Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til fæðingar- og foreldraorlof og tryggingargjald, 84. mál

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um  frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof og tryggingargjald, 84. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með tölvupósti þann 24. febrúar 2017.

Skoða frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof og tryggingargjald, 84. mál.
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Velferðarnefnd

 

Reykjavík, 24. febrúar 2017
UB: 1702/4.1.1

 

Efni: Frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald, 84. mál.

 

Vísað er í tölvupóst frá nefndarsviði Alþingis, dags. 8. febrúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

Fjölmargar rannsóknir sýna hversu mikil áhrif fyrstu mánuðir og ár í lífi barna hafa á þroska, velferð, sjálfsmynd og samskipti þeirra seinna meir. Enn fremur hefur verið sýnt fram á mikilvægi þess að barn fái fullnægjandi tækifæri til þess að mynda tengsl við aðalumönnunaraðila sína, sem oftast eru foreldrar. Örvandi umönnun og tengslamyndun við foreldra skipta þannig miklu máli fyrir börn, sérstaklega á fyrstu stigum lífs þeirra og hafa mikil áhrif á velferð þeirra og líðan til framtíðar. Umboðsmaður barna telur því mikilvægt að tryggja að ungbörn geti verið heima og notið umönnunar foreldra sinna sem lengst. Fagnar hann því tillögum um að vinna að lengingu fæðingarorlofs í tólf mánuði. Umboðsmaður barna myndi þó helst kjósa að lenging fæðingarorlofs ætti sér stað í einu skrefi og tæki gildi sem fyrst fremur en í tveimur skrefum líkt og fyrirhugað er.

Núgildandi lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 er ætlað að tryggja greiðslur til foreldra sem gera þeim kleift að taka frí frá vinnu eða námi til að sinna umönnun barna sinna. Þegar barn á tvo foreldra sem taka virkan þátt í uppeldi þess getur hvort foreldri um sig tekið þriggja mánaða fæðingarorlof, auk þess sem foreldrar eiga sameiginlega rétt á þremur mánuðum. Í breytingartillögunni er lagt til að sjálfstæður réttur hvers foreldris fyrir sig til töku fæðingarorlofs verði lengdur í tveimur skrefum en sameiginlegur réttur foreldra styttur frá og með 2019. Telur umboðsmaður barna það vissulega jákvætt að stuðla að því að ungbörn fái í auknu mæli að njóta umönnunar beggja foreldra sinna og þannig í leiðinni gerð tilraun til að jafna stöðu foreldra á vinnumarkaði. Aðgerðir til þess að stuðla að jafnrétti milli foreldra mega þó ekki vera á kostnað velferðar barna. Má í því sambandi benda á að þegar hagsmunir fullorðinna og barna vegast á eiga hagsmunir barna að vega þyngra, sbr. m.a. 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umboðsmaður barna telur því brýnt að velferðarnefnd skoði með hvaða hætti sé hægt að tryggja að öll börn fái sama tækifæri til þess að njóta samveru með foreldrum sínum fyrstu mánuði ævi sinnar og að börnum sé ekki mismunað eftir því hvort þau eiga eitt foreldri eða tvo foreldra sem taka virkan þátt í umönnun þeirra. Í því sambandi er rétt að taka fram að öll börn eiga að njóta sömu réttinda og er óheimilt að mismuna þeim vegna stöðu þeirra sjálfra eða foreldra þeirra, sbr. meðal annars, sbr. 2. gr. Barnsáttmálans og 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Umboðsmaður barna vill að gefnu tilefni benda á bréf sem hann sendi til félags- og húsnæðismálaráðherra 21. maí 2015 þar sem skorað er á ráðherra að beita sér fyrir því að lög um fæðingar- og foreldraorlof verði endurskoðuð, þannig að börnum verði ekki mismunað með ómálefnalegum hætti eftir stöðu foreldra þeirra. Umboðsmaður barna hvetur velferðarnefnd til þess að kynna sér efni bréfsins.

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna