Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um almannatryggingar (barnalífeyrir), 97. mál

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um almannatryggingar (barnalífeyrir), 97. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 16. mars 2018.

Skoða frumvarpið. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Velferðarnefnd Alþingis

Reykjavík, 16. mars 2018

 

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (barnalífeyrir), 97. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 26. febrúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna fagnar því að styrkja eigi rétt barna með því að gera þeim foreldrum sem eiga rétt á barnalífeyri kleift að óska eftir framlagi vegna sérstakra útgjalda og vonar að frumvarpið nái fram að ganga. 

Með breytingartillögunni er barnalífeyrisþegum veitt sambærileg heimild og finna má í 60. gr. barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt því ákvæði má fá hinn meðlagsskylda úrskurðaðan til greiðslu framlags vegna sérstakra útgjalda svo sem vegna skírnar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms eða greftrunar, svo og annarra útgjalda sem eru sérstaks eðlis. Ljóst er að umrætt ákvæði á einungis við í þeim tilvikum sem meðlagsskylt foreldri er til staðar. Fram til þessa hafa barnalífeyrisþegar því ekki átt rétt á sambærilegum vegna sérstakra fjárútláta. Hefur börnum því verið mismunað eftir stöðu foreldra að þessu leyti.

Í greinargerð kemur fram að flutningsmenn telji slíka mismunun fara gegn 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, og 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Umboðsmaður barna tekur undir framangreind sjónarmið og þá sérstaklega mikilvægi þess að réttindi sem mælt er fyrir um í Barnasáttmálanum séu tryggð án mismununar af nokkru tagi. Í þessu sambandi vill umboðsmaður einnig vekja athygli á skyldu ríkisins til þess að tryggja börnum lífsafkomu sem nægir þeim til að ná líkamlegum, sálrænum, andlegum, siðferðilegum og félagslegum þroska, sbr. 1. mgr. 27. gr. sáttmálans. Er því ánægjulegt að þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu miði að því að auka jafnræði barna með þessum hætti.

  

 

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna