsum verkefnum í tengslum við afmælið og réttindi barna.

Frumvarp um lögfestingu Barnasáttmálans

Í mars 2009 samþykkti Alþingi þingsályktun, þar sem ríkisstjórninni var falið að undirbúa lögfestingu Barnasáttmálans. Í júlí fól dómsmálaráðuneytið Þórhildi Líndal, lögfræðingi og fyrrverandi umboðsmanni barna, að semja frumvarpið. Þórhildi var einnig falið að útbúa yfirlit yfir lög sem nauðsynlegt væri að breyta samhliða lögfestingunni og drög að frumvarpi til breytinga á þeim lögum. Umboðsmaður barna átti fund með Þórhildi þar sem rætt var um ýmis mál varðandi lögfestinguna. Í nóvember birti dóms- og mannréttindaráðuneytið frumvarpið á heimasíðu sinni. Umboðsmaður barna vonar að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi á árinu 2010.

 

UMSAGNIR

 

Mikilvægur þáttur í starfi umboðsmanns barna er að veita Alþingi umsagnir um lagafrumvörp og tillögur til þingsályktunar er varða hagsmuni og réttindi barna. Jafnframt kemur fyrir að óskað er eftir umsögn um drög að frumvörpum eða reglugerðum sem eru til vinnslu hjá ráðuneytunum. Á árinu 2009 bárust umboðsmanni barna færri beiðnir um umsagnir en á undanförnum árum. Má það meðal annars rekja til þess að efnahagsmál voru mikið til umfjöllunar á Alþingi og lítið fjallað um málefni sem varða börn með beinum hætti.

Umboðsmaður barna veitti þó á árinu 2009 umsagnir um eftirfarandi mál:

-          Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum og barnalögum, 19. mál.

-          Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, með síðari breytingum, 162. mál.

-          Drög að frumvarpi til laga um fjölmiðla.

 

Á árinu fór umboðsmaður barna einnig á fund starfsmanna og starfshópa á vegum ráðuneyta sem unnu að:

-          Heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar.

-          Endurskoðun reglna barnalaga um forsjá barna, búsetu og umgengni.

-          Endurskoðun ákvæða barnalaga um framfærslu barna.

-          Lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

 

SAMSTARF

 

FRÆÐSLUVEFUR UM BARNASÁTTMÁLANN

Umboðsmaður barna, Barnaheill og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) héldu á árinu áfram að vinna saman við að stuðla að aukinni vitund almennings um Barnasáttmálann. Í þeim tilgangi var ákveðið að búa til sérstakan fræðsluvef um Barnasáttmálann, www.barnasattmali.is og var það verkefni styrkt af forsætisráðuneytinu. Vefurinn er ætlaður til notkunar í leik- og grunnskólum en hentar einnig öllum almenningi, bæði börnum og fullorðnum. Á vefnum koma fram upplýsingar um sáttmálann og leiðbeiningar um notkun hans í skólastarfi. Einnig er þar að finna leiki og verkefni fyrir börn. Fyrsti hluti vefjarins var formlega opnaður á afmæli Barnasáttmálans, 20. nóvember 2009. Á árinu 2010 verður stefnt að því að setja fleiri verkefni á vefinn.

SAMSTARF VIÐ FRÆÐASAMFÉLAGIÐ

Umboðsmaður barna hefur verið í góðum tengslum við fræðasamfélagið. Sem dæmi um það má nefna að umboðsmaður hefur tekið á móti ýmsum deildum háskóla í kynnisferð á skrifstofu embættisins og frætt nemendur um embættið og þau mál sem það sinnir.

Háskóli Íslands

Þann 17. apríl 2009 stóð umboðsmaður barna, í samvinnu við lagadeild Háskóla Íslands, að málstofu um skaðabótaábyrgð barna. Fjallað var almennt um skaðabótaábyrgð barna, auk þess sem fjallað var um dóm Hæstaréttar frá 26. mars 2009, í máli nr. 263/2008. Þá var einnig fjallað um tryggingaúrræði í tengslum við börn. Framsögumenn á málstofunni voru Ingunn Agnes Kro, héraðsdómslögmaður hjá Landslögum - lögfræðistofu og aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands, og Kjartan Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri tjónaþjónustu TM. Fundarstjóri var Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.

Háskólinn í Reykjavík

Á árinu 2009 gerði umboðsmaður barna samkomulag við lagadeild Háskólans í Reykjavík um að taka á móti meistaranemum í starfsnám. Á árinu komu tveir laganemar til umboðsmanns í slíkt starfsnám og unnu að ýmsum verkefnum með starfsmönnum embættisins.

Rannsóknarstofa í menntunarfræðum ungra barna

Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) er ætlað að hafa frumkvæði að og sinna rannsóknum, miðla þekkingu og kynna niðurstöður rannsókna sem varða börn á leikskólaaldri. Á árinu 2009 sat umboðsmaður barna í stjórn RannUng. Á árinu skrifaði umboðsmaður barna einnig formála í bókina Sjónarmið barna og lýðræði í leikskólastarfi sem gefin var út af Háskólaútgáfunni í samstarfi við RannUng.

Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd

Árið 2009 var framlengdur samningur milli umboðsmanns barna og félagsvísindadeildar Háskóla Íslands um aðild og stuðning við Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd við félagsráðgjafarskor Háskóla Íslands. Rannsóknasetrið hefur það hlutverk að auka og efla rannsóknir í félagsráðgjöf á sviði barna- og fjölskylduverndar.

INNLENDIR SAMSTARFSAÐILAR

Menningarmiðstöðin Gerðuberg

Á árinu 2009 var umboðsmaður barna í góðu samstarfi við menningarmiðstöðina Gerðuberg og hélt meðal annars sýningu þar í tengslum við Dag barnsins. Einnig var framlengdur samningur umboðsmanns barna og Gerðubergs um leigu á listaverkum sem börn höfðu unnið í listasmiðju Gerðubergs. Verkin sem um ræðir eru úr ýmsum myndaseríum og prýða þau skrifstofu embættisins.

Barnahópur velferðarvaktarinnar

Umboðsmaður barna hefur á árinu átt sæti í sérstökum barnahópi velferðarvaktarinnar, sem er stafrækt á vegum félags- og tryggingamálaráðherra. Hópnum er ætlað að fylgjast með félagslegum jafnt sem fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins á börn og fjölskyldu þeirra og gera tillögur að aðgerðum í þeim efnum. Í hópnum eiga jafnframt sæti fulltrúar BHM, Barnaverndarstofu, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar, Barnaheilla, Heimilis og skóla, UNICEF, Hafnarfjarðarbæjar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Þjóðleikhúsið

Á árinu óskaði Þjóðleikhúsið eftir því að umboðsmaður barna skrifaði pistil í leikskrá söngleiksins Oliver!, sem frumsýndur var í desember. Umboðsmaður barna fagnar ánægjulegu samstarfi við leikhúsið og vonast til að áframhald verði á slíku á komandi árum.

Hér fyrir neðan er textinn eins og hann birtist í leikskránni:

Gæti sagan um Ólíver Tvist átt sér stað í dag?

Sýningin um Ólíver Tvist  fjallar um börn sem búa við slæmar aðstæður; vinnuþrælkun, ofbeldi, hungur og skort á umhyggju. Þau njóta ekki umönnunar fjölskyldu sem elskar þau og virðir. Þó að okkur finnist ótrúlegt að sagan um Ólíver gæti gerst í dag þá búa mörg börn í heiminum við svipaðar aðstæður.

 • 1 milljarður barna, eða næstum helmingur allra barna í heiminum, búa við fátækt.
 • 150 milljón barna á aldrinum 5 til 14 ára þurfa að vinna.
 • 145 milljón barna eru munaðarlaus.
 • 101 milljón barna ganga aldrei í skóla.
 • 1,2 milljón barna eru seld á hverju ári.
 • Meira en 1 milljón barna eru í fangelsi.

Þó að aðstæður barna í heiminum séu víða slæmar þá hafa þær batnað mikið á síðustu áratugum. Því má að miklu leyti þakka Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem var samþykktur árið 1989. Barnasáttmálinn hefur haft mikil áhrif á réttindi barna og breytt því hvernig komið er fram við börn. Í honum segir að það þurfi að tryggja  öllum börnum upp að 18 ára aldri sérstaka vernd og umönnun. Mikilvægast er auðvitað að börn njóti umönnunar og umhyggju foreldra eða fjölskyldu enda ráða þeir sem standa barninu nærri langmestu um það hvernig barnið upplifir sjálft sig og hvernig það sér framtíð sína. Meðal annarra mikilvægra réttinda Barnasáttmálans sem eiga að tryggja börnum mannsæmandi líf eru:

 • Öll börn eiga rétt á góðu heimili, mat og hreinu vatni.
 • Öll börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi og annars konar illri meðferð.
 • Öll börn eiga rétt á menntun og heilbrigðisþjónustu.
 • Öll börn eiga rétt á hvíld og frítíma.
 • Öll börn eiga rétt á því að segja sína skoðun og að tekið sé tillit til þeirra.
 • Öll börn eiga sömu réttindi, óháð því hvernig þau líta út, hvar þau búa eða hvernig foreldrar þeirra eru.

Til þess að hjálpa börnum sem búa við erfiðar aðstæður er hægt að veita stuðning í gegnum hinar ýmsu hjálparstofnanir sem reyna að tryggja börnum betra líf, bæði hér á landi og í öðrum löndum.

Ef það er eitthvað sem þú vilt um réttindi barna skaltu endilega skoða heimasíðu umboðsmanns barna, www.barn.is eða hafa samband við umboðsmann barna í síma 800-5999 eða á netfangið ub@barn.is.

Umboðsmaður barna vill vita hvað börn eru að hugsa, hvernig þeim líður og hvað börnum finnst um ýmsa hluti sem snerta þau og umhverfi þeirra.

Texti: starfsmenn umboðsmanns barna

Talsmaður neytenda

Samstarf umboðsmanns barna og talsmanns neytenda um auglýsingar og markaðssókn sem beinist að börnum hélt áfram á árinu og vísast til umfjöllunar um neytendavernd barna hér framar.

Náum áttum

Embætti umboðsmanns barna hefur átt fulltrúa í samstarfshópnum Náum áttum sem er opinn samstarfshópur þeirra sem láta sig varða heill barna og ungmenna. Hópurinn stendur fyrir fræðslufundum einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina um hvaðeina sem snertir börn og sem talið er vert að vekja athygli samfélagsins á.

Heimili og skóli

Umboðsmaður barna hefur átt mjög gott samstarf við landssamtökin Heimili og skóla vegna ýmissa málefna er tengjast málefnum grunnskólans. Heimili og skóli boðaði á árinu til fundar til þess að eiga samráð og skiptast á upplýsingum. Auk umboðsmanns barna sátu fundinn fulltrúar frá ÍSÍ, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Kennarasambandi Íslands.

SAMAN-hópurinn

Fulltrúi frá umboðsmanni barna hefur setið í SAMAN-hópnum sem er samstarfsvettvangur frjálsra félagasamtaka, sveitarfélaga og stofnana sem láta sig velferð barna og fjölskyldna þeirra varða. Markmiðið er að vekja athygli á þeirri ógn sem börnum og unglingum stafar af útbreiðslu áfengis og vímuefna í samfélaginu, styðja við foreldra í uppeldishlutverkinu og hvetja til jákvæðra samskipta fjölskyldunnar. Þetta hefur verið gert með útgáfu auglýsinga ásamt fræðslu og kynningarefni.

Hoff — heilsuefling og forvarnir í framhaldsskólum

Umboðsmaður barna hefur tekið þátt í starfi Hoff-hópsins, sem vinnur að heilsueflingu og forvörnum í framhaldsskóla. Markmið verkefnisins er meðal annars að stuðla að bættri almennri líðan og heilsu nemenda, efla forvarnir gegn vímuefnum í framhaldsskólum og bæta og efla ráðgjöf við nemendur á sem flestum sviðum sem snerta velferð þeirra. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og Lýðheilsustöð leggja til fjármagn og starfsmenn í verkefnið.

Opið hús hjá umboðsmanni barna

Í desember 2009 bauð umboðsmaður barna helstu samstarfsaðilum sínum í heitt súkkulaði og spjall og átti með þeim góða stund. Þorvaldur Þorsteinsson rithöfundur las stutta sögu og fulltrúar úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna lásu upp úr bókinni Hvernig er að vera barn á Íslandi.

ERLENDIR SAMSTARFSAÐILAR

Fundur samtaka evrópskra umboðsmanna barna í París

Dagana 23. til 25. september 2009 tók umboðsmaður barna þátt í árlegum fundi umboðsmanna barna í Evrópu (ENOC) í París. Að þessu sinni var fundurinn tileinkaður 3. gr. Barnasáttmálans, sem fjallar um að það sem sé barninu fyrir bestu skuli ávallt haft að leiðarljósi.

Fundur umboðsmanna barna á Norðurlöndum

Í maí 2009 var haldinn í Osló árlegur fundur umboðsmanna barna á Norðurlöndum. Á fundinum var rætt um ýmis málefni sem varða réttindi barna. Á fundinum tóku umboðsmennirnir einnig þátt í norrænni tannheilbrigðisráðstefnu sem fjallaði um hlutverk tannheilbrigðisþjónustu í tengslum við vanrækslu og ofbeldi. Í kjölfar ráðstefnunnar gáfu umboðsmenn barna á Norðurlöndum út sameiginlega ályktun um tannheilbrigðismál. Í ályktuninni er meðal annars vísað til þess hversu mikilvægt það sé að tannlæknar taki virkan þátt í að koma í veg fyrir og greina vanrækslu og ofbeldi á börnum.

KYNNING OG FRÆÐSLA

Samkvæmt e- lið 2. mgr. 3.gr. laga um umboðsmann barna nr. 83/1994 skal embættið stuðla að því að kynna fyrir almenningi löggjöf og aðrar réttarreglur er varða börn og ungmenni. Kynning á hlutverki og starfsemi embættisins, sem og fræðsla um réttindi barna á öllum sviðum, er því veigamikill þáttur í starfinu ár hvert. Sú fræðsla fer fram með ýmsum hætti, svo sem með heimsóknum í skóla og leikskóla, til félagssamtaka og stofnana og með erindum og ræðum á fundum og ráðstefnum, sbr. samantekt í viðauka. Heimasíða embættisins gegnir æ ríkara hlutverki að þessu leyti og hefur hún verið endurbætt eins og áður hefur verið fjallað um.

Fjölmiðlar hafa alla tíð leitað mikið til embættisins eftir upplýsingum og/eða afstöðu umboðsmanns til ýmissa mála og hefur umboðsmaður barna komið fram í ýmsum fjölmiðlum á árinu. Þá hefur færst mjög í vöxt að nemendur á öllum skólastigum leiti eftir upplýsingum og leiðbeiningum hjá starfsmönnum embættisins.

HEIMSÓKNIR

Bæði einstaklingar og fulltrúar stofnana og félagasamtaka heimsóttu skrifstofu umboðsmanns barna á árinu. Sömuleiðis heimsóttu umboðsmaður barna og starfsmenn embættisins ýmsar stofnanir og félagasamtök á árinu. Má þar nefna:

 • Barnaverndarstofa
 • Barnavernd Reykjavíkur
 • Ungmenna- og tómstundabúðir á Laugum í Sælingsdal
 • Ungmennafélag Íslands (UMFÍ)
 • Evrópa unga fólksins
 • Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra
 • Landlæknisembættið
 • Stuðlar — meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga
 • Leikskólinn Fálkaborg
 • Leikskólinn Hólaborg
 • Leikskólinn Sæborg
 • Leikskólinn Nóaborg
 • Nemendur í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands
 • Nemendur í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands
 • Nemendur við lagadeild Háskóla Íslands
 • Ungmennaráð Grafarholts og Árbæjar
 • Mannréttindafulltrúar Reykjavíkurborgar
 • Félag lesblindra
 • Nemendur úr 10. bekk í Laugalækjarskóla
 • Nemendur í 2. bekk Hólabrekkuskóla
 • Sendinefnd frá Talinn í Eistlandi
 • Leikskólasvið Reykjavíkurborgar
 • Frístundaheimili ÍTR
 • ÓB ráðgjöf

 

RÁÐSTEFNUR OG FUNDIR

Umboðsmaður barna og starfsmenn embættisins sóttu fjölmarga fundi og ráðstefnur um málefni barna og ungmenna. Má meðal annars nefna:

Janúar

 • „Finnska kreppan“, morgunverðarfundur á vegum Samtaka atvinnulífsins, Félags kvenna í atvinnurekstri og Finnsk-íslenska viðskiptaráðsins. Hótel Saga — Sunnusalur.
 •  Frumsýning heimildarmyndarinnar Sólskinsdrengur.
 • Jafnréttisþing á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Jafnréttisráðs. Hótel Nordica.
 • „Lífpólitík í lýðræðissamfélagi“, fyrirlestur á vegum Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Þjóðarbókhlaðan.
 • Málstofa um stjórnsýslurétt við Háskóla Íslands. Lögberg.
 • „Ofbeldi í samböndum“, málstofa á vegum Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa.
 • „Stöndum við vörð um velferð barna?“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand Hótel.

Febrúar

 • „Áhrif efnahagsþrenginga á fjölskyldur með börn“, málþing á vegum Mentors, nemendafélags félagsráðgjafanema við Háskóla Íslands, í samstarfi við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Háskólatorg.
 • Fundur hjá Matvælastofnun um norrænt hollustumerki. Matvælastofnun.
 • „Komur barna á slysa- og bráðadeild Landspítala, mat á áfallaröskun hjá börnum og tilkynningar til barnaverndarnefnda“, málstofa á vegum Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa.
  •  „Rafrænt einelti“, málþing á vegum Símans, Microsoft Íslandi, menntamálaráðuneytisins, Lýðheilsustöðvar, Heimilis og skóla og SAFT. Skriða, Háskóli Íslands.
  • „Skóli án aðgreiningar: Erum við á réttri leið í völundarhúsinu? Horft fram á við“, ráðstefna á vegum Rannsóknarstofu um skóla án aðgreiningar, í samvinnu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og menntaráð Reykjavíkurborgar. Húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð.
   • „Velferð barna — ábyrgð og hlutverk ríkisins“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand Hótel.
   • „Velferð barna í Finnlandi“, málstofa á vegum Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd. Háskóli Íslands

Mars

 • „Hver ræður för?“, málþing á vegum Sjónarhóls um félagslega stöðu barna með sérþarfir. Grand Hótel.
 • Málþing um foreldrasamstarf á vegum Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng). Húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð.
 •  „Ofbeldi og slys á börnum”, morgunverðarfundur á vegum Lýðheilsustöðvar og Slysavarnaráðs. Grand Hótel.
 • Tíu ára afmælishátíð Rannsóknarmiðstöðvarinnar Rannsóknir og greining. Háskólinn í Reykjavík.
 • „Ungt fólk og lýðræði“, ráðstefna á vegum Ungmennafélags Íslands í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Hótel KEA á Akureyri. Umboðsmaður barna flutti erindi.
 • „Velferð barna — ábyrgð og hlutverk sveitarfélaga“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand Hótel.
 • „Velferð barna og vægi foreldra“, ráðstefna á vegum Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands í samvinnu við Rannsóknasetur í Barna- og fjölskylduvernd, Barnaverndarstofu, Landlæknisembættið og Forlagið. Hótel Saga — Harvard II.

Apríl

 • „Sjálfboðaliðastarf — og gildi þess fyrir forvarnir“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand hótel.
 • „Þekking og færni í barnaverndarstarfi“, árlegt málþing og aðalfundur Ís-Forsa. Háskóli Íslands.

Maí

 • „Bernska ofurseld valdi. Hag- og sagnfræðileg greinin, fyrirlestur á vegum Reykjavíkur Akademíunnar. Reykjavíkur Akademían.
 • „Fatlanir barna: Ný þekking — ný viðhorf“, ráðstefna á vegum Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Grand Hótel.
 • „Hvað ætlar fjölskyldan að gera í sumar?“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand Hótel.
 • „Meðferð fyrir karla sem beita ofbeldi á heimili“, málstofa á vegum Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa.
 • Námsstefna um jafnréttisstarf í skólum á vegum Þróunarverkefnisins Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum í samstarfi við Jafnréttisstofu, Félags- og tryggingamálaráðuneytið, Hafnarfjarðarbæ, Reykjavíkurborg, Akureyrarbæ, Kópavogsbæ og Mosfellsbæ. Salurinn í Kópavogi.

Júní

 • „Blíð byrjun“, verkefni í samstarfi við Velferðarsvið og þjónustumiðstöðvar Reykjavíkur. Fundur með starfshópi leikskólasviðs. Fríkirkjuvegi, Reykjavík.
 • Foreldraverðlaun Heimilis og skóla — landssamtaka foreldra afhent. Þjóðmenningarhús.
 • Hugarflugsfundur með heilbrigðisráðherra um aðgerðir til að bæta tannheilsu barna. Heilbrigðisráðuneytið.
 • Hugarflugsfundur með menntamálaráðherra um einelti. Menntamálaráðuneytið.

Ágúst

 • „Lýðræði í sveitarfélögum“, málþing á vegum lýðræðishóps Sambands íslenskra sveitarfélaga í samvinnu við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Aðalbygging menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Háteigsveg.
 • „Velferð íslenskra barna — sóknarfæri á umbrotatímum“, ráðstefna á vegum Lýðheilsustöðvar ásamt heilbrigðisráðuneytinu, félags- og tryggingamálaráðuneytinu, menntamálaráðuneytinu, Háskóla Íslands, Háskóla Reykjavíkur og Velferðarsjóði barna. Salur íslenskrar erfðagreiningar.

September

 • „Hljóðvist í grunn- og leikskólum“, málstofa á vegum Umhverfisstofnunar, umhverfisráðuneytisins, Skipulagsstofnunar, Vinnueftirlitsins og Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Bratti, húsnæði Háskóla Íslands við Stakkahlíð.
 • Norræn ráðstefna um jafnréttisfræðslu í skólum, á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Grand Hótel.
 • „Sjálfsmynd og kynhegðun unglinga“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand Hótel.
 • Stofnun rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni. Aðalbygging Háskóla Íslands.

Október

 • Afhjúpun Rósarinnar — alþjóðlegs minnisvarða um réttindi barna, á vegum Barnaheilla. Laugardalurinn í Reykjavík.
 • Afmælisfundur SÁÁ. Háskólabíó.
 • „Áhrif heimilisofbeldis á ákvarðanir um umgengni”, Þjóðarspegillinn 2009, rannsóknir í félagsvísindum X. Lögberg. Elísabet Gísladóttir með erindi.
 • „Berjumst gegn heimilisofbeldi. Austurríska leiðin.“, fræðafundur á vegum lagadeildar Háskólans í Reykjavík.
 • „Föruneyti barnsins — velferð og veruleiki, málþing Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Kennaraháskólinn. Eðvald Einar Stefánsson með erindi.
 • „Heimsganga í þágu friðar og tilvera án ofbeldis“.
  • „Kannabis — umfang og afleiðingar, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum í samstarfi við VIKU 43, vímuvarnaviku. Grand Hótel.
  • „Kynhegðun unglinga og viðbrögð samfélagsins“, málþing á vegum Félag íslenskra uppeldis- og meðferðarúrræða fyrir börn og unglinga. Engjavegur 6, við hliðina á Laugardalshöll.
  • Landsþing ungmennaráða Samfés. Sauðárkrókur.
  • „Líkamlegt ofbeldi gegn börnum. Er þörf á samræmdu verklagi barnaverndarnefnda?“, starfsdagur hjá Barnavernd Reykjavíkur. Umboðsmaður barna með erindi sem bar heitið „Hönd þín skal leiða en ekki meiða“.
  • „Málþing í tilefni af því að liðin eru 150 ár frá fæðingu Johns Dewey“, á vegum Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) í samstarfi við Heimspekistofnun Háskóla Íslands. Húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð.
  • „Parental Leave, Care Policies and Gender Equalities“, ráðstefna á vegum Jafnréttisstofu. Hótel Saga.

Nóvember

 • „Barnvænt samfélag”, málþing á vegum Samtaka atvinnulífsins, Félags leikskólakennara og Heimilis og skóla. Grand Hótel.
 • „Börnin í borginni“, fundur með borgarteymi Börnin í borginni. Umboðsmaður barna með erindi um starfsemi embættisins. Haldið hjá Reykjavíkurborg.
 • „Samvinna við gerð áætlana um meðferð máls í barnaverndarstarfi“, málstofa á vegum Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa.
 • „Skóli án aðgreiningar: Áskoranir og hindranir. Kastljósi beint að starfsfólki í skólasamfélaginu“, ráðstefna á vegum Rannsóknarstofu um skóla án aðgreiningar í samvinnu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Kennarasamband Íslands. Skriða, húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
 • „Skóli á tímamótum. Hvernig gerum við enn betur?“, skólaþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hilton Nordica.
 • Stefnumót ungs fólks og stjórnmálamanna á vegum Landssambands æskulýðsfélaga og Æskulýðsvettvangsins. Hótel Borg.
 • „Stuðningur barns í nærsamfélaginu“, morgunverðarfundur á vegum Náum áttum. Grand Hótel.
 • Tuttugu ára afmælishátíð Barnasáttmálans á vegum Rannsóknastofu í bernsku- og æskulýðsfræðum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Skáli, húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
 • Þjóðfundur — stefnumót við framtíðina, haldið af Mauraþúfunni. Laugardalshöll.

Desember

 • „Kompás — handbók í mannréttindafræðslu“, kynningarfundur á vegum menntamálaráðuneytisins. Þjóðmenningarhúsið.

 

 


 

VIÐAUKI

                                                                                     

Leiðbeiningarreglur talsmanns neytenda og umboðsmanns barna um aukna neytendavernd barna varðandi markaðssókn sem beinist að börnum

 

 

Leiðbeiningarreglur þessar eru fremur hugsaðar til viðbótar gildandi laga- og leiðbeiningarreglum eða til stuðnings og útfærslu gildandi reglum; í leiðbeiningarreglum þessum felst því ekki upptalning á þegar gildandi reglum, sbr. fylgiskjal.

 

Í leiðbeiningum þessum er leitast við að taka mið af þeim sjónarmiðum sem komið hafa frá um 100 aðilum, þ.e. hagsmunaðilum og sérfræðingum sem leitað hefur verið til, bæði í stjórnsýslu og víðar, frá ráðherrum og þingmönnum, hagsmunasamtökum, fræðasamfélagi og almannasamtökum auk einstaklinga. Almenningi gafst í desember 2008 þriggja vikna frestur til þess að gera athugasemdir við drög umboðsmanns barna og talsmanns neytenda að leiðbeiningum um aukna neytendavernd barna, frá 3. desember 2008. Reynt hefur verið að vega saman ólík og jafnvel andstæð sjónarmið.

 

Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda vænta þess að reglurnar verði einnig hafðar að leiðarljósi þar sem það á við á öðrum sviðum en sérstaklega eru tilgreind hér að neðan.

 

I)                   Gildissvið og gildistaka

 1. 1.      Aðeins starfsemi í arðsemisskyni

Utan við leiðbeiningarreglur þessar fellur hugsjónastarf og önnur starfsemi sem ekki hefur arðsemistilgang, t.d. kynning almannasamtaka á málstað sínum. Sama gildir um ýmsa áhugastarfsemi.

 

 1. 2.      Gildistaka

Leiðbeiningareglur þessar gilda frá og með 15. mars 2009.

 

II)                Almennar leiðbeiningarreglur

 1. Ekki ætlað börnum

Vöru eða þjónustu, sem á ekki erindi til barna undir ákveðnum aldri, skal ekki markaðssetja gagnvart börnum á þeim aldri – hvorki beint né óbeint og óháð miðli og formi markaðssóknar.

  

 1. Gagnsæi

Hafa ber einfaldleika og gagnsæi að leiðarljósi í framsetningu skilmála, verðskrár og annars þegar vara eða þjónusta er boðin börnum sérstaklega eða höfðar einkum til þeirra.

 

 1. Aðgreining

Aðgreina ber auglýsingar og aðra markaðssókn frá öðru efni miðla. Ekki skal greiða börnum fyrir að markaðssetja vöru eða þjónustu eftir óhefðbundnum og duldum leiðum, svo sem með bloggi eða vinatengslum.

 

 1. Heilbrigði

Markaðssókn, sem beinist að börnum, á að leitast við að miðla heilbrigðri líkamsmynd og mannvirðingu og forðast óheilbrigðar staðalmyndir.

 

 1. Happdrætti

Happdrætti í hagnaðarskyni og fjárhættuspil eiga ekkert erindi til barna. Spilakassar og sjálfsalar fyrir happdrættismiða og þvíumlíkt skulu ekki vera þar sem börn venja komur sínar eftirlitslaust, t.d. nærri skóla- eða æskulýðsstarfsemi.

 

 1. Söfnunar- og happaleikir

Forðast skal í almennri markaðssókn að notast við söfnunar- eða happaleiki sem beinast sérstaklega að börnum eða annað sem höfðar til söfnunartilhneigingar barna. Slík markaðssókn skal ekki viðhöfð þegar um er að ræða sykraða drykki og matvöru og aðrar matvörur sem ekki eru hollar í miklu magni.

 

 1. Markpóstur

Markaðssetning á vöru eða þjónustu gagnvart börnum undir framhaldsskólaaldri – einnig í fyrirliggjandi viðskiptasambandi – skal ávallt fara í gegnum þann sem fer með forsjá barns. Óumbeðinn markpóstur frá fyrirtækjum á ekki að beinast að börnum undir framhaldsskólaaldri jafnvel þó að fyrir liggi viðskiptasamband milli fyrirtækis og barns.

 

 1. Fjölskylduvænar dagvöruverslanir

Í dagvöruverslunumskal leitast við að ekkert sælgæti, flögur, gos eða þvíumlíkt sé nærri kassa og a.m.k. sé tryggt að einn kassi sé laus við slíkar vörur í verslunum þar sem eru fleiri en tveir kassar. Auk þess er mælst til þess að auðvelt sé fyrir fólk með börn að ganga um dagvöruverslun en sneiða hjá matvælum, sem höfða sérstaklega til barna og hafa hátt innihald sykurs, salts, fitu eða transfitu – einkum ef þau eru í sjónhæð barna.

 

 1. Kynferðislegt opinskátt efni

Kynferðislega opinskátt efni skal ekki vera áberandi í verslunum þar sem börn venja komur sínar.

  

 1. Ofbeldi og klám

Beint og gróft ofbeldi eða kynferðisleg skírskotun á vörum eða í þjónustu á ekki erindi til barna.

 

 1. Síhringikort

Fram til 18 ára aldurs skal aðeins boðið upp á debetkort sem eru síhringikort.

 

 1. Afsláttarkort

Ekki skal bjóða börnum afsláttarkort (þ.m.t. félagskort, söfnunarkort og vildarkort) sem beinast að notkun barnsins sjálfs fyrr en við 15 ára aldur nema forsjáraðili óski eftir því.

 

III)             Hollusta matvæla

 1. Óholl matvæli

Forðast skal markaðssókn gagnvart börnum á matvælum með hátt innihald sykurs, salts, fitu og transfitu.

 

 1. Hollustumerki

Ef opinbert hollustumerki verður tekið upp skal leitast við að aðeins matvæli, sem uppfylla kröfur þess hollustumerkis, séu

-          nærri kassa,

-          auglýst í kringum bíósýningar og á DVD-diskum fyrir ung börn;

-          markaðssett með aðstoð kaupauka sem höfðar sérstaklega til barna;

-          markaðssett með þekktum teiknimyndafígúrum eða frægum persónum sem höfða sérstaklega til barna,

-          auglýst eða boðin til sölu á áberandi stað í sundlaugum og íþróttamannvirkjum;

-          framvegis með nafngift, sem gefur í skyn hollustu og eru sérstaklega ætluð fyrir börn.

 

IV)             Markaðssókn í og á sjónvarpsefni, kvikmyndum og öðru stafrænu myndefni fyrir börn

 1. Barnaefni

Engar auglýsingar ættu að vera í sjónvarpi í barnatíma.

 

 1. Selt barnaefni

Gæta skal hófs í auglýsingum í seldu barnaefni á DVD-diskum.

 

 1. Matvælaauglýsingar

Ef matvæli eru auglýst 10 mínútum fyrir eða 2 mínútum eftir barnatíma eða annað efni sem höfðar til barna yngri en 12 ára skulu það aðeins vera matvæli sem geta talist holl. Vöru- og kennimerki kostunaraðila með slíkar vörur skulu ekki sýnd eða nefnd í tengslum við barnaefni.

 

 1. Vöruinnsetning

Vöruinnsetning er ávallt óheimil í barnaefni.

 

 1. Bannað börnum

Ekki má auglýsa eða markaðssetja fyrir börn tölvuleiki, DVD-diska og þvíumlíkt ef það efni er ekki ætlað börnum á þeim aldri. Óheimilt er með öllu er að sýna kynningar fyrir myndir sem ekki má sýna á þeim tíma nema ljóst sé að kynningin uppfylli kröfur um efni sem heimilt er að sýna á þeim tíma. Ekki má heldur kynna í tengslum við barnasýningar í kvikmyndahúsum kvikmyndir, vöru eða þjónustu sem ekki er ætluð börnum á þeim aldri.

 

V)                Skólar og æskulýðsstarfsemi

 1. 1.    Framhaldsskólar       

Auglýsingar, kostun og önnur markaðssókn eða kynning skal aðeins heimil með skriflegu leyfi skólameistara eða fulltrúa hans. Skal leyfið gefið sérstaklega í hvert sinn eða fyrirfram fyrir tiltekinn tíma.

 

Samningar sem nemendafélag gerir til hagsbóta fyrir félagsmenn skulu vera

 • gagnsæir og aðgengilegir nemendum og
 • kynntir skólameistara fyrirfram.

 

Stjórnarmenn eða aðrir fulltrúar nemendafélaga mega ekki hagnast eða njóta nokkurra persónulegra hlunninda umfram aðra frá fyrirtæki vegna viðskipta eða markaðssetningar sem nemendafélagið hefur milligöngu um.

 

Nemendafélag gefur ekki fyrirtækjum upp persónulegar upplýsingar á borð við GSM-númer, heimilisfang eða netfang nemenda til notkunar í markaðssetningu. Óheimilt er fyrirtækjum að notast við nemendalista í markaðssetningu. Ef félagið kýs að hafa milligöngu við markaðssetningu með því að hringja í félagsmenn, senda þeim tölvupóst eða afhenda límmiðalista skal áður gefa öllum félagsmönnum kost á að andmæla því, hverjum fyrir sitt leyti, að vera á slíkum lista.

 

 1. 2.    Grunnskólar og leikskólar    

Engar auglýsingar skulu vera í grunnskólum eða leikskólum né önnur markaðssókn. Kynning á æskulýðs-, íþrótta- og tómstundastarfsemi sveitarfélaga er þó heimil. Þá er kostun á starfi innan skólans heimil með samþykki skólastjóra með hliðsjón af stefnu sveitarfélags og foreldrafélags ef það stendur fyrir viðburði á vettvangi skólans. Skólabörn í hefðbundnu skólastarfi skulu þó ekki merkt kostunaraðila með áberandi hætti. Skilyrði er að merki kostunaraðila sé ekki sýnt sérstaklega eða auglýst á staðnum. Kostun á námsefni er einungis heimil eftir því sem reglur sveitarfélags kveða á um.

 

 1. 3.    Trúarlegt starf           

Sömu viðmið eiga við í trúarlegu starfi og í grunn- og leikskólum en í stað samþykkis skólastjóra komi samþykki forstöðumanns trúfélags.

 

 1. 4.    Sundlaugar og önnur íþróttamannvirki

Við markaðssetningu og sölu í íþróttamannvirkjum þar sem búast má við börnum skal hollusta og heilbrigði höfð í fyrirrúmi.

 

 1. Íþrótta- og æskulýðsstarfsemi           

Stjórnarmenn eða starfsmenn íþrótta- og æskulýðsfélaga mega ekki hagnast eða njóta nokkurra persónulegra hlunninda umfram aðra frá fyrirtæki vegna viðskipta eða markaðssetningar sem félagið hefur milligöngu um. Kostun á vettvangi æskulýðsstarfsemi á vegum sveitarfélags, þ.m.t. foreldrafélaga, sé háð almennum reglum sem sveitarfélag setur sér. Þar skal m.a. tekin afstaða til þess hvort eðlilegt er að börn séu merkt kostunaraðila.

 

 

 

Fyrst gefið út í Reykjavík,

hinn 28. janúar 2009,

                      

Gísli Tryggvason,  talsmaður neytenda 

Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.

 

 

Dæmi um erindi og tilvitnanir frá börnum árið 2009

Hvað get ég gert ef það er búið að henda mér út? (16 ára drengur)
Á pabbi minn rétt á því að taka tölvuna mína af mér sem ég keypti fyrir mína eigin peninga sem ég vann mér inn fyrir sjálf ? Og á ég rétt á því að ef foreldrar mínir séu að fara að skilja, og ég og systir mín eigum að heimsækja pabba aðra hverja helgi, á ég þá rétt á því að heimsækja hann ekki... aldrei... ? (14 ára stúlka)
Það er svoleiðis að faðir minn hefur búið erlendis í 6- næstum 7  ár og ég bý á Íslandi hjá móður minni og systur...ég hef mikið verið að hugsa um það hvort að ég geti ráðið einhverju um það hvort að ég bý hér eða hjá pabba? (13 ára stúlka)
Hvenær má ég stofna mitt eigið fyrirtæki? (14 ára drengur)
Hvað má ég vinna marga tíma á viku? (15 ára drengur)
Mig vantar/langar að vita er til eitthvað sem heitir andlegt kynferðislegt ofbeldi? (15 ára drengur)
hæhæ. heyrðu ég veit ekki hvort þetta eigi erindi hérna inn en allt í lagi að prófa :) Ég er semsagt 16 ára stelpa og var svona að spá í hvort að þið hefðuð ekki eithver góð ráð eða gullmola til að hjálpa manni að opna sig. Er svo ótrúlega feimin þori varla að segja nafnði mitt þegar ég er í stórum hópi, samt er mér mjög mikið hrósað og svona en er samt ótrúlga feimin. Nú ætla ég að taka mig á, lifa lífinu og reyna að opna mig og tala betur við annað fólk. Lumiði á eitthverjum góðum ráðum eða góðum bókum eða eitthvað slíkt :)? Ég ætla nefninlega að taka mig bara á sjálf vil ekki fara til sálfræðings eða eitthvað slíkt því ég veit alveg að ég get opnað mig og verið hress & skemmtileg týpa en þarf bara að leggja mig fram og langar að vita hvort þið hafið eitthver ráð handa mér :D? Fyrirfram þakkir! (16 ára stúlka)
 Mega kennarar hóta nemendum? (14 ára drengur)
Ég á vinkonu sem á aðra vinkonu, eða í raun ekki vinkona heldur svona stelpa sem hangir utan í henni allan daginn, og ef ég ætla að reyna að tala við hana þá segir hún alltaf „komdu“ og dregur hana í burtu. Hvað á ég að gera? Þessi stelpa er einu ári eldri en ég. (12 ára stúlka)
hæhæ , ég er 15 ára stelpa og langar að spurja um mín réttindi. ég bý hjá mömmu en hún leifir mér ekki að ráða hvar ég býr ! og mér finnst ég vera orðin það gömul og get tekið mínar ákvarðanir um það að geta ráðið hjá hvoru foreldrinu ég bý ? (15 ára stúlka)
Ég á að fara til pabba míns einu sinni í mánuði. ... Þegar ég segi við hann að ég sé upptekin þegar ég á að fara til hans, þá verður hann reiður. Ég vil ekki fara til hans, hvað á ég að gera? Þarf ég að fara til hans? (12 ára stúlka)
Eigum við engan rétt ! Við erum líka fólk.... (13 ára stúlka)
hæ,hæ. Það eru stelpur í bekknum mínum sem eru alltaf svoo vondar við mig og eru að njósna um mig og alskonar hlutir sem þær særa mig með,og ég þori ekki að gera neitt né sega. Það voru líka strákar sem eru altaf að læsa mig inná karlaklósetti og ég er grátandi nánast alla daga,bæði heima og í skólanum( ég fer inná stúlknaklósettið þegar ég er með kökkin í hálsinum) Geturu verið svo væn(vænn) og hjálpað mér í gegn um þetta....ég er algerlega ráðalaus :( (11 ára stúlka)
Hæ. Ég veit ekki með þetta en sko , ég hef átt í erfiðleikum í gegnum lífið. Pabbi minn ... hafnar mér ... og mér finnst eins og enginn skilji hvernig mer líður. Á ég að fara til Sálfræðings? Vona að þú svarir sem fyrst. (13 ára stúlka)
ég er 12 ára og kærastin min er 12 ég hef áður kysst strák í sleik og við erum búinn að vera saman í 1og hálft ár og okkur langar rosa að sofa hjá hvort öðru, megum við það? (12 ára stúlka)
Sko, vandamálið er að ÉG Á ENGA VINI í skólanum : ( Ég bara stend alltaf ein og horfi á hina tala um mig og hlægja af mér. ... : ( Það eina sem ég vil gera er að flýja. (12 ára stúlka)
Kæri umboðsmaður barna,Ég og vinkona mín rífumst mikið og nú hef ég kinnst annari stelpu og þær hata hvort aðra.Ég get alldrei leikið við báðar í einu né sitið hjá annahvorri.Þetta er frekar óþæjinlegt.Getur þú hjálpað mér á láta þetta hætta? (11 ára stúlka)
hæ ég er 12 ára og mér finnst að það æti að vera meira um sáfræðinga í skólum (12 ára stúlka)
Mér finnst kjaftæði að við þurfum að læra dönsku í skólanum. Danirnir kúguðu okkur í mörg hundruð ár og svo þurfum læra helvítis tungumálið á meðan við hefðum getað verið heima eða að læra eitthvað gagnlegra í staðinn... (15 ára drengur)
Hææ, ég er 12 ára stelpa og vil vera fræg fyrir söng. .... Mig hefur alltaf dreymt um að verða stórstjarna eða bara fræg. ... Ég er ekki að reyna að vera sjálfselsk en mér finnst ég syngja vel. ég vona að þið hafið eitthvað um þetta að segja ... (12 ára stúlka)
Góðan dag... foreldrar mínir skildu fyrir  rúmum 4 árum, og það er stendur ENN yfir ... ekki spurja afhverju þetta er búið að vera svona leingi .. því þetta er bara fáranlegt.. ég er mjög náin bæði mömmu minn og pabba, og ég tók þessu verst, enda bitnaði allt á mér.. þau rifust í gegnum mig ... allt sem þarf að borga t.d tannlæknakostnaður og fl, þá hnakk rífast þau í gegnum mig ... get ég ekki fengið forræði yfir mér 17 ára ef þau taka því og skrifa undir það?? (17 ára stúlka)
Ég veit að útivistartíminn segi að ég verði að vera kominn inn klukkan 22 á þessum tíma árs en hvenær má ég fara út aftur? Ég er að bera út Fréttablaðið og tek oft þrjú auka svæði og þá þarf ég að byrja um 5 leitið á nóttunni... er það í lagi? (14 ára drengur)
hæhæ mér finnst ekki skólaliðar ekki vera svona vondir sumir hér eru bara ömurlegir við okkur eru alltaf að seigja eru þið þroskaheftar ef við erum of lengi út eða koam okkur inn alltaf þannig er það leyfilegt og þegar við seigjum kennara þá trúir hann því ekki en spyr skólaliðan en hun segir alltaf nei ég gerði það ekki er þetta leyfilegt (12 ára stúlka)
Hæhæ. Ég er með stelpu í bekk og það er verið að leggja hana í einelti. Ég sé alltaf sömu og sömu krakkana vera að stríða henni og meiða hana. Ég ÞOLI ekki að sjá alla krakkana vera svona vond við hana. Fullarna-fólkið tekur ekki þessu nóg og afrvarlega t.d mömmur krakkanna sem eru að stríða henni og skólafólkið. Hvað get ég gert til að stoppa þetta alltsaman. (10 ára stúlka)
Hæ,hæ ég á vinkonu sem er ofvirk og hún er frekar lágvaxin.En mér finnst hún vera lögð í svooo mikið einelti og hún er alltaf ein.Ég geri mitt besta til að reyna að leika við hana,en ég lenti einu sinni í því að hinar vinkonur mínar verða svo leiðinlegar við mig ef ég leik viða hana,og þá fer mér að líða svo illa því að þá er ég hálfpartin ein. En hvað get ég gert til að henni líði betur?? (10 stúlka)