Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, 202. mál.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, 202. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 20. mars 2018.

Skoða frumvarpið. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

20. mars 2018

 

Efni: Frumvarp til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, 202. mál.

 

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 27. febrúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.

Mikil aukning hefur verið á notkun rafrettna meðal unglinga hér á landi og fær umboðsmaður reglulega fyrirspurnir er varða notkun barna á rafrettum. Umboðsmaður fagnar því frumvarpinu en vill jafnframt benda á eftirfarandi atriði.

Umboðsmaður barna telur eðlilegt að Alþingi meti hvort takmarka eigi notkun rafrettna við sömu staði og tóbaksreykingar, sbr. III. kafli um takmörkun á tóbaksreykingum í lögum um tóbaksreikingar nr. 6/2002, en samkvæmt III kafla frumvarpsins nær óheimil notkun rafretta einungis til hluta þeirra staða sem tóbaksreykingar eru óheimilar. Þá má sem dæmi nefna að samkvæmt frumvarpinu í núverandi mynd er heimilt að nota rafrettur á veitingarstöðum sem og öðrum stöðum sem börn geta sótt. Ekki er ljóst hvaða langtímaafleiðingar rafrettur hafa í för með sér, bæði fyrir notandann og aðra. Er því mikilvægt að vernda börn fyrir hugsanlegum skaðlegum afleiðingum notkunarinnar og láta sömu takmarkanir sem ná yfir tóbaksreykingar ná yfir notkun rafrettna. Með þessu er vafi metinn börnum í hag, sbr. 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013.

Auk þess telur umboðsmaður barna mikilvægt að efla forvarnir og koma eins og hægt er í veg fyrir notkun rafrettna meðal barna og ungmenna. Í þeim efnum er vert að hafa í huga að ákveðnar tegundir bragðefna höfða frekar til barna en aðrar, til dæmis ávaxta- og sælgætisbragð, sem gæti ýtt undir að börn hefji notkun rafrettna. Hætta er á því að notkun á rafrettum geri það að verkum að börn verði háð nikótíni. Góður árangur hefur náðst í tóbaksvörnum hér á landi og er því mikilvægt að viðhalda þeim árangri og leggja frekari áherslu á forvarnarstarf og fræðslu ásamt því að viðhafa öflugt eftirlit með sölu og markaðssetningu rafrettna.

 

 

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna