Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Þingsályktun um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum, 62. mál

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum, 62. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 16. mars 2018.

Skoða tillöguna. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Velferðarnefnd Alþingis

Reykjavík, 16. mars 2018

 

Efni:  Tillaga til þingsályktunar um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum, 62. mál.

 

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 26. febrúar sl., þar sem óskað var eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreinda tillögu til þingsályktunar.

Umboðsmaður barna vísar til fyrri umsagnar embættisins um þingsályktunartillögu sama efnis, dags. 17. mars 2017.

Íslenskum stjórnvöldum ber að tryggja börnum og ungmennum þá vernd sem velferð þeirra krefst eins og kveðið er á um í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 3. gr. Barnasáttmálans, Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Í Barnasáttmálanum er jafnframt kveðið á um rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja sem og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar, sbr. 1. mgr. 24. gr. Þá er jafnframt brýnt að börnum sé tryggð sú þjónusta sem þau þurfa á að halda, eins fljótt og unnt er, enda er snemmtæk íhlutun forsenda þess að koma megi í veg fyrir að vandi ungmennis fylgi því fram á fullorðinsár.

Um 20.000 ungmenni stunda nám við íslenska framhaldsskóla og er um að ræða fjölbreyttan hóp ungmenna úr afar mismunandi aðstæðum og með margvíslegar þarfir. Leiða má að því líkur að nýtilkomin stytting náms í framhaldsskólum hafi haft í för með sér aukið álag á nemendur sem getur valdið kvíða og streitu með tilheyrandi andlegu álagi og vanlíðan. Í stöðuskýrslu Menntamálastofnunar um aðgerðir gegn brotthvarfi frá febrúar 2018 kemur fram að á árinu 2017 hafi 141 nemandi hætt námi í framhaldsskóla vegna andlegra veikinda og er því ljóst að vandinn er mikill. Því er brýnt að gripið sé til aðgerða sem fyrst til að stemma stigu við brotthvarfi úr skóla og vísbendingum um vaxandi andlega vanheilsu ungmenna.

Á síðustu árum hafa nokkrir framhaldsskólar tekið þátt í tilraunaverkefni um sálfræðiþjónustu og hefur reynslan af því verið afar jákvæð og sýnt fram á þörfina fyrir slíka þjónustu. Það er því brýnt að tryggja aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu í öllum framhaldsskólum landsins ásamt því að tryggja sambærilega þjónustu fyrir þau ungmenni sem eru utan skóla.

Umboðsmaður hefur ítrekað áréttað að öll börn og ungmenni eigi að njóta sama réttar án mismununar eins og kveðið er á um í ákvæðum 2. gr. Barnasáttmálans. Því ber að leggja áherslu á að réttur barna og ungmenna til nauðsynlegrar þjónustu sé tryggður án tillits til efnahags foreldra þeirra, búsetu eða annarra þátta. Umboðsmaður barna tekur því heilshugar undir markmið þingsályktunartillögununar um að í upphafi næsta skólaárs verði tryggt að í öllum framhaldsskólum landsins hafi nemendur aðgang að sálfræðiþjónustu sér að kostnaðarlausu.

 

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna