Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén

Umboðsmanni barna bárust ábendingar um að umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis væri með frumvarp til laga um landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén til umfjöllunar. Umboðsmaður ákvað að senda nefndinni umsögn varðandi eitt ákvæði frumvarpsins og gerði hann það með tölvupósti dags. 7. febrúar 2013.

Lesa frumvarp til laga um landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Umhverfis- og samgöngunefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 7. febrúar 2013
UB:1302/4.1.1

Efni: Frumvarp til laga um landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

Umboðsmaður barna hefur fengið ábendingar um ofangreint frumvarp og vill því koma eftirfarandi umsögn á framfæri.

Í 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins er gerð sú krafa að rétthafi léns skuli vera lögráða einstaklingur eða lögaðili. Í athugasemdum með því ákvæði kemur fram að ástæða þessa skilyrðis sé sú að rétthafi þurfi að standa skil á árgjaldi vegna skráningar léns sem og því hversu ríka ábyrgð hann beri á þeim upplýsingum sem fram koma á vefsíðu á léni sínu.

Mikilvægt er að hafa í huga að börn njóta tjáningarfrelsis eins og fullorðnir, sbr. meðal annars 73. gr. stjórnarskrárinnar og 13. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Netið er sá vettvangur sem börn nota einna helst til að koma skoðunum sínum á framfæri. Mörg dæmi eru um það, bæði hér á landi og erlendis, að börn og ungmenni noti netið til að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri. Telur umboðsmaður barna því veigamikil rök þurfa vera fyrir því að takmarka tjáningarfrelsi barna á netinu.

Þó að einstaklingar verði ekki fjárráða fyrr en við 18 ára aldri ráða börn sjálf yfir sjálfsafla- og gjafafé sínu, sbr. 75. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að börn ráðstafi þessum fjármunum sínum í árgjald vegna skráningar léns kjósi þau það sjálf.

Vissulega er nauðsynlegt að tryggja börnum viðeigandi vernd en þó verður jafnframt að veita þeim stigvaxandi rétt til að hafa áhrif á eigið líf og taka sjálfstæðar ákvarðanir. Má í því sambandi benda á 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, sbr. 1. gr. laga nr. 61/2012 og 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en þar kemur fram að börn eigi rétt á að láta í ljós skoðanir sínar og að taka skulu réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Með auknum aldri og þroska öðlast börn ekki einungis stigvaxandi réttindi heldur bera þau jafnframt stigvaxandi ábyrgð. Sem dæmi má nefna að við 15 ára aldur er talið að börn hafi náð nægilegum þroska til að teljast sakhæf samkvæmt íslenskum lögum, sbr. 14. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Má því ætla að stálpuð börn hafi almennt öðlast nægilegan þroska til að bera ábyrgð á léni og þeim þeim upplýsingum sem þar koma fram.

Í ljósi þess sem að framan greinir dregur umboðsmaður barna í efa að þörf sé á að takmarka möguleika barna undir 18 ára aldri til þess að skrá lén hér á landi með eins víðtækum hætti og ofangreint frumvarp gerir ráð fyrir. Að mati umboðsmanns væri réttara að setja aldursmörkin við 15 ára aldur, enda gera íslensk lög ráð fyrir að börn beri töluvert mikla ábyrgð frá þeim aldri.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna