Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Drög að fjölskyldustefnu til ársins 2020

Í frétt á vef velferðarráðuneytisins, dags. 17. september 2015, voru drög að þingsályktunartillögu um fjölskyldustefnu til ársins 2020 kynnt. Umboðsmaður barna sendi umsögn sína til ráðuneytisins 2. október. 

 

Umsögn umboðsmanns barna

Velferðarráðuneytið

 

Reykjavík, 2. október 2015

 

Efni: Umsögn vegna fjölskyldustefnu til ársins 2020.

Vísað er í frétt á vef velferðarráðuneytisins, dags. 17. september sl., þar sem lögð eru fram til umsagnar drög að þingsályktunartillögu um fjölskyldustefnu til ársins 2020.

Umboðsmaður barna vill byrja á því að lýsa yfir ánægju sinni með að stefnt sé að því að leggja fram tillögu að heildstæðri fjölskyldustefnu sem tekur mið af réttindum barna samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umboðsmaður vonar að umrædd stefna verði samþykkt á Alþingi og henni fylgt eftir með markvissum hætti.

Umboðsmaður barna fagnar því að eitt af meginefnum tillögunnar sé að Barnasáttmálinn verði innleiddur í alla lagaumgjörð og framkvæmd. Margir þættir stefnunnar miða að þessu markmiði, svo sem tillaga 1.5. um kostnaðar- og áhrifagreiningu opinberra útgjalda fyrir hagsmuni barna. Þó vantar enn upp á ýmsa þætti sem eru taldir grundvallarforsendur innleiðingar sáttmálans. Má til dæmis nefna heildstætt kerfi um söfnun, vinnslu og greiningu gagna um börn og stöðu þeirra. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað beint því til íslenska ríkisins að þróa slíkt kerfi, enda sé það forsenda þess að hægt sé að meta hvort öllum börnum sé í raun tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í sáttmálanum, án mismununar af nokkru tagi, sbr. 2. gr. sáttmálans. 

Umboðsmaður barna telur sérstaklega jákvætt að í athugsemdum við þingsályktunartillöguna sé áréttað að umrædd stefna eigi að leiða til þess að tekið verði mið af Barnasáttmálanum í allri ákvarðanatöku og í öllu starfi sem varðar börn. Því miður er algengt að löggjafinn og stjórnvöld hér á landi taki ákvarðanir sem varða börn án þess að meta hvort slík ákvörðun sé raunverulega í samræmi við það sem er börnum fyrir bestu og án þess að börnum sé veitt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Umboðsmaður barna hefði gjarnan viljað sjá tillögu sem myndi miða að því að tryggja að við alla ákvörðunartöku sem varðar börn fari fram sérstök greining og mat á því hvaða áhrif umrædd ákvörðun mun hafa á hagsmuni og réttindi barna (e. Child impact assessment). Þannig er hægt að tryggja að ákvarðanir séu betur í samræmi við það sem er börnum fyrir bestu, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans og að tekið sé tillit til sjónarmiða barna, sbr. 12. gr. sáttmálans.

Í stefnunni er að finna margar jákvæðar tillögur sem varða fjölskyldumál, svo sem um breytingu á ákvæðum barnalaga um framfærslu og skráningu upplýsinga í þjóðskrá. Umboðsmaður barna hefur þó haft verulegar áhyggjur af því að ekki hafi verið tryggt það fjármagn og sú fræðsla sem nauðsynleg er til þess að þær breytingar sem gerðar voru á barnalögum nr. 76/2003 með lögum nr. 61/2012 komi að fullu til framkvæmda. Má í því sambandi benda á bréf sem umboðsmaður barna sendi sýslumannsembættum í júní 2014, en hægt er að nálgast það hér á vef embættisins.

Umboðsmaður barna er ánægður að sjá hversu mikil áhersla er lögð á fræðslu til barna, foreldra og fagfólks í stefnunni. Hann saknar þess þó að sérstaklega sé tekið fram að tryggja eigi öllum þessum aðilum fræðslu og þjálfun um réttindi barna. Samkvæmt Barnasáttmálanum er íslenska ríkinu skylt að kynna efni sáttmálans með virkum hætti fyrir börnum sem og fullorðnum. Mikilvægur þáttur í að tryggja að Barnasáttmálinn sé virtur í framkvæmd er að tryggja að börn, foreldrar og fagfólk þekki réttindi barna og virði þau í þeirra daglega lífi. Má í því sambandi benda á að í lokaathugasemdum Barnaréttarnefndarinnar til Íslands frá árinu 2011 mælist nefndin sérstaklega til þess að tryggð verði fullnægjandi og skipuleg þjálfun um réttindi barna fyrir allra faghópa sem starfa í þágu og með börnum.

Í tillögu 4.3. er sérstaklega fjallað um aðkomu og samráð við foreldra í skólastarfi, en markmiðið er að auka þátttöku, aðkomu og samstarf foreldra í skólum. Umboðsmaður barna telur fulla þörf á því að hafa sambærilega tillögu um samráð við nemendur í skólastarfi og ákvörðunum sem varða menntamál almennt, í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans. Margir skólar standa sig vel í því að efla lýðræðislega þátttöku nemenda innan skólans, bæði í gegnum skólaráð og nemendafélög. Því miður skortir þó verulega upp á þátttöku nemenda í ýmsum skólum. Ennfremur eru stærri ákvarðanir sem varða menntamál hjá sveitarfélögum og ríkinu oftar en ekki teknar án þess að leitað sé eftir samráði við nemendur. Á það til dæmis við um ákvarðanir um breytta einkunnagjöf, styttingu framhaldsskólans, breytingu á fyrirkomulag samræmdra prófa og ákvarðanir um sameiningar skóla.

Umboðsmaður barna fagnar þeim tillögum stefnunnar sem miða að því að auka öryggi, heilsu og velferð barna. Sérstaklega er jákvætt að stefnt sé að því að tryggja meiri samþættingu og samstarf í þjónustu við börn. Umboðsmaður barna hefði þó viljað sjá enn frekari tillögur um það hvernig megi auka möguleika barna til þess að geta sjálf leitað sér aðstoðar, til dæmis hjá heilsugæslunni og barnavernd. Mikilvægt er að tryggja að börn geti sjálf leitað sér aðstoðað og átt trúnaðarsamskipti við fagaðila, án tillits til vitneskju eða afstöðu foreldra. Þá þarf að tryggja að börn geti nálgast upplýsingar og fræðsluefni sem hæfa aldri þeirra og þroska, t.d. á netinu. Þá skiptir miklu máli að bjóða upp á umhverfi sem tekur mið af þörfum barna. Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því að börn sem vilja eða þurfa að leita eftir aðstoð án aðkomu foreldra, t.d. hjá barnavernd, eigi oft á tíðum ekki nógu greiðan aðgang að fagfólki. Væri því æskilegt að taka sérstaklega fram í fjölskyldustefnu að vinna skuli að því að auka aðgengi barna að stjórnsýslu og þjónustu ríkis og sveitarfélaga og gera hana barnvænni.

Algengustu slys á börnum á aldrinum 0-4 ára eiga sér stað í heimahúsum. Víða í leikumhverfi barna, s.s. á leiksvæðum innan- og utandyra, hafa komið upp atvik þar sem börn hafa slasast. Oft er um að ræða slys sem hægt hefði að koma í veg fyrir með réttu verklagi og aðgát. Mikil þörf er á fræðslu um slysavarnir, bæði fyrir foreldra og þá sem starfa með börnum. Þrátt fyrir hlutverk Embættis landlæknis virðist skorta upp á sérþekkingu á slysavörnum barna í opinbera kerfinu. Umboðsmaður barna telur brýnt að fjölskyldustefna miði að því að tekið verði á þessum vanda sem fyrst

Umboðsmaður barna lýsir yfir ánægju sinni með það að liður 6.6. miði að því að tryggja þjónustu við börn sem eiga við fjölþættan vanda að stríða, enda hefur embættið ítrekað bent á að það skorti úrræði fyrir þennan hóp. Umboðsmaður vill þó benda á að í nokkur ár hefur legið fyrir að brýn þörf sé á því að byggja upp nýtt meðferðarúrræði hér á landi, en þetta kemur meðal annars fram í tillögum sem Barnaverndarstofa skilaði til velferðarráðuneytisins í júní 2011. Umboðsmaður telur því ástæðu til þess að kveða skýrt á um það í umræddri tillögu að koma skuli á fót nýju meðferðarheimili fyrir börn með alvarlegan vímuefnavanda, en slíkt úrræði gæti einnig nýst fyrir þau börn sem hafa verið dæmd í óskilorðsbundna refsivist.

Að lokum vill umboðsmaður barna benda á að hann hefur á undanförnum árum haft miklar áhyggjur af því álagi sem er á barnaverndarnefndum landsins. Hver barnaverndarfulltrúi hér á landi þarf að sinna að meðaltali mun fleiri málum en gengur og gerist í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Ýmsar tillögur í stefnunni miða að því að efla barnavernd og samstarf hennar við aðra aðila. Hins vegar telur umboðsmaður þörf á því að árétta sérstaklega að efla eigi barnaverndina hér á landi, þannig hægt verði að tryggja öllum börnum og fjölskyldum þeirra viðeigandi stuðning og aðstoð.

Ef frekari upplýsinga er óskað er ykkur velkomið að hafa samband í síma 552-8999.

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna