Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um útlendinga (réttur barna til dvalarleyfis), 34. mál

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um útlendinga (réttur barna til dvalarleyfis), 34. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 2. mars 2018.

Skoða frumvarpið.
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

Reykjavík, 28. febrúar 2018

 

Efni: Frumvarp til laga um útlendinga (réttur barna til dvalarleyfis), 34. mál.

 

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 12. febrúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna fagnar því að styrkja eigi rétt barna sem eiga foreldra frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins til að fylgja foreldrum sínum til Íslands. Börn eiga rétt á því að fá þá umönnun og vernd sem velferð þeirra krefst og almennt eru foreldrar barna þeirra aðal umönnunaraðilar. Börnum er tryggð vernd gegn aðskilnaði frá foreldrum í 9. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013. Því er ánægjulegt að þær breytingar sem hér eru lagðar til, þýði að réttur til dvalarleyfis taki til fleiri barna en áður, sem hafi þá tækifæri til að fylgja foreldrum sínum til landsins. Breytingar þessar eru þó fyrst og fremst bundnar við þau tilfelli þar sem talið er að dvalarleyfi foreldra sé þess eðlis að það geti verið undanfari lengri dvalar. Frumvarpið undanskilur rétt barna þeirra foreldra sem eru með dvalarleyfi á grundvelli 64. gr., 68. gr., 79. gr. og 77. gr. þar sem almennt sé sannarlega um tímabundið leyfi að ræða í þessum tilfellum. 

Umboðsmaður bendir þó á að taka þurfi til skoðunar hvort jafnframt eigi að veita sambærileg leyfi börnum foreldra sem fá dvalarleyfi á grundvelli framagreindra ákvæða, þrátt fyrir að í þeim tilvikum væri einungis um að ræða tímabundin leyfi til dvalar hér á landi. Slíkt gæti til dæmis gagnast foreldrum með mjög ung börn og þannig væri jafnframt unnt að tryggja rétt barns til þess að fá að umgangast foreldra sína og njóta stöðugrar umönnunar þeirra.

 

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna