Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak o.fl.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak o.fl. (smásala áfengis), 106. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 16. mars 2017.

Skoða tilllöguna. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Reykjavík 16. mars 2017 

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak o.fl. (smásala áfengis), 106. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndarsviði Alþingis dags. 6. mars sl. þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breyt. á lögum um verslun með áfengi og tóbak o.fl. (smásala áfengis), 106. mál.

Í frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis verði aflagt og smásala frjáls að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Auk þess er m.a. lagt til að heimilt verði að auglýsa áfengi með ákveðnum takmörkunum sem fram koma í frumvarpinu. Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af frumvarpinu og vonar að það verði ekki samþykkt. Umboðsmaður hefur ítrekað komið því á framfæri við þingmenn að hann telji tillögur af þessu tagi ekki samræmast réttindum og hagsmunum barna.

Umboðsmaður barna óttast að ef sala áfengis verði leyfð í matvöruverslunum muni það auðvelda verulega möguleika barna og ungmenna til þess að nálgast áfengi. Auk þess er hætta á að aukinn sýnileiki áfengis muni stuðla að jákvæðum viðhorfum til áfengis og hvetja til aukinnar neyslu meðal unglinga. Slíkt getur ekki talist í samræmi við hagsmuni barna og ungmenna, enda hefur áfengi skaðleg áhrif á líkamlegan og andlegan þroska þeirra. Þá hafa fjölmargar rannsóknir sýnt að því yngra sem fólk er þegar það byrjar að neyta áfengis því líklegra er að það þrói með sér áfengisvanda síðar á ævinni. Áfengi er algengasti vímugjafinn hér á landi en á undanförnum árum hefur dregið verulega úr áfengisneyslu meðal unglinga, meðal annars vegna öflugs forvarnastarfs, takmarkaðs aðgengis að áfengi og þeirri aðhaldsstefnu sem ríkir hér á landi. Fram kemur í Stefnu áfengis- og vímuvarna til ársins 2020, sem lögð var fram af Velferðarráðuneytinu í desember 2013, að ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis sé að takmarka aðgengi að því. Það er meðal annars gert með aðhaldsaðgerðum varðandi sölufyrirkomulag áfengis. Ofangreint frumvarp gengur þvert á umrædda stefnu og ef það verður að lögum er hætta á að sá góði árangur sem náðst hefur á undanförnum árum verði að engu og neysla áfengis meðal barna og ungmenna muni aukast í kjölfarið.

Hvað varðar afnám auglýsingabannsins þá hefur bann við áfengisauglýsingum forvarnagildi og er ætlað að draga úr áfengisneyslu. Auglýsingar almennt hafa þann tilgang að hvetja til neyslu og stuðla að jákvæðu viðhorfi til vörunnar. Breytir þar litlu að sérstaklega sé tekið fram í frumvarpinu að aldrei megi beina auglýsingum sérstaklega að börnum og ungmennum. Með afnámi auglýsingabannsins verða börn og ungmenni berskjaldaðri fyrir áfengisauglýsingum, hvort sem þeim er beint sér í lagi að þeim eða ekki. Börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir allri markaðssetningu og hafa auglýsingar því almennt meiri áhrif á þann hóp en aðra. Hluti af samfélagslegri ábyrgð ÁTVR felur meðal annars í sér að stofnunin sinni hlutverki sínu af ábyrgð og eru m.a. engar söluhvetjandi aðgerðir leyfðar. Með afnámi auglýsingabannsins er því breytt þar sem auglýsingar eru hluti af söluhvetjandi aðgerðum. Í samræmi við það benda rannsóknir til þess að áfengisauglýsingar geti haft áhrif á viðhorf barna til áfengis og stuðlað að aukinni neyslu unglinga. Það er því ljóst að það er börnum fyrir bestu að koma í veg fyrir slíkar auglýsingar.

Sala áfengis í matvöruverslunum og aukinn sýnileiki þess myndi ekki einungis auka aðgengi barna og ungmenna að áfengi heldur einnig leiða til aukinnar áfengisneyslu í samfélaginu. Ljóst er að aukin heildarneysla áfengis getur haft skaðleg áhrif á börn með ýmsum hætti. Sem dæmi má nefna að neysla áfengis eykur líkurnar á vanrækslu barna og ofbeldi. Þá hefur áfengi neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks og eykur líkurnar á ýmsum sjúkdómum. Sérstaklega má benda á að áfengisneysla foreldra og annarra nákominna fjölskyldumeðlima hefur verulega neikvæð áhrif á velferð, líðan og þroska margra barna á Íslandi.

Þingmönnum, líkt og öðrum opinberum aðilum, ber að setja hagsmuni barna í forgang við allar ákvarðanir sem varða börn, sbr. m.a. 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Þá er það sérstaklega tekið fram í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 að með lögum skuli tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Ljóst er að umrætt frumvarp gengur þvert á þessi réttindi.

Umboðsmaður barna skorar á þingmenn að virða réttindi barna og hafna því að lögfesta ofangreint frumvarp.

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna