Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um mannanöfn, 83. mál.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um mannanöfn, 83. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 5. mars 2018.

Skoða frumvarpið. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

Reykjavík, 5. mars 2018

 

 

Efni: Frumvarp til laga um mannanöfn, 83. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags 14. Febrúar sl., þar sem óskað var eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp. 

Umboðsmaður barna fagnar því að með frumvarpinu sé lagt til að heimilt verði að skrá kyn sem karlkyn, kvenkyn eða annað/órætt og telur að sú breyting væri til þess fallin að tryggjaréttindi intersex barna og transbarna eða barna með ódæmigerða kyntjáningu, óháð kynvitund þeirra. Umboðsmaður vill árétta að við ákvarðanir um breytingar á nöfnum barna ber ávallt að hafa samráð við börnin sjálf enda er nafn barns mikilvægur hluti af sjálfsmynd og sjálfsvitund þess. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að breytingar á nafni barna séu háðar samþykki viðkomandi barns hafi það náð 12 ára aldri eins og núgildandi lög um mannanöfn kveða á um. Að mati umboðsmanns barna þarf jafnframt að tryggja að börn undir 12 ára aldri fái tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um mögulega breytingu á nafni þeirra. Þá þarf jafnframt að tryggja að réttmætt tillit skuli taka til skoðana þeirra í slíkum málum í samræmi við aldur og þroska eins og kveðið er á um í 12. gr. Barnasáttmálans, Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.

Umboðsmaður barna fagnar því að frumvarpið feli í sér aukið frelsi við nafngiftir og breytingar á nöfnum en telur þó nauðsynlegt að eftir sem áður sé kveðið á um ákveðið eftirlit með nafngiftum barna. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að foreldrum eigi almennt að treysta til að velja börnum sínum nöfn sem eru þeim ekki til ama. Telja frumvarpshöfundar að komi upp slík tilfelli hafi þeir aðilar sem eiga að tryggja börnum vernd nægar heimildir í lögum til að grípa til viðeigandi ráðstafana og aðstoða foreldra í foreldrahlutverki þeirra. Er því til stuðnings vísað til þess að úrskurðir mannanafnanefndar um slík álitaefni séu örfáir. Gerir frumvarpið þannig ekki ráð fyrir því að neinum opinberum aðila verði falið það vald að neita foreldrum um skráningu nafns og þá er ekki gert ráð fyrir því að unnt verði að knýja fram breytingar á nafni barns. Umboðsmaður barna tekur undir þau sjónarmið að flestir foreldrar eru færir um að gæta hagsmuna barna sinna og velja nafn barna sinna af alúð. Þó ber að árétta að jafnvel þó svo að um örfá tilvik væri að ræða er um að ræða mikilvæga hagsmuni barns. Það að bera nafn sem er barni til ama getur haft í för með sér mikla vanlíðan og neikvæð áhrif á
sjálfsmynd þess.

Umboðsmaður vill benda á sænska löggjöf á þessu sviði en samkvæmt 28§ sænsku laganna um mannanöfn, nr. 2016:1013, þurfa foreldrar að sækja um skráningu á eiginnafni barns hjá Skatteverket. Þá hefur Skatteverket jafnframt heimild til að synja skráningu nafns ef það er talið líklegt til að vekja hneykslan, valda barni sem það á að bera óþægindum, eða er af annarri ástæðu óheppilegt sem eiginnafn. Það er mat umboðsmanns barna að í löggjöf um mannanöfn þurfi að slá ákveðinn varnagla, samkvæmt sænskri fyrirmynd, við því að barn þurfi að bera nafn, til lengri eða skemmri tíma, sem er til þess fallið að valda því óþægindum og vanlíðan. Þá vill umboðsmaður barna árétta að á löggjafanum hvílir sú skylda að tryggja börnum þá vernd sem velferð þeirra krefst eins og kveðið er á um í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944 og 3. gr. Barnasáttmálans.

 

Virðingarfyllst,
Salvör Nordal,
umboðsmaður barna