Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til stjórnskipunarlaga, 415. mál.

Í tölvupósti frá nefndasviði Alþingis dags. 29. nóvember var óskað eftir umsögnum um frumvarp til stjórnskipunarlaga, 415. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með bréfi dags. 6. desember 2012.

Frumvarpið er að finna hér. 

Umsögn umboðsmanns barna


Nefndasvið Alþingis
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 6. desember 2012

Efni: Frumvarp til stjórnskipunarlaga, 415. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 29. nóvember sl., þar sem auglýst er eftir umsögnum um ofangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna fór á fund velferðarnefndar þann 28. nóvember sl. til þess að ræða sérstaklega um inntak 12. gr. frumvarpsins um rétt barna. Í samræmi við beiðni nefndarinnar vinnur umboðsmaður nú að skriflegri umsögn um skýringar við ákvæðið, í samvinnu við UNICEF á Íslandi. 

Umboðsmaður barna lýsir yfir sérstakri ánægju með 12. gr. frumvarpsins. Ákvæðið hefur að geyma mikilvæg grundvallarréttindi barna sem hafa áður ekki notið stjórnarskrárverndar hér á landi. Á undanförnum áratugum hefur það færst í vöxt að réttindum barna sé veitt sérstök vernd í stjórnarskrám einstakra ríkja. Ef umrætt ákvæði verður samþykkt mun Ísland vera leiðandi í þeirri þróun og verða í hópi fárra ríkja sem tryggja réttindi barna hvað best í stjórnarskrá. Ákvæðið er ennfremur merkilegt fyrir þær sakir að efni þess má að hluta til rekja til tillagna barna og ungmenna, sem tóku þátt í þingi ungmennaráða Stjórnlög unga fólksins, sem umboðsmaður barna, UNICEF og Reykjavíkurborg stóðu fyrir vorið 2011.

Umboðsmaður barna fagnar því að í 24. gr. frumvarpsins um menntun sé gengið lengra en í núgildandi stjórnarskrá og kveðið skýrt á um að menntun þeirra sem skólaskylda nær til skuli tryggð án endurgjalds. Umboðsmaður gerir þó athugasemd við orðalag 4. mgr. 24.gr. um að virða skuli ákvarðanir foreldra um að uppeldi og menntun barna þeirra sé í samræmi við trúar- eða lífsskoðanir þeirra. Umrætt orðalag á meðal annars rætur að rekja til 2. mgr. 2. gr. samningsviðauka 1. við Mannréttindasáttmála Evrópu frá árinu 1952 og 3. mgr. 13. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá árinu 1966. Ljóst er að viðhorf til stöðu barna og hlutverks foreldra hefur þróast mikið á undanförnum áratugum. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Barnasáttmálinn) var samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1989 og er hann nú útbreiddasti mannréttindasamningur heims. Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn eru sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi, óháð réttindum foreldra sinna. Börn njóta skoðana- og trúfrelsis og eftir því sem þau eldast og þroskast eiga skoðanir þeirra sjálfra að fá aukið vægi. Ákvæði 4. mgr. 24. gr. frumvarpsins samræmist ekki þessum réttindum barna, enda miðar orðalagið einungis við rétt foreldra. Mikilvægt er að hafa í huga að í ákveðnum tilvikum geta trúar- og lífsskoðanir barna verið aðrar en foreldra. Telur umboðsmaður barna því brýnt að endurskoða orðalag 4. mgr. 24. gr. frumvarpsins.  Má í því sambandi hafa hliðsjón af 2. mgr. 14. gr. Barnasáttmálans, en þar kemur fram að aðildarríki skuli virða rétt og skyldur foreldra til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar á þann hátt sem samræmist vaxandi þroska þess. Orðalag Barnasáttmálans samræmist einnig mun betur ákvæði 3. mgr. 12. gr. frumvarpsins um þátttöku barna, en þar kemur meðal annars fram að taka skuli tillit til skoðana barns í samræmi við aldur þess og þroska. 

Virðingarfyllst,

______________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna