Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla nr. 91/2008 (mannréttindi), 104. mál.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til frumvarps til laga um breytingu á lögum um grunnskóla nr. 91/2008 (mannréttindi), 104. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 29. mars 2016.

Skoða frumvarpið.
Skoða feril málsins.

 

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis

 

Reykjavík, 29. mars 2016
UB: 1603/4.1.1

 

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla nr. 91/2008 (mannréttindi), 104. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 10. mars sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla nr. 91/2008 (mannréttindi). 

Það voru mikil gleðitíðindi þegar Alþingi samþykkti nýlega tillögu um að afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna verði ár hvert helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins. Umboðsmaður barna telur þá tillögu mikilvægt skref í þá átt að auka vægi mannréttindafræðslu í skólum. Á sama tíma er þó brýnt að tryggja að mannréttindi barna séu þáttur í öllu skólastarfi og að bæði börn og starfsfólk skóla þekki og virði réttindi barna. Má í því sambandi benda á að samkvæmt 1. mgr. 29. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, skal menntun barna meðal annars beinast að því að móta með þeim virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi og grundvallarsjónarmiðum þeim sem koma fram í sáttmálanum.

Ljóst er að markmiðsákvæði grunnskólalaga felur í sér mikilvæga stefnuyfirlýsingu sem hefur áhrif á túlkun og beitingu annarra ákvæða laganna. Myndi það því tvímælalaust vera til þess fallið að auka vægi mannréttinda í grunnskólum að taka sérstaklega fram í grunnskólalögum að eitt af markmiðum laganna sé að stuðla að skilningi og virðingu barna á mannréttindum.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að stuðla að fræðslu og virðingu fyrri mannréttindum á öllum skólastigum. Telur hann því ástæðu til þess að kveða á um það í ofangreindu frumvarpi að jafnframt skuli breyta 2. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008 og laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, þannig að í þeim ákvæðum verði einnig tekið fram að markmið laganna sé efla skilning og auka virðingu fyrir mannréttindum.

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna