Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga (endurgreiðsla vegna gleraugnakaupa barna), 105. mál

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga (endurgreiðsla vegna gleraugnakaupa barna), 105. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 26. febrúar 2018.

Skoða frumvarpið. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Reykjavík, 26. febrúar 2018

Efni: Frumvarp til laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga (endurgreiðsla vegna gleraugnakaupa barna), 105. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 5. febrúar sl. þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna vísar til fyrri umsagna embættisins vegna frumvarps um sama efni, dags. 19. apríl 2017 og 1. apríl 2016. Þar fagnaði umboðsmaður barna þeim breytingum sem lagðar voru til í frumvarpinu og taldi að þær miðuðu að því að veita börnum betri þjónustu. Umboðsmaður barna hefur lagt ríka áherslu á að réttur barna til nauðsynlegra hjálpartækja og læknismeðferðar sé tryggður án tillits til efnahags foreldra þeirra. Því fagnar umboðsmaður barna þeim tillögum sem settar eru fram í frumvarpinu þar sem gert er ráð fyrir aukinni þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugu barna. Gerir frumvarpið ráð fyrir því að þátttaka ríkisins í kostnaði vegna glerauga fari minnkandi eftir því sem börnin verða eldri og vill umboðsmaður því leggja áherslu á að öll börn eigi að njóta sama réttar án mismununar, sbr. 2. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013. Þá kemur jafnframt fram í 24. gr. Barnasáttmálans að aðildarríki viðurkenna rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja.

Þá vill umboðsmaður árétta mikilvægi þess að horfið verði frá núverandi fyrirkomulagi þar sem þátttaka ríkisins í kostnaði við gleraugu barna byggir á reglugerð frá árinu 2005. Um upphæð greiðsluþátttöku ríkisins hverju sinni fer eftir fylgiskjali reglugerðar sem hefur ekki verið uppfært frá því reglugerðin var sett. Þannig hefur þátttaka ríkisins og stuðningur við fjölskyldur barnanna rýrnað verulega ef mið er tekið af verðlagsþróun. Umboðsmaður barna tekur því undir það sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að betur fari á því að þátttaka ríkisins í kostnaði við gleraugu taki mið af ákveðnu hlutfalli af kostnaði í stað krónutölu eins og núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir.

 

 

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna