Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað

Hinn 16. apríl 2013 birti velferðarráðuneytið á heimasíðu sinni drög að reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað til kynningar og umsagnar, sjá frétt hér. Umboðsmaður barna sendi umsögn sína með tölvupósti dags. 30. apríl 2013.

Opna drög að reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað.

Umsögn umboðsmanns barna

Efni: Umsögn um reglugerð um aðgerðir gegn einelti

Vísað er til fréttar á heimasíðu velferðarráðuneytisins, dags. 16. apríl sl., þar sem drög að reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað voru birt til umsagnar.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að hafa í huga að fjölmörg börn undir 18 ára aldri eru á vinnumarkaði, bæði í hlutastarfi með skóla og í fullu starfi að loknu skyldunámi. Börn og ungmenni eru oft í sérstaklega viðkvæmri stöðu á vinnustöðum sínum, ekki síst þegar kemur að hættunni á að verða fyrir einelti, kynferðislegri áreitni eða annars konar ofbeldi. Telur umboðsmaður barna því ástæðu til tryggja börnum sérstaka vernd í ofangreindri reglugerð. Væri það til dæmis hægt með því að taka fram í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar að taka skuli tillit til „aldurs starfsmanna“ við gerð áhættumats. 

Vinnuveitendur bera mjög mikla ábyrgð gagnvart starfsfólki sínu sem er undir 18 ára aldri og þurfa að sýna því sérstaka nærgætni.  Í ákveðnum tilvikum getur því verið nauðsynlegt að grípa til annars konar aðgerða til að bregðast við einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað þegar um börn er að ræða og ber í því sambandi m.a. að huga að ábyrgð foreldra, samskiptum við skóla og barnavernd o.s.frv.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna.