Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um útlendinga (fylgdarlaus börn), 42. mál

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um útlendinga (fylgdarlaus börn), 42. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 2. mars 2018.

Skoða frumvarpið. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Reykjavík, 1. mars 2018

 

Efni:  Frumvarp til laga um útlendinga (fylgdarlaus börn), 42. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 12. febrúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.

Samkvæmt 22. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013 skulu aðildarríki gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leitar eftir réttarstöðu sem flóttamaður fái viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eiga og kveðið er á um í Barnasáttmálanum og öðrum alþjóðasamningum á sviði mannréttinda. Þá hefur Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna bent á að ríkjum beri sérstök skylda til að veita börnum á flótta þann rétt sem þeim ber  samkvæmt  mannúðar- og  flóttamannarétti og á það sérstaklega á við um börn án fylgdar. Þá hefur umboðsmaður barna ítrekað bent á að huga þurfi sérstaklega að réttindum þeirra barna sem koma til landsins án fjölskyldu sinnar.

Samkvæmt núgildandi ákvæði 6. mgr. 24. gr. útlendingalaga ber að tilkynna barnaverndaryfirvöldum um allar umsóknir fylgdarlausra barna um alþjóðlega vernd. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á sama ákvæði þess efnis að fulltrúi barnaverndaryfirvalda taki þegar við umsjón og ábyrgð á því að réttinda barnsins og hagsmuna sé gætt meðan á málsmeðferð vegna umsóknar um alþjóðlega vernd stendur. Ekki er fjallað nánar um inntak þessa ákvæðis í greinargerð með frumvarpinu og má því leiða að því líkur að með þesari breytingu sé verið sé að kveða á um ríkari ábyrgð barnaverndaryfirvalda á málum fylgdarlausra barna. Með gildistöku nýrra laga um útlendinga var barnaverndaryfirvöldum falið að sinna hagsmunagæslu fyrir fylgdarlaus börn. Hefur umboðsmaður bent á að umræddri breytingu hafi ekki fylgt fjármagni og óljóst hafi verið hvernig ætti að sinna þessu hlutverki. Jafnframt benti umboðsmaður á að hætta væri á að álag á barnaverndarkerfið aukist enn frekar og tilgangur ákvæðisins myndi því ekki ná fram að ganga nema að takmörkuðu leyti. Hvað varðar þær breytingar sem lagðar eru til í fruvmarpinu, færi betur á því að mati umboðsmanns barna, að lokið yrði vinnu við samræmt verklag, sem er til þess fallið að skýra samstarf, verkaskiptingu og hlutverk þeirra aðila sem að nú þegar koma að málum fylgdarlausra barna.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að sett verði á laggirnar sérstakt móttökuheimili fyrir börn sem hafa sótt um alþjóðlega vernd og gerir frumvarpið ráð fyrir því að þar verði tekið tillit til ólíkra þarfa einstaklinga og hópa og öryggi þeirra verði tryggt. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi dvelja fylgdarlaus börn ýmist í móttökumiðstöð Útlendingastofnunar fyrir hælisleitendur að Bæjarhrauni  í Hafnarfirði eða hjá fósturforeldrum. Umboðsmaður telur ljóst að hlúa þarf að fylgdarlausum börnum og tryggja þeim viðeigandi aðbúnað og aðstæður. Ýmsar leiðir hafa verið lagðar til í þeim efnum eins og að bæta búsetu- og móttökuúrræði Útlendingastofnunar að Bæjarhrauni, að koma á fót sérstöku búsetuúrræði fyrir fylgdarlaus börn eins og umrætt frumvarp gerir ráð fyrir eða styrkja enn frekar fósturkerfi barnaverndar, sem er það úrræði sem beitt er í málum íslenskra barna sem ekki geta búið hjá foreldrum sínum. Hér þarf að líta til ýmissa sjónarmiða og vega saman ólíka hagsmuni. Þá getur mikil blöndun barna og ungmenna á mismunandi aldri í sama búsetuúrræði skapað flóknar aðstæður sérstaklega þegar um er að ræða hóp sem hefur jafnvel gengið í gegnum mikla erfiðleika. Að mati umboðsmanns barna þarf að líta til þess að að eitt búsetuúrræði mun ekki henta öllum börnum sem koma hingað til lands án fylgdar, enda um að ræða fjölbreyttan hóp barna og ungmenna á mismunandi aldri, sem koma úr misjöfnum aðstæðum og hafa þar af leiðandi afar mismunandi þarfir. Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans ber að tryggja barni sem getur myndað eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Að mati umboðsmanns barna er því afar brýnt að ávallt sé leitað eftir skoðunum barns eða ungmennis sem hefur sótt um alþjóðlega vernd hér á landi og að fyrir valinu verði hverju sinni sú lausn á búsetu og þjónustu sem best hentar hagsmunum og þörfum viðkoma barns.

   

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna