Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir (rafsígarettur)

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp um breytingu á lögum breytingu á lögum nr. 6/2002 (rafsígarettur), 431. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 10. maí 2017.

Skoða tillöguna. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Velferðarnefnd

 

Reykjavík, 10. maí 2017
UB:1705/4.1.1

 

Efni: Frumvarp um breytingu á lögum um tóbaksvarnir nr. 6/2002 (rafsígarettur), 431. mál.  

Vísað er í tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 27. apríl sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því hversu mikil aukning hefur verið á notkun rafsígarettna meðal unglinga hér á landi, en það endurspeglast meðal annars í nýlegri rannsókn meðal barna í 10. bekk. Fulltrúar í ráðgjafarhópi umboðsmanns barna hafa einnig fjallað um þessi mál á fundum sínum og bent á að börn alveg niður í 8. bekk séu farin að nota rafsígarettur. Hætta er á á því að notkun á rafsígarettum geri það að verkum að börn verði háð nikótíni. Jafnvel í þeim tilvikum sem nikótín er ekki notað er óljóst hvaða langtímaafleiðingar rafsígarettur hafa í för með sér, bæði fyrir notandann og aðra. Er því mikilvægt að vernda börn fyrir hugsanlegum skaðlegum afleiðingum notkunarinnar og meta vafann börnunum í hag, sbr. 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að efla forvarnir og koma eins og hægt er í veg fyrir notkun rafsígarettna meðal barna og ungmenna.  Góður árangur hefur náðst í tóbaksvörnum hér á landi og virðast tóbaksvarnarlögin hafa þjónað tilgangi sínum vel.  Fagnar umboðsmaður barna því ofangreindu frumvarpi og vonar að það verði samþykkt.

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,

umboðsmaður barna